Hæstiréttur íslands
Mál nr. 747/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 4. desember 2013. |
|
Nr. 747/2013. |
A (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B um að C yrði vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði frá 1. október 2013 að telja. Var málinu vísað frá Hæstarétti þar sem sá tími sem vistunin skyldi vara var liðinn og A hafði því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2013 þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila um að barnið C verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá 1. október 2013. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að afhenda stúlkuna sóknaraðila sem fer með forsjá hennar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess aðallega „að kæru sóknaraðila verði vísað frá“ en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með hinum kæra úrskurði var fallist á að barnabarn sóknaraðila skyldi vistað á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá 1. október 2013 að telja. Þar sem sá tími sem umrædd vistun skyldi vara er liðinn hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2013.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. nóvember sl., barst dóminum 23. október sl. með kæru sóknaraðila, A, kt. [...], [...], Reykjavík, þar sem hann kærir úrskurð varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 1. október 2013 um að C, kt. [...] skuli vistuð á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá þeim degi, 1. október 2013, að telja. Krefst sóknaraðili þess aðallega að hinum kærða úrskurði varnaraðila verði hrundið um vistun telpunnar C utan heimilis í tvo mánuði frá 1. október 2013 og að varnaraðila verði gert að afhenda hana sóknaraðila þegar í stað.
Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu, ásamt virðisaukaskatti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess að dómkröfum sóknaraðila verði hafnað og að dómurinn staðfesti framangreindan úrskurð varnaraðila frá 1. október sl.
II.
Mál þetta varðar telpuna, C, sem verður sex ára í [...] nk. Hún kom til landsins frá [...] ásamt móðurafa sínum, varnaraðila máls þessa, í septembermánuði 2012. Samkvæmt gögnum málsins var upplýst við komuna að móðir telpunnar væri látin og að faðir hennar hefði lítil afskipti haft af henni. Hefði hann samþykkt að veita sóknaraðila forsjá telpunnar og heimilað að hún flyttist hingað til lands ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum. Framvísaði sóknaraðili við komuna gögnum um að hann færi með forsjá telpunnar. Með þeim í för voru einnig D dóttir hans 18 ára, annað barnabarn hans, E 16 ára, og fyrrverandi eiginkona hans, sem er og amma C og E. Komu þau til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar vegna [...] í heimalandi þeirra, [...], í [...] 2010, en móðursystir telpunnar, F, mun hafa dvalið hérlendis síðan 2009. Hafa þau síðan búið hjá henni í íbúð í fjölbýlishúsi í [...], ásamt tveimur dætrum hennar, fæddum [...] og [...].
Samkvæmt gögnum málsins má rekja upphaf þess til tilkynningar sem barst Barnavernd Reykjavíkur hinn 8. febrúar sl. þar sem lýst var áhyggjum af aðstæðum telpunnar. Mikill barnsgrátur bærist frá íbúðinni á öllum tímum sólarhrings í bland við háværa tónlist og börn virtust vera þar án eftirlits. Í kjölfar þessa var hafin könnun máls á grundvelli V. kafla barnaverndarlaga. Þá barst tilkynning frá þjónustumiðstöð hverfisins, dags. 29. apríl 2013, vegna gruns um óviðunandi uppeldisaðstæður og að ekki hefði verið mætt með telpuna í leikskóla frá því í byrjun mánaðarins. Bréf barst og frá Heilsugæslu í [...], dags. 26. maí sl., um að telpan hefði ekki komið í tíma í bólusetningu og bréf þjónustumiðstöðvarinnar, dags. 30. s.m., um að sóknaraðili hefði ekki sinnt viðtalsboðunum og ekki mætt í viðtal síðan í janúar.
Hinn 11. júní sl. hafði F samband við starfmenn Barnaverndar og upplýsti að sóknaraðili væri að fara til [...] og að hann myndi vera þar í sex vikur. Sagðist hún og fara með honum áleiðis, eða til [...], og vera þar í eina viku. Fjarvera beggja var þó lengri en áætlað var. Þannig kom F aftur til baka í byrjun júlí en sóknaraðili mun hafa komið til baka hinn 10. október sl. Gaf sóknaraðili þá skýringu á fjarveru sinni að hann hefði farið til [...] til að hreinsa rústir eignar sinnar eftir [...] þar en í kjölfarið hafi hann veikst.
Hinn 26. júní fór lögregla ásamt Barnavernd Reykjavíkur á heimili fjölskyldunnar vegna tilkynningar um að börn væru þar án eftirlits og að á heimilinu væri andlega veik eldri kona. Einnig kom fram í tilkynningunni að hávaði væri mikill frá íbúðinni. Þegar komið var á staðinn reyndist þó allt vera með ró og spekt. Tilkynning barst til Barnaverndar 9. júlí um að sóknaraðili hefði beitt telpuna og aðra á heimilinu ofbeldi, og hefði hann þannig barið telpuna með belti. Var í kjölfarið óskað lögreglurannsóknar á málinu og að könnunarviðtal yrði tekið við telpuna í Barnahúsi. Í viðtali við telpuna þar kom þó ekkert fram sem benti til kynferðisofbeldis en tilgreint að hún hefði sagt strax í upphafi viðtalsins: „Þau eru ekki að berja mig.“
Tilkynning barst Barnavernd frá skóla telpunnar hinn 13. september þar sem meðal annars kemur fram að hún hafi mætt mjög döpur í skólann og grátið. Nesti hennar hafi oft verið af skornum skammti. Var áhyggjum lýst af því að telpunni liði ekki vel og að grunnþarfir um mat og aðbúnað hennar væru ekki fullnægjandi. Hefði margsinnis verið reynt að ná sambandi við heimilið en án árangurs.
Í fundargerð meðferðarfundar starfsmanna Barnaverndar hinn 18. september sl. um málefni telpunnar kemur fram að komið hefði fram hjá dóttur sóknaraðila, D, að þeirri refsingu væri mikið beitt gagnvart börnunum á heimilinu, þar á meðal oft gagnvart C, að læsa þau inni á baðherbergi í fleiri klukkustundir í einu. Óljóst væri hver æli önn fyrir telpunni í fjarveru sóknaraðila. Sóknaraðili hefði skilið hana eftir í óviðunandi aðstæðum þar sem móðursystir hennar virtist vanrækja hana. Var á fundinum ákveðið að leita eftir samþykki forsjáraðila fyrir vistun utan heimilis en að öðrum kosti að beita heimild til neyðarráðstöfunar í 31. gr. barnaverndarlaga. Var telpunni og skipaður talsmaður.
Í fyrirliggjandi skýrslum talsmanns telpunnar, dags. 1. október og 12. nóvember 2013, kemur fram það álit hans að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum virtist hún hafa búið við nokkra vanrækslu eftir að hún kom hingað til lands og að aðstæður á heimilinu hafi ekki verið viðunandi. Telji talsmaðurinn því stúlkunni fyrir bestu að hún verði vistuð utan heimilis. Er í fyrri skýrslunni lagt til að telpan verði vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði, en í þeirri síðari að hún verði vistuð í allt að sex mánuði, á meðan hagir hennar séu rannsakaðir ítarlega og áætlun gerð um framtíð hennar hér á landi.
Í greinargerð Barnaverndar til varnaraðila, sem lögð var fyrir fund nefndarinnar hinn 1. október sl., kemur fram að ekki hafi náðst í forsjárhafa telpunnar til fá fram afstöðu hans til þess að hún yrði vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði á meðan málefni hennar yrðu könnuð frekar. Hafi því verið beitt neyðarráðstöfun á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga hinn 19. september sl. og málið í kjölfarið lagt fyrir varnaraðila.
Með úrskurði varnaraðila 1. október sl. var ákveðið að telpan skyldi vistuð á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá og með úrskurðardegi samkvæmt heimild í b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi var tekin aðilaskýrsla af sóknaraðila en einnig gáfu vitnin F og D skýrslu.
III.
Sóknaraðili neitar því að þær lýsingar sem fram komi í hinum kærða úrskurði, um meinta vanrækslu gagnvart telpunni og að hún hafi verið beitt ofbeldi, séu á rökum reistar. Fremur megi af fyrirliggjandi gögnum málsins ráða að telpunni hafi liði vel hjá sínu fólki og allt verið í lagi. Þá eigi þær staðhæfingar ekki við rök að styðjast að ekki hafi verið hægt að ná sambandi við forsjáraðila stúlkunnar. Ljóst sé að dvöl sóknaraðila á [...] hafi orðið lengri en áætlað hefði verið en það hefði stafað af óvæntum veikindum hans. Hins vegar hafi dóttir hans, F, haft umsjón með telpunni á meðan, að undanskildum þeim tíma sem hún hafi þurft að vera erlendis og sóknaraðila hefði verið tilkynnt um fyrir fram. Á meðan hafi móðir F, amma telpunnar, annast um börnin á heimilinu.
Hvorki sóknaraðila né F hafi verið boðin einhver úrræði til aðstoðar samkvæmt barnaverndarlögum eða óskað eftir samvinnu við þau um uppeldi og aðbúnað telpunnar. Þrátt fyrir það hafi verið gripið til vistunar hennar utan heimilis án nokkurrar viðvörunar og án þess að reyna önnur úrræði fyrst. Sé ljóst að ekki hafi verið ástæða til að grípa til svo harkalegra aðgerða án þess að reyna önnur og vægari úrræði til stuðnings fjölskyldunni.
Varðandi lagarök vísi sóknaraðili til þeirrar meginreglu barnalaga og barnaverndarlaga að barn skuli vera þar sem því sé fyrir bestu að vera, sbr. 34. gr. barnaverndarlaga. Þá sé og vísað til þeirrar meginreglu barnaverndarlaga, sem skýrlega sé greind í 7. mgr. 4. gr. þeirra laga, að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Jafnframt skuli þau ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Regla þessi komi og fram í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því verði að telja að skilyrði 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið fyrir hendi við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar og að því markmiði sem að hafi verið stefnt hafi mátt ná með öðrum og vægari úrræðum, svo sem þeim er tiltekin séu í 24. gr., sbr. 23. gr., barnaverndarlaga. Við uppkvaðningu úrskurðarins hafi því verið brotið gegn þessum reglum um meðalhóf.
Einnig sé vísað til þeirrar meginreglu barnaverndarlaga að íþyngjandi ráðstafanir skuli eigi standa lengur en þörf krefji hverju sinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga.
Loks sé á því byggt að úrskurðurinn brjóti í bága við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segi að stuðla skuli að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim og að opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til, sbr. og lög nr. 62/1994.
Varðandi varakröfu sóknaraðila sé vísað til þess að hinn 19. nóvember nk. verði liðnir tveir mánuðir frá því að ákvörðun hafi verið tekið um neyðarvistun barnsins en í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga komi fram að barnaverndarnefnd beri að afla sér úrskurðar dómara ef vistun barns utan heimilis gegn vilja foreldris, eða barns sem orðið sé 15 ára, á að standa lengur en tvo mánuði. Sé í þessu sambandi vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 370/2013.
IV.
Varnaraðili mótmæli því að hinn kærði úrskurður frá 1. október sl. uppfylli ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og að meðalhófsreglunnar hafi ekki verið gætt við meðferð málsins. Í málinu liggi fyrir upplýsingar um slæman aðbúnað telpunnar og að sóknaraðili beiti hana ofbeldi. Þá hafi sóknaraðili farið af landi brott í fjóra mánuði í byrjun júnímánaðar. Á meðan hafi telpan verið eftir atvikum í umsjá móðursystur sinnar og/eða móðurömmu. Sú fyrrnefnda hafi vanrækt hana auk þess sem hún [...] [...] en amman sé hins vegar ófær um að annast telpuna. Skilyrði þess að beitt sé úrræði tilvitnaðrar 1. mgr. 27. gr. um vistun utan heimilis í tvo mánuði séu skv. 1. mgr. 26. gr. þau að úrræði skv. 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað tilætluðum árangri eða eftir atvikum að þau séu ófullnægjandi. Með vísan til málavaxta í heild liggi fyrir að ekki hafi verið fyrir hendi vægara úrræði en það sem kveðið sé á um í úrskurðinum. Ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg til að forða telpunni frá vanrækslu og til að meta aðstæður hennar til framtíðar.
Varnaraðili kveðst og mótmæla þeirri staðhæfingu sem fram komi í kæru sóknaraðila að vistun telpunnar utan heimilis á grundvelli úrskurðarins geti aldrei staðið lengur en til 19. nóvember 2013, eða í tvo mánuði frá því að ákvörðun um að beita úrræði 31. gr. barnaverndarlaga um neyðarráðstöfun hafi verið tekin. Dómur Hæstaréttar í málinu nr. 370/2013, sem sóknaraðili vísi til, styðji ekki slíka niðurstöðu. Niðurstaða dómsins hafi verið sú að einvörðungu mætti beita úrræði b-liðar 27. gr. laganna einu sinni og ef nauðsynlegt væri að vista barn lengur en tvo mánuði utan heimilis bæri að beita 1. mgr. 28. gr. laganna, sem kveði á um að gera skuli kröfu um það fyrir dómi eigi ráðstöfun að vara lengur en það.
V.
Niðurstaða
Eins fram er komið snýst mál þetta um gildi úrskurðar varnaraðila um að vista skuli barnabarn sóknaraðila utan heimilis í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Í 21. gr. barnaverndarlaga er að finna reglur um málsmeðferð vegna tilkynninga og upplýsinga, sem leitt geta til þess að barnaverndarnefnd hefji könnun máls. Í 5. mgr. greinarinnar er tekið fram að ákvörðun um að hefja könnun skuli ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til. Í VI. kafla laganna eru síðan fyrirmæli um ráðstafanir barnaverndarnefnda í kjölfar könnunar máls. Er þar kveðið á um ýmis úrræði, með eða án samþykkis foreldra. Einnig er þar gert ráð fyrir að til þess geti komið að barnaverndarnefnd úrskurði um vistun barns utan heimilis í allt að tvo mánuði, án samþykkis foreldra, enda séu uppfyllt þau skilyrði sem þar er kveðið á um og „ef brýnir hagsmunir barns mæla með því“, sbr. 26. og 27. gr. laganna. Í b-lið 1. mgr. 27. gr. er tekið fram að slík ráðstöfun barns sé heimil „til að tryggja öryggi þess eða til þess að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu“.
Eins og áður hefur verið rakið hafa varnaraðila borist tilkynningar, bæði frá einstaklingum og opinberum aðilum, þar sem lýst er áhyggjum af uppeldisaðstæðum telpunnar, vanrækslu, skorti á eftirliti og meintu ofbeldi og/eða harðræði. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin 1. október sl. hafði forsjárhafi hennar, afi hennar A, dvalið erlendis frá því um miðjan júnímánuð. Skýrði hann frá því í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði komið hingað til lands á ný frá [...] hinn 10. október sl. og að dvöl hans þar hefði lengst umfram áætlun vegna veikinda hans sjálfs. Á umræddu tímabili mun telpan hafa átt að vera í umsjá móðursystur sinnar, F, sem sjálf fór þó einnig af landi brott með föður sínum A um miðjan júní en mun hafa komið til baka í byrjun júlí. Var telpan tekin af heimilinu hinn 19. september sl. á grundvelli ákv. 31. gr. barnaverndarlaga um neyðarvistun, þar sem ekki náðist í forsjárhafa, og hún vistuð á Vistheimili barna. Kemur fram í hinum kærða úrskurði að það sé heildstætt mat varnaraðila, með hliðsjón af greinargerðum og gögnum frá starfsmönnum varnaraðila, frá stjórnendum skóla og leikskóla og öðrum gögnum málsins, að telpan hafi búið við óviðunandi aðstæður í umsjá móðursystur sinnar mánuðina fyrir uppkvaðningu úrskurðarins og að uppeldisaðstæðum hennar og aðbúnaði hafi verið verulega ábótavant allt frá komu hennar hingað til lands.
Í skýrslum sínum fyrir dómi höfnuðu þær F og D, báðar móðursystur telpunnar, því að þær hefðu orðið varar við að telpan sætti ofbeldi á heimilinu.
Það er niðurstaða dómsins að mat varnaraðila á aðstæðum telpunnar sé málefnalegt og að ekki sé með vistun hennar utan heimilis í tvo mánuði gripið til harkalegri aðgerða en tilefni er til. Verður ekki annað séð en að aðgerðirnar séu, og hafi verið, í samræmi við meginreglur 1. og 4. gr. og markmið 2. gr. barnaverndarlaga og aðgerðirnar séu nauðsynlegar til að veita telpunni nauðsynlega aðhlynningu og tryggja öryggi hennar. Þegar horft er til tengsla framangreindra vitna við sóknaraðila og telpuna geta skýrslur þeirra fyrir dómi á engan hátt hnekkt því mati. Þar sem ekki verður heldur fallist á það með sóknaraðila að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn reglum um meðalhóf eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verður kröfu sóknaraðila, um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, því hafnað. Samkvæmt því, og þar sem engin lagaleg rök styðja þá varakröfu sóknaraðila að upphaf tveggja mánaða vistunartímans skv. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga skuli miðast við töku ákvörðunar um neyðarvistun telpunnar hinn 19. september sl., er fallist á þá kröfu varnaraðila að B verði vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði frá 1. október 2013.
Sóknaraðili fékk gjafsókn með bréfi innanríkisráðherra, dags. 4. nóvember 2013.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, A er hafnað.
Staðfestur er úrskurður varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, dags. 1. október 2013, um að C skuli vistuð utan heimilis sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá 1. október 2013.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar að fjárhæð 680.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.