Hæstiréttur íslands
Mál nr. 68/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 23. mars 2011. |
|
Nr. 68/2011. |
Skollaborg ehf. og Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn NBI hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S ehf. og H hf. gegn N hf. var vísað frá dómi. S ehf. hafði gert viðskiptasamning um reikningslánalínu við L hf., forvera N hf., og gekkst H hf. í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu. Í málinu krafðist S ehf. þess aðallega að tilteknar skuldbindingar félagsins vegna lánasamningsins yrðu ógiltar en til vara að þeim yrði rift og í báðum tilvikum skaðabóta. H hf. gerði þá kröfu að sjálfskuldarábyrgð þess á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt viðskiptasamningnum yrði ógilt. Þá gerði S ehf. einnig tvær aðrar kröfur að þessum frágengnum. Í Hæstarétti var ekkert talið því til fyrirstöðu að krafist væri ógildingar eða riftunar á samkomulagi um hvern einstakan lánshluta en ekki samningnum í heild sinni. Á hinn bóginn skorti verulega á að í stefnu væri gerð nægileg grein fyrir því hver væri grundvöllur kröfu um ógildingu eða riftun. Þá væri lýsing á málsástæðum og lögfræðilegum rökum S ehf. ekki í nauðsynlegum tengslum við kröfur hans. Var krafa H hf. talin sama marki brennd. Þá væri engin grein gerð fyrir því í stefnu hvernig krafa S ehf. um skaðabætur samrýmdist kröfu um ógildingu og riftun. Ekki var talið að frekari gagnaöflun hefði getað ráðið bót á þeim annmörkum sem leiddu til frávísunar málsins. Hæstiréttur staðfesti því hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans að öðru leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sama ár. Frekari gögn bárust réttinum síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
I
Til stuðnings kröfu sinni hafa sóknaraðilar reifað ítarlega sjónarmið, sem leiða eigi til þess að kröfugerð þeirra og málsreifun sé fullnægjandi samkvæmt 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafa þeir krafist þess sérstaklega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi af þeim sökum að þeim hafi ekki gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum gegn frávísunarkröfu varnaraðila á framfæri með skriflegum hætti við meðferð málsins í héraði. Þá sé í hinum kærða úrskurði ekki fjallað neitt um þau sjónarmið og málsástæður sem þeir hafi teflt fram gegn frávísunarkröfu varnaraðila.
Héraðsdómara hefði verið rétt að gera sérstaklega grein fyrir því í úrskurði sínum hvaða rökum sóknaraðilar tefldu fram gegn frávísunarkröfu varnaraðila. Á hinn bóginn gera ákvæði laga nr. 91/1991 ekki ráð fyrir því að stefnandi í máli, þar sem frávísunarkrafa kemur fram, eigi rétt á að skila skriflegri greinargerð til andsvara frávísunarkröfu stefnda.
II
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var gerður ,,viðskiptasamningur um reikningslánalínu“ að fjárhæð 1.500.000.000 krónur milli sóknaraðilans Skollaborgar ehf. og Landsbanka Íslands hf. 15. maí 2007 en sóknaraðilinn Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu. Í þessum samningi er gert ráð fyrir að lánið sé greitt Skollaborg ehf. í hlutum og mælt fyrir um að félagið þurfi að undirrita lánsbeiðni og veita tilteknar upplýsingar til þess að hver einstakur lánshluti verði greiddur út. Í samningnum segir einnig að hver lánshluti teljist ,,vera sjálfstætt lán“. Verður af þessu dregin sú ályktun að ekkert sé því til fyrirstöðu, að krafist sé ógildingar eða riftunar á samkomulagi um hvern einstakan lánshluta, en ekki samningnum í heild sinni. Verulega skortir á að í stefnu sé gerð nægileg grein fyrir því, hver sé grundvöllur kröfu um ógildingu eða riftun á samkomulagi um hvern lánshluta fyrir sig. Þá er lýsing á málsástæðum og lögfræðilegum rökum sóknaraðila ekki í nauðsynlegum tengslum við kröfu hans um ógildingu eða riftun. Sömu annmarkar eru á kröfu um ógildingu eða riftun á ráðstöfunum þeim, sem sóknaraðilinn Skollaborg ehf. tilgreinir í liðum 1 til 8 í aðalkröfu sinni um ógildingu og varakröfu um riftun ráðstafananna.
Krafa sóknaraðilans Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. um ógildingu á sjálfskuldarábyrgð, sem félagið undirgekkst með samningnum 15. maí 2007, er sama marki brennd að því leyti að á skortir að lýst sé nægilega hvaða atvik eigi að leiða til ógildingar og hvernig þau verði færð til þeirra ógildingarástæðna sem vísað er til.
Þá er engin grein gerð fyrir því í stefnu hvernig krafa sóknaraðilans Skollaborgar ehf. um skaðabætur að fjárhæð 2.148.285.434 krónur samrýmist kröfu um ógildingu og til vara riftun, en slíkt var nauðsynlegt þar sem réttarárhrif ógildingar og riftunar, þegar skyldur samningsaðila hafa verið efndar í heild eða að hluta, eru almennt þau, að greiðslur skuli ganga til baka. Af þessu leiðir að ef fallist verður á kröfu um ógildingu eða riftun fælist í því skylda til að skila til baka þeim verðmætum, sem Skollaborg ehf. annars vegar og Landsbanki Íslands hf. hins vegar hefðu fengið í hendur. Framangreind skaðabótakrafa er ósamrýmanleg þessum réttaráhrifum.
Það athugast að í niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar segir: ,,Aðal-, vara- og þrautavarakrafa [sóknaraðila] um ógildingu og riftun lýtur ekki að ógildingu eða riftun á þessum viðskiptasamningi í heild sinni heldur að einstökum lánum sem Landsbanki Íslands hf. veitti á grundvelli viðskiptasamningsins og tilteknum ráðstöfunum á andvirði lánveitinganna.“ Hið rétta er að þrautavarakrafa, sem sóknaraðilinn Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. stendur einn að, er um ógildingu á sjálfskuldarábyrgð hans á efndum allra skuldbindinga samkvæmt viðskiptasamningnum.
Meðal þeirra ástæðna, sem sóknaraðilar halda fram til stuðnings því að ekki eigi að fallast á frávísunarkröfu varnaraðila er að gagnaöflunarfresti hafi ekki verið lokið og þeir hafi því átt þess kost að skjóta frekari stoðum undir málatilbúnað sinn. Um þetta er þess að gæta að frekari gagnaöflun hefði ekki getað ráðið bót á þeim annmörkum, sem leiða til frávísunar málsins.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Skollaborg ehf. og Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., greiði óskipt varnaraðila, NBI hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2011.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 25. nóvember sl. er höfðað 29. júní 2010.
Stefnendur eru Skollaborg ehf., Hnífsdalsbryggju, Hnífsdal og Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf., Hnífsdalsbryggju, Hnífsdal.
Stefndi er NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda
Stefnandi, Skollaborg ehf. krefst þess aðallega að skuldbindingar félagsins vegna eftirfarandi lánveitinga sem veittar voru á grundvelli lánasamnings að fjárhæð 1.500.000.000 króna milli stefnanda Skollaborgar ehf. og stefnda frá 15. maí 2007 verði með dómi lýstar ógildar frá upphafi:
a. Hinn 23. ágúst 2007 veitti stefndi stefnanda, Skollaborg ehf., lán að fjárhæð 24.112.500 krónur (greiðsluauðkenni nr. 3048926).
b. Hinn 7. september 2007 veitti stefndi stefnanda, Skollaborg ehf., lán að fjárhæð 124.715.000 krónur (greiðsluauðkenni nr. 3066695).
c. Hinn 2. október 2007 veitti stefndi stefnanda, Skollaborg ehf., lán að fjárhæð 99.657.000 krónur (greiðsluauðkenni nr. 3092606).
d. Hinn 3. október 2007 veitti stefndi stefnanda, Skollaborg ehf., lán að fjárhæð 99.087.000 krónur (greiðsluauðkenni nr. 3094601).
Jafnframt krefst stefnandi, Skollaborg ehf., ógildingar á ráðstöfun andvirðis lánveitinganna til kaupa á hlutabréfum og sjálfum hlutabréfaviðskiptunum í eftirtöldum viðskiptum þess og stefnda:
1. Þann 22. ágúst 2007 voru hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. keypt að nafnverði 5.000.000 króna (viðskipti nr. 1.623.729). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 203.107.500 krónur.
2. Þann 21. september 2007 voru hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. keypt að nafnverði 3.120.000 krónur (viðskipti nr. 1.660.011). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 125.174.400 krónur.
3. Þann 2. október 2007 voru hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. keypt að nafnverði 3.172.500 krónur (viðskipti nr. 1.675.511). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 130.940.020 krónur.
4. Þann 10. október 2007 voru hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. keypt að nafnverði 3.500.000 krónur (viðskipti nr. 1.687.223). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 151.302.550 krónur.
5. Þann 11. janúar 2008 voru hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. keypt að nafnverði 5.000.000 króna (viðskipti nr. 1.808.908). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 161.984.500 krónur.
6. Þann 7. mars 2008 voru hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. keypt að nafnverði 5.000.000 króna (viðskipti nr. 1.884.708). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 132.897.500 krónur.
7. Þann 11. mars 2008 voru hlutabréf í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. keypt að nafnverði 5.000.000 króna (viðskipti nr. 1.887.414). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 56.067.700 krónur.
8. Þann 22. desember 2008 voru hlutabréf í Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka hf. keypt að nafnverði 5.917.888 krónur (viðskipti nr. 2.209.857). Að meðtöldum kostnaði voru viðskiptin að fjárhæð 11.421.524 krónur.
Til vara krefst stefnandi Skollaborg ehf. þess að ofangreindum lánveitingum í stafliðum a.-d. í aðalkröfu og hlutabréfaviðskiptum í 1.-8. tölulið aðalkröfu verði rift með dómi.
Til þrautavara krefst stefnandi, Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf., þess að sjálfskuldarábyrgð hans á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt lánasamningi 1.500.000.000 króna milli stefnanda Skollaborgar ehf. og stefnda, frá 15. maí 2007, verði með dómi lýst ógild frá upphafi.
Til þrautaþrautavara krefst stefnandi Skollaborg ehf. viðurkenningar á því að félagið eigi rétt á því gagnvart stefnda að uppgjör lánveitinga samkvæmt lánasamningi 1.500.000.000 króna milli stefnanda Skollaborgar ehf. og stefnda, frá 15. maí 2007, skuli framkvæmt í íslenskum krónum án viðmiðunar við gengi erlendra gjaldmiðla.
Í öllum tilfellum er þess krafist að stefndi greiði stefnanda Skollaborg ehf. 2.148.285.434 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts í samræmi við hagsmuni málsins eða málskostnaðaryfirlit sem lagt verður fram við aðalmeðferð máls þessa, ef til hennar kemur.
Dómkröfur stefnda
Stefndi krefst þess aðallega að öllum kröfum stefnenda verði vísað frá dómi.
Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.
Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar, in solidum, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum þannig í stefnu að hinn 14. nóvember 2003 hafi Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. stofnað einkahlutafélagið Skollaborg ehf. sem hafi verið og sé að öllu leyti í eigu þess. Tilgangur þess hafi meðal annars verið sá að fjárfesta í innlendum og erlendum hlutafélögum, verðbréfum, skuldabréfum og fasteignum. Við stofnun félagsins hafi öll hlutabréf í eigu Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. flust yfir í hið nýja félag og hafi verðmæti þeirra verið metið á 530 milljónir króna.
Vorið 2007 hafi stjórn Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. hafið undirbúning að frekari fjárfestingum félagsins. Hinn 15. apríl 2007 hafi stjórn Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. ákveðið að stofna til frekari viðskipta með skráð hlutabréf. Stjórnin hafi verið sammála því að gert yrði samkomulag við Landsbanka Íslands hf. um kaup á hlutabréfum í skráðum félögum fyrir allt að 1,7 milljarða króna. Landsbankinn hafi veitt félaginu fyrirgreiðslu vegna þessa. Þá hafi verið ákveðið að koma að sjálfstæðum fjárfestingarverkefnum í samstarfi við bankann fyrir 500 milljónir króna. Þessi viðskipti hafi farið fram í nafni stefnanda Skollaborgar ehf. Þá hafi framkvæmdastjóra Skollaborgar ehf., verið heimilað að leggja fram þær ábyrgðir fyrir Hraðfrystihúsið - Gunnvöru hf., sem nauðsynlegar væru vegna viðskiptanna.
Í kjölfarið hafi verið haldinn fundur í Landsbankanum með Ara Wendel, forstöðumanni fyrirtækjasviðs, og Elínu Sigfúsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, um það hvernig þessi viðskipti færu fram.
Hinn 15. maí 2007 hafi stefnandi Skollaborg ehf. undirritað viðskiptasamning við stefnda að fjárhæð 1.500.000.000 króna. Samkvæmt samningnum skyldi stefndi hafa til reiðu fyrir stefnanda Skollaborg ehf., reikningslánalínu að fjárhæð 1.500.000.000 króna.
Ábyrgðaraðili lántakans hafi verið stefnandi Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. sem gekkst undir sjálfskuldarábyrgð á fullum efndum allra skuldbindinga Skollaborgar ehf., samkvæmt samningnum. Þá hafi stefnandi Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. handveðsett Landsbankanum fjármálagerninga í sinni eigu á VS-reikningi nr. 402780 til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samkvæmt samningnum, sbr. gr. 12.2.
Í kjölfarið hafi stefnandi, Skollaborg ehf., stundað verðbréfaviðskipti fyrir tilstuðlan stefnda samtals að fjárhæð u.þ.b. 600 milljónum króna sem teknar voru að láni hjá stefnda á grundvelli ofangreinds viðskiptasamnings og ráðstafað að meginstefnu til hlutabréfakaupa í Landsbanka Íslands hf. og Straumi Burðarás hf.
Hinn 12. september 2007 hafi stefnandi, Skollaborg ehf., undirritað almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf.
Í ágúst 2007 hafi miðlarar stefnda farið að ráðleggja stefnanda að fjárfesta frekar í Landsbankanum en einnig í Straumi. Í kjölfarið hafi eftirfarandi viðskipti átt sér stað:
|
Dags. |
Bréf |
Nafnverð |
Gengi |
Verðmæti |
Þóknun LÍ |
|
22.8.2007 |
LAIS |
5.000.000 |
40,5 |
202.500.000 |
607.500 |
|
7.9.2007 |
LAIS |
-4.107.500 |
41,1 |
168.818.250 |
506.455 |
|
21.9.2007 |
LAIS |
3.120.000 |
40 |
124.800.000 |
374.400 |
|
2.10.2007 |
LAIS |
3.172.500 |
41,15 |
130.548.375 |
391.645 |
|
10.10.2007 |
LAIS |
3.500.000 |
43,1 |
150.850.000 |
452.550 |
|
11.1.2008 |
LAIS |
5.000.000 |
32,3 |
161.500.000 |
484.500 |
|
7.3.2008 |
LAIS |
5.000.000 |
26,5 |
132.500.000 |
397.500 |
|
11.2.2008 |
STRB |
5.000.000 |
11,18 |
55.900.000 |
167.700 |
|
11.4.2008 |
LAIS |
-5.000.000 |
-30,42 |
152.100.000 |
456.300 |
|
22.12.2008 |
STRB |
5.917.888 |
1,93 |
11.421.524 |
|
Hinn 9. janúar 2008 hafi framkvæmdastjóri stefnanda Skollaborgar ehf. rætt við Viggó E. Hilmarsson, miðlara hjá Landsbankanum, um þá stöðu íslenska fjármálakerfisins þar sem menn væru að selja bréf í bönkunum. Viggó hafi talið rétt að bíða með sölu á bréfunum.
Hinn 11. janúar 2008 hafi Viggó E. Hilmarsson hringt í framkvæmdastjóra stefnanda Skollaborgar ehf. og upplýst um hugsanlega sameiningu Landsbankans við Straum-Burðarás fjárfestingarbanka. Viggó hafi viljað að Skollaborg ehf., keypti í Landsbankanum fyrir 3-5.000.000 króna að nafnvirði.
Hinn 4. mars 2008 hafi starfsmenn stefnda greint stefnanda, Skollaborg ehf., frá EUR 1,3 milljarða langtímafjármögnun Kaupþings banka hf. Hafi þeir talið honum trú um að bjartari tímar væru í augsýn fyrir íslenska bankakerfið.
Hinn 16. apríl 2008 hafi starfsmaður stefnda í skuldastýringu skrifað í bréfi til Skollaborgar ehf. að hann gerði ráð fyrir því að gengisvísitalan yrði á bilinu 130-140 um áramótin 2008/2009, að því gefnu að Seðlabankinn eða ríkið kæmu með einhvers konar útspil. Þá hafi gengisvísitalan staðið í tæplega 120 en hún hafi verið u.þ.b. 220 um áramótin 2008/2009.
Stjórnvöld hafi yfirtekið Landsbanka Íslands hf. í október 2008 og í framhaldi af því hafi bankanum verið skipt í tvö félög, nýja og gamla bankann. Eignir og skuldir hafi að hluta til verið fluttar úr gamla bankanum í nýja bankann, sem nú heiti NBI hf. Viðskipti stefnanda hafi verið flutt úr gamla bankanum í þann nýja, þar á meðal kröfur bankans á hendur stefnanda, þeirra á meðal fyrrnefndir lánasamningar, án samráðs og samþykkis stefnenda. Stefndi, NBI hf., hafi tekið á sig allar skyldur og réttindi gagnvart stefnanda, sem áður hafi verið í höndum gamla bankans, sem sé nú í slitameðferð.
Stefndi mótmælir lýsingu stefnenda á málavöxtum. Sérstaklega er því mótmælt að Gamli Landsbanki Íslands hf. (GLÍ) hafi átt frumkvæði að lántöku stefnanda og/eða ákvörðun um hvernig skyldi fjárfest.
Hvað varðar málavaxtalýsingu stefnanda að öðru leyti bendir stefndi á að það beri að hafa í huga að stefnandi kjósi að beina kröfum sínum að stefnda, NBI hf., í stað þess að beina kröfum að viðsemjanda sínum, Gamla Landsbanka Íslands hf. (GLÍ) Eðli málsins samkvæmt hafi stefndi ekki yfir að ráða upplýsingum um allt sem kann að hafa farið á milli stefnanda og GLÍ sem nú sé í slitameðferð. Engu að síður sé í stefnu að finna fjölmargar áskoranir á hendur stefnda um framlagningu gagna sem eðli málsins samkvæmt væri að finna í GLÍ, ef þau á annað borð séu til. Lögð sé á það áhersla að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir öllum staðhæfingum sínum og sú byrði færist ekki yfir til stefnda í þeim tilvikum sem áskorunum um gagnaframlagningu er beint að röngum aðila eða þegar áskorun er um gögn sem séu ekki og hafi aldrei verið til.
Þá sé því sérstaklega mótmælt sem ítrekað komi fram í stefnu að stefndi, NBI hf., hafi tekið á sig allar skyldur og réttindi gagnvart stefnanda, sem áður hafi verið í höndum GLÍ. Rétt sé að lánasamningurinn milli aðila og lánshlutarnir, sem á sínum tíma voru greiddir út á grundvelli samningsins, voru færðir yfir í NBI hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Hafi þar verið um framsal tiltekinna gerninga að ræða og komi því til greina að hafðar séu uppi kröfur er varðar þá gerninga á hendur NBI hf. Hins vegar virðist stefnandi líta svo á að allar hugsanlegar kröfur sem hann kunni að eiga á hendur gamla bankanum, þ.á m. skaðabótakröfur vegna hvers konar háttsemi starfsmanna gamla bankans, hafi með þessu framsali fylgt með inn í nýja bankann. Sé þessu harðlega mótmælt af hálfu stefnda.
Málatilbúnaður stefnanda gangi meira og minna út frá þeirri staðhæfingu að félagið sé fórnarlamb bankastofnunar sem hafi nýtt sér reynsluleysi félagsins og/eða stjórnar og þvingað þannig upp á félagið lánum og í kjölfarið ráðstafað lánsfénu í andstöðu við vilja þess til kaupa á bréfum í bankanum sjálfum og tengdum félögum. Málavaxtalýsingu þessari og málatilbúnaði sé harðlega mótmælt af hálfu stefnda en um málavexti vísist að öðu leyti til umfjöllunar um málsástæður.
Málsástæður stefnenda og lagarök
Í stefnu er fjallað um aðild málsins og segir þar að NBI hf. sé stefnt í máli þessu þrátt fyrir að viðskipti stefnanda hafi að meginstefnu verið við Landsbanka Íslands hf. Styðjist stefnendur við samkomulag aðila um málshöfðun þessa þar sem stefndi gangi sjálfur út frá aðild sinni að málinu. Í því felist viðurkenning á því að lánasamningarnir séu nú á ábyrgð og í eigu NBI hf. Þá sé í samkomulaginu gert ráð fyrir að stefnendur geti borið undir dómstóla ágreining um önnur atriði í viðskiptum aðila málsins en ógildingu lánasamningsins, enda sé lánasamningurinn einungis nefndur í dæmaskyni í samkomulaginu, sbr. samkomulag aðila frá 11. febrúar 2010. Um þetta vísist einnig til opinberra tilkynninga og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins um skiptingu Landsbankans í tvö félög. Þar hafi meginþorri allra eigna Landsbanka Íslands hf. á Íslandi verið framseldar til Nýja Landsbankans, en tilteknar eignir hafi verið undanskildar sbr. tæmandi talningu í viðauka með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Þá hafi öll tryggingaréttindi verið framseld til Landsbanka Íslands hf. Þar segi jafnframt að Nýi Landsbankinn taki við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Landsbanka Íslands hf. á Íslandi. Stefndi hafi sjálfur tilkynnt stefnendum að hann hafi yfirtekið réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. frá og með 9. október 2008, sbr. lokaaðvörun stefnda, dags. 2. febrúar 2010. Þá hafi stefndi verið viðsemjandi stefnanda, Skollaborgar ehf., við gerð viðauka við lánasamninginn 30. desember 2008. Stefnendur haldi því öllum þeim mótbárum og réttindum sem þeir eigi gegn Landsbanka Íslands hf. einnig gegn stefnda. Að því sögðu sé í stefnu bæði vísað til NBI hf. og Landsbanka Íslands hf. sem stefnda nema þegar annað sé sérstaklega tekið fram.
Aðild stefnanda, Skollaborgar ehf., byggi á lána- og verðbréfaviðskiptum við Landsbanka Íslands hf. fram að falli bankans en eftir það við NBI hf.
Aðild stefnanda, Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf., byggi á ákvæðum lánasamnings 1.500.000.000 króna milli Skollaborgar ehf. og stefnda 15. maí 2007 um sjálfskuldarábyrgð stefnanda Hraðfrystishússins-Gunnvarar hf.
Samlagsaðild stefnenda byggi á 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefnandi, Skollaborg ehf., kveður aðal-, vara- og þrautaþrautavarakröfu sína byggjast á því að lánveitingar með þeim hætti sem um ræði í málinu séu ólöglegar að íslenskum rétti. Sé þar fyrst og fremst átt við að óheimilt sé að miða lánin, sem tilgreind séu í íslenskum krónum, við gengi erlendra gjaldmiðla.
Stefnandi, Skollaborg ehf., hafi gert lánasamning við stefnda sem lánveitanda 15. maí 2007 um 1.500.000.000 króna. Á forsíðu lánasamningsins sé tilgreint að um sé að ræða lán í íslenskum krónum en hvergi í samningnum séu fjárhæðir tilgreindar í öðrum gjaldmiðlum. Lánsfjárhæðunum hafi verið ráðstafað til verðbréfaviðskipta sem stefnandi hafi stundað samkvæmt ráðgjöf og fyrir milligöngu stefnda. Í lánasamningunum sé tekið fram að verið sé að veita lántaka rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 1.500.000.000 króna. Þá segi jafnframt í gr. 7.1. að afborganir, vexti og dráttarvexti og aðrar greiðslur skuli greiða í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Vilji og óskir stefnanda hafi staðið til þess að fá lánaðar íslenskar krónur, sbr. t.d. beiðni stefnanda, Skollaborgar ehf., um lán að fjárhæð 500.000.000 króna en hafi stefndi útbúið og afhent lán að þeirri fjárhæð, gengistryggt í evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Stefnandi hafi verið skuldfærður hjá bankanum fyrir skuld í íslenskum krónum en hann hafi að meginstefnu til fengið greiddar íslenskar krónur inn á tékkareikning sinn, sem sé bókfærður í íslenskum krónum. Afborganir af láninu hafi einnig verið greiddar í íslenskum krónum. Lánsfénu hafi síðan verið varið til fjárfestinga í íslenskum fjármálagerningum. Lántakan og ráðstöfun fjármunanna hafi því engin tengsl haft utan Íslands.
Þá sé ljóst af gr. 13.2 að ef til gjaldfellingar viðskiptasamningsins kæmi væri stefnda heimilt að krefja stefnendur um greiðslu á skuldinni í íslenskum krónum og með íslenskum dráttarvöxtum í samræmi við III. kafla laga nr. 38/2001.
Umræddur viðskiptasamningur sé því lánasamningur í íslenskum krónum og gengistryggður eftir gengi þeirra gjaldmiðla er miðað var við þegar stefnandi dró á lánið. Slík gengistrygging sé í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sem séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna. Að því sögðu sé gengistrygging viðskiptasamningsins í andstöðu við fyrirmæli laganna og skuldbindi ekki stefnendur af þeim sökum.
Þar að auki telji stefnandi að umrædd samningsákvæði séu ógildanleg á grundvelli 36. gr. samningalaga og óskráðra reglna samningaréttar um brostnar forsendur. Sé vísað til þess að utanaðkomandi áhrif, sem stefnandi hafi enga stjórn haft á, hafi valdið því að fjárhæðir lánanna hafi margfaldast vegna gengishruns krónunnar. Í skilningi 36. gr. samningalaga sé ósanngjarnt að stefnandi beri einn skaða vegna þessa og teljist þessar breytingar, ásamt algeru hruni íslensks fjármálakerfis, brostnar forsendur sem leiði til ógildingar lánasamningsins að þessu leyti. Um allt þetta hafi bankanum mátt vera kunnugt.
Stefnandi, Skollaborg ehf., byggi jafnframt á því að Landsbankinn, ásamt öðrum íslenskum bönkum, hafi tekið stöðu gegn krónunni í framvirkum gjaldeyrissamningum og þannig skaðað hagsmuni viðsemjanda, þ.e. stefnenda, í andstöðu við reglur um trúnaðarskyldu í samningssambandi. Á sama tíma og stefndi hafi ráðlagt stefnanda að taka gengistryggð lán til kaupa í íslenskum hlutabréfum hafi stefndi, og eigendur hans, sjálfir kosið að selja krónur.
Enn fremur vísi stefnendur til alls þess sem reifað sé í stefnunni um skort á upplýsingum, ranga ráðgjöf og ófullnægjandi vinnubrögð af hálfu bankans, sem gefi sig þó út fyrir að búa yfir sérþekkingu á þessu sviði. Sérstaklega sé byggt á því að ráðgjöf um lántöku með tengingu við gengi erlendra mynta, án þess að bankinn hafi kynnt fyrir stefnendum þá áhættu sem felst í slíkum viðskiptum, uppfylli ekki þær faglegu kröfur sem gera verði til ráðgjafar fjármálastofnunar.
Landsbanki Íslands hf. hefur verið aðalviðskiptabanki stefnenda frá 1995 og hafi annast alla ráðgjöf varðandi rekstur stefnenda, lántökur, gjaldeyrismál og fjárfestingar, þ.á m. í hlutabréfum og í peningabréfum Landsbankans. Bankanum hafi þannig verið ljóst hve takmörkuð reynsla og þekking stefnenda var á sviði fjárfestinga og verðbréfa.
Stefnandi, Skollaborg ehf., byggir á því að félagið hafi notið stöðu almenns fjárfestis í viðskiptum sínum við stefnda. Einu gildi hvernig stefndi hafi skilgreint stefnanda á markaði, þar eð flokkunin hafi farið fram að frumkvæði stefnda og án þátttöku stefnanda. Þá hafi stefnandi heldur ekki verið upplýstur með fullnægjandi hætti um flokkunina og réttaráhrif hennar. Honum hafi ekki verið kynntur möguleiki þess að fá flokkunina endurskoðaða.
Á umræddu tímabili hafi stefndi veitt stefnanda fjárfestingarráðgjöf í skilningi 4. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 en slík ráðgjöf í hagnaðarskyni til annarra um kaup eða sölu verðbréfa geti verið ein þýðingarmesta ástæða fyrir ákvörðun kaupanda og teljist því til verðbréfaviðskipta, sbr. 5. tl. 1. mgr. 1. gr. laganna. Mestar kvaðir séu lagðar á fjármálafyrirtæki þegar þau veiti slíka þjónustu en sá skilningur sé jafnframt í samræmi við innleiðingu MiFID-tilskipun Evrópuráðsins sem mæli fyrir um ríkari fjárfestavernd.
Stefnendur byggi m.a. á því að milliganga bankans um lánveitingar sem mál þetta snúist um og fjárfestingar fyrir andvirði lánanna og ráðgjöf í sambandi við alla þá gerninga hafi verið röng og haldin galla. Ráðgjöfin, milliganga og framganga bankans í máli stefnenda hafi valdið þeim ómældu tjóni. Á því tjóni beri stefndi ábyrgð þar sem hann hafi yfirtekið réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. gagnvart stefnendum.
Hlutabréfakaupin hafi, a.m.k. að hluta til, verið að frumkvæði og áeggjan starfsmanna bankans sjálfs, sem hafi reglulega rætt við framkvæmdastjóra stefnanda, Skollaborgar ehf., og hvöttu félagið til að kaupa í stefnda eða félögum honum tengdum.
Sérstaka athygli veki að starfsmenn stefnda hafi nær eingöngu ráðlagt stefnanda að fjárfesta í stefnda eða félögum tengdum honum og/eða eigendum hans. Þá gangi þessi ráðgjöf þvert gegn óskum stefnanda sem hafi viljað ráðstafa lánunum í örugga fjárfestingu.
Bankinn hafi tekið fulla þóknun af viðskiptunum og telji stefnandi að síðan hafi sölumennirnir í verðbréfadeild bankans fengið hlutfall eða hlutdeild í þeirri þóknun. Þá sé einnig ástæða til að ætla að málum hafi að auki verið þannig háttað innan bankans að starfsmenn annarra deilda hafi einnig fengið hlutdeild í þóknun eða einhvers konar bónusa fyrir þau lán sem veitt voru til stefnenda og ráðstöfun þeirra. Því til stuðnings vísi stefnandi til umfjöllunar rannsóknarnefndar Alþingis um launakjör starfsmanna Landsbanka Íslands en þar komi fram að yfir 75% starfsmanna bankans hafi fengið bónusgreiðslur í einhverju formi.
Bónusar starfsmanna verðbréfadeildar stefnda hafi tekið mið af þóknunum deildarinnar sem einungis hafi tekið mið af umfangi og fjölda viðskipta en ekki því hvort viðskiptin skiluðu viðskiptamönnum arði. Stefnendur byggi á því að háar þóknanir til starfsmanna vegna seldra hlutabréfa hafi stuðlað að því að bankinn hafði ekki hagsmuni stefnenda í huga við viðskiptin og hafi bankinn þannig farið á skjön við lagaskyldur sínar gagnvart stefnendum sem viðskiptavinum og fjárfestum.
Fyrirsvarsmenn stefnenda séu fiskverkendur og útgerðarmenn en lántökurnar og samfarandi fjárfestingar hafi fallið langt utan sérþekkingar þeirra. Í því sambandi vísi stefnendur til 3. mgr. 39. gr. reglugerðar nr. 995/2007 sem kveði á um að fjárfestingarráðgjöfin þurfi að vera sett fram þannig að hún hæfi viðkomandi viðskiptavini eða byggjast á mati á aðstæðum þess aðila.
Þá verði jafnframt að athuga að stærðargráða viðskiptanna hafi verið slík að stefnda hafi mátti vera ljóst að stefnendur yrðu fyrir verulegum skakkaföllum ef verðmæti hlutabréfanna myndu ekki standa í stað eða hækka.
Stefnandi vísi jafnframt til þess að bankinn hafi borið ríkar skyldur til að gera félaginu sérstaklega grein fyrir áhættunni sem fólst í því að fjárfesta í þeim félögum sem hlutabréf voru keypt í. Sérstaklega skipti máli að hér er um að ræða fjárfestingar, algjörlega fyrir lánsfé, en hlutfall lánsfjárins af eigin fé stefnanda, Skollaborgar ehf. hafi numið 371,1% árið 2006 og 2007.
Þá hafi sú skylda hvílt á stefnda að ráða stefnanda frá umræddum hlutabréfaviðskiptum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Stefnda hafi jafnframt borið skylda til að ráðleggja stefnanda að dreifa áhættu af fjárfestingum sínum í stað þess að fjárfesta aðallega í tveimur nátengdum félögum sem að mestu leyti hafi verið í eigu sömu aðilanna.
Bankinn hafi búið yfir umfangsmiklum og tæmandi upplýsingum um rekstur stefnenda og bankaviðskipti þeirra. Hafi bankanum borið að haga ráðgjöf og sérstaklega viðvörunum um áhættutöku við lántökur og fjárfestingar í samræmi við þessa þekkingu bankans.
Bankanum beri að bæta stefnanda, Skollaborg ehf., það tjón sem ráðgjöfin og háttsemin hafi valdið honum með því að úr gildi verði felldar skuldbindingar stefnanda samkvæmt hinum umstefndu viðskiptum.
Því til stuðnings sé vísað til ógildingarreglna samningaréttar, þó sérstaklega 36. gr. samningalaga enda ósanngjarnt að bera samninginn fyrir sig í ljósi ítrekaðra brota stefnda á þeim hátternisreglum sem gildi um verðbréfaviðskipti. Þá krefjist stefnandi, Skollaborg ehf., til vara skaðabóta úr hendi stefnda vegna ofangreinds.
Um vitneskju bankans og upplýsingaskyldu
Stefnandi, Skollaborg ehf., byggi á því að sannað sé að bankinn hafi vitað eða mátt vita að fjárhagsstaða bankans á lántökutíma og sölutíma hlutabréfanna var ekki með þeim hætti að bankinn mætti mæla með fjárfestingum stefnanda í bankanum og hafi bankanum því verið skylt að vara stefnanda við þessum fjárfestingum. Vitneskja bankans um stöðu hans hefði þá að minnsta kosti átt að stuðla að ráðgjöf um að bréfin yrðu seld löngu áður en bankinn fór í þrot enda stjórnendum löngu ljóst hvert stefndi.
Landsbankinn hefði átt að miðla öllum upplýsingum sem máli skiptu um stöðu bankans til stefnanda með tilliti til ráðgjafar bankans til stefnanda um fjárfestingar hans. Bankanum hafi borið skylda til þess að miðla slíkum upplýsingum m.a. á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og m.a. með vísan til upplýsingaskyldu seljanda í lausafjárkaupum og skyldu gagnvart viðskiptavini við sérfræðiráðgjöf. Í það minnsta hefði bankinn átt að vara við kaupunum á bréfunum. Bankinn hafi haft milligöngu um fjárfestingar stefnanda í hlutabréfum, látið fjármögnun í té til fjárfestinga stefnanda að öllu leyti og hafi síðan haft frumkvæði að því að halda áfram að hvetja fyrirsvarsmenn stefnanda til að kaupa í stefnda og félögum honum tengdum fram til mars 2008.
Þá hafi hendur stefnanda verið bundnar varðandi sölu á verðbréfunum samkvæmt ákvæðum lánasamningsins og samkvæmt handveðsetningu verðbréfanna.
Þar með telji stefnandi augljóst að í upplýsingagjöf sinni til stefnanda hafi bankinn gefið rangar og villandi upplýsingar, leynt upplýsingum sem höfuðmáli skiptu fyrir stefnanda um fjárfestingar hans og fjárhagslega framtíð og hafi einungis miðlað ráðgjöf sem hafi verið til hagsbóta fyrir bankann sjálfan.
Í raun var Landsbankinn að kaupa hlutabréf í sjálfum sér
Stefnandi, Skollaborg ehf., byggir á því að lánveitingar bankans til félagsins og sala bankans á hlutabréfum í sjálfum sér til stefnanda hafi í raun verið sala bankans á ofangreindu til sjálfs sín. Tilgangurinn hafi verið sá að halda uppi verðbréfaverði í bankanum sjálfum, stækka efnahagsreikning bankans og útvega bankanum sjálfum aukið fé til rekstrar.
Stefnandi telur að lánveitingar bankans til félagsins og ráðstöfun andvirðis lánanna hafi verið liður í umsvifamikilli ráðagerð bankans til að halda uppi verði á hlutabréfum í bankanum til eigin hagsbóta og til að stækka efnahagsreikning bankans. Þessi framkvæmd bankans á sölu bréfa í sjálfum sér í eigin þágu virðist hafa verið afar umfangsmikil og átt sér stað alveg fram að hruni.
Stefnandi vísi til þess að slíkar lánveitingar bankans og veðsetningar þar sem tekin séu að veði eigin hlutabréf banka sem nemi hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár bankans séu óheimilar samkvæmt 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 (fmfl). Þar að auki séu viðskiptin með sömu rökum brýnt brot gegn 55. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 (hfl).
Bankinn hafi því, lögum samkvæmt, ekki mátt stuðla að eða taka þátt í þeim viðskiptum sem hér um ræði á þann máta sem gert var. Styðji þetta fullyrðingu stefnanda um að hann hafi í raun ekki verið eigandi bréfanna heldur bankinn sjálfur. Bankinn hafi hins vegar ekki getað skráð sjálfan sig fyrir bréfunum með vísan til 26. gr. fmfl og 55. gr. hfl. Því hafi stefnandi verið skráður eigandi bréfanna. Bankinn, nú stefndi, verði því sjálfur að bera ábyrgðina á slíkum ólögmætum viðskiptaháttum.
Bankinn beri sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi gætt ákvæða 20. fmfl.
Þá byggi stefnandi, Skollaborg ehf., á því að söluverð bréfanna til félagsins hafi verið rangt, of hátt, og að það söluverð skýrist af lögbrotum bankans sjálfs. Bankanum sé því ekki kleift að krefja stefnendur um greiðslur fyrir söluverð bréfanna sem bankinn sjálfur hafi átt þátt í að verðlögð voru allt of hátt.
Skilyrði um fjárfestingu lánanna í bankanum sjálfum
Landsbanki Íslands hafi lagt hart að fyrirsvarsmönnum stefnanda, Skollaborgar ehf., að ráðstafa lánveitingunum til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum og hafi nánast gert það að skilyrði fyrir lánveitingunni. Slíkt geri lánveitingarnar óheimilar, andstæðar lögum og ógildanlegar. Lánveitingarnar hafi vegna þessa skilyrðis valdið stefnanda stórkostlegu tjóni auk þess sem slíkt skilyrði brjóti gegn vbvl. og öllum meginreglum og sjónarmiðum um hagsmunaárekstra og sérfræðiráðgjöf.
Þá veki jafnframt athygli að í lánasamningnum segi, í gr. 12.2., að til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta hafi stefnandi, Skollaborg ehf., gefið út handveðsetningu til bankans þar sem hann veðsetji fjármálagerninga í sinni eigu á VS-reikningi nr. 402780. Þannig hafi bréfin í bankanum, sem keypt voru fyrir andvirði lánanna sjálfra, verið látin að handveði til tryggingar. Veðin sjálf hafi þannig ekki orðið til fyrr en búið var að ráðstafa andvirði lánanna til að kaupa veðin.
Augljóst sé að stefndi hafi ráðlagt stefnanda, Skollaborg ehf., að kaupa bréf í bankanum sjálfum og þannig hafi bankinn haldið verði hlutabréfanna uppi. Styðji þetta einnig þá málsástæðu stefnenda að bankinn hafi í raun verið eigandi bréfanna en ekki stefnandi, Skollaborg ehf.
Þá bendi stefnandi á að samkvæmt ákvæðum lánasamningsins, einkum greinum 11.1. (e) og 13.1 (e), hafi stefnandi, Skollaborg ehf., ekki haft frjálsar hendur um það hvort hann kysi að selja verðbréfin sem keypt voru fyrir andvirði lánanna þar sem stefnanda hafi, samkvæmt ofangreindum ákvæðum, verið meinað að selja verulegan hluta eigna sinna. Það liggi í augum uppi að hluturinn í Landsbanka Íslands hafi fallið undir verulegan hluta eigna stefnanda. Slík sala hafi, samkvæmt lánasamningunum getað haft í för með sér að bankinn segði þeim upp og gjaldfelldi í kjölfarið. Að auki hafi verðbréfin verið handveðsett bankanum og forræði á þeim því ekki í höndum stefnanda.
Brot gegn reglum um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja
Um samskipti stefnanda, Skollaborgar ehf., og Landsbankans í tengslum við kaup á verðbréfum fari eftir lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. áður eldri lög um sama efni nr. 33/2003.
Stefnandi, Skollaborg ehf., byggi á því að það sé einsýnt m.t.t. þeirrar háttsemi sem þegar hafi verið lýst að Landsbanki Íslands hafi brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vbvl.) og gegn lögum um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 fyrir gildistöku vbvl. þann 1. nóvember 2007. Vísað sé til þess að stefndi hafi þar að auki brotið gegn meginreglum samningaréttar með háttsemi sinni sem lýst sé í stefnu.
Stefnandi, Skollaborg ehf., bendi jafnframt á að brotið hafi verið gegn eftirfarandi ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti:
a. 1. mgr. 9. gr. vbvl. kveður á um skyldu fjármálafyrirtækja til að gera skriflegan samning þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur samningsaðila. Hinn 12. september 2007 hafi stefnandi, Skollaborg ehf., undirritað almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf. Þessir skilmálar hafi verið samdir einhliða af lögfræðingum stefnda og hafi stefnandi ekki átt þess kost að gera á þeim breytingar. Það veki óneitanlega athygli að umræddir skilmálar séu þannig úr garði gerðir að einungis sé kveðið á um réttindi Landsbankans en skyldur stefnanda. Að því sögðu telji stefnandi að samningurinn uppfylli ekki skilyrði áðurnefndrar 1. mgr. 9. gr. laganna né heldur 27. gr. reglugerðar nr. 995/2007.
14. gr. vbvl (áður m.a. 5. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og 2. og 3. mgr. 19. gr. MiFID tilskipunarinnar) með því að veita ekki lögboðnar, skýrar, sanngjarnar og eigi villandi upplýsingar um áhættu og fjárfestingarkosti. Með viðskiptaháttum þeim sem nú hafi komið í ljós, m.a. þeim að lána ítrekað til kaupa á verðbréfum í bankanum sjálfum til að halda verði bréfanna háu, og með brotum bankans á þessu ákvæði, hafi bankinn komið í veg fyrir að stefnandi gæti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun.
15. gr. vbvl (áður m.a. 1. mgr. 5. gr. eldri laga nr. 33/2003 og 4. mgr. 19. gr. MiFID tilskipunarinnar) og 16. gr. vbvl (áður m.a. 1. mgr. 5. gr. og 8. gr. eldri laga og 5. og 6. mgr. 19. gr. MiFID tilskipunarinnar) með því að hafa ekki aflað sér upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á sviði viðkomandi tegundar verðbréfaviðskipta, fjárhagsstöðu hans og markmið með fyrirhugaðri fjárfestingu og að hafa ekki nýtt sér þær upplýsingar um þessi atriði sem bankinn hafði til að ráðleggja stefnanda Skollaborg ehf. Sérstaklega sé bent á að fjárhagsstaða stefnanda sé nú með þeim hætti að viðskiptin við bankann, sem hér um ræði, muni að óbreyttu sliga félagið fjárhagslega. Þá sé einnig bent á að þrátt fyrir að bankinn hafi haft upplýsingar um takmarkaða þekkingu og reynslu stefnanda á sviði bankaviðskipta þá hafi stefnandi með verðbréfaviðskiptunum komist í hóp stærri eigenda bankans. Stefnandi hafi ekki haft þekkingu eða reynslu sem snúi að rekstri banka. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. vbvl. hafi bankanum þannig verið óheimilt að stunda viðskiptin við stefnanda sem mál þetta snúist um.
18. gr. vbvl með því að gæta ekki reglna um bestu framkvæmd svo sem nánar verði gerð grein fyrir við munnlegan flutning málsins. Skorað er á stefnda að leggja fram þær verklagsreglur sem gilt hafi innan bankans á þeim tíma er viðskiptin fóru fram og mælt sé fyrir um í greininni.
Óréttmætir viðskiptahættir og hagsmunaárekstrar
Stefnendur byggi á því að þau viðskipti sem bankinn átti við stefnendur teljist til óréttmætra viðskiptahátta. Bankinn hafi lánað Skollaborg ehf. fjárhæðir sem ekki hafi samræmst efnahag og greiðslugetu félagsins. Bankinn hafi síðan tekið þátt í því að ráðstafa lánsfénu til kaupa á verðbréfum í þágu bankans. Jafnframt hafi skuld stefnanda verið gengistryggð í erlendri mynt til kaupa á verðbréfum í íslenskum krónum sem hafi verið til þess fallið að auka áhættu stefnanda sérstaklega. Bankinn hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefnendum þar sem þeir höfðu ekki þekkingu og reynslu á þess háttar lántökum og fjárfestingum sem hér um ræði. Stefnendur uppfylli ekki skilyrði til þess að teljast fagfjárfestar og skipti ekki máli í því sambandi hvernig Landsbanki flokkaði þá að þessu leyti.
Stefnendur vísi til þess að með háttsemi sinni hafi bankinn brotið gegn meginreglunni um trúnaðar- og tillitsskyldur í viðskiptasambandi. Einkum sé vísað til þess að bankinn hafi sett eigin hagsmuni ofar hagsmunum stefnenda sem viðskiptavina. Eigin hagsmunir bankans hafi m.a. verið að halda verði á hlutabréfum í bankanum háu, eða a.m.k. koma í veg fyrir að það lækkaði og að stækka efnahagsreikning bankans. Einnig sé vakin athygli á að bankinn hafi greitt starfsmönnum sínum sérstakar þóknanir fyrir að koma á lánasamningum við viðskiptavini bankans og fyrir að fá viðskiptavini bankans til að fjárfesta í bankanum. Hafi þetta verið til þess fallið að hafa áhrif á ráðgjöf starfsmannanna og auka hættuna á að ekki væri gætt þeirra trúnaðarskyldna sem starfsmönnunum bar að fara eftir.
Þessi háttsemi bankans brjóti gegn fyrirmælum 5. gr. laga um verðbréfaviðskipti um góða viðskiptavenju sem hafi sjálfstætt efnislegt gildi gagnvart hinum sérstöku hegðunarreglum II. kafla vbvl., enda ljóst að bankinn hafi hvorki starfað í samræmi við „eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti“ né hafi hann haft „hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi“. Því skuli haldið til haga að með tilvísun í hagsmuni viðskiptavina fjármálafyrirtækja sé verið að undirstrika þá ríku trúnaðarskyldu sem fjármálafyrirtæki hafi gagnvart viðskiptavinum sínum , en í fræðiskrifum hafi verið á því byggt að ákvæði 5. gr. vbvl. hafi einkaréttarlega þýðingu þegar reyni á ógildingarreglu samningalaga nr. 7/1936 eða eftir atvikum skaðabótaskyldu fjármálafyrirtækja. Hafi fræðimenn talið að hafi fjármálafyrirtæki gerst brotlegt við 5. gr. vbvl. séu líkur til þess að unnt sé að krefjast ógildingar á viðkomandi löggerningi á grundvelli 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 auk þess sem líkur á skaðabótaskyldu aukist.
Stefnendur telji jafnframt að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum 24. gr. reglugerðar nr. 995/2007 þar sem starfsmenn Landsbankans hafi fengið umbun í tengslum við þá þjónustu sem bankinn veitti bæði í formi bónusgreiðslna vegna viðskiptanna en einnig með óeðlilegri verðmyndun á hlutabréfum bankans sem leitt hafi af viðskiptum stefnanda, Skollaborgar ehf., og annarra aðila í sambærilegri stöðu, en margir starfsmenn hafi haft verulegra hagsmuna að gæta vegna gengis hlutabréfa bankans.
Þá sé jafnframt ljóst að bankinn hafi þverbrotið trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnendum enda hafi bankinn ekki gripið til allra tiltækra ráðstafana til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar þeir sem voru til staðar við viðskiptin, eins og þegar hafi verið lýst, sköðuðu viðskiptavininn líkt og 1. mgr. 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 mæli fyrir um. Bankinn hafi heldur aldrei upplýst stefnendur um „eðli og ástæður hagsmunaárekstranna“ áður en til viðskiptanna var stofnað, sbr. 3. mgr. 8. gr. sömu laga, þ.e. að bankinn hafi við viðskiptin einungis verið að vinna að hagsmunum síns sjálfs og eigenda sinna og stjórnenda með því að halda hlutabréfaverði í bankanum háu og stækka efnahagsreikning bankans. Í því sambandi vísi stefnendur til þeirra mælikvarða er getið sé um í 19.-21. gr. reglugerðar nr. 995/2007 auk 3. mgr. 13. gr. og 18. gr. MiFID-tilskipunarinnar.
Þá telji stefnendur að stefndi hafi ekki fullnægt skilyrðum b) til e) - liðar 5. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 995/2007 sem mæli fyrir um nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja tilskilið sjálfstæði starfsmanna fjármálafyrirtækisins.
Ógildingarreglur samningaréttar
Svik
Stefnendur byggja á því að háttsemi bankans, sem lýst hafi verið og sé þáttur í lánveitingum bankans til stefnenda og ráðleggingum og milligöngu við fjárfestingarnar fyrir andvirði lánanna í hlutabréfum í bankanum sjálfum, falli undir 30. gr. samningalaga nr. 7/1936 (smnl.) og teljist svik. Vísað sé til sömu raka og reifuð hafi verið, enda hafi Landsbankinn, með ólögmætum hætti og gegn betri vitund, gefið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar og leynt atriðum sem máli skiptu, með þeim ásetningi að fá stefnendur til að stofna til löggerninga. Séu löggerningarnir því allir ógildir og skuldbindi ekki stefnendur.
Óheiðarleiki, ósanngirni, góðar viðskiptavenjur og brostnar forsendur
Verði ekki fallist á það að háttsemi bankans, lánveitingar bankans til stefnenda og/eða milligangan um fjárfestingarnar, séu sviksamlegar í skilningi 30. gr. smnl þá vísi stefnendur til 33. gr. smnl. og byggi á því að bankinn geti ekki borið fyrir sig lánasamningana þar sem það teljist óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru við samningsgerðina.
Sé þar einkum átt við þá háttsemi bankans að selja verðbréf í sjálfum sér til viðskiptavina sinna með því að fjármagna viðskiptin gegn veði í bréfunum sem keypt voru. Einnig sé átt við að þannig hafi bankinn ranglega haldið verði bréfa í bankanum uppi, skapað falska eftirspurn eftir bréfunum og þar með falskt verð og að einn hvatinn fyrir viðskiptunum hafi verið bónusgreiðslur og háar þóknanir og bónusar til starfsmanna og stjórnenda, bæði vegna sölu á verðbréfunum og vegna lánveitinganna.
Sérstaklega sé tekið fram að framkvæmdastjóri stefnenda, Einar Valur Kristjánsson, hafi ekki notið sérfræðiráðgjafar annarra við viðskiptin og bankanum hafi verið það ljóst.
Því sé haldið fram að það sé óheiðarlegt af bankanum að ætla nú að innheimta lánin sem hann hafi sjálfur veitt til kaupa á bréfum í sjálfum sér gegn verði sem bankinn hafi haldið uppi með lánveitingum með veði í bréfunum sjálfum. Sér í lagi þegar aðalástæða viðskiptanna af hálfu bankans hafi verið að halda verði á hlutabréfum bankans háu. Í slíkri háttsemi kunni einnig að felast markaðsmisnotkun.
Stefnendur hafi hvorki haft vitneskju um þessa háttsemi bankans né heldur um það hvernig bankinn fjármagnaði sölu á eigin bréfum til annarra að fullu með eigin lánveitingum og gegn veði í eigin bréfum.
Einnig vísi stefnandi, Skollaborg ehf., til 36. gr. samningalaga og byggi á því að víkja megi lánasamningunum og fjárfestingunum í kjölfarið til hliðar í heild sinni enda væri það bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir bankann að bera slíka samninga fyrir sig. Bankinn hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefnanda. Þá hafi bankinn búið yfir upplýsingum sem stefnandi bjó ekki yfir sem hefðu gjörbreytt viðhorfi félagsins til fjárfestinganna og lánanna og komið í veg fyrir þær. Bankinn hafi einnig haft sérstökum trúnaðarskyldum að gegna við stefnanda sem viðskiptabanki hans. Enn fremur hafi bankanum verið fullkunnugt um tilgang stefnenda og rekstur sem fiskverkandi og útgerðarfélag og að stjórnendur félagsins bjuggu ekki að þekkingu og reynslu á umræddu sviði. Að öðru leyti sé vísað til háttsemi bankans sem þegar hafi verið lýst hér að framan.
Hvað 36. gr. samningalaga varði sé einnig vísað til þess að lánasamningar þeir sem um ræði í máli þessu séu tengdir gengi erlendra gjaldmiðla. Stjórnendur stefnenda hafi, að ráði Landsbankans, tekið stöðu með krónunni í framvirkum gjaldeyrissamningum til þess að verja tekjur félagsins af reglulegum rekstri sem séu í erlendum myntum. Á sama hátt hafi Landsbankinn, og aðilar tengdir bankanum, tekið stöðu á móti krónunni, eins og gerð hafi verið grein fyrir opinberlega, sem hafi valdið stefnendum verulegu fjártjóni. Skuli þetta sérstaklega haft í huga varðandi mat samkvæmt 36. gr. vegna atvika sem síðar komu til.
Á grundvelli 36. gr. samningalaga sé byggt á því að ákvæði lánasamninganna um að þeir séu tengdir gengi erlendra gjaldmiðla sé ógildanlegt með vísan til ofangreindrar ráðgjafar bankans um stöðutöku stefnenda með krónunni og ráðgjafar um að krónan myndi styrkjast eða haldast sterk á meðan bankinn hafi sjálfur tekið stöðu á móti krónunni. Verði því andmælt sé áskilinn réttur til þess að leggja fram gögn því til sönnunar. Þá sé ástæða til að ætla að kjölfestueigendur bankans hafi gert það sama. Þess háttar stöðutaka bankans og eigenda hans gegn krónunni hafi orðið til þess að gengi hennar veiktist.
Þá telji stefnendur að bankinn hafi á umræddu tímabili jafnframt gerst sekur um markaðssvik, s.s. markaðsmisnotkun og innherjasvik.
Aðalkröfur stefnanda, Skollaborgar ehf., byggi jafnframt á meginreglu samningaréttar um brostnar forsendur en það hafi verið ákvörðunarástæða fyrir lánveitingunum og eftirfarandi hlutabréfareglum að stefndi virti trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnanda og starfsemi hans væri innan marka laganna. Af ofangreindri umfjöllun sé hins vegar ljóst að ráðgjöf bankans hafi hvorki verið fagleg né hlutlaus, enda hafi hagsmunir stefnda, eigenda hans og starfsmanna stefnda ítrekað verið teknir fram yfir hagsmuni stefnanda. Þá sé jafnframt ljóst að stefndi hafi ítrekað brotið gegn hátternisreglum laga um fjármálafyrirtæki og laga um verðbréfaviðskipti. Að því sögðu og með vísan til framangreindrar umfjöllunar sé ljóst að forsendur fyrir skuldbindingargildi samninganna séu brostnar og þeir því ógildanlegir.
Andskýringarregla samningaréttar
Stefnendur vísi sérstaklega til andskýringarreglu samningaréttarins hvað varðar túlkun löggerninga þeirra allra og lánasamninga sem fyrir liggi í máli þessu. Löggerningarnir hafi allir verið samdir af bankanum sjálfum og hafi stefnendum ekki gefist kostur á að breyta orðalagi þeirra og efni að neinu leyti. Stefnendur hafi hvergi komið nálægt samningu löggerninganna og skuli þeir túlkaðir stefnda í óhag þar sem eitthvað kunni að vera óskýrt um efni þeirra.
Eðli máls, meginreglur laga og sanngirnisrök
Með vísan til alls þess sem nú hafi verið rakið geti það ekki staðist eðli máls, meginreglur laga eða sanngirnisrök að láta stefnendur bera fjárhagslega ábyrgð á viðskiptum aðila í ljósi háttalags bankans í máli þessu.
Stefnandi, Skollaborg ehf., telji að kröfurnar á hendur félaginu, sem um ræði í máli þessu, hafi verið færðar yfir frá gamla Landsbanka Íslands hf. til stefnda, annaðhvort án greiðslu eða gegn afar lítilli greiðslu. Stefnandi vísi til þess að það stangist á við sanngirnisrök að láta hann bera ábyrgðina af háttalagi Landsbanka Íslands, sem lýst hafi verið, sér í lagi þegar stefndi myndi í raun engum fjármunum tapa á því að lánasamningar stefnanda yrðu dæmdir ógildir og ólögmætir.
Yrði stefnendum gert að greiða andvirði lánanna ásamt vöxtum og dráttarvöxtum leiddi það til verulegrar auðgunar hjá stefnda.
Varakrafa um riftun og skaðabætur
Til vara krefst stefnandi, Skollaborg ehf., riftunar á nánar tilteknum lána- og hlutabréfaviðskiptum við stefnda. Stefnandi byggi á því að stefndi hafi verulega vanefnt samningsskuldbindingar sínar gagnvart stefnanda, sbr. umfjöllun í 1.-10. kafla í stefnu, en þar komi fram að stefndi hafi brotið gegn lögum, reglum og verklagsreglum sem gildi um lánastarfsemi og verðbréfaviðskipti. Háttsemi stefnda leiði því til riftunar á viðskiptunum.
Um heimild til riftunar vísi stefnandi, Skollaborg ehf., til framangreindrar umfjöllunar auk almennra reglna samninga- og kröfuréttar, m.a. reglna um brostnar forsendur, 18., 19. og 1. mgr. 39. gr. kaupalaga nr. 50/2000, sem og almennra ákvæða um eigin viðskipti og innherjaupplýsingar fjármálafyrirtækja og starfsmanna þeirra, sbr. drög að umræðuskjali FME um leiðbeiningar um efni reglna fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
Þrautavarakrafa um ógildingu ábyrgðarskuldbindinga
Til þrautavara krefst stefnandi, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., þess að sjálfskuldarábyrgð þess fyrir skuldbindingum stefnanda, Skollaborgar ehf., samkvæmt lánasamningi að fjárhæð 1.500.000.000 krónur verði ógilt. Kröfunni til stuðnings sé vísað til umfjöllunar í 1.-10. kafla stefnu. Stefnandi, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., byggi sérstaklega á því að forsendur ábyrgðarinnar hafi brostið sökum ólögmætrar háttsemi stefnda og starfsmanna hans, sbr. framangreinda umfjöllun, en almennt sé talið sanngjarnara að leggja áhættuna af því, að forsenda brestur eða reynist röng, á kröfuhafa fremur en ábyrgðarmann, sbr. t.d. skrif fræðimanna. Í því sambandi sé vísað sérstaklega til þess að forsenda ábyrgðar stefnanda, Hraðfrystihússins Gunnvarar ehf., hafi verið sú að lánveitingunum yrði ráðstafað til áhættulítilla fjárfestinga. Fyrir tilstuðlan stefnda hafi lánunum hins vegar fyrst og fremst verið varið til áhættusamra fjárfestinga í stefnda sjálfum og félögum honum tengdum. Stefndi hafi jafnframt brugðist upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefnanda, Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. Þá sé jafnframt ljóst að stefndi hafi með sviksamlegum hætti fengið stefnanda til að gangast í ábyrgð fyrir lánunum þegar megintilgangur viðskiptanna, frá sjónarhóli stefnda, hafi verið sá að komast hjá flöggunarreglum og öðrum slíkum reglum, sbr. framangreinda umfjöllun. Því beri að ógilda ábyrgðarskuldbindinguna á grundvelli 30., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Að öðru leyti sé byggt á ógildingarreglum samningaréttar.
Um viðurkenningarkröfu stefnanda
Til þrautaþrautavara krefjast stefnendur viðurkenningar á því að þeir eigi rétt á því gagnvart stefnda að uppgjör ofangreindra lánveitinga í stafliðum a.-f. í aðalkröfu samkvæmt umræddum lánasamningi skuli framkvæmd í íslenskum krónum án viðmiðunar við gengi erlendra gjaldmiðla. Til stuðnings kröfunni sé vísað til umfjöllunar í 1.-10. kafla í stefnu, þó sérstaklega 2. kafla. Krafan byggi jafnframt á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Um skaðabótakröfu stefnanda, Skollaborgar ehf.,
Í öllum tilfellum krefst stefnandi, Skollaborg ehf., skaðabóta úr hendi stefnda vegna háttsemi hans sem lýst hafi verið með nokkuð ítarlegum hætti. Þessi ólögmæta háttsemi hafi valdið stefnanda tjóni þar sem t.d. gengi krónunnar hafi verið óeðlilega hátt skráð og fallið svo snarlega m.a. fyrir tilstuðlan stefnda. Stefndi hafi valdið óeðlilegri verðmyndun hlutabréfanna með ólögmætum aðgerðum, því hafi kaupverð bréfanna verið of hátt og þegar gengi bréfanna féll hafi stefnandi orðið fyrir verulegu tjóni. Stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna ófaglegrar og ólögmætrar ráðgjafar stefnda. Að öðru leyti sé vísað til umfjöllunar í 1.-10. kafla í stefnu.
Skaðabótakrafan byggi að meginstefnu til á reglum kröfuréttar um skaðabætur innan samninga og því á ábyrgð stefnda sem hafi yfirtekið öll réttindi og skyldur tengdar áðurnefndum lána- og verðbréfaviðskiptum, sbr. umfjöllun í stefnu þessari um aðild. Skaðabótakrafan byggi á fyrrnefndum vanefndum stefnda, sakarábyrgð stefnda og stjórnunarábyrgð hans vegna háttsemi starfsmanna sinna. Samtals nemi tjón vegna þessarar ólögmætu og saknæmu háttsemi stefnanda 2.148.285.434 krónum. Tjónsfjárhæðin samsvari útistandandi skuldum stefnanda, Skollaborgar ehf., samkvæmt útreikningum stefnda, en bréfin sem stefnanda, Skollaborg ehf., voru seld hafi flest orðið verðlaus þegar Landsbanki Íslands hf. féll. Þar sem hin bótaskyldu atvik dreifist yfir nokkuð langt tímabil í aðdraganda falls Landsbanka Íslands hf. sé upphafsdagur vaxta miðaður við 9. október 2008.
Hér að framan hafi stefnendur útlistað kröfur sínar sem og málsástæður þeim til stuðnings. Í stuttu máli byggir stefnandi, Skollaborg ehf., kröfur sínar um ógildingu tiltekinna lána- og verðbréfaviðskipta aðila á eftirfarandi ástæðum:
1. Lánveitingarnar hafi verið í íslenskum krónum og gengistryggðar eftir gengi tiltekinn gjaldmiðla. Slík gengistrygging sé í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001
2. Stefndi hafi veitt stefnanda gallaða og ranga ráðgjöf. Stefndi hafi nær eingöngu ráðlagt stefnanda að fjárfesta í stefnda eða félögum honum tengdum þrátt fyrir að vilji stefnenda hafi staðið til áhættulítilla fjárfestinga. Stefndi hafi vitað eða mátti vera ljóst að verð hlutabréfanna væri óeðlilega hátt vegna óeðlilegra og/eða ólögmætra aðgerða stefnda og eigenda hans. Stærðargráða viðskiptanna hafi verið í ósamræmi við efnahagsreikning stefnanda. Stefnandi hafi ekki verið upplýstur um hagsmunaárekstra bankans vegna viðskiptanna.
3. Stefndi hafi vitað eða mátt vita að fjárhagsstaða bankans á lántökutíma og sölutíma hlutabréfanna var ískyggileg og hefði honum borið að ráða stefnanda frá því að fjárfesta í bréfunum. Stefndi hafi fegrað stöðu sína með því að afhenda eftirlitsaðilum ófullnægjandi, rangar eða falsaðar upplýsingar um stöðu sína. Stefndi hafi gefið stefnanda rangar og villandi upplýsingar til stefnanda, leynt mikilvægum upplýsingum og einungis miðlað ráðgjöf sem var til hagsbóta fyrir stefnda. Því til stuðnings sé vísað til þess að skyndileg sala starfsmanna í Landsbankanum haustið 2008 hafi vakið athygli rannsóknarnefndar Alþingis. Óæskilegur hvati hafi verið til þess innan stefnda að hafa áhrif á verð hlutabréfanna. Miðlun og deild eigin viðskipta hafi heyrt undir verðbréfasvið bankans og lutu því stjórn sama yfirmanns.
4. Tilgangurinn með lánveitingunum og hlutabréfaviðskiptunum hafi fyrst og fremst verið að halda upp hlutabréfaverði í bankanum sjálfum, stækka efnahagsreikning bankans og útvega bankanum aukið fé til rekstrar. Með kerfisbundnum hætti hafi bankinn reynt að hafa áhrif á eigið hlutabréfaverð. Tilgangurinn hafi jafnframt verið sá að komast hjá flöggunarreglum en flöggun hefði talist veikleikamerki og haft áhrif á söluverð hlutabréfanna.
5. Lánveitingar bankans og veðsetningar á eigin hlutabréfum bankans sem nam hærri fjárhæð en 10% hafi verið ólöglegar. Stefndi hafi í reynd verið eigandi bréfanna fyrir milligöngu stefnanda. Hátt söluverð hlutabréfanna skýrist af lögbrotum bankans sjálfs.
6. Hart hafi verið lagt að fyrirsvarsmönnum stefnenda að ráðstafa lánveitingunum til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum.
7. Stefndi hafi brotið gegn reglum um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Bankinn hafi brotið gegn meginreglunni um trúnaðar- og tillitsskyldur í viðskiptasambandi þar sem hann hafi sett eigin hagsmuni ofar hagsmunum stefnanda sem viðskiptavinar. Bankinn hafi brotið gegn almennum og sértækum hátternisreglum laga um verðbréfaviðskipti sem leiði til ógildingar og skaðabótaskyldu stefnda. Bankinn hafi ekki upplýst stefnanda um hagsmunaárekstra tengda viðskiptunum.
8. Háttsemi stefnda hafi verið sviksamleg og leiði til ógildingar á lána- og hlutabréfaviðskiptunum, sbr. 30. gr. l. nr. 7/1936.
9. Óheiðarlegt sé af bankanum að ætla nú að innheimta lán sem bankinn hafi sjálfur veitt til kaupa á bréfum í sjálfum sér gegn verði sem hann hafi sjálfur haldið uppi með óeðlilegum og ólöglegum hætti.
10. Víkja beri lánasamningunum og fjárfestingunum til hliðar sökum háttsemi bankans sem hafi bæði verið ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju.
11. Bankinn hafi gerst sekur um markaðssvik, s.s. markaðsmisnotkun og innherjasvik.
12. Brostnar forsendur leiði til ógildingar, enda ákvörðunarástæða að bankinn starfaði innan löglegra heimilda sinna, gætti að trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda og starfaði í samræmi við góðar viðskiptavenjur.
13. Samningarnir skuli túlkaðir stefnda í óhag þar sem eitthvað kunni að vera óskýrt um efni þeirra.
14. Eðli máls, meginreglur laga og sanngirnisrök leiði til ógildingar skuldbindinganna.
Til vara krefst stefnandi, Skollaborg ehf., riftunar á nánar tilteknum lána- og hlutabréfaviðskiptum. Til stuðnings varakröfu sé vísað til sömu umfjöllunar og málsástæðna og liggi til grundvallar aðalkröfu. Stefndi hafi verulega vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnanda og því séu ráðstafanirnar riftanlegar.
Þrautavarakrafa um ógildingu ábyrgðarskuldbindinga stefnanda, Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf., byggist á sömu málsástæðum og aðalkrafa stefnenda. Sérstaklega sé vísað til þess að sanngjarnara sé talið að leggja áhættuna af því að forsenda brestur eða reynist röng á kröfuhafa fremur en ábyrgðarmann.
Þrautaþrautavarakrafan byggir á sömu málsástæðum og aðalkrafan.
Í öllum tilfellum sé krafist skaðabóta sökum vanefnda stefnda vegna ólögmætrar og óeðlilegrar háttsemi hans, sbr. umfjöllun í 1.-10. kafla í stefnu. Stefnandi, Skollaborg ehf., hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa sem beri að bæta á grundvelli sakar- og stjórnunarábyrgðar stefnda.
Um lagarök vísi stefnendur m.a. til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og eldri laga nr. 33/2003 auk MiFID tilskipunar ESB, þ.e tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2000/12/EB. Vísað sé til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, hlutafélagalaga nr. 2/1995 og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ólögmæta löggerninga, einkum III. kafla.
Kröfu um málskostnað styðji stefnendur við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu
Kröfum stefnenda um ógildingu eða riftun á ráðstöfun andvirðis lánveitinga til kaupa á hlutabréfum í nánar tilgreindum viðskiptum beri að vísa frá dómi
Stefndi krefst þess að kröfum stefnanda um ógildingu eða riftun á ráðstöfun andvirðis lánveitinga til kaupa á hlutabréfum í nánar tilgreindum viðskiptum verði vísað frá dómi. Krafa stefnda um frávísun þessarar kröfu er byggð á d. lið 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991en samkvæmt ákvæðinu skuli í stefnu greina svo glöggt sem verða má:
„dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu, refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu tiltekinna ummæla, málskostnað o.s.frv“.
Eins og dómkrafa stefnanda sé orðuð uppfylli hún ekki skilyrði þessa ákvæðis. Krafa sé gerð um ógildingu á ráðstöfun andvirðis tiltekinna lána. Í fyrsta lagi hafi það ekki verið stefndi sem ráðstafaði andvirði umræddra lána heldur stefnandi, Skollaborg ehf., enda fjármunirnir komnir inn á reikning stefnanda þegar ráðstafanirnar áttu sér stað, samkvæmt ákvörðun stefnanda. Sé stefnandi því að gera kröfu á hendur stefnda um ógildingu hlutabréfakaupa sem hann hafi framkvæmt af bankareikningi sínum í GLÍ. Í öðru lagi sé ljóst að krafan sé ekki í samræmi við meginregluna um ákveðna og ljósa kröfugerð, en reglan mæli fyrir um að kröfugerð stefnanda þurfi að meginreglu að vera svo ákveðin og ljós í stefnu að unnt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu í máli. Ekki sé hægt að taka umrædda kröfu stefnanda upp í dómsniðurstöðu enda sé mjög óljóst hvað stefnanda gangi til með kröfunni. Umræddum peningum hafi þegar verið ráðstafað til hlutabréfakaupa í banka sem nú sé í slitameðferð. Ekki sé því ljóst hvaða réttaráhrif það eigi að hafa að ógilda ráðstöfun þessa fjár og hafi stefnandi ekki skýrt það nánar. Verði því jafnframt að telja að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kröfunnar, sbr. 1. mgr. 25. gr. eml., þar sem engin réttaráhrif myndu fylgja slíkum dómi.
Skaðabótakröfu stefnenda beri að vísa frá dómi
Í fyrsta lagi sé útreikningi stefnanda á ætluðu tjóni með öllu hafnað, þ.m.t. öllum forsendum hans s.s. fjárhæðum, gengisútreikningi, upphafsdegi vaxta o.s.frv. Megi skilja útreikninginn þannig að stefnandi telji að stefnda beri að greiða stefnanda fjárhæð sem nemi öllum ætluðum útistandandi kröfum vegna fjárfestingar stefnanda óháð því hvaða fjárfestingar sé um að ræða, en þær séu ekki sundurgreindar. Jafnframt sé á því byggt að stefnandi geti ekki átt skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna skuldar sem stefnandi kunni að hafa stofnað til en ekki greitt. Þannig gæti krafan fyrst stofnast við greiðslu hennar. Í öðru lagi sé á því byggt, með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að skaðabótakrafa stefnanda sé í verulegum atriðum vanreifuð og málatilbúnaðurinn óskýr og ófullnægjandi auk þess að vera í ósamræmi við málatilbúnað stefnanda og kröfur að öðru leyti. Til viðbótar þeim atriðum sem að framan greini beri einnig að líta til þess að stefnandi hafi þegar gert kröfu um ógildingu skuldbindinga er varði sömu lánveitingar. Jafnframt hafi stefnandi krafist ógildinga ráðstafana þeirra fjármuna sem fengust að láni. Verði ekki séð hvernig kröfur þessar fari saman við kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta enda virðist stefnandi bæði gera kröfu um að vera laus undan skuldbindingum sínum og til greiðslu skaðabóta vegna sömu skuldbindinga. Sé augljóst að þessar kröfur fari ekki saman.
Vísa beri málinu í heild sinni frá dómi
Auk framangreinds telur stefndi að vísa eigi öllum kröfum stefnanda og málinu í heild sinni frá dómi vegna alvarlegra galla á kröfugerðinni og málatilbúnaðinum í heild.
Í fyrsta lagi sé innbyrðis ósamræmi í kröfum stefnanda. Í upphafi kröfugerðar sé krafist ógildingar á nánar tilgreindum lánveitingum, upphaflega að fjárhæð 347.571.500 krónur. Verði að skilja kröfu um ógildingu ráðstöfunar lánveitinganna þannig að verið sé að krefjast ógildingar ráðstöfunar sömu lánveitinga og krafist sé ógildingar á, þ.e. 347.571.500 krónum. Hins vegar nemi hin ætlaða ráðstöfun til hlutabréfaviðskipta í kröfugerð 972.895.694 krónum. Sé þetta misræmi algjörlega óútskýrt í stefnu. Þá beri einnig að líta til þess að þeir lánshlutar sem stefnandi krefjist ógildingar á, samtals að fjárhæð 347.571.500 krónur, séu einungis hluti þeirra fjármuna sem stefnandi hafi fengið lánaða á grundvelli lánasamnings aðila. Sé það algjörlega óútskýrt og vanreifað í stefnu hvers vegna stefnandi velji úr þá fjóra lánshluta sem hann krefjist ógildingar á en láti aðra óátalda. Í þessu sambandi hljóti jafnframt að vakna spurningar um það hvaðan þær 625.324.194 krónur komu sem hafi farið í að fjármagna afganginn af þeim hlutabréfaviðskiptum sem stefnandi krefjist ógildingar á gagnvart stefnda, en þetta sé ekki skýrt að neinu leyti í stefnu. Samkvæmt gögnum sem fram voru lögð með greinargerð þessari hafi stefnandi fengið afgreidda eftirfarandi lánshluta:
1. Dags. 18.05.2007. Nýr lánshluti í þremur myntum, EUR, JPY og CHF.
Mynt seld - lagt inná reikning 156-26-57.
2. Dags. 29.05.2007. Nýr lánshluti í þremur myntum, EUR, JPY og CHF.
Mynt seld - lagt inná reikning 156-26-57.
3. Dags. 15.06.2007. Nýr lánshluti í einni mynt, EUR.
Mynt seld - lagt inná reikning 156-38-710152.
4. Dags. 23.08.2007. Nýr lánshluti í tveimur myntum, EUR og CHF
Mynt seld - lagt inná reikning 156-26-57.
5. Dags. 07.09.2007. Nýr lánshluti í þremur myntum, EUR, JPY og CHF.
JPY og CHF seld - lagt inná reikning 156-26-57.
EUR lagt inná reikning 156-38-710152 (gjaldeyrisreikningur).
6. Dags. 02.10.2007. Nýr lánshluti í tveimur myntum, EUR og CHF.
Mynt seld - lagt inná reikning 156-26-57.
7. Dags. 03.10.2007. Nýr lánshluti í tveimur myntum, EUR og CHF.
Mynt seld-lagt inná reikning 156-26-57.
Hins vegar krefjist stefnandi einungis ógildingar á lánshlutum nr. 4-7 hér að ofan auk þess sem hann krefjist aðeins ógildingar á CPY og CHF hluta láns nr. 5.
Verði að telja að stefnandi geti ekki með þessum hætti slitið ákveðna lánshluta úr samhengi við heildarsamning aðila, án nánari útskýringa. Þá sé jafnframt óútskýrt og ósannað hvort þessir fjórir lánshlutar sem stefnandi krefjist ógildingar hafi farið til hlutabréfakaupa í GLÍ eða tengdum félögum, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að fjármunirnir hafi verið sérgreindir á reikningi aðila og/eða að þeir hafi runnið til þeirra hlutabréfakaupa sem hann heldur fram. Peningarnir hafi runnið saman við aðra fjármuni á bankareikningi stefnanda og sé algjörlega óljóst og ósannað hversu mikill hluti þeirra hafi runnið til hlutabréfakaupa.
Þá tiltaki stefnandi ekki þau lán sem hann krefjist viðurkenningar á að séu í íslenskri mynt heldur vísi einvörðungu til viðskiptasamnings um hámark lánsfjárhæðar frá 15. maí 2007 sem sé ekki sjálfstæður lánasamningur. Stefndi leggi á það áherslu að fjöldi lána hafi verið tekinn með stoð í viðskiptasamningnum enda þótt stefnandi krefjist aðeins ógildingar á hluta þeirra. Stefnandi tiltaki á engan hátt þessi lán, hvorki dagsetningu þeirra, fjárhæð eða númer lánanna. Á því sé byggt að dómkrafan sé þannig verulega vanreifuð og verði ekki tekin upp í dómsorði. Beri því þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá dómi.
Með vísan til alls þessa sé ljóst að málatilbúnaður stefnenda sé vanreifaður og ruglingslegur í heild sinni. Kröfugerðin sé mótsagnakennd og að mörgu leyti í ósamræmi við málsástæður stefnenda. Sé þess því krafist að málinu verði í heild sinni vísað frá dómi.
Niðurstaða
Í stefnu segir að hinn 15. maí 2007 hafi Skollaborg ehf. undirritað viðskiptasamning við stefnda. Samkvæmt samningnum skyldi stefndi hafa til reiðu fyrir stefnanda reikningslánalínu að fjárhæð 1.500.000.000 króna.
Samkvæmt þeim viðskiptasamningi sem frammi liggur í málinu, og vísað er til, var hann gerður á milli Landsbanka Íslands hf. og Skollaborgar ehf. og Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. sem sjálfskuldarábyrgðaraðila.
Aðal-, vara og þrautavarakrafa stefnanda um ógildingu og riftun lýtur ekki að ógildingu eða riftun á þessum viðskiptasamningi í heild sinni heldur að einstökum lánum sem Landsbanki Íslands hf. veitti á grundvelli viðskiptasamningsins og tilteknum ráðstöfunum á andvirði lánveitinganna.
Í aðalkröfu stefnanda er þess krafist að tilteknar skuldbindingar stefnanda vegna lánveitinga sem veittar voru á grundvelli framangreinds lánasamnings verði með dómi lýstar ógildar frá upphafi. Í aðalkröfu stefnanda eru þessa skuldbindingar tilgreindar. Samanlögð fjárhæð þeirra nemur 347.571.500 krónum.
Samhliða þessari kröfu er gerð krafa um ógildingu á ráðstöfun andvirðis lánveitinganna til kaupa á hlutabréfum og sjálfum hlutabréfaviðskiptunum í tilteknum viðskiptum.
Eins og þessi krafa er orðuð verður hún ekki skilin öðruvísi en svo að hún vísi til lánveitinganna í fyrri lið aðalkröfunnar. Fjárhæð þeirra viðskipta er hins vegar allt önnur en í fyrri lið aðalkröfunnar eða 972.895.694 krónur. Er ekki að finna skýringu á þessu misræmi í stefnu.
Í kröfunni segir að krafist sé ógildingar á rástöfun andvirðis lánveitinganna. Þar kemur ekki fram hver ráðastafaði þessum fjármunum og er krafan óskýr að þessu leyti. Í stefnunni er viðurkennt að stefnandi hafi fengið tilteknar fjárhæðir að láni hjá stefnda, eða Landsbanka Íslands hf., og kemur þar fram að stefnandi hafi verið skuldfærður fyrir þessum lánum. Þrátt fyrir það er á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi ráðstafað þessum fjárhæðum, en ekki stefnandi sjálfur. Þykir þetta ekki horfa til skýringar á kröfunni eins og hún er fram sett í stefnu.
Samhliða þessum tveimur kröfum krefst stefnandi skaðabóta að fjárhæð 2.148.285.434 krónur. Er þessi fjárhæð rökstudd í stefnu með því að hún samsvari útistandandi skuldum Skollaborgar ehf.vegna bréfa sem Skollaborg ehf. voru seld en urðu verðlaus þegar Landsbanki Íslands hf. féll. Í stefnu er ekki að finna neina skýringu eða útlistun á tengslum skaðabótakröfunnar við fyrri tvo liði í aðalkröfu.
Fjárhæð skaðabótakröfunnar telst ekki nægilega rökstudd í stefnu og er þar ekki að finna neina skýringu á því ósamræmi sem er á fjárhæð hennar og hinna tveggja liða aðalkröfunnar. Þá skortir á samhengi milli málsástæðna og kröfugerðar. Þá verður ekki séð hvernig þessar kröfur fara saman þar sem bæði er krafist ógildingar á lánum og ráðstöfun andvirðis lána svo og skaðabóta. Eru kröfur þessar ósamrýmanlegar auk þess að vera vanreifaðar.
Aðalkrafa stefnanda er ódómtæk. Hún uppfyllir ekki ákvæði d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra kröfugerð og er henni því vísað frá dómi.
Til vara krefst Skollaborg ehf. þess að lánveitingum samkvæmt a-d lið og hlutabréfaviðskiptum í 1.-8 tl. aðalkröfu verði rift. Samhliða þessari kröfu er gerð krafa um skaðabætur að fjárhæð 2.148.285.434 krónur.
Stefnandi vísar í rökstuðningi sínum fyrir riftunarkröfu sinni til kröfugerðar og málsástæðna varðandi aðalkröfu. Tengingu er ekki að finna milli tiltekinna lánveitinga og tiltekinna viðskipta vegna kaupa á hlutabréfum og er þar ekki um sömu fjárhæðir að ræða. Fjárhæð skaðabótakröfu er rökstudd með því að hún nemi útistandandi skuldum Skollaborgar ehf. Er fjárhæð skaðabótakröfu ekki í samræmi við riftunarkröfu. Enga tengingu er að finna í málatilbúnaði stefnanda milli tiltekinna lánveitinga, viðskipta með hlutabréf og meints tjóns, þ.e. útistandandi skulda. Skortir öll tengsl milli kröfugerðar og málsástæðna. Varakrafa stefnanda uppfyllir ekki ákvæði d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra kröfugerð. Telst hún ódómtæk eins og hún er fram sett og ber að vísa henni frá dómi.
Til þrautavara krefst Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. þess að sjálfskuldarábyrgð þess á fullum efndum allra skuldbindinga samkvæmt lánasamningi að fjárhæð 1.500.000.000 króna milli Skollaborgar ehf. og Landsbanka Íslands frá 15. maí 2007 verði með dómi lýst ógild frá upphafi.
Lánssamningur aðila er viðskiptasamningur um reikningslánalínu sem veitir lántaka heimild til að taka sjálfstætt lán, en eins og segir í tl. 3.1 telst hver lánshluti sem lántaki tekur innan lánsheimildar reikningslánalínunnar vera sjálfstætt lán. Í stefnu er engin grein gerð fyrir þeim skuldbindingum sem þessi stefnandi gerir kröfu um ógildingu á. Er í rökstuðningi þessa stefnanda vísað til 1.-10 kafla í stefnu sem er á 14 síðum og fjallar um hinar ýmsu málsástæður. Telst krafan vanreifuð og rökstuðningur með henni óljós. Ber því að vísa kröfunni frá dómi.
Í þrautaþrautavarakröfu sinni krefst Skollaborg ehf. viðurkenningar á því gagnvart stefnda að uppgjör lánveitinga samkvæmt lánasamningi aðila skuli framkvæmd í íslenskum krónum án viðmiðunar við gengi erlendra gjaldmiðla.
Samkvæmt kaupnótum sem frammi liggja í málinu voru stefnanda Skollaborg ehf. veitt fleiri lán en þau sem tilgreind eru í lið a-d í aðalkröfu. Stefnandi gerir enga grein fyrir þeim lánum sem þessi krafa hans tekur til. Ekki er sundurliðað hvort átt sé við tilgreind lán í aðalkröfu eða öll lán sem veitt voru á grundvelli lánasamningsins en þau virðast hafa verið fleiri en krafa um ógildingu og riftun tekur til. Þá er ekki gerð nægileg grein fyrir þeim skilmálum sem um lánin giltu. Er krafa þessi með öllu vanreifuð og ber að vísa henni frá dómi. Þá verður ekki séð hvernig krafa um skaðabætur að fjárhæð 2.148.285.434 krónur samrýmist þessari kröfu og er henni einnig vísað frá dómi.
Í ljósi þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá dómi í heild sinni.
Stefnendum ber að greiða stefnda málskostnað in solidum sem ákveðst 400.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Skollaborg ehf. og Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., greiði in solidum stefnda, NBI hf., 400.000 krónur í málskostnað.