Hæstiréttur íslands

Mál nr. 114/2000


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Skaðabætur
  • Kaupsamningur


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. október 2000.

Nr. 114/2000.

Þrotabú Þórðar Þórðarsonar

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf.

(Helgi V. Jónsson hrl.)

og gagnsök

                                                   

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Skaðabætur. Kaupsamningur.

Þ, er sætti rannsókn skattrannsóknarstjóra vegna vantalinna skattstofna til tekjuskatts og útsvars í skattframtölum áranna 1990 til 1994, seldi, ásamt eiginkonu sinni, E, fyrirtækinu B ehf. fasteignir og lausafé gegn greiðslu tveggja skuldabréfa. Um leið og kaupsamningur þessi var gerður létu Þ og E af stjórnarstörfum í B ehf. og við tóku synir þeirra. Þ var eftir sem áður framkvæmdastjóri félagsins. Þrotabú Þ höfðaði mál gegn B ehf. til riftunar kaupsamningsins. Talið var að verulega lág verðlagning eignanna gæti ekki hafa dulist fjölskyldunni. Þegar síðan var virt að skuldabréfin, sem fyrir eignirnar áttu að koma, voru án allrar tryggingar, voru til langs tíma og án ákvæða um gjaldfellingu, var fallist á það með þrotabúinu að þeim hafi ekki mátt dyljast að yfirfærsla eignanna til B ehf. var óhæfileg og myndi leiða til þess að eignirnar yrðu ekki til fullnustu skattakröfum þeim sem yfirvofandi var að yrðu lagðar á Þ. Var gerningurinn því talinn riftanlegur í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Við mat á tjóni þrotabúsins samkvæmt 3. mgr. 142. gr. sömu laga var talið að líta bæri til heildarmats á aðstæðum, þ.á m. þess að forsendur kaupsamningsins hafi hlotið að miða við markaðsaðstæður á Akranesi og efnahagsástand á þeim tíma sem hann var gerður og miða hafi mátt við áframhaldandi rekstur fyrirtækisins í heild. Ítrustu bótakröfur þrotabúsins voru því lækkaðar að álitum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 16. mars 2000. Hann krefst þess að rift verði með dómi kaupsamningi gagnáfrýjanda og Þórðar Þórðarsonar frá 3. mars 1995 um kaup stefnda á eignum Þórðar. Jafnframt verði gagnáfrýjanda gert að greiða honum 26.670.325 krónur, en til vara aðrar lægri bætur að mati dómsins. Þá krefst hann dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af dæmdri fjárhæð frá 3. mars 1995 til greiðsludags, en til vara að dæmd fjárhæð beri meðalvexti innlánsstofnana frá þeim degi til 18. október 1998 og dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2000. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að frátöldu málskostnaðarákvæði hans. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að gagnáfrýjandi verði einungis dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda verulega lægri fjárhæð en krafist er og að málskostnaður verði þá felldur niður.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Með ákæruskjali 24. október 1996 höfðaði ríkissaksóknari mál á hendur Þórði Þórðarsyni, Sóleyjargötu 18 á Akranesi. Var honum gefið að sök að hafa í fyrsta lagi brotið nánar tilgreind ákvæði laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, laga nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga og laga nr. 90/1990 um sama efni með því að hafa á árunum 1990 til 1994 vantalið í skattframtölum sínum tekjur, að fjárhæð 133.158.685 krónur, með þeim afleiðingum, að álagður tekjuskattur og útsvar hans hafi orðið 37.668.600 krónum lægri en vera átti. Í öðru lagi var ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á árunum 1990 til 1993 breytt afritum 120 sölureikninga vegna atvinnurekstrar síns til lækkunar um samtals 47.216.581 krónu og notað afritin þannig breytt í bókhaldi sínu sem fylgiskjöl við færslu tekna. Í þriðja lagi var ákærði sóttur til saka fyrir að hafa brotið gegn tilgreindum ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með því að hafa vantalið á árunum 1990 til 1994 á virðisaukaskattskýrslum skattskylda veltu, að fjárhæð að minnsta kosti 149.021.817 krónur, og komist þannig hjá að greiða í ríkissjóð 36.510.344 krónur að frádregnum vantöldum innskatti árið 1994, að fjárhæð 627.767 krónur, alls 35.882.557 krónur.

Við úrlausn málsins var fjárhæð vantalinna skattstofna ákærða til tekjuskatts og útsvars í skattframtölum áranna 1990 til 1994 lækkuð í 28.578.979 krónur. Að öðru leyti var gengið út frá áðurgreindum fjárhæðum og ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru með dómi Hæstaréttar Íslands 12. júní 1997. Var honum auk fangelsisrefsingar gert að greiða 50.000.000 króna sekt í ríkissjóð.

II.

Rannsókn, sem að lokum leiddi til framangreindrar niðurstöðu, hafði hafist hjá skattrannsóknarstjóra 4. nóvember 1994 að ósk skattstjóra Vesturlandsumdæmis. Fóru starfsmenn skattrannsóknarstjóra á starfsstöð Þórðar Þórðarsonar og fengu afhent gögn vegna rekstrar Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar. Jafnframt var Þórði afhent bréf þar sem honum var tilkynnt að hann sætti skattrannsókn fyrir þau rekstrarár sem áður er til vísað.

Þegar þessir atburðir gerðust hafði Þórður rekið áminnsta bifreiðastöð sem einkafyrirtæki sitt um langa hríð. Var starfsemin aðallega fólgin í vöruflutningum milli Akraness og Reykjavíkur, útleigu á atvinnuhúsnæði á Akranesi og rekstri skipaafgreiðslu fyrir H/f Eimskipafélag Íslands og Samskip hf. Þá var ákærði umboðsmaður Eimskipafélagsins og annaðist flutninga fyrir fyrirtækið. Að jafnaði unnu átta til tíu manns hjá Þórði, en þeirra á meðal voru kona hans, Ester Teitsdóttir, og þrír synir þeirra. Vann eiginkonan á skrifstofunni ásamt Þórði en synirnir við akstur. Með stofnsamningi 27. desember 1993 höfðu þau sett á fót hlutafélagið Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar með 300.000 króna hlut Þórðar, en 25.000 króna hlut hvers hinna. Samkvæmt gögnum málsins var Þórður formaður stjórnar og kona hans meðstjórnandi. Félagið mun hafa verið skráð í hlutafélagaskrá í júlí 1994. Óumdeilt er að tilgangur félagsins var að taka við rekstri bifreiðastöðvarinnar. Það hafði þó ekki gerst þegar skattrannsóknin hófst.

Með kaupsamningi 3. mars 1995 seldu hjónin Þórður og Ester hlutafélaginu eftirfarandi fasteignir á Akranesi: Sunnubraut 3 fyrir 1.500.000 krónur, Vesturgötu 1 og 1A fyrir 10.000.000 krónur, Vesturgötu 2 fyrir 8.000.000 krónur, Vesturgötu 4 fyrir 1.000.000 krónur, Suðurgötu 93 fyrir 2.200.000 krónur, Esjubraut 49 fyrir 2.000.000 krónur, Kirkjubraut 16 fyrir 446.000 krónur, Kirkjubraut 17 fyrir 4.500.000 krónur, Dalbraut 6 fyrir 20.000.000 krónur og Vesturgötu 121 og 121A fyrir 6.100.000 krónur eða samtals 55.746.000 krónur. Jafnframt seldu þau hlutafélaginu hlutabréf í Vöruflutningamiðstöðinni hf. fyrir 7.710.500 krónur og í H.B. & Co hf. að nafnvirði 3.000.000 krónur fyrir 3.480.000 krónur. Einnig seldu þau félaginu bifreiðar og vagna fyrir 20.000.000 krónur. Eignirnar áttu að afhendast án kvaða og veðbanda, en upplýst er að í raun tók félagið að sér áhvílandi skuldir að fjárhæð 20.377.925 krónur. Fyrir þetta allt greiddi félagið með tveimur jafnháum skuldabréfum er skyldu greiðast með 20 afborgunum, með gjalddögum 1. febrúar ár hvert, í fyrsta sinn 1. febrúar 1997. Skuldabréfin voru verðtryggð samkvæmt lánskjaravísitölu miðað við grunnvísitölu febrúarmánaðar 1995 og báru 5% ársvexti frá 1. febrúar 1995. Vextir skyldu greiðast á gjalddögum. Kaupandi átti að taka við eignum og rekstri 1. febrúar 1995.

Um leið og þessi samningur var gerður var haldinn fundur í hlutafélaginu þar sem Þórður og Ester létu af stjórnarstörfum og við tóku synirnir, Þórður Þ. Þórðarson, Guðni Þórðarson og Ólafur Þórðarson. Stjórnarskiptin voru tilkynnt til hlutafélagaskrár í beinu framhaldi af fundinum og jafnframt var kynnt að hlutafélagið skyldi starfa eftir lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Jafnframt afhentu hjónin stjórnarmönnunum og öðrum  börnum sínum, Lilju Þóreyju, Teiti, Sigríði og Kristínu hluti sína í félaginu á nafnvirði að því er Þórður heldur fram. Hann var eftir sem áður framkvæmdastjóri félagsins.

Þórður Þórðarson gaf skýrslur hjá skattrannsóknarstjóra 19. janúar og 6. febrúar 1995 og Ester kona hans 24. janúar og 7. febrúar sama ár. Skattrannsóknarstjóri taldi rannsókn sinni lokið 2. mars 1995, en upplýst er að í framhaldi af því var skýrsla hans send Rannsóknarlögreglu ríkisins sem óskaði framhaldsrannsóknar og henni lauk 7. apríl sama ár. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að skýrslan hafi hvorki fyrr né síðar verið kynnt fyrirsvarsmönnum bifreiðastöðvarinnar og hafi þeir ekkert vitað um niðurstöðurnar, fyrr en með úrskurði ríkisskattstjóra 17. október 1995. Sá úrskurður hafi verið kærður til yfirskattanefndar 15. nóvember sama ár. Jafnframt hafi skuldabréfin, sem greidd voru fyrir eignirnar samkvæmt kaupsamningnum 3. mars 1995, verið boðin fjármálaráðuneytinu til lúkningar skattkröfum ásamt 20.000.000 króna viðbótargreiðslu gegn því að beðið væri með frekari innheimtu meðan málið væri til meðferðar hjá yfirskattanefnd. Málaleitan þessari hafi ekki verið svarað af hálfu ráðuneytisins. Bréfin munu síðan bæði hafa verið sett til tryggingar sektargreiðslu samkvæmt áðurnefndum hæstaréttardómi. Af hálfu aðaláfrýjanda er það upplýst að þau hafi síðar verið seld syni Þórðar fyrir 50.000 krónur við nauðungarsölu. Þrátt fyrir það er ómótmælt að þau séu enn til tryggingar sektargreiðslu og séu í skilum.

Með úrskurði 18. desember 1997 var bú Þórðar Þórðarsonar tekið til gjaldþrotaskipta og er frestdagur 9. sama mánaðar. Kröfulýsingarfresti lauk 20. mars 1998. Voru þá ekki aðrar eignir í búi hans en annað skuldabréfið samkvæmt samningnum 3. mars 1995. Hitt bréfið hafði Ester eiginkona hans fengið í sinn hlut enda töldu hjónin að þau hefðu átt bifreiðastöðina saman. Bústað þeirra Sóleyjargötu 18 á Akranesi hafði Teitur sonur þeirra keypt samkvæmt matsverði dómkvaddra matsmanna. Með óáfrýjuðum dómi Héraðsdóms Vesturlands 27. júlí 1999 í máli aðaláfrýjanda gegn Ester Teitsdóttur var afhendingu Þórðar á skuldabréfinu til hennar rift samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hún dæmd til að greiða búinu 10.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 18. október 1998 til greiðsludags. Var talið að eignirnar hefðu verið hjúskapareign Þórðar, en ekki í sameign þeirra hjóna, og að Ester hefði ekki síðar en að lokinni skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra mátt vera ljóst að fjárhagur eiginmanns hennar væri mjög valtur og að hann yrði krafinn greiðslu á mjög háum skattaskuldum auk þess að eiga yfir höfði sér sektardóm. Við þær aðstæður hefði hún hlotið að sjá að gjöf hans til hennar á helmingi fyrirtækisins hlyti að vera ótilhlýðileg og myndi leiða til þess að eignir hans yrðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Ómótmælt er að skuldir aðaláfrýjanda eru einungis skattaskuldir þrotamanns.

III.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 18. september 1998. Byggir hann kröfur sínar á 141. gr. laga nr. 21/1991 og 3. mgr. 142. gr. sömu laga. Heldur hann því fram að fyrirsvarsmönnum gagnáfrýjanda hafi mátt vera ljóst, þegar áðurgreindur kaupsamningur frá 3. mars 1995 var gerður, hvert horfði með skattrannsókn Þórðar Þórðarsonar og að hann myndi verða ógjaldfær í kjölfar endurálagningar skatta. Þá hafi þeir mátt sjá að kaupsamningurinn leiddi til þess með ótilhlýðilegum hætti að eignir Þórðar yrðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum við gjaldþrot hans sem væri óumflýjanlegt. Jafnframt er því haldið fram að umsamið kaupverð eigna samkvæmt samningnum hafi verið mun lægra en raunvirði þeirra. Loks hafi greiðslueyririnn verið óvenjulegur í slíkum kaupum og verðmæti hans mun minna en umsamið kaupverð.

Af hálfu gagnáfrýjanda er því mótmælt að stjórnarmenn einkahlutafélagsins hafi mátt gera sér grein fyrir afleiðingum skattrannsóknarinnar þegar kaupin voru gerð. Þá er því einnig mótmælt að verðlagning eigna fyrirtækisins samkvæmt kaupsamningnum  hafi verið óeðlileg á nokkurn máta. Því er haldið fram að verðlagning keyptra fasteigna hafi verið samkvæmt mati fasteignasölunnar Hákots á Akranesi. Verð hlutabréfa hafi verið í samræmi við bókfært verð. Samkomulag sé um það í máli þessu að virða bifreiðar, vagna og önnur tæki, svo sem gert sé í samningnum. Þá benda þeir á að auk þess sem segi í samningnum hafi gagnáfrýjandi tekið að sér yfir 20.000.000 króna skuldir.

IV.

Héraðsdómur í máli aðaláfrýjanda gegn Ester Teitsdóttur, eiginkonu Þórðar Þórðarsonar, taldi að með því að Ester var talin annar seljandi eigna samkvæmt kaupsamningi 3. mars 1995 og tók við öðru skuldabréfinu, sem fyrir þær fengust, hefði hún hlotið helming eignanna að gjöf frá Þórði. Rifti dómurinn þeim gerningi með vísan til 141 gr. gjaldþrotaskiptalaga. Dæmdi hann Ester til að endurgreiða gjaldþrotabúinu 10.000.000 krónur í bætur með vöxtum, svo sem að framan greinir. Upplýst er af hálfu gagnáfrýjanda að Ester sé í dag með öllu eignalaus. Auk þess ber hún ábyrgð á greiðslu skatta Þórðar í samræmi við 1. mgr. 114. gr. laga nr. 75/1981. Þykir eins og mál þetta liggur fyrir Hæstarétti verða að leggja dóm á það eins og Þórður hafi einn selt fyrirtækið til gagnáfrýjanda.

V.

Ljóst er að Þórður Þórðarson vissi eða mátti vita í síðasta lagi eftir að hann gaf skýrslur hjá skattrannsóknarstjóra 19. janúar og 6. febrúar 1995 að í kjölfar rannsóknarinnar yrðu skattar hans endurákvarðaðir og myndi það að minnsta kosti leiða til verulegrar hættu á ógjaldfærni hans. Þá er ljóst að hann, sem fyrir þennan kaupsamning var bæði stjórnarformaður og aðaleigandi hlutafélagsins, átti einnig af þess hálfu mestan þátt í undirbúningi flutnings eignanna til þess. Fallast má á það með héraðsdómi í máli aðaláfrýjanda gegn Ester Teitsdóttur að hún hafi eftir skýrslutökur hjá sama aðila 24. janúar og 7. febrúar 1995 mátt gera sér grein fyrir hinu sama, en hún var á þessum tíma stjórnarmaður í hlutafélaginu og var það allt fram til kaupa þess á eignunum. Fram er komið að synir þeirra hjóna, fyrirsvarsmenn gagnáfrýjanda samkvæmt kaupsamningnum, vissu af skattrannsókninni. Þegar til alls þessa er litið má ljóst vera að þeir, sem að kaupsamningnum stóðu 3. mars 1995, máttu vita að í óefni stefndi með rekstur bifreiðastöðvarinnar sem einkarekstur Þórðar Þórðarsonar.

VI.

Samkvæmt framanrituðu þykir niðurstaða málsins verða að fara eftir því hvort gagnáfrýjandi fékk með samningnum verðmæti á kostnað annarra, sem kröfur áttu á seljandann á þessum tíma. Af hálfu aðaláfrýjanda er talið að svo hafi verið og hafi tjónið numið samtals 26.670.325 krónum. Er því haldið fram fyrir Hæstarétti að tjónið eigi að reikna út frá markaðsverði þeirra eigna og reksturs, sem seldur var gagnáfrýjanda, en frá því eigi að draga markaðsvirði skuldabréfanna, sem notuð voru sem greiðslueyrir samkvæmt samningnum. Nánar er kröfufjárhæðin þannig reiknuð: Fasteignir samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, 76.334.000 krónur, að frádregnum áhvílandi skuldum, 20.377.925 krónum, hlutabréf í Vöruflutningamiðstöðinni hf. samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms í máli aðaláfrýjanda gegn Ester Teitsdóttur, 13.301.250 krónur, og hlutabréf í H.B. & Co hf. samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, 4.939.200 krónur, og loks lausafé samkvæmt samningnum sem ekki sé ágreiningur um að hafi verið að verðgildi 20.000.000 krónur. Frá þessu eigi að draga áðurgreind skuldabréf sem samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna hafi verið að verðgildi 67.526.200 krónur.

Af hálfu gagnáfrýjanda er því mótmælt að fyrirsvarsmönnum félagsins hafi mátt vera það ljóst á kaupdegi að kaupverð hins selda væri alltof lágt miðað við raunvirði þeirra. Er því haldið fram að á þeim tíma er kaupin gerðust hafi verið erfitt árferði í landinu og nokkur óvissa hafi ríkt um reksturinn vegna framkvæmda við göng undir Hvalfjörð, en gerð þeirra hafi síðar leitt til samdráttar í rekstri, sbr. framlögð gögn. Þá er bent á það að mat hinna dómkvöddu matsmanna byggi á markaðsstuðlum viðkomandi byggðarlags. Geti það gefið aðra niðurstöðu en mat sem byggist á verðmati tiltekinnar eignar. Þá fjalli kaupsamningurinn í raun um sölu fyrirtækis þar sem sami kaupandi kaupi allar rekstrareignir seljanda án tillits til þess hvort þörf var fyrir þær í rekstrinum. Hafi þar til dæmis verið um að ræða úrelt tæki sem ekki voru í notkun. Því er að lokum sérstaklega haldið fram að ársreikningur 1995, sem frammi liggur í málinu, réttlæti ekki hærra verð en greitt var fyrir eignirnar samkvæmt kaupsamningnum.

VII.

Ómótmælt er að til grundvallar ákvörðunar verðgildis fasteigna samkvæmt kaupsamningnum 3. mars 1995 lá mat fasteignasölunnar Hákots á Akranesi. Sá sem það vann hefur ekki komið fyrir dóm svo að spyrja mætti hann um forsendur mats hans. Fallast verður á það með gagnáfrýjanda að til grundvallar ákvörðunar verðs fasteignanna hafi orðið að leggja mat á markaðsvirði hverrar eignar fyrir sig, eins og það var á Akranesi þegar kaupsamningurinn var gerður. Síðan hafi þurft að taka tillit til þess að verið var að selja fyrirtæki í heild, sem var í rekstri, og að sumar eignanna, svo og hluti lausafjár, nýttust ekki í rekstrinum. Af gögnum málsins má ráða að stór hluti fasteignanna var í lélegu ástandi og verðlagning því annmörkum háð. Aðferð dómkvaddra matsmanna á mati fasteignanna þykir því ekki hafa verið einhlít. Hins vegar hefur matið stuðning af mati löggilts fasteignasala, sem aðaláfrýjandi fékk til að meta eignirnar, og því hefur ekki verið hnekkt með mati dómkvaddra yfirmatsmanna.  Þá er það viðurkennt af hálfu aðaláfrýjanda að draga megi frá 20.377.925 krónur vegna yfirtekinna skulda sem á fasteignunum hvíldu. Af þessu leiðir að fallast má á það með héraðsdómi að ósannað sé að fyrirsvarsmenn gagnáfrýjanda hafi mátt gera sér grein fyrir að verð fasteignanna samkvæmt samningnum væri óhæfilega lágt.

Aftur á móti verður að fallast á það með aðaláfrýjanda að rétt hefði verið við sölu hlutabréfa í Vöruflutningamiðstöðinni hf. að hafa hliðsjón af verði sem endurspeglaði viðskipti á þessum tíma með hlutabréf í fyrirtækinu, svo sem gert var í héraðsdómi í máli aðaláfrýjanda gegn Ester Teitsdóttur, eða 13.301.250 krónur. Einnig að miða hefði átt við markaðsverð hlutabréfa í H.B. & Co hf., 4.939.200 krónur. Hafi því ekki átt að taka mið af bókfærðu verði, svo sem gert var í kaupsamningnum, eða 7.710.500 krónum fyrir hlutabréf Vöruflutningamiðstöðvarinnar hf. og 3.480.000 krónum fyrir hlutabréf H.B. & Co hf. Ætla verður að fyrirsvarsmenn gagnáfrýjanda hafi mátt gera sér grein fyrir að bréfin væru lágt metin, en hér gat munað allt að 8.000.000 krónum milli bókfærðs verðs og þess verðs sem sannað þykir að fá mátti fyrir bréfin.

Aðaláfrýjandi hefur viðurkennt mat verðs lausafjár samkvæmt samningnum. Hann hefur ekki mótmælt þeirri staðhæfingu gagnáfrýjanda að hluti lausafjár hafi ekki gagnast rekstrinum.

Í kröfugerð sinni hefur aðaláfrýjandi byggt á því að verð skuldabréfanna, sem á móti komu, hafi verið réttilega metið af dómkvöddum matsmönnum á samtals 67.526.200 krónur. Héraðsdómur sem skipaður var sérfróðum meðdómendum bendir í þessu sambandi á að í matinu sé tekið tillit til fyllstu markaðskrafna.

VIII.

Þegar ákveða þarf hvort greiðslan fyrir eignirnar hafi verið óhæfilega lág verður það að byggjast á heildarmati á aðstæðum. Kemur þá til skoðunar, auk þess sem að framan greinir, að stefnt hafði verið að því um nokkurn tíma, áður en skattrannsókn hófst, að breyta rekstrinum yfir í hlutafélagaform. Langur tími leið frá gerð kaupsamningsins og til mats hinna dómkvöddu matsmanna og miklar breytingar höfðu orðið á markaðsaðstæðum á Akranesi, meðal annars við tilkomu jarðganga undir Hvalfjörð, en ætíð er hætt við að mat dragi dám af þeim tíma þegar það er gert, enda þótt miða eigi við eldri tíma. Fallast má á það með héraðsdómi að forsendur kaupsamningsins hafi hlotið að miða við markaðsaðstæður á Akranesi og efnahagsástand á þessum tíma og miða hafi mátt við áframhaldandi rekstur fyrirtækisins í heild.

Þótt litið sé á verðlagningu samkvæmt kaupsamningnum 3. mars 1995 með öll framangreind sjónarmið í huga verður ekki fram hjá því horft að það getur ekki hafa dulist fjölskyldunni að verðlagning eignanna var verulega lág. Þegar síðan er virt að skuldabréfin, sem fyrir eignirnar áttu að koma, voru án allrar tryggingar, voru til langs tíma og án ákvæða um gjaldfellingu, ber að fallast á það með aðaláfrýjanda að þeim hafi ekki mátt dyljast að yfirfærsla eignanna til einkahlutafélagsins var óhæfileg og myndi leiða til þess að eignirnar yrðu ekki til fullnustu skattakröfum þeim sem yfirvofandi var að yrðu lagðar á Þórð Þórðarson. Gerningur þeirra er því riftanlegur í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Þegar tjón aðaláfrýjanda samkvæmt 3. mgr. 142. gr. sömu laga er hins vegar metið verður að líta til allra áðurgreindra sjónarmiða. Telja má, þegar niðurstaða dómkvaddra matsmanna er virt í þessu ljósi, að áætlað tjón aðaláfrýjanda vegna kaupanna sé hæfilega metið að álitum 15.000.000 krónur. Ber gagnáfrýjanda að greiða aðaláfrýjanda þá fjárhæð að viðbættum dráttarvöxtum frá þingfestingu máls þessa í héraði. Er þá svo sem að framan greinir ekki tekið tillit til dóms um greiðslu bóta Esterar Teitsdóttur til aðaláfrýjanda.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., greiði aðaláfrýjanda, þrotabúi Þórðar Þórðarsonar, 15.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. október 1998 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 16. desember 1999.

Stefnandi þessa máls er þrotabú Þórðar Þórðarsonar, kt. 261130-2119. Stefnt er Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., kt. 480794-2069, Dalbraut 6 Akranesi.

Málið var höfðað með birtingu stefnu 18. september 1998. Það var þingfest 20. október sama ár. Samtímis höfðun þessa máls höfðaði stefnandi mál á hendur Ester Teitsdóttur, eiginkonu þrotamanns, Þórðar Þórðarsonar. Lauk því máli með dómi Héraðsdóms Vesturlands, upp kveðnum 27. júlí 1999 (mál nr. E-102/1998). Að beiðni stefnanda var þetta mál látið hvíla uns sá dómur lægi fyrir. Mál þetta var tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 19. nóvember sl.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

Rift verði með dómi þeirri ráðstöfun eigna sem gerð var með kaupsamningi stefndu og þrotamanns frá 3. mars 1995 um kaup stefndu á eignum þrotamannsins Þórðar Þórðarsonar og að stefndu verði gert að greiða stefnanda kr. 26.670.325; til vara að stefndu verði gert að greiða lægri bætur að mati dómsins.

Í báðum tilvikum er krafist dráttarvaxta frá 3. mars 1995 til greiðsludags, en verði ekki á þá dráttarvaxtakröfu fallist, er þess krafist að dómsfjárhæðin beri meðalvexti innlánsstofnana frá 3. mars 1995, en dráttarvexti 30 dögum eftir birtingu stefnu.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað skv. fram lögðu málskostnaðaryfirliti og að málskostnaðurinn beri dráttarvexti frá dómsuppsögu til greiðsludags skv. III. kafla laga nr. 25/1987.

 

Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara krefst stefnda þess að hún verði einungis dæmd til að greiða stefnanda verulega lægri fjárhæð en hann krefst og að málskostnaður verði felldur niður.

 

Málavextir.

Í stefnu er þeim lýst á þessa leið: Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands, uppkveðnum 18. desember 1997, var bú Þórðar Þórðarsonar, kt. 261130-2119, til heimilis á Sóleyjargötu 18 Akranesi, tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri var skipaður sama dag sækjandi þessa máls, Sveinn Andri Sveinsson hrl. Frestdagur var 9. desember 1997.

Þá segir í stefnu að Þórður Þórðarson hafi verið eigandi og rekstraraðili Bifreiðarstöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar. Hann hafi rekið fyrirtækið sem einstaklingsfyrirtæki frá því að hann hafi yfirtekið reksturinn af föður sínum á áttunda áratuginum. Hafi bifreiðastöðin lengi verið í umsvifamiklum rekstri í vöruflutningum til Akraness og frá því, en auk þess hafi fyrirtækið leigt út atvinnuhúsnæði á Akranesi, rekið skipaafgreiðslu fyrir Eimskipafélag Íslands og Samskip og annast flutninga fyrir fyrrnefnda fyrirtækið.

Í nóvember 1994 hafi hafist rannsókn skattrannsóknastjóra ríkisins á bókhaldi Bifreiðastöðvar ÞÞÞ. Henni hafi lokið með skýrslu embættisins 2. mars 1995. Samkvæmt henni hafi vantalin velta Þórðar Þ. Þórðarsonar á árunum 1989-1994 numið kr. 150.473.616, en vantalinn virðisaukaskattur fyrir árabilið 1990-1994 hafi numið kr. 36.866.034.

Í desember 1993 hafi verið stofnað einkahlutfélagið Bifreiðastöð ÞÞÞ, og það hafi verið skráð í júlí 1994. Í mars [3. mars] 1995 hafi Þórður selt einkahlutafélagi þessu þær eignir sem tilheyrt hafi einkafirmanu. Fasteignir Þórðar, 10 að tölu, hafi verið seldar á kr. 55.746.000; hlutabréf í Vöruflutningamiðstöðinni hf. á kr. 7.710.500; hlutabréf í Haraldi Böðvarssyni hf á kr. 3.480.000 og bifreiðar og vagnar á kr. 20.000.000. Samanlagt söluverð hafi verið kr. 86.936.500. Ekkert hafi verið greitt fyrir viðskiptavild.

Enn segir í stefnu að kaupverð fyrirtækisins hafi verið greitt með tveimur jafnháum skuldabréfum til 22ja ára, hvoru að fjárhæð (nafnvirði) kr. 43.468.250. Af bréfum þessum skuli greiða einu sinni á ári og fylgi skuldin lánskjaravísitölu eins og hún var í febrúar 1995. Höfuðstóll skuldarinnar skuli reiknaður út á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborganir eru reiknuð út. Hver afborgun skuli þannig út reiknuð: Fyrst skal höfuðstóll reiknaður út, en síðan deilt í útkomuna með þeim fjölda afborgana sem eftir eru.  Vextir samkv. bréfunum eru 5% og reiknast frá 1. febrúar 1995. Bréfin séu án allra trygginga, og engin gjaldfellingarákvæði séu í þeim.

Samkvæmt upplýsingum þrotamanns hafi kaupverðið verið grundvallað á mati fasteignasölu, Hákots á Akranesi, að því er tók til fasteigna, en aðrar eignir hafi verið keyptar á bókfærðu verði.

Annað ofangreindra skuldabréfa var í eigu Þórðar, þrotamanns, en hitt í eigu eiginkonu hans, Esterar Teitsdóttur. Var svo litið á, að sögn þrotamanns að þau væru sameigendur fyritækisins. Samhliða stefnu þessa máls stefndi stefnandi Ester Teitsdóttur til að þola riftun á gjafagerningi þeim er fólst í afsali Þórðar á helmingi fyrirtækisins til hennar. Málið var nr. E-102/1998, og féll dómur í því 27. júlí 1999. Var fallist á kröfu stefnanda um riftun skv. 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga og stefnda dæmd  til að greiða stefnanda kr. 10.000.000 í bætur skv. 142. gr. sömu laga.

 

Í greinargerð stefndu segir um málavexti stefnda, einkahlutafélagið, hafi verið stofnuð hinn 27. desember 1993  í því skyni að taka yfir flutningafyrirtæki  Þórðar Þórðarsonar, sem hafi verið rekið af honum og eiginkonu hans um margra ára skeið. Stefnda hafi þó ekki verið tilkynnt til Hlutafélagaskrár fyrr en í júlí 1994 og ekki tekið til starfa fyrr en í febrúar 1995. Þá hafi verið ákveðið að börn þeirra Esterar og Þórðar tækju yfir hlutafélagið og að félagið keypti rekstur einkafyrirtækisins og þær eignir sem notaðar hefðu verið við reksturinn. Kaupsamningur hafi verið gerður 3. mars 1995.

Til viðmiðunar á kaupverði hins selda hafi aðiljar fengið fasteignasöluna Hákot á Akranesi til að áætla söluverð fasteigna. Hlutabréf, bifreiðar og tæki hafi verið seld á bókfærðu verði. Til viðbótar kaupverði, kr. 86.936.500, hafi kaupandi tekið að sér greiðslu skulda, sem hvílt hafi með veði á hinum seldu eignum, að fjárhæð kr. 20.377.925.

 

Um matsgerð og bótakröfu stefnanda. Stefnandi byggir bótakröfur sínar á matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna, dags. 4. febrúar 1999. Í matsbeiðni var beðið um að eftirfarandi yrði metið:

1. Peningalegt verðmæti fasteigna, lausafjár, og hlutabréfa áður í eigu Þórðar Þ. Þórðarsonar, samkvæmt meðfylgjandi eignalista, miðað við 3. mars 1995 og miðað við matsdag.

2. Peningalegt verðmæti rekstrar Bifreiðastöðvar ÞÞÞ, kt. 261130-2119, miðað við 31. desember 1994.

3. Peningalegt verðmæti tveggja verðtryggðra skuldabréfa að nafnvirði kr. 43.468.250 hvort, miðað við 3. mars 1995.

Á dómþingi dómkvaðningar, 28. október 1998, kom fram að aðiljar voru sammála um, að við framkæmd matsins yrði sleppt að meta það lausafé, sem beðið var um mat á í matsbeiðni.

Niðurstöður matsmanna, Einars S. Hálfdánarsonar og Sigurðar Tómassonar löggiltra endurskoðenda, um verðmæti þeirra eigna, sem þeir voru beðnir að meta, urðu þessar, annars vegar miðaðar við 3. mars 1995, en hins vegar við matsdag, eftir því sem við á:

 

 

Á matsdegi            

3. mars 1995

Fasteignir

87.384.000

76.334.000

Hlutabréf í Vöruflutningamiðstöðinn hf. (nafnv.kr. 8.867.500)

 

19.077.800

Hlutabréf í Haraldi Böðvarssyni hf. (nafnv. kr. 3.000.000)

 

4.939.200

Mat á skuldabréfi að fjárhæð kr. 43.468.250

33.415.600  

33.763.100

Mat á skuldabréfi að fjárhæð kr. 43.468.250

33.415.600

33.763.100

 

 

 

 

 

Um matslið nr. 2 í matsbeiðni komast matsmenn að þeirri niðurstöðu, að “verður ekki talið að neitt peningalegt verðmæti felist í því sem metið er í þessum matslið”.

Í matsgerð kemur fram að matsmenn voru um það beðnir af aðiljum á matsfundi að þeir staðfestu stöðu áhvílandi lána á yfirtökudegi (1. febrúar 1995). Matsmenn taka fram að ekki hafi verið um það beðið að þeir mætu verðmæti þessara yfirteknu lána. Samkvæmt yfirliti þeirra námu áhvílandi lán á yfirtökudegi kr. 20.377.925.

 

 

 

Málsástæður aðilja og lagarök.

Í stefnu segir að riftunarkrafa stefnanda sé byggð á eftirfarandi forsendum:

“a) Fyrirsvarsmönnum stefnda þessa máls, þegar kaupsamningur var gerður, var eða mátti vera fullkunnugt um hvert horfði með skattrannsókn föður þeirra, Þórðar Þórðarsonar og að hann yrði ógjaldfær í kjölfar endurálagningar skatta, en niðurstöður Skattrannsóknarstjóra ríkisins lágu fyrir með formlegum hætti einum degi fyrir undirritun samningsins.

b) Enn frekar máttu fyrirsvarsmenn stefnda gera sér grein fyrir að kaupsamningurinn frá 3. mars 1995 leiddi til þess með ótilhlýðilegum hætti að eignir Þórðar yrðu ekki til fullnustu kröfuhöfum, þar sem gjaldþrot hans væri yfirvofandi og óumflýjanlegt í kjölfar samningsins.

c) Það verð sem samið var um í kaupsamningnum frá 3. mars 1995 fyrir eignir Þórðar Þ. [svo] Þórðarsonar var alltof lágt miðað við raunvirði, . . . .

d) Greiðslueyrir var í meira lagi óvenjulegur. Engin peningagreiðsla hafi verið innt af hendi, heldur hafi kaupverðið allt verið greitt með afhendingu skuldabréfa til 22 ára með engum tryggingum og engri gjaldfellingarheimild. Var verðmæti þeirrar greiðslu sem innt var af hendi þannig mun minna en umsamið kaupverð . . .

f) Ekkert hafi verið greitt fyrir viðskiptavild fyrirtækisins.”

Í dómskjali um breytta kröfugerð stefnanda, sem lagt var fram 19. október 1999, segir að kröfufjárhæð sé þannig fengin, að aðalkrafa sé mismunur á raunvirði Bifreiðastöðvar ÞÞÞ samkvæmt niðurstöðu matsmanna og raunvirðis þeirra bréfa sem látin voru sem endurgjald fyrir hið selda fyrirtæki, sbr. verðmat:

Fasteignir

76.334.000(Niðurstaða matsmanna)

Vöruflutningamiðstöðin hf.

13.301.250(Niðurstaða í E-102/1998)

Haraldur Böðvarsson hf.

4.939.200(Niðurstaða matsmanna)

Lausafé

20.000.000(Ekki ágreiningur)

Áhvílandi

(20.377.925)(Niðurstaða matsmanna)

Afhent skuldabréf

(67.526.200)(Niðurstaða matsmanna)

Samtals

26.670.325                                     

 

Um lagarök segir í stefnu að riftunarkrafan sé byggð á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrot  o. fl., sbr. 142. gr. sömu laga. Um dráttarvaxtakröfu er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá segir og að málið sé höfðað fyrir Héraðsdómi Vesturlands  með vísan til 32. gr. laga 91/1991.

 

Í greinargerð stefndu er málsástæðum stefnanda mótmælt í sömu stafrófsröð og þær eru skráðar í stefnu, þannig:

a) Þessari málsástæðu stefnanda mótmælir stefnda sem rangri og ósannaðri. Fyrir liggi að aðdragandi kaupanna hafi verið langur, og hafi þau ekki að neinu leyti verið gerð vegna hinnar tilgreindu skattrannsóknar eða í því skyni að skjóta eignum undan hugsanlegu gjaldþroti. Hin tilgreinda skattrannsókn hafi hafist um ári eftir stofnun félagsins, eða 4. nóvember 1994. Þó að fyrri hluta rannsóknar Skattrannsóknarstjóra kunni að hafa lokið 2. mars 1995, hafi skýrsla hans aldrei, hvorki fyrr né síðar, verið kynnt fyrirsvarsmönnum stefndu. Hún hafi heldur ekki verið kynnt skattaðilja, heldur hafi hún verið send Rannsóknarlögreglu ríkisins til rannsóknar með bréfi, dags. 8. mars 1995.

b) Þessari málsástæðu stefnanda mótmælir stefnda einnig sem rangri og ósannaðari. Á þeim tíma er kaupsamningurinn var gerður, hafi ekkert legið fyrir sem bent hafi til þess að yfirvofandi væri gjaldþrot hjá Þórði. Leitast hafi verið við að fá sem réttast mat á verðmæti fyrirtækisins, og sölu þess hafi aldrei verið haldið leyndri.

c) Um málsástæðu stefnanda undir þessum staflið segir þetta í greinargerð stefndu:

“Ljóst er af upphaflegri stefnu að stefnandi hefur ofmetið heildarverðmæti hins selda. Samkvæmt stefnu mat hann raunvirði hins selda kr. 149.486.233, en samkvæmt niðurstöðu dóms Héraðsdóms Vesturlands í málinu nr. E-102/1998 taldi dómurinn að heildarverðmæti hins selda á kaupsamningsdegi hefði verið kr. 94.196.525, eða 10,8% hærra en tilgreint kaupverð samkvæmt kaupsamningi. Ljóst er að verðmæti hins selda ræðst fyrst og fremst samkvæmt fyrirliggjandi mati dómkvaddra matsmanna af  verðmæti fasteigna. Fyrirliggjandi möt á verðmæti þeirra bera það með sér  að mjög erfitt hefur verið að ákvarða verð þeirra. Þá hefur stefndi talið að meta hefði átt verðmæti hins selda á sömu forsendum og kaupin voru miðuð við þ.e. áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Er því mótmælt að svo mikið beri á milli heildarverðs samkvæmt dómi og umsamins kaupverðs að kaupverðið teljist hafa verið ótilhlýðilegt.”

d) Málsástæður stefnanda undir þessum staflið mótmælir stefnda sem órökstuddri. Algengt hafi verið og sé enn í viðskiptum um fasteignir og fyrirtæki, að seljandi láni kaupverð hins selda að hluta eða öllu leyti. Í kröfugerð og fyrirliggjandi matsgerð dómkvaddra matsmanna sé verðmæti skuldabréfa, útgefinna vegna kaupanna, lækkað miðað við tiltekna ávöxtunarkröfu, án þess að fyrir liggi upplýsingar um að að stefnandi eða ríkissjóður hafi orðið fyrir raunverulegu tjóni miðað við ávöxtunarkröfu hins opinbera. Í þessu sambandi bendir stefnda á að vextir þeir sem ríkið hefur greitt vegna lántöku sinnar hafi verið mun lægri en þeir sem hinir dómkvöddu matsmenn miði við. Stefnda mótmælir því sem ósönnuðu að þrotabúið eða ríkissjóður hafi orðið fyrir tjóni vegna lágra vaxta og verðbótaákvæða skuldabréfanna. Ekki sé ráð fyrir því gert í 142. gr. laga nr. 21/1991, að stefnandi eða ríkissjóður hagnist á kostnað stefndu. Stefnda mótmælir því að verðmæti skuldabréfanna sé byggt á ávöxtunarkröfu lánastofnana, eins gert sé í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Hún bendir á að skuldabréfin hafi verið afhent innheimtumanni ríkisins til tryggingar, þegar álagning lá fyrir, og að honum og Fjármálaráðuneytinu hafi þegar í nóvember 1995 verið kunnugt um söluverð hins selda og greiðslueyri þess. Engin tilraun hafi þó verið gerð til að rifta þessum viðskiptum fyrr en með stefnu í máli þessu 18. september 1998, og greiðslur af bréfunum áður en til uppboðs á þeim kom, hafi runnið beint til innheimtumanns ríkissjóðs.

Af hálfu stefndu er því mótmælt að matsgerð dómkvaddra matsmanna gefi rétta mynd af raunverulegu andvirði hins selda fyrirtækis hinn 3. mars 1995. Forsendur kaupsamningsins hljóti að hafa verið miðaðar við markaðsaðstæður og efnahagsástand, miðað við áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Ef litið er til rekstrarreiknings Bifreiðastöðvarinnar fyrir árið 1995, sem fram hefur verið lagður, sjáist að arðsemi af rekstri félagsins sé algörlega óviðunandi, ef miðað er við það verð sem stefnandi heldur fram að eigi að vera raunverulegt verð. Mat á einstökum eignum geti ekki varpað ljósi á það hvort söluverð hafi verið eðlilegt eða ekki.  Verði eigi að síður litið svo á að matsgerðin hafi þýðingu að þessu leyti, bendir stefnda á að á eignum þeim sem keyptar voru, hafi hvílt skuldir að fjárhæð kr. 20.377.925, sem hljóti að koma til frádráttar heildarverðmæti fyrirtækisins, eins og dæmt hafi verið í Héraðsdómi Vesturlands í málinu nr. E-102/1998.

 

Verði aðalkrafa stefndu ekki tekin til greina, segir í greinargerð stefndu, er þess krafist að verðmæti hins selda á söludegi verði ákveðið eins og segir í framangreindum dómi Héraðsdóms Vesturlands, eða kr. 114.574.450. Til frádráttar kom yfirteknar áhvílandi veðskuldir, kr. 20.377.925, og andvirði útgefinna veðskuldabréfa skv. matsgerð, kr. 67.526.200. Mismunur á heildarverðmæti og greiðslum nemi því kr. 26.670.325. Samkv. tilvitnuðum dómi Héraðsdóms Vesturlands hafi þegar verið dæmt um bótakröfu stefnanda á helmingi kröfunnar. Krafa í þessu máli geti því aldrei numið hærri fjárhæð en kr. 13.335.162. Stefnda krefst þess að krafa þessi verði lækkuð með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991.

Stefnda mótmælir upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Skýrslur fyrir dómi:  Þórður Þorsteinsson Þórðarson (Þórður yngri), stjórnarformaður stefndu, og Guðni Þórðarson stjórnarmaður, gáfu aðiljaskýrslur. Vitni báru Þórður Þórðarson (Þórður eldri, þrotamaður) og Konráð Konráðsson löggiltur endurskoðandi, fyrrum starfsmaður Skattrannsóknarstjóra.

Stjórnarmenn stefndu voru spurðir hvort samningur um kaup hefði komist að einhverju leyti á fyrr en skriflegur samningur var undirritaður 3. mars 1995; hvort komist hefði á munnlegur samningur áður en hinn skriflegi var gerður. Stjórnarformaður svaraði því til að samkomulag hefði verið um að kalla til fasteignasala “til að meta allar eignir”. Fyrirtækið hefði verið stofnað miklu fyrr. Undirbúningur hefði verið með töluverðum aðdraganda. Munnlegur samningur hefði bara verið um það að fengnir yrðu til aðiljar að meta hlutina. Frá samningi hefði svo verið gengið 3. mars 1995. Stjórnarmaðurinn Guðni mundi ekkert um þessi atriði.

Stjórnarmenn voru spurðir hvenær stefnda hefði yfirtekið rekstur bifreiðastöðvarinnar. Það mundi stjórnarmaðurinn Guðni ekki, en stjórnarformaðurinn Þórður (yngri) mundi þetta óglöggt, en sagði að það hefði getað verið nálægt 1994-1995.

Stjórnarformaðurinn og stjórnarmaðurinn Guðni mundu hvorugur aðspurðir hvenær fram hefði farið yfirfærsla á hlutafé Þórðar Þórðarsonar (eldra) og eiginkonu hans, Esterar Teitsdóttur, til barna þeirra. Stjórnarformaður kvaðst ekki muna hvort þetta gerðist fyrir eða eftir að stefnda keypti allar eignirnar. Hann mundi heldur ekki hvort yfirfærslan hefði farið fram fyrir hluthafafund sem haldinn var sama dag og kaupsamningur var undirritaður, 3. mars 1995, eða hún hefði farið fram á þeim fundi.

Stjórnarmenn voru spurðir um vitneskju sína um rannsókn Skattrannsóknastjóra ríkisins á bókhaldi Bifreiðarstöðvar ÞÞÞ, sem hófst í nóvember 1994. Hvorugur stjórnarmanna kvaðst hafa vitað neitt um þá rannsókn. Stjórnarformaður kvaðst ekki hafa vitað “neitt annað en þetta væri í fínasta lagi”. “Ég vissi bara að það komu þarna menn og tóku einhver blöð og búið.”  “Við vissum ekki annað en allt bókhald væri í höndum bókhaldara og bókhaldsstofu og allir hlutir í lagi.” Hann neitaði því aðspurður að Þórður Þórðarson (eldri) hefði greint honum frá vitneskju sinni um rannsóknina. Hann hefði ekki fengið neinar efnislegar upplýsingar um rannsókn þessa nema úr útvarpi og blöðum. Stjórnarmaðurinn Guðni kvaðst aldrei hafa vitað neitt um þessi mál nema það sem komið hefði fram í fjölmiðlum.

 

Vitnið Þórður Þórðarson (eldri) var spurður út frá skýrslu Skattrannsóknastjóra ríkisins um fjárreiður fyrirtækis síns. Hluti þeirrar skýrslu liggur frammi í málinu, og ber hún með sér að rannsókn hafi lokið 2. mars 1995, en skýrslur voru teknar af Þórði 19. janúar og 6. febrúar sama ár. Í skýrslunni kemur fram sú niðurstaða Skattrannsóknastjóra að vantaldar tekjur Bifreiðastöðvar ÞÞÞ rekstrarárin 1989 til og með ágúst 1994 hafi numið kr. 157.230.570, og að skattaðilja, Þórði Þórðarsyni hafi verið kynnt þessi niðurstaða.  Út frá þessu var vitnið Þórður  spurður fyrir dóminum hvort hann hefði, þegar honum var kynnt þessi niðurstaða gert sér grein fyrir því að hann stefndi í gjaldþrot. Vitnið kvaðst ekki hafa gert sér eina einustu grein fyrir því og hann hefði síst átt von á því. Vitnið Þórður var þá spurður hvort hann hefði kynnt niðurstöður Skattrannsóknastjóra fyrir öðrum mönnum í fjölskyldu sinni. Hann kvaðst ekki hafa kynnt þetta fyrir nokkrum einasta manni.

Vitnið Þórður Þórðarson var spurður hvort samkomulag um verð og greiðsluhætti hefði legið fyrir áður en skriflegur kaupsamningur var gerður 3. mars 1995; hvort kominn hefði verið á munnlegur samningur. Vitnið svaraði: “Það var búið að ganga frá þessu löngu áður, það bara dróst að ganga frá þessu.”

Vitnið kvaðst ekki hafa verið framkvæmdastjóri stefndu eftir að hún yfirtók rekstur bifreiðastöðvarinnar og hann hefði ekki starfað þar áfram, en “ég hef verið kringum fyrirtækið, en ekki starfsmaður þess”. Nánar aðspurður kvaðst hann ekki muna hvenær hann hefði hætt störfum hjá fyrirtækinu, en kvaðst ætla að það hefði verið um það leyti sem kaupsamningur var gerður.

Vitnið var þá spurt hvort eignasalan og yfirfærsla á hlutafé hans til barna hans hefði gerst á sama tíma. Vitnið svaraði að það hefði verið búið að ræða þetta löngu áður. “Ég man það bara ekki nákvæmlega.” Nánar spurt um þetta sagði vitnið að yfirfærslan hefði verið í kringum 1994.

Vitnið neitaði því aðpurt að viðsemjendum hans við kaupin hefði í nokkru verið greint frá því hvernig fjármál vitnisins stóðu.

 

Vitnið Konráð Konráðsson, löggiltur endurskoðandi, vann ásamt öðrum að þeirri skýrslu Skattrannsóknastjóra, sem að hluta til liggur frammi í málinu. Hann var spurður hvort hann teldi að menn í fyrirtæki skattaðiljans hefðu almennt orðið varir við að rannsókn væri í gangi. Hann kvaðst halda að menn hlytu að hafa orðið varir við það. Hann greindi frá því að hann hefði við þriðja mann komið á skrifstofu bifreiðastöðvarinnar á Akranesi. Þar hefði verið fyrir eiginkona Þórðar Þórðarsonar (eldra) og einhver starfsmaður sem hann vissi ekki deili á. “Einhverjir vissu af þessu, en ég get ekki sagt hve mikið menn vissu.”

Vitnið bar að einkahlutafélagið, stefnda, hefði ekki verið búið að taka við rekstri fyrirtækisins, þegar rannsókn hófst, en sig minnti að yfirtakan hefði orðið um áramót 1994-95.

Vitnið Konráð kannaðist við, þegar það var undir hann borið, að skýrsla Skattrannsóknastjóra, sem ber með sér að rannsókna hafi lokið 2. mars 1995, hafi verið send Rannsóknarlögreglu ríkisins með bréfi 8. sama mánaðar. RLR hafi síðan farið fram á framhaldsrannsókn Skattrannsóknastjóra,  og þeirri rannsókn hafi lokið 7. apríl sama ár.

 

Niðurstöður.

Úrslit þessa máls velta á tvenns konar mati: annars vegar því hvert var fjárhagslegt virði þeirra eigna sem Þórður Þórðarson, þrotamaður, seldi stefndu, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., og hins vegar því hvert var fjárhagslegt virði greiðslunnar sem fyrir þessar eignir kom.

 

Fasteignir voru bróðurpartur þeirra eigna sem seldar voru. Söluverð þeirra var kr. 55.746.000. Samningaðiljar fengu óháðan aðilja, fasteignasala á Akranesi, til þess að meta fasteignirnar til verðs. Kaupverðið var samkvæmt því mati. Ósannað er að fyrirsvarsmenn stefndu hafi séð eða mátt mátt gera sér grein fyrir að það verð væri lægra en eðlilegt eða sanngjarnt gæti talist. Að mati dómenda hefur stefnda fært fram líkur fyrir því að kaupverðið hafi ekki verið fjarri markaðsverði. Hann hefur í máli þessu lagt fram kaupsamning um sölu fasteignar á Akranesi, dags. 28. desember 1998. Samkv. honum selur Landsbanki Íslands tveimur mönnum iðnaðarhúsnæði að fasteignamatsverði kr. 30.823.000. Kaupverðið var kr. 6.000.000. Til samanburðar bendir stefnda á að ein fasteignin sem seld var með kaupsamningnum 3. mars 1995 hafi verið fasteignin Vesturgötu 121 og 121a. Fasteignamatsverð hennar hafi verið kr. 30.090.000, en kaupverðið kr. 6.100.000. Matsverð dómkvaddra matsmanna hafi hins vegar verð kr. 15.631.000. Samanburður þessi er því til styrktar að fyrirsvarsmenn stefndu hafi verið í góðri trú um það að kaupverð fasteignanna væri eðlilegt og sanngjarnt.

Meðal hins selda voru bifreiðar og vagnar og fleira lausafé, sem selt var á kr. 20.000.000. Um þessa fjárhæð er ekki ágreiningur.

Þá er enn að telja að seld voru hlutabréf í tveimur hlutafélögum, Vöruflutningamiðstöðinni hf. og Haraldi Böðvarssyni hf. Söluverð hlutabréfanna í Vöruflutningamiðstöðinni hf. var kr. 7.710.500. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands í málinu nr. E-102/1998, þrotabú Þórðar Þórðarsonar gegn Ester Teitsdóttur, var markaðsverð bréfa þessara mun hærra, eða kr. 13.301.250, og munar hér kr. 5.590.750. Hlutabréf Vöruflutningamiðstöðvarinnar gengu ekki kaupum og sölu á opnum verðbréfamarkaði, og telja dómendur að ósannað sé að fyrirsvarsmenn stefndu hafi mátt gera sér grein fyrir að söluverðið samkv. samningnum frá 3. mars 1995 hafi verið óeðlilega lágt. Öðru máli gegnir um hlutabréfin í Haraldi Böðvarssyni hf. Auðvelt var að fá upplýsingar um markaðsverð þeirra bréfa. Söluverð þeirra var kr. 3.480.000, en markaðsverð var skv. fyrrnefndum héraðsdómi í málinu nr. E-102/1998, kr. 4.939.200, og munar hér kr. 1.459.200. Það er mat dómenda að verðmunur þessi hafi ekki ráðið úrslitum um ógjaldfærni þrotamanns, Þórðar Þórðarsonar, enda verði að teljast ólíklegt að fyrirsvarsmenn stefndu hafi mátt ætla að verðmunurinn hefði ráðið þar einhverju um,  þótt þeim hefði verið ljóst að skuldastaða Þórðar væri svo erfið að í gjaldþrot stefndi.

 

 Fyrir hinar seldu eignir var greitt með tveimur skuldabréfum. Nafnverð þeirra var samtals kr. 86.936.500, en raunvirði á kaupsamningsdegi skv. mati dómkvaddra matsmanna og dómi Hérðasdóms Vesturlands í málinu nr. E-102/1998, var kr. 67.526.200. Er í því mati tekið tillit til fyllstu markaðskrafna um ávöxtun. Munur á nafnvirði og raunvirði er kr. 19.410.300.

Þegar virt er hvort greiðslan fyrir eignirnar hafi verið sanngjörn eða eðlileg, ber á það að líta að upplýst er, að við yfirtöku hinna seldu eigna, tók stefnda á sig skuldir, sem á þeim hvíldu, að fjárhæð kr. 20.377.925. Í endanlegri kröfugerð sinni hefur stefnandi tekið tillit til þessarar fjárhæðar. Þessara áhvílandi skulda er ekki getið í hinum skriflega kaupsamningi, en líta verður svo að samningur um yfirtöku þeirra sé hluti hans. Álitamál er hvernig meta skal yfirtökuna, en dómendur telja nærlægast að líta svo á að yfirtaka þessara skulda hafi verið hluti greiðslunnar sem kom fyrir eignir Þórðar Þórðarsonar, þrotamanns. Dómendur fallast á þá málsástæðu stefndu, að forsendur kaupsamningsins hljóti að hafa verið miðaðar við markaðsaðstæður og efnahagsástand, miðað við áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Það er niðurstaða dómenda að stefnandi hafi ekki sannað að miðað við rekstraraðstæður hafi greiðslan sem fyrir eignirnar kom verið of lág.

Samkvæmt því sem hér hefur verið saman dregið verður niðurstaða dómenda í máli þessu sú að ekki séu til þess lagaskilyrði samkv. 141. gr. gjaldþrotakiptalaga nr. 21/1991 að rifta þeirri ráðstöfun eigna sem gerð var með kaupsamningi Þórðar Þórðarsonar, þrotamanns, og stefndu, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., 3. mars 1995. Verður því stefnda sýknuð af kröfum stefnanda um riftun og greiðslu bóta skv. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Dóm þennan kveða upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómendurnir Guðmundur R. Óskarsson og Stefán Svavarsson löggiltir endurskoðendur.

 

Málskostnaður.

Dómendur telja málsatvik með þeim hætti  að rétt sé með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að málskostnaður falli niður.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Þrotabús Þórðar Þórðarsonar,  í máli þessu.

Málkostnaður fellur niður.