Hæstiréttur íslands
Mál nr. 639/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 2. desember 2011. |
|
|
Nr. 639/2011. |
Sérstakur saksóknari (Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari) gegn X (Birgir Tjörvi Pétursson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. desember 2011 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili hefur til rannsóknar mál er varða ætluð refsiverð brot framin á árunum 2004 til 2008 í starfsemi A hf. Felast brotin í ætlaðri skipulagðri og kerfisbundinni markaðsmisnotkun og ætluðum umboðssvikum í tengslum við lánveitingar bankans til viðskiptavina hans vegna fjármögnunar hlutabréfakaupa í bankanum.
Gögn málsins bera með sér að hin ætlaða brotastarfsemi taki yfir langt tímabil og rannsókn málanna sé yfirgripsmikil. Þótt langt sé um liðið frá því brotin eigi að hafa verið framin er til þess að líta að til rannsóknar eru flóknir fjármálagerningar, gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir sem tengjast þeim og margir eiga að hafa komið að málum, eftir atvikum með skipulögðum hætti. Í greinargerð sóknaraðila segir að við rannsóknina hafi komið fram mikið af gögnum og upplýsingum sem ekki hafi áður verið gerð opinber en verði borin undir sakborninga og vitni í skýrslutökum. Þá kemur og fram í gögnum málsins að mikið beri á milli í framburðum sakborninga og vitna sem yfirheyrð hafa verið um hin ætluðu refsiverðu brot.
Á það er fallist með héraðsdómi að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili, sem samkvæmt gögnum málsins var forstöðumaður verðbréfamiðlunar A hf. frá júní 2005 fram í október 2008, hafi framið brot sem tilgreind eru í hinum kærða úrskurði og geta varðað allt að sex ára fangelsi ef sönnuð eru. Samkvæmt því sem að framan er rakið og að virtum gögnum málsins er fallist á með héraðsdómi að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Reykjavíkur í Dómhúsinu miðvikudaginn 30. nóvember 2011.
Árið 2011, miðvikudaginn 30. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Sérstakur saksóknari hefur gert þá kröfu að þá kröfu að dómurinn úrskurði að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 7. desember 2011, kl. 16:00. Þess er krafist að X verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Greinargerð embættis sérstaks saksóknara um málsatvik og lagarök:
„Embætti sérstaks saksóknara, sem starfar skv. lögum nr. 135/2008, ásamt síðari breytingum (hér eftir embætti sérstaks saksóknara) hefur til rannsóknar mál er varða ætluð refsiverð brot í tengslum við starfsemi A hf. (hér eftir einnig nefnt A eða A). Í fyrsta lagi er til rannsóknar ætluð skipulögð og kerfisbundin markaðsmisnotkun á árunum 2004-2008 sem var til þess fallin að skekkja eðlilega verðmyndun á hlutabréfum útgefnum af A. Í öðru lagi rannsakar embættið níu mál er varða ætluð umboðssvik í tengslum við lánveitingar A til viðskiptavina bankans til fjármögnunar á hlutabréfakaupum í bankanum, langoftast án nokkurra annarra trygginga en í hlutabréfunum sjálfum. Í þessum málum er jafnframt til rannsóknar meint markaðsmisnotkun.
I. Grunur um markaðsmisnotkun með hlutabréf í A hf. (mál nr. 090-2011-19).
Þann 31. mars 2011 barst embætti sérstaks saksóknara kæra frá Fjármálaeftirlitinu (hér eftir FME) sem varðar grun um refsiverða háttsemi fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna A en um er að ræða ætlaða markaðsmisnotkun með hlutabréf í A á tímabilinu janúar 2004 til október 2008.
Til rannsóknar er hvort að starfsmenn A hafi með skipulögðum og kerfisbundnum hætti, með viðskiptum með hlutabréf í bankanum, haft áhrif á gengi eigin hlutabréfa, í því skyni að hækka eða styðja við gengi þeirra. Umfangsmikil kaup eigin viðskipta A (hér eftir EVG) á hlutabréfum útgefnum af bankanum hafi leitt til þess að röng mynd var gefin af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfanna. Nánar tiltekið er grunur um að með háttsemi sinni hafi starfsmenn A átt viðskipti eða gert tilboð, sem gáfu eða voru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum án þess að um viðurkennda framkvæmd væri að ræða. Þá er grunur um að hluti hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi hafi lotið að því að eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð voru á tilbúningi eða þar sem notuð voru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku.
Á tímabilinu 1. janúar 2004 til 3. október 2008 keyptu starfsmenn EVG umtalsvert af hlutabréfum útgefnum af bankanum eða um 7,7 milljarða hluta nettó á markaði með sjálfvirkri pörun (verður til í viðskiptakerfi Kauphallar þegar samsvörun verður milli tilboða kaupenda og seljenda í tilboðabók) á tímabilinu eða um 52% af útgefnu hlutafé bankans miðað við útgefið hlutafé bankans þann 1. janúar 2008 (14.880.701.303 hlutir). Umfang kaupanna var stór hluti af heildarveltu hlutabréfa A í Kauphöllinni í mörgum mánuðunum á tímabilinu sem um ræðir. Sem dæmi má nefna að frá júní 2007 til febrúar 2008 námu nettó kaup EVG, sem hlutfall af heildarkaupum á þessum hlutabréfum í Kauphöllinni, á bilinu 45-70% í sérhverjum mánuði.
Hlutafélög og fjármálafyrirtæki mega ekki eiga eða taka að veði meira en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins, sbr. 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í ljósi hinna umfangsmiklu kaupa á eigin bréfum, söfnuðust upp eigin bréf hjá A umfram lögbundin 10% á tímabili. Uppsöfnuð eigin bréf voru því næst seld af EVG í gegnum verðbréfamiðlun bankans, oft á tíðum í stórum utanþingsviðskiptum til útvalinna viðskiptavina bankans. Í mörgum tilvikum voru viðskiptin fjármögnuð af bankanum sjálfum með lánveitingum. Ásamt starfsmönnum EVG og verðbréfamiðlunar bankans virðast starfsmenn fleiri deilda innan bankans hafa tengst hinni meintu markaðsmisnotkun og þannig verið meðvitaðir um háttsemina sem viðgekkst innan bankans. Er talið að án aðkomu þessara deilda hafi A ekki getað falið stóra og vaxandi eign bankans í eigin bréfum. Meðal þessara deilda bankans eru regluvarsla, fyrirtækjasvið og áhættustýring bankans.
Framangreind háttsemi A var mjög kostnaðarsöm fyrir bankann, bæði vegna taps bankans á stöðu EVG í hlutabréfum í A og vegna margra lánveitinga bankans til útvalinna viðskiptavina sem eingöngu voru tryggðar með veði í fyrrgreindum hlutabréfum. Sem dæmi námu nettó kaup EVG á hlutum í bankanum sjálfum með sjálfvirkri pörun um 100 milljörðum króna frá 1. júní 2007 til 30. september 2008. Nam gengistap EVG af viðskiptum með hlutabréf útgefnum af bankanum á þessu sama tímabili rúmlega 19,6 milljörðum króna. Við það bætist tap bankans vegna lánveitinga til viðskiptavina bankans til fjármögnunar á hlutabréfakaupum í bankanum sjálfum sem nemur milljörðum. Ætluð brot varða gríðarlega fjárhagslega hagsmuni og verulega hagsmuni fjölda þeirra sem áttu viðskipti með hlutabréf í bankanum á umræddu tímabili þegar hin ætlaða markaðsmisnotkun fór fram. Þá er vert að horfa til hagsmuna þeirra sem lánuðu bankanum fjármuni til starfseminnar þar sem horft var til hlutabréfaverðs til marks um afkomu bankans við ákvarðanir um að lána bankanum fé. Einnig þarf að líta til hagsmuna þeirra sem tóku veð í hlutabréfum bankans sem tryggingu fyrir fjárskuldbindingum. Loks verður að líta til verðbréfamarkaðarins í heild, alls víðskiptalífsins og íslensks samfélags enda var A meðal stærstu og verðmætustu félaga á Íslandi.
Embætti sérstaks saksóknara telur rökstuddan grun vera fyrir því að yfirstjórnendur, ákveðnir starfsmenn EVG og verðbréfamiðlunar bankans hafi stundað þessi viðskipti af hálfu bankans með kerfisbundnum og skipulegum hætti yfir langt tímabil, í þeim tilgangi að hafa áhrif eða reyna að hafa áhrif á verð hlutabréfanna á markaði. Í mörgum tilvikum voru viðskiptin fjármögnuð af bankanum sjálfum.
Talið er að hin umfangsmiklu kaup á hlutabréfum útgefnum af bankanum hafi haft veruleg áhrif á heildarvirkni verðbréfamarkaðarins á Íslandi, þar sem röng mynd var gefin af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfanna á áðurnefndu tímabili. Ef rétt reynist þá varðar hin meinta markaðsmisnotkun hlutabréf sem mynduðu allt að 18%, eða tæplega fimmtung, af úrvalsvísitölu Kauphallarinnar.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
II. Lánveitingar A hf. til viðskiptavina í tengslum við kaup á hlutabréfum í bankanum.
Mál nr. 090-2009-000055 (Kaup Á ehf. á hlutabréfum í A hf. og B hf. og tengdar ráðstafanir)
Embættinu barst kæra, dags. 4. desember 2009, frá FME vegna kaupa Á ehf. á hlutabréfum í A og B hf. og tengdra ráðstafana.
Á ehf. var stofnað af A 9. nóvember 2007. Áhættunefnd bankans samþykkti þann 12. nóvember s.á. að veita félaginu allt að 24.000.000.000 króna að láni til kaupa á hlutabréfum í bankanum og stærsta eiganda hans, B hf. Daginn eftir keypti C, starfsmaður X í verðbréfamiðlun A, 380.000.000 hluti í C hf. og 640.000.000.000 hluti í bankanum, í nafni Á ehf., sem var ennþá 100% dótturfélag í eigu bankans.
Í framangreindri kæru FME kemur fram að seljandi hlutabréfanna hafi verið A í báðum ofangreindum tilvikum eða eins og hér segir:
Hlutabréf í B hf.
Seljandi Nafnverð
Eigin viðskipti A hf. 61.000.000
Söfnunarbók verðbréfamiðlunar 236.467.057
Miðlunarbók 443 15.971.960
Afleiðubók nr. 132 8.708.123
Afleiðubók nr. 88 57.852.860
Samtals: 380.000.000
Hlutabréf í A hf.
Seljandi Nafnverð
Eigin viðskipti A hf. 594.500.000
Miðlunarbók 443 45.500.000
Samtals: 640.000.000
Alls 61.000.000 hluta í B hf. komu úr EVG, en A gerði þó ekki innherjatilkynningu til Kauphallar vegna viðskiptanna. Þá seldi bankinn 236.467.057 hluti út af Söfnunarbók verðbréfamiðlunar, en hlutabréfunum hafði verið safnað upp, í andstöðu við innri reglur bankans, frá 24. apríl 2007 til 31. ágúst s.á. Tap A af þeirri stöðutöku var 1.832.191.763 krónur, en gengi hlutabréfa í B hf. hafði lækkað gríðarlega. Þá voru 15.971.960 hlutir seldir út af Miðlunarbók 443, sem fyrrgreindur X stýrði, en þar hafði hlutunum verið safnað frá 1. nóvember 2007 til 8. nóvember s.á., þvert gegn innri reglum bankans sem kváðu á um að miðlunarbækur skyldi tæma í lok dags. Alls 66.560.983 hlutir voru seldir úr Afleiðubókum bankans, sem halda utan um eign bankans á verðbréfum til að verja hann fyrir markaðsáhættu.
Daginn sem bankinn stofnar Á ehf. var heildarstaða hans í eigin hlutabréfum 12,606% af nafnverði innborgaðs hlutafjár, en samkvæmt þágildandi 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki má samanlagður eignarhluti bankans vera að hámarki 10%. Inni á veltubók Eigin viðskipta A var 4,245% af nafnverði innborgaðs hlutafjár bankans. Alls 594.500.000 hlutir í A voru seldir úr veltubók Eigin viðskipta bankans til Á ehf. Þá seldi bankinn 45.500.000 hluti úr Miðlunarbók 443, sem fyrrgreindur X hafði umsjón með, en þar hafði hlutunum verið safnað frá júní til ágúst 2007, sem braut gegn innri reglum bankans.
A stofnaði D ehf. þann 15. nóvember 2007. Daginn eftir keypti A 32,5% í Á ehf., í gegnum D ehf., fyrir 650.211.250 krónur. Útvaldir viðskiptavinir bankans keyptu jafnframt hlut í Á ehf. og lögðu 1.350.438.750 krónur til félagsins í formi hlutafjár. Hlutafé félagsins var því samtals 2.000.650.000 krónur.
Uppbygging fjármögnunar á hlutabréfakaupum Á ehf. var að öðru leyti með þeim hætti að A lánaði 19.538.481.818 krónur til félagsins í formi forgangsláns (e. senior loan), með veði í hlutabréfunum í B hf. en sölu- og veðsetningarbanni á hlutabréfunum í A sjálfum. Bankinn stofnaði E ehf. þann 13. nóvember 2007 og seldi til É hf. með kaupsamningi dags. 16. sama mánaðar. Í framhaldinu lánaði bankinn 2.500.000.000 króna til É hf., án trygginga, sem lánaði sömu upphæð til E ehf., sem loks lánaði Á ehf. sömu upphæð í formi víkjandi lánveitinga (e. Mezzanine loan). F hf. lánaði 1.000.000.000 króna til Á ehf. í formi víkjandi láns.
Endanleg uppbygging lánsfjármögnunar A til Á ehf. var samþykkt án athugasemda af áhættunefnd bankans þann 20. nóvember 2007. Þremur vikum eftir viðskiptin hafði gengi hlutabréfa A og B lækkað umtalsvert sem leiddi til þess að verðmæti trygginga að baki láni bankans til Á fór niður fyrir samningsbundið lágmark. A gerði engan reka að því að kalla eftir frekari tryggingum frá eigendum Á ehf., né að leysa til sín eignir félagsins, allt fram að falli bankans í október 2008. Embætti sérstaks saksóknara telur að hin umfangsmiklu kaup Á ehf., fjármögnuð að stærstum hluta af bankanum sjálfum, hafi verið í þeim tilgangi að losa uppsafnaða stöðu bankans í hlutabréfum í báðum félögum og spyrna við lækkunum á hlutabréfamarkaði.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
Mál nr. 090-2011-33 (G ehf.)
Til rannsóknar eru ætluð refsiverð háttsemi stjórnenda og starfsmanna í tengslum við lánveitingar bankans til félagsins G ehf. til hlutabréfakaupa í bankanum.
Nánar tiltekið er um að ræða kaup félagsins G ehf., í eigu H, á samtals 297.614.026 hlutum í A, þann 22. september 2008, samtals að andvirði 4.328.349.587 króna, að þóknun meðtalinni. Framkvæmd viðskiptanna var í höndum lánastjóra á fyrirtækjasviði og starfsmanna markaðsviðskipta A og var deild EVG seljandi hlutanna. Kaupin voru fjármögnuð með láni frá A til félagsins G ehf. án viðhlítandi trygginga. Málsatvik eru þau að lánabeiðni óstofnaðs félags í eigu H, var samþykkt milli funda þann 4. september 2008 af þremur meðlimum áhættunefndar A, þeim M, I og Í. Var samþykkt að lána félaginu G ehf. allt að 4,5 milljarða króna gegn 20% sjálfskuldarábyrgð félagsins H ehf. en á þeim tímapunkti lágu hvorki fyrir fjárhagsupplýsingar um G ehf. né heldur H sjálfan. Samkvæmt fundargerð áhættunefndar A, dags. 17. september 2008, var áðurnefnd lánaákvörðun staðfest með þeirri viðbót að samþykki væri háð því að fyrir lægu fjárhagsupplýsingar um félagið G ehf. og H.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna, enda hafi fjármunum bankans verið stefnt í verulega hættu með þessum gerningum. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
Mál nr. 090-2010-15 & 090-2011-8 (14 einkahlutafélög starfsmanna A)
Til rannsóknar eru ætluð refsiverð háttsemi stjórnenda og starfsmanna í tengslum við lánveitingar bankans til einkahlutafélaga í eigu lykilstarfsmanna A til hlutabréfakaupa í bankanum.
Nánar tiltekið er um að ræða kaup 14 einkahlutafélaga í eigu lykilstarfsmanna A á samtals 393.385.540 hlutum að nafnverði dagana 15. og 16. maí 2008, sem jafngilti 2,64% af heildarhlutafé A á þeim tíma. A fjármagnaði hlutafjárkaupin að fullu og nam heimiluð lánveiting til félaganna 14 samtals 6.790.000.000 króna að þóknun meðtalinni. Þetta fyrirkomulag gerði starfsmennina og félög þeirra skaðlaus og án allrar áhættu af þessum samningum. Framkvæmd viðskiptanna var í höndum Í, C og X, allir starfsmenn bankans. Deild EVG seldi a.m.k. 90% hlutabréfanna til miðlunar A sem seldi þau áfram til umræddra 14 einkahlutafélaga. Kaupin voru að öllu leyti fjármögnuð með lánum frá A án viðhlítandi trygginga en einungis var tekið veð í vörslusafni félaganna ásamt því að viðkomandi starfsmaður og eigandi sérhvers félags sýndi fram á að eignir hans í vörslu hjá A svaraði til 20% af kaupunum við viðskiptin. Lánabeiðnirnar vegna viðskiptanna voru annars vegar lagðar fram sem lánamál til stjórnar bankans, dagsett 6. maí 2008 og hins vegar sem lánamál til samþykktar milli funda lánanefndar þann 14. maí 2008. Allar lánabeiðnirnar voru samþykktar og undirritaðar af Y og J, stjórnarformanni bankans. Samkvæmt fundargerðum stjórnar og lánanefndar voru lánveitingarnar hins vegar ekki teknar fyrir með formlegum hætti, hvorki á fundi í stjórnar 6. maí 2008 né í lánanefnd.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna, enda hafi fjármunum bankans verið stefnt í stórfellda hættu með þessum gerningum. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
Mál nr. 090-2011-11 (K ehf.)
Til rannsóknar er ætluð refsiverð háttsemi stjórnenda og starfsmanna A í tengslum við lánveitingar bankans til K ehf. (K) til hlutabréfakaupa í A.
Nánar tiltekið er um að ræða kaup K, félags í eigu aðila sem allir tengjast L ehf., á 297,5 milljón hlutum í A þann 13. febrúar 2008 að andvirði 5.164.168.818 kr., að þóknun meðtalinni. Markaðsviðskipti A önnuðust viðskiptin og var X miðlari viðskiptanna. Seljandi hlutabréfanna var deild Eigin viðskipta A. Kaupin voru fjármögnuð með láni bankans til K án viðhlítandi trygginga. Viðskiptin voru framkvæmd þrátt fyrir að ákvörðun um lánveitingu hafi verið frestað í áhættunefnd sem hafði gert að skilyrði að eigið fé félagsins yrði 300-500 milljónir króna, en endanlegt samþykki fékkst á áhættunefndarfundi þann 20. febrúar 2008. A lánaði K til hlutabréfakaupanna gegn einungis sölu- og veðsetningarbanni á hlutabréfunum sjálfum.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna, enda hafi fjármunum bankans verið stefnt í stórfellda hættu með þessum gerningum. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
Mál nr. 090-2011-24 (M ehf.)
Til rannsóknar er ætluð refsiverð háttsemi stjórnenda og starfsmanna A í tengslum við lánveitingar bankans til M ehf. (M) til hlutabréfakaupa í A.
Nánar til tekið er um að ræða kaup M, félags í eigu N ehf., á 260.412.272 hluta á A að andvirði 4.453.049.851 kr. Markaðsviðskipti A önnuðust viðskiptin fyrir tilstilli X miðlara. Seljandi hlutabréfanna var deild Eigin viðskipta A. Hlutabréfakaupin voru að fullu fjármögnuð með lánveitingum frá bankanum sjálfum án viðhlítandi trygginga en A lánaði M til kaupa á hlutabréfunum gegn einungis veði í vörslusafni félagsins hjá A ásamt sölu- og veðsetningarbanni eigna félagsins.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna, enda hafi fjármunum bankans verið stefnt í stórfellda hættu með þessum gerningum. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
Mál nr. 090-2011-27 (O ehf / Ó ehf.)
Til rannsóknar er ætluð refsiverð háttsemi stjórnenda og starfsmanna A í tengslum við lánveitingar bankans til O ehf. (O) og Ó ehf. (Ó) til hlutabréfakaupa í A.
Nánar tiltekið er annars vegar um að ræða kaup O, félags í eigu P, á 341,5 milljón hluta í A þann 21. desember 2007 að andvirði 7.473.749.993 króna, að þóknun meðtalinni, og hins vegar kaup Ó, félags í 100% eigu O, á 370 milljón hlutum í A þann 18. september 2008 að andvirði 4.946.896.300 króna, að þóknun meðtalinni. Framkvæmd viðskiptanna var í höndum fyrrgreinds C starfsmanni hjá miðlun A og var deild Eigin viðskipta A (EVG) seljandi hlutanna. Kaupin voru fjármögnuð með lánum frá A til félaganna. Lánveiting til O var samþykkt í lánanefnd fyrirtækja, corporate credit commitee, þann 26. desember 2007 og var gert ráð fyrir því að til tryggingar væru hin keyptu hlutabréf í A og hlutabréf O í Q án þess að starfsmenn A hafi sannreynt eða lagt sjálfstætt mat á virði eignarhluta O í Q þegar ákvörðun um lánveitinguna var samþykkt. Lánveiting til Ó var samþykkt í áhættunefnd A 17. september 2008. Lánið var veitt án framlags eigin fjár, gegn sjálfskuldarábyrgð O og Ó sem takmarkaðist við 1.200 milljónir króna, ásamt sölu- og veðsetningarbanni.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna, enda hafi fjármunum bankans verið stefnt í stórfellda hættu með þessum gerningum. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
Mál nr. 090-2011-69 (R ehf.)
Til rannsóknar er ætluð refsiverð háttsemi stjórnenda og starfsmanna A í tengslum við lánveitingar bankans til R ehf. (R) til hlutabréfakaupa í A, og sala bréfanna aftur til A.
Nánar tiltekið er um að ræða kaup R, í eigu S, starfsmanns A, á samtals 150 milljón hlutum í A þann 7. nóvember 2007 á genginu 25,2 að andvirði 3.780.000.000 króna. Framkvæmd viðskiptanna var í höndum áðurnefnds C starfsmanni hjá miðlun A og var deild Eigin viðskipta A (EVG) seljandi hlutanna. Kaupin voru fjármögnuð með láni frá A til R án víðhlítandi trygginga. Lánveitingin fór ekki í gegnum áhættunefnd bankans heldur var einungis um að ræða heimild fyrir peningamarkaðsláni sem T, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, segist hafa aflað. Lánið var veitt til eins mánaðar í senn en framlengt alls níu sinnum.
Þann 25. apríl 2008 seldi R 30 milljónir hluta að nafnvirði á genginu 16,85 og voru viðskiptin tilkynnt til Kauphallarinnar sem utanþingsviðskipti. Miðlari var C og kaupandi var eigin viðskipti bankans. Óvíst er hvort óskað hafi verið heimildar regluvarðar fyrir viðskiptunum.
Þann 22. júlí 2008 seldi R 120 milljón hluti á genginu 14,95 og voru þau viðskipti tilkynnt sem utanþingsviðskipti. Miðlari var C og kaupandi markaðsviðskipti bankans sem miðlaði síðan bréfunum á sama gengi til eigin viðskipta. Sama dag kaupir R 120 milljónir hluta að nafnvirði á genginu 14,95 inn á vörslureikning nr. 210971 og selur þau síðan strax aftur á genginu 31,82 sem er 112% hærra verð en í fyrri viðskiptum. Hvorug þessara viðskipta voru tilkynnt til Kauphallarinnar. Samkvæmt gögnum kemur fram að eigin viðskipti A hafi keypt bréfin fyrir milligöngu C hjá miðlun A.
Samkvæmt kerfum Þ átti R ekki neina kaup- né söluréttarsamninga með undirliggjandi hlutabréf í A. C og U, starfsmenn A, hafa vísað í munnlegan samning sem ber þess merki að um einhvers konar skaðleysi hafi verið að ræða til handa S og félagi hans R.
Sérfræðingar embættisins hafa reiknað út hvað söluréttarsamningur um hlutabréf í A myndi kosta að gefnum ofangreindum forsendum. Miðað við að um sé að ræða 120 milljón hluti sem keyptir voru á genginu 25,2 þann 7. nóvember 2007 með lokadagsetningu 22. júlí 2008 á genginu 31,5 myndi slíkur samningur kosta 560.926.945 kr. Engin þóknun var hins vegar greidd önnur en hlutabréfaþóknun til miðlunar.
Grunur leikur á að með ofangreindu hafi R verið umbunað fyrir að eiga viðskiptin en sá hagnaður sem varð eftir í R nemur 85.725.973 krónum.
Embætti sérstaks saksóknara telur framangreint vekja rökstuddan grun um brot gegn 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Brot gegn þessum ákvæðum geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. tölul. 146. gr. s.l. Þá er einnig grunur um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna, enda hafi fjármunum bankans verið stefnt í stórfellda hættu með þessum gerningum. Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að tveimur árum, en allt að sex ára fangelsi ef mjög miklar sakir eru.
X var forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans frá júní 2005 fram að falli bankans í október 2008. Hann hafði m.a. umsjón með sölu bankans á eigin hlutabréfum til viðskiptavina hans. Sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar var hann yfirmaður C á nefndu tímabili.
Samkvæmt viðskiptagögnum Kauphallarinnar og A var X þátttakandi í allt að 16% af ársveltu utanþingsviðskipta í Kauphöll með hlutabréf A á tímabilinu 2004-2008. Samkvæmt viðskiptagögnum A var X skráður miðlari fyrir mörgum af stærstu sölum verðbréfamiðlunar á tímabilinu 2006-2008 með hlutabréf A. Þar á meðal var sala til K ehf að 5.555 milljónir króna að markaðsverðmæti og sala til M ehf fyrir 4.446 milljónir króna að markaðsverðmæti.
Skýrslu A um eigin hlutabréf var dreift til X þann 4. nóvember 2007 en staða bankans í eigin bréfum var á þeim tíma 10,9% skv. skýrslunni.
Talið er að X hafi fengið fyrirmæli frá stjórnendum bankans m.a. frá Y um að taka þátt í því að finna mögulega kaupendur á hlutabréfum bankans vegna hárrar stöðu í eigin hlutabréfum. Sem dæmi má nefna að í september 2007 þ.e. á tímabili þegar staða bankans í eigin hlutabréfum var um 13% fékk X tölvupóst frá Z, forstöðumanni markaðsviðskipta um að það þyrfti að gera eitthvað í þessum málum. Þann 2. september 2008 sendi Í þáverandi fjármálastjóri bankans tölvupóst í stjórnendur bankans um þunga stöðu eigin bréfa á rekstur bankans og er svarað af Y á þá leið að X sé í viðræðum við O, Ú /V ?), H, N og kvótakalla frá W ?. Sú ályktun er dregin að X sé kærði X og að þeir aðilar sem nefndir eru í póstinum séu hluta þeir sömu og eiga aðild að þeim málum sem hér að framan eru reifuð.
Vegna stöðu sinnar sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar er talið að X hafi haft vitneskju um umfangsmikil kaup eigin viðskipta bankans (EVG) á eigin bréfum og ráðstöfun þeirra með umfangsmiklum utanþingsviðskiptum. Embætti sérstaks saksóknara hefur rökstuddan grun um að stjórnendum bankans, þ.á m. X hafi verið ljóst að umrædd viðskipti væru í andstöðu við hagsmuni A enda fjármögnuð með lánum bankans til hlutabréfakaupa í bankanum oftast með eingöngu með tryggingum í bréfunum sjálfum og þá gjarnan til eignalausra eða eignalítilla félaga. Um verulega tjónshættu var að ræða í viðskiptunum þar sem öll áhættan virðist hafa verið lögð á bankann.
Rökstuddur grunur er um veigamikinn þátt X í ætluðum stórfelldum auðgunarbrotum samkvæmt almennum hegningarlögum og ætlaðri markaðsmisnotkun samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, sem hagsmunir almennings krefjast að upplýst verði um. Hin ætlaða markaðsmisnotkun er talin ná yfir langt tímabil og talið að um umfangsmikla og kerfisbundna brotastarfsemi hafi verið að ræða. A er félag sem skráð var á skipulegum verðbréfamarkaði á þeim tíma sem ætluð brot voru framin og þannig almenningshlutafélag. Ætluð brot höfðu í för með sér mikil fjárútlát og mikla áhættutöku fyrir A. Ætla má að X hafi verið ljós sú mikla tjónshætta sem stafaði af umræddum viðskiptum en fyrir liggur að bæði hluthafar og kröfuhafar A hafa orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna hinna ætluðu framangreindu brota. Verulegir hagsmunir standa til þess að hin ætluðu brot verði rannsökuð og upplýst um þau, þá sérstaklega vegna alvarleika háttseminnar og hinna afdrifaríku afleiðinga af henni.
Fjármálaeftirlitið hefur kært X fyrir aðild sína að meintum brotum í ofangreindum málum. Draga verður fram að X grunaður um refsiverða háttsemi er lýtur fyrst og fremst að málum sem hér hafa verið rakin og varða meint brot við lánveitingar A til viðskiptavina vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum. Bæði staða X í stjórnskipulagi bankans sem forstöðumaður verðbréfa-miðlunar sem og rannsóknargögn framangreindra mála vekja rökstuddan grun um að hann hafi gegnt virku hlutverki í meintum brotum sem til rannsóknar eru.
Rannsókn málanna er flókin og mjög yfirgripsmikil, enda spannar hin refsiverða háttsemi lengra tímabil en almennt gerist í sakamálum, til rannsóknar eru flóknir fjármálagerningar og rannsóknin varðar gríðarlega fjárhagslega hagsmuni.
Fyrir liggur að upplýsingar um þau sakarefni sem eru til rannsóknar eru að hluta kunnar opinberlega, m.a. eftir útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við rannsókn á umræddum sakarefnum hefur aftur á móti komið fram mikið af gögnum og upplýsingum sem ekki hafa verið gerð opinber og borin verða undir sakborninga og vitni í skýrslutökum. Rannsókn allra framangreindra mála, utan eins þeirra, er á frumstigi hjá embætti sérstaks saksóknara og ljóst að efni þeirra kæra sem rannsókn málanna snýr að, auk þess hvaða gögn liggja fyrir í málunum, eru ekki kunn kærðum og vitnum.
Á næstu dögum eru fyrirhugaðar skýrslutökur af tugum einstaklinga, sem ýmist hafa stöðu sakbornings eða vitnis í þeim málum sem til rannsóknar eru.
Með vísan til framangreinds er talið nauðsynlegt að kærði, X , sæti gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins, þar sem ætla má að gangi hann laus, þá muni hann torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka og/eða vitni og /eða skjóta undan gögnum sem sönnunargildi hafa í málinu og hafa enn ekki verið haldlögð. Það er talið gríðarlega þýðingarmikið í þágu rannsóknarinnar að fá fram sjálfstæðan framburð sakborninga og vitna. Þykir þannig mikilvægt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti gæsluvarðhaldi og sömu rök talin standa til þess að hann verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Til rannsóknar eru ætluð brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 249. gr. laganna, 117. gr., sbr. 146. gr., laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, 41. og síðar 55. gr. laga nr. 33/2003, og 154. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, en hin tilgreindu brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti geta varðað allt að 6 ára fangelsi.
Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun. Verði ekki fallist á kröfu um gæsluvarðhald er gerð krafa um að sakborningi verði bönnuð brottför af landinu, með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa veitt stjórnendum A banka liðsinni við stórfelld brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga, gegn lögum um verðbréfaviðskipti og gegn hlutafélagalögum í tengslum við starfsemi A hf. Ætluð brot kærða geta varðað allt að sex ára fangelsi. Rannsókn í málinu er yfirgripsmikil og flókin og á næstu dögum er fyrirhugað að yfirheyra tugi manna sem ýmist eru vitni í málinu eða liggja undir grun. Dómurinn lítur svo á að hætta sé á því að kærði torveldi rannsókn málsins, fái hann að ganga laus, með því að hafa áhrif á samseka og vitni eða skjóta undan gögnum sem enn hefur ekki verið lagt hald á í rannsókninni. Ber með vísan til a-liðar 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála að taka kröfu hins sérstaka saksóknara til greina og ákveða að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er og að hann verði jafnframt hafður í einrúmi.“
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. desember 2011, kl. 16:00.
Kærði skal hafður í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.