Hæstiréttur íslands
Mál nr. 418/2008
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Fyrning
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 2. apríl 2009. |
|
Nr. 418/2008. |
Emilía Rós Hallsteinsdóttir(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Verði tryggingum hf. (Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Fyrning. Gjafsókn.
E krafðist skaðabóta úr hendi V hf. vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi árið 2001. Deildu aðilar um hvort skaðabótakrafan hefði verið fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þegar málið var höfðað. Tekið var fram að við úrlausn þess hvort krafa E væri fyrnd yrði að líta annars vegar til þess hvenær hún fékk vitneskju um kröfu sína og hins vegar til þess hvenær hún átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Talið var að E hefði fyrst þegar hún leitaði til sérfræðings í bæklunarlækningum árið 2004 mátt vera ljóst að hún hafi hlotið varanlegt mein af slysinu og átt þar með kost á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Var krafa E því ekki talin hafa verið fallin niður er málið var höfðað árið 2007. Var V hf. dæmt til að greiða E bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Benedikt Bogason dómstjóri.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 2008. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.587.529 krónur með 4,5% ársvöxtum af 661.202 krónum frá 29. júní 2001 til 12. september sama ár, en af 2.587.529 krónum frá þeim degi til 17. nóvember 2007 og síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi varð fyrir umferðarslysi 29. júní 2001 þegar hún missti stjórn á bifreið sinni á leið austur Sandgerðisveg með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir á öfugan vegarhelming og þeim megin út af veginum þar sem bifreiðin fór eina veltu. Á vettvangi kvartaði áfrýjandi undan verk í hálsi og baki og sagðist öll vera að stífna upp. Var henni þá ekið af lögreglu til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Samkvæmt vottorði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 6. september 2001, sem ritað er af Baldvini Kristjánssyni lækni, var áfrýjandi stirð í baki eftir slysið og með mar og eymsli víða um líkamann en engin merki um beinbrot. Einnig er rakið í vottorðinu að áfrýjandi hafi komið í skoðun 3. og 11. júlí 2001 og kvartað undan verkjum í baki og hægri öxl. Fram kemur að áfrýjanda hafi verið ráðlagt í síðari skoðun að hefja létta vinnu og smá auka hreyfingu og vinnu eftir því sem hún treysti sér til.
Með beiðni Boga Jónssonar bæklunarlæknis 22. apríl 2004 var þess farið á leit að áfrýjandi fengi sjúkraþjálfun vegna hálstognunar og tognunar í brjóst- og lendarliðum. Kemur fram í beiðninni að áfrýjandi hafi orðið fyrir skaða á hálsi, brjósthrygg og mjóbaki í slysinu 29. júní 2001 og sé aum, bólgin og stirð.
Í vottorði, sem Reynir S. Björnsson læknir á Heilsugæslustöð Hlíðasvæðis í Reykjavík ritaði 4. maí 2005, kemur fram að samkvæmt nótum þeirrar stofnunar á tímabilinu 17. desember 2002 til 31. mars 2005 sé ekki getið um að áfrýjandi hafi verið með verk í baki nema á síðari hluta meðgöngu hennar, en áfrýjandi ól barn 16. maí 2003. Hinn 25. mars 2005 lenti áfrýjandi aftur í umferðarslysi, en þá fékk hún hnykk og kvartaði undan verk í baki.
Hinn 26. apríl 2007 leituðu málsaðilar og Vátryggingafélag Íslands hf. sameiginlega eftir mati Júlíusar Valssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns á tímabundnum og varanlegum afleiðingum slysanna 29. júní 2001 og 25. mars 2005. Þeir skiluðu örorkumati sínu 20. júlí 2007 en niðurstöður þess að því er varðar fyrra slysið og varanlegar afleiðingar hvors slyssins um sig eru orðrétt teknar upp í hinum áfrýjaða dómi. Þar kemur meðal annars fram að matsmenn telja að heilsufar áfrýjanda hafi orðið stöðugt 12. september 2001 og eftir það tímamark verði ekki séð að meðferð hafi skilað einhverjum þeim bata sem skipti máli.
II
Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að bifreiðin sem hún ók hafi verið tryggð lögboðinni slysatryggingu hjá stefnda, sbr. 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndi vefengir ekki bótaábyrgð sína vegna slyssins, en telur að krafan hafi fyrnst áður en málið var höfðað 27. desember 2007. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnast allar kröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, en þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.
Áfrýjandi vísar til þess að slysið hafi orðið í gildistíð eldri laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga og því fari um túlkun samningsins eftir reglum þeirra laga. Heldur áfrýjandi því fram að stefnda hafi borið að gera sér viðvart ætlaði hann að bera fyrir sig fjögurra ára fyrningu bótakröfunnar, sbr. 1. mgr. 30. gr. laganna. Á þessa málsástæðu verður ekki fallist, enda gilti umrædd regla ekki um lögbundinn fyrningarfrest heldur þegar vikið var frá honum með samningi vátryggðum í óhag.
Samkvæmt framansögðu reynir því á hvort krafa áfrýjanda hafi fallið niður vegna reglu 99. gr. umferðarlaga um fjögurra ára fyrningarfrest. Við úrlausn þess hvenær áfrýjandi fékk vitneskju um kröfu sína annars vegar og hvenær hún átti þess fyrst kost á að leita fullnustu hennar hins vegar verður ekki eingöngu litið til huglægrar afstöðu hennar, en bæði skilyrðin þurfa að vera fyrir hendi til að reglu umferðarlaga um fjögurra ára fyrningartíma verði beitt, sbr. dóm Hæstaréttar 29. janúar 2009 í máli nr. 71/2008. Þetta upphaf fyrningarfrestsins ræðst þó ekki af því hvenær heilsufar tjónþola var orðið stöðugt, enda er það tímamark ákveðið afturvirkt út frá læknisfræðilegu mati á bata hans.
Áfrýjandi leitaði ekki mats á því hvenær hefði verið tímabært að láta meta afleiðingar slyssins. Á hinn bóginn liggur fyrir að í kjölfar þess kom áfrýjandi til skoðunar 3. og 11. júlí 2001 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Samkvæmt læknisvottorði Baldvins Kristjánssonar 6. september 2001 var áfrýjandi illa haldin af verkjum í baki og hægri öxl við fyrri skoðun en hafði jafnað sig nokkuð þegar hún kom til síðari skoðunar. Þó segir í vottorðinu að hún hafi þá verið með eymsli í hálshrygg. Einnig kemur fram í vottorði Reynis B. Björnssonar læknis á heilsugæslustöð að áfrýjandi hafi verið með verk í baki undir lok meðgöngu á fyrri hluta árs 2003. Þegar áfrýjandi fékk ekki bata af þessum meiðslum leitaði hún til Boga Jónssonar bæklunarlæknis og fór hann þess á leit með beiðni 22. apríl 2004 að áfrýjandi fengi sjúkraþjálfun. Svo sem áður getur kemur fram í þeirri beiðni að áfrýjandi hafi slasast á hálsi, brjósthrygg og mjóbaki í slysinu. Á því tímamarki þegar áfrýjandi leitaði til þessa sérfræðings í bæklunarlækningum mátti henni fyrst verða ljóst að hún hafði hlotið varanleg mein af slysinu og átti hún þar með kost á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar, sbr. dóma Hæstaréttar 12. júní og 23. október 2008 í málum nr. 615/2007 og 661/2007. Samkvæmt þessu var krafa áfrýjanda ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar mál þetta var höfðað 27. desember 2007.
Bótakrafa áfrýjanda er sundurliðuð í hinum áfrýjaða dómi og er útreikningur hennar ágreiningslaus með aðilum, sem og örorkumat sem hún er reist á. Þá er vaxtakröfu áfrýjanda ekki andmælt. Samkvæmt þessu verður krafan tekin til greina eins og hún er sett fram.
Stefndi verður dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði segir.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest, en um þann kostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði áfrýjanda, Emilíu Rós Hallsteinsdóttur, 2.587.529 krónur með 4,5% ársvöxtum af 661.202 krónum frá 29. júní 2001 til 12. september sama ár, en af 2.587.529 krónum frá þeim degi til 17. nóvember 2007 og síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.200.000 krónur.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. apríl 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Emilíu Rós Hallsteinsdóttur, kt. 210182-3499, Kleppsvegi 76, Reykjavík, gegn Verði tryggingum hf., kt. 441099-3399, Borgartúni 25, Reykjavík, með stefnu sem birt var 27. desember 2007.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.587.529 kr. með 4,5% ársvöxtum af 661.202 kr. frá 29. júní 2001 til 12. september 2001, en af allri stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 17. nóvember 2007, allt að frádreginni innborgun stefnda á 50.000 kr. hinn 25. september 2007. Krafist er dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af stefnufjárhæðinni frá 17. nóvember 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er farið fram á að stefnukröfur verði lækkaðar og stefnanda verði gert að bera meginhluta sakar og málskostnaður verði felldur niður.
Stefnandi lýsir málsatvikum á þann veg að hún hafi lent í bílveltu hinn 29. júní 2001. Stefndi beri bótaábyrgð á afleiðingum slyssins. Hinn 25. mars 2005 hafi stefnandi lent í öðru slysi sem Vátryggingafélag Íslands hf. bar bótaábyrgð á. Þá segir að aðilar hafi ásamt Vátryggingafélagi Íslands hf. beðið Júlíus Valsson lækni og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmann með bréfi, hinn 27. apríl 2007, um að láta í té rökstutt mat á afleiðingum slysanna í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993. Matsgerð þeirra er dags. 20. júlí 2007. Síðan segir:
Í matsgerðinni [dskj. 13] voru megin niðurstöður matsmanna þær að heilsufar stefnanda, vegna slyssins hinn 29. júní 2001, hefðu orðið stöðugt hinn 12. september 2001. Tímabundin óvinnufærni vegna slyssins hefði verið 100% frá slysdegi til 11. júlí 2001 og 50% frá þeim degi til 12. september 2001. Þjáningatímabil án rúmlegu var metið frá slysdegi til stöðugleikapunkts. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins var metinn 7 stig og varanleg örorka 7%.
Stefndi hefur greitt sex sinnum inn á tjónið án fyrirvara, 19. maí 2005, 17. apríl 2007, 5. júlí 2007 og tvisvar 23. júlí 2007. Síðast greiddi stefndi inn á tjónið hinn 25. september 2007 (dskj. 17).
Af hálfu stefnanda var stefnda sent kröfubréf, dags. 17. október 2007 [dskj. 15]. Með tölvupósti, dags. 13. nóvember 2007 [dskj. 16], hafnaði stefndi greiðslu á þeim grundvelli að krafa stefnanda væri fyrnd. Stefnanda er því nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu bóta vegna afleiðinga slyssins.
Stefndi lýsir málavöxtum með vísun til lögregluskýrslu af umferðaróhappi stefnanda 29. júní 2001 þar sem segir frá því að stefnandi hafi misst vald á bifreið sinni [G1166] á leið austur Sandgerðisveg, lent yfir á öfugan vegarhelming og út af veginum þar sem bifreiðin hefði farið eina veltu. Þá segir í lögregluskýrslu Einars Júlíussonar lögreglumanns, sem kom á vettvang, m.a.:
Á meðan lögreglumenn töluðu við Emilíu fór hún að kvarta undan verkjum í hálsi og baki og kvaðst vera öll að stífna upp. Lögreglumenn óku henni því að heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.
Vitnið Alda Karlsdóttir kvaðst hafa verið að aka á eftir bifreiðinni G1166 þegar hún (bifreiðin G1166) skyndilega fór út í kant á sínum vegarhelmingi og síðan snögglega yfir á öfugan vegarhelming þar sem hún hafi síðan oltið. Alda sagði einnig að bifreiðin hefði stuttu áður farið út í vegöxlina og síðan aftur inn á veginn. Henni fannst eins og að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið að teygja sig eftir einhverju á gólfi farþegamegin þegar ökumaður hafi misst stjórn á bifreiðinni.
Í greinargerð stefnda segir um málavexti að ekki liggi ljóst fyrir hver hafi verið orsök þess að stefnandi hafði ekki vald á aksturslagi sínu. Helst verði að ætla að háttsemi ökumanns undir akstri og of mikill hraði hafi valdið slysinu. Vísað er til 1. mgr. 38. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 í því sambandi þar sem segir: Hraðinn má aldrei verða meiri en svo að ökumaður hafi fullt vald á ökutækinu og geti stöðvað það á þeim hluta vegar fram undan, sem hann sér yfir og áður en kemur að hindrun, sem gera má ráð fyrir. Stefnda hafi ekki virt þessa reglu og eigi því sjálf sök á slysinu.
Í tölvubréfi frá stefnda, dags. 21. mars 2007, til þáverandi lögmanns stefnanda, segir m.a.: Vísað er til bréfs yðar dags. 16. mars s.l. varandi beiðni um örorkumat fyrir ofangreindan aðila [stefnanda]. Félagið fellst á aðild að matsbeiðni, þó með þeim fyrirvara að það telur að tjónið sé fyrnt.
Í umræddri matsgerð segir undir fyrirsögninni: Umferðarslysið þann 29. júní 2001 og varanleg einkenni beggja slysa.
Um er að ræða tímabundið atvinnutjón frá 29. júní 2001 til 11. júlí 2001 og frá 50% frá 12. júlí 2001 til 12. september 2001. Í þessum efnum er byggt á læknisvottorðum en tímamark lok óvinnufærnistíma er byggt á mati matsmanna.
Tjónþoli telst hafa verið veik í skilningi skaðabótalaga frá 29. júní 2001 til 12. september 2001 en eftir þann tíma var ekki að vænta frekari bata og ástand tjónþola þá orðið stöðugt. Matsmenn fá ekki séð að meðferð eftir þetta tímamark hafi skilað einhverjum þeim bata sem máli skipti.
Um er að ræða varanlegan miska af völdum háls- og baktognunar sem þykir hæfilega metin 10 stig í heild og telja matsmenn að 7 stig megi rekja til fyrra slyssins og 3 stig til seinna slyssins. Læknisfræðileg örorka vegna slysanna telst hin sama.
Við mat á varanlegri örorku er litið til afleiðinga slysanna og aðstæðna tjónþola. Um er að ræða unga konu með takmarkaða menntun. Þegar hún hefur verið á vinnumarkaði hefur hún unnið algeng störf verkakvenna. Hún er nýkominn úr meðferð og á að baki langa neyslusögu. Mat á starfsgetu til lengri tíma litið er miðað við öll algeng störf verkakvenna. Tekjusaga gefur takmarkaðar vísbendingar. Lágar eða engar tekjur undanfarinna ára er ekki unnt að rekja til slysanna nema að mjög litlu leyti svo sem ráða má af sjúkrasögu. Matsmenn telja líklegt að afleiðingar slyssins hái henni nokkuð í erfiðari störfum en ekki er líklegt að afleiðingar slysanna hafi mikil áhrif í léttari störfum. Með hliðsjón af þessu er varanleg örorka metin 10% og eru 7% vegna fyrra slyssins og 3% vegna seinna slyssins.
Við upphaf aðalmeðferðar var, með vísun til 135. gr. laga nr. 91/1991, skriflega krafist að stefndi og/eða lögmaður stefnda yrðu sektaðir vegna eftirfarandi orða í greinargerð: Né heldur með ótilgreindri innágreiðslu, sem lögmaður stefnanda, er ekki var í góðri trú, fékk Harald Gunnarsson, starfsmann stefnda, sem ekkert var kunnugt um málið eða samskipti aðila, til þess að fara út fyrir umboð sitt og innágreiða ótilgreint kr. 50.000.
Stefnandi byggir á því að óumdeilt sé að bifreiðin sem stefnandi ók, er hún slasaðist, var tryggð hjá stefnda (eða forvera hans) á slysdegi. Stefndi beri því bótaábyrgð á tjóni hennar.
Stefnandi hafnar því að krafa hennar sé fyrnd. Niðurstöður örorkumats hafi ekki legið fyrir fyrr en 20. júlí 2007. Vísað er til ákvæða 99. gr. umferðalaga nr. 50/1987 um fyrningu bótakrafna þar sem segir: Allar bótakröfur samkvæmt þessum kafla, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátrygginga-félags, fyrnast á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónatburði.
Byggt er á því að miða eigi upphaf fyrningarfrests við það tímamark sem stefnandi átti möguleika á að leita fullnustu kröfunnar. Stefnandi hafi ekki átt sök á því að niðurstöður örorkumatsins voru ekki ljósar fyrr en árið 2007. Stefnandi hafi lent í öðru umferðarslysi, hinn 25. mars 2005, sem hafi haft svipaðar afleiðingar á heilsufar stefnanda og fyrra slysið. Afleiðingar seinna slyssins hafi gert stefnanda ómögulegt að gangast undir örorkumat fyrr og þar með ómögulegt að leita fullnustu kröfu sinnar þar sem krafan var enn óljós. Fyrst eftir seinna slysið gátu varanlegar afleiðingar fyrra slyssins fyrir stefnanda orðið ljósar og stefnanda þar með fært að krefjast bóta. Þannig hafi fyrningarfrestur ekki byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi þegar heilsufar stefnanda var orðið stöðugt eftir seinna slysið, hinn 26. júní 2005.
Í öðru lagi er byggt á því að stefnandi hafi slitið fyrningu með greiðslum inn á kröfu stefnanda. Stefndi hafi greitt inn á kröfu stefnanda sex sinnum frá og með árinu 2005, síðast 25. september 2007, án fyrirvara.
Tölulega sundurliðar stefnandi kröfu sína með eftirfarandi hætti:
i. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, skv. 2. gr. skaðabótalaga.
Samkvæmt örorkumatinu var tímabundið atvinnutjón stefnanda 100% í 13 daga en 50% í 63 daga.
Launatekjur stefnanda voru kr. 650.832,- á árinu 2001 eða kr. 2.252,- á dag miðað við 289 daga sem hún var vinnufær á árinu. Með framlagi í lífeyrissjóð voru tekjur hennar á dag kr. 2.387,-.
Vegna þess þáttar er því krafist greiðslu á (2.387,- x 13) + (2.387,-x 63 x 0,5) = kr. 106.222,-.
ii. Þjáningabætur, skv. 3. gr. skaðabótalaga.
Matsmenn telja að stefnandi hafi verið veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í 76 daga.
Fjárhæðin í 2. gr. skaðabótalaga er uppfærð miðað við lánskjaravísitölu fyrir október 2007 (5463/3282), sbr. 15. gr. laganna.
Vegna þessa þáttar er því krafist greiðslu á kr. 1.170,- x 76 = kr. 88.920,-.
iii. Varanlegur miski, skv. 4. gr. skaðabótalaga.
Matsmenn telja varanlegan miska stefnanda vera 7 stig vegna afleiðinga slyssins.
Fjárhæðin í 4. gr. skaðabótalaga er uppfærð miðað við lánskjaravísitölu fyrir október 2007 (5463/3282), sbr. 15. gr. laganna.
Krafan er þannig 7% af kr. 6.658.000,- = kr. 466.060,-.
iv. Varanleg örorka, skv. 5.- 7. gr. skaðabótalaga.
Matsmenn telja varanlega örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins vera 7%.
Lánskjaravísitala í september 2001 var 4243 og eru árslaun stefnanda skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga því kr. 1.551.500,-.
Á stöðugleikapunkti var stefnandi 19 ára og 234 daga gömul.
Margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga er 17,737 (18,031-17,572 = 0,459. 0,459 x 234/365 = 0,294. 18,031 0,294 = 17,737).
Krafan vegna þessa þáttar nemur því kr. 1.551.500,- x 7% x 17,737 = kr. 1.926.327,-.
Heildarfjárhæðin sundurliðast því þannig:
|
Tímabundið atvinnutjón |
106.222 kr. |
|
Þjáningabætur |
88.920 kr. |
|
Bætur vegna varanlegs miska |
466.060 kr |
|
Bætur vegna varanlegrar örorku |
1.926.327 kr. |
|
Samtals |
2.587.529 kr. |
Stefndi byggir á því að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að stefnandi léti meta heilsutjón sitt af völdum umferðaróhappsins 29. júní 2001 fyrir lok ársins 2002. Stefndi hafi fallist á aðild að matsbeiðni stefnanda frá 26. apríl 2007 vegna umferðarslysa stefnanda 29. júní 2001 og 25. mars 2005 með fyrirvara um að bótakrafa stefnanda vegna tjóns sökum slyssins 29. júní 2001 væri fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefndi vísar til þess að matsmenn hafi talið heilsufar stefnanda, vegna slyssins 29. júní 2001, hafa orðið stöðugt 12. september 2001. Byggt er á því að þessi niðurstaða hefði getað legið fyrir á árinu 2002 eða fyrr. Samkvæmt dómvenju beri að miða upphafstíma fyrningar bótarétta stefnanda við lok almanaksárs 2002. Við lok almanaksárs 2006 hafi krafan því verið fyrnd. Þá segir í greinargerð stefnda:
Það að stefndi greiddi kostnað, vegna stefnanda, árið 2005 og tók þátt í greiðslu matskostnaðar ofl., á móti Vátryggingafélagi Íslands h/f, á árinu 2007, í því skyni að kanna hvort afleiðingar af völdum slyssins frá 29. júní 2001 hafi verið varanlegar og hvenær tímabært hafi verið að meta þær, með tilliti til þess hvort kröfur væru ekki fyrndar, fólst ekki viðurkenning á bótaskyldu félagsins, enda höfnunar bótakrafna, vegna fyrningar, sérstaklega getið á dskj. nr. 11, 12 og 16. Né heldur með ótilgreindri innágreiðslu, sem lögmaður stefnanda, er ekki var í góðri trú, fékk Harald Gunnarsson, starfsmann stefnda, sem ekkert var kunnugt um málið eða samskipti aðila, til þess að fara út fyrir umboð sitt og innágreiða ótilgreint kr. 50.000.- hinn 25. september 2007, sbr. dskj. nr. 17. Þetta hefur lögmanni stefnanda verið ljóst, og hann viðurkennt, með því að greiðslan er ekki móttekin til lækkunar á bótakröfum stefnanda, frekar en aðrar greiðslur stefnda til stefnanda, á tímabilinu 2005 til 2007, sbr. dómkröfur stefnanda á bls. 1 í stefnu, svo og sundurliðun höfuðstóls heildarfjárhæðar bótakrafna, á bls. 4 í stefnu.
Viðar Lúðvíksson hrl. gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði verið lögmaður stefnanda í þessi máli og hafi séð um það í byrjun. Sumarið 2006 hafi hann haldið til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Hafi þá aðrir lögmenn á skrifstofunni tekið við málum skjólstæðinga hans. Eiríkur Jónsson hdl. hafi tekið við þessu máli og séð um það á meðan hann var erlendis. Hann hafi verið í burtu í ár, eða fram á sumar 2007 og hvorki haft afskipti af þessu máli né öðrum þann tíma.
Viðar kvaðst hafa hafið störf aftur seinni hluta júlí 2007 og tekið aftur við fyrri málum sínum og reyndar gott betur, vegna þess að Eiríkur Jónsson var að hætta störfum hjá lögfræðistofunni þetta haust, og hafi hann þá fengið þau mál sem Eiríkur hafði séð um áður. Hann hafi fengið til sín tugi mála sem hann hafi orðið að vinna jafnt og þétt úr. Hann hafi ekki farið að vinna í máli stefnanda og ekki verið farinn að skrifa kröfubréf, sem væntanlega hefði verið næsta skref á þessum tíma, þegar stefnandi, Emilía, hringdi til hans í lok september, eða 25. september 2007, daginn, sem tölvupósturinn var sendur, og tjáði honum að hún væri mjög fjárþurfi og óskaði eftir að fá greiðslu inn á tjónið ef það væri unnt.
Viðar kvað þá hafa fyrir reglu á skrifstofunni að bregðast vel við svona óskum. Hafi hann vilja gera það sem hann gæti til að fleyta henni áfram þar til að kröfubréf yrði sent og málið gert upp. Hann hafi náð í málið og séð að þar var örorkumat og næsta skrefið væri að skrifa kröfubréf. Hann hafi sent örstuttan tölvupóst á bæði tryggingafélögin, sem áttu hlut að máli, og pakkað málinu í bili. Það næsta sem gerðist var að hann fékk svar frá tryggingafélögunum um að innáborgun yrði greidd í báðum tilvikum. Hann kvaðst síðan hafa skrifað kröfubréf í málunum til tryggingafélaganna.
Viðar sagði að svona lagað væri mjög oft gert, á öllum stigum mála í raun og veru. Þegar fyrir lægi að tjón hefði orðið þá væri oft reynt að liðka til. Fólk sem lenti í slysum væri mjög gjarnan fjárþurfi. Það missti tekjur og reynt væri að fá innágreiðslur, hvort sem það væri ótilgreint inn á tjón eða inn á tiltekna bótaliði. Reynt væri að sjá til þess að fólk þyrfti ekki að líða meira fyrir að hafa lent í slysi en þörf væri á.
Með vísun til orða í greinargerðar stefnda var spurt, hvort hann hefði blekkt Harald Gunnarsson, starfsmann stefnda, til að inna af hendi umrædda greiðslu upp í væntanlegar bætur. Um það kvað Viðar ekki hafa verið að ræða. Það hafi ekki verið í myndinni. Það eina, sem hann hafi gert, hafi verið að líta á málið og komast að því að örorkumat lá fyrir og senda tölvupóst, eina eða tvær línur. Það hafi verið allt og sumt. Hann hafi algjörlega verið í góðri trú um hugmyndir tryggingafélagsins um meinta fyrningu á kröfu stefnanda í þessu máli. Hann kvaðst ekki geta annað en mótmælt því, sem komi fram í greinargerð stefnda, að hann hefði blekkt starfsmann stefnda til að inna þessa greiðslu af hendi.
Viðar kvaðst hafi átt samskipti við Harald í mörgum málum hjá öllum þeim tryggingafélögum sem Haraldur hefði unnið hjá. Hann væri tjónauppgjörsfulltrúi sem bæði hafi innt af hendi innáborganir og gert upp fjölda mála, sem hann hafi komið að. Það hefði legið beint við að senda Haraldi tölvupóstinn, en tölvupósturinn hefði verið allt sem frá sér hefði komið.
Haraldur Ragnar Gunnarsson gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir hann dskj. nr. 19, sem er tölvupóstur frá Viðari Lúðvíkssyni til hans, dags. 25. september 2007, en þar segir: Meðfylgjandi er matsgerð í máli Emilíu Rósar Hallsteinsdóttur, kt. 210182-3499. Við vinnum að ritun kröfubréfs vegna hennar, en það verður sent félaginu á allra næstu dögum. Emilía hefði hins vegar samband við mig rétt í þessu og kvaðst vera í miklum peningavandræðum. Væri möguleiki að félagið greidd kr. 50.000,- upp í tjón Emilíu? Það mætti gjarnan leggja það beint inn hjá henni, reikn. 142-26-7148. Spurt var hvort hann hafi eitthvað haft með þetta mál að gera. Haraldur Ragnar kvað svo ekki hafa verið. Haraldur kvaðst ekki muna, hvort Viðar hefði hringt til sín, en í það minnsta hafi hann fengið tölvupóst frá honum, þar sem Viðar bað hann um að um að greiða upp í tjónið hjá henni. Kvaðst hann hafa séð í tölvunni hjá tryggingafélaginu að félagið hafði málið og hefði „opnað“ það vegna kostnaðar við matsgerð, eins og algengt sé. Hann hafi gefið sér að beðið væri um einhverja tjónagreiðslu upp í einhvern kostnað, sem Emilía hafi væntanlega orðið fyrir vegna málsins. Ingvar Sveinbjörns hafi sagt honum að þegar menn væru að tala um tjón þá væri það á munum en talað væri um slys á mönnum. Viðar segi í tölvupóstinum að meðfylgjandi sé matsgerð og hann hafi verið að greiða inn á matsgerðina eða einhvern kostnað tengdan henni.
Lagt var fyrir Harald Ragnar dskj. nr. 17, sem er tölvupóstur milli Heiðu Óskarsdóttur, lögfræðings á tjónasviði hjá stefnda, og Viðars Lúðvíkssonar hrl. um málið, á tímabilinu 13. nóvember til 29. nóvember 2007. Bent var á þar sem segir [í tölvupósti frá Heiðu til Viðars 29. nóv. 2007, kl. 10:52]: Innágreitt ótilgreint 50.000,00 25.9.2007 TC-7-22656. Haraldur sagði að þegar þeir væru að greiða inn á örorku eða miska eða tímabundið tekjutap þá notuðu þeir kóta. Þetta væri bara kóti sem notaður væri um greiðslu inn á tjón almennt, þess vegna væri notað Innágreitt ótilgreint. Fastir kótar væru í kerfinu. Hann hefði ekki komið að málinu og ekki skoðað greiðslur varðandi það. Hefði hann vitað hvort greitt væri inn á miska eða upp í varanlega örorku eða tímabundið tjón þá hefði hann fært þetta á annan lykil [kóta].
Haraldur Ragnar kvaðst hafa unnið hjá tryggingafélögum frá árinu 1996. Hann hafi á seinni árum fengist við mörg slysamál.
Spurt var um verklagið við mat þegar fólk lenti í slysi, sem væri bótaskylt hjá stefnda, en lenti síðan í öðru slysi, einu eða jafnvel fleirum. Og spurt var hvort venjulega væri beðið eftir að fólk væri búið að jafna sig, þ.e. heilsufarið orðið stöðugt eftir seinni slysin áður en metið væri það slys sem stefndi bæri bótaábyrgð á. Haraldur sagði að það færi eftir því hversu langur tími liði þar á milli.
Spurt var um þá stöðu þegar tryggingafélagið og tjónþoli væru sammála um að tími væri kominn til að gera tjónið upp eftir slys, en þá lenti tjónþoli í öðru slysi. Hvort tryggingafélagið biði venjulega eftir að viðkomandi jafnaði sig eftir síðara slysið, eða hvort verklagið væri þannig, að félagið krefðist þess að farið væri í dómsmál til viðurkenningar á bótakröfu út af fyrra slysinu. Haraldur Ragnar sagði að ekki hefði reynt mikið á þetta. Það væri sjaldgæft að mati væri ekki lokið á fyrra slysi áður en viðkomandi lenti í öðru slysi. Það hefði þó einhvern tímann gerst áður. Engin regla væri hvernig staðið væri þá að málum.
Haraldur Ragnar kvaðst ekki hafa farið út fyrir umboð sitt þegar hann greiddi stefnanda umræddar 50.000 kr. Hann kvað Viðar ekki hafa reynt að blekkja sig. Hann hafi tekið tilmæli Viðars nákvæmlega eins og þau voru orðuð. Hann hafi átt samskipti við Viðar áður og þekkja hann ekki nema af góðu einu. Þess vegna hafi hann orðið við beiðni hans og ekki séð neitt athugavert við það. Reyndar hafi hann ekki áður komið að málinu en séð að Bjarni, sem var lögmaður félagsins á þeim tíma, hafði verið að vinna að málinu. Bjarni hefði opnað málið til þess að samþykkja kostnað við matsgerð.
Þegar hann greiddi stefnanda umræddar 50.000 kr. kvaðst Haraldur Ragnar hafa haldið að hann væri að greiða útlagðan kostnað stefnanda.
Ályktunarorð: Í 99. gr. umferðalaga nr. 50/1987 segir að allar bótakröfur samkvæmt XIII kafla laganna um fébætur og vátryggingu, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélagins, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.
Þegar lögmaður stefnanda fór þess á leit við stefnda, hinn 16. mars 2007, að félagið tæki, með stefnanda og Vátryggingafélagi Íslands hf., þátt í að fá metið heilsutjón stefnanda sökum umferðarslysa, hinn 29. júní 2001 og hinn 25. mars 2005, þá féllst stefndi á það með þeim fyrirvara að ætlað væri af hálfu stefnda að krafa stefnanda á hendur félaginu væri fyrnd.
Eftir slys stefnanda, hinn 29. júní 2001, var heilsufar stefnanda orðið stöðugt, hinn 12. september 2001, samkvæmt umræddri matsgerð og með bréfi, dagsettu 17. október 2007, krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnda, þ.e. rúmum sex árum síðar.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi slitið fyrningu með greiðslum inn á kröfu stefnanda. Matskostnaður og greiðsla fyrir læknisvottorð, sem stefndi innti af hendi vegna málsins, geta hins vegar ekki talist greiðslur á bótum til stefnanda vegna líkamstjóns og hafa því ekki áhrif á fyrningartíma bótakröfu stefnanda. Þá verður ekki ráðið af framburði Viðars Lúðvíkssonar og Haralds Ragnars Gunnarssonar fyrir réttinum að þeir hafi álitið að 50.000 króna greiðslu stefnda til stefnanda á þeim tíma, eða 25. september 2007, bæri með sér skilyrðislausa viðurkenningu á skyldu stefnda til að bæta líkamstjón stefnanda, m.ö.o. sliti fyrningu. Líta verður einnig á þessa greiðslu sem greiðslu á kostnaði við rekstur málsins, en ekki hluta af bótum. Styðst sú ályktun við stefnukröfur þar sem fjárhæðin kemur ekki til frádráttar. Kemur þá til álita hvenær stefnandi átti þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar um bætur.
Eins og áður sagði var heilsufar stefnanda orðið stöðugt 12. september 2001 eftir slysið 29. júní 2001. Þó að stefnanda sé ætlaður nokkur tími til að afla mats um afleiðingar slyssins verður að telja að hún hefði getað lokið þeim undirbúningi kröfugerðar á árinu 2002 og átt þannig kost á að leita fullnustu hennar sama ár, eða löngu áður en hún lenti í öðru umferðarslysi, hinn 25. mars 2005. Verður þannig talið að fyrningartími kröfu hennar hafi byrjað að líða við lok ársins 2002. Samkvæmt þessu var krafan fyrnd, þegar mál þetta var höfðað 27. desember 2007, og verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.
Af hálfu stefnanda var þess krafist að stefndi og/eða lögmaður stefnda yrðu sektaðir vegna nánar tilgreindra ummæla í greinargerð. Greint er frá ummælum þessum í lýsingu málavaxta hér að framan. Þó að fallast megi á að ummælin séu ekki viðeigandi þykir ekki nægileg ástæða til að beita stefnda og/eða lögmann stefnda sektum samkvæmt 135. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, 808.769 krónur.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Emilíu Rósar Hallsteinsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, 808.769 krónur.