Hæstiréttur íslands
Mál nr. 605/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Vinnusamningur
- Uppsögn
- Trúnaðarskylda
- Lögbann
|
|
Þriðjudaginn 5. desember 2006. |
|
Nr. 605/2006. |
Opin kerfi ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Guðbjarna Guðmundssyni (Reynir Karlsson hrl.) |
Kærumál. Vinnusamningur. Uppsögn. Trúnaðarskylda. Lögbann.
G sagði upp starfi sínu hjá O ehf. Á uppsagnarfrestinum hætti hann störfum fyrir félagið og hóf störf hjá T ehf., sem var í samkeppni við O ehf. Síðargreinda félagið krafðist þess að lagt yrði lögbann við því að G tæki við starfinu þar til uppsagnarfresturinn væri liðinn auk þess sem krafist var lögbanns við því að hann hefði á sama tíma samband við viðskiptamenn O ehf. Talið var að G hefði verið bundinn við ráðningarsamning sinn við O ehf., þegar hann hvarf úr starfi sínu og hóf störf hjá T ehf. Með því hefði hann brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart O ehf. og ekki talið að skaðabætur vernduðu hagsmuni félagsins nægilega. Var því fallist á að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann væri fullnægt og lagt fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að G starfaði hjá T ehf., kæmi fram fyrir hönd þess, kynnti það eða sinnti öðrum verkefnum í þágu þess. Þá var einnig fallist á að leggja lögbann við því að G hefði samband við viðskiptamenn O ehf. í því skyni að veita þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 26. október 2006 um synjun lögbanns við því að varnaraðili tæki við starfi hjá Títan ehf., kæmi fram fyrir hönd þess félags, kynnti það eða sinnti nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, hvort sem er launuðum eða ólaunuðum, og ennfremur að varnaraðili hefði samband við viðskiptamenn sóknaraðila, þar með talið starfsmenn þeirra, og/eða veitti þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna, hvort heldur sem er gegn gjaldi eða ekki, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumann að leggja lögbann við umræddum athöfnum varnaraðila er gildi til og með 31. desember 2006. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Fallist er á með héraðsdómi, að varnaraðili hafi enn verið bundinn við ráðningarsamning sinn við sóknaraðila, þegar hann hvarf úr starfi sínu hjá honum og hóf störf hjá Títan ehf., sem ágreiningslaust er að stundar samkeppnisrekstur við sóknaraðila. Ber varnaraðili á gildistíma samningsins til 31. desember 2006 trúnaðarskyldu við sóknaraðila, en telja verður að slík skylda gildi almennt í lögskiptum starfsmanns og vinnuveitanda meðan ráðningarsamningur er í gildi þó að ekki sé þar sérstaklega kveðið á um hana. Fallist er á með sóknaraðila, að réttarreglur um skaðabætur geti ekki talist vernda hagsmuni hans nægilega, þegar varnaraðili brýtur gegn trúnaðarskyldum sínum á þann hátt sem hér er raunin. Samkvæmt þessu verður talið að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt til að lögbannskrafa sóknaraðila nái fram að ganga. Verða kröfur hans því teknar til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu og verður kröfu hans um málskostnað í héraði vísað frá Hæstarétti.
Varnaraðili skal greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að varnaraðili, Guðbjarni Guðmundsson, starfi hjá Títan ehf. fram til 31. desember 2006, komi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni öðrum verkefnum í þess þágu. Lögbannið taki einnig til þess að varnaraðili hafi á sama tíma samband við viðskiptamenn sóknaraðila, Opinna kerfa ehf., þar með talið starfsmenn þeirra, í því skyni að veita þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna, hvort heldur sem er gegn gjaldi eða án þess, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki.
Kröfu varnaraðila um málskostnað í héraði er vísað frá Hæstarétti.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2006.
I
Málið barst dóminum 27. október sl. og var þingfest 1. nóvember sl. Það var tekið til úrskurðar 13. nóvember sl.
Sóknaraðili er Opin kerfi ehf., Höfðabakka 9, Reykjavík.
Varnaraðili er Guðbjarni Guðmundsson, Gvendargeisla 66, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík í lögbannsgerð nr. L-43/2006, um að synja sóknaraðila um lögbann, verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann, gegn tryggingu sem hann metur nægilega, að leggja lögbann við því að varnaraðili taki við starfi hjá Títan ehf., komi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, hvort sem er launuðum eða ólaunuðum. Einnig verði lagt lögbann við því að varnaraðili hafi samband við viðskiptamenn sóknaraðila, þar með talið starfsmenn þeirra, og/eða veiti þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna, hvort heldur sem er gegn gjaldi eða ekki, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Lögbannið gildi til og með 31. desember 2006. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður.
II
Málavextir eru þeir að varnaraðili starfaði hjá sóknaraðila og höfðu þeir gert með sér samning þar um 7. apríl 2000. Varnaraðili sagði upp störfum 25. september sl. Kveður sóknaraðili uppsögnina hafa átt sér þann aðdraganda að Títan ehf., sem sé nýtt fyrirtæki og starfi á sama sviði og sóknaraðili, hafi ráðið varnaraðila til starfa. Þrátt fyrir það hafi verið gert ráð fyrir að varnaraðili myndi vinna út uppsagnarfrestinn hjá sóknaraðila eða til ársloka. Sóknaraðili kveður uppsögn varnaraðila og annarra starfsmanna hafi orðið til þess að 1. október sl. hafi forstjórinn ritaði starfsmönnum bréf, gert grein fyrir stöðu mála og hvernig brugðist skyldi við henni. Varnaraðili og aðrir, sem sagt höfðu upp störfum, litu þannig á þetta bréf að eftir sendingu þess væri þeim ókleift að vinna lengur hjá sóknaraðila. Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi skorað á varnaraðila, og aðra sem höfðu sagt upp störfum, að snúa aftur til vinnu, gerðu þeir það ekki, heldur hófu störf hjá Títan ehf. Sendu varnaraðili og tveir aðrir fyrrum starfsmenn sóknaraðila viðskiptamönnum hans bréf og tilkynntu um starfslok sín og jafnframt að þeir hefðu hafið störf hjá Títan ehf. og væru boðnir og búnir til að vinna áfram að verkefnum fyrir viðtakanda.
Sóknaraðili krafðist þess 18. október sl. að sýslumaður legði lögbann við því að varnaraðili ynni fyrir Títan ehf. á uppsagnarfrestinum, en því hafnaði sýslumaður 26. október sl. og bar þá sóknaraðili málið undir dóminn.
III
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili sé samningsbundinn sér til ársloka. Hann hafi, án þess að sóknaraðili leysti hann undan vinnuskyldu, hafið störf hjá keppinaut og í því starfi haft samband við viðskiptavini sóknaraðila í því skyni að ná viðskiptum við þá frá sóknaraðila. Á því er byggt að á varnaraðila hvíli ólögfestar trúnaðarskyldur, sem meðal annars feli í sér að menn megi ekki taka að sér störf fyrir keppinaut meðan á uppsagnarfresti stendur og vinna þannig gegn hagsmunum vinnuveitanda síns. Gegn þessum skyldum hafi varnaraðili brotið og kunni það að valda sóknaraðila miklu tjóni.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi hvorki sannað né gert sennilegt að það fari í bága við réttindi hans þótt hann hafi hafið störf hjá öðrum vinnuveitanda. Lagaskilyrði séu því ekki til þess að verða við kröfu sóknaraðila, sbr. 24. gr. laga nr. 91/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Varnaraðili bendir á að hann hafi slitið vinnusambandi sínu við sóknaraðili og hann sé því ekki lengur bundinn trúnaði við hann. Ekki sé hægt að knýja sig til vinnu gegn vilja sínum, en hann hafi haft fullgildar ástæður til að hætta störfum áður en uppsagnarfresturinn var liðinn. Þá er á því byggt að krafan sé alltof víðtæk, sbr. 31. gr. laganna, og myndi lögbann nánast koma í veg fyrir að varnaraðili gæti unnið og aflað sér tekna, enda ekki lengur á launum hjá sóknaraðila.
IV
Með samningi 7. apríl 2000 réð varnaraðili sig til starfa hjá sóknaraðila. Í samningnum er ákvæði um að hvor um sig geti sagt honum upp með þriggja mánaða fyrirvara, miðað við mánaðamót. Í samningnum eru ákvæði um þagnarskyldu, en engin sem banna varnaraðila að vinna tiltekin störf eftir að hann lætur af störfum. Ágreiningslaust er að varnaraðili sagði upp samningnum 25. september sl. og hóf skömmu síðar, áður en uppsagnarfrestur var útrunninn, að vinna hjá Títan ehf. sem er keppinautur sóknaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögbannslaga má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings ef sá sem þess beiðist sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Í 3. mgr. sömu greinar segir að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi hagsmunina nægilega.
Varnaraðili hvarf úr starfi sínu hjá sóknaraðila þótt hann væri enn bundinn við það samkvæmt framangreindum samningi og hóf störf hjá keppinautnum. Með þessu kann hann að hafa valdið sóknaraðila bótaskyldu tjóni. Samkvæmt nefndri 3. mgr. 24. gr. lögbannslaganna verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi hagsmuni lögbannsbeiðanda nægilega. Það er niðurstaða dómsins að réttarreglur um skaðabætur muni tryggja hagsmuni sóknaraðila, verði hann fyrir tjóni af samningsbroti varnaraðila. Það eru því ekki lagaskilyrði til að verða við kröfu hans og er henni hafnað en málskostnaður skal falla niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kröfu sóknaraðila, Opinna kerfa ehf., er hafnað en málskostnaður fellur niður.