Hæstiréttur íslands

Mál nr. 211/2002


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Stjórnvaldsákvörðun


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. október 2002.

Nr. 211/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Trausta Aðalsteini Kristjánssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar. Stjórnvaldsákvörðun.

T var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Neitaði hann því að hafa í umrætt skipti ekið sviptur ökurétti og hélt því fram að hann hafi haft gilt ökuskírteini. T sótti um samrit ökuskírteinis hjá lögreglustjóranum í Reykjavík í lok júlí 1999 og á viðeigandi umsóknareyðublaði hafði verið merkt við í reitinn „Ökuskírteini týndist eða var stolið“. Hafði T margoft verið sviptur ökurétti ævilangt, síðast með dómi í maí 1998 og hafði því ekki gild ökuréttindi þegar hann sótti um samrit ökuskírteinis. Virtist sem allar upplýsingar um ökuréttarsviptingu T hafi af ókunnum orsökum fallið niður í ökuskírteinaskrá. Þótti sannað að T hafi verið fullkunnugt um að hann hafði verið sviptur ökurétti ævilangt þegar hann, gegn betri vitund, fékk útgefið samrit ökuskírteinis á grundvelli rangra upplýsinga. Skilyrði til útgáfu slíks samrits hafi ekki verið fyrir hendi og útgáfa þess hafi á engan hátt getað endurvakið ökuréttindi sem T hafði ítrekað verið sviptur með dómum. Niðurstaða héraðsdóms um þriggja mánaða fangelsisvist T með vísan til langs brotaferils hans, var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði ekki gerð refsing.

 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Trausti Aðalsteinn Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 2002.

Mál þetta, sem þingfest var 8. janúar sl. og dómtekið 15. febrúar sl., er höfðað með ákæru Sýslumannsins á Selfossi, dags. 4. desember 2001, á hendur Trausta Aðalsteini Kristjánssyni, kt. 011161-3249, óstaðsettur í hús í Kópavogi, með dvalarstað að Seli í Austur-Landeyjahreppi, Rangárvallasýslu „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 8. nóvember 2001 ekið bifreiðinni KS 919 sviptur ökurétti vestur Suðurlandsveg, á móts við Fossnes 3c, Selfossi, þar sem lögreglan stöðvaði akstur ákærða.

Telst brot ákærða varðar við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að honum verði ekki gerð refsing verði hann sakfelldur í máli þessu. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði. 

Ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni KS 919 vestur Suðurlandsveg eins og lýst er í ákæru, en neitar því að hafa í umrætt skipti ekið sviptur ökurétti þar sem hann hefði haft, og hafi enn, gilt ökuskírteini.

Málsatvik

Að kvöldi fimmtudagsins 8. nóvember 2001 var lögregla við eftirlit á Selfossi og stöðvaði akstur bifreiðarinnar KS 919, sem ákærði ók í umrætt skipti, á móts við Fossnes 3c á Selfossi. Ákærði gat ekki framvísað ökuskírteini á vettvangi og kvaðst hann hafa gleymt því heima. Segir í frumskýrslu lögreglu að við skoðun í ökuskírteinaskrá hafi komið í ljós að ákærði var sviptur ökurétti ævilangt og var ákærða því gert að láta af akstri bifreiðarinnar.    

Niðurstaða

Ákærði hefur viðurkennt að hafa að kvöldi fimmtudagsins 8. nóvember 2001 ekið bifreiðinni KS 919 vestur Suðurlandsveg, á móts við Fossnes 3c á Selfossi, eins og í ákæru greinir. Ákærði hefur hins vegar neitað því að hafa í umrætt skipti ekið greindri bifreið sviptur ökurétti, þar sem hann hafi á umræddum tíma verið með gilt ökuskírteini. Í því sambandi vísar ákærði til þess að hann hafi fengið í hendur ökuskírteini, sem hann sótti um til Lögreglustjórans í Reykjavík 29. júlí 1999, og gefið var út af Ríkislögreglustjóra 3. ágúst 1999 með gildistíma til 1. nóvember 2031. Lögregla lagði hald á ökuskírteini ákærða 20. ágúst 1999. Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi ákærða bréf 25. maí 2000 þess efnis að embættið hefði í hyggju að afturkalla ökuréttindi ákærða og gaf honum kost á að koma að mótmælum við afturköllun réttindanna. Einnig liggur frammi í málinu bréf Lögreglustjórans í Reykjavík 24. ágúst 2000 til Ríkislögreglustjóra, til ákvörðunar um hvort ástæða sé til að afturkalla ökuskírteini ákærða með formlegum hætti. Þar kemur fram að þegar ákærði sótti um samrit ökuskírteinis hafi við könnun  Lögreglustjórans í Reykjavík ekkert komið fram sem staðið gæti því í vegi, að hann fengi útgefið samrit, enda virtist sem allar upplýsingar um ökuréttarsviptingu ákærða hafi af ókunnum orsökum fallið niður í ökuskírteinaskrá. Með bréfi Ríkislögreglustjórans, dags. 4. september 2000 var ákærða tilkynnt að lögregla hygðist ekki afhenda honum samrit ökuskírteinis þess er lagt var hald á 20. ágúst 1999, enda væri samritið aðeins staðfesting á því að hann hefði öðlast ökuréttindi 6. mars 1981, en þeim réttindum hafi hann verið sviptur með dómi. Einnig liggur frammi í málinu bréf Lögreglustjórans í Reykjavík frá 12. mars 2001, þar sem tilkynnt er um að eins og atvikum sé háttað í máli ákærða felli Lögreglustjórinn í Reykjavík niður tiltekinn fjölda mála vegna meintra brota ákærða gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga á árinu 1999 og 2000.

Ákærði fékk fyrst útgefin ökuréttindi á Ísafirði 6. mars 1981 til 10 ára. Í 50. gr. reglugerðar um ökuskírteini, nr. 501/1997, eru tilgreind þau tilvik sem þurfa að vera fyrir hendi til að hægt sé að fá útgefið samrit ökuskírteinis. Meginskilyrðið fyrir útgáfu samrits ökuskírteinis samkvæmt ákvæði þessu er að viðkomandi umsækjandi hafi gild ökuréttindi sem ætlunin sé að nota áfram.  Ákærði var með dómi Sakadóms Ísafjarðar 26. október 1981 sviptur ökurétti ævilangt frá 11. júlí 1981 fyrir brot gegn 25. og 27. gr. þágildandi umferðarlaga. Eftir uppkvaðningu þess dóms var ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð í eftirtöldum dómum: Dómi Sakadóms Reykjavíkur 9. ágúst 1985, dómi Hæstaréttar Íslands 21. febrúar 1986, dómi Sakadóms Reykjavíkur 26. júní 1989, dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 1993, 28. september 1995 og síðast með dómi frá 18. maí 1998. Ákærði hafði því ekki gild ökuréttindi þegar hann sótti um samrit ökuskírteinis til Lögreglustjórans í Reykjavík 29. júlí 1999. Á umsóknareyðublaðinu var merkt við í reitinn „Ökuskírteini týndist eða var stolið“ sem ástæðu umsóknar. Undirritaði ákærði umsóknina eigin hendi og þar með undir eftirfarandi yfirlýsingu: „Ég lýsi því hér með yfir að allar upplýsingar sem fram koma hér að ofan eru réttar...“ 

Níu dögum áður en ákærði sótti um ofangreint samrit ökuskírteinis var ákærða veitt reynslulausn á eftirstöðum refsingar, m.a. vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. júní 1999, þriggja mánaða fangelsi, hegningarauka, fyrir akstur sviptur ökurétti. 

Þegar til þess er litið sem hér hefur verið rakið, þykir vera hafið yfir allan vafa að ákærða var fullkunnugt um að hann hafði verið sviptur ökurétti ævilangt þegar hann, gegn betri vitund, fékk útgefið samrit ökuskírteinis á grundvelli rangra upplýsinga til  Lögreglustjórans í Reykjavík.

Ökuskírteini þetta, sem ákærði vísar til sem gilds ökuskírteinis, var gefið út sem samrit ökuskírteinis, en ekki á grundvelli endurveitingar ökuréttar samkvæmt 106. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Skilyrði til útgáfu slíks samrits voru ekki fyrir hendi samkvæmt framangreindu og gat útgáfa þess á engan hátt endurvakið ökuréttindi sem ákærði hafði verið ítrekað sviptur með dómum. Með vísan til þess sem að framan er rakið er sannað að ákærði ók í umrætt skipti bifreiðinni s samrits voru ekki fyrir hendi samkvæmt framangreindu og gat útgáfa þess á engan hátt endurvakið ökuréttindi sem ákærði hafði verið ítrekað sviptur með dómum. Með vísan til þess sem að framan er rakið er sann KS 919 sviptur ökurétti ævilangt og án þess að hafa gilt ökuskírteini. Ákærði hefur því með greindri háttsemi gerst brotlegur við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. 

  Ákvörðun refsingar 

Ákærði, sem er 40 ára, á að baki langan brotaferil og hefur svo sem rakið hefur verið ítrekað sætt refsingum fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti, síðast í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. júní 1999, þriggja mánaða fangelsi, fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá hefur ákærði einnig sætt refsingum fyrir hegningar- og fíkniefnalagabrot.  

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í máli þessu þykja ekki vera fyrir hendi skilyrði til að fella niður refsingu, enda var ákærða   fullkunnugt um að hann hefði ekki gild ökuréttindi. Með vísan til sakarferils ákærða þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin  3 mánaða fangelsi.

 Samkvæmt 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða  málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., sem þykja  hæfilega ákveðin 60.000 krónur. Ekki leiddi annan kostnað af málinu.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Trausti Aðalsteinn Kristjánsson,  sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.