Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2006
Lykilorð
- Eignaspjöll
- Hótanir
- Brot gegn valdstjórninni
- Hegningarauki
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 1. júní 2006. |
|
Nr. 18/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Steindóri Einarssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás. Brot gegn valdstjórninni. Hótanir. Eignaspjöll. Hegningarauki.
S var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa lagt til tveggja lögreglumanna með hnífi er lögreglan hafði afskipti af honum á heimili hans. Þá var hann ákærður fyrir eignaspjöll og hótanir, sem beindust gegn barnsmóður hans, foreldrum hennar og bróður. Í héraðsdómi þótti sannað að S hefði gerst sekur um þau brot, sem hann var ákærður fyrir, og var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til greiðslu skaðabóta. Fyrir Hæstarétti krafðist hann ómerkingar héraðsdóms en ella sýknu af ákæru um brot gegn valdstjórninni og sérstaklega hættulega líkamsárás. Ekki þótti efni til að hnekkja mati héraðsdómara um að dómurinn þyrfti ekki að vera fjölskipaður. Þá hefðu ekki verið færð fram rök í málinu, sem veittu líkur fyrir því að mat héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar vitna kynni að hafa verið rangt. Var ómerkingarkröfunni því hafnað og héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvalds samkvæmt II. kafla ákæru. Að þessu frágengnu er þess krafist að honum verði ekki gerð refsing, verði hann sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru, en ella að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.
Krafa ákærða um ómerkingu er reist á því að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum og að mat hans á sönnunargildi munnlegs framburðar vitna kunni að vera rangt þannig að úrslitum ráði. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og sönnunargögnum er háttað þykir ekki tilefni til að hnekkja mati héraðsdóms að þessu leyti. Þá hafa ekki verið færð fram rök í málinu, sem veita líkur fyrir því að mat héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar vitna kunni að vera rangt þannig að einhverju skipti um úrslit málsins. Ómerkingarkröfu ákærða er því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Steindór Einarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 419.465 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms
Reykjavíkur 8. nóvember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. október sl., er höfðað með ákæruskjali útgefnu af ríkissaksóknara 8. mars 2005 á hendur Steindóri Einarssyni, [kt. og heimilisfang], fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin í Reykjavík í júní 2004:
I
Fyrir eignaspjöll aðfaranótt
6. júní að X:
1. Er hann kastaði grjóti
í rúðu á neðri hæð hússins með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði og skemmdir
urðu á gólfparketi, borði og vegg í eldhúsi.
2. Er hann rispaði hægri hlið bifreiðarinnar NL-[...] sem stóð
við húsið.
Þetta er
talið varða við 1. mgr. 257. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
3. Fyrir brot gegn
valdstjórninni og sérstaklega hættulega líkamsárás á heimili sínu að Kaldaseli
6, neðri hæð, aðfaranótt 6. júní, með því að hafa, er lögregla hafði afskipti
af ákærða í kjölfar atvika sem lýst er í I. kafla ákæru, lagt einu sinni til
lögreglumannsins A og tvívegis til lögreglumannsins B með hnífi. Með
hnífslögunum sem ákærði beindi að B skar hann tvö göt á samfesting hans og kom
annað gatið efst á hægra læri innanvert en hitt vinstra megin í nára og gat kom
á nærbuxur þar fyrir innan. Með þessari
háttsemi stofnaði ákærði lífi og heilsu B í augljósan háska á ófyrirleitinn
hátt.
Þetta er
talið varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga,
sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 en til vara við 4. mgr. 220. gr. almennra
hegningarlaga.
III
Fyrir hótanir:
4. Með því að hafa í
ódagsettu bréfi merktu C, sem ákærði setti inn um bréfalúgu á heimili C og D að
Y í byrjun júní, hótað þeim og syni þeirra E ofbeldi með eftirgreindum orðum
„Sæl [C]
ef þú gerir þettað ekki strax þá verður skóbúðin í
rúst þú laminn D og E líka þitt er valið
”, og var efni bréfsins til þess
fallið að vekja hjá þeim ótta um heilbrigði og velferð sína.
5. Með því að hafa í
ódagsettu bréfi merktu E sem ákærði setti inn um bréfalúgu að Y 15. júní, hótað
E lífláti með eftirgreindum orðum: „
Ef
að [F] hringir ekki í mig næsta föstudag þá ert þú dauður hringdu í [H] og
talaðu við hann ég á kúbein klippur og haglabyrsu ég nota þettað næstu helgi ef
að [F] hringir ekki á föstudag þitt er valið
”, og var efni bréfsins til þess
fallið að vekja hjá E ótta um líf sitt og heilbrigði.
6.
Með því að hafa 23. nóvember 2004 hótað barnsmóður sinni, G, lífláti,
er hann sendi eftirgreind textaboð úr síma sínum, með númerið [...], í síma
Sigurbjargar, með númerið [...]: „Hæ
[G] ef ad tú leyfir mér ekki ad sjá [F] og [H] aftur dá skal ég skjóta tig í
hausinn 2 eda 3 desember og dá ertu daud og ég líka og dá eiga [F] og [H] ekki
pabba eda mömmu bæ bæ.”
Þetta er
talið varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er
krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Tryggingamiðstöðin
krefst bóta að fjárhæð 49.740 krónur vegna ákæruliðar 1.
E,
[kt.], krefst skaðabóta að fjárhæð 174.505 krónur vegna ákæruliðar 2.
Ákærði neitar sök samkvæmt
I. og II. kafla ákæru. Hefur hann viðurkennt að hafa sent bréf og textaboð úr
síma samkvæmt III. kafla ákæru. Verjandi ákærða krefst sýknu af I. og II. kafla
ákæru, en vægustu refsingar er lög leyfa varðandi brot ákærða samkvæmt III.
kafla ákæru. Þá krefst hann þess að framkomnum skaðabótakröfum verði vísað frá
dómi og að sakarkostnaður málsins verði felldur á ríkissjóð.
I. kafli.
Aðfaranótt sunnudagsins 6. júní 2004 var lögreglunni í
Reykjavík tilkynnt um að maður væri fyrir utan X í Reykjavík og að hann hefði
kastað grjóti í rúðu á neðri hæð hússins. Lögregla hafi farið á staðinn. Er
þangað kom hafi maðurinn verið farinn af staðnum en vitni á efri hæð hússins
hafi greint frá því að viðkomandi einstaklingur hafi komið með hvítri
leigubifreið með einkennisstafina Y [...] og að hann hafi horfið af vettvangi í
sömu bifreið. Í frumskýrslu kemur fram að rætt hafi verið við E, íbúa á
jarðhæðinni. Er fært í skýrslu að E hafi tjáð lögreglu að hann teldi að
fyrrverandi mágur sinn, ákærði, hafi verið að verki en þá skoðun hafi hann
byggt á lýsingum vitna á viðkomandi einstaklingi. Á vettvangi hafi mátt sjá
stórt grjót sem legið hafi á gólfi inni í íbúðinni. Rúða hafi verið brotin og
skemmdir sjáanlegar á eldhúsborði, vegg og parketgólfi. Við frekari athugun
hafi komið í ljós að búið hafi verið að vinna skemmdir á bifreiðinni NL-[...]
með því að rispa hægri hlið hennar. Eigandi bifreiðarinnar hafi verið E. Í
viðræðum við J, íbúa á efri hæð, hafi komið fram að hringt hafi verið til J og
honum tilkynnt um að maður væri að sniglast um fyrir utan húsið. Sá
einstaklingur er hafi komið að húsinu hafi verið í brúnleitri dúnúlpu, verið
lágvaxinn og með ljóst burstaklippt hár. Í frumskýrslu lögreglu vegna atburða
að Kaldaseli 6 sömu nótt er fært að í framhaldi af atburðum að X hafi lögregla
farið að Kaldaseli 6 til að freista þess að ná tali af ákærða, en upplýsingar
hafi borist um að hann gæti verið vopnaður hnífi. Hafi mátt sjá til ákærða
liggja á sófa í íbúðinni, en hann hafi verið klæddur í dökka dúnúlpu. Hafi hann
verið snöggklipptur og með ljósskolleitt hár.
Ákærði var yfirheyrður um sakarefnið eftir dvöl í
fangageymslu sunnudaginn 6. júní kl. 13.02. Kvaðst hann hafa verið talsvert
drukkinn aðfaranótt sunnudagsins 6. júní, en ráma í að hafa farið í
leigubifreið að X um nóttina þar sem hann hafi ætlað að hræða E. Af þeim
ástæðum hafi hann tekið með sér hníf á staðinn. Ekki kvaðst ákærði muna hvað
hann hafi gert að X. Er honum var tjáð að hann væri grunaður um að hafa kastað
steini í eldhúsglugga og að hafa rispað hægri hlið bifreiðarinnar NL-[...] kvað
hann vel geta verið að hann haft gert það, en hann myndi það hreint ekki. Er
ákærði var inntur eftir ástæðum þess að hann hafi ætlað að hræða E gaf hann þá
skýringu að börn ákærða væru í Bandaríkjunum ásamt móður þeirra. Hafi ákærði
ætlað að fá E til að hringja í börnin til að fá þau til að hringja í ákærða. E
hafi vitað um símanúmer í Bandaríkjunum er hægt hafi verið að ná sambandi við
þau í. Það símanúmer hafi ákærða ekki verið kunnugt um. Tekin var önnur
lögregluskýrsla af ákærða sama dag vegna atburða er áttu sér stað að Kaldaseli
6 í Reykjavík aðfaranótt 6. júní 2004. Í skýrsluna er skráð eftir ákærða að
hann hafi legið í sófa heima hjá sér er lögregla hafi komið að Kaldaseli, en
hann hafi lagst í sófann eftir að hann hafi komið frá X. Hann hafi verið
vakandi er lögregla hafi komið að Kaldaseli og verið með hníf í hendi, en þann
hníf hafi hann tekið með sér að X. Ákærði hafi verið klæddur í dökka dúnúlpu.
Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa komið að X í leigubifreið
umrætt sinn eða málinu almennt.
E kvað ákærða vera fyrrverandi mág sinn, en systir E, G,
hafi verið gift ákærða og ættu þau tvö börn saman. Eftir að ákærði og G hafi
skilið hafi ákærði haft horn í síðu E. E kvaðst hafa vaknað við brothljóð
aðfaranótt föstudagsins 6. júní 2004. Hafi hann litið fram og séð að búið hafi
verið að henda stóru grjóti inn um eldhúsgluggann og hafi glerbrot verið á víð
og dreif um eldhúsið og stofuna. Hafi sjáanlegar skemmdir verið á gólfparketi,
vegg og borði í eldhúsi. Við skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst E hafa farið út
eftir að lögregla hafi komið á vettvang og séð að búið hafi verið að rispa
bifreið E með einhverju egghvössu á hægri hlið. Fyrir dómi bar E hins vegar að
hann hafi farið fram eftir að hafa heyrt brothljóð. Hafi hann séð að rúða í
eldhúsi hafi verið brotin með stórum steini. Hafi hann litið út og séð ákærða
standa við hlið bifreiðarinnar fyrir utan húsið. Ákærði hafi verið með hníf í
hendi. Hafi hann gengið meðfram bifreið E og rispað hann. Atburðir hafi átt sér
stað í júní 2004 og því bjart úti. Kvaðst E í framhaldinu hafa hringt í
lögreglu. Hafi hann gert lögreglumönnum grein fyrir því er þeir komu á vettvang
að hann hafi séð ákærða skemma bifreið sína.
I kvaðst hafa ekið leigubifreið aðfaranótt 6. júní 2004.
Hafi hann tekið upp farþega í Tryggvagötu í Reykjavík sem óskað hafi eftir að
sér yrði ekið að X. Jón hafi lagt bifreiðinni við endann á Z og hafi farþeginn,
karlmaður á aldrinum 30 til 40 ára, beðið I um að bíða. Hafi farþeginn lagt
5.000 krónur til sín sem tryggingu fyrir því að hann kæmi aftur. Maðurinn hafi
gefið þá skýringu að hann ætlaði að ,,skreppa svolítið”. Hafi I séð á eftir
manninum í X. Jón kvaðst hafa opnað glugga á bifreið sinni þar sem hann hafi
fengið sér sígarettu. Eftir nokkrar mínútur hafi hann heyrt brothljóð. Kvaðst I
hafa beðið í um 5 til 10 mínútur en þá hafi farþeginn komið aftur með hraði og
óskað eftir að sér yrði ekið að Kaldaseli í Reykjavík. Hafi maðurinn gortað sig
af því að hafa brotið rúðu með gangstéttarhellu. Hafi hann verið reiður vegna
einhverra umgengnismála. Kvaðst I síðan hafa ekið manninum í Kaldasel. I kvað
manninn hafa verið klæddan í brúnleita dúnúlpu, hafa verið lágvaxinn,
ljóshærðan og mjög stuttklipptan. Hafi hann verið undir einhverskonar áhrifum
en hann hafi verið með áfengi meðferðis. Hringt hafi verið frá
fjarskiptamiðstöð lögreglu í I og hann inntur eftir ferðum sínum þessa nótt.
Hafi hann greint lögreglu frá þessum atburðum.
J kvað mann, sem hafi kynnt sig sem leigubifreiðastjóra,
hafa hringt á heimili sitt aðfaranótt 6. júní 2004. Hafi hann greint frá því að
hann hafi verið að aka farþega að húsinu nr. [...] við X, en ekki litist á
viðkomandi. Kvaðst J því hafa haft varann á sér. Um 10 mínútum síðar hafi hann
séð mann gægjast fyrir horn hússins þar sem inngangurinn í kjallara að heimili
E sé. Hafi J þá verið á efri hæðinni og hafa haft góða yfirsýn yfir nágrennið.
Maðurinn hafi sparkað í tvö eða þrjú skipti í útidyrahurðina. Síðan hafi komið
brothljóð. Eftir það hafi maðurinn gengið að bifreið E með einkennistafina
NL-[...]. Hafi hann haldið höndunum í magahæð og gengið niður eftir bifreiðinni
hægra megin. Ekki kvaðst J hafa tekið eftir því hvort maðurinn hafi verið með
eitthvað í höndunum. Fjarlægðin á milli J og mannsins hafi verið um 25 til 30
metrar. Maðurinn hafi síðan hlaupið í burtu af vettvangi og inn í leigubifreið
sem beðið hafi eftir honum í Z. Viðkomandi hafi verið klæddur í brúnleita
dúnúlpu, verið með hettuna uppi og verið um 170 til 180 cm á hæð.
Niðurstaða:
Lögreglan í Reykjavík var kölluð að X í Reykjavík
aðfaranótt sunnudagsins 6. júní 2004 vegna skemmda er þar höfðu verið unnar á
kjallaraíbúð og bifreiðinni NL-[...]. Ákærði var handtekinn síðar sömu nótt að
Kaldaseli 6 í Reykjavík. Við skýrslugjöf hjá lögreglu næsta dag kvað hann sig
ráma í að hafa farið að X umrædda nótt til að hræða E. E hafi haft upplýsingar
um símanúmer hjá barnsmóður og börnum ákærða í Bandaríkjunum, en í
Bandaríkjunum hafi hún dvalið ásamt börnum ákærða. Bar ákærði að hann hafi
tekið með sér hníf á staðinn. Að öðru leyti myndi hann lítið eftir atburðum að
X. Er tekin var lögregluskýrsla af ákærða vegna atburða að Kaldaseli 6 síðar
sömu nótt kvaðst hann hafa lagst í sófa í íbúð sinni að Kaldaseli með hníf í
hendi, eftir að hann hafi komið frá X. Fyrir dómi hefur ákærði borið að hann
muni ekki eftir atburðum tengdum X þessa nótt.
Leigubifreiðastjórinn
I hefur borið að hann hafi tekið upp farþega í Tryggvagötu í Reykjavík og ekið
honum að Z. Farþeginn hafi haldið fótgangandi að X. Eftir að hafa heyrt
brothljóð hafi farþeginn komið til baka og I ekið honum að Kaldaseli í
Reykjavík. Hafi maðurinn haft á orði að hann hafi brotið rúðu en hann hafi
verið reiður vegna einhverra ,,umgengnismála”. Lýsti I fatnaði mannsins m.a.
þannig að hann hafi verið klæddur í brúna dúnúlpu. Þá hefur íbúi að X, J, borið
að leigubifreiðastjóri hafi hringt á heimili sitt þessa nótt og varað hann við
farþega er hann hafi ekið að X, en maðurinn gæti verið hættulegur. Hafi hann
séð manninn koma að húsinu og stuttu síðar heyrt að rúða hafi brotnað. Eftir það
hafi hann farið að leigubifreið og haldið á brott. J lýsti fatnaði mannsins
þannig að hann hafi verið klæddur í brúnleita dúnúlpu.
Þegar
litið er til framburðar ákærða hjá lögreglu, framburðar vitnanna J og I og
þeirrar staðreyndar að lýsingar J og I á fatnaði þess manns er kom með
leigubifreiðinni að X samræmast þeirri lýsingu er lögregla hefur fært í
frumskýrslu síðar þessa nótt um klæðnað ákærða vegna atburða að Kaldaseli 6 í
Reykjavík þar sem ákærði var handtekinn, er að mati dómsins komin fram lögfull
sönnun um að ákærði hafi verið sá einstaklingur er leigubifreiðastjórinn I ók
að X aðfaranótt 6. júní 2004. E bjó að X, en hann er fyrrverandi mágur ákærða.
Svo sem fram kemur í III. kafla dómsins liggur fyrir að ákærði var ósáttur við
að systir E hans skyldi fara með börn ákærða til Bandaríkjanna á þessum tíma og
að hann hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ná símasambandi við þau. Í samræmi
við þetta verður lagt til grundvallar að ákærði hafi valdið eignaspjöllum á
neðri hæð hússins að X og bifreiðinni NL-[...], með því að rispa hægri hlið
hennar. Varða þessi brot ákærða við 1. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940, svo sem
í ákæru er miðað við. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru.
II. kafli.
Í framhaldi af atburðum við X í Reykjavík fór lögregla
að Kaldaseli 6 í Reykjavík. Í frumskýrslu kemur fram að talið hafi verið að
ákærði kynni að vera hættulegur þar sem hann gæti verið vopnaður hnífi. Knúið
hafi verið dyra hjá honum en ákærði ekki svarað. Sjá hafi mátt inn um glugga á
íbúðinni að maður í dökkri dúnúlpu, grænum buxum og svörtum skóm hafi legið í
sófa við stofuglugga. Ítrekað hafi verið reynt að ná sambandi við ákærða en
eftir dágóða stund hafi hann sest upp í sófanum. Hafi hann neitað að koma til
dyra eða ræða við lögreglu, en ítrekað haft í hótunum við lögreglu og sagt að
hann myndi drepa lögreglumennina. Jafnframt hafi hann hótað lögreglumönnum
dauða ef þeir kæmu inn í íbúðina. Aðalvarðstjóri hafi heimilað að lásasmiður
kæmi og opnaði hurð að íbúðinni. Lögreglumennirnir B og A hafi farið fyrstir
inn og B verið með skjöld og langa kylfu sér til varnar. Auk þess hafi
lögreglumennirnir K, L og M vopnast kylfum og gasúðum. Þegar inn kom hafi B og
A farið strax að ákærða sem enn hafi legið á bakinu í sófanum. Honum hafi
ítrekað verið skipað að sýna á sér hendurnar sem hann hafi haft krosslagðar
yfir bringuna. Hafi hann því engu sinnt. Þegar B og A hafi nálgast hafi ákærði
hálf sest upp og slegið til A sem hafi náð að verjast högginu. Þá hafi komið í
ljós að ákærði hafi verið með hníf í hægri hendi. Hafi hann í framhaldinu náð
að leggja í tvígang til B áður en hann hafi verið yfirbugaður með kylfuhöggum.
Í kjölfarið hafi hann verið færður í handjárn. Lagt hafi verið hald á hnífinn.
Við athugun hafi komið í ljós að hnífurinn hafi skorið tvö göt á lögreglusamfesting
B á nárasvæði. Við nánari skoðun hafi komið í ljós gat á nærfatnaði
lögreglumannsins en ekki sár á hörundi. Ákæri hafi virst töluvert ölvaður en
hann hafi verið þvoglumæltur og sljór. Hafi hann verið færður á lögreglustöðina
við Hverfisgötu. Áður en hann hafi verið færður í fangaklefa hafi Lúðvík
Ólafsson lækningaforstjóri framkvæmt á honum læknisskoðun.
Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri hefur 6. júní 2004 ritað minnisblað vegna skoðunar á ákærða. Fram kemur að ákærði hafi verið rólegur við skoðunina og hafi hann allvel gert grein fyrir sér. Hafi hann verið áttaður á stað og stund. Hann hafi lýst því að hann væri með geðhvarfasjúkdóm og að hann hafi drukkið áfengi í 3 daga fyrir atburðinn. Hafi hann lýst því að hann hafi vel vitað hvað hann hafi gert og hafa verið vel meðvitaður. Hins vegar myndi hann lítið eftir átökum við lögreglu. Við skoðun á brjóstkassa, kvið og fótleggjum hafi verið lítilsháttar roða að sjá framan á brjóstkassa yfir hægri brjóstvöðva og við neðri brún vinstri brjóstvöðva. Ekki hafi neinar blæðingar verið að sjá í roðasvæðinu. Einnig hafi roða verið að sjá ílangan skáhallt framan á vinstra læri, en þar hafi engar blæðingar verið að sjá. Ákærða hafi verið tekið blóð til ákvörðunar á alkóhóli. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarstofu í lyfjafræði mældist 1,29 o/oo alkóhóls í blóði ákærða greint sinn.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu frá 24. júní 2004 var einkennisfatnaður lögreglumannsins B tekinn til skoðunar. Fram kemur að göt hafi verið eftir hníf á hægri skálm að framan við klof og 8 cm fyrir ofan klof vinstra megin. Gatið í klofinu hafi verið L laga og stærð þess 7,5 cm lengri rifan og 5,8 cm sú styttri. Gatið rétt ofan við klofið vinstra megin hafi verið 3,8 cm langt. Nærbuxur lögreglumannsins hafi verið með 8 mm löngu stungugati. Hnífur sá er lögregla hafi lagt hald á hafi verið 22,7 cm langur og með plastskefti. Blaðið hafi verð bjúgblað 10,2 cm að lengd og 2 cm þar sem það sé breiðast.
Tæknideild lögreglu setti á svið þá stöðu að haldlögðum
hnífi væri beitt gagnvart lögreglubúningi lögreglumannsins B. Við sviðsetninguna
var lögreglubúningurinn settur á gínu. Þétt gúmmímotta var sett á bak við
samfestinginn til að verja gínuna. Var gerandi látinn setjast á stól og gínan
látin standa fyrir framan hann. Í samræmi við lýsingu af atvikum var talið að
sá er hnífnum beitti hafi haldið hnífsblaðinu niður á við og stungið B í
klofbótina. Í skýrslunni kemur fram að í sviðsetningunni hafi hnífurinn við
stungu farið í gegnum samfestinginn og í gegnum gúmmímottuna. Sárið á
samfestingnum eftir hnífinn hafi verið tætingslegt, ekki hreinn skurður. Með
skýrslunni er myndbandsupptaka af sviðsetningunni.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 6. júní 2004. Kvaðst
hann hafa lagst í sófa í íbúðinni að Kaldaseli 6 eftir að hann hafi komið frá
X. Hann hafi verið vakandi og með hníf í hendi, en hnífinn hafi hann tekið með
sér að X. Lögreglumenn hafi komið að Kaldaseli og sagt ákærða að koma út.
Ákærði hafi ekki svarað þeim og þóst sofa. Þeir hafi haldið áfram að kalla á
ákærða. Í kjölfarið hafi þeir opnað útidyrahurðina með lykli og nokkrir
lögreglumenn komið í íbúðina. Kvaðst ákærði hafa ráðist á lögreglumennina með
hnífinn í hægri hendi. Ekki kvaðst hann muna hvort hann hafi reynt að stinga
lögreglumennina. Hann hafi síðan verið yfirbugaður og færður í handjárn. Að
því búnu hafi hann verið færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Er ákærða
var gerð grein fyrir því að samfestingur lögreglumanns hafi verið með tveim
götum á nárasvæði og að gat hafi verið á nærfatnaði kvaðst ákærði engar
skýringar geta gefið á því. Hefði hann ,,ekki hugmynd” um hvort götin hafi
verið af hans völdum en ákærði kvaðst hafa verið mjög ölvaður er atburðir hafi
átt sér stað.
Við aðalmeðferð málsins bar ákærði á sama veg og hjá
lögreglu. Kvaðst hann ekki geta gefið skýringar á því af hverju hann hafi verið
með hnífinn í hendi er lögreglumenn hafi komið inn í íbúðina. Þá kvaðst ákærði
ekki muna eftir að hafa hótað lögreglumönnunum lífláti þessa nótt. Kvaðst hann
ekki muna eftir því er lögreglumennirnir hafi tekið hnífinn. Hann myndi eftir
að hafa hlaupið á móti þeim er þeir hafi komið inn í íbúðina en ekki muna eftir
að hafa notað hnífinn. Hafi lögreglumenn beitt kylfum á ákærða og hann því
næst verið handjárnaður. Á þessum tíma hafi ákærði verið í andlegu ójafnvægi og
því myndi hann ekki atvik. Byggi hann við geðhvarfasýki, sem lýsti sér í því að
hann færi út úr raunveruleikanum og framkvæmdi ýmsa hluti sem venjulegt fólk
gerði ekki. Hafi hann einnig búið við mikið þunglyndi á þessum tíma og fengið
maníuköst. Áfengi hefði magnað upp reiði hjá ákærða. Ákærði kvaðst hafa farið á
geðdeild í júní 2004 vegna andlegs ástands síns. Grétar Sigurbergsson
geðlæknir hafi haft ákærða til meðferðar.
Lögreglumennirnir B, A, N, M, K og L komu öll fyrir
dóminn, en lögreglumennirnir fóru inn í íbúð ákærða að Kaldaseli 6 aðfaranótt
sunnudagsins 6. júní 2004. Lýstu lögreglumennirnir atvikum í öllum aðalatriðum með sama hætti og verður því að
meginstefnu gerð grein fyrir framburði þeirra í einu lagi. Lögregla hafi verið
kölluð að X í Reykjavík vegna skemmdaverka er þar hafi verið unnin. Að X hafi E
fullyrt að ákærði væri sá er skemmdarverkunum hefði valdið. Ákærði væri
fyrrverandi mágur sinn og hafi hann ítrekað haft í hótunum við sig. E hafi
gefið lögreglu upp heimilisfang ákærða að Kaldaseli 6. Þá hafi lögreglu borist
upplýsingar frá leigubifreiðastjóra um að ákærði væri vopnaður hnífi og að hann
gæti verið hættulegur. Er lögreglumenn hafi komið að Kaldaseli hafi sést til
ákærða í íbúð sinni en hann hafi legið í sófa í stofunni. Myrkur hafi verið í
íbúðinni en stór gluggi hafi verið á stofunni. Ákærði hafi verið klæddur í
dökka dúnúlpu og verið með krosslagðar hendur yfir brjóstið. Ítrekað hafi verið
reynt að ná sambandi við ákærða um opinn glugga að íbúðinni en hann hafi lýst
yfir að hann vildi ekki ræða við lögreglu og að hann myndi drepa
lögreglumennina ef þeir reyndu að koma inn í íbúðina. Þrátt fyrir rökkrið hafi
sést að ákærði hafi verið í mjög annarlegu ástandi og gríðarlega æstur. Hafi
lögreglumenn þeir er komið hafi á vettvang talið greinilegt að ákærði væri
hættulegur sjálfum sér og öðrum. Hafi lögreglumennirnir B og A frá sérsveit
ríkislögreglustjóra verið kallaðir til aðstoðar. Að höfðu samráði við
varðstjóra hafi lásasmiður verið látinn opna hurð að íbúð ákærða. B og A hafi
farið fyrstir inn í íbúðina og B verið með hlífðarskjöld í hendi og langa
kylfu. Aðrir lögreglumenn hafi verið með venjulegar kylfur. Á eftir þeim hafi
farið inn í íbúðina lögreglumennirnir L, K, M og N. Hafi N verið aftastur og
reynt að kveikja ljós. Það hafi ekki gengið vel þar sem lítil ljós hafi verið í
íbúðinni önnur en einhver ,,smá týra” sem lýst hafi inn í stofu. Þegar inn í
stofu kom hafi ákærði enn legið hreyfingalaus í sófanum og með krosslagðar
hendur yfir brjósti. Er lögreglumenn hafi verið komnir í nágrenni við ákærða
hafi M kippt stofuborði er hafi verið upp við sófann frá til að lögregla gæti
athafnað sig betur. Ákærða hafi ítrekað verið skipað að sýna á sér hendurnar,
en hann hafi ekki brugðist við því. Lögreglumaðurinn B hafi nálgast ákærða við
höfðalagið en A nálgast hann við fótagaflinn. Skyndilega hafi ákærði risið upp
en þá hafi sést að hann hafi verið með hníf í hendi. Kvaðst A hafa tekið eftir
að hnífsblaðið hafi staðið út við litla fingur hans. Hafi ákærði fyrirvaralaust
lagt einu sinni til A með hnífnum en A tekist að stöðva höggið. Báru aðrir
lögreglumenn einnig um að A hafi tekist að stöðva eða verjast högginu. Í
framhaldinu hafi ákærði lagst aftur á bak og um leið reynt að stinga
lögreglumanninn B með hnífnum með því að sveifla hendinni út frá sér. Kvaðst B
hafa fundið hvernig höggin hafi lent á þeim skildi er hann hafi borið fyrir sig
en höggin hafi komið af miklu afli í skjöldinn. Auk þess hafi B fundið fyrir
snertingu í nárastað. Ákærða hafi umsvifalaust verið veitt högg með kylfum, en
við það hafi hann misst hnífinn úr hendi. Kvaðst N umsvifalaust hafa tekið
hnífinn í sínar vörslur. Í kjölfarið hafi ákærði verið yfirbugaður og færður í
handjárn. B kvaðst fyrst hafa orðið var við að göt hafi komið á samfesting sinn
eftir að ákærði hafi verið færður inn í lögreglubifreið. Einnig hafi komið í
ljós gat á nærfatnaði. A og K kváðust hafa veitt því athygli eftir að ákærði
hafi verið færður inn í lögreglubifreið að göt voru á samfesting B á
nárasvæðinu. Lögreglumennirnir N og M kváðust fyrst eftir atlöguna hafa frétt
af því að hnífur ákærða hafi skorið sundur búning B.
Kristján Friðþjófsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti
að hafa haft með höndum í tæknideild lögreglu að hnífi þeim er lagt var hald á
umrædda nótt væri brugðið að lögreglubúningi lögreglumannsins B. Sviðsetningin
hafi leitt í ljós að hnífurinn hafi virst tæta búninginn þegar honum væri
stungið í búninginn en skurður yrði ,,hreinni” þegar hnífurinn væri látinn
skera búninginn. Kvað hann það sitt mat að upprunalega gatið á
lögreglubúningnum bæri þess merki að vera skurður eftir eggvopn. Hnífurinn væri
flugbeittur og hafi ekki virst þurfa mikið afl til að stinga honum í gegnum
efni í lögreglubúningnum.
Niðurstaða:
Lögreglumenn þeir er afskipti höfðu af ákærða aðfaranótt
6. júní 2004 hafa borið á einn veg um að ákærði hafi legið í sófa í íbúðinni er
lögreglumenn freistuðu inngöngu í íbúðina. Hafi hann ekki viljað sýna
lögreglumönnum hendur sínar, en ástæða hafi verið til að óttast að ákærði væri
með hníf í hendi. Er lögreglumenn hafi nálgast ákærða þar sem hann lá í sófanum
hafi hann skyndilega reist sig upp og lagt með hnífi einu sinn til
lögreglumannsins A. Í beinu framhaldi hafi hann lagst aftur á bak og um leið
lagt með hnífnum tvisvar sinnum til lögreglumannsins B. Ber B að hann hafi
greinilega fundið fyrir því er hnífurinn hafi lent í hlífðarskildi er B hafi
borið fyrir sig, en að auki hafi hann fundið fyrir einhverri snertingu á
nárasvæðinu. Í kjölfarið hafi ákærði verið yfirbugaður og færður í handjárn en
þá hafi komið í ljós tvö göt á nárasvæðinu á lögreglusamfestingi B, auk þess
sem athugun hafi leitt í ljós stungugat á nærbuxum lögreglumannsins.
Rannsókn lögreglu hefur m.a. beinst að búningi
lögreglumannsins B. Hefur sú rannsókn leitt í ljós, svo ekki verður um villst,
að tveir skurðir hafa komið í lögreglubúninginn. Var hlutast um að hnífi þeim
er tekin var úr höndum ákærða yrði beitt gagnvart búningnum. Hefur sú
sviðsetning leitt í ljós að hnífurinn sker efni í búningnum auðveldlega í sundur,
enda hnífurinn flugbeittur. Eru engin efni til að draga í efa þær fullyrðingar
lögreglumannanna að hnífur sá er ákærði beitti gagnvart lögreglumönnunum
umrædda nótt hafi skorið búning lögreglumannsins í sundur í nárasvæðinu. Sú
atlaga ákærða gagnvart lögreglumönnunum og þá sérstaklega lögreglumanninum B
var stórháskaleg, en lag hans með flugbeittum hnífi beindist að svæði þar sem
stórar slagæðar eru grunnt undir húð. Var brotið því sérstaklega hættulegt og
virðist tilviljun hafa ráðið því að ekki hlytist mikið líkamstjón af. Þá
beindist brot ákærða gagnvart lögreglumönnum í starfi. Með vísan til þessa
verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni og sérstaklega
hættulega líkamsárás og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
III. kafli.
4. tl.
Föstudaginn 11. júní 2004 mættu á lögreglustöðina við
Hverfisgötu D og C, bæði til heimilis að Y í Reykjavík. Kváðust þau vilja
leggja fram kæru á hendur ákærða vegna hótana er þeim hafi borist í frá honum.
Lýstu D og C því fyrir lögreglu að ákærði væri fyrrverandi sambýlismaður dóttur
þeirra og hefðu þau eignast saman tvö börn. Þau hafi slitið sambandi sínu á
árinu 1993. Frá þeim tíma hefði verið mikið ónæði af ákærða vegna
sambandsslitanna. Þau hjónin hafi farið í frí í á árinu 2004 og komið til baka
9. júní 2004. Þá hafi beðið þeirra bréf frá ákærða sem hafi verið merkt C. Hafi
C opnað bréfið og þá komið í ljós að það hafi verið frá ákærða.
Ákærði gaf skýrslu vegna málsins 16. júní 2004. Kvaðst
hann viðurkenna að hafa verið með ,,alskyns hótanir” við C og D. Hótanirnar
hafi komið til vegna þess að fyrrverandi sambýliskona ákærða hafi farið til
Bandaríkjanna með tvö börn ákærða. Með í för hafi verið C og D. Ekki hafi verið
rætt við ákærða um þessa för með börnin og samkomulag um að börnin fengju að
hringja á þriggja daga fresti í ákærða hafi verið brotið. Hafi ákærði reiðst
vegna þessarar framkomu G og fjölskyldu hennar. Hafi ákærði sent D og C bréf
og sett það sjálfur inn um bréfalúgu á heimili þeirra. Hótununum hafi verið
ætlað að hræða D og C en ekki hafi verið ætlunin að framfylgja þeim á nokkurn
hátt. Fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa sent umrætt bréf til D og C.
Kvað hann geta verið að þau hafi haft ástæðu til að óttast ákærða. Bréfin hafi
verið send til að framfylgja því að börnum ákærða yrði veitt færi á að hringja
í föður sinn.
Bréf þau sem sakarefni þessa liðar ákæru varðar og
ákærði hefur viðurkennt að hafa sent D og C liggja frammi í málinu. Í þeim koma m.a. fram eftirfarandi
yfirlýsingar: ,, ef þú gerir þettað ekki strax þá verður skóbúðin í rúst þú
laminn [D] og [E] líka þitt er valið
” Í þessum yfirlýsingum er C m.a. hótað
líkamsmeiðingum, sem og D og syni þeirra E. Um þetta leyti olli ákærði E
eignaspjöllum að X í Reykjavík, en reiði ákærða á þessum tíma beindist að því
að börn ákærða höfðu farið til Bandaríkjanna ásamt móður sinni og
móðurforeldrum. Verður að telja að C, D og E hafi haft raunhæfa ástæðu til að
óttast ákærða um heilbrigði sitt og velferð í kjölfar hótananna. Verður ákærði
því sakfelldur samkvæmt 4 tl. ákæru og eru brot hans rétt heimfærð til
refsiákvæða í ákærunni.
5. tl.
Miðvikudaginn 16. júní 2004 fór E á lögreglustöðina við
Hverfisgötu og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir hótanir. Kvað hann föður
sinn 15. júní 2004 hafa komið með bréf til sín sem borist hafi inn um bréfalúgu
hjá D, en umslagið hafi verið merkt E. E kvað bréfið og fyrra athæfi ákærða
gagnvart E og fjölskyldu hans hafa valdið þeim miklu hugarangri og gefið þeim
ástæðu til að óttast um eigin velferð og heilsu.
Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa sent E umrætt bréf og
að hafa sett það inn um bréfalúgu hjá foreldrum E 15. júní 2004. Hafi ákærði
verið undir áhrifum áfengis og reiður er hann hafi gert þetta. Hótanirnar hafi
verið settar fram til að hræða E. Væri ,,ólíklegt” að hann hefði framkvæmt
hótanir sínar.
Bréf það sem
sakarefni þessa liðar ákæru varðar og ákærði hefur viðurkennt að hafa sent E
liggur frammi í málinu. Í því kemur
m.a. fram eftirfarandi yfirlýsing: „
Ef að [F] hringir ekki í mig næsta
föstudag þá ert þú dauður hringdu í [H] og talaðu við hann ég á kúbein klippur
og haglabyrsu ég nota þettað næstu helgi ef að [F] hringir ekki á föstudag þitt
er valið
”. Í þessum orðum er E hótað lífláti og gefið í skyn hvaða verkfæri
yrðu notað í því skyni. Verður að telja, sérstaklega í ljósi þeirra atburða er
þá höfðu átt sér stað, að E hafi haft gilda ástæð til að óttast ákærða um líf
sitt og heilbrigði. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru
og er brotið rétt heimfært til refsiákvæðis í ákærunni.
6
tl.
Föstudaginn 26. nóvember 2004 lagði G fram kæru á hendur
ákærða hjá lögreglu vegna hótana af hálfu ákærða í sinn garð. Kvað hún ákærða
23. nóvember sl. hafa sent sér sms símaskilaboð í síma sinn [...], úr síma
sínum [...]. Er kæran var móttekin færði lögreglumaður í lögregluskýrslu eftirfarandi
skilaboð er hann las af síma G: „Hæ [G] ef ad tú leyfir mér ekki ad sjá [F]
og [H] aftur dá skal ég skjóta tig í hausinn 2 eda 3 desember og dá ertu daud
og ég líka og dá eiga [F] og [H] ekki pabba eda mömmu bæ bæ.” Kvaðst G mjög hrædd við ákærða og óttast
velferð sína og barna sinna. Kvaðst hún gera þá kröfu að nálgunarbann yrði sett
á ákærða gagnvart henni, börnum hennar og heimili. Kvað hún ákærða vera með
geðhvarfasýki og öðru hvoru hafa verið vistaðan á geðdeild. Hafi hann ítrekað
valdið henni og fjölskyldu hennar eignaspjöllum, bæði á húsnæði og bifreiðum.
Ákærði var yfirheyrður um sakarefnið hjá lögreglu 29.
nóvember 2004. Kvaðst hann viðurkenna að hafa sent G umrædd skilaboð
þriðjudaginn 23. nóvember 2004, en hann hafi þá verið undir áhrifum áfengis
heima hjá sér. Hafi ákærði verið reiður út í G vegna þess að hann hafi ekki
fengið að sjá börnin sín. Hefði hann þó ekki gert G neitt. Fyrir dómi
viðurkenndi ákærði að hafa sent G umrædd skilaboð.
Skilaboð þau er ákærði hefur viðurkennt að hafa sent
barnsmóður sinni, G, eru líflátshótanir. Hótanir þessar komu í kjölfar
ítrekaðra hótana ákærða gagnvart foreldrum og bróður G í tilefni af því að
ákærði var ósáttur við að fá ekki að hitta börn sín. Ekki er nokkrum vafa
undirorpið að hótanir þessar hafa vakið hjá G ótta um líf hennar og velferð, en
ótti hennar var slíkur að hún hafði uppi kröfu þess efnis að sett yrði
nálgunarbann á ákærða gagnvart sér og börnum sínum. Samkvæmt gögnum málsins
hefur hún ritað undir beiðni um nálgunarbann 26. nóvember 2004. Ekki er að sjá
hvaða afgreiðslu sú beiðni hefur hlotið. Með vísan til þessa er sannað að
ákærði hefur brotið gegn 233. gr. laga nr. 19/1940 í þessum lið ákæru og verður
hann því sakfelldur samkvæmt ákæru.
Grétar Sigurbergsson geðlæknir hefur 17. febrúar 2005
ritað vottorð um geðhagi ákærða. Í vottorðinu kemur fram að ákærði þjáist af
geðhvarfasýki. Sjúkdómurinn einkennist af alvarlegum geðsveiflum, ýmist
geðhæð, maníu eða geðlægð, depression. Fyrstu einkenni sjúkdómsins hafi komið
fram 1989, þá í alvarlegu sturlunarástandi. Síðan hafi iðulega komið til
innlagna á geðdeildir, í seinni tíð oftast að ósk ákærða sjálfs. Gangur
sjúkdómsins hafi verið þannig að lengi framan af hafi ákærði fengið alvarlegar
maníur, sem hafi getað staðið í nokkra daga eða vikur. Hafi hann þá orðið mjög
ör í ástandinu og getað orðið mjög æstur og ógnandi, ekki síst þegar ástand
hans hafi leitt til afskipta lögreglu. Reiði hans hafi einnig getað beinst gegn
öðrum, t.d. heilbrigðisstarfsfólki. Á milli uppsveiflnanna hafi komið niðursveiflur
sem hafi einkennst af þunglyndi, óeðlilega miklum svefni, framtaksleysi og
áhugaleysi um flesta hluti. Á síðari árum hafi dregið úr alvarlegum uppsveiflum
hjá ákærða og sé það m.a. að þakka geðlyfjameðferð, sem hann hafi þó ekki sinnt
sem skyldi. Þá hafi það gerst að hann hafi hætt lyfjatöku og orðið hamslaus,
ekki síst ef áfengi hafi komið við sögu. Grétari vitanlega hafi síðasta
alvarlega uppsveifla ákærða verið í desember 2003 og hafi hann þá að eigin sögn
verið lagður inn á geðdeild nauðugur um þriggja vikna skeið.
Ákærði þjáist af alvarlegri persónuleikaröskun, sem
skerði dómgreind hans oft verulega og leiði til andfélagslegrar hegðunar. Hann
hafi tilhneigingu til að beita hótunum ef hann fái ekki óskum sínum framgengt á
annan hátt. Áfengisneysla og uppsveiflur á geði auki á þessa hegðun hans og
geti gert hann hömlulausan og jafnvel hættulegan í hegðun. Ákærði hafi átt við
ofneyslu áfengis að stríða á tímabilum. Áfengi auki mjög á vanda ákærða og komi
honum í margvísleg vandræði, jafnvel þótt ekki komi til geðhæð. Hafi hann reynt
að halda sig frá áfengi og gangi það vel á tímabilum. Geðsveiflur hans ýti þó
undir áfengisneyslu. Honum sé hætt við að neyta áfengis þegar andleg líðan hans
versni, bæði í uppsveiflum og niðursveiflum. Ákærði hafi ágætt innsæi í að
áfengi sé honum hættulegt, þótt innsæi hans í eigið ástand og hegðun sé oft
takmarkað.
Ákærði hafi haft tilhneigingu á síðari árum til að
ofnota sum kvíðastillandi lyf, sérstaklega Rivotril. Það hafi einkum gerst
þegar hann hafi verið í niðursveiflum sem gjarnan hafi fylgt mikill kvíði.
Kvíðastillandi lyf, sérstaklega benzodiazepin, séu afhamlandi, einkum í stórum
skömmtum og geti verið hættuleg að þessu leyti, ekki síst þegar jafnframt sé
neytt áfengis. Ákærði hafi oft leitað aðstoðar vegna ofneyslu áfengis og
kvíðastillandi lyfja, en gengið illa að fá inni á meðferðarstofnunum, sem ekki
hafi treyst sér til að annast hann vegna geðsjúkdóma hans. Hann hafi oft leitað
sér aðstoðar á geðdeildum en jafnan hafi verið erfitt að fá hann til að fylgja
læknisráðum. Hafi hann farið sínar eigin leiðir og útskrifað sig þegar honum
hafi hentað. Hann hafi undanfarin ár beðið eftir plássi í endurhæfingu á
Reykjalundi en ekki hafi komið til innlagnar þar, þrátt fyrir ítrekaðar
innlagnarbeiðnir.
Þeir þættir sem hér hafi verið raktir hafi tvinnast saman hjá ákærða og valdið honum og umhverfi hans margvíslegum vanda. Hann hafi verið félagslega einangraður. Hafi hann stundum verið í slagtogi við aðra einstaklinga sem hafi átt við geðræna erfiðleika að stríða. Hann búi einn en hafi hrakist af einum stað á annan, stundum vegna erfiðleika í samskiptum við nágranna. Sé hann jafnan þollítill gagnvart öllu ytra áreiti, hvatvís og jafnvel ógnandi ef svo beri undir. Þess á milli geti hann verið ljúfur sem lamb. Ákærði njóti stuðnings foreldra sinna, sem hafi sýnt honum mikla þolinmæði og úthald í gegnum árin. Hafi hann yfirleitt farið að ráðum þeirra og orðið við óskum þeirra, t.d. varðandi meðferð á geðdeild. Hann hafi sýnt af sér ítrekaða andfélagslega hegðun, t.d. ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Hafi hann átt til að hóta fólki, ógna því og jafnvel ráðist á það þegar verst láti, að því er virðist án þess að geðhæð sé til staðar. Ákærði hafi lent í umferðarslysi 1980 og m.a. fengið höfuðhögg við slysið. Þá hafi hann hlotið aðra alvarlega áverka sem hafi háð honum í gegnum tíðina og aukið á óvinnufærni hans. Ákærði sé öryrki og hafi hann lítið reynt fyrir sér á vinnumarkaði. Þó hafi komið góðir kaflar í líðan hans og hann stundum getað unnið, t.d. við fiskvinnslu. Á tímabilum hafi hann týnt upp dósir og flöskur í miðbænum á nóttinni eða safnað ánamöðkum. Verði hann gjarnan mikilvirkur á þessum sviðum og sjáist lítt fyrir. Í uppsveiflum fái hann gjarnan eins konar gönguáráttu. Gangi hann þá, oft illa búinn, klukkustundum saman eftir þjóðveginum, jafnvel austur fyrir fjall og upplifi sig þá sem eins konar ofurmenni. Hafi hann þá mikla þörf fyrir að reyna á kraftana. Hann gangi oft mjög nærri sér líkamlega í því ástandi.
Ákærði eigi tvö börn, sem séu í umsjá móður þeirra. Ákærði hafi haft eindregnar óskir um umgengni, sem erfitt hafi verið að koma til móts við vegna veikinda hans. Hafi það í seinni tíð reitt hann til reiði og andfélagslegra viðbragða. Horfur ákærða geti ekki talist góðar. Hann hafi, að eigin sögn, verið í mikilli drykkju frá byrjun júní til októberloka 2004. Á þeim tíma hafi Grétar hitt ákærða lítið. Hafi Grétar síðast séð hann 17. janúar 2005. Hafi hann þá sagt að hann hafi verið frekar langt niðri, hallað sér að áfengi og ofnotað lyf á tímabilum. Hafi hann á síðasta ári lent í ýmiskonar útistöðum af þessum sökum.
Grétar Sigurbergsson geðlæknir staðfesti fyrir dómi vottorð er hann ritaði 17. febrúar 2005 um geðhagi ákærða. Ekki kvaðst Grétar hafa annast ákærða í júní 2004. Fyrir þann tíma hafi hann síðast hitt ákærða í janúar 2004 og aftur einhverjum mánuðum eftir atburðina í júní 2004. Kvaðst Grétar hafa fengið upplýsingar um þá atburði er átt hafi sér stað í júní 2004 og byggt á því er hann hafi ritað vottorð sitt í málinu. Erfitt væri að fullyrða hvort ákærði hafi verið í maníu eða sturlunarástandi þegar atburðir hafi átt sér stað. Ef hann yrði sakfelldur fyrir refsilagabrot gæti fangelsisvist orðið heilsu hans erfið og haft slæm áhrif á hana. Hann þyrfti hjálp varðandi sjúkdóm sinn og áfengisneyslu. Kvaðst Grétar telja að ákærði þekkti mun á réttu og röngu.
Dómurinn fór þess á leit að geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss veitti álit sitt á andlegu ástandi ákærða er hann var lagður inn á geðdeild 16. júní 2004, eftir að teknar höfðu verið af honum lögregluskýrslur vegna hótana skv. IV. kafla ákæru. Ómar Ívarsson geðlæknir hefur ritað dóminum bréf af þessum sökum. Fram kemur að ákærði hafi verið að drekka áfengi á þessum tíma og misnota í stórum stíl Akineton og Phenergan. Hafi hann hætt að taka Lithium nokkrum dögum áður. Við geðskoðun í innlögninni hafi hann hvorki verið talinn vera í alvarlegu þunglyndi né alvarlegri maníu og hafi verið talið að ,,hans mál tilheyri meira dómskerfinu”. Það sem hafi verið talið geta hjálpað honum á geðdeild hafi verið afeitrunarmeðferð og síðan yrði hann eflaust að sækja AA-fundi og fá einhverja eftirfylgd hvað fíkniefnasjúkdóm varðaði. Niðurstaðan á þessum tíma hafi verið sú að ákærði hafi ítrekað verið að brjóta af sér í skjóli þess að hann væri með manio depressivan sjúkdóm en meira spili inn í persónuleikatruflun hans af andfélagslegum toga, hugsanlega saga um gamlan framheilaáverka, áfengis- og fíkniefnanotkun. Væri ekki hægt að taka þátt í því að það væri komið með hann á geðdeild í hvert skipti sem hann bryti af sér. Mælst hafi verið til þess í læknabréfi frá þessum tíma að mál hans væru tekin fyrir af réttarvörslukerfinu.
Svo sem fyrr er rakið hefur Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri 6. júní 2004 ritað minnisblað vegna skoðunar á ákærða í kjölfar þess að hann var handtekinn að Kaldaseli 6 í Reykjavík. Þar kom fram að ákærði hafi verið rólegur við skoðunina og hafi hann allvel gert grein fyrir sér. Hann hafi verið áttaður á stað og stund. Hann hafi lýst því að hann væri með geðhvarfasjúkdóm og að hann hafi drukkið áfengi í 3 daga fyrir atburðinn. Hafi hann lýst því að hann hafi vel vitað hvað hann hafi gert og hafa verið vel meðvitaður. Hins vegar myndi hann lítið eftir átökum við lögreglu. Ákærða hafi verið tekið blóð til ákvörðunar á alkóhóli. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarstofu í lyfjafræði mældist 1,29 o/oo alkóhóls í blóði ákærða greint sinn.
Þegar litið er til vottorðs Grétars Sigurbergssonar geðlæknis, bréfs Ómars Ívarssonar geðlæknis og minnisblaðs Lúðvíks Ólafssonar lækningaforstjóra, eru ekki efni til að draga í efa að ákærði sé sakhæfur í skilningi 15. gr. laga nr. 19/1940. Hann glímir hins vegar við erfiðan geðsjúkdóm sem hefur háð honum um árabil. Verður ráðið af gögnum málsins að ýmislegt hafi verið reynt varðandi geðsjúkdóm ákærða. Þá fer ekki á milli mála að áfengisneysla hefur margsinnis leitt til þess að ákærði hefur lent í útistöðum við aðra. Bera gögn með sér að ákærði hefur verið ósáttur við að fá ekki að umgangast börn sín tvö, en svo virðist sem slíkt hafi ekki verið talið ráðlegt með hliðsjón af geðsjúkdómi hans. Þegar þau gögn eru virt, sem nú liggja fyrir um geðhagi ákærða, þykja ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1940 ekki standa því í vegi að ákærða verði dæmd refsing í málinu. Til þess er að líta, svo sem áréttað var í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 164/2003, að samkvæmt lögum nr. 49/2005 um fullnustu refsinga skulu fangar njóta viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðan á afplánun stendur og þess að fangelsismálastofnun getur, um stundarsakir eða allan refsivistartímann, heimilað að fangi sé vistaður á sjúkrahúsi eða annarri stofnun svo að hann fái notið sérstakrar meðferðar ef slíkt er talið henta vegna heilsufars hans.
Ákærði á að baki nokkurn sakaferil. Á árinu 1986 var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og nytjastuld. Á árinu 1988 var hann á ný dæmdur í fangelsi vegna þjófnaðar. Þá var hann á árinu 1989 dæmdur skilorðsbundinni refsingu fyrir þjófnað og skjalafals. Á árinu 1990 var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi, þar af 3 mánuði skilorðsbundið, vegna brota gegn umferðarlögum. Verður þá rof á ferli ákærða til 30. desember 1997 er hann var dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og brot gegn umferðarlögum. Á árinu 1998 gekkst hann undir sátt fyrir akstur án ökuréttinda og á ný undir sátt 7. janúar 2002 vegna þjófnaðarbrota. Þá gekkst hann undir viðurlagaákvörðun 27. júní 2003 fyrir brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940. Loks var hann 7. febrúar 2005 dæmdur í 2ja mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940 og brot gegn ákvæðum umferðarlaga. Brot ákærða í þessu máli eru framin fyrir uppsögu refsidómsins frá 7. febrúar 2005. Ber því nú að taka þann dóm upp eftir reglum 60. gr. laga nr. 19/1940 og ákvarða ákærða refsingu í einu lagi eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Brot ákærða í þessu máli eru alvarleg og ekki unnt að líta til þess að geðhagir afsaki gerðir hans. Árás hans gagnvart lögreglumönnunum að Kaldaseli 6 aðfaranótt sunnudagsins 6. júní 2004 var sérlega hættuleg, en hann beitti flugbeittum hnífi af fullum þunga gagnvart lögreglumönnum er afskipti hugðust hafa af honum. Hafði hann áður hótað þeim dauða ef þeir kæmu nálægt honum. Þá voru hótanir hans í garð barnsmóður sinnar, foreldra hennar og E alvarlegar, en hann hafði á þeim tíma orðið uppvís að því að hika ekki við að beita hnífi gagnvart lögreglu og valdið töluverðu eignatjóni að X þar sem E bjó. Með hliðsjón af öllu þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda að neinu leyti.
Tryggingamiðstöðin, [kt.], hefur krafist skaðabóta að
fjárhæð 49.740 krónur auk vaxta, vegna þess tjóns er um getur í 1. tl. I. kafla
ákæru. Um fjárhæð að baki þeim kröfulið er vísað til reiknings að fjárhæð
17.928 krónur frá Trésmíðaþjónustu Grétars vegna næturútkalls við viðgerð að X
í Reykjavík 6. júní 2004, en brotin rúða hafi verið byrgð upp og umhverfið
þrifið. Þá er vísað til reiknings að fjárhæð 31.812 krónur, sem einnig er frá
Trésmíðaþjónustu Grétars og felur í sér kostnað við gler, glerísetningu, akstur
og förgun á varningi vegna ísetningar rúðu að X þann 9. júní 2004. Ákærði er
skaðabótaskyldur vegna þess tjóns er hann vann að X, aðfaranótt sunnudagsins 6.
júní 2004. Skaðabótakrafa Tryggingamiðstöðvarinnar, að fjárhæð 49.740 krónur
byggir á kostnaði vegna þess tjóns er varð. Verður krafan tekin til greina að
með fullri fjárhæð, ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir.
E hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 174.505 krónur
ásamt vöxtum, vegna 2. tl. I. kafla ákæru. Er krafan sundurliðuð með
eftirfarandi hætti:
|
1. Skemmdir |
81.130 krónur |
|
2. Lögmannskostnaður |
75.000 krónur |
|
3. Virðisaukaskattur |
18.375 krónur |
Um rökstuðning er vísað til þess að 1. tl. bótakröfu
varði viðgerð á bifreiðinni NL[...]. Í bótakröfu kemur fram að
Tryggingamiðstöðin hafi tekið saman yfirlit um fjárhæð tjónsins, en
tryggingafélagið hafi verið vátryggjandi bifreiðarinnar. Skemmdirnar hafi
verið metnar til fjárhæðar af Sævari Hreiðarssyni skoðunarmanni. Felist þær í
vinnu við yfirbyggingu, samtals að fjárhæð 18.900 krónur. Efniskostnaður nemi
945 krónum og málun samtals 45.320 krónum. Þá leggist á virðisaukaskattur að
fjárhæð 15.965 krónur. Samtals nemi þessi fjárhæð 81.130 krónum. Við
aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður bótakrefjanda að tjón á bifreiðinni
NL-[...] hafi verið bætt af tryggingafélagi E, en E hefði í gildi húftryggingu
vegna bifreiðarinnar. Samkvæmt yfirliti frá tryggingafélagi E nemi eigin áhætta
E 108.000 krónum vegna tjóns sem tryggingin bæti. Við mat á skaðabótakröfu E
er til þess að líta að bótafjárhæðin byggir á mati á tjóni, en ekki
raunverulegum kostnaði af endurbótum. Þá liggur það fyrir að tryggingafélag E
lét annast viðgerð á tjóninu. Þó svo fyrir liggi að eigin áhætta E nemi 108.000
krónum, liggur ekki fyrir hvaða fjárhæð tryggingafélagið hefur endurkrafið E
um. Yfirlit um það ættu að vera aðgengileg. Í ljósi alls þess er skaðabótakrafa
E ekki í því horfi að unnt sé að dæma um hana í þessu máli. Verður henni af
þeim sökum vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti
lögreglustjóra um sakarkostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum að viðbættum
virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir. Hefur þá einnig verið tekið tillit
til kostnaðar er vitni hefur haft af því að koma fyrir dóminn.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J.
Friðjónsdóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Steindór Einarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði Tryggingamiðstöðinni, [kt.], 49.740
krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 6. júní 2004 til 21. júlí
2005, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna frá þeim
degi til greiðsludags.
Skaðabótakröfu E er vísað frá dómi.
Ákærði greiði 310.180 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns 246.510 krónur.