Hæstiréttur íslands
Mál nr. 598/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 19. október 2010. |
|
|
|
Nr. 598/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
|
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. október 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi hans verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að honum verði ekki gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 22. október n.k. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætluð stórfelld brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og gegn peningaþvættisákvæði almennra hegningarlaga sbr. 264 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Upphaf þessa máls séu tilkynningar frá Íslandsbanka og frá Arion banka um peningafærslur sem hafi þótt grunsamlegar og ekki samræmast upplýsingum og/eða viðskiptum hjá reikningshöfum í bönkunum. Við könnun lögreglu hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða greiðslur inn og út af reikningum tveggja fyrirtækja A, kt. [...], og B, kt. [...]. Hafi reikningsyfirlit sýnt háar fjárgreiðslur frá tollstjóra inn á reikninga þessara tveggja fyrirtækja. Fjárhæðirnar hafi síðan smám saman verið teknar út af reikningunum fyrirtækjanna, að mestu í reiðufé. Innlagnir og úttektir sem til rannsóknar séu hafi átt sér stað frá október 2009 til júní 2010. Með upplýsingaöflun lögreglu m.a. hjá skattrannsóknarstjóra hafi verið upplýst að hinar háu greiðslur inn á reikningana hafi verið endurgreiðslur á innskatti vegna endurbóta á húsnæði en slíkar endurgreiðslur séu gerðar á grundvelli sérstakrar skráningar á virðisaukaskattsskrá skv. reglugerð nr. 577/1989. Við nánari eftirgrennslan um grundvöll þessara endurgreiðslna hafi komið í ljós að húsnæði það sem félögin tvö hafi fengið endurgreiddan innskatt vegna hafði aldrei verið í eigu félaganna eða þeirra einstaklinga sem að þeim stóðu eða voru í forsvari fyrir þau. Endurgreiðslurnar byggðu því á röngum og/eða tilhæfulausum grundvelli og bendir því allt til að greiðslurnar hafi verið fengnar með sviksamlegum hætti úr ríkissjóði. Endurgreiðslur á innskatti til A, voru samtals kr. 174.330.155, sem lagðar voru inn á reikning félagsins í Arion banka. Endurgreiðslur til B, hafi samtals verið kr. 103.000.000., sem lagðar höfðu verið inn á reikning félagsins í Íslandsbanka.
Rannsókn málsins sé margþætt og umfangsmikil en þegar hafi alls sjö einstaklingar sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins. Strax við upphaf rannsóknar hafi komið fram gögn og upplýsingar sem bendi til að maður að nafni Y hafi einn, eða ásamt öðrum, skipulagt brotin skipt verkum á milli aðila, gefið þeim fyrirmæli og móttekið fjármuni frá þeim einstaklingum sem önnuðust úttektir af bankareikningunum. Jafnframt virðist sem Y hafi notið aðstoðar starfsmanns hjá skattinum, Z, sem sé grunaður um að hafa með ólögmætum hætti afgreitt erindi fyrirtækja tveggja um sérstaka skráningu og endurgreiðslu á innskatti og að hafa þegið hluta afrakstursins fyrir. Sakborningur, X, er þekktur félagi Y og frændi og vinur Z.
Þann 8. október s.l. hafi komið fram í yfirheyrslum yfir öðrum sakborningi í málinu, Þ, að hann hefði í eitt skipti, er Y hafi verið á leið til útlanda, fengið fyrirmæli um að afhenda fjárhæðir, sem teknar höfðu verið af bankareikningum A og B, manni sem hann ætti að hitta á nánar tilgreindum veitingastað í [...]. Hafi Y beðið Þ um að klæðast ákveðnum bol svo að maðurinn þekkti hann. Þ hafi verið á veitingastaðnum er maðurinn hafi komið inn, pikkað í hann og spurt hvort hann væri ekki Þ. Þ kvaðst þá hafa hlaupið út í bíl og náð í poka sem í voru 16 eða 17 milljónir króna og afhent manninum. Þ sagðist ekki hafa fengið símanúmer eða nafn á þessum manni. Hann hefði séð hann einu sinni áður heima hjá Y og taldi sig geta þekkt hann aftur á mynd. Þá gat hann lýst manninum vel auk þess sem hann tjáði lögreglu að maðurinn hefði komið á svörtum [...] jepplingi.
Lýsing sú sem Þ gaf lögreglu á við um sakborning og þann 11. október s.l. fór fram myndsakbending þar sem Þ bar kennsl á sakborning sem þann aðila sem hann hefði afhent áðurnefnda fjármuni. Sakborningur sé einnig skráður fyrir svartri [...] bifreið (jepplingi).
Laugardaginn 9. október hafi lögreglu ennfremur borist upplýsingar um aðild að stórfelldu skattalagabroti. Upplýsingarnar, sem lögregla hafi metið áreiðanlegar, hafi verið á þann veg að karlmaður sem kallaður væri X og héti líklega X hafi gengt lykilhlutverki ásamt Y og Z í brotinu. Hlutverk “X” hafi verið skipulagning á því fyrirkomulagi að skattayfirvöld greiddu út fjármuni og að hann hafi meðal annars tekið við fjármunum sem greiddir voru út, sjá nánar meðfylgjandi upplýsingaskýrslu lögreglu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er sakborningur oft kallaður “X”.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 8. október þ.m., hafi sakborningur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna í málinu, allt til dagsins í dag kl. 16:00 en úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 593/2010.
Sakborningur kveðst enga aðkomu hafa að málinu og segist aldrei hafa tekið á móti reiðufé á veitingastað í [...]. Hans einu tengsl við þetta málið séu að frændi hans og góðvinur Z sitji í gæsluvarðhaldi vegna málsins og að hann kannist við Y sem hafi verið handtekinn í [...]. Sakborningur segir samskipti sín við Y hafa verið nánast engin undanfarin tvö ár og hefur hann hafnað því að hafa verið í nokkrum símasamskiptum við Y á þessu tímabili jafnvel þó honum hafi verið kynnt að lögregla hafi undir höndum gögn sem sýna símasamskipti milli þeirra þó nokkrum sinnum á árinu.
Með vísan til framangreinds og til gagna málsins telji lögregla sig hafa rökstuddan grun um að sakborningur hafi átt þátt stórfelldum skattalagabrotum og hafi gerst sekur um peningaþvætti.
Til rannsóknar sé umfangsmikil svikastarfsemi þar sem yfir 277 milljónir króna voru blekktar úr ríkissjóði en fjölmargir einstaklingar tengjast þeim fyrirtækjum sem notuð voru til svikanna og þeim aðilum sem grunaðir séu í málinu. Lögregla telji að nú sitji í gæsluvarðhaldi tveir af lykilmönnum í þessum brotum en þriðji maðurinn, Y, er væntanlegur til landsins á næstu dögum.
Y hafi verið handtekinn í [...] þann 27. september s.l. Hafi yfirvöld í [...] þegar tekið ákvörðun um að vísa Y af landi brott og geta mögulega framfylgt þeirri ákvörðun á morgun, sjá meðfylgjandi tölvupóstsamskipti milli ræðismanns Íslands í [...] og dómsmálaráðuneytisins. Mun Y þá verða fluttur til Íslands í fylgd lögreglu. Y sé í haldi ytra en sé ekki í einangrun og hafi samkvæmt upplýsingum lögreglu síma til eigin afnota. Lögregla hafi einnig áreiðanlegar heimildir fyrir því að Y hafi verið í sambandi við aðila hér á landi sem hafi að beiðni Y reynt að hafa samband við sakborning, sjá upplýsingaskýrslu lögreglu í málinu. Að mati lögreglu er mikilvægt að tryggja að Y verði yfirheyrður áður en hann á þess kost að komast í samband við þá aðila sem nú sitja í gæsluvarðhaldi eða þeir við hann.
Meginhluti þeirra peninga sem sviknir hafi verið úr ríkissjóði sé enn ófundinn en eins og fyrr hafi verið greint frá er talið að sakborningur hafi móttekið beint að minnsta kosti hluta þess fjár í reiðufé. Telur lögregla mikilvægt að hún fái svigrúm til að rekja slóð peninganna en þeir eru eðli málsins samkvæmt afar mikilvægt gagn í málinu. Fer lögregla nú yfir fjármál sakbornings og fyrirtækja tengdum honum. Hafa þegar komið í ljós ýmsar peningafærslur inn á reikninga sakbornings eða fyrirtækja hans sem lögregla telur sakborning ekki hafa gefið trúverðugar skýringar á m.a. annars frá Z sem þeir gefa alls ósamrýmanlegar skýringar á.
Megi ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því hafa samband við samverkamenn eða með því að koma undan gögnum og/eða fjármunum. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að ljúka nauðsynlegri rannsókn án þess að sakborningur geti spillt rannsókninni.
Í málinu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fullnægt í máli þessu og ekkert nýtt fram komið í málinu sem breytt getur því mati.
Meint sakarefni séu stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti en brotin eru talin geta varðað við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988 en brot þessi geta varðað allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Eins og nú hefur verið rakið er kærði undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í stórfelldu broti ásamt öðrum mönnum. Rannsókn málsins hefur staðið í nokkurn tíma og er ekki að fullu lokið. Þá á eftir að taka skýrslu af framangreindum Y, sem væntanlegur er til landsins í lögreglufylgd á næstu dögum. Í gögnum málsins kemur fram að Y sé ekki í einangrun þótt hann sé í vörslu lögreglu erlendis. Það er því ljóst að kærði myndi eiga þess kost að komast í samband við Y verði hann látinn laus úr gæslu. Það er því fallist á það með lögreglustjóra að kærði gæti haft áhrif á hugsanlega samsekan mann, fari hann frjáls ferða sinna. Með vísan til þess sem að framan greinir svo og til rannsóknargagna málsins er því fallist á að fullnægt sé skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Með sömu rökum er fallist á að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu. Það verður því orðið við kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 22. október n.k. kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.