Hæstiréttur íslands
Mál nr. 647/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Miðvikudaginn 17. desember 2008. |
|
Nr. 647/2008. |
K(Hlöðver Kjartansson hrl.) gegn M (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms um málskostnað í máli, sem M höfðaði gegn K, þar sem hann krafðist forsjár barns þeirra. Náðist sátt í málinu þess efnis að K skyldi áfram fara með forsjá barnsins en umgengnisréttur M var að einhverju leyti rýmkaður frá því sem var. Talið var að með dómsáttinni hefði krafa M ekki náð fram að ganga nema að litlu leyti. Samkvæmt meginreglu í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 yrði því til samræmis að dæma M til að greiða K hærri málskostnað en kveðið var á um í úrskurði héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert greiða sóknaraðila 120.000 krónur í málskostnað í máli hans gegn henni, sem lokið var að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér hærri málskostnað en henni var ákveðinn í héraði. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins voru aðilar þess í sambúð í um sjö ára skeið en henni lauk í byrjun árs 2000. Þau eignuðust dreng á árinu 1995. Við sambúðarslit komust þau að samkomulagi um að sóknaraðili færi ein með forsjá drengsins jafnframt því sem kveðið var á um umgengni varnaraðila við drenginn. Tilhögun umgengni mun hafa breyst og rýmkað eftir það, síðast með formlegum hætti á árinu 2004 samkvæmt úrskurði sýslumanns á Ísafirði. Málsaðilar deila um efndir hvors annars á skyldum sínum varðandi umgengni varnaraðila við drenginn. Síðastliðinn vetur mun varnaraðili hafa óskað eftir því að forsjá yrði sameiginleg, en þeirri kröfu hafnaði sóknaraðili. Varnaraðili höfðaði mál þetta 14. apríl 2008. Krafðist hann forsjár drengsins og að dómur kvæði á um inntak umgengisréttar jafnframt því sem sóknaraðila yrði gert að greiða einfalt meðlag með barninu. Þá krafðist hann málskostnaðar. Sóknaraðili krafðist sýknu og málskostnaðar. Í þinghaldi 4. júlí 2008 féllst héraðsdómari á kröfu varnaraðila um að dómkveðja mann til að leggja mat á aðbúnað og aðstæður drengsins hjá sóknaraðila, kanna vilja drengsins um hjá hvorum málsaðila hann vildi búa og leggja mat á forsjárhæfni þeirra. Matsgerð var lögð fram í þinghaldi 18. september 2008 og var málið fært til sáttameðferðar 24. þess mánaðar. Dómsátt var gerð milli aðila 4. nóvember þar sem kveðið var á um að sóknaraðili skyldi fara ein með forsjá drengsins en varnaraðili fengi nánar tiltekinn umgengnisrétt við hann. Um málskostnað varð ekki sátt og lögðu aðilarnir ágreining um hann í úrskurð héraðsdómara. Gekk hinn kærði úrskurður um það efni, auk þess sem þar var kveðið á um að kostnaður af öflun matsgerðar skyldi greiðast úr ríkissjóði.
Af framansögðu er ljóst að með rekstri málsins fékk varnaraðili ekki framgengt helstu dómkröfu sinni um forsjá, heldur var gerð sátt um málalok í samræmi við dómkröfu sóknaraðila um það atriði. Samkvæmt gögnum málsins hafa aðilar deilt um hvernig umgengnisskyldur hefur verið ræktar við drenginn, en ekki verður með séð með vissu hversu mikil umgengnin var í raun. Sáttin kvað á um að „regluleg umgengni verði óbreytt“, en einnig að einhverju leyti rýmri umgengni varnaraðila við son sinn frá því sem áður var, án þess að með öruggum hætti verði ráðið af gögnum málsins hver sú breyting var. Í ljósi framanritaðs verður að líta svo á að með dómsáttinni hafi kröfur varnaraðila ekki náð fram að ganga nema að litlu leyti. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður því til samræmis að dæma hann til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði eins og í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, M, greiði sóknaraðila, K, 300.000 krónur í málskostnað í héraði og 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2008.
Með stefnu birtri 14. apríl 2008, höfðaði stefnandi, M, [...], Hafnarfirði, mál á hendur stefndu, K, [...], Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda voru þær að stefnanda yrði dæmd forsjá aðila, A, kt. [..., að í dómi yrði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki færi með forsjá barnsins, og að stefndu yrði með dómi gert að greiða stefnanda einfalt meðlag með barninu frá uppkvaðningu dómsúrskurðar til fullnaðs 18 ára aldurs barnsins, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins.
Stefnda krafðist sýknu og greiðslu málskostnaðar.
Með bókun í þingbók 24. september sl. var ákveðið að málið væri í sérstaka sáttamiðlun. Með sátt sem undirrituð var í dómi 4. nóvember sl. varð sátt með aðilum. Fól sáttin það í sér að forsjá með syni málsaðila, A, yrði óbreytt þannig að móðir hefði forsjá. A hefði áfram lögheimili hjá móður. Regluleg umgengni yrði óbreytt þannig að A dveldi aðra hverja helgi í mánuði hjá föður, frá föstudegi eftir skóla fram til sunnudagseftirmiðdegis. Að því er varðaði umgengni um jól og áramót yrði A hjá móður jólin 2008, frá því skóla lyki og áfram til 24. desember fram til 30. desember. Færi hann þá til föður og yrði hjá honum þar til skóli hæfist eftir áramótin. Á þessu yrði síðan sú skipan mála að jólin 2009 yrði A hjá föður með samsvarandi hætti um jól og móður um áramót. Þannig yrði jólum og áramótum hagað til skiptis sitt á hvað á komandi árum. Um páska yrði A hjá móður. Að því er sumarleyfi varðaði yrði A hjá föður í 4 vikur. Kysi drengur að verja meiri tíma með föður í sumarleyfi væru foreldrar opnir fyrir því. Aðilar væru á einu máli um að afla sér ráðgjafar til að bæta samskipti aðila. Myndu aðilar sækja fundi til Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings í þessu skyni. Með sáttinni yrði málið fellt niður fyrir dóminum. Lagt væri í hendur dómsins að úrskurða um málskostnað í málinu.
Um málskostnaðarákvörðun í einkamáli fer samkvæmt 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Nú vinnur aðili mál að nokkru og tapar því að nokkru eða veruleg vafaatriði eru í máli og má þá samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Ef litið er til kröfugerðar stefnanda í málinu má ljóst vera að stefnandi hefur ekki fengið dómkröfur sínar viðurkenndar. Forsjá er óbreytt áfram hjá móður sem og lögheimili sonar málsaðila. Regluleg umgengni er óbreytt. Sú breyting hefur orðið á högum málsaðila að umgengni um jól og áramót hefur sætt breytingum þannig að sonur aðila mun nú verja meiri tíma um hátíðir hjá föður. Það sama gildir um sumarleyfi. Þá hefur sú mikilvæga ákvörðun verið tekin að aðilar málsins leita sér ráðgjafar til að bæta samskipti aðila. Bindur dómurinn miklar vonir við að sú ráðstöfun bæti til muna samskipti aðila málsins til framtíðar litið. Með hliðsjón af framansögðu og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ákveður dómurinn að stefnandi greiði hluta málskostnaðar stefnda, eða 120.000 krónur.
Aflað hefur verið sálfræðilegrar matsgerðar í málinu, en Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur annaðist þá vinnu. Nemur kostnaður við öflun matsgerðar 465.000 krónum, en stefnandi hefur lagt út fyrir matsgerðinni. Með heimild í 5. mgr. 42. gr. barnalaga, nr. 76/2003 ákveður dómurinn að kostnaður við öflun matsgerðarinnar verði greiddur úr ríkissjóði, en að mati dómsins skipti matsgerðin og niðurstöður hennar töluverðu máli við sáttamiðlun í málinu sem leiddi til þess að sátt varð með aðilum.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Mál þetta er fellt niður.
Stefnandi, M, greiði stefnda, K, 120.000 krónur í málskostnað.
Kostnaður af öflun matsgerðar, 465.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.