Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Miðvikudaginn 1. desember 2004. |
|
Nr. 469/2004. |
Fjárfestingafélagið Þor hf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Skúla Þorvaldssyni (Halldór Þ. Birgisson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Máli S á hendur F hf. var fellt niður í héraðsdómi að kröfu þess fyrrnefnda eftir að F hf. hafði lagt fram greinargerð í málinu. F hf. krafðist þess fyrir Hæstarétti að S yrði gert að greiða því hærri málskostnað en í úrskurði héraðsdóms. Með vísan til atvika málsins og þeirrar vinnu sem F hf. hafði lagt í málið var talið hæfilegt að S greiddi F hf. 300.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2004, þar sem mál varnaraðila gegn sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða honum 150.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 2.382.971 krónu í málskostnað fyrir héraðsdómi, en til vara „aðra hærri fjárhæð en í úrskurðinum greinir.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila þar sem hann krafðist þess að viðurkennt yrði að komist hefði á gildur samningur milli aðila um kaup á hlutum í tilteknum tveimur félögum fyrir 680.000 bandaríkjadali og að sóknaraðila yrði gert skylt að afsala þeim til varnaraðila. Máli milli sömu aðila um sama sakarefni hafði verið vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 5. febrúar 2004 í máli nr. 218/2003. Mál þetta var þingfest 17. febrúar 2004 og tók sóknaraðili til varna í því og lagði fram greinargerð. Á dómþingi 9. nóvember síðastliðinn óskaði varnaraðili hins vegar eftir því að málið yrði fellt niður. Gerði sóknaraðili þá kröfu um að sér yrði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.
Krafa sóknaraðila er reist á því að dæma beri honum málskostnað í samræmi við málskostnaðarreikning, er lagður var fram í þinghaldi 9. nóvember síðastliðinn. Þar kemur fram að þóknun lögmannsins sé 1.914.033 krónur, en þar er miðað við tiltekið grunngjald og ákveðið hlutfall af stefnufjárhæð án virðisaukaskatts. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Þegar atvik málsins eru virt og sú vinna sem sóknaraðili hafði lagt í málið, þykir hæfilegt að varnaraðili greiði honum 300.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Varnaraðili, Skúli Þorvaldsson, greiði sóknaraðila, Fjárfestingafélaginu Þori hf., 300.000 krónur í málskostnað í héraði.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2004.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. nóvember sl., er höfðað 13. febrúar 2004 af Skúla Þorvaldssyni, Bergstaðastræti 77, Reykjavík gegn Fjárfestingarfélaginu Þor hf., Laugavegi 182, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að viðurkennt verði að þann 1. febrúar 2002 hafi komist á gildur samningur milli stefnda og stefnanda um kaup stefnanda á hlutum/hlutafé stefnda í danska hlutafélaginu SPC Holdins AS., cvr. nr. 25533534, að nafnverði danskar krónur 4.082.076, sem er 40,82076% af heildarhlutafé í félaginu og um 50% eignarhlut í Luxemborgarfélaginu NDB Investments SA., nr. 15441 að nafnverði belgískir frankar 2.250.000 fyrir kaupverð að fjárhæð 680.000 bandarískir dollarar.
Í öðru lagi er gerð sú dómkrafa að stefnda sé skylt að afsala sömu hlutum/hlutafé að nafnverði danskar krónur 4.082.076 í danska hlutafélaginu SPC Holdings AS., cvr. nr. 25533534 og hlutum/hlutafé að nafnverði belgískir frankar 2.250.000 í Luxemburgarfélaginu NDB Investments SA., nr. 15441 til stefnanda innan tveggja vikna frá dómsuppsögu gegn greiðslu frá stefnanda að fjárhæð 680.000 bandarískir dollarar eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskri mynt við afsal hlutanna til stefnanda.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæð samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málskostnaðarfjárhæð.
Dómkröfur stefnda eru þær að hið stefnda félag verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað eftir mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Í þinghaldi þann 9. nóvember sl. lýsti lögmaður stefnanda því yfir að hann óskaði að fella málið niður. Lögmaður stefnda gerði kröfu um málskostnað með vísan til málskostnaðarreiknings, sem lagður var fram í þinghaldinu. Lögmaður stefnanda mótmælti málskostnaðarkröfu stefnda.
Dómari gaf lögmönnum aðila kost á að tjá sig um framkomna málskostnaðarkröfu og var málið síðan tekið til úrskurðar.
Málskostnaðarreikningur stefnda hljóðar upp á 2.382.971 krónu. Þar er vísað til umfangs málsins og þeirra hagsmuna sem um hafi verið deilt og gerð krafa um að málskostnaður verði ákveðinn með hliðsjón af gjaldskrá Lögmáls ehf.
Stefnandi óskar að fella málið niður. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 ber því að fella málið niður. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað. Þar sem ekki verður tekin efnisleg afstaða til þeirra hagsmuna sem um var deilt í málinu verður málskostnaður ekki ákveðinn með tilliti til þeirra. Með hliðsjón af umfangi málsins, fyrirtökum og þeim tíma sem ætla má að farið hafi í samningu greinargerðar og ganaöflun af hálfu stefnda þykir málskostnaður til handa stefnda hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Mál þetta er fellt niður.
Stefnandi, Skúli Þorvaldsson, greiði stefnda, Fjárfestingarfélaginu Þor hf., 150.000 krónur í málskostnað. Kristjana Jónsdóttir