Hæstiréttur íslands

Mál nr. 263/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Börn
  • Fasteign
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
  • Áfrýjunarfrestur
  • Málsástæða


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. mars 2009.

Nr. 263/2008.                                  

B

(Guðmundur Pétursson hrl)

gegn

A

(Guðni Á. Haraldsson hrl.

 Eva Dís Pálmadóttir hdl.)

og

A

gegn

B og

D kaupstað

(Kristín Edwald hrl.

 Kristján B. Thorlacius hdl.)

 

Skaðabætur. Börn. Fasteign. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti. Áfrýjunarfrestur. Málsástæður.

 

A hlaut varanlegt líkamstjón í starfi sínu sem kennari er nemandi hennar, B, sem haldin var Asperger-heilkenni, skellti aftur rennihurð þannig að hún lenti á höfði A. A krafðist bóta óskipt úr hendi B og sveitarfélagsins D, sem hafði með höndum rekstur skólans. Í héraði var ekki talið sýnt fram á að rennihurðin hafi verið haldin vanköntum eða ekki verið í samræmi við gildandi reglur um byggingu og aðbúnað í skólahúsnæði. Var því talið að slysið yrði ekki rakið til hættueiginleika hurðarinnar sem slíkrar og D sýknað af kröfum A. Hins vegar var talið að B hafi mátt vera ljóst að sú háttsemi hennar að loka hurðinni með afli hafi verið hættuleg og hafi hún hlotið að gera sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar sú háttsemi gat haft í för með sér. Var hún því dæmd til greiðslu skaðabóta. B áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar. A gagnáfrýjaði fyrir sitt leyti gagnvart B og D með heimild í 3. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 innan frests sem þar er kveðið á um. Sá frestur gilti þó ekki gagnvart D, enda varðaði málskot B það ekki. Hefði A því borið að áfrýja gagnvart D innan fresta 1. og 2. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu því vísað frá Hæstarétti að því er varðaði D. Fyrir Hæstarétti krafðist B aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms þar sem héraðsdómara hefði borið að kalla til sérfróðan meðdómsmann með þekkingu á heilsufarslegum vandamálum hennar vegna Asperger-heilkennisins. Til vara krafðist hún sýknu þar sem sýnt væri fram á með nýjum gögnum um heilsufar hennar að ekki væru skilyrði til að fella á hana skaðabótaábyrgð. Talið var að staðið hafi verið þannig að málsvörn B í héraði að ekki hafi verið tilefni til að kveðja þar til setu í dómi sérfróðan mann um sjúkdóm hennar. Var því hafnað kröfu hennar um ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Þá var talið að henni hafi verið í lófa lagið að styðja þar kröfu sína um sýknu við þá málsástæðu sem hún haldi fram fyrir Hæstarétti og afla því til stuðnings matsgerðar og annarra sérfræðilegra gagna. Hafi þetta ekki verið gert. Ekki séu skilyrði til þess að þessi nýja málsástæða komist að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að B skyldi greiða A skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. maí 2008. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, en til vara að hún verði sýknuð af kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 2. júlí 2008 og krefst þess að aðaláfrýjandi og stefndi D kaupstaður verði í sameiningu dæmd til að greiða sér 9.732.098 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 15. nóvember 2005 til 13. september 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi D kaupstaður krefst þess aðallega að málinu verði að því er hann varðar vísað frá Hæstarétti og gagnáfrýjanda gert að greiða sér málskostnað hér fyrir dómi. Til vara krefst stefndi staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en að krafa gagnáfrýjanda verði ella lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Gagnáfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu.

I

Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 14. mars 2008. Með honum var aðaláfrýjandi dæmd til að greiða gagnáfrýjanda 9.732.098 krónur með tilgreindum vöxtum frá 15. nóvember 2005 til greiðsludags, en stefndi D kaupstaður var sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi fékk áfrýjunarstefnu gefna út 9. maí 2008 og beindist málskotið að gagnáfrýjanda, sem neytti heimildar samkvæmt 3. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum til að gagnáfrýja héraðsdómi innan þess sérstaka frests, sem þar er kveðið á um. Sá frestur gilti hins vegar ekki gagnvart stefnda D kaupstað, enda varðaði málskot aðaláfrýjanda hann ekki. Gagnáfrýjanda hefði því borið að áfrýja gagnvart stefnda innan þeirra fresta, sem um ræðir í 1. mgr. og 2. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Með því að það var ekki gert verður að fallast á kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá Hæstarétti að því er hann varðar. Rétt er að málskostnaður milli hans og gagnáfrýjanda falli niður hér fyrir dómi.

II

Eins og nánar greinir í héraðsdómi leitar gagnáfrýjandi í máli þessu skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda vegna varanlegs líkamstjóns, sem sú fyrrnefnda hlaut í starfi sem kennari þeirrar síðarnefndu í [...]skóla á D 15. nóvember 2005. Aðaláfrýjandi, sem var 11 ára að aldri, skellti þá aftur rennihurð, sem skildi að kennslustofu og geymsluherbergi, með þeim afleiðingum að gagnáfrýjandi hlaut verulegt höfuðhögg.

Aðaláfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt vottorð barna- og unglingageðlæknis 14. maí 2008. Þá fékk hún dómkvadda tvo slíka lækna 27. júní sama ár til að láta í té álit um í fyrsta lagi hvaða fötlun eða heilsufarslegu vandamál aðaláfrýjandi hafi verið greind með í nóvember 2005, í öðru lagi hvort þessi fötlun eða heilsufarslegu vandamál hafi haft áhrif á hæfni hennar til að bregðast við utanaðkomandi áreiti samanborið við heilbrigt barn á sama aldri, í þriðja lagi hvort og þá hversu mikið þessi atriði hafi haft áhrif á hegðun hennar í aðdraganda þess atviks, sem málið varðar, og loks í fjórða lagi hvort þessi atriði hafi haft áhrif á getu hennar til að gera sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna í umrætt sinn. Matsmennirnir luku matsgerð 26. september 2008 og staðfestu hana við skýrslugjöf fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 12. nóvember sama ár. Við málflutning fyrir Hæstarétti var viðurkennt af hálfu aðaláfrýjanda að sá annmarki sé á matsgerð þessari að matsmenn hafi ekki gætt að því að kveðja til matsfundar umboðsmenn annarra málsaðila og hafi þeir því ekki látið þessa sönnunarfærslu til sín taka. Því var á hinn bóginn borið við að þetta fái því ekki breytt að til matsgerðarinnar megi líta sem álits óháðra sérfræðinga um atriði, sem á reyni í málinu.

Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur á því að héraðsdómara hefði borið að kalla til sérfróðan meðdómsmann með þekkingu á heilsufarlegum vandamálum hennar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Aðaláfrýjandi sé með svokölluð Asperger-heilkenni, sem sé sjaldgæfur og flókinn sjúkdómur, og hafi ekki verið á færi leikmanna að dæma um áhrif hans á gerðir aðaláfrýjanda undir þeim kringumstæðum, sem voru á vettvangi atvika málsins. Hefði því borið nauðsyn til að fá atbeina sérfróðs meðdómsmanns til að meta framferði aðaláfrýjanda út frá þessari fötlun, enda hafi hún vegna þessara aðstæðna sinna brugðist við á annan hátt en góður og gegn nemandi myndi hafa gert og gildi því ekki um hana almennur mælikvarði sakarreglunnar, sem gagnáfrýjandi reisi kröfu sína á. Varakrafa aðaláfrýjanda um sýknu er byggð á því að sýnt sé með fyrrnefndum nýjum gögnum að ekki séu skilyrði til að fella á hana skaðabótaábyrgð fyrir að hafa átt þann hlut að slysi gagnáfrýjanda, sem áður er lýst.

Samkvæmt greinargerð aðaláfrýjanda í héraði var sýknukrafa hennar reist á því að hún hafi ekki skellt rennihurðinni af öllu afli, hún hafi ekki skellt hurðinni viljandi og ósannað væri að hún hafi vitað eða mátt vita að gagnáfrýjandi eða nokkur annar myndi stinga höfðinu í dyragættina um leið og hurðinni var lokað. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á sök aðaláfrýjanda. Til stuðnings varakröfu um lækkun skaðabóta til gagnáfrýjanda var því borið við að aðaláfrýjandi gæti ekki borið ábyrgð á hættulegum búnaði hurðarinnar, svo og að afleiðingar slyssins hafi orðið langt umfram það sem gæti talist fyrirsjáanlegt. Krafa gagnáfrýjanda væri því „utan þess sviðs sem tjónvaldur kann að bera ábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins.“ Í greinargerðinni var að sönnu tekið fram í atvikalýsingu að aðaláfrýjandi hafi verið greind með Asperger-heilkenni og þess getið í samhengi við það að sá sjúkdómur birtist meðal annars „í því að hún hefur átt erfitt með að mynda félagsleg tengsl við nemendur og kennara og skýrir það viðbrögð hennar við áreiti bekkjarfélaganna.“ Málsástæður í greinargerð fyrir dómkröfum hennar voru á hinn bóginn í engu á því reistar að þessi sjúkdómur eða fötlun hafi valdið því að hún hafi ekki mátt gera sér grein fyrir hættunni af því skella aftur hurðinni við þær aðstæður, sem voru á vettvangi slyssins. Við upphaf aðalmeðferðar málsins 3. mars 2008 lagði aðaláfrýjandi fram bækling með almennum upplýsingum um Asperger-heilkenni og var vikið að þessum sjúkdómi hennar eða fötlun í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Að öðru leyti verður ekkert ráðið af gögnum málsins um hvort eða hvernig á þessu kunni að hafa verið byggt við munnlegan flutning þess í héraði.

Samkvæmt framangreindu var staðið þannig að málsvörn aðaláfrýjanda í héraði að ekkert tilefni var til að kveðja þar til setu í dómi sérfróðan mann um sjúkdóminn eða fötlunina, sem hún á við að etja. Af þeim sökum getur ekki komið til álita að verða við kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Henni var og í lófa lagið að styðja þar kröfu sína um sýknu við þá málsástæðu, sem hún heldur nú fram fyrir Hæstarétti, og afla því til stuðnings matsgerðar og annarra sérfræðilegra gagna. Allt var þetta látið ógert. Ekki eru skilyrði samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 til að þessi nýja málsástæða komist að fyrir Hæstarétti.

Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti að virtu því, sem að framan segir, verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að staðfesta niðurstöðu hans að því er varðar kröfu gagnáfrýjanda um skaðabætur og vexti úr hendi aðaláfrýjanda. Verður aðaláfrýjanda jafnframt gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar kröfu gagnáfrýjanda, A, á hendur stefnda D kaupstað. Málskostnaður þeirra í milli fyrir Hæstarétti fellur niður.

Aðaláfrýjandi, B, greiði gagnáfrýjanda 9.732.098 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.523.100 krónum frá 15. nóvember 2005 til 15. maí 2006, af 10.913.391 krónu frá þeim degi til 3. ágúst 2007 og af 9.732.098 krónum frá þeim degi til 13. september 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2008.

I

Mál þetta var höfðað 10. september 2007 og dómtekið 3. mars 2008. Stefnandi er A, [...], Reykjavík. Stefndu eru D kaupstaður, [...] og C fyrir hönd ófjárráða dóttur sinnar, B, báðar til heimilis að [...]. Réttargæslustefndu eru Sjóvá Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík og Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 9.732.098 með 4,5% ársvöxtum af 1.523.100 krónum frá 15. nóvember 2005 til 15. maí 2006 en frá þeim degi af 10.913.391 krónu til 3. ágúst 2007 en frá þeim degi af 9.732.098 krónum til þingfestingardags en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.  Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefndu.

Komi til þess að stefndi D kaupstaður verði einn dæmdur skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda lækki krafan um 2.297.652 krónur miðað við greiðsludag þeirrar fjárhæðar hinn 9. maí 2007 og eru þá kröfur á hendur stefnda D kaupstað að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.434.446 krónur með 4.5% ársvöxtum af 1.523.100 krónum frá 15. nóvember 2005 til 15. maí 2006, en frá þeim degi af 10.913.391 krónu til 9. maí 2007 en frá þeim degi af 8.615.739 krónum til 3. ágúst 2007 en frá þeim degi af 7.434.446 krónum til þingfestingardags, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.  Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi D kaupstaður krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað. Til vara gerir hann þær kröfur að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Stefnda C fyrir hönd B gerir þær kröfur að hún verði sýknuð og stefnandi dæmd til að greiða henni málskostnað. Til vara krefst hún þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu í málinu og gera þeir engar kröfur heldur.

II

Málsatvik eru þau að stefnandi starfaði sem kennari við [...]skóla skólaárið 2005-2006 og kenndi hún 6. bekk C við skólann.  Einn nemendanna var ófjárráða dóttir stefndu C, B, en hún hefur verið greind með Aspergerheilkenni.  Hinn 15. nóvember 2005 voru nemendur stefnanda að undirbúa kynningu á landafræðiverkefni sem foreldrum var boðið á og var kynningin um það bil að hefjast þegar stefnandi áttaði sig á að B vantaði í nemendahópinn.  Fékk hún þær upplýsingar frá öðrum nemendum að B væri inni í geymslu sem er inn af skólastofunni en þeirri geymslu er lokað með rennihurð.  Stefnandi fór þá að sækja B og kveðst hún hafa opnað rennihurðina, rekið höfuðið inn í geymsluna og sagt B að allt væri klárt og hvort hún væri ekki að koma.  Þá hafi hún allt í einu fundið að rennihurðin skall á andliti hennar hægra megin á augað og hafi hún henst út í vegg og lent með höfuðið á veggnum vinstra megin. 

Samkvæmt gögnum málsins hafði B eitthvað sinnast við skólabræður sína og þess vegna fór hún inn í geymsluna umrætt sinn.  Umrædd geymsla var að sögn stefnanda lítið notuð og hafi nemendur ekki átt að vera þar inni.  Kveðst stefnandi hafa geymt gögn þar inni.

Er óumdeilt að stefnandi fékk töluverða áverka af þessu höggi og varð hún óvinnufær í kjölfar slyssins.  Á þessum tíma hafði stefnandi fengið úthlutað námsleyfi var hún í því leyfi skólaárið 2006-2007.  Í dag er stefnandi í veikindaleyfi.

Stefnandi leitaði til Heilsugæslunnar á D á slysdag en hún fann fyrir óþægindum og höfuðverk.  Kom hún þangað aftur í skoðun sex dögum síðar og var þá með veruleg óþægindi í hægra auga auk þess sem hún fann fyrir andlegri vanlíðan.  Hún reyndi að fara aftur til vinnu en gafst upp á því.  Fór síðasta skoðun fram á heilsugæslustöðinni í lok apríl 2006 og kemur fram í vottorði heilsugæslulæknisins að bati sé hægur og óþægindi viðvarandi.  Hún þjáist af höfuðverk, eymsli í hálsi og herðum.  Þá séu þreyta og þrekleysi enn að trufla hana.

Hinn 13. mars 2006 skoðaði Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis vettvang slyssins og lagði til í kjölfarið að ráðstafanir yrðu gerðar til að draga úr áhættu á slysum við rennihurðir skólans. Taldi eftirlitið að helst kæmi til greina að fjarlægja hurðirnar, hafa þær úr léttara efni eða setja upp búnað svo sem hemla á hurðirnar eða viðnám á rennsli þeirra.

Stefndi D kaupstaður hefur með höndum rekstur [...]skóla á D og var með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf. Stefnda C var með fjölskyldutryggingu hjá réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf.

Hinn 20. mars 2006 var réttargæslustefnda Sjóvá Almennum tryggingum hf. tilkynnt um slysið og hinn 14. apríl 2006 barst Vinnueftirlitinu slysatilkynning vegna þessa en viðbrögð við þeirri tilkynningu voru að engin rannsókn fór fram þar sem svo langur tími hafði liðið frá slysinu þegar það var tilkynnt.  Tryggingastofnun ríkisins var svo tilkynnt um slysið 17. nóvember 2006.

Í taugasálfræðilegri athugun Jónasar G. Halldórssonar, sérfræðings í taugasálfræði og fötlunum, frá 12. júlí 2006 kemur fram að úthald stefnanda sé lítið og að hún þoli illa áreiti. Þá sé hún haldin auknum kvíða, viðkvæmni og óöryggi. Þá eigi hún í erfiðleikum með lestur. 

Í læknisvottorði Guðrúnar R. Sigurðardóttur, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum 6. september 2006, sem skoðaði stefnanda um tíu mánuðum eftir slysið, kemur fram að stefnandi hafi verið með glóðarauga í þrjár vikur.  Þá hafi hún verið með þrálátan höfuðverk vinstra megin í höfði og að hún þoli illa hljóðáreiti.  Hafi hún verið í samtölum hjá sálfræðingi til þess að minnka kvíða sem hafi fylgt atburðinum.  Þá kemur fram hjá Guðrúnu að stefnandi eigi erfitt með einbeitingu auk þess sem hjá henni hafi greinst minnkun í hraða og öryggi í máltjáningu ásamt heyrnarnæmum minnisþáttum.  Þá hafi hún hlotið wiplash áverka og hafi borið á þunglyndi og svefntruflunum hjá henni.  Í vottorði Guðrúnar frá 9. mars 2007 kemur fram að stefnandi hafi greinilega minnkað þol við áreitum eins og ljósi og hljóðum og fái hún auðveldlega höfuðverk.  Þá hafi nám hennar gengið erfiðlega og hún sé í stöðugri lyfjameðferð.

Með matsbeiðni 5. janúar 2007 óskuðu réttargæslustefndu og stefnandi eftir mati Sigurðar Thorlacius læknis og Jörundar Gaukssonar héraðsdómslögmanns á afleiðingum slyssins og hinn 2. apríl 2007 skiluðu matsmenn matsgerð.  Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að stefnandi hafi verið óvinnufær til 30. apríl 2006.  Stöðugleikapunktur miðist við þann dag og að varanlegur miski hennar og varanleg örorka sé 20%. 

Með matsbeiðni 10. janúar 2007 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta umrædda rennihurð og búnað hennar.  Hinn 9. febrúar 2007 var Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur dómkvaddur til starfans og er matsgerð hans dagsett í maí 2007.

Hinn 9. maí 2007 greiddi réttargæslustefndi, Sjóvá Almennar hf., stefnanda 2.297.652 krónur í bætur úr slysatryggingu launþega.

Með bréfum lögmanns stefnanda 22. maí 2007 til réttargæslustefndu var þeim send matsgerð hins dómkvadda matsmanns og var óskað afstöðu þeirra til bótaskyldu stefndu.  Þá sendi lögmaður stefnanda réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf. bréf 26. júní 2007 þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að frumorsök slyss stefnanda mætti rekja til ásetnings eða gáleysis B.  Með tölvupósti 26. júní 2007 hafnaði réttargæslustefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. því að stefnandi ætti rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu stefnda D kaupstaðar, þar sem sá síðarnefndi væri ekki skaðabótaskyldur vegna tjónsins.  Með bréfi 6. júlí 2007 hafnaði réttargæslu­stefndi Tryggingamiðstöðin hf. því að stefnandi ætti rétt til bóta úr fjölskyldutryggingu stefndu C, þar sem ósannað væri að B hefði með saknæmri háttsemi valdið tjóni stefnanda, heldur væri um að ræða óhappatilvik.

Stefnandi óskaði hinn 30. maí 2007 eftir mati Örorkunefndar á afleiðingum slyssins.  Í áliti nefndarinnar frá 15. ágúst 2007 kemur fram að nefndin metur afleiðingar slyssins til 20% varanlegs miska en telur hins vegar að varanleg örorka stefnanda sé 25%. Þá telur nefndin að stöðugleikapunktur sé 15. maí 2006 og að stefnandi hafi verið veik án þess að vera rúmliggjandi frá 15. nóvember 2006 til 15. maí 2006.

Í málinu er ekki deilt um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda heldur snýst megin ágreiningur um skaðabótaskyldu stefndu.

III

Stefnandi kveðst miða kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku við laun síðustu 3ja almanaksára fyrir slysið.  Þá hafi ríkið greitt 11.5% lífeyrisframlag á móti stefnanda í A deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og 2% framlag í séreignarsjóð. Viðmiðunartekjur séu uppfærðar miðað við meðalvísitölu hvers árs til 15. maí 2006 en þá sé launavísitala 289.1.  Þannig séu viðmiðunartekjur stefnanda eftir árum sem hér segir.

Árið 2002 kr. 2.996.393. Launavísitala 226.4/289.1                               kr. 3.826.224

Árið 2003 kr. 2.893.024. Launavísitala 239.1/289.1                               kr. 3.498.006

Árið 2004 kr. 3.292.434. Launavísitala 250.3/289.1                               kr. 3.802.807

Meðaltekjur uppfærðar með launavísitölu til 15. maí 2006 séu því kr. 3.709.012 krónur. Stefnandi sé fædd 12. júlí 1964 og hafi því verið 41 árs á slysdegi.  Stuðull samkvæmt 6.gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé því  10.127.  Miðað við 25% varanlega örorku sé krafa hennar 9.390.291 króna.  Frá dragist eingreiðsla frá slysatryggingar­deild Tryggingarstofnunar  ríkisins frá 3. ágúst 2007 að fjárhæð 1.181.293 krónur. Krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 8.208.998 krónur.

Fullur varanlegur miski samkvæmt 4.gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miðað við ágúst 2007 sé 6.569.000 krónur.  Miðað við 20% varanlegan miska sé krafa stefnanda 1.313.800 krónur.

Samkvæmt áliti Örorkunefndar hafi stefnandi verið veik án þess að vera rúmliggjandi frá slysdegi til 15. maí 2006.  Miðað við fjárhæð þjáningabóta 1.150 krónur í ágúst 2007 nemi krafa stefnanda vegna þjáningabóta 209.300 krónur.   Samtals sé því krafa stefnanda að fjárhæð 9.732.098 krónur.

Við aðalmeðferð málsins kvað lögmaður stefnanda það óumdeilt að réttargæslustefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. hefði greitt stefnanda 2.297.652 krónur úr slysatryggingu launþega.  Þrátt fyrir það taldi hann ekki rétt að breyta kröfugerð stefnanda en ef til þess komi að stefndi D kaupstaður verði einn dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur sé krafan á hendur honum sú sama og greini í stefnu allt að frádregnum 2.297.652 krónum sem dragist frá kröfunni miðað við greiðsludag þeirrar fjárhæðar hinn 9. maí 2007.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að slysið megi bæði rekja til þess að rennihurð sú sem skildi af skólastofu og herbergi innan af skólastofu hafi verið hættuleg og ekki í samræmi við þær kröfur sem gera verði til hurða í skólastofum.  Sé um það vísað til álits dómkvadds matsmanns sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að hurðin væri haldin vanköntum.  Á hurðinni hafi ekki verið hemlunarbúnaður auk þess sem hún hafi verið utanáliggjandi sem væri þess valdandi að hægt væri að renna henni af miklu afli.  Það ásamt þunga hurðarinnar hafi gert hana hættulega.  Þá hafi flái hurðarinnar sem endi við vegg verið 4 mm sem hafi gert hurðina óþarflega hættulega.  Hafi matsgerð hins dómkvadda matsmanns ekki verið hnekkt.

Þá bendi stefnandi einnig á athugasemdir Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, sem hafi eftirlit með skólahúsnæði á grundvelli reglugerðar nr. 941/2002.  Þannig hafi hurðin ekki uppfyllt þær öryggisreglur sem mælt sé fyrir um í 37.gr. reglugerðarinnar og hafi hún verið óþarflega hættuleg miðað við staðsetningu.  Þá sé einnig vísað til III. kafla laga um grunnskóla nr. 66/1995, en samkvæmt honum sé rekstur og viðhald skóla­húsnæðis á ábyrgð þess sveitarfélags sem reki skólann.  [...]skóli sé rekinn af stefnda D kaupstað.  Hafi heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis krafist úrbóta á frágangi hurðarinnar og það sé til marks um hversu hættuleg hurðin hafi verið.  Sé því á því byggt að stefndi D kaupstaður beri skaðabótaábyrgð samkvæmt almennu sakarreglunni þar sem búnaður hurðarinnar hafi ekki verið eins og við megi búast í skólahúsnæði og andstæður þeim reglum er gildi um slíkt húsnæði.

Sú staðreynd að hurðin hafi nú verið tekin úr notkun og fest með nöglum segi í raun allt sem segja þurfi.  Í því felist ákveðin viðurkenning á því að hurðin hafi verið hættuleg.  Hinar alvarlegu afleiðingar slyssins styðji einnig fullyrðingu stefnanda um hættulega eiginleika hurðarinnar.

Þá sé einnig á því byggt að slysið megi rekja til þess að B hafi skellt hurðinni af öllu afli á stefnanda eftir að hún leit inn í herbergið.  Hafi hún þannig af ásetningi valdið stefnanda líkamstjóni.  Til vara sé því haldið fram að nemandinn hafi af gáleysi rennt hurðinni af fullu afli á höfuð kennarans.  Hafi nemandinn þekkt vel til hurðarinnar enda hafði hún verið eitt skólaár í sömu skólastofu.  Þá hafi hún vitað að hún mætti ekki vera í geymslunni sem sé ekki hluti af skólastofunni og hafi hún því verið þarna í óleyfi.  Þá hafi henni mátt vera ljóst að skapast gæti hætta ef þungri hurðinni væri skellt af alefli þegar einhver væri í hurðagættinni.  Voru athafnir hennar því í andstöðu við það sem góður og gegn nemandi aðhafist við slíkar aðstæður.  Beri B því ábyrgð á grundvelli almennu sakarreglunnar á öllu því tjóni sem hlaust af hinni saknæmu hegðan hennar, hvort sem tjónið verði rakið til ásetnings eða gáleysis hennar.

Stefnandi vísar til 51.gr. lögræðislaga nr. 71/1997 varðandi aðild stefndu C, móður B, en hún hafi verið með ábyrgðarþátt í fjölskyldutryggingu hjá réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf.  Þá hafi stefndi D ­kaupstaður ábyrgðar­tryggingu hjá réttargæslustefnda Sjóvá Almennum tryggingum hf. og um ábyrgð hans vísist til 91. gr. laga nr. 20/1954. 

Um þjáningabætur vísar stefnandi til 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um miska til 4.gr. sömu laga og um varanlega örorku til 5.-7.gr. sömu laga.  Þá sé um ársvexti vísað til 16.gr. sömu laga.  Um málskostnað vísar stefnandi til 130.gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þess sérstaklega krafist að matskostnaður og kostnaður vegna endurmats Örorkunefndar verði greiddur stefnanda í formi málskostnaðar. 

IV

Málsástæður og lagarök stefnda D kaupstaðar

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að ósannað sé að tjón stefnanda verði rakið til meints vanbúnaðar á rennihurð eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.  Um ábyrgð stefnda fari samkvæmt sakarreglunni.   Sé því mótmælt að beita skuli ströngu sakarmati gagnvart stefnda, eins og stefnandi virðist byggja á.   Byggi stefndi á því að orsök tjóns stefnanda megi að öllu rekja til háttsemi meðstefndu og/eða til óhappatilviljunar.

Stefndi D kaupstaður reisi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að tjón stefnanda megi að öllu leyti rekja til háttsemi meðstefndu. Af gögnum málsins blasi við að slys stefnanda verði alfarið rakið til þess að meðstefnda hafi skellt rennihurð á höfuð stefnanda þegar hún hugðist sækja meðstefndu úr geymslurýminu.  Af gögnum málsins megi ætla að um óhapp hafi verið að ræða en það sé stefnda óviðkomandi og geti ekki haft áhrif á bótaskyldu hans.

Í öðru lagi byggi stefndi sýknukröfu sína á því að umrædd rennihurð hafi ekki verið vanbúin auk þess sem orsök slyss stefnanda verði ekki rakið til vanbúnaðar  rennihurðarinnar.

Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns og að mati stefnda séu ekki skilyrði til að víkja frá þeirri meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á stefnda.  Í því sambandi er rétt að benda á að [...]­skóli hafi verið byggður í tveimur áföngum og hafi umrædd kennslustofa tilheyrt síðari áfanganum.  Sá áfangi hafi verið tekinn í notkun árið 1992 og hafi umrædd rennihurð verið til staðar og verið í fullri notkun frá þeim tíma.  Sömu tegund renni­hurðar sé einnig að finna á öðrum stað í byggingunni og hafi engin slys hlotist af notkun hurðanna frá því skólinn var byggður.

Mótmæli stefndi því sem röngu og ósönnuðu að rennihurðin hafi verið haldin vanköntum og að hún hafi ekki verið í samræmi við gildandi reglur um byggingu og aðbúnað í skólahúsnæði, líkt og stefnandi byggi á.  Hafi kennslustofan og vinnslu­rýmið sem hurðinni sé ætlað að skilja frá kennslustofunni verið byggð að öllu leyti í samræmi við teikningar, hönnunargögn  og þau laga- og reglugerðarákvæði sem giltu um skólahúsnæði, sbr. VIII. kafli reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og laga nr. 66/1995 um grunnskóla.  Þannig hafi hurðin uppfyllt þær öryggiskröfur sem mælt sé fyrir um í lögum og byggingarreglum, meðal annars í 37. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Stefndi bendi á að engar sérstakar reglur gildi í dag eða hafi gilt á byggingartíma um stærð, þyngd eða aðra eiginleika hurða, þ.m.t. rennihurða.  Sé því með öllu ósannað að umrædd rennihurð hafi brotið gegn ákvæðum framangreindrar reglugerðar eða öðrum lagareglum.  Þessu til stuðnings bendi stefndi á að Vinnueftirlit ríkisins hafi mætt reglulega í skólann frá byggingu hans til að hafa eftirlit með aðbúnaði og aldrei hafi sú stofnun gert athugasemdir við frágang rennihurðarinnar.

Hafi umrædd rennihurð uppfyllt allar þær öryggiskröfur sem almennt séu gerðar til innréttinga í skólahúsnæði.  Stefndi hafni því að rennihurðin hafi verið þannig útbúin að sérstök hætta, umfram aðrar hurðir, hafi stafað frá rennihurðinni eða að hún hafi verið hættuleg vegna frágangs hennar.  Sé fráleitt að álit Heilbrigðiseftirlits Kjósar­svæðis hafi nokkuð sönnunargildi í málinu sem geti skotið stoðum undir meinta bótaábyrgð stefnda vegna slyssins.  Þá mótmæli stefndi því harðlega að niðurstöður dómkvadds matsmanns í matsgerð geti orðið grundvöllur undir bótaskyldu stefnda vegna slyssins.

Mótmæli stefndi því að það að hurðin sé utanáliggjandi auki sérstaklega hættueiginleika hurðarinnar og bendir á að þær rennihurðir sem séu innbyggðar í veggi hafi að geyma sérstaka hurðarhúna eða handföng sem geri það einnig að verkum að auðvelt sé að ná taki á þeim og renna þeim af miklu afli.  Útilokað hefði því verið að koma í veg fyrir slysið með því að hafa hurðina innbyggða, líkt og matsmaður ýi að.  Sé alkunna að rennihurðir séu oft utanáliggjandi og það eitt og sér geri hana ekki hættulegri en aðrar hurðir.

Umrædd rennihurð sé þannig smíðuð að henni sé ætlað að leggjast að vegg sem myndi 45 gráðu horn á hurðina.  Skýrist þetta af því að rýmið sem hurðin sé að standi í horni kennslustofunnar.  Af þeim sökum sé hurðarkanturinn óhjákvæmilega með fláa svo hann leggist upp að veggnum þegar hurðinni sé lokað.  Sé því alfarið mótmælt að þetta geri hurðina hættulegri en ella.  Sem úrbót á þessum meinta annmarka leggi matsmaður til að karmstykki verði fest á vegginn sem hurðin leggist að svo að stykkið myndi 90 gráðu horn við hurðarflekann.  Stefndi bendi á í því sambandi að sérstakur hurðarfals, sem hurðinni sé ætlað að rennast inn í, sé til þess fallinn að auka jafnvel enn frekar á hættueiginleika hurðarinnar, verði eitthvað á milli hennar og veggjarins þegar henni sé lokað.  Þannig auki það líkurnar á því að alvarlegri meiðsli hljótist af, til dæmis ef einhver klemmir sig á milli hurðarinnar og falsins.  Slík ráðstöfun myndi því síður en svo draga úr hættunni á líkamstjóni.

Stefndi kveðst ekki geta útilokað að hægt sé að draga úr slysahættu með því að koma bremsubúnaði fyrir á rennibúnaði hurðarinnar.  Hann bendir hins vegar á að mjög fátítt sé að rennihurðir séu með slíkum útbúnaði og sé það sé jafnvel óþekkt.  Þá beri að hafa í huga að hurðin, ásamt annarri samskonar hurð annars staðar í byggingunni, hafði verið notuð frá árinu 1992 og aldrei á þeim tíma valdið slysum á fólki eða ógnað öryggi starfsmanna eða nemenda.  Hafi stefndi því ekki mátt ætla að bremsuútbúnaðar væri þörf, enda ekkert sem kveði á um það í byggingarreglugerðum eða hönnunar­gögnum.

Í niðurstöðum matsgerðar hins dómkvadda matsmanns sé jafnframt fullyrt að rennihurðin sé almennt talið hættuleg, sérstaklega vegna eðli skólahúsnæðis.  Þá taki matsmaður undir sjónarmið Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis sem telji hurðina of þunga og því sé hún frekar til þess fallin að valda slysum.  Þessu hafni stefndi alfarið og bendi á að frágangur hurðarinnar sé að öllu leyti eðlilegur og í samræmi við almennar kröfur um útbúnað innréttinga í skólahúsnæði.  Umrædd hurð sé alls ekki þung miðað við stærð hennar en það sé stærð hurðarinnar sem fyrst og fremst ráði þyngdinni. Stefndi fullyrðir að erfitt hefði verið að hafa hurðina léttari og bendir sérstaklega á að hurðin sé ekki tréfyllt eða spónlögð eins og aðrar hurðir í skólanum. Þetta geri hana léttari en aðrar hurðir skólans miðað við stærð.

Þá mótmæli stefndi þeirri fullyrðingu matsmanns að hurðin sé stærri en almennt sé um rennihurðir milli herbergja.  Komi rennihurðir í öllum stærðum og gerðum og útilokað sé að tala um eina almenna stærð slíkra hurða.  Þvert á móti sé ekkert óeðlilegt við stærð hurðarinnar eða þyngd hennar og allar fullyrðingar stefnanda í þá veru séu ósannaðar. 

Að mati stefnda sé útilokað að hanna hurðir með þeim hætti að engin hætta geti stafað af þeim auk þess sem ómögulegt sé að gera þá kröfu til fasteignareigenda að þeir hanni mannvirki sín með þeim hætti að af þeim geti engin hætta stafað.  Slíkar kröfur væru augljóslega alltof íþyngjandi fyrir fasteignareigendur.  Almennar öryggiskröfur lúti eingöngu að því að fasteignareigendur hagi innréttingum fasteigna þannig að sem minnst hætta stafi af þeim og sé ljóst að stefndi hafi gert það.  Beri þá sérstaklega að hafa í huga að hættueiginleikar hurða, þ.m.t. rennihurða, séu yfirleitt metnir með það fyrir augum að einhver geti klemmst á milli stafs og hurðar.  Eigi þetta sér í lagi við um hurðir í grunnskólahúsnæði.  Ekki sé hægt að gera þá kröfu að höfð sé í huga við smíði hurða sú hætta sem geti stafað af þeim, sé þeim skellt á höfuð þeirra sem ganga inn um þær, enda verði slíkt að teljast afar ósennilegt.   Eigi þetta ekki síst við þegar litið sé til þess að hurðin hafi verið að geymslurými sem almennt megi ætla að ekki sé mikill umgangur um og hætta því að sama skapi lítil af völdum hennar.

Þá mótmæli stefndi því að í þeirri háttsemi stefnda að taka rennibúnað hurðarinnar úr notkun eftir slysið hafi falist viðurkenning á hættueiginleikum hurðarinnar umfram aðrar hurðir.  Hafi hann talið öruggara að festa hurðina í ljósi slyssins og hafi það eingöngu verið gert til að fyrirbyggja fleiri slys, þótt afar ósennileg væru.  Reyni stefndi eftir fremsta megni að tryggja öryggi kennara og nemenda og kappkosti að takmarka slysahættu í skólabyggingum sínum.

Varakrafa stefnda um verulega lækkun sé byggð á því að lækka verði skaðabótakröfu stefnanda með tilliti til greiðslu réttargæslustefnda Sjóvár Almennra trygginga hf. úr slysatryggingu launþega.  Hinn 9. maí 2007 hafi réttargæslustefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. greitt stefnanda 2.297.652 krónur og beri að draga þessa greiðslu frá bótakröfu stefnanda, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá frá höfuðstólnum en ekki sem innborgun inn á kröfu stefnanda miðað við greiðsludag.

Um lagarök vísi stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, laga nr. 66/1995 um grunnskóla og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.   Um málskostnað vísi hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefndu C fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar B.

Stefnda mótmælir því að B hafi skellt hurðinni af öllu afli á kennara sinn eftir að hún leit inn í herbergið.  Sé það algerlega ósannað að sú hafi verið raunin og sé því harðlega mótmælt að B hafi viljandi skellt hurðinni á kennara sinn.

Hafa beri í huga að alfarið sé hér byggt ódagsettri frásögn stefnanda af atvikinu og verði úrlausn dómsmáls ekki byggð á slíkri skýrslu nema að því marki sem hún sé skýrslugefanda  óhagstæð og vísist um þetta til einkamálalaga nr. 91/1991.

Hvað varði meint gáleysi B sé það sama uppi á teningnum að ósannað sé að hún hafi vitað eða mátt vita að kennarinn eða einhver annar myndi stinga höfðinu í gættina um leið og hurðinni var lokað.

Sé það almenna skaðabótareglan sem hér sé er til skoðunar og til þess að hún komi yfirleitt til álita sem bótagrundvöllur þurfi að vera um sök að ræða hjá meintum tjónvaldi og það sé stefnenda að sýna fram á að svo hafi verið.  Því sé eindregið mótmælt að um slíkt geti verið að ræða varðandi B, enda liggi ekkert fyrir í málinu um vitneskju hennar að þessu leyti.  Sé það stefnandi sem beri sönnunar­byrðina um að það sem hún byggi á í málinu teljist sannað og þar sem sú sönnun hafi ekki tekist gagnvart stefndu og hljóti því að verða að sýkna hana af kröfum stefnanda í málinu.  Þá geti barnið B aldrei borið ábyrgð á hættulegum búnaði hurðar­innar sé sú raunin og einnig verði að telja að afleiðingar slyssins fyrir stefnanda séu langt umfram það sem geti talist fyrirsjáanlegt miðað við atburðarásina, eða vávænar og krafa stefnanda því utan þess sviðs sem tjónvaldur kann að bera ábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins.

V

Stefnandi hefur byggt kröfur sínar á hendur báðum stefndu á því að þau beri ábyrgð á tjóni hennar á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.  Beri stefndi D ­kaupstaður skaðabótaábyrgð þar sem umrædd rennihurð hafi verið hættuleg og búnaður hennar ekki verið eins og við mátti búast í skólahúsnæði og hafi hann verið andstæður þeim reglum sem gildi um skólahúsnæði.  Stefnda C fyrir hönd B beri skaðabótaábyrgð þar sem B hafi með saknæmri hegðun sinni annaðhvort af ásetningi eða gáleysi valdið tjóninu.

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda D kaupstað fyrst og fremst á matsgerð Freys Jóhannessonar byggingatæknifræðings. Samkvæmt matsbeiðni var hann beðinn um að gefa álit á því hvort umrædd hurð uppfyllti almennar kröfur um útbúnað slíkra hurða í skólastofum.  Þá var hann beðinn um álit á því hvort hurðin hafi verið hættuleg eins og hún var útbúin miðað við hvar hún væri.

Í svari hans kemur fram að erfitt sé að benda á ákvæði í lögum og reglugerðum sem kveði á um útfærslu á hurðum í skólastofum og verði því að draga almennar ályktanir af þeim ákvæðum sem geri kröfur um öryggi þeirra sem dvelji í slíku húsnæði. 

Í 37. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 segir að innréttingar og búnað skuli miða við að auka öryggi og koma í veg fyrir slys og vera í samræmi við staðla.  Í 18. gr. laga um grunnskóla  nr. 66/1995 segir að grunnskólinn sé vinnustaður nemenda og við hönnun og byggingu skólahúsnæðis skuli taka mið af þörfum nemenda og líðan og leggja áherslu á öruggt náms- og starfsumhverfi.

Í byggingarreglugerð nr. 441/1998 eru ákvæði um að íslenskir staðlar skuli almennt vera leiðbeinandi við gerð bygginga og annarra mannvirkja og á þeim sviðum sem staðlar taki ekki til skuli við hönnun og framkvæmdir höfð hliðsjón af leiðbeiningar­ritum, orðsendingum, tilkynningum og öðrum sérritum sem stofnanir sem sjá um byggingarmál gefi út.  Þá segir í henni að innra fyrirkomulag húsa skuli þannig hannað og frágengið að það henti almennt séð vel til þeirra nota sem því sé ætlað og sé vandað og hagkvæmt með tilliti til öryggis, heilbrigðis, aðgengis og afnota allra svo og til reksturs og viðhalds.  Í svokölluðu Rb blaði Rannsóknarstofnunar byggingar­iðnaðarins frá 2002 (Rb(72).002.2) um innréttingar og búnað í grunn- og leikskólum með tilliti til öryggis barna, þar sem fjallað er um klemmuvarnir hurða, segir að mikilvægt sé að hafa hurðabremsur á innihurðum því mjög mörg slys á fingrum hafi orðið þegar börn skelli hurðum eða þær lokist í gegnumtrekk.

Framangreind ákvæði eru almenns eðlis og má af málatilbúnaði stefnanda ráða að hann byggi á að þessum ákvæðum hafi ekki verið fullnægt við gerð þeirrar hurðar sem í máli þessu er fjallað um.  Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns er ekki tekin afstaða til þess hvort og þá hvaða reglur hafi verið brotnar og er það niðurstaða matsmannsins að erfitt sé að benda á ákvæði í lögum og reglum sem kveði á um útfærslu á hurðum í skólastofum og verði því að draga almennar ályktanir af þeim ákvæðum sem geri kröfur um öryggi þeirra sem dvelji í slíku húsnæði.

Helstu annmarka á hurðinni telur matsmaður vera að hún sé utanáliggjandi en ekki innbyggð, hurðarkanturinn sé með fláa og ekki sé bremsa á henni eða rennibraut hennar.  Þá kemur fram hjá matsmanni að algengast sé að rennihurðir séu innbyggðar í léttan vegg auk þess sem hún sé stærri en rennihurðir milli herbergja séu almennt. Í svari matsmanns varðandi það hvort umrædd hurð væri hættuleg þá taldi hann svo vera með vísan til þeirra annmarka sem hann teldi vera á hurðinni og að framan eru raktir.

Hinn dómkvaddi matsmaður rökstyður þá niðurstöðu sína, að hurðin sé haldin annmarka þar sem hún sé utanáliggjandi, með því að þá sé hægt að renna henni með miklu afli að veggnum.  Ef hún væri innbyggð væri ekki hægt að ná eins góðu taki á henni.  Þessi rök matsmannsins eru að mati dómsins ekki haldbær.  Þykir ekkert verða fullyrt um það að ekki væri hægt að ná góðu taki á henni og renna hurðinni með sama afli að veggnum væri hún innbyggð.  Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum rökum að það auki sérstaklega hættueiginleika hurðarinnar að hún sé utanáliggjandi og að hægt hefði verið að koma í veg fyrir slysið hefði hurðin verið innbyggð í vegg.

Þá telur matsmaður að hurðin sé haldin annmarka að því leyti að vegna fláa á kanti hurðarinnar myndist um 4 mm breiður flötur og gefi hann allt að tíu sinnum meira högg á flatareiningu á þann flöt sem verði á milli við lokun hennar heldur en ef kanturinn væri með fullri breidd og hornréttur á hurðarflekann.  Í þessu sambandi hlýtur að skipta máli hvernig staða þess er sem verður fyrir hurðinni og er allt eins líklegt að hurðarkantur í fullri breidd geti valdið miklu tjóni á þeim sem verður á milli stafs og slíkrar hurðar.  Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á það svo óyggjandi sé að fláinn á hurðarkantinum hafi aukið hættueiginleika hurðarinnar með tilliti til þess áverka sem stefnandi varð fyrir.

Þá er það niðurstaða matsmanns að hurðinni sé ábótavant að því leyti að ekki hafi verið á henni bremsa.  Telur hann að hægt væri að draga úr slysahættu með því að hafa bremsu á hurðinni sem myndi draga úr hraða hennar við lokun.  Fyrir dómi bar matsmaður að hann teldi að slíkur búnaður væri til á markaði, en ef til vill þyrfti þá að skipta um rennibraut.  Vitnið Maggi Jónsson, arkitekt, sem teiknaði skólabygginguna og þar með umrædda geymslu og rennihurð, kvað slíkan búnað ekki til á markaði nema þegar um væri að ræða rafdrifnar hurðar.  Ekki hefur verið sýnt fram á það í málinu að til hafi verið búnaður sem komið gæti í veg fyrir slys af því tagi sem um er að ræða í máli þessu.  Dómurinn telur að á hurðarbúnaði þeim sem hér um ræðir, hurð eða vegg sem hurðin lokast að, þurfi að vera klemmivörn af einhverju tagi.  Hvað aðra þætti hurðarinnar sem fjallað er um í matsgerð snertir er ekki fallist á að um annmarka sé að ræða.  Hurðin er ekki stærri en tilefni gefst til, og ekkert sem gefur til kynna að þyngd hennar sé ekki eðlileg.  Þá er flái á kanti eðlilegur miðað við staðsetningu hurðarinnar og að auki er algengt að rennihurðir séu utanáliggjandi.  Miðað við breidd hurðarinnar og hurðaropsins hefði klemmivörn ekki byrjað að virka fyrr en hurðin hefði verið komin það nærri mótveggnum að það hefði engu breytt um að hún hefði skollið á stefnanda hvort sem er.

Þá var matsmaður beðinn um álit á því hvort þær athugasemdir sem gerðar hafi verið af Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis hefðu átt rétt á sér.  Telur hann að þær hafi átt fyllilega rétt á sér svo langt sem þær nái og séu þær í góðu samræmi við niðurstöður matsmanns.

Í bréfi Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis 19. apríl 2006 kemur fram að eftirlitið hafi skoðað vettvang slyssins og þær rennihurðir sem í skólanum eru.  Segir þar að umræddar hurðir séu þungar og fláinn á enda þeirra myndi nokkuð skarpa brún.  Þá segir orðrétt: “Að öllum líkindum getur hreyfiorka hurðanna verið umtalsverð þar sem þær eru þungar og leika hangandi í rennibraut. Áverkarnir sem verða í þessu slysi eru til merkis um það.  Áhættan sem fylgir notkun rennihurðanna getur verið umtalsverð ef slysin sem geta orðið eru alvarleg.  Þá er æskilegt að grípa til aðgerða jafnvel þótt líkur á slysi séu litlar enda getur slys valdið alvarlegum líkamsáverkum.”  Leggur heilbrigðiseftirlitið til að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr áhættu á slysum vegna hurðanna. 

Ekki verður af þessu bréfi Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis ráðið að umræddar hurðir hafi ekki uppfyllt þær öryggiskröfur sem mælt sé fyrir um í 37. gr. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 svo sem stefnandi virðist byggja á.  Hins vegar má af bréfinu draga þá ályktun að eftirlitið telji með hliðsjón af því slysi sem varð að hreyfiorka hurðarinnar sé umtalsverð þar sem hún sé þung og leiki hangandi á rennibraut.  Þá verður heldur ekki af bréfi þessu ráðið að krafist sé úrbóta heldur er lagt til að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr hættu á slysum og gefnar tillögur í þeim efnum. 

Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að umrædd hurð hafi verið haldin vanköntum og að hún sé ekki í samræmi við gildandi reglur um byggingu og aðbúnað í skólahúsnæði.  Umrædd geymsla var ekki ætluð nemendum og áttu þeir ekkert erindi inn í hana.  Þá verður ekki séð að með því að festa hurðina eftir slysið hafi stefndi D kaupstaður viðurkennt að hurðin væri hættuleg.  Þykir ljóst að orsök slyssins var sú að hurðinni var skellt á höfuð stefnanda en hún verður ekki rakin til hættueiginleika hurðarinnar sem slíkrar.  Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á það að stefndi D ­kaupstaður beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda og verður hann því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Eins og fram er komið var aðdragandi slyssins sá að B sinnaðist við skólafélaga sína og fór hún í kjölfarið inn í umrædda geymslu.  Stefnandi hugðist sækja hana og hvort sem hún þurfti að opna hurðina eða hvort hún var opin fyrir er ljóst að hún stakk höfðinu í gættina til að ræða við stúlkuna.  Í þeirri andrá sem hún stakk inn höfðinu kveðst hún hafa spurt B hvort hún ætlaði ekki að fara að koma og þá hafi hurðin skollið á henni.  Er óumdeilt að B lokaði hurðinni umrætt sinn.  Stefnandi kveður hurðina hafa skollið á sér með miklum þunga og hafi hún við það kastast út í vegginn hinum megin.  Fær sú lýsing stoð í læknisvottorði heilsugæslulæknis sem tók á móti henni á slysdegi.  Þá fær sú lýsing einnig stoð í framburði vitnisins Dagbjartar H. Kristinsdóttur, sem er hjúkrunar­fræðingur, en hún var stödd í kennslustofunni þegar atburðurinn átti sér stað.  Kvaðst hún ekki hafa séð þegar hurðin lenti á stefnanda en hún hafi strax séð að áverkarnir væru alvarlegir.  Þá bera afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda vott um að hurðin skall með þunga á vinstri vanga hennar og við það kastaðist hún yfir á vegginn á móti og lenti með höfuðið á veggnum.  Þykir því engum vafa undirorpið að hurðinni var lokað með miklum krafti.

Við mat á því hvort tjónvaldur geti borið skaðabótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar þurfa að liggja fyrir að sérstakar huglægar afsökunarástæður eigi ekki við um hann svo sem æska eða skortur á andlegri heilbrigði.  Í málinu liggur fyrir að B hefur verið greind með Aspergerheilkenni.  Í fyrirliggjandi bæklingi um þá fötlun segir meðal annars að Aspergerheilkenni sé ekki sjúkdómur heldur fötlun skyld einhverfu.  Kemur þar og fram að ólíkt flestum einhverfum hafi einstaklingar með Aspergerheilkenni ekki alvarlega skertan mál- og vitsmunaþroska. Komi lykil­einkenni Aspergerheilkennis fram á tveim sviðum, annars vegar í félagstengslum og samspili við aðra og hins vegar í sérkennilegri og áráttukenndri hegðun og áhugamálum.

Samkvæmt gögnum málsins hefur B góða námsgetu og gerir hún greinarmun á réttu og röngu.  Þetta staðfestu móðir hennar, stefnandi sem hafði einnig verið kennari hennar í 5. bekk og sérkennari hennar E.  Kom fram hjá móður hennar að fötlun hennar hafi helst háð henni félagslega og hún lendi oft í útistöðum. Þá kvað hún dóttur sína hafa sérkennileg áhugamál og að hún þoli illa breytingar.  Hún hafi verið þunglynd og líði oft illa.  Þá kom fram hjá vitninu E að B væri mjög hvatvís og hún verði til dæmis pirruð ef röskun verður á stundaskrá hennar.

B var nýorðin 11 ára þegar atburður sá sem hér er fjallað um átti sér stað.  Af því sem að framan er rakið þekkti hún muninn á réttu og röngu og er ekkert í málinu sem bendir til þess að fötlun hennar hafi skert dómgreind hennar eða að vitsmunaþroski hennar hafi verið minni en almennt hjá börnum á sama aldri.  Ekkert liggur fyrir um það í málinu að B hafi ætlað sér að skella hurðinni á stefnanda umrætt sinn heldur er líklegra að hvatvísi hennar hafi þar ráðið för eða reiði vegna þess að henni hafði sinnast við skólabræður sína.  Á hinn bóginn mátti henni vera ljóst, að sú háttsemi hennar að loka hurðinni með afli eins og slegið hefur verið föstu að hún gerði, væri hættuleg og hlaut hún að gera sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar sú háttsemi gat haft í för með sér.  Verður ekki séð á hverju stefnda C byggir að krafa stefnanda sé utan þess sviðs sem tjónvaldur kunni að bera ábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins, en sú krafa hennar er ekki rökstudd.  Að því virtu sem nú hefur verið rakið ber B skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Eins og rakið hefur verið er ekki ágreiningur um afleiðingar tjónsins og hefur matsgerð Örorkunefndar ekki verið hnekkt í málinu.  Verður dómkrafa stefnanda á hendur stefndu, C, fyrir hönd B, því tekin til greina eins og hún er fram sett með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en vaxtakröfur stefnanda hafa ekki sætt andmælum.  Af hálfu stefndu C var til vara krafist lækkunar kröfunnar á þeim forsendum að örorka væri of hátt metin í matsgerð auk þess sem tölulegri útfærslu kröfunnar var mótmælt.  Áskildi hún sér rétt til að sýna fram á það síðar.  Það gerði hún hins vegar ekki og verður málatilbúnaður hennar því ekki skilinn á annan veg en að fallið hafi verið frá varakröfunni um lækkun.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda, C fyrir hönd B, dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og matskostnaðar að fjárhæð 180.000 krónur.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og stefnda D ­kaupstaðar verði felldur niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Á. Haraldsson hrl.  Af hálfu stefnda D kaupstaðar flutti málið Haukur Örn Birgisson hdl., en af hálfu stefndu C f.h. ófjárráða dóttur hennar B flutti málið Guðmundur Pétursson hrl.

Dóminn kveða upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari sem formaður dómsins og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson verkfræðingur og Jón Ágúst Pétursson tæknifræðingur.

DÓMSORÐ

Stefndi, D kaupstaður, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, A í máli þessu. 

Málskostnaður milli stefnanda og stefnda D kaupstaðar fellur niður.

Stefnda, C fyrir hönd ófjárráða dóttur sinnar, B greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð 9.732.098 með 4,5% ársvöxtum af 1.523.100 krónum frá 15. nóvember 2005 til 15. maí 2006 en frá þeim degi af 10.913.391 krónu til 3. ágúst 2007 en frá þeim degi af 9.732.098 krónum til 13. september 2007 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags. 

Stefnda, C fyrir hönd B, greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.