Hæstiréttur íslands

Mál nr. 734/2017

Benedikt G. Stefánsson og Diana Rostan (sjálf)
gegn
Íslandsbanka hf. og Ergo (Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Sakarefni
  • Nauðungarsala
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem einkamáli B og D gegn Í og E til ógildingar á nauðungarsölu var vísað frá dómi með vísan til þess að B og D hefðu ekki beint kröfu um úrlausn um gildi nauðungarsölunnar til héraðsdómara eins og heimilt væri samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 17. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017.

                Mál þetta höfðuðu Benedikt G. Stefánsson og Diana Rostán, bæði til heimilis að Miklubraut 90, Reykjavík, með stefnu birtri 11. maí 2017 á hendur Íslandsbanka hf., Hagasmára 3, Kópavogi og Ergo, Suðurlandsbraut 14, Reykjavík.  Málið var tekið til úrskurðar 27. október sl. 

                Í stefnu eru gerðar þessar kröfur:  „Við óskum eftir að uppboði verði dæmt ógilt og að tryggingarbréfið verði líst ógilt.  Þá krefst ég málskostnaðar að mati dómsins.“ 

                Stefndu sóttu þing og skiluðu greinargerð þar sem þeir kröfðust frávísunar málsins og málskostnaðar.  Aðeins var fjallað um formhlið málsins í greinargerðinni, þótt hún hafi ekki verið lögð fram fyrr en sex vikur voru liðnar frá þingfestingu málsins, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015.  Við fyrirtöku 8. september féll þingsókn niður af hálfu stefndu og var málið tekið til úrskurðar eins og áður segir 27, október, er stefnendur höfðu lagt fram sókn og frekari gögn. 

                Í stefnu segir að uppboð hafi verið haldið á eigninni Miklubraut 90 þann 12. apríl 2017.  Uppboðið hafi byggst á tryggingarbréfi sem hafi ekki verið í eigu uppboðsbeiðenda, stefndu Íslandsbanka og Ergo.  Frá árinu 1999 hafi Glitnir verið með tryggingarbréf með veði í íbúð að Miklubraut 90, vegna eignaleigusamnings við Plötupressu ehf.  Segja stefnendur að það sé fyrirtæki þeirra. 

                Þá er í stefnu rakið að Glitnir hf. og Íslandsbanki hf. hafi sameinast og síðar tekið upp nafnið Glitnir.  Í október 2008 hafi eignir Glitnis verið færðar í nýjan banka, stefnda Íslandsbanka hf.  Segja stefnendur að þau geri samruna Glitnis og Íslands­banka í mars 2003 að aðalvörn sinni.  Þá segir að Seðlabankinn hafi aldrei framselt stefndu tryggingarbréfið sem uppboðið byggðist á. 

                Enn fremur segir í stefnu að 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki banni að sami einstaklingur sitji í fleiri en einni stjórn fjármálafyrirtækis.  Gunnar Felixson hafi setið bæði í stjórn Glitnis og Íslandsbanka, þegar fyrirtækin voru sameinuð.  Samningurinn um sameiningu sé því ógildur.  Því hafi tryggingarbréfið ekki verið framselt stefnda Íslandsbanka. 

                Loks er byggt á því að stefndu hafi brotið gegn 116. gr. laga nr. 91/1991 með því að knýja fram nauðungarsölu vegna dóms í máli E-1831/2014, en þeir hafi áður fengið dóm í máli nr. A-176/2012 sem hafi verið framfylgt að fullu.  Lög nr. 38/2001 banni sýslumanni að bjóða upp íbúðarhúsnæði skuldara þar sem hann hafi skráð lög­heimili, ef um er að ræða kaupleigusamning. 

                Stefndu gerðu í greinargerð athugasemd um að Ergo sé stefnt til hliðar við Íslandsbanka í málinu.  Ergo sé útibú eða deild innan Íslandsbanka. 

                Frávísunarkrafa stefndu var byggð á því að málatilbúnaður stefnenda væri svo óskýr að ekki væri ljóst á hverju stefnendur vildu byggja og því útilokað að halda uppi vörnum.  Ekki væri heldur heimilt að höfða almennt einkamál til ógildingar á nauðungarsölu.  Um leiðir til að bera nauðungarsölu undir dóm  giltu ákvæði laga nr. 90/1991.  Slík krafa væri ekki höfð uppi í almennu einkamáli. 

                Niðurstaða

                Stefnendur krefjast ógildingar á nauðungarsölu á íbúð að Miklubraut 90, sem fór fram 12. apríl 2017 að kröfu stefnda Íslandsbanka.  Heimild til að bera gildi nauðungarsölu undir dóm er að finna í 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.  Samkvæmt því skal beina kröfu um úrlausn um gildi sölunnar til héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því að tilboði hefur verið tekið. 

                Í stað þess að senda héraðsdómi kröfu gáfu stefnendur út stefnu og létu birta eftir reglum laga nr. 91/1991.  Ekki er hægt að líta svo á að framlagning stefnunnar og skjala málsins á reglulegu dómþingi geti verið krafa um úrlausn í skilningi 80. gr. laga nr. 90/1991.  Stefnendur hafa höfðað mál um kröfu, sem ekki verður borin undir dóm í almennu einkamáli.  Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi.  Verður þá hvorki fjallað um hvort Ergo geti átt sjálfstæða aðild að málinu né hvort mála­tilbúnaður allur sé svo skýr að unnt væri að leggja dóm á málið.

                Þar sem þingsókn stefndu féll niður verður málskostnaður felldur niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.