Hæstiréttur íslands
Mál nr. 352/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 30. ágúst 2005. |
|
Nr. 352/2005. |
Óskar Geir Pétursson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Tryggingastofnun ríkisins (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Ó höfðaði mál á hendur T, þar sem hann krafðist þess að felldur yrði úr gildi nánar tilgreindur úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga. Ó var ekki talinn hafa gert fullnægjandi grein fyrir því að hann hefði lögvarða hagsmuni af því að fá umræddan úrskurð felldan úr gildi. Var málið því vanreifað að þessu leyti og vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. ágúst sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Óskar Geir Pétursson, greiði varnaraðila, Tryggingastofnun ríkisins, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2005.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. júní sl., var höfðað 17. nóvember 2004 af Óskari Geir Péturssyni, kt. 010952-4099, Bakkagötu 3, Öxnarfjarðarhreppi, Kópaskeri, á hendur Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar almannatrygginga í málinu nr. 207/2002 frá 15. janúar 2003: Óskar Geir Pétursson gegn Tryggingastofnun ríkisins og krafist er málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn 25. janúar sl.
Af stefnda hálfu er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfunni en stefnandi krefst þess að krafa hans í málinu verði tekin til efnislegrar meðferðar. Báðir málsaðilar krefjast málskostnaðar í þessum þætti málsins samkvæmt málskostnaðaryfirlitum.
I.
Stefnandi slasaðist 7. janúar 2000 um borð í Hrísey EA-410 er hann vann þar sem 2. stýrimaður. Stefnandi lýsir atvikum þannig að hann hafi verið að losa stórt grjót úr trollinu sem hafi komið upp með því. Þegar hífa hafi átt grjótið hafi það tekist á loft vegna þess að mikil alda hafi komið undir skipið. Grjótið hafi runnið á stefnanda en hann hafi orðið á milli með hægri fótlegg og hlotið slæm meiðsl á hné. Stefnandi hafi orðið óvinnufær það sem eftir var af veiðiferðinni og eftir slysið hafi hann nær ekkert getað unnið á sjó. Hann finni sífellt fyrir þreytu í hnénu og honum hafi ekki gengið vel að fá vinnu í landi. Hann hafi því orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna slyssins. Slysið hafi einnig valdið honum miklum erfiðleikum í daglegu lífi. Hann hafi fyrir slysið verið veikur fyrir áfengi og leitað sér lækninga vegna þess. Áverkarnir sem hann hafi hlotið í slysinu hafi gert honum erfiðara að standa sig gagnvart þessu vandamáli.
Stefnandi hafi fengið greitt úr slysatryggingu sjómanna, launþegatryggingu, frá Tryggingamiðstöðinni hf., en varanleg læknisfræðileg örorka hans hafi verið metin 5% og hafi hann fengið greitt samkvæmt því. Þar sem um vinnuslys hafi verið að ræða hafi stefnandi krafist þess að áverkarnir yrðu metnir af stefnda samkvæmt almannatryggingalögum og 4. október 2002 hafi Sigurjón Sigurðsson læknir metið slysaörorku stefnanda 5%. Stefnandi hafi ekki unað þeirri niðurstöðu og kært matið til Úrskurðarnefndar almannatrygginga 25. sama mánaðar. Hann hafi krafist þess að örorka hans yrði metin á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 samkvæmt staðli sem saminn hafi verið á grundvelli reglugerðar nr. 379/1999.
Með úrskurði nefndarinnar 15. janúar 2003 var framangreint mat læknisins staðfest. Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda þar sem þess var krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi og að stefndi yrði dæmdur til að meta ákverka sem stefnandi hlaut í slysinu til örorku á sama grundvelli og hann krafðist að gert yrði fyrir örorkunefndinni. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2003 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 3. desember 2003 í máli nr. 438/2003. Stefnandi telur að hann eigi sjálfstæða kröfu á hendu stefnda þótt hann hafi fengið uppgjör á skaðabótakröfunni úr launþegatryggingunni, en hann hafi verið tryggður samkvæmt 9. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 24. gr. laganna.
II.
Krafa stefnanda um ógildingu úrskurðar Úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 15. janúar 2003 er byggð á því að stefnandi uppfylli almenn skilyrði 1. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar og eigi rétt á að örorka hans og heilsuskerðing (færnisskerðing) vegna slyssins verði metin í samræmi við meginreglur framangreindra laga og samkvæmt 29. gr. þeirra, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna, eftir staðli reglugerðar nr. 379/1999 þar sem fram komi á skýran og gagnsæjan hátt þær forsendur eða forskriftir sem ráði hæð örorku samkvæmt lögunum. Þeim bótaþegum sem hljóti færnisskerðingu af völdum vinnuslysa beri sami réttur og öðrum bótaþegum þegar örorka þeirra sé metin. Stefndi hafi metið örorku stefnanda samkvæmt örorkutöflum örorkunefndar sem hvergi fái staðist og hafi enga stoð í almannatryggingarétti eða gildandi lögum um almannatryggingar.
Staðall 3. mgr. 12. gr. laganna taki mið af afleiðingum áverkans og því beri að meta hverja færnisskerðingu áverkinn hafi haft í för með sér fyrir viðkomandi einstakling. Þessi grunnregla hafi verið þverbrotin þegar örorka stefnanda vegna vinnuslyssins hafi verið metin af stefnda. Afleiðingar sem slysið hafi haft á líkamlega færni stefnanda hafi ekki verið metnar.
Þegar bætur vegna áverka af sjúkdómum eða fötlun séu ákveðnar samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar, sbr. staðal reglugerðar nr. 179/1999, en örorka vegna slysaáverka samkvæmt örorkutöflum eftir vali læknis brjóti það gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Með því njóti þeir sem hafi orðið fyrir vinnuslysum ekki sömu örorkubóta fyrir samskonar færnisskerðingu og þeir sem verði fyrir sjúkdómum eða fötlun þrátt fyrir að færnisskerðing vegna sjúkdóma sé í lögunum lögð að jöfnu við færnisskerðingu vegna slysa svo sem skýrlega komi fram, t.d. í 4. mgr. 22. gr. laganna.
Einnig brjóti það gegn réttmætis- og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins að ákveða örorku vegna afleiðinga vinnuslysa á grundvelli matsreglna sem beitt sé vegna bóta úr launþegatryggingu. Í úrskurðinum, sem krafist sé ógildingar á, sé ekki byggt á sjónarmiðum laga um almannatryggingar heldur óljósum forsendum eins og fram komi í honum. Aðferðir sem notaðar séu við ákvörðun á miska og örorku samkvæmt skaðabótalögum séu óljósar og sé alger markleysa að nota þær reglur við ákvörðun á örorku samkvæmt almannatryggingalögum.
Örorka stefnanda vegna vinnuslyssins hafi ekki verið ákveðin samkvæmt skýrum ákvæðum í settum lögum heldur mælikvarða sem fáir viti deili á. Þetta brjóti gegn lögmætisreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Í úrskurðinum komi fram að eingöngu sé um að ræða hlutlægt mat sem ekki sé byggt á öðru en miskatöflum.
Röksemdir stefnanda fyrir því að hann hafi lögvarða hagsmuni af efnislegri úrlausn málsins eru þær að þótt stefnandi hafi fengið tjón sitt bætt samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga eigi hann einnig rétt á bótaákvörðun samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga um almannatryggingar, þ.e. að áverkar hans verði metnir samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999. Bætur sem stefnandi fengi samkvæmt staðlinum yrðu ákveðnar á allt annan hátt en bætur sem stefnandi hafi þegar fengið samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Hann geti jafnvel átt rétt á hærri bótum en hann hafi þegar fengið greiddar úr launþegatryggingunni. Færnisskerðing stefnanda samkvæmt staðlinum myndi leiða til mun hærri örorku en 10%. Samkvæmt honum þurfi ekki að skora nema 15 stig til að verða metinn 75% öryrki. Ekki sé loku fyrir það skotið að stefnandi verði metinn til að minnsta kosti 50% örorku samkvæmt lögum um almannatryggingar sem veitti stefnanda ákveðinn rétt, sbr. 29. gr. laganna.
Með kröfu stefnanda sé krafist úrlausnar um réttindi stefnanda samkvæmt lögum um almannatryggingar og sáttmálum sem íslenska ríkið hafi undirgengist um slík réttindi. Stefnandi eigi rétt á því að bera úrskurð Úrskurðarnefndar almannatrygginga undir dómstóla. Hann þurfi að fá úr því skorið hver örorka hans sé samkvæmt lögum um almannatryggingar og hafi lögvarða hagsmuni af því. Stefnandi mótmæli því að í málatilbúnaði hans felist skriflegur málflutningur. Málið sé flókið og hafi verið tekið mið af því þegar stefnan var samin.
III.
Frávísunarkrafa stefnda er byggð á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfuna í málinu auk þess sem málatilbúnaður hans sé í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.
Stefnandi hafi sótt um slysabætur til stefnda vegna slyss sem hann hafi orðið fyrir 7. janúar 2000. Umsóknin hafi verið rökstudd með því að um vinnuslys hafi verið að ræða sem væri bótaskylt samkvæmt III. kafla almannatryggingalaga nr. 117/1993. Slysið hafi einnig verið bótaskylt úr slysatryggingu launþega hjá Trygginga-miðstöðinni hf. og hafi stefnanda verið greiddar bætur samkvæmt því sem hafi verið ákveðnar eftir skaðabótalögum. Við uppgjör á þeim bótum hafi verið gert ráð fyrir að bætur til stefnanda frá stefnda drægjust frá greiddum bótum úr slysatryggingu launþega, eins og gera eigi samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, en þar segi að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum. Þegar í ljós hafi komið að stefnandi ætti ekki rétt á bótum frá stefnda vegna slyssins hafi hann fengið eftirstöðvar bótakröfu sinnar greiddar frá Tryggingamiðstöðinni hf. eins og fram komi í gögnum málsins. Þar með hafi stefnandi fengið allt tjón bætt sem hann geti átt rétt á vegna slyssins. Tilraun stefnanda til að fá niðurstöðu stefnda hnekkt sé í raun tilraun til að sækja bætur úr hendi stefnda sem hann hafi þegar fengið greiddar annars staðar frá. Stefnandi hafi engan fjárhagslegan ávinning af því að fá úrskurðinum hnekkt. Af slíkum málatilbúnaði hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni og beri því að vísa málinu frá dómi, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi hafi þegar verið metinn til örorku eftir þeim staðli og á þann hátt sem hann krefjist í málinu. Frá 1. mars 1999 hafi stefnandi verið metinn til fullrar örorku hjá stefnda samkvæmt þeim sjónarmiðum sem gildi um örorkulífeyri, sbr. II. kafla laga um almannatryggingar. Hann fái örorkulífeyri greiddan samkvæmt því og hafi fengið frá því fyrir slysið. Síðasta mat hafi farið fram 9. desember 2004. Allur málatilbúnaður stefnanda miði að því að örorka hans verði metin á þann hátt sem þegar hafi verið gert. Stefnandi geti ekki samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna samtímis notið örorkubóta samkvæmt III. kafla þeirra og örorkulífeyris samkvæmt II. kafla. Hann geti ekki verið metinn til hærri örorku samkvæmt lögum um almannatryggingar en hann hafi þegar verið metinn. Úrlausn málsins breyti því engu um réttarstöðu stefnanda að lögum. Því beri að vísa málinu frá dómi.
Málatilbúnaður stefnanda sé auk þessa óljós og í raun skriflegur málflutningur. Þetta sé í brýnni andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. e og f liðir 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Stefnandi segist byggja lögsóknina á 2. mgr. 25. gr. laganna. Krafa hans sé þó ekki krafa um að viðurkennd verði nokkur réttindi stefnanda. Því sé um einhvers konar misræmi að ræða í málatilbúnaði stefnanda sem erfitt sé að henda reiður á.
IV.
Krafa stefnanda um ógildingu úrskurðar Úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 15. janúar 2003 er byggð á því að með úrskurðinum hafi örorka hans ekki verið metin samkvæmt fyrirmælum í lögum eða að lög hafi verið brotin í því sambandi. Úrskurðurinn sé því ólögmætur og því beri að fella hann úr gildi. Í þessu felst krafa um að ólögmæti úrskurðarins verði viðurkennt af dóminum. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála er skilyrði fyrir því að krafan fái efnislega meðferð dómsins að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausninni.
Skýringar stefnanda á því á hvern hátt það geti skipt hann máli að lögum að fá framangreindan úrskurð felldan úr gildi eru óljósar. Stefnandi virðist telja að hann geti átt rétt á örorkubótum eða örorkulífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar sem hann hafi ekki fengið þar sem ólögmætum aðferðum hafi verið beitt í úrskurðinum við mat á örorku hans en þetta kemur þó ekki nægilega skýrt fram í stefnu. Þar kemur hins vegar fram að stefnandi hafi krafist þess að áverkar hans yrðu metnir af stefnda samkvæmt almannatryggingalögum og útskýrt er í stefnunni hvers vegna stefnandi telur að það hafi ekki verið gert. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins fær stefnandi greiddan fullan örorkulífeyri frá stefnda, óháð slysinu sem hann varð fyrir 7. janúar 2000, samkvæmt mati sem gildir til 30. júní 2006. Í stefnu er ekki fjallað um þetta atriði eða hvort það hafi áhrif á réttarstöðu stefnanda og hagsmuni hans af ógildingu úrskurðarins. Að öllu þessu virtu þykir á skorta að stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum gert nægilega grein fyrir mikilvægum atriðum og samhengi þeirra sem hljóta að skipta máli við mat á því hvort stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi.
Stefnandi hefur samkvæmt þessu ekki gert nægilega skýra grein fyrir því hvort eða hvernig það hefði áhrif á réttarstöðu hans gagnvart stefnda verði krafa hans í málinu um ógildingu úrskurðarins tekin til greina. Þar með hefur hann ekki gert fullnægjandi grein fyrir því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi sem er skilyrði fyrir því að hann geti fengið efnislega úrlausn um kröfuna samkvæmt framangreindu og 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Málið verður að telja vanreifað að þessu leyti og málatilbúnaði stefnanda af þeim sökum áfátt, en hann er ekki í samræmi við fyrirmæli e liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála um skýra og glögga lýsingu á sakarefninu í stefnu. Með vísan til þessa ber að vísa málinu frá dómi.
Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 256.190 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 250.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður er 6.190 krónur.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Óskar Geir Pétursson, greiði stefnda, Tryggingastofnun ríkisins, 250.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 256.190 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., 250.000 krónur.