Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Endurupptaka


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. ágúst 2006.

Nr. 359/2006.

STG Trading Group á Íslandi ehf.

((Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(enginn)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Endurupptaka.

S krafðist endurupptöku á máli varðandi kröfu T um gjaldþrotskipti á búi S, en samþykki T fyrir endurupptöku lá fyrir. Ekki hafði verið sótt þing af hálfu S við fyrirtöku málsins og var úrskurður um töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta kveðinn upp 25. apríl 2006. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var tekið fram að regla einkamálaréttarfars um málsforræði gildi ekki frá uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og þar til kröfulýsingarfresti við skiptin er lokið. Geti aðilar því ekki sammælst um endurupptöku á meðferð kröfu um skiptin í því skyni að fá þau felld niður. Verði reglu 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 því ekki beitt fortakslaust um beiðnir er varði endurupptöku mála, sem rekin hafi verið samkvæmt lögum nr. 21/1991 og lokið með úrskurði um gjaldþrotaskipti. Hefði því ekki verið haldið fram af hálfu S að félagið hefði haft fram að færa mótmæli gegn kröfu T við fyrirtöku málsins og hefðu mótmæli ekki komist að í síðara þinghaldi hefði málinu verið frestað samkvæmt sameiginlegri ósk aðila. Samkvæmt því hefði niðurstaða málsins ekki orðið önnur en raun varð þó þing hefði verið sótt af hálfu S við fyrirtöku málsins. Með hliðsjón af framangreindu var kröfu S hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku á máli varðandi kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að tekin verði til greina krafa hans um endurupptöku. Þá krefst hann þess aðallega að sér verði dæmdur kærumálskostnaður, en til vara að hann verði felldur niður.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 1. júní 2006.

Með bréfi sem barst dóminum 23. maí sl. hefur Jóhannes Albert Sævarsson hrl. krafist þess fyrir hönd STG Trading Group á Íslandi ehf. að málið verði endurupptekið.

Við fyrirtöku beiðninnar á dómþingi 1. júní 2006 voru ekki höfð uppi mótmæli við endurupptöku málsins af hálfu skiptabeiðanda. Skiptastjóri upplýsti að innköllun hefði verið gefin út til skuldheimtumanna.

Í framangreindu bréfi kemur fram að útivist hafi orðið af hálfu STG Trading Group á Íslandi ehf. við fyrirtöku málsins 5. apríl sl. og málið tekið til úrskurðar. Hinn 25. apríl hafi verið kveðinn upp úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Úrskurðurinn hafi verið kærður til Hæstaréttar Íslands sem hafi með dómi 22. maí sl. í málinu nr. 255/2006 vísað málinu frá réttinum. Krafa Tollstjórans í Reykjavík um gjaldþrotaskipti á búi  STG Trading Group á Íslandi ehf. hafi fyrst og fremst lotið að vangreiddum þing- og sveitarsjóðsgjöldum gjaldaárin 2004-2006, auk virðisaukaskattskuldar vegna tímabils 40 árið 2005, allt byggt á áætlunum skattyfirvalda. Framtöl og ársreikningar hafi verið til meðferðar hjá Skattstjóranum í Reykjavík um margra ára skeið án þess að úrskurður hafi gengið um kærða álagningu byggða á áætlun. Í því ljósi hafi skuldarinn gert sátt þann 18. október 2005 um mánaðarlegar greiðslur inn á hina áætluðu skattaskuld. Um hafi verið að ræða málamyndagreiðslur að fjárhæð kr. 10.000 á meðan skattyfirvöld væru að ljúka við að yfirfara framtöl og ársreikninga. Sú vinna hafi dregist fram til 3. maí sl., en hafi átt að vera lokið fyrir löngu lögum samkvæmt. Fyrir mistök hafi hins vegar ekki verið staðið við greiðslur skv. greiðsluáætluninni og því hafi verið óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Útivist hafi orðið af hálfu fyrirsvarsmanna skuldarans fyrir héraðsdómi og gjaldþrotaúrskurður gengið.

   Ekki sé um raunverulega skuld að ræða nú þegar endurálagning hafi farið fram. Því verði að telja forsendur brostnar fyrir úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. G-124/2006, enda Tollstjórinn í Reykjavík eini beiðandi gjaldþrotsins. Ekki standi efni til gjaldþrots skuldarans.

   Krafa Tollstjórans byggi á áætlunum en ekki á raunverulegri skuld. Nú liggi fyrir úrskurðir Skattstjórans í Reykjavík um skattbreytingar vegna gjaldársins 2004 dags. 3. maí s.l. og gjaldaársins 2005 dags. 9. maí s.l. Álagningar skv. áætlunum hafi verið leiðréttar. Samkvæmt þeim og nýju stöðuyfirliti Tollstjórans í Reykjavík dags. 19.05.2006 sé skuld skv. gjaldþrotaskiptabeiðni dags. 10.03.2006 að fullu greidd.

   Í greinargerð Tollstjórans til Hæstaréttar í máli nr. 255/2006 hafi þess t.a.m. verið krafist að gjaldþrotaskiptaúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli G-124/2006 væri felldur niður þar sem skuld sé ekki lengur til staðar. Krafa Tollstjórans fyrir Hæstarétti hafi því verið hin sama og sóknaraðila nú.

Endurupptöku er krafist með vísan til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. einkum með vísan til d. liðar, allt á ábyrgð og kostnað beiðanda sbr. 3. mgr. 137. gr.

   Niðurstaða:

Eins og að framan greinir var þing ekki sótt af hálfu STG Trading Group á Íslandi ehf. við fyrirtöku kröfu Tollstjórans í Reykjavík um gjaldþrotaskipti á búi félagsins 5. apríl 2006 og var úrskurður um töku bús þess til gjaldþrotaskipta kveðinn upp 25. s.m. STG Trading Group á Íslandi ehf færir þau rök aðallega fyrir endurupptökubeiðni sinni að krafa Tollstjórans í Reykjavík hafi byggt á áætlunum en ekki raunverulegri skuld og samkvæmt úrskurðum Skattstjórans í Reykjavík dags. 3. og 9. maí sl. og stöðuyfirliti varnaraðila dags. 19.05.2006 sé skuld skv. gjaldþrotaskiptabeiðni að fullu greidd. Forsendur séu því brostnar fyrir úrskurði Héraðsdóms.

Réttaráhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti eru annars eðlis en réttaráhrif dóms eða áritaðrar stefnu í einkamáli. Þannig bera reglur 72.-74. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti með sér að úrskurðurinn einn út af fyrir sig hafi veigamikil áhrif að lögum gagnvart þrotamanni og þriðja manni þegar eftir uppkvaðningu og það án tillits til hvort innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna hafi þegar birst. Auk þess er í 154. gr. laganna kveði á um að þrotamaður eigi þess kost að fá eignir búsins afhentar að nýju eftir lok kröfulýsingarfrests með samþykki skiptabeiðanda og annarra, sem lýst hafa kröfum í búið. Að þessu virtu svo og forsögu núgildandi reglna er ljóst, sbr. dómur Hæstaréttar frá 30. september 1994 í málinu nr. 397/1994, að almenn regla einkamálaréttarfars um málsforræði gildir ekki frá uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og þar til kröfulýsingarfresti við skiptin er lokið, og því geta aðilar ekki sammælst um endurupptöku á meðferð kröfu um skiptin í því skyni að fá þau felld niður. Reglu 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 verður því ekki beitt fortakslaust um beiðnir er varða endurupptöku mála, sem rekin hafa verið skv. lögum nr. 21/1991 og lokið með úrskurði um gjaldþrotaskipti.

   Eins og rakið hefur verið leitar STG Trading Group á Íslandi ehf., með samþykki Tollstjórans í Reykjavík, eftir endurupptöku málsins á grundvelli atvika sem til eru komin eftir töku málsins til úrskurðar 5. apríl s.l. Því er þannig ekki haldið fram af hálfu skuldarans að hann hafi þann 5. apríl sl. haft fram að færa mótmæli gegn kröfu skiptabeiðanda sem hann hafi ekki komið að vegna útivistar sinnar. Þá er á það að líta að hefði skuldarinn sótt þing og málinu verið frestað samkvæmt sameiginlegri ósk aðila hefðu mótmæli ekki komist að í síðara þinghaldi, sbr. 3. og 4. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991. Niðurstaða málsins hefði því ekki orðið önnur en raun varð þó þing hefði verið sótt af hálfu skuldarans 5. apríl 2006 enda liggur fyrir að lagaskilyrði voru fyrir gjaldþrotaskiptunum. Hins vegar hefði skiptabeiðandi getað afturkallað kröfu um gjaldþrotaskipti þar til úrskurður gekk um hana, sbr. 4. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991.

   Með hliðsjón af framanröktu er beiðni STG Trading Group á Íslandi ehf. um endurupptöku málsins hafnað.

   Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfu STG Trading Group á Íslandi ehf. þess efnis að mál nr. G-124/2006 verði endurupptekið, er hafnað.