Hæstiréttur íslands
Mál nr. 350/2009
Lykilorð
- Hlutafélag
- Hlutabréf
- Aðild
- Jafnræði
- Skaðabætur
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2010. |
|
|
Nr. 350/2009. |
Vilhjálmur Bjarnason Hulda Guðný Vilhjálmsdóttir og Kristín Martha Vilhjálmsdóttir (Guðni Á. Haraldsson hrl. Þórarinn V. Þórarinsson hdl.) gegn Björgólfi Thor BjörgólfssyniBirgi Má Ragnarssyni Guðmundi KristjánssyniFriðriki Hallbirni Karlssyni og James Leitner (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Hlutafélög. Hlutabréf. Aðild. Jafnræði. Skaðabætur.
V, H og K voru hluthafar í fjárfestingarbankanum S 17. ágúst 2007 þegar stór hluti í bankanum var seldur til óþekkts aðila að talið var fyrir 18,60 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs. Hlutaféð hafði verið í eigu bankans sjálfs. Meðalverð í viðskiptum í kauphöllinni þennan dag var 19,17 krónur. B o.fl. sátu í stjórn bankans á þessum tíma. V, H og K höfðuðu mál á hendur B o.fl. og kröfðust þess að þeim yrði í sameiningu gert að greiða þeim samtals 31.461 krónu ásamt vöxtum. Töldu þau að stjórn félagsins bæri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hún hefði valdið hluthöfum. V, H og K báru því við að stjórn félagsins hefði verið óheimilt að selja svo stóran hlut undir markaðsverði á þeim degi er kaupin voru gerð. Salan hefði rýrt verðmæti félagsins og stjórnin hefði átt að geta selt hlutinn að minnsta kosti á meðalgengi dagsins. B o.fl. hefði borið að gæta hagsmuna félagsins og sjá til þess að það seldi eignir sínar fyrir sem hæst verð hverju sinni. Þá töldu þau að stjórnarmönnum hefði verið óheimilt að mismuna hluthöfum með því að selja einum þeirra hluti á mun lægra verði en aðrir gátu keypt hluti á þennan dag. Talið var að V, H og K hefðu ekki sýnt fram á tjón sitt vegna umræddrar sölu. Þá gæti niðurstaðan heldur ekki byggst á þeirri málsástæðu þeirra að umrædd sala hefði verið óþörf. Stjórnendur félag tækju ákvarðanir um fjárhagslegar ráðstafanir og dómstólar gætu ekki fjallað um hvort þær hefðu verið nauðsynlegar eða ekki. Í málinu gæti því aðeins reynt á hvort með þeim hefði verið brotið ólöglega gegn réttindum annarra. V, H og K þóttu ekki hafa sýnt fram á að raunhæft hefði verið að fá verulega hærra verð fyrir bréfin en fékkst. Þá hefðu þau ekki sannað að tilboð um kaup á svo miklu hlutafé hefðu verið virk í kauphöllinni á þessum tíma. Því væri ekki sannað að réttindum félagsins hefði verið ráðstafað á óréttmætan hátt. Ennfremur var talið að stjórnendum félagsins hefði ekki verið skylt að bjóða hluthöfum að ganga inn í umræddan samning þar sem slíkur áskilnaður væri hvorki í hlutafélagalögum né samþykktum félagsins. Með þessari sölu hefði hluthöfum félagsins því ekki verið mismunað. Voru B o.fl. sýknaðir af kröfum V, H og K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. júní 2009 að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjandinn Vilhjálmur Bjarnason krefst þess að stefndu verði gert í sameiningu að greiða sér 12.891 krónu og áfrýjendurnir Hulda Guðný Vilhjálmsdóttir og Kristín Martha Vilhjálmsdóttir krefjast á sama hátt hvor fyrir sig að stefndu verði gert að greiða sér 9.285 krónur, en öll krefjast áfrýjendur vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kröfum sínum frá 17. ágúst 2007 til 9. október 2008 og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir héraðsdómi beindu áfrýjendur kröfum sínum til vara að Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. Fjármálaeftirlitið tók 9. mars 2009 yfir vald hlutahafafundar í félaginu, vék frá stjórn þess, sem stefndu skipuðu, og setti skilanefnd yfir það á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Áfrýjendur halda ekki uppi kröfum á hendur félaginu fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2009.
Mál þetta höfðuðu Vilhjálmur Bjarnason, kt. 200452-7719, Hulda Guðný Vilhjálmsdóttir, kt. 161181-3159, og Kristín Martha Vilhjálmsdóttir, kt. 161181-3079, öll til heimilis að Hlíðarbyggð 18, Garðabæ, með stefnu birtri 1. október 2008 á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, kt. 190367-3749, London, Englandi, Birgi Má Ragnarssyni, kt. 020574-5699, London, Englandi, Guðmundi Kristjánssyni, kt. 220860-4429, Granaskjóli 64, Reykjavík, Friðriki Hallbirni Karlssyni, kt. 180366-4909, Kjalarlandi 28, Reykjavík, og James Leitner, New York, Bandaríkjum Norður-Ameríku, og Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., kt. 701086-1399, Borgartúni 25, Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess aðallega að stefndu Björgólfur Thor Björgólfsson, Birgir Már Ragnarsson, Guðmundur Kristjánsson, Friðrik Hallbjörn Karlsson og James Leitner verði dæmdir til að greiða óskipt stefnendum 31.461 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. ágúst 2007 til 9. október 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað að mati dómsins.
Til vara krefjast stefnendur þess að stefndi Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki verði dæmdur til að greiða stefnendum 31.461 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. ágúst 2007 til 9. október 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað að mati dómsins.
Aðalstefndu og varastefndi krefjast allir sýknu af kröfum stefnenda, til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar.
Málið var dómtekið 18. febrúar sl.
Stefnendur eiga hluti í hlutafélaginu Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka, varastefnda í málinu. Þau voru einnig hluthafar hinn 17. ágúst 2007 er þau atvik urðu sem um er deilt í máli þessu. Þennan dag var selt hlutafé í bankanum sem hann hafði átt sjálfur, að nafnverði 550.000.000 króna, til óþekkts aðila að talið er, fyrir 18,60 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs.
Meðalverð í viðskiptum í Kauphöllinni þennan dag var 19,17 krónur. Hæst var verðið 19,75 krónur, en lægst 18,90. Á óstaðfestu yfirliti um viðskipti með hlutabréf í Straumi þennan dag koma umædd viðskipti fram, en þó er ekki getið kaupanda eða seljanda, en á yfirlitinu sést yfirleitt hvaða aðilar að Kauphöllinni koma fram fyrir hönd hvors aðila.
Fjármálaeftirlitið tók þessi viðskipti til skoðunar. Segir í tilkynningu þess, dags. 10. febrúar 2009, að málið hafi „... m.a. verið skoðað í tengslum við reglur um virka eignarhluti, tilboðsskyldu og flöggun.“ Loks segir í tilkynningunni að ekki sé tilefni til frekari afskipta.
Aðalstefndu sátu í stjórn varastefnda á þessum tíma. Einn þeirra, Friðrik Hallbjörn Karlsson, kom fyrir dóm og gaf skýrslu. Hann sagði að hann hefði ekki vitað af þessum viðskiptum fyrr en hann sá tilkynningu um þau á vef Kauphallarinnar. Þau hefðu ekki verið rædd í stjórn félagsins, hvorki áður en þau voru gerð, né á eftir.
William Fall, forstjóri varastefnda, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði sjálfur annast og ákveðið þessi viðskipti. Hann lýsti því að markaðir hefðu verið mjög viðkvæmir þessa viku og verð lækkað fram eftir vikunni. Hann sagði að maður úr varastjórn félagsins hefði komið sér í samband við aðila þann sem stóð að kaupunum. Kaupin hefðu farið fram í gegnum Landsbanka Íslands í Lúxemborg. Þau hefðu átt sér nokkurn aðdraganda. Verðið hefði verið endanlega ákveðið seint á fimmtudeginum 16. ágúst. Honum hafi virst það eðlilegt miðað við stöðu og þróun á mörkuðum á þeim tíma. Hann tók fram að þennan föstudag hefði Seðlabanki Bandaríkjanna ákveðið að lækka stýrivexti, en sú ákvörðun hefði leitt til hækkunar á hlutabréfamörkuðum.
Stefnandi Vilhjálmur Bjarnason beindi fyrirspurn til varastefnda með bréfi dags. 6. júní 2008. Þar óskaði hann upplýsinga um hvenær kaupin hefðu verið gerð, hver hefði keypt, hvaða samningur hefði legið að baki viðskiptum með bréfin og hvers vegna þau hefðu verið seld undir markaðsverði.
Varastefndi svaraði með bréfi dags. 1. ágúst 2008. Þar segir að gagnaðili varastefnda í viðskiptunum hafi verið Landsbanki Luxembourg S.A. Þá hafi ekki legið aðrir samningar að baki viðskiptunum en samkomulag um fjölda hluta og verð þeirra. Loks kveðst bréfritari ekki skilja hvað stefnandi hafi átt við í bréfi sínu með tilvísun til meðalverðs á markaði, en segir að það sé mat varastefnda að verðið í viðskiptunum hafi verið hæfilegt.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur segja að aðalstefndu hafi setið í stjórn varastefnda Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka á umræddum tíma. Þá hafi stefnandi Vilhjálmur verið skráður fyrir 426.000 hlutum í félaginu, en stefnendur Hulda Guðný og Kristín Martha verið skráðar fyrir 306.853 hlutum hvor. Þær eru dætur stefnanda Vilhjálms.
Stefnendur telja að stjórn félagsins hafi ekki mátt selja svo stóran hlut undir markaðsverði á þeim degi er kaupin voru gerð. Salan hafi í raun rýrt verðmæti félagsins. Stjórnin hafi átt að geta selt hlutinn að minnsta kosti á meðalgengi dagsins og þannig fengið 313.500.000 krónum meira í sjóð félagsins.
Aðalstefndu hafi setið í stjórn félagsins og þeim hafi borið að gæta hagsmuna félagsins og því að sjá til þess að félagið seldi eignir sínar fyrir sem hæst verð hverju sinni. Ekki hafi verið sýnd ráðdeild með því að selja stóran hlut á lágu verði, miða verði við að unnt hefði verið að selja hlutinn á markaðsgengi á þeim tíma. Hlutur stefnenda hafi rýrnað í sömu hlutföllum miðað við hlutafjáreign þeirra þennan dag.
Þá segja stefnendur að stjórnarmönnum hafi verið óheimilt að mismuna einstökum hluthöfum með því að selja einum þeirra hluti á mun lægra verði en aðrir gátu keypt hluti á þennan dag. Með þessu sé brotið gegn óskráðri jafnræðisreglu félagaréttar og 76. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Þar sem Straumur sé hlutafélag á markaði verði að gera enn ríkari kröfur til félagsins. Þá vísa þeir til 6. gr. laga nr. 33/2003. Í þessum viðskiptum hafi einum hluthafa verið færðar 313.500.000 krónur. Engin ástæða hafi verið til þess að selja hlutabréf á undirverði.
Stefnendur telja að 4. gr. samþykkta Straums um að hluthafar eigi ekki forkaupsrétt að hlutum verði að túlka þannig að stjórn félagsins sé skylt að selja eigin hluti að lágmarki á markaðsverði á hverjum tíma. Ef öðrum hluthöfum, þar á meðal stefnendum, verði verði gert kleift að kaupa hluti á genginu 18,60 í stað 19,16 hefðu þeir hagnast um 0,57 kr. fyrir hvern hlut. Þennan möguleika hafi stefnendur ekki fengið þar sem stjórnin hafi valið einn hluthafa úr og fært honum ávinninginn af viðskiptunum. Sú ákvörðun hafi verið ólögmæt og séu stefndu skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna þess.
Stefnendur telja að stjórn félagsins beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hún hafi valdið hluthöfum. Vísa þau til 134. og 68. gr. laga nr. 2/1995. Stjórnarmenn hafi af ásetningi, eða af gáleysi, gengið þannig frá kaupunum að félagið tapaði áðurgreindri fjárhæð. Byggja stefnendur kröfu sína á sakarreglunni.
Til vara er bótakrafan höfð uppi á hendur Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka. Er þá byggt á gjörðum stjórnar sem lýst er að framan og talið að félagið beri ábyrgð á gerðum stjórnar.
Stefnendur reikna bótakröfu sína eftir því hve stóran hlut af heildarhlutafé félagsins þau áttu á þeim degi er viðskiptin fóru fram. Stefnandi Vilhjálmur átti 0,004112% af hlutafé bankans, en stefnendur Hulda og Kristín 0,002962% hvor. Hlutur stefnanda Vilhjálms í tapinu nemur því 12.891 krónu, en hlutir Huldu og Kristínar 9.285 krónum. Stefnukrafan er samanlagt tjón stefnenda, 31.461 króna.
Málsástæður og lagarök stefndu
Aðal- og varastefndu skiluðu sameiginlegri greinargerð og fluttu málið í einu lagi. Verður vísað til þeirra allra sem stefndu í málinu.
Stefndu mótmæla því að umrædd sala hafi farið fram á undirverði eins og stefnendur halda fram. Telja þeir að verðið hafi verið ásættanlegt og viðskiptin hagstæð fyrir félagið. Nefna þeir ýmis atriði í því sambandi, erlendur fjárfestir hafi komið að bankanum og breikkað hluthafahópinn og þannig getað skapað aukna veltu með bréf félagsins. Þá hafi salan styrkt bæði eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu félagsins. Þá hafi þessi viðskipti verið mjög stór og farið fram utan kauphallar. Söluverð hafi verið 10.230.000.000 krónur. Það hafi verið staðgreitt. Mörg dæmi séu um að verð í stórum viðskiptum sé annað en skráð meðalgengi í kauphöll. Þá séu líkur á að verð hefði lækkað í kauphöll ef hlutirnir hefðu verið boðnir þar til sölu. Þá hafi lokaverð hlutabréfa félagsins daginn áður verið 18,85 krónur.
Stefndu mótmæla því að salan hafi verið óþörf. Stjórnendur hafi talið söluna styrkja bankann.
Stefndu byggja á því að stefnendur eigi ekki aðild að málinu, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Hafi Straumi verið valdið tjóni sé félagið réttur aðili að bótakröfu. Vísa þeir hér til 134. gr. laga nr. 2/1995 og til samanburðar til 135. gr. sömu laga.
Stefndu mótmæla því að brotið hafi verið gegn 76. gr. laga nr. 2/1995. Þá sé ekkert í lögum eða samþykktum félagsins sem komi í veg fyrir að félagið selji eigin hluti í frjálsum samningum. Þá hafi ekki verið skylt að bjóða stefnendum hlutina til kaups.
Stefndu segja að stefnendur hafi ekki verið aðilar að umræddum viðskiptum. Því eigi ákvæði þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti ekki við. Þá hafi ekki verið brotið gegn 6. gr. þeirra laga.
Þá segja stefndu að engin stoð sé fyrir kröfum stefnenda í 4. gr. samþykkta félagsins.
Varðandi tilvísun stefnenda til 134. gr. laga nr. 2/1995 þá segja stefndu að ákvarðanir er byggist á viðskiptalegum forsendum leiði almennt ekki til bótaskyldu, þó að menn geti haft misjafnar skoðanir á því hvort þær hafi verið skynsamlegar.
Stefndu telja að ekki séu uppfyllt skilyrði skaðabótaskyldu. Stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að hlutirnir hafi verið seldir á undirverði og að stjórnendum Straums hafi mátt vera það ljóst er viðskiptin voru gerð, að með þeim hafi verið brotið gegn hagsmunum félagsins.
Stefndu telja að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þau hafi orðið fyrir tóni vegna umræddra viðskipta. Stefnendur hafi ekki átt beint tilkall til eigna félagsins eða reksturs. Félagið sé sjálfstæð lögpersóna og aðskilin frá hluthöfum sínum. Hefði hlotist tap af viðskiptunum, sem sé ósannað, sé ekki sannað að það hefði leitt til verðlækkunar á hlutabréfum stefnenda.
Þá benda stefndu á að hlutabréfaverð hafi skömmu síðar tekið að lækka og hafi um langt skeið verið mun lægra en í þeim viðskiptum sem hér er rætt um.
Fjárhæð bótakröfu er mótmælt þar sem stefnendur hafi ekki sýnt fram að þau hafi orðið fyrir tjóni er svari til þeirrar fjárhæðar.
Til vara krefjast stefndu lækkunar á kröfum stefnenda. Mótmæla þeir því að miðað sé við meðalverð dagsins, en ekki lægsta verð. Þá sé ekki litið til viðskiptaverðs daginn áður.
Að lokum bendir varastefndi á að það sé órökrétt að krefja hann um bætur. Verði komist að þeirri niðurstöðu að aðalstefndu hefðu valdið félaginu tjóni væri það sjálft tjónþoli.
Forsendur og niðurstaða
Fram kom í skýrslum forsvarsmanna Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka fyrir dóminum að William Fall hefði ákveðið að ganga til samninga um hina umdeildu sölu hlutafjár og samið um verðið. Ákvörðun um þessa sölu hafi ekki verið tekin í stjórn félagsins.
Til þess að bótaskylda aðalstefndu eða varastefnda gagnvart stefnendum verði viðurkennd þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Fyrst má telja það sem er aftast í orsakakeðjunni. Það er hvort stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Aðgerðir sem hafa áhrif á fjárhagsstöðu hlutafélags hafa ekki sjálfkrafa sömu áhrif á fjárhagsstöðu hluthafa. Hluthafar geta haft fjárhagslegan ávinning af hlutabréfum sínum með því að selja þau öðrum, eða með því að fá af þeim arð, eða endurgreiðslu við lækkun hlutafjár eða slit félagsins, sbr. 98. gr. laga nr. 2/1995. Félaginu hefur ekki verið slitið eða hlutafé þess lækkað. Þá hafa stefnendur ekki reynt að sanna að verð hlutabréfa þeirra á markaði hafi lækkað vegna umræddrar sölu. Hafi hins vegar verið selt fyrir of lágt verð kann það að hafa leitt til þess að lægri arðsúthlutun hafi verið ákveðin á næsta aðalfundi eftir söluna. Það athugast að stefnendur hafa ekki reifað málið með hliðsjón af þessu atriði.
Dómurinn getur ekki byggt niðurstöðu á þeirri málsástæðu stefnenda að umrædd sala hafi verið óþörf. Stjórnendur félags taka ákvarðanir um fjárhagslegar ráðstafanir og geta dómstólar ekki fjallað um hvort þær hafi verið nauðsynlegar eða ekki. Í þessu máli getur aðeins reynt á það hvort með þeim hafi verið brotið ólöglega gegn réttindum annarra.
Fram kom í skýrslu Williams Fall fyrir dóminum að samið hefði verið um söluna skömmu áður en viðskipti hófust í kauphöllinni hér 17. ágúst. Hann skýrði álit sitt á því hvers vegna verð hlutabréfa hækkaði þennan dag, en um var að ræða atvik sem ekki var kunnugt um þegar salan var ákveðin. Stefnendur hafa ekki sýnt fram á annað en að í nokkuð mörgum tilvikum hafi aðilar keypt hlutabréf í félaginu fyrir hærra verð en samið var um í hinum umdeildu viðskiptum. Var þar ætíð um mun minni viðskipti að ræða. Daginn áður fóru fram viðskipti á lægra verði og sumpart á lægra verði en 18,60 krónum. Stefnendur hafa ekki sýnt fram á að raunhæft hafi verið að fá verulega hærra verð fyrir bréfin en fékkst. Þau hafa ekki sannað að tilboð um kaup á svo miklu hlutafé hafi verið virk í kauphöllinni á þessum tíma eða um svipað leyti. Því er ekki sannað að réttindum félagsins hafi verið ráðstafað á óréttmætan hátt við of lágu verði. Þau hafa því ekki sýnt fram á að þeim hafi verið valdið tjóni.
Stjórnendum félagsins var ekki skylt að bjóða hluthöfum að ganga inn í umræddan samning þar sem slíkur áskilnaður er hvorki í hlutafélagalögum né samþykktum félagsins. Með þessari sölu var hluthöfum félagsins ekki mismunað. Verður að sýkna bæði stefndu og varastefnda af kröfum stefnenda.
Rétt er að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Aðalstefndu, Björgólfur Thor Björgólfsson, Birgir Már Ragnarsson, Guðmundur Kristjánsson, Friðrik Hallbjörn Karlsson og James Leitner og varastefndi, Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., eru sýknaðir af kröfum stefnenda, Vilhjálms Bjarnasonar, Huldu Guðnýjar Vilhjálmsdóttur og Kristínar Mörthu Vilhjálmsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.