Hæstiréttur íslands
Mál nr. 637/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
- Evrópska efnahagssvæðið
|
|
Föstudaginn 16. desember 2011. |
|
Nr. 637/2011.
|
Kaupþing hf. (Þröstur Ríkharðsson hdl.) gegn Irish Bank Resolution Corporation Ltd. (Skúli Th. Fjeldsted hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. Evrópska efnahagssvæðið.
K hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem héraðsdómari féllst á kröfu írska bankans I um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál I á hendur K hf. Í dómi Hæstaréttar sagði að með vísan til a. liðar 2. gr., 119. gr. og 129. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og að því gættu að misræmi virtist vera milli hins íslenska texta 1. mgr. 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana annars vegar og texta tilskipunarinnar á sumum þeirra tungumála sem vísað væri til í 129. gr. EES-samningsins hins vegar, væri fallist á það með héraðsdómi að réttmætur vafi léki á um efni fyrrgreinds ákvæðis tilskipunarinnar. Þar af leiðandi yrði tekin til greina krafa I um að leitað yrði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Voru því tvær nánar tilgreindar spurningar lagðar fyrir dómstólinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2011 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Heiti varnaraðila var áður Anglo Irish Bank Corporation Ltd., en hefur verið breytt í Irish Bank Resolution Corporation Ltd.
Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði gaf slitastjórn sóknaraðila út innköllun til skuldheimtumanna hans sem birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaði 30. júní 2009. Þar var skorað á alla þá, sem töldu til hvers kyns skulda eða annarra réttinda á hendur sóknaraðila eða eigna í umráðum hans, að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn innan sex mánaða frá fyrri birtingu innköllunar eða í síðasta lagi 30. desember 2009. Jafnframt var tekið fram að væri kröfum ekki lýst innan framangreinds frests giltu um það sömu réttaráhrif og um vanlýsingu kröfu samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Teldist hún því niður fallin gagnvart sóknaraðila nema undantekningar í 1. til 6. tölulið greinarinnar ættu við. Slitastjórn tilkynnti ekki hverjum og einum þekktum lánardrottni, þar á meðal varnaraðila, um slit sóknaraðila, hvenær kröfulýsingarfresti lyki og hverjar afleiðingar það gæti haft að kröfu yrði ekki lýst innan frestsins, heldur birti auglýsingar þess efnis erlendis, meðal annars í víðlesnu dagblaði á Írlandi.
Hinn 14. apríl 2010 eða þremur og hálfum mánuði eftir að kröfulýsingarfresti lauk barst slitastjórn sóknaraðila kröfulýsing frá varnaraðila vegna tveggja skuldabréfa, samtals að fjárhæð 15.558.733 evrur. Slitastjórn hafnaði kröfunum, meðal annars með þeim rökum að þeim hefði verið lýst að loknum kröfulýsingarfresti og ekki væri talið að undantekningarákvæði 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 ætti við um þær. Varnaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar og hefur sá ágreiningur verið borinn undir héraðsdóm á grundvelli 1. mgr. 171. gr. laganna.
Varnaraðili hefur haldið því fram við meðferð málsins í héraði að taka beri kröfulýsingu hans gilda við slitameðferð sóknaraðila þar sem skylt hafi verið samkvæmt reglum, sem leiddar verði af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að senda honum, sem þekktum kröfuhafa, sérstaka tilkynningu með þeim upplýsingum sem að framan greinir. Í samræmi við það krafðist varnaraðili þess í þinghaldi 7. september 2011 að héraðsdómur aflaði álits EFTA-dómstólsins á því hvort ákvæði 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 samrýmist efni tilskipunar 2001/24/EB. Með vísan til 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 féllst héraðsdómur á að leita ráðgefandi álits dómstólsins á ofangreindu álitaefni, en hagaði orðalagi spurninga til hans á annan hátt en gert var af hálfu varnaraðila eins og greinir í úrskurðarorði hins kærða úrskurðar.
II
Í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, segir: „Þegar fjármálafyrirtæki hefur verið skipuð slitastjórn skal hún tafarlaust gefa út og fá birta í Lögbirtingablaði innköllun vegna slitanna. Um efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa skal beitt sömu reglum og við gjaldþrotaskipti.“ Þær reglur, sem vísað er til, er meðal annars að finna í 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 sem er svohljóðandi: „Jafnframt því að gefa út innköllun skv. 85. gr. er skiptastjóra rétt að leita sérstaklega vitneskju um hvort einhver sá sem kann að telja til kröfu á hendur þrotabúinu sé búsettur erlendis. Komi fram vitneskja um slíkt er skiptastjóra rétt að tilkynna hlutaðeiganda svo fljótt sem verða má um gjaldþrotaskiptin, hvenær kröfulýsingarfrestur endi og hverjar afleiðingar það geti haft að kröfu verði ekki lýst innan frestsins.“ Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er skiptastjóra rétt að fá birta auglýsingu erlendis með sama efni og tilkynning samkvæmt 1. mgr. ef hann telur ástæðu til að ætla að lánardrottnar kunni að vera búsettir erlendis sem ekki er vitað hverjir séu eða hvar verði náð til.
Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 þar sem kveðið er á um að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um kröfur á hendur því eiga ákvæði 118. gr. laga nr. 21/1991 við um slíkar kröfur, þar á meðal 2. töluliður greinarinnar. Þar er gerð sú undantekning frá því að krafa, sem lýst hefur verið eftir að kröfulýsingarfresti er lokið, falli niður gagnvart þrotabúi „að kröfuhafinn sé búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu“.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Í 31. gr. samningsins, þar sem mælt er fyrir um óheftan staðfesturétt innan svæðisins, er í 3. mgr. vísað í VIII. til XI. viðauka við samninginn, en þar séu sérstök ákvæði um þann rétt. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sem á grundvelli 98. gr. EES-samningsins var tekin upp í hann með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002 um breytingu á IX. viðauka við samninginn, er í 14. gr. kveðið á um tilhögun upplýsingamiðlunar til þekktra lánardrottna við slitameðferð lánastofnunar. Þar segir í 1. mgr. hins íslenska texta tilskipunarinnar sem birtur var í Stjórnartíðindum EB 5. maí 2001: „Þegar slitameðferð hefst skulu stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaðildarríkisins eða skiptastjórinn upplýsa án tafar alla lánardrottna, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í öðrum aðildarríkjum, um það nema í tilvikum þegar í löggjöf heimaaðildarríkis þess er ekki krafist að kröfunni sé lýst til að hún fáist viðurkennd.“ Þegar hinn íslenski texti er borinn saman við texta tilskipunarinnar á öðrum tungumálum virðist svo sem misræmi sé á milli þeirra þannig að merking þessa ákvæðis sé frábrugðin frá einum texta til annars. Í málinu hefur verið lögð fram þýðing löggilts skjalaþýðanda á ákvæðinu í hinum enska texta tilskipunarinnar þar sem ákvæðið er sagt vera svohljóðandi í íslenskri þýðingu: „Þegar slitameðferð er hafin skulu yfirvöld stjórnsýslu eða dómsmála í heimaaðildarríkinu eða skiptaráðandi án tafar upplýsa þekkta kröfuhafa, hvern um sig, sem hafa lögheimili sitt, fasta búsetu eða höfuðstöðvar í öðrum aðildarríkjum, nema í tilvikum þegar í löggjöf heimaríkisins er ekki gerð krafa um að kröfu sé lýst til þess að hún verði tekin til greina.“
III
Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort slitastjórn sóknaraðila hafi verið skylt samkvæmt íslenskum lögum, þar á meðal á grundvelli reglna sem leiddar verði af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að upplýsa varnaraðila, sem þekktan lánardrottinn búsettan í aðildarríki á svæðinu, um slit sóknaraðila, hvenær kröfulýsingarfrestur endaði og hverjar afleiðingar það gæti haft að kröfu yrði ekki lýst á hendur honum innan frestsins. Ennfremur hvort slitastjórn hafi verið skylt, úr því að varnaraðila var ekki sérstaklega tilkynnt um slitin, að taka kröfulýsingu hans gilda við slitameðferð sóknaraðila þótt hún hafi borist eftir að fyrrgreindum fresti lauk.
Eins og gerð er grein fyrir hér að framan skal samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skýra íslensk lög og reglur til samræmis við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þær reglur sem á honum byggja. Að því virtu skiptir máli við úrlausn á fyrrgreindum ágreiningi aðila hvert er efni 1. mgr. 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB þar sem kveðið er á um tilhögun upplýsingamiðlunar til þekktra lánardrottna við slitameðferð lánastofnunar hér á landi.
Samkvæmt a. lið 2. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið merkir hugtakið „samningur“ meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka auk þeirra gerða sem þar er vísað til. Þá segir í 119. gr. samningsins að viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samningsins, skuli auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti hans. Í 129. gr. samningsins kemur fram að hann sé gerður í einu frumriti á nánar tilgreindum tungumálum, þar á meðal íslensku, og að hver þessara texta skuli jafngildur. Þar segir ennfremur að textar, sem vísað sé til í viðaukunum, séu jafngildir á nánar greindum tungumálum, en íslenska er ekki þar á meðal. Jafnframt er þar kveðið á um að textar á tungumálum aðildarríkja Evrópusambandsins skuli „með tilliti til jafngildingar þýddir á íslensku og norsku og birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.“
Með vísan til framangreindra ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og að því gættu að misræmi virðist vera milli hins íslenska texta 1. mgr. 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB annars vegar og texta hennar á sumum þeirra tungumála sem vísað er til í 129. gr. samningsins hins vegar, er fallist á það með héraðsdómi að réttmætur vafi leiki á um efni fyrrgreinds ákvæðis. Þar af leiðandi verður tekin til greina krafa varnaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á grundvelli 1. gr. laga nr. 21/1994, en orðalagi spurninga verður hagað á þann veg sem í dómsorði greinir.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1. Ef misræmi er milli texta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða reglna, sem á honum byggja, á mismunandi tungumálum þannig að efni einstakra ákvæða eða reglna er óljóst, hvernig ber að leiða efni þeirra í ljós svo að beita megi þeim við lausn ágreiningsmála?
2. Að teknu tilliti til svars við spurningu 1, samrýmist það 1. mgr. 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana að í lögum ríkis, sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sé það lagt í vald slitastjórnar eða annars þar til bærs stjórnvalds eða sýslunarmanns að ákveða hvort upplýsa skuli um þau atriði, sem þar eru greind, með auglýsingu, birtri erlendis, í stað sérstakrar tilkynningar til hvers og eins þekkts lánardrottins?
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2011.
I
Mál þetta var þingfest 24. september 2010, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Kaupþings banka hf., móttekið 2. júlí sama ár, þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila, Anglo Irish Bank Corporation Ltd., Dublin, Írlandi, við slit bankans. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í bréfi slitastjórnar kemur fram að kröfulýsingarfresti við slitameðferð Kaupþings banka hf. hafi lokið 30. desember 2009. Hinn 14. apríl 2010 hafi kröfulýsingar borist frá sóknaraðila vegna tveggja skuldabréfa, samtals að fjárhæð 15.558.733 evrur, og hafi sóknaraðili krafist þess að viðurkennt yrði að kröfurnar hefðu borist fyrir lok kröfulýsingarfrests og að taka ætti þær á kröfuskrá við slitameðferð bankans. Varnaraðili hafnaði kröfunum með þeim rökum að ekki yrði talið að tölvupóstur sóknaraðila frá 29. október 2008 gæti talist kröfulýsing í skilningi 117. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Ekki var heldur talið að undantekningarákvæði 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 ætti við um kröfurnar. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila til krafnanna, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður á kröfuhafafundum sem haldnir voru 27. maí 2010 og 29. júní sama ár. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til héraðsdóms, eins og áður greinir.
Í þinghaldi í máli þessu 7. september sl. lagði sóknaraðili fram bókun, þess efnis að dómurinn aflaði álits EFTA-dómstólsins á því hvort ákvæði 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 samrýmdist efni tilskipunar 2001/24/EB. Fram kemur þar að sóknaraðili byggi á því í málinu að samkvæmt tilvitnuðu ákvæði hafi varnaraðila borið að senda sóknaraðila, sem þekktum kröfuhafa, tilkynningu með upplýsingum um slitameðferðina. Varnaraðili haldi því hins vegar fram að í ákvæðinu felist ekki skylda til slíks, heldur sé þar aðeins mælt fyrir um að skiptastjóra sé rétt að senda slíka innköllun. Orðrétt segir þar síðan: „Með vísan til 1. gr. l. nr. 21/1994 um öflunar álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið gerir sóknaraðili hér með kröfu um að rétturinn biðji EFTA dómstólinn í Lúxemborg um ráðgefandi álit á hvort efni íslenskrar réttarreglu sem gildir um tilkynningu og birtingu ákvarðana um slit lánastofnana sem felur ekki í sér að stjórnvöld, dómsmálayfirvöld heimaðildarríkis eða skiptastjórinn beri að senda án tafar hverjum og einum þekktum erlendum kröfuhafa sem hafa fast lögheimili sitt, fasta búsetu, eða höfuðstöðvar í öðrum aðildarríkjum geti talist vera í samræmi við efni EES samningsins, einkum tilskipun 2001/24 (EB), sem tekin hefur verið upp í EES samninginn.“
Varnaraðili mótmælti kröfu sóknaraðila. Dómari gaf aðilum kost á að tjá sig munnlega um fram komna kröfu, og var svo gert 19. október sl. Að því búnu var krafan tekin til úrskurðar.
II
Í greinargerð sóknaraðila til dómsins krefst hann þess að felld verði úr gildi ákvörðun slitastjórnar varnaraðila um að hafna kröfum hans, og að kröfurnar verði þess í stað viðurkenndar sem almennar kröfur við slitameðferð varnaraðila, samtals að höfuðstólsfjárhæð 15.000.000 evra, auk vaxta til 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 433.304 evrur. Byggist krafan m.a. á því að varnaraðili hafi ekki sent sóknaraðila, sem þekktum erlendum kröfuhafa, tilkynningu um slitameðferðina, kröfulýsingarfrest og afleiðingar vanlýsingar að íslenskum lögum, eins og honum hafi þó borið skylda til samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og ákvæðinu var breytt með 2. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009. Sérstaklega vísar sóknaraðili til athugasemda við frumvarp til síðastnefndra laga, en þar segi m.a. svo um tilgreint ákvæði: „Í 2. mgr. er lagt til að upphafsráðstafanir slitastjórnar verði að gefa út og fá birta innköllun vegna slitanna. Lagt er til að um þetta gildi sömu reglur og er að finna í lögum nr. 21/1991. Í því felst, sbr. 86. gr. þeirra laga, að senda þarf öllum erlendum kröfuhöfum, sem fjármálafyrirtæki veit hvar eru með heimili, tilkynningu um slitin og innköllun og birta auglýsingu ef talið er að kröfuhafar séu erlendis, en ekki er vitað hvar þeir eru eða hvernig verði náð til þeirra. Óhjákvæmilegt er að hafa þennan hátt á, þótt ljóst sé að stundum geti fjöldi erlendra kröfuhafa skipt hundruðum þúsunda. Ástæðurnar eru bæði þær að innköllun, eins og hér um ræðir, hefur það sem nefnt er „præklusiv“ áhrif, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. ef kröfu er ekki lýst innan kröfulýsingarfrests kemur hún ekki til álita við slitin og oftast þýðir það að kröfuhafinn glatar öllum möguleikum á að fá fullnustu hennar í heild eða að hluta af eignum fjármálafyrirtækis. Auk þess mundi önnur regla fela í sér brot á jafnræði í garð erlendra kröfuhafa, en slíkt færi í bága við eitt þeirra meginsjónarmiða sem tilskipun 2001/24/EB er reist á. Þá verður ekki séð að það sé viðurhlutameira fyrir fjármálafyrirtæki að annast sendingu slíkrar tilkynningar um innköllun en önnur fyrirtæki sem hafa mikinn fjölda viðskiptamanna erlendis.“
Sóknaraðili byggir einnig á því að sú skylda sem hvíli á varnaraðila samkvæmt ofanrituðu, sé í fullu samræmi við efni 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB, en sú tilskipun hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 130/2004. Þótt íslenskur texti 14. gr. tilskipunarinnar kunni að benda til þess að ekki sé skylt að tilkynna hverjum og einum þekktum erlendum kröfuhafa um slit fjármálafyrirtækisins, leggur sóknaraðili áherslu á að sú túlkun samrýmist hvorki ofanrituðum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 44/2009, né texta sömu greinar tilskipunarinnar á tungumálum helstu aðildarríkja Evrópusambandsins. Með hliðsjón af 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, telur sóknaraðili því einsýnt að 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verði ekki skýrð á annan hátt en þann að varnaraðila hafi undanbragðalaust borið að senda sóknaraðila sérstaka tilkynningu um slitameðferðina og kröfulýsingarfrestinn, svo og um afleiðingar þess að kröfu væri ekki lýst innan frests. Þar sem varnaraðili hafi ekki sinnt þeirri tilkynningarskyldu byggir sóknaraðili á því að kröfulýsingarfrestur gagnvart honum hafi ekki byrjað að líða fyrr en 14. apríl 2010. Af því leiði að varnaraðila hafi verið óheimilt að hafna kröfunum.
Í ljósi ofanritaðs, svo og með vísan til þess að varnaraðili byggi á því að 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 feli ekki í sér tilkynningarskyldu með þeim hætti sem sóknaraðili haldi fram að hér eigi við, telur sóknaraðili nauðsynlegt að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á efni og inntaki 14. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.
III
Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Í fyrsta lagi telur hann kröfu sóknaraðila um álitsumleitan óljósa, enda sé þar ekki með beinum hætti bent á það á hvaða ákvæði tilskipunar 2001/24/EB ætlunin sé að leita skýringa. Jafnframt bendir hann á að sú tilskipun hafi ekki beint lagagildi hér á landi og því geti sóknaraðili ekki byggt rétt á ákvæðum hennar. Um réttarstöðu sóknaraðila fari hins vegar eftir íslenskum lögum og reglum, og geti 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, ekki haft áhrif á hvernig túlka beri ákvæði 86. gr. gjaldþrotalaga í framkvæmd. Umrætt ákvæði gjaldþrotalaganna feli ekki í sér skyldu fyrir skiptastjóra til að tilkynna beint viðkomandi kröfuhafa um innköllun krafna. Þvert á móti feli ákvæðið í sér leiðbeiningu um að skiptastjóra sé rétt að senda slíka innköllun og hafi slitastjórn varnaraðila í einu og öllu farið að fyrirmælum ákvæðisins. Varnaraðili mótmælir einnig túlkun sóknaraðila á efni 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB og telur þá túlkun í andstöðu við afdráttarlaust orðalag greinarinnar. Um leið mótmælir hann þeirri staðhæfingu sóknaraðila að texti greinarinnar hafi ekki réttilega verið þýddur á íslensku, og telur engu skipta fyrir úrlausn málsins þótt sóknaraðili leggi fram umrædda tilskipun eða einstakar greinar hennar á öðrum tungumálum.
Auk ofanritaðs byggir varnaraðili á því að aðeins íslenskir dómstólar eigi um það mat hvort tilskipun 2001/24/EB hafi réttilega verið innleidd í íslenskan rétt. Þótt álit EFTA-dómstólsins lægi fyrir, myndi það því engu breyta um þá staðreynd að ágreiningsefnið yrði aðeins leitt til lykta fyrir íslenskum dómstólum. Varnaraðili leggur loks áherslu á að hraða beri meðferð mála sem slitastjórn vísi til úrlausnar dómstólsins. Fallist dómurinn á kröfu sóknaraðila leiði það óhjákvæmilega til þess að slitameðferð varnaraðila dragist úr hófi.
IV
Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, Kaupþingi banka hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Eftir það var bankanum veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009, þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 25. maí sama ár slitastjórn, sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna félagsins og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaði 30. júní 2009. Í innkölluninni var skorað á alla sem töldu til hvers kyns skulda eða annarra réttinda á hendur bankanum, eða eigna í umráðum hans, að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn innan sex mánaða frá birtingu innköllunar. Í innköllun var jafnframt getið um að væri kröfum ekki lýst innan framangreinds frests, varðaði það sömu réttaráhrifum og um vanlýsingu kröfu samkvæmt 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Teldist krafan því niður fallin gagnvart Kaupþingi, nema undantekningar í 1.- 6. tölulið 118. gr. ættu við.
Í greinargerð varnaraðila segir að samhliða því að birta innköllun í Lögbirtingablaðinu hafi innköllun verið auglýst í dagblöðum hérlendis og þeim löndum þar sem bankinn hafi verið með útibú, sem og í öðrum viðskiptalöndum bankans, þ. á m. Bretlandi, Þýskalandi, Spáni, Hollandi, Austurríki, Ítalíu, Frakklandi, Færeyjum, Írlandi, Svíþjóð Noregi, Dubai, Katar, Japan, Hong Kong og Mexíkó. Einnig hafi innköllun birst í Financial Times og stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Á Írlandi hafi innköllun verið birt í The Irish Times 21. júlí 2009. Enn fremur hafi innköllunin verið birt á ensku og íslensku á heimasíðu varnaraðila.
Í samræmi við innköllun varnaraðila lauk kröfulýsingarfresti 30. desember 2009. Kröfulýsingar sóknaraðila bárust varnaraðila 14. apríl 2010 og var þeim hafnað sem of seint fram komnum. Eins og rakið er hér að framan er málatilbúnaður sóknaraðila meðal annars á því reistur að varnaraðila hafi borið að senda honum, sem þekktum erlendum kröfuhafa, tilkynningu um slitameðferð varnaraðila, ásamt upplýsingum um kröfulýsingarfrest og afleiðingar þess að kröfu væri ekki lýst innan þess frests. Þar sem varnaraðili hafi ekki sinnt þeirri tilkynningarskyldu byggir sóknaraðili á því að kröfulýsingarfrestur gagnvart honum hafi ekki byrjað að líða fyrr en 14. apríl 2010. Varnaraðila hafi af þeim sökum verið óheimilt að hafna kröfunum.
Í 86. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er mælt fyrir um ráðstafanir sem skiptastjóra er rétt að grípa til í því skyni að erlendir kröfuhafar fái vitneskju um gjaldþrotaskipti. Þannig mælir 1. mgr. greinarinnar fyrir um að skiptastjóra sé „rétt að leita sérstaklega vitneskju um hvort einhver sá sem kann að telja til kröfu á hendur þrotabúinu sé búsettur erlendis. Komi fram vitneskja um slíkt er skiptastjóra rétt að tilkynna hlutaðeiganda svo fljótt sem verða má um gjaldþrotaskiptin, hvenær kröfulýsingarfrestur endi og hverjar afleiðingar það geti haft að kröfu verði ekki lýst innan frestsins“. Í 2. mgr. sömu greinar segir síðan: „Ef skiptastjóri telur ástæðu til að ætla að lánardrottnar kunni að vera búsettir erlendis, sem ekki er vitað hverjir séu eða hvar verði náð til, er honum rétt að fá birta auglýsingu erlendis með sama efni og tilkynning skv. 1. mgr.“
Í athugasemdum við frumvarp það er síðar varð að lögum nr. 21/1991, kemur fram að samkvæmt 86. gr. sé skiptastjóra ekki skylt að grípa til þeirra aðgerða sem þar sé fjallað um. Jafnframt segir þar orðrétt: „Með þessum ákvæðum frumvarpsins er lögð til breyting frá 2. mgr. 87. gr. laga nr. 6/1978 því samkvæmt þeirri reglu er ávallt skylt að beina sérstakri tilkynningu um gjaldþrotaskipti til allra þekktra lánardrottna, bæði hér á landi og erlendis. Er skemmst frá því að segja að þeirri skyldu hefur nánast aldrei verið sinnt í framkvæmd, enda nánast ógerningur að fylgja umræddri reglu og tæplega heldur neitt almennt tilefni til þess.“
Með 11. gr. laga nr. 130/2004, sem tóku gildi 1. janúar 2005, var tveimur nýjum greinum, 104. og 105. gr., bætt við lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Aðeins fyrri greinin hefur hér þýðingu, en fyrirsögn hennar er „Slit á lánastofnun með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.“ Í 4. mgr. hennar sagði svo: „Nú er þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, og skal þá skiptastjóri án tafar tilkynna honum um upphaf skiptanna. Í tilkynningunni skal greina frá kröfulýsingarfresti, hvert beina skuli kröfulýsingu og afleiðingum vanlýsingar í samræmi við reglur sem ráðherra setur.“ Með lögum nr. 108/2006 var fyrri málslið ákvæðisins breytt þannig að í stað orðanna „í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins“ segir nú aðeins „í öðru aðildarríki“. Á grundvelli ákvæðisins gaf viðskiptaráðherra síðan út reglugerð um tilkynningu og birtingu ákvarðana um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Er hún nr. 872, frá 5. október 2006. Í 4. gr. hennar segir m.a. svo: „Nú er þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins [ ] og skal þá skiptastjóri tilkynna honum um upphaf skiptanna. Tilkynningin skal vera í formi auglýsingar og þar skulu fram koma upplýsingar um kröfulýsingarfrest, hvert beina skuli kröfulýsingu og viðurlög við vanlýsingum. Auglýsing [ ] skal birt á íslensku. Fyrirsögn auglýsingarinnar skal vera, Innköllun vegna gjaldþrotaskipta, kröfulýsingarfrestur, á öllum tungumálum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.“
Með lögum nr. 44/2009 voru viðamiklar breytingar gerðar á XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en sá kafli fjallar um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er síðar varð að lögum nr. 44/2009 kemur fram að meginatriði frumvarpsins séu að settar verði nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Með 6. gr. laganna var 102. gr. laga nr. 161/2002 verulega breytt, en greinin ber nú fyrirsögnina „Meðferð krafna o.fl.“. Í 2. mgr. 102. gr. laganna segir nú: „Þegar fjármálafyrirtæki hefur verið skipuð slitastjórn skal hún tafarlaust gefa út og fá birta í Lögbirtingablaði innköllun vegna slitanna. Um efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa skal beitt sömu reglum og við gjaldþrotaskipti.“ Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir athugasemdum við ákvæði þetta í frumvarpi til laga nr. 44/2009, og vísast til þess.
Í III. bálki tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, er í 9. til 18. gr. fjallað um slitameðferð lánastofnana með aðalskrifstofu í Evrópubandalaginu. Í 14. gr. er mælt fyrir um tilhögun upplýsingamiðlunar til þekktra lánardrottna. Ákvæðið, eins og það hefur verið birt í íslenskum texta í Stjórnartíðindum EB, hljóðar þannig:
„1. Þegar slitameðferð hefst skulu stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaðildarríkisins eða skiptastjórinn upplýsa án tafar alla lánardrottna, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í öðrum aðildarríkjum, um það nema í tilvikum þegar í löggjöf heimaaðildarríkis þess er ekki krafist að kröfunni sé lýst til að hún fáist viðurkennd.
2.Þessar upplýsingar skulu gefnar í formi auglýsingar þar sem fram koma tímamörk og viðurlög ef þau eru ekki virt, hvaða aðili hefur vald til að taka við kröfum sem lýst er eða athugasemdum sem eru lagðar fram varðandi kröfur og aðrar ráðstafanir sem mælt er fyrir um. Í auglýsingunni skal einnig koma fram hvort þeir sem eiga forgangskröfur eða kröfur sem eru tryggðar samkvæmt hlutarétti þurfi að lýsa þeim.“
Eins og áður getur voru ofangreind ákvæði tilskipunarinnar innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 130/2004, en þau lög voru sett til að samræma reglur XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, fyrrnefndum ákvæðum tilskipunar 2001/24/EB.
Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur meðal annars að túlkun á 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og því ákvæði var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009, og hvernig skýra beri þau ákvæði með hliðsjón af 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB, en eins og fram er komið gætir ekki samræmis milli texta tilvitnaðs ákvæðis gjaldþrotalaga og lýsingar á inntaki þess í lögskýringargögnum við setningu laga nr. 44/2009. Í málinu hefur sóknaraðili jafnframt lagt fram enska útgáfu af tilskipun 2001/24/EB, sem sögð er birt í EES-viðbæti Stjórnartíðinda EB, ásamt þýðingu löggilts skjalaþýðanda á nokkrum greinum hennar, m.a. tilvitnaðri 14. gr. Af samanburði hins enska og íslenska texta virðist ljóst að nokkur efnislegur munur er á ákvæðunum, og þá einkum þeim hluta er snýr að formi tilkynningar til lánardrottna, svo og hvort beina skuli slíkri tilkynningu til hvers og eins lánardrottins.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Þar sem réttlætanlegur vafi þykir leika á um efni og inntak 14. gr. oftnefndrar tilskipunar 2001/24/EB, en ákvæði þetta hefur augljósa þýðingu við skýringu þeirra ákvæða sem hér skipta máli, þykir dóminum nægilegt tilefni til að leita álits EFTA-dómstólsins um skýringu ákvæðisins áður en máli þessu verður ráðið til lykta, sbr. 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila, en orðalagi spurninga til dómstólsins verður þó hagað á þann hátt sem í úrskurðarorði greinir.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1. Samræmist það ákvæði 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, að birta innköllun til þekktra lánardrottna, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í öðrum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, með þeim hætti sem slitastjórn Kaupþings banka hf. viðhafði og lýst er í úrskurði þessum?
2. Ef svarið við fyrri spurningunni er á þá leið að við innköllun krafna hafi ekki verið gætt reglna 14. gr. tilskipunarinnar, er leitað álits á því hvaða áhrif það hafi við slitameðferð lánastofnunarinnar