Hæstiréttur íslands
Mál nr. 464/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 17. ágúst 2009. |
|
Nr. 464/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. ágúst 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. ágúst 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjvíkur árið 2009, fimmtudaginn 13. ágúst.
Ár 2009, fimmtudaginn 13. ágúst er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Sigrúnu Guðmundsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að varnaraðili X, kt. [...], [...] , Hafnarfirði, til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. ágúst nk. kl. 16. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhalsins verði samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að að kvöldi miðvikudagsins 12 ágúst fékk lögregla tilkynningu um að þrír dökklæddir menn væru að fara inn um svaladyr að Y í Reykjavík. Lögreglumenn voru mjög fljótir á staðinn og mættu þessum þremur dökklæddu mönnum í stigagangi húsnæðisins þar sem þeir voru með fangið fullt af þýfi sem var m.a. poki fullur af áfengisflöskum, tösku með fartölvu ásamt því voru þeir með fulla vasa af ýmiskonar munum sem þeir höfðu tekið úr íbúðinni við Y.
Kærði X var einn af þessum aðilum sem lögregla mætti í stigaganginum og var hann í framhaldinu handtekinn grunaður um þjófnað úr íbúðinni ásamt þeim A og B.
Að mati lögreglu kemur útlit mannanna heim og saman við útlitslýsingar vitna úr innbroti sem átti sér stað að Z í Reykjavík, mánudaginn 10. ágúst sl. þar sem brotist var inn í bústað sem tilheyrir presti [...]kirkju. Þaðan var stolið um 7 til 8 þúsund krónum í peningum, stafrænni myndavél og greiðslukorti prestsins og í dag fékk lögregla upplýsingar um að tekið hefði verið útaf kortinu um 100.000 kr. og virðast innbrotsþjófarnir hafa komist yfir pin númer kortsins.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu hefur kærði játað innbrotið við Y en neitað öðru.
Þá hefur A einnig játað að hafa farið inn að Z í Reykjavík mánudaginn 10. ágúst ásamt kærða og meðkærða B, en hann kveðst hins vegar ekki hafa stolið neinu. A kveður þá þrjá hafa farið inn í bústaðinn með því að spenna upp stormjárn á glugga og kemur það heim og saman við ummerki á vettvangi við Z.
Undanfarnar vikur hefur verið mjög mikið um innbrot í íbúðarhúsnæði í umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og grunar hún að kærði ásamt þeim tveimur aðilum sem handteknir voru með honum í gærkvöldi tilheyri hópi manna af erlendum uppruna sem stundi þessi innbrot.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur síðastliðna mánuði verið að kortleggja þennan hóp ásamt öðrum aðilum sem eru virkir í innbrotum og á skýringarmyndum sem fylgir með þessari kröfu má sjá hvernig nöfn þessara aðila tengjast. Skýringarmyndin sýnir hvernig tengsl þessara manna eru þar sem þeir eru kærðir í mismunandi málum.
Þessi skýringarmynd nær einungis 60 daga aftur í tímann til að sýna hverjir eru virkir í innbrotum og hvernig tengsl þeirra eru. Séu aðilar ekki kærðir á síðustu 60 dögum detta menn útaf þessum vaktlista lögreglunnar og því eru þessi gögn áreiðanleg.
Í hádeginu í dag var svo par af erlendum uppruna sem var handtekið í skartgripaverslun við það að reyna selja skartgripi sem lögreglu grunar að séu þýfi úr máli lögreglu nr. 007-2009-48170. Í því máli var brotist inn í íbúðarhúsnæði við Þ í Reykjavík og stolið töluverðu magni af skartgripum.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu í dag gaf þetta par upp nafn á aðila sem tengist kærða og meðkærðu í innbrotinu við [...]götu og má sjá augljós tengsl á milli þessara aðila í kortlagningu lögreglu.
Á meðan á yfirheyrslu lögreglu stóð í dag yfir parinu sem reyndi að selja skartgripina var aðili að nafni C sífellt að reyna hringja í parið sem var í haldi lögreglu. Þessi C býr á sama stað og meðkærði X og því er ljóst að þessir aðilar virðast allir tengjast með einum eða öðrum hætti.
Parið sem reyndi að selja skartgripina sagðist hafa keypt þá af aðila sem heitir D og hefur hann margoft komið við sögu lögreglu ásamt þeim þremur aðilum sem eru grunaðir um innbrotið við [...]götu.
Fram er kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varðar allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa er á frumstigi og er ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars á eftir að yfirheyra sakborninga frekar, svo og að hafa upp á öðrum sakborningum og þýfinu.
Rannsókn málanna er á frumstigi og ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en meðal annars á eftir að hafa uppi á öðrum samverkamönnum, t.d. D, sem talið er að geti haft í sínum vörslum mikið magn af þýfi og virðist tengjast gerendum á [...]götu og [...]stíg, og C, en C býr með X í [...] í Hafnarfirði. Einnig á eftir að fá upplýsingar frá kortafyrirtækjum vegna fjársvika á korti sem var stolið í [...]kirkju (sjá mál nr. 007-2009-48566), en nokkra daga getur tekið að yfirfara myndir úr eftirlitsmyndavélum, gera þarf húsleitir hjá þeim aðilum sem tengjast málunum og í kjölfarið þarf hugsanlega að rekja hvaðan þýfið kemur og loks þarf að yfirheyra sakborninga frekar eftir því sem rannsókn málanna miðar áfram og þau skýrast frekar.
Málin eru því enn á það viðkvæmu stigi að hætt er við því að kærði muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Telur lögreglan því nauðsynlegt að hún fái nokkurra daga svigrúm til að rannsaka málin frekar.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Þegar framanritað er virt er það mat dómsins að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði kunna að verða uppvís að broti er varðar gæti allt að sex ára fangelsi, ef sannast.
Rannsókn málsins er á frumstigi. Þegar litið er til alls framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald og er hún tekin til greina eins og hún er sett fram.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. ágúst nk. kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Úrskurðarorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum kærða, verjanda hans, túlki og fulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Kærða er leiðbeint um rétt hans til að kæra úrskurð þennan til Hæstaréttar Íslands innan þriggja sólarhringa. Kærði lýsir því yfir að hann kæri úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands til að fá úrskurðinn felldan úr gildi.