Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2012


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Vörslur
  • Upptaka


            

                                     

Fimmtudaginn 26. apríl 2012

Nr. 58/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Adomas Daubaris

Arthuras Urmonas og

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Vytas Vadeika

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Vörslur. Upptaka.

AD, AU og VV voru ákærðir fyrir fíkniefnalagabrot með því hafa í vörslum sínum 374,34 g af kókaíni sem ætlað var til söludreifingar í ágóðaskyni, en AD var einnig gefið að sök að hafa flutt fíkniefnin til landsins. AD viðurkenndi innflutning fíkniefnanna og vörslur þeirra en neitaði því að þau hefðu verið ætluð til söludreifingar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu AD. AU og VV neituðu sök að öllu leyti í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þrátt fyrir ámælisverðan annmarka á rannsókn lögreglu hefði ákæruvaldið leitt í ljós vörslur AU og VV á fíkniefnunum, sem hefðu að stærstum hluta verið ætluð til söludreifingar. AD var gert að sæta fangelsi í 15 mánuði en AU og VV 10 mánaða fangelsi hvorum um sig.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnum 20. og 25. janúar 2012 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu en refsing þeirra þyngd. Þá er krafist staðfestingar héraðsdóms á upptöku.

Ákærðu Arthuras Urmonas og Vytas Vadeika krefjast aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins en til vara mildunar á refsingu. Ákærði Adomas Daubaris krefst mildunar á refsingu.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi fóru tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn að kvöldi miðvikudagsins 26. október 2011 að orlofshúsi nr. 6 í Ölfusborgum í sveitarfélaginu Ölfusi vegna ábendingar sem lögreglu hafði borist um mannaferðir þar sem ástæða væri til að kanna nánar. Eftir að hafa með leynd fylgst með ferðum ákærðu í og við húsið í að minnsta kosti tvær klukkustundir styrktist grunur lögreglu um að þar væru meðhöndluð fíkniefni. Var kallað eftir aðstoð sérsveitar lögreglu sem barst laust fyrir klukkan eitt eftir miðnætti og voru ákærðu í kjölfarið handteknir. Í húsinu fannst það kókaín sem um ræðir í ákæru ásamt vog og efnum sem nota mátti til þurrkunar á kókaíninu sem var blautt eftir að hafa legið falið í jörðu í rúmt ár.

Ákærði Adomas Daubaris hefur játað innflutning á umræddu kókaíni samkvæmt ákærulið 1 og einnig viðurkennt vörslur þess samkvæmt ákærulið 2. Hann neitar á hinn bóginn að efnið hafi verið ætlað til söludreifingar.

Héraðsdómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans um sakfellingu ákærða Adomas Daubaris og heimfærslu til refsiákvæða. 

Ákærðu Arthuras Urmonas og Vytas Vadeika neita sök í málinu. Kveðast þeir ekki hafa vitað að fíkniefni væru í húsinu og enn síður að um hafi verið að ræða svo mikið magn sem raun bar vitni. Kveðast þeir hafa verið í hvíldarferð og meðal annars grillað mat saman og farið í heitan pott við húsið. Þessir ákærðu benda einkum á að rannsókn lögreglu og skýrslugerð um rannsóknina hafi verið ábótavant og hafi lögregla spillt vettvangi áður en myndir voru teknar af honum en stærstur hluti fíkniefnanna hafi verið í lokuðu herbergi í húsinu. Þá hafi engin fingrafararannsókn farið fram.

Í héraðsdómi er rannsókn lögreglu ítarlega lýst og eins og þar greinir nánar var henni ábótavant, einkum sökum þess að ljósmyndir voru teknar af vettvangi eftir að við honum hafði verið hreyft. Fallist er á með ákærðu að þetta sé ámælisverður annmarki á rannsókn málsins, auk þess sem rétt hefði verið af hálfu lögreglu að tilgreina frekar en gert var tímasetningar um vöktun hússins. 

Með framburði allra lögreglumannanna sem komu á vettvang og öðrum gögnum málsins er í ljós leitt hvernig umhorfs var í húsinu, er lögregla handtók ákærðu. Um er að ræða 57,6 fermetra hús sem nánar er lýst í hinum héraðsdómi og var hluti fíkniefnanna sýnilegur í opnu rými þess. Á eldhúsborði var glerkrukka með kókaíndufti, á ofni við eldhúsborð súpuskál með kókaíndufti og í bökunarofni í eldhúsi voru tveir matardiskar og tvær undirskálar með sama efni. Við rúm í hjónaherbergi fundust síðan tvær glerkrukkur með kókaíndufti og ein glerkrukka og skaftpottur með efnisleifum undir rúmi. Afar sterk lykt af leysiefnum var í húsinu, en ákærðu dvöldu þar um nokkurn tíma eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Er þannig í ljós leitt hvernig vettvangur leit út við komu lögreglu á hann. Þá kom fram hjá ákærða Adomas Daubaris að þegar hann varð lögreglu var hafi hann reynt að hylja ummerki og meðal annars hent vog inn í herbergið þar sem megnið af fíkniefnunum fannst. Ljóst er að töluverðar tilfæringar þurfti til að þurrka efnið og stóð þurrkun yfir er lögregla handtók ákærðu. Samkvæmt framburði F prófessors tekur um það bil hálfa til eina klukkustund að þurrka 2-3 grömm af kókaíni í bakaraofni, en sú aðferð var viðhöfð í húsinu. Þótt ekki hafi verið ritað nákvæmlega í skýrslu lögreglu um tímasetningar varðandi vöktun hennar var bókað um það sem lögreglumenn urðu varir við meðan á henni stóð. Jafnframt er sem fyrr segir upplýst að vöktun hafði staðið yfir í að minnsta kosti tvær klukkustundir er hlé var gert í um það bil 40 mínútur áður en lögreglan lét til skarar skríða. Samkvæmt framansögðu geta fyrrnefndir ágallar á rannsókn lögreglu ekki ráðið úrslitum málsins.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á niðurstöðu hans um að ákærðu Arthuras Urmonas og Vytas Vadeika hafi vitað af fíkniefnunum. Ekki er til endurskoðunar sú niðurstaða héraðsdóms að ákærðu Arthuras Urmonas og Vytas Vadeika skuli sýknir af þátttöku í þurrkun fíkniefnanna. Af gögnum málsins verður ráðið að ákærðu höfðu orlofshús það sem um ræðir í málinu til sameiginlegra afnota. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á með ákæruvaldinu að ákærðu hafi haft umrædd efni í sínum vörslum sem voru að stærstum hluta ætluð til sölu. Er því fallist á niðurstöðu hins héraðsdóms um sakfellingu þessara ákærðu.

Ákvörðun héraðsdóms um refsingu allra ákærðu verður staðfest með þeirri breytingu sem greinir í dómsorði um frádrátt vegna gæsluvarðhaldsvistar ákærða Adomas Daubaris. Ákvæði héraðsdóms um frádrátt gæsluvarðhaldsvistar hinna tveggja ákærðu verða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku verða einnig staðfest sem og ákvæði hans um sakarkostnað, þó þannig að ákærðu skulu sameiginlega bera kostnað við matsgerð, sbr. 2. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu að öðru leyti en því að til frádráttar refsingu ákærða, Adomas Daubaris, dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 28. október til 4. nóvember 2011 og frá 10. nóvember 2011 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku skulu vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því ákærðu greiði óskipt matskostnað, 681.306 krónur.

Ákærðu, Adomas Daubaris og Arthuras Urmonas, greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Ákærði, Vytas Vadeika, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins, 50.210 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 30. desember 2011.

Mál þetta, sem þingfest var þann 16. desember. sl. og dómtekið þann 20. sama mánaðar, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara, dagsettri 8. desember 2011, móttekinni þann 12. desember sl., á hendur Adomas Daubaris, litháískum ríkisborgara, fæddum þann 21. ágúst 1968, með óskráð heimilisfang í Litháen, Arturas Urmonas, litháískum ríkisborgara, fæddum þann 12. maí 1969, til heimilis að [...]kt. [...],[...], Reykjavík;

fyrir fíkniefnalagabrot sem hér greinir:

1.       Gegn ákærða Adomas Daubaris með því að hafa, haustið 2010, staðið að innflutningi á 374,34 g af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi i[sic] ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærði til landsins í ferðatösku og faldi í jörðu.

2.       Gegn ákærðu öllum fyrir vörslur og meðferð ofangreindra fíkniefna, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 27. október 2011, í sumarhúsi nr. [...], haft ofangreind fíkniefni í vörslum sínum og þurrkað þau. Fíkniefnin, sem voru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni, voru blaut eftir að hafa legið í um eitt ár í jörðu.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist að ofangreind fíkniefni og vog, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“ 

Lögreglustjórinn á Selfossi, sem flutti málið fyrir hönd ríkissaksóknara, leiðrétti annan tölulið ákæru við þingfestingu málsins á þann veg að sumarhúsið nr.[...] í Sveitarfélaginu [...] en ekki [...].

Ákærði, Adomas Daubaris, krefst þess að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Verði honum dæmd frelsisskerðing gerir ákærði þá kröfu að hún verði ekki lengri en sem nemur þeim tíma sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi þegar dómur verður uppkveðinn. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Ákærði, Arturas Urmonas, krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

 Ákærði, Vytas Vadeika, krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Málsatvik og rannsókn lögreglu

Hér á eftir verða málsatvik rakin eins og þeim er lýst í frumskýrslu lögreglu, dagsettri 27. október 2011. Einnig þykir nauðsynlegt að rekja upplýsingar sem fram komu í vettvangsgöngu við upphaf aðalmeðferðar og í skýrslutökum fyrir dómi af lögreglumönnum embættisins á Selfossi og varða aðdraganda að handtöku ákærðu, rannsókn málsins og fyrstu aðgerðir lögreglu á vettvangi. 

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að í kjölfar upplýsinga hafi lögreglumennirnir A og B farið óeinkennisklæddir að orlofshúsi nr.[...] til að kanna með mannaferðir við húsið og hafi vakið athygli þeirra að hurðir og gluggar hússins hafi verið opnir upp á gátt og hafi þeir séð að innan dyra voru þrír karlmenn en ljós hafi verið kveikt í húsinu. Umræddir menn, sem síðar reyndust vera ákærðu í máli þessu, hafi verið á sífelldri hreyfingu um húsið og út á sólpall við húsið. Einnig hafi þeir oft farið inn í geymslu og inn á baðherbergi þar sem þeir hafi oft þvegið sér um hendurnar. Vegna gruns um að í húsinu færi fram fíkniefnamisferli óskuðu lögreglumennirnir eftir liðstyrk ríkislögreglustjóra.

Í frumskýrslu kemur fram að klukkan 00:40 hafi lögreglan farið að húsinu og upp á sólpall við húsið og hitt þar fyrir ákærða Vytas sem hafi heimilað lögreglu að fara inn í húsið þar sem ákærðu Adomas og Arturas hafi setið í sólskála hússins.

Aðkomu í húsið er lýst þannig í frumskýrslu. Sterk lykt hafi verið í húsinu af bensíni og leysiefnum. Á diski á stofuborði hafi verið gluggaskafa og skeiðar með hvítum efnisleifum og á eldhúsborði hafi verið brúsar með acetoni og olíuhreinsi ásamt glerkrukku, u.þ.b. hálfri af hvítu duftkenndu efni. Klukkan 00.43 hafi ákærðu verið handteknir og í framhaldi af því fluttir á lögreglustöðina á Selfossi.

Þá segir í frumskýrslu að C, rannsóknarlögreglumaður, hafi komið í sumarhúsið ásamt D héraðsdómslögmanni og hafi C tekið við rannsókn málsins.

Herbergjaskipan í umræddu sumarhúsi er þannig lýst í frumskýrslu. Gengið sé inn í forstofu að austanverðu. Þar á vinstri hönd sé geymsla en beint áfram salerni. Til hægri sé gengið inn í stofurými en gengið sé inn í þrjú herbergi á hægri hönd, fyrst hjónaherbergi og þá tvö minni herbergi með kojum. Á vinstri hönd sé eldhús, opið inn í stofu. Þar fjærst sé gengið inn í sólskála í vesturenda hússins, þaðan sem gengið sé út á sólpall. 

Í frumskýrslu er eftirfarandi lýsing á því sem fannst við húsleit. Glerkrukka með hvítu duftkenndu efni hafi verið á eldhúsborði, súpuskál með hvítu duftkenndu efni á ofni við eldhúsborð, tveir matardiskar og tvær undirskálar með hvítu duftkenndu efni í bakarofni og hafi ofninn verið í gangi. Í hjónaherbergi við fótagafl hafi tvær glerkrukkur fundist með hvítu duftkenndu efni og ein glerkrukka með efnisleifum undir rúmi við höfðagafl. Einnig hafi þar fundist skaftpottur með hvítu duftkenndu efni og í tösku á hjónarúmi hafi fundist vog með hvítum efnisleifum sem og afrit af flugseðli. Í herbergi vestast í húsinu hafi fundist poki með hylkjum og dunkur með hvítu efni merkt „Nutramino creatin.“ Í bifreið, sem stóð á bifreiðastæði skammt frá húsinu, hafi fundist afrit af leigusamningi umrædds sumarhúss. Fram kemur að haldlögð efni, ásamt ílátum, hafi verið mynduð og sett í sýnatökupoka sem voru innsiglaðir.

Verður nú rakið það helsta sem fram kom í vettvangsgöngu og fyrir dómi í yfirheyrslum yfir lögreglumönnunum A, B, E og C, rannsóknarlögreglumanni, og snertir vöktun lögreglu á húsinu nr.[...] í [...], aðdraganda handtöku ákærðu og fyrstu aðgerðir lögreglu á vettvangi. Að öðru leyti vísast til framburða framangreindra vitna sem rakinn er nánar síðar í dómnum. 

Við meðferð málsins fyrir dómi kom fram að lögreglumennirnir A og B komu að [...] að kvöldi miðvikudagsins 26. október sl., líklega um klukkan 21.30, til að fylgjast með mannaferðum í sumarhúsinu nr. [...] í [...]. Fyrir liggur að lögreglumennirnir skráðu hvorki niður upplýsingar um gang rannsóknarinnar né tímasetningar meðan þeir vöktuðu húsið og því liggja ekki fyrir aðrar nákvæmar tímasetningar en þær sem fram koma í frumskýrslu og raktar hafa verið hér að framan. Af framburði lögreglumannanna virðist sem vöktun hússins hafi að einhverju leyti legið niðri á þeim tíma sem annar töluliður ákæru tekur til, þ.e. á tímabilinu frá miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl. til klukkan 00.40 þá sömu nótt.

Við eftirlitið höfðu lögreglumennirnir aðstöðu í sumarhúsi nr.[...], sem stendur lítið eitt austan og  norðan við sumarhúsið nr. [...]. Þaðan fylgdust þeir með mannaferðum með því að leggjast á gólfið og horfa út um glugga á suðurhlið sumarhússins en gluggarnir ná niður undir gólf. Fram kom að ljós var í anddyri og baðherbergi sumarhússins nr. [...], en engin ljós kveikt í húsinu nr. [...] þar sem lögreglumennirnir voru. Í vettvangsgöngu við upphaf aðalmeðferðar kom í ljós að frá húsinu nr.[..] sést norðurhlið sumarhússins nr.[...] greinilega enda ekki langt á milli húsa. Þaðan blasir anddyri hússins við sem og baðherbergi sem er eins og áður segir gegnt inngangi. Hluta þess tíma sem lögreglumennirnir fylgdust með sumarhúsinu var útidyrahurðin opin upp á gátt og þá blasti við forstofa og baðherbergi sumarhússins. Á vesturvegg baðherbergisins er handlaug og sést hún greinilega út um suðurglugga sumarhússins nr. [...] og fyrir dómi kom fram hjá lögreglumönnunum að tveir menn hafi oft farið inn á baðherbergið í þeim tilgangi að þvo sér um hendurnar. Fyrir liggur að dregið var fyrir alla glugga á norðurhlið hússins nr.[...] og sólpallur hússins sést ekki frá húsinu nr.[...]. Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að einhvern tíma á tímabilinu frá 21.30 til 23.00 eða jafnvel síðar, fór A út úr sumarhúsinu nr. [...] til að kanna hvort hann sæi inn í sumarhúsið nr. [...] frá öðru sjónarhorni en B varð eftir. Í rannsóknarferð A kom í ljós að dregið var fyrir alla glugga á suðurhlið hússins nr.[...], sem og glugga í stofu sem snýr í vestur út á sólpallinn. Engin gluggatjöld voru hins vegar í sólstofu sem er vestast í húsinu. Í vettvangsgöngu var gengið sömu leið og A fór í rannsóknarferð sinni, fyrst austur og suður fyrir sumarhúsið nr.[...]. Þaðan sést að hægt er að ganga upp á sólpallinn í suðausturhorni hússins. Einnig var gengið vestur fyrir húsið og sést þá inn eftir gangi sem liggur úr sólstofu í anddyri í austurenda hússins. Þá kom fram við meðferð málsins fyrir dómi að flatarmál sumarhússins nr.[...] er 57,6 fermetrar. Einnig kom fram að á sólpalli vestan og sunnan við húsið var heitur pottur sem lok var yfir þegar lögreglan kom á vettvang, útigrill sem var lokað og ruslapoki með matarleifum.

Þá liggur einnig fyrir að einhvern tímann fyrir miðnætti, líklega eftir að A  kom aftur í sumarhúsið nr.[...] úr rannsóknarleiðangri sínum, hafi einn þeirra manna sem var í sumarhúsinu nr.[...] lokað útidyrum hússins. Stuttu eftir það höfðu lögreglumennirnir, A og B, samband við varðstjóra á Selfossi og óskuðu eftir aðstoð við inngöngu í sumarhúsið nr. [...]. Stuttu síðar fóru lögreglumennirnir gangandi að þjónustumiðstöð [...] þar sem bifreið þeirra var lagt, og óku niður á Suðurlandsveg. Þar lögðu þeir bílnum og gengu aftur upp að sumarhúsinu að austanverðu, stoppuðu þar stutt við og fóru aftur fótgangandi niður á Suðurlandsveg þar sem þeir hittu þrjá lögreglumenn frá sérsveit ríkislögreglustjóra, sem komu úr Reykjavík, og E, lögreglumann á Selfossi, sem allir voru komnir til aðstoðar. A og B fóru aftur upp að þjónustumiðstöðinni ásamt E en sérsveitarmennirnir óku á merktri lögreglubifreið að bílastæði austan við húsið nr.[...]. Fram kom við meðferð málsins fyrir dómi að ákærðu veittu hvorki mótspyrnu né vörnuðu lögreglu inngöngu í sumarhúsið. Þá liggur einnig fyrir að líklega um klukkan eitt kom C, rannsóknarlögreglumaður, á vettvang ásamt D héraðsdómslögmanni sem gætti hagsmuna ákærðu. Í málinu liggja frammi átta ljósmyndir sem C tók þegar hann kom á vettvang, sbr. dskj. nr. 6, skjal I, 13.1.1 til 13.1.7. Hann setti einnig umræddar myndir upp og skráði skýringartexta við myndirnar.

Við aðalmeðferð málsins kom fram að eftir að lögreglan kom inn í húsið hafi farið fram leit að fíkniefnum og fyrir liggur að E tók fjóra diska með hvítu dufti út úr bakarofni eldavélarinnar, sem var opinn til hálfs, og setti þá á eldhúsborðið og voru þeir þar þegar rannsóknarlögreglumaðurinn C myndaði vettvang. E tók einnig skál með hvítu dufti sem stóð ofan á ofni við enda eldhúsinnréttingarinnar og setti á eldhúsborðið en hafði hins vegar fært hana aftur á sinn stað áður en ljósmynd var tekin af borðinu. Einnig kom fram að herbergi fyrst til hægri þegar komið er inn í húsið, hjónaherbergið, var lokað þegar lögregla kom fyrst inn í húsið. Liggur fyrir að lögregla opnaði herbergið og dró undan hjónarúminu skaftpott með hvítu efni og tvær krukkur með hvítu dufti sem voru undir rúminu við fótagafl og að þannig var vettvangur í hjónaherberginu myndaður. Við hlið höfðagafls hjónarúmsins var krukka, sem í frumskýrslu er sögð með efnisleifum, en rannsóknarlögreglumaður sagði tóma og var ætlað efnisinnihald hennar því ekki rannsakað. Í tösku á hjónarúmi fannst vog og er hún sögð með efnisleifum í frumskýrslu. Ætlaðar efnisleifar á voginni voru ekki rannsakaðar. Þá er í frumskýrslu tilgreindur diskur á borði í stofu sem á hafi verið gluggaskafa og skeiðar með hvítum efnisleifum. Umræddir munir voru ekki rannsakaðir frekar. Þá liggur einnig fyrir að rannsóknarlögreglumanninum C, sem eins og áður segir tók ljósmyndir af vettvangi, var ekki greint frá því að diskar  í ofni og krukkur í hjónaherbergi höfðu verið færð til eftir að lögregla kom fyrst á vettvang. Liggur því fyrir að þrjár ljósmyndir af eldhúsborði sýna ekki vettvang eins og hann var þegar lögregla kom fyrst inn í húsið og sama gildir um ljósmynd sem tekin er í hjónaberginu. Einnig kom fram að rannsóknarlögreglumanninum, sem stýrði rannsókn málsins, var hvorki kunnugt um að umræddir diskar með fíkniefnum á eldhúsborði höfðu við komu lögreglu verið inn í bakaraofninum, né að tvær krukkur með fíkniefnum höfðu við komu lögreglu verið undir hjónarúminu við fótagafl þegar hann tók skýrslur af ákærðu.

Í rannsóknarbeiðni lögreglunnar á Selfossi til tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er óskað eftir ákvörðun á tegund efnis og styrkleikagreiningu á ellefu einingum. Fram kom í málinu að gengið var frá efnunum í þeim ílátum sem þau voru þegar lögregla lagði hald á þau og þannig voru efnin fyrst flutt á lögreglustöðina á Selfossi og síðan send lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt efnaskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vó kókaín sem fannst á matardiskum, undirskál og súpuskál 7,81 g, kókaín sem fannst í glerkrukkum reyndist 246,00 g og kókaín í skaftpotti 120,53 g, samtals 374,34 g. Þá vó annað óskilgreint efni 369,06 g og 219 stykki voru af óskilgreindu efni. 

Í rannsóknarbeiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum er óskað eftir greiningu og styrkleikamælingu á ellefu sýnum, átta sýnum af ætluðu kókaíni, einu sýni með fimm stykkjum af óskilgreindu efni og tveimur sýnum af óskilgreindu efni.

Matsgerðir í málinu eru tvær og báðar unnar af starfsmönnum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, þeim F og G. Í matsgerð, dags. 22. nóvember 2011, er gerð grein fyrir niðurstöðum efnasýna merkt nr. 21540 nr. 1 til 11. Þar kemur fram að kókaín hafi fundist í níu sýnum en í tveimur sýnum hafi ekki fundist þekkt lyf með ávana- og fíkniefnum. Um efnapróf á kókaíni segir í matsgerðinni frá 22. nóvember sl., að kókaín hafi að mestu verið á formi kókaínklóríðs. Styrkur kókaíns hafi verið mismikill milli sýnanna níu, en samantekið mældist styrkur sýnanna eftirfarandi: Í einu sýni hafi styrkur kókaíns verið 52%, sem samsvarar 58% kókaínklóríði. Í einu sýni hafi styrkur kókaíns verið 51%, sem samsvarar 57% kókaínklóríði. Í þremur sýnum hafi styrkur kókaíns verið 50%, sem samsvarar 56% kókaínklóríði. Í einu sýni hafi styrkur kókaíns verið 49%, sem samsvarar 55% kókaínklóríði. Í tveimur sýnum hafi styrkur kókaíns verið 48%, sem samsvarar 54% kókaínklóríði og í einu sýni hafi styrkur kókaíns verið 9,6%, sem samsvarar 11% kókaínklóríði.   

Í matsgerð, dags. 25. nóvember 2011, er gerð grein fyrir niðurstöðum efnasýna nr. 21551 nr. 1 til 4. Þar kemur fram að eitt sýni hafi verið greint sem 60-70% ediksýra, tvö sýni sem aceton og eitt sýni sem terpentína (white spirit).

Eins og áður er rakið voru ekki öll áhöld, sem í frumskýrslu eru sögð með efnisleifum og fundust við leit í umræddu sumarhúsi, send lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu til ákvörðunar á tegund efnis og styrkleikagreiningar. Þar er um að ræða hvítar efnisleifar sem voru á diski ásamt gluggasköfu og skeiðum á stofuborði nálægt inngangi inn í sólstofu og glerkrukka með efnisleifum sem fannst undir rúmi við höfðagafl í hjónaherbergi.

Eins og að framan er rakið voru ákærðu handteknir klukkan 00.43 aðfaranótt 27. október 2011 í sumarhúsinu nr.[...] í [...]. Ákærði Adomas sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli a og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 88/2008 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum 28. október sl., til 4. nóvember sl. Með úrskurði dómsins þann 4. nóvember sl. var ákærði úrskurðaður í farbann til 2. desember sl., en með dómi Hæstaréttar þann 10. sama mánaðar var úrskurðinum breytt og var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til 2. desember sl. Þann sama dag var gæsluvarðhaldið framlengt til 30. desember 2011.

Ákærðu Arturas og Vytas sættu gæsluvarðhaldi á grundvelli a og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 88/2008 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum þann 28. október sl., til 4. nóvember sl. Þann sama dag var farbannið framlengt til 2. desember sl. Þann dag var farbannið síðan framlengt aftur til 30. desember 2011.

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærði, Adomas Daubaris, viðurkenndi við þingfestingu málsins að hafa flutt umrædd 374,34 g af kókaíni til landsins haustið 2010 eins og lýst er í fyrsta tölulið ákæru en neitaði að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Þá viðurkenndi ákærði vörslur og meðferð umræddra efna aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl., eins og nánar er lýst í ákæru en kvað efnin hafa verið til eigin nota.

                Í skýrslutöku af ákærða fyrir dómi kvaðst ákærði hafa komið til landsins til að ganga frá sínum málum. Hann hafi flutt kókaínið til landsins fyrir rúmu ári síðan, en  mundi ekki í hvaða mánuði það hafi verið. Nánar aðspurður um innflutning efnanna kvaðst hann hafa ætlað að dveljast á Íslandi, reyna að fá vinnu og slíkt, enda þekki hann fólk hér á landi. Fíkniefnin hafi hann ætlað til eigin nota. Ákærði vildi ekki svara því hvar hann hafi grafið fíkniefnin. Aðspurður um hvers vegna hann hafi grafið fíkniefnin í jörðu, kvaðst ákærði hafa komið til landsins til að dveljast hér um tíma, en hann hafi því miður ekki fengið vinnu og þá þurft að fara sem fyrst til London og þess vegna hafi hann grafið fíkniefnin í jörðu. Aðspurður um hvenær hann hafi grafið efnið upp kvað hann það hafa verið tveimur dögum eftir að hann kom aftur til landsins.

Aðspurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að hann notaði ekki fíkniefni, kvaðst ákærði ekki hafa sagt við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi aldrei notað fíkniefni. Ákærði vildi ekki svara því hversu oft hann notaði kókaín og aðspurður um hversu lengi það kókaín sem ákærði er ákærður fyrir vörslur á hafi átt að endast honum, kvaðst hann ekki geta svarað því.

 Aðspurður kvaðst hann hafa verið að þurrka fíkniefnin í sumarhúsinu. Nánar aðspurður um hvernig hann hafi staðið að þurrkuninni kvaðst ákærði hafa sett þau á diska inn í ofn, þá sett aceton yfir til að losna við lykt, og síðan hitað efnið upp. Aðspurður um hvað hann hafi verið að gera með olíuhreinsi, kvaðst ákærði ekki hafa þurft að nota hann.

Ákærði kvaðst þekkja meðákærðu Arturas og Vytas. Hann og meðákærði Arturas séu frá sama bæ í Litháen, Plungen, en meðákærða Vytas, hafi hann kynnst í Reykjavík. Aðspurður um hvað meðákærðu hafi verið að gera í sumarhúsinu sagði ákærði þá hafa farið saman í sumarbústaðinn til að hafa það gott og gaman saman, fara í pottinn og drekka o.s.frv. Aðspurður um af hverju fíkninefnin hafi verið með í för, kvaðst ákærði alltaf hafa þau meðferðis, hann geti ekki skilið þau eftir einhversstaðar. Ákærði var ítrekað spurður um hvernig á því stæði að fíkniefnin hefðu legið í jörðu í heilt ár og kvað ákærði það hafa verið vegna þess að hann hafi ekki komist til landsins í heilt ár. Aðspurður um hversu oft hann hefði komið til Íslands svaraði ákærði því til að hann þekki marga hér á landi, og taldi að hann væri nú að koma hingað í þriðja skiptið. Aðspurður um hvenær ákærði hefði fyrst komið til Íslands kvaðst hann ekki muna það. Aðspurður hvar hann byggi í Litháen kvaðst hann ekki hafa verið í Litháen í þrjú ár, hann fari oft þangað, en búi þar ekki, hann búi í London. 

Aðspurður sagði ákærði að meðákærði Vytas hafi ekki vitað að ákærði hafði kókaín með í  sumarbústaðaferðinni, enginn hafi vitað af því. Meðákærði Vytas og hinir strákarnir hafi farið í heita pottinn og gert allt sem þeir vildu gera, en ekki tekið þátt í því sem ákærði var að gera, og taldi hann meðákærðu ekki einu sinni hafa áttað sig á því sem hann hafði verið að gera. Hann hafi ekki útskýrt það eða sagt þeim frá því sérstaklega. Sérstaklega aðspurður kvað ákærði meðákærða Arturas heldur ekkert hafa vitað um efnin. Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi reynt, þegar hann varð lögreglu var, að fela og henda hlutum í næsta herbergi.

Ákærði, Arturas Urmonas, neitaði sök samkvæmt öðrum tölulið ákæru við þingfestingu málsins. Í skýrslutöku af ákærða fyrir dómi kom fram að hann hafi umrædda helgi verið í sumarbústaðnum til að hvíla sig. Hann hafi ekki sjálfur leigt húsið, og viti ekki hver gerði það. Ákærði kvaðst þekkja meðákærðu Adomas og Vytas. Hann hafi þekkt þá ef til vill í ár eða meira, en þó ekki hafa verið í miklum samskiptum við þá. Hann viti hverjir þeir eru, þeir séu frá sama bæ, Plungen og Torake. Fram kom að ákærði hafi keypt bíl á Íslandi og hafi meðákærði Vytas hjálpað honum við það.

Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst með því sem fram fór í sumarhúsinu og ekki komið nálægt ofninum. Hann hafi verið úti að hjálpa meðákærða Vytas að grilla matinn. Þeir hafi  drukkið áfengi og verið vel drukknir. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir eldamennsku í ofninum eða því hvað fram fór inni í sumarhúsinu. Þá tók ákærði fram að ef lögreglan hefði fylgst með þeim í tvo klukkutíma þá hefðu þeir átt að taka eftir því að ákærði hafi verið í heita pottinum í klukkutíma, hann hafi ekki verið inni í húsinu heldur í heita pottinum og þegar lögreglan mætti á staðinn hafi hann verið nýbúinn að klæða sig eftir að hafa verið í pottinum. Ákærði kvaðst hafa tekið eftir lögreglunni í bílastæðinu, þegar hann fór úr pottinum og opnaði fyrir lögregluna þegar hún kom á staðinn, hann hafi því verið úti en ekki inni í húsinu. Þá kvaðst ákærði ekki hafa fylgst með því hvað meðákærðu voru að gera og ítrekaði að hann hefði verið í heita pottinum. Ákærði kvað meðákærða Vytas hafa verið úti þegar lögreglu bar að garði, en hann viti ekki hvar meðákærði Adomas var. Ákærði ítrekaði að hann hafi hvorki vitað um né séð þau fíkniefni sem fundust í sumarbústaðnum og aðspurður  kvaðst hann ekki hafa séð meðákærða Vytas sýsla með fíkniefnin.

Ákærði kvaðst hafa verið nýkominn til landsins þegar atburður sá sem ákært er fyrir átti sér stað. Hann hafi komið nokkrum sinnum til landsins áður en ekki hafa unnið á Íslandi. Erfitt sé fyrir sig að muna hvenær hann hafi fyrst komið til landsins, en taldi að það hafi verið fyrir um tveimur eða þremur árum síðan. Þá hafi hann komið til landsins vegna sölu á fyrirtæki sínu í Hvíta-Rússlandi. Ákærði kvaðst ekki nota fíkniefni.

Ákærði, Vytas Vadeika, neitaði sök samkvæmt öðrum tölulið ákæru við þingfestingu málsins. Í skýrslutöku af ákærða fyrir dómi kom fram að hann hefði umrætt kvöld verið að hvíla sig í umræddum sumarbústað ásamt meðákærðu Arturas og Adomas. Kvaðst ákærði þekkja þá sem Litháa, samlanda sína, sem stundum komi til Íslands og hafa þekkt þá e.t.v. í eitt eða tvö ár. Ákærði kvað það hafa verið sameiginlega ákvörðun allra ákærðu að fara í sumarbústað en þeir hafi hist í bænum og fengið þá hugmynd að fara í sumarbústað. Ákærði kvaðst sjálfur hafa ætlað að leigja húsið, en það hafi ekki verið leyfilegt því hann hafi ekki greitt til Eflingar og því hafi M leigt sumarbústaðinn fyrir ákærða.  

Ákærði kvaðst hafa verið í heita pottinum, að drekka áfengi og grilla mat áður en lögreglu bar að garði og ekki orðið var við eldamennsku í bakaraofninum, enda verið úti að grilla matinn. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að meðákærði Adomas hafi verið með kókaín í sumarbústaðnum. Hann hafi heldur ekki aðstoðað meðákærða Adomas við að þurrka fíkniefni. Ákærði tók fram að hann hafi fyrst heyrt af fíkniefnunum við yfirheyrslu hjá lögreglu.

Aðspurður hvort ákærði hafi fundið lykt af eldamennskunni inni í húsinu, kvaðst hann vera nefbrotinn og eiga erfitt með að finna lykt. Ítrekað aðspurður um hvað hann og meðákærðu hefðu verið að gera, kvað hann þá hafa verið að drekka áfengi, farið í pottinn og þá hafi þeir reykt úti, því ekki megi reykja inni.

Ákærði kvaðst ekki hafa átt tösku í sumarbústaðnum en greindi frá því að hann hafi vísað lögreglu á leigusamninginn um sumarbústaðinn sem hafi verið í bílnum. Ákærði kvaðst hafa komið til Íslands árið 2000, og hafa búið hér síðan. Ákærði kvaðst sjálfur ekki nota fíkniefni.

 Vitnið B lögreglumaður, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa farið óeinkennisklæddur ásamt A lögreglumanni til að fylgjast með mannaferðum í orlofshúsinu nr.[...] í [...], líklega tveimur til þremur tímum áður en þeir fóru inn í húsið klukkan 00.40. Þeir hafi fengið aðgang að sumarhúsi sem staðsett sé fyrir ofan húsið nr.[...], þaðan sem þeir hafi fylgst með húsinu og verið þar í góðan tíma. Vitnið kvaðst hafa séð tvo menn, sem fimm til tíu sinnum, hafi farið inn á baðherbergi gegnt útidyrum hússins til að þvo sér um hendur og einu sinni hafi hann séð mann sækja þangað salernispappírsrúllu. Þá kom fram hjá vitninu að þar hafi verið um að ræða ákærða Adomas og Arturas en ákærða Vytas kvaðst vitnið ekki hafa séð fyrr en lögregla fór inn í húsið nr.[...]. Þar sem í ljós kom við vettvangsgöngu að frá húsinu nr.[...] sjáist ekki andlit þeirra sem standi við handlaug í umræddu baðherbergi sagði vitnið að hann og A hafi tekið vel eftir fatnaði þeirra sem fóru á baðherbergið og síðan hafi það komið í ljós þegar inn í húsið kom að um hafi verið að ræða  ákærðu Adomas og Arturas. Fram kom hjá vitninu að úr húsinu nr. [...] hafi hann hvorki séð sólpallinn þar sem heitur pottur og grillið hafi verið, né inn í eldhúsið. Vitnið kvað A hafa farið út til að kanna aðstæður betur og hafi hann verið í burtu, e.t.v. í þrjátíu mínútur, en vitnið kvaðst hafa orðið eftir og fylgst áfram með húsinu. Þegar A kom til baka hafi hann greint vitninu frá því að í húsinu væru þrír menn. Þeir hafi síðan fylgst áfram með húsinu eins og áður er lýst. Að einhverjum tíma liðnum, líklega hálftíma til klukkutíma áður en farið var inn í húsið nr.[...], hafi hann séð mann koma í dyragættina, beygja sig niður, horfa í kringum sig og skella útidyrahurðinni í lás og loka henni síðan. Skömmu síðar hafi þeir farið að hitta sérsveitarmenn úr Reykjavík við gatnamót Suðurlandsvegar og afleggjarans að Ölfusborgum. Þegar vitnið var spurt hvort útidyrahurðinni hafi verið lokað klukkan 23.00, eins og kom fram í vettvangsgöngu, ítrekaði vitnið að hann hefði ekki fylgst með tímanum en þó halda að hurðinni hafi verið lokað síðar. Nánar aðspurður greindi vitnið frá ferðum sínum og A stuttu eftir að útidyrum sumarhússins nr.[...] var lokað þar til lögregla fór inn í sumarhúsið klukkan 00:40. Fram kom hjá vitninu að hvorki hann né A hafi skráð hjá sér klukkan hvað útidyrum var lokað eða aðrar tímasetningar þar til þeir fóru inn í húsið nr[...] á áðurgreindum tíma. Fimm til fimmtán mínútum eftir að útidyrahurðinni var lokað hafi þeir haft samband við varðstjóra sem kallað hafi út sérsveitina til aðstoðar. Eftir það hafi þeir farið fótgangandi frá húsinu nr.[...] að þjónustumiðstöðinni þar sem bifreið þeirra var lagt. Þeir hafi ekið sem leið lá frá þjónustumiðstöðinni niður á Suðurlandsveg og lagt bifreiðinni þar. Síðan hafi þeir farið fótgangandi upp eftir aftur og farið veginn austan megin við húsið nr. [...]. Að einhverjum tíma liðnum hafi þeir farið aftur fótgangandi niður að Suðurlandsvegi og hitt þrjá sérsveitarmenn sem komnir voru úr Reykjavík og E lögreglumann frá Selfossi. Þá hafi þeir skipt liði. Sérsveitarmennirnir hafi ekið upp að húsinu austan megin og lagt bifreiðinni á bílastæði austan við húsið nr.[...], en vitnið, A og E hafi ekið upp að þjónustumiðstöðinni og gengið síðan þaðan upp að sumarhúsinu nr. [...] að vestan. Aðspurður hvað langt hafi liðið frá því þeir fóru frá sumarhúsinu nr. [...] þar til þeir fóru inn í sumarhúsið nr.[...], klukkan 00.40, sagðist vitnið að halda að það hafi liðið í kringum klukkustund og á þeim tíma hafi húsið ekki verið vaktað.

Vitnið kvaðst hafa séð A tala við einn ákærðu á sólpallinum og heyrt þegar Abað um leyfi til að fara inn í húsið. Vitnið kvaðst hafa farið að útidyrahurðinni, að austan, og einhver úr sérsveitinni hafi opnað fyrir honum. Aðspurður um viðbrögð ákærðu þegar lögregla kom inn í húsið sagðist vitnið ekki geta tjáð sig um fyrstu viðbrögð ákærðu þar sem hann hafi ekki farið fyrstur inn í húsið. Eftir að hann var kominn inn hafi ákærðu verið rólegir og ekkert sagt. Vitnið kvaðst hafa fundið sterka og megna leysiefnalykt þegar hann kom inn í húsið, en engin lykt hafi fundist fyrir utan húsið. Þegar hann kom inn hafi verið búið að opna bakaraofninn og vissi vitnið ekki hver gerði það, en þar inni hafi verið fjórir diskar með hvítu efni. Í hjónaherberginu hafi honum verið bent á einhverjar krukkur og skaftpott. Sérstaklega aðspurður hvað sést hafi af efnum og umbúðum þegar hann kom inn í húsið sagðist vitnið muna eftir diskunum inni í bakaraofninum. Þá minnti vitnið að á eldhúsborðinu hafi verið krukka með hvítu efni og tvær eða þrjár krukkur og skaftpottur í hjónaherbergi. Þá hafi eitthvert áhald verið á borði fyrir framan sjónvarpið, skeið eða annað áhald, með hvítum efnisleifum. Ákveðið hafi verið að handtaka ákærðu og þeir síðan færðir á lögreglustöðina á Selfossi, en vitnið kvaðst hafa beðið ásamt A eftir C, rannsóknarlögreglumanni, sem komið hafi upp eftir ásamt D lögmanni sem hafi verið viðstaddur leit í húsinu.

Vitnið kvað ákærðu ekki hafa verið áberandi drukkna. Nánar aðspurður kvað vitnið áfengisáhrif í fari ákærðu ekki hafa vakið athygli hans en í sólstofunni hafi verið bjórdósir. Ákærðu hafi ekki verið látnir blása í áfengismæli það vitninu sé kunnugt um. Nánar aðspurður um lyktina sem hann fann inni í húsinu sagði vitnið að hún hefði ekki átt að fara fram hjá nokkrum manni. Aðspurður um mynd sem tekin var inni í hjónaherberginu kvaðst vitnið ekki muna hvort hann sá skaftpottinn eða að honum hafi verið sagt að þarna hefði verið skaftpottur og vitnið gat ekki tjáð sig um hvort búið var að hreyfa við pottinum, en muna eftir að hafa séð tvær krukkur á gólfinu en gat ekki tjáð sig um það hvort hreyft hafi verið við þeim. Vitnið kvað efnin hafa verið flutt niður á Selfoss, líklega hafi diskarnir verið settir í poka með efnunum á.

Aðspurður um afskipti hans af vettvangsrannsókn kom fram hjá vitninu að hann hafi leitað í tösku ásamt E og þar hafi fundist dunkur með Creatine og poki með hylkjum. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið myndir af vettvangi áður en rannsóknarlögreglumaður kom á vettvang. E hafi verið með myndavél en vitnið mundi ekki hvort hann hafi tekið myndir af vettvangi. Vitnið mundi ekki eftir hvort hann hafi notað hanska við leitina en kvaðst ekki haft hreyft við ætluðum fíkniefnum. Vitnið kvaðst hafa kannað heita pottinn sem hafi verið lokaður en vatnið heitt. Vitnið mundi ekki hvort eitthvað hafi bent til þess að potturinn hafi verið notaður nýlega. Vitnið kvaðst einnig hafa kannað grillið sem hafi verið lokað en án yfirbreiðslu en hann hafi ekki fundið hita á því. Þá hafi hann fylgst með þegar innihald ruslapoka var skoðað og mundi eftir að þar hafi verið bréf af kjöti og þá hafi verið súpa eða eitthvað slíkt í potti á hellu á eldavélinni.

Vitnið A, lögreglumaður, kom fyrir dóm og staðfesti frumskýrslu sína í málinu. Vitnið greindi frá aðdraganda afskipta hans af málinu á sama veg og vitnið B. Vitnið kvað þá hafa komið í húsið nr. [...] um klukkan 21.30 og þar hafi þeir verið til klukkan 23.00. Úr húsinu nr.[...] hafi þeir ekki séð annað en mannaferðir í geymslu, sem í var pappír og hreinsiefni, og baðherbergi gegnt útidyrunum og verið þess fullvissir að tveir menn væru í húsinu. Nánar aðspurður sagði vitnið að andlit mannanna hefðu ekki sést, aðeins hafi sést upp að miðjum brjóstkassa. Vitnið kvaðst með fullri vissu, út frá klæðnaði þeirra sem fóru inn á baðherbergið, geta sagt að umræddir tveir menn hafi verið ákærðu Vytas og Arturas og hafi þeir farið inn á salernið fimmtán til tuttugu sinnum.

Síðar um kvöldið hafi hann farið út til að fá annað sjónarhorn á húsið. Þá hafi hann séð að þrír menn voru í húsinu og að allar dyr voru opnar upp á gátt. Vitninu kvaðst ekki hafa fundist þarna væri dæmigerð „sumarbústaðastemming“. Honum hafi virst stress vera í gangi og mennirnir meðvitaðir um umhverfi sitt. Síðan hafi hann farið aftur inn í húsið nr. [...]. Á tilteknu tímamarki, líklega rétt fyrir miðnætti, þegar einn mannanna, ákærði Arturas, lokaði útidyrahurðinni, kvaðst vitnið hafa grunað að ákærðu vissu af þeim því sá sem lokaði hurðinni, hafi beygt sig niður og eins og hann væri að rýna upp að gluggunum þar sem þeir lögreglumennirnir voru. Í framhaldinu hafi þeir tekið ákvörðun um að fara niður að Suðurlandsvegi þar sem þeir hafi verið búnir að mæla sér mót við sérsveitina og kvaðst vitnið vera nokkuð viss um að það hafi verið um miðnætti, en vitnið kvaðst ekki hafa skráð niður tímasetningar en fylgst með tímanum af og til og benti á að án efa hafi varðstjórinn, H, bókað klukkan hvað óskað var eftir sérsveitinni. Vitnið lýsti ferðum sínum og vitnisins B eftir að þeir yfirgáfu húsið nr.[...] með sama hætti og vitnið B. Þeir hafi farið gangandi frá húsinu nr. [...], fyrst eilítið upp eftir svæðinu til að vera í skugga, og gengið síðan niður að þjónustumiðstöðinni. Þar hafi lögreglubifreið verið lagt og þeir ekið sem leið lá niður á Suðurlandsveg að gatnamótunum við [...] og lagt bifreiðinni á afleggjara beint á móti afleggjaranum að [...]. Tilgangur fararinnar hafi verið að mæla sér mót við sérsveitarmennina. Þeir hafi síðan ákveðið að fara aftur gangandi upp að húsinu til að líta aðeins betur á málið, eins og vitnið orðaði það. Þegar þangað kom hafi þeir stoppað í um fimm mínútur áður en þeir gengu aftur niður á Suðurlandsveg þar sem þeir hittu sérsveitarmennina þrjá og E  lögreglumann. Líklega hafi klukkan þá verið 00:10 til 00:20. Fljótlega hafi þeir farið aftur af stað upp eftir og þá akandi. Vitnið var í bifreið sem lagt var við þjónustumiðstöðina og þaðan hafi þeir gengið að húsinu nr.[...] og farið beint inn en sérsveitamennirnir hafi farið afleggjarann austan við húsið nr. [...] og lagt bifreið sinni á bílastæði rétt austan við húsið. Þessi ferð hafi í allt tekið 20-25 mínútur. Á þeim tíma hafi enginn lögreglumaður verið á vettvangi. Nánar aðspurður taldi vitnið að á tímabilinu frá miðnætti, 00:00 til 00.40, hafi enginn vaktað húsið á um 20 mínútna tímabili, þ.e. eftir að þeir fóru niður á Suðurlandsveg í síðara skiptið.   

Þegar upp að húsinu kom hafi þeir ákveðið fara inn í húsið. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða Vytas á sólpallinum og beðið um leyfi til að fara inn í húsið. Ákærði Vytas hafi ekki sýnt merki þess að hann vildi ekki að farið væri inn í húsið og hafi hann rétt út höndina og vísað honum á dyrnar á sólstofunni. Þar inni hafi ákærðu Adomas og Arturas setið. Með sér í för hafi verið þrír menn frá sérsveitinni og E. Aðspurður sagði vitnið að viðbrögð ákærðu hafi verið svo að segja engin og vitnið kvaðst ekki hafa merkt mun á viðbrögðum ákærðu.

Vitnið lýsti því að þegar inn í húsið kom hafi verið eins og að ganga á vegg slík hafi lyktin verið. Um hafi verið að ræða gríðarlega sterka og þunga lykt af olíu og leysiefnum sem erfitt sé að lýsa með orðum og ekki hafi verið auðvelt að vera þarna inni. Lyktin hafi því ekki getað farið fram hjá nokkrum manni en hann kvaðst aðspurður ekki hafa fundið lyktina fyrir utan húsið. Vitnið kvað ákærðu ekki hafa verið ölvaða að sjá en það geti verið að þeir hafi verið búnir að drekka áfengi. Í húsinu hafi verið bjórar og minnti vitnið að þar hafi einnig verið snafs. Ákærðu hefðu ekki verið látnir blása í áfengismæli og vitnið vissi ekki hvort svo hefði verið gert. Þá kom fram hjá vitninu að hann hafi ekki merkt að ákærðu hafi verið slæptir vegna lyktarinnar í húsinu.

Vitnið kveðst hafa gengið í átt að forstofu og opnað fyrir félaga sínum, B, og síðan farið að skoða í skápa en aðrir lögreglumenn hafi farið inn í eldhúsið þar sem kveikt var á bakarofni og þar inni hafi verið ætluð fíkniefni. Þá hafi verið ákveðið að handtaka ákærðu og tryggja vettvang. Ákærðu hafi síðan verið fluttir á Selfoss og C rannsóknarlögreglumaður komið og tekið yfir rannsókn vettvangs, ljósmyndað hann og ráðstafað þeim hlutum sem þar voru. Nánar aðspurður um þátttöku hans í leit í húsinu kom fram hjá vitninu að hann hafi ekkert séð á baðherberginu. Þá hafi verið kallað á hann og honum bent á diska inni í bakarofni með hvítu duftkenndu efni og fram kom hjá vitninu að E lögreglumaður hafi tekið umrædda diska út úr bakaraofninum og sett þá á eldhúsborðið. Einnig kom fram hjá vitninu að diskarnir hafi enn verið á borðinu þegar rannsóknarlögreglumaðurinn tók myndir af borðinu en vitnið ítrekaði að þannig hafi það ekki verið þegar hann kom á vettvang. Umræddir diskar hafi verið inni í bakarofni á plötu u.þ.b. í miðjum ofninum, en vitnið vissi ekki hvort bakaraofninn var opinn þegar lögregla kom á vettvang en hann hafi fundið að ofninn var heitur. Fram kom hjá vitninu að á ofni við hliðina á eldhúsinnréttingu hafi verið súpuskál með talsverðu magni af hvítu efni.

Vitnið kvað hjónaherbergið hafa verið lokað þegar þeir komu inn í húsið en þegar hann leit inn í herbergið hafi krukkur með hvítu efni verið á gólfinu til fóta og skaftpottur með hvítu efni að hluta til undir rúminu en hann hafi sést úr standandi stöðu eins og vitnið orðaði það. Vitnið vissi ekki hver færði skaftpottinn á þann stað sem hann sést á mynd á dskj. nr. 6, skjal nr. I. 13.1.5 Þá hafi verið taska á hjónarúminu sem ákærði Arturas hafi viðurkennt að hafa átt. Í umræddri tösku hafi verið vigt en vitnið kvaðst engin viðbrögð hafa fengið frá ákærða Arturas þegar hann spurði hann hver ætti vigtina. Aðspurður um það sem við blasti  þegar hann kom inn í húsið sagði vitnið að það hafi verið diskur á stofuborði og á honum hafi verið gluggaskafa og eitthvað hvítt kám sem hafi vakið grunsemdir hans um að fíkniefnaneysla hefði verið í húsinu. Hins vegar hafi lyktin í húsinu átt hug hans allan fyrst eftir að hann kom inn. 

Vitnið kvað hina formlegu leit hafa hafist þegar rannsóknarlögreglumaðurinn var kominn á vettvang ásamt lögmanni til að gæta hagsmuna ákærðu. Fram kom hjá vitninu að diskar hafi verið á eldhúsborðinu þegar rannsóknarlögreglumaðurinn kom og myndaði vettvang en þannig hafi það ekki verið þegar lögregla kom inn í húsið, þá hafi diskarnir verið í bakaraofninum á einni bökunarplötu líklega í miðjum ofni. Þá minnti vitnið að líklega hafi ekki verið teknar myndir af vettvangi áður en ílát með hvíta duftinu var hreyft og flutt til. Vitnið kvaðst ekki hafa handfjatlað efnin og því ekki geta sagt til um hvort þau voru blaut en litarmunur hafi verið á þeim. Hann hafi þó aðstoðað við að prófa efnin og þá hafi hann einnig tekið þátt í að pakka og merkja hina haldlögðu muni en ílátin með efnunum hafi verið sett í sýnapoka og innsigluð.

Aðspurt kvaðst vitnið hvorki hafa séð reyk stíga upp af grillinu á sólpallinum né fundið „grilllykt“ þegar hann var úti en vitnið kvaðst ekki hafa kannað hvort grillið var heitt þegar hann fór inn í húsið. Heiti potturinn hafi verið lokaður en heitt vatn í honum.  

Vitnið E, lögreglumaður, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa komið frá Selfossi á sama tíma og lögreglumennirnir frá ríkislögreglustjóra en gat ekki greint frá því hvað klukkan var þá. Vitnið kvaðst hafa farið inn í húsið um dyr á sólpalli. Einn ákærðu hafi staðið út á palli að reykja þegar þeir nálguðust húsið. Maðurinn, sem vitnið gat ekki greint frá hver hafi verið, hafi horft í átt að bílastæðinu þar sem rannsóknarlögreglumennirnir höfðu lagt merktri lögreglubifreið undir ljósastaur, líklega 50 -70 m. frá húsinu. Aðspurður kvað vitnið manninn ekki hafa sýnt viðbrögð við þá sjón. Þegar inn kom hafi einn hinna ákærðu setið í sólstofunni og annar í sófa í stofunni. Fram kom hjá vitninu að sterk lykt hafi verið í húsinu. Þegar þeir fóru að skoða sig um hafi þeir séð diska, áhöld og krukkur á eldhúsborðinu. Kveikt hafi verið á bakarofni og hurð hans opin til hálfs. Vitnið kvaðst hafa slökkt á ofninum og tekið út fjóra diska og sett þá á eldhúsborðið og staðfesti vitnið að hafa sett þá á borð það sem sést á mynd á dskj. nr. 6, nr. I. 13.1.2. Síðar kom fram hjá vitninu að hann hafi verið í hönskum þegar hann tók diskana úr ofninum og að hann hafi reiknað með að gerð yrði fingrafararannsókn. Þá hafi verið djúpur diskur á ofni í eldhúsi sem hann hafi einnig tekið og sett á eldhúsborðið. Þann disk kvaðst vitnið hafa sett aftur á ofninn þar sem mynda þurfti vettvang eins og hann var þegar komið var inn í húsið fyrst. Aðspurður kvaðst hann hafa fært til þessa muni til að tryggja vettvang og sönnunargögn og nánar aðspurður kvaðst hann hafa talið rétt að taka diskana, sem voru úr leir, úr ofninum sem hafi verið heitur. Vitnið kvaðst aðspurður hafa látið lögreglumennina sem með honum voru vita af því að hann færði umrædda diska. Aðspurður kvaðst hann ekki vera viss um hvort hann hafi greint rannsóknarlögreglumanninum C, sem kom síðar á vettvang, frá því að hann hafi fært diskana. Síðan hafi leit haldið áfram og þá hafi þeir séð fleiri krukkur og pott undir hjónarúmi. Að mati vitnisins hafi staðsetning þessara muna bent til þess að þá ætti að fela. Í hjónaherberginu hafi einnig verið taska ofan á rúminu og önnur taska á gólfinu í öðru herbergi og í henni hafi fundist einhvers konar töflur og keratín dunkur. Vitnið tók fram að hann hefði ekki mikla reynslu af svona málum og ekki þekkja til fíkniefnaframleiðslu. Þegar hann kom fyrst inn hafi það fyrst og frest verið lyktin sem vakti athygli hans en síðan þegar hann sá efnin í ofninum hafi hann áttað sig á málinu. Vitnið sagði að rætt hefði verið um að mynda vettvang í upphafi en vitnið minnti að það hafi ekki verið gert en hann hafi haft myndavél meðferðis. Fram kom að matarleifar hafi verið í ruslapoka og umbúðir af grillkjöti og þá hafi verið lítilræði í ísskápnum. Vitnið kvaðst ekki hafa kannað grillið en það hafi verið lokað. Einhver lögreglumannanna hafi opnað heita pottinn og hafi rokið úr honum. Vitnið kvaðst ekki hafa merkt áfengisáhrif á ákærðu og þau hafi ekki verið könnuð. Áfengisumbúðir hafi verið á borði og gólfi í sólstofu, líklega bjór og eitthvert sterkt áfengi.

Vitnið C rannsóknarlögreglumaður, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa verið kallaður á vettvang og hafi D lögmaður farið með honum til að vera viðstaddur leit. Þegar hann kom í sumarhúsið hafi þrír lögreglumenn frá Selfossi verið þar fyrir. Talsverð lykt hafi verið í húsinu en hún hafi alls ekki verið óbærileg.   Vitnið kvaðst hafa tekið ljósmyndir þær sem liggja frammi í málinu af því sem við sem við blasti þegar hann kom á vettvang. Vitnið kvað lögreglumennina á staðnum hafa tekið fíkniefnin saman og flutt á lögreglustöðina eftir að vitnið fór af vettvangi. Aðspurt mundi vitnið ekki í hvernig pakkningum efnin voru þegar hann fékk þau afhent á lögreglustöðinni. Vitnið kvaðst ekki hafa snert á efnunum og ekki vita hvort þau voru þurr eða blaut.  Sérstaklega aðspurður um súpuskál ofan á ofni sagði vitnið að myndin sýni hvar súpuskálin var þegar hann kom á vettvang, þ.e. ofan á ofni í eldhúsi. Við komu hafi honum verið vísað á eldhúsborð þar sem diskar með hvítu efni hafi verið. Vitnið ítrekaði að allar myndir sem hann tók, dskj. nr. 6 skjal nr. I. 13.1.1 – 13.1.7, sýni vettvang eins og hann var þegar vitnið kom á staðinn. Á lögreglustöðinni hafi hann síðan gengið frá efnunum og hafi þau farið til tæknideildar í Reykjavík í þeim umbúðum sem þau voru á vettvangi. Aðspurður hvort hann hafi framkvæmt leit á staðnum svaraði vitnið því til að ástandið hafi verið fryst. Vitnið staðfesti að fingrafararannsókn var ekki gerð. Borið var undir vitnið framburður vitnisins E þess efnis að hann hafi fært diska sem sjást á mynd á eldhúsborðinu, dskj. 6 skjal nr. I. 13. 1.2, úr bakaraofninum eftir að lögregla kom á vettvang. Vitnið kvaðst ekki hafa verið kunnugt um að umræddir diskar hafi verið færðir.  Aðspurt um disk á borði í stofu með gluggasköfu og hvítum efnisleifum mundi vitnið ekki hvort hann var rannsakaður en benti á að ef þessi diskur sé ekki á rannsóknarbeiðni á dskj. nr. 6, skjal nr. II. 1.1, þá hafi hann ekki verið rannsakaður. Vitnið gat að öðru leyti ekki greint frá því hvað um þennan disk varð. Fram kom hjá vitninu að þegar hann myndaði vettvang og einnig þegar hann yfirheyrði ákærðu hafi hann ekki vitað að diskar þeir sem voru á eldhúsborðinu hefðu verið inni í bakaraofninum þegar lögregla kom á vettvang og að þeir hefðu verið færðir úr bakaraofninum á eldhúsborðið áður en vitnið tók myndir þær af vettvangi sem liggja frammi í málinu. Honum hafi ekki verið tilkynnt um þetta. Sama hafi átt við um krukkur með fíkniefnum fyrir aftan hjónarúmið. Honum hafi hvorki verið kunnugt um að þær hafi verið undir rúminu þegar hann tók myndir af vettvangi né þegar hann yfirheyrði ákærðu. Hins vegar hafi lögreglumennirnir á vettvangi rætt um það að skaftpotturinn með efnum í hjónaherberginu hafi verið aðeins undir hjónarúminu þegar þeir komu fyrst inn í húsið. Aðspurður um krukku á gólfi við höfðagaflinn á hjónarúminu, sbr. mynd á dskj. nr. 6, skjal nr. I. 13. 1.5, kvað vitnið þá krukku hafa verið tóma. Vitnið tók fram að öll ílát sem innihéldu hvít efni hafi verið haldlögð. Fram kom að vogin hafi ekki verið rannsökuð en hún hafi verið gerð upptæk þar sem alkunna sé að slíkar vogir séu notaðar til að vigta fíkniefni. Fram kom hjá vitninu að engar söluumbúðir fyrir fíkniefni hafi fundist á vettvangi. Hins vegar hafi verið haldlagðir vökvar, aceton, því grunur var um að þeir hafi verið notaðir við meðhöndlun fíkniefnanna.

Aðspurður hvort reynt hefði verið að upplýsa í hvaða herbergjum ákærðu hefðu sofið sagði vitnið að ákærðu hefðu svarað því til að þeir hafi sofið í þeim herbergjum sem voru laus hverju sinni. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærðu Adomas og Arturas um töskurnar sem fundust í herbergjunum. Vitnið kvaðst hafa kannað vettvang, m.a. gengið um sólpallinn en þar hafi ekkert sérstakt vakið athygli hans en þarna hafi verið ummerki um mat, ruslapoki og umbúðir af kjöti og áfengisílát í sólstofu. Fram kom að vitnið ritaði ekki skýrslu um komu sína á vettvang.   

 Vitnið I, lögreglumaður hjá ríkislögreglustjóra, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið var einn þriggja sérsveitarmanna sem aðstoðaði lögreglu á Selfossi við rannsókn málsins. Vitnið kvað ákærðu hafa veitt leyfi til að skoða sumarhúsið og minnti vitnið að hann hafi gengið inn í húsið af sólpallinum. Vitnið mundi ekki hvort einn eða tveir menn hafi verið á sólpallinum. Um leið og þeir komu inn hafi þeir fundið kemíska eða sterka lykt í húsinu og þá hafi vaknað grunur um framleiðslu ólöglegra efna og í framhaldi af því hafi ákærðu verið handteknir. Vitnið taldi að lyktin hafi ekki getað farið fram hjá fólki. Vitnið kvaðst hafa gætt þeirra handteknu og ekki komið að leit eða könnun á vettvangi. Vitnið kvað matardiska og undirskálar með hvítu efni hafa verið á víð og dreif um húsið, á borðum og ofnum. Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta lýst því nánar hvar umræddir diskar hafi verið staðsettir, aðeins muna eftir að hafa séð diska með efnum á í umrætt sinn en ekki muna hvort diskar hafi verið inni í bakarofni.  

Vitnið J, lögreglumaður hjá ríkislögreglustjóra, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa hitt lögreglumenn frá Selfossi á Suðurlandsvegi við afleggjarann að [...]. Þeir hafi farið að sumarhúsinu og séð í fljótu bragði að þar voru þrír menn. Einn þessara manna hafi gefið þeim leyfi til að fara inn um dyr að stólstofu. Lyktin í húsinu, sem hafi verið sterk, hafi líkst lykt af grillolíu sem ekki kviknar strax í. Vitnið kvaðst hafa gengið inn eftir húsinu til að kanna hvort fleiri væru í húsinu eða einhver efni. Þegar hann gekk til baka hafi hann séð opinn bakaraofn og lögreglumann sem stóð fyrir framan hann og hélt á diski með hvítu dufti á. Þá kvaðst vitnið hafa grunað að þarna væri saknæmt athæfi í gangi og kvaðst vitnið þá strax hafa „hengt sig á“ einn hinna ákærðu, eins og vitnið orðaði það, og verið á pallinum þar til hann tók þátt í að flytja hina ákærðu á Selfoss. Vitnið kvaðst hafa einbeitt sér að því að passa upp á þennan mann og því ekki fylgst mikið með því sem hinir lögreglumennirnir voru að gera.

Vitnið K, lögreglumaður hjá ríkislögreglustjóra, gaf skýrslu fyrir dómi. Lýsti aðkomu að húsinu með svipuðum hætti og vitnið J. Vitnið kvaðst hafa fundið greinilega lykt sem einna helst hafi líkst grillvökvalykt. Vitnið kvaðst ekki hafa farið inn í húsið strax. Líklega hafi tveir ákærðu verið á pallinum. Síðar hafi hann farið í gegnum húsið til að ganga úr skugga um að ekki væru fleiri menn í húsinu en ekki tekið þátt í leit í húsinu.

Vitnið L, fóstursonur ákærða Vytas, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið bar að hann hafi þann 26. og 27. október sl. verið skráður fyrir bifreiðinni NT-779, af gerðinni Land Rover, sem vitnið hafi þó aldrei notað, og kvað vitnið fósturpabba sinn í raun eiga umrædda bifreið. Vitnið kvað aðkomu sína að leigu sumarbústaðarins hafa verið þá að hann hafi túlkað fyrir ákærðu hjá Eflingu í Reykjavík, en vinur ákærðu hafi leigt húsið. Vitnið kvaðst ekki vita hvort viðkomandi var með í sumarbústaðaferðinni. Vitnið kvaðst ekki eiga aðra aðkomu að málinu. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa heyrt ákærðu tala um fíkniefni í sambandi við sumarbústaðaferðina, en séð áfengi í bílnum og ætlað að þeir væru að fara að „djamma“. Vitnið kvaðst ekkert hafa spurt ákærðu út í umrædda sumarbústaðaferð.

Vitnið M, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið bar fyrir dómi að hann væri kunningi ákærðu og hafa leigt sumarhús nr.[...] í [...] þann 26. okt. sl. af Eflingu,  að beiðni ákærða Vytas. Vytas hafi verið með í för þegar gengið var frá leigu bústaðarins, en ekki ákærðu Arturas og Adomas. Vitnið kvaðst ekki hafa farið með í sumarbústaðinn. Undir vitnið var borinn framburður L um að ákærðu hefðu allir verið viðstaddir samningsgerð um leigu bústaðarins, ítrekaði vitnið að þeir hefðu ekki farið með sér inn á skrifstofuna, en það hefði ákærði Vytas gert.

Vitnið F, prófessor hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, gaf skýrslu í gegnum síma fyrir dómi. Vitnið staðfesti matsgerðir sínar. Þá bar vitnið að mest af því kókaíni sem hér sé á markaði sé á formi kókaínklóríðs, það komi þó fyrir að kókaín sé einnig á formi kókaínbasa. Vitnið kvað styrkleika umræddra sýna hafa verið mismunandi. Fram kom hjá vitninu að engar rannsóknir hafi verið gerðar hér á landi á styrk kókaíns í neysluformi, en það hafi verið gert í Danmörku. Á styrkleika þar séu miklar sveiflur frá aldamótum, frá því að vera 18% kókaínklóríð, upp í að vera 48%. Kveðst vitnið þá eiga við götustyrkleika, en það sem sent hafi verið til rannsóknar hér sé að meðaltali í kringum 50% kókaínbasi. Vitnið greindi frá því að hægt sé að þynna kókaínið en ekki hafi verið rannsakað hverju sé blandað í efnin til þynningar. Aðspurt um hvað gerist þegar acetoni sé hellt yfir kókaín kvaðst vitnið ekki alveg átta sig á því hvernig slíkt sé gert. Ef efnin hafi verið í formi kókaínklóríðs hefði það átt að leysast upp í acetoninu, s.s. kókaínklóríðið, og þá verði að fella það út aftur eða umkristalla það úr þessu acetoni. Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta sett þessar aðferðir í samband við það að efnið hafi verið geymt í jörðu, kókaín sé ekki mjög stöðugt efni og það fari mikið eftir við hvaða aðstæður það sé geymt. Efnið þoli ekki vel raka, sérstaklega ef umhverfið er svolítið basískt en hins vegar hafi hiti líka áhrif, og reiknar vitnið með að hafi efnið verið geymt í jörðu þá sé hitinn ekki mikið meira en um 4-5 stig þegar best lætur og geti farið í frost og ætti það að draga úr niðurbrotshraða. Hafi menn hugsað þetta þannig að þeir séu að hreinsa niðurbrotsefnin frá kókaínefninu sjálfu, kvaðst vitnið hins vegar ekki átta sig á því hvernig þeir hafi ætlað að gera það. Vitninu datt í hug að menn hafi verið hræddir um að  mikið niðurbrot hafi orðið og hafi þess vegna þurft að hreinsa það, en ítrekaði að hann áttaði sig ekki á því hvernig þeir hafi ætlað að skilja þessi efni að með leysiefninu acetoni. Vitnið ítrekaði að kókaín væri ekki mjög stöðugt efni og þyldi ekki langa geymslu við óheppilegar aðstæður, t.d. rakt umhverfi og basískt, þá sundrist það tiltölulega fljótt. 

Nánar aðspurt kvaðst vitnið hafa fengið ellefu sýni til skoðunar. Ekki sé óalgengt að ekki sé sama þyngd á matsbeiðni, sbr. dskj. nr. 6. skjal nr. II. 2.1.1, og þyngd sem komi fram í matsgerð og séu nokkrar skýringar á því. Við komu í rannsóknarstofu sé vegið það sem náist úr umbúðunum frá lögreglu. Mismunurinn geti verið hvernig það gangi, t.d. ef raki er í efnunum og einnig geti efnin hafa bundist innan á yfirborð pokanna. Aðspurt sagði vitnið að rakastig hafi ekki verið mælt í sýnum, en ef efnið sé greinilega blautt sé það þurrkað og að í slíkum tilvikum sé greinilega greint frá því í matsgerð. Fór vitnið yfir muninn á þyngd sýnis nr. 1, skv. efnaskrá lögreglu annars vegar og matsgerð hins vegar og kvað að hvorttveggja gæti verið að efnið hafi ekki náðst betur úr pokanum, eða að það hafi gufað upp, en það gerist tiltölulega hratt ef leysirinn, acetonið, hafi enn verið í efnunum. Kvað vitnið acetonið hafa verið mælt í efnunum í samanburðarprófum. Ítrekar vitnið að þessi munur á þyngd sé eðlilegur, og geti komið til við meðhöndlun á efnunum, þeim sé vakúmpakkað, og þá gufi úr þessu leysiefni. Kvað vitnið að ef efnið yrði vigtað á ný í dag gæti verið að efnið mældist léttara. Vitnið kvað hvergi hafa komið fram í matsbeiðni hvort efni hafi verið blaut eða í þeim hafi verið íblöndunarefni. Aðspurt kvað vitnið kókaín vera þurrkað t.d. í bakarofni, og taki það líklega um hálfa til eina klukkustund. 

Vitnið G, verkefnastjóri hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, gaf skýrslu í gegnum síma fyrir dómi. Vitnið staðfesti matsgerðir sínar. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu sérstöku við umrædd sýni, þetta hafi verið nokkuð venjuleg sýni. Aðspurður um styrkleika götuefna, þ.e. efna í neytendapakkningum, kom fram hjá vitninu að það hafi ekki verið rannsakað sérstaklega hér á landi. Vitnið kvaðst þekkja til rannsókna sem framkvæmdar séu árlega í Danmörku, en þar sé styrkleikinn nokkuð breytilegur. Á síðasta ári hafi meðalstyrkleiki á kókaínklóríði í Danmörku verið 24%, þar á undan 18%, og hafi styrkleikinn farið heldur lækkandi á undanförnum árum. Þá staðfesti vitnið einnig matsgerð, dags. 25. 11. 2011. Kvað vitnið aceton vera leysi sem stundum sé notaður í kókaínframleiðslu, en vitninu sé ekki kunnugt um að edik sé notað í framleiðslu efnisins, og mundi ekki til þess að terpentína sé notuð nema í upphafsskrefum framleiðslunnar þegar kókaín er dregið úr laufum, en í matsgerðinni komi fram að öll þessi efni hafi fundist í sýnunum. Kvaðst vitnið ekki þekkja áhrif þess að efnin hafi legið í jörðu í heilt ár.

Niðurstaða

Ákæruliður 1.

Ákærði, Adomas Daubaris, hefur skýlaust játað að hafa, haustið 2010, staðið að innflutningi á 374,34 g af kókaíni en fíkniefnin flutti hann til landsins í ferðatösku og faldi þau í jörðu. Sannað er með vísan til skýlausrar játningar ákærða, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, að ákærði er sekur um innflutning á umræddu kókaíni til landsins haustið 2010 eins og nánar er rakið í fyrri tölulið ákæru.

Ákærði hefur hins vegar neitað að umrædd fíkniefni hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Ákærði greindi frá því fyrir dómi að hann hafi ætlað að dvelja hér á landi og fá vinnu. Fíkniefnin hafi hann ætlað til eigin nota. Vinnu hafi hann ekki fengið og því þurft að yfirgefa landið strax og farið til London og af þeim sökum hafi hann grafið fíkniefnin í jörðu. Ákærði tók fram að hann hafi aldrei sagt í skýrslutökum hjá lögreglu að hann notaði ekki fíkniefni, en vildi ekki svara því hversu oft hann notaði kókaín. Þá kvaðst ákærði ekki geta svarað því hversu lengi umrædd fíkniefni hefðu átt að endast honum.

Eins og að framan er rakið bar ákærði fyrir dómi að umrædd 374,34 g af kókaíni hafi verið ætluð til eigin nota. Um var að ræða töluvert magn af kókaíni og reyndist styrkleiki meginhluta efnisins, eða 369,13 g, á bilinu 50% - 52%, sem bendir eindregið til þess að drýgja hefði mátt efnin all nokkuð. Í framburði vitnisins F, prófessors við Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði kom fram að kókaín sem komið hefur til rannsóknar hér á landi sé að meðaltali í kringum 50%. Framburður ákærða um eigin fíkniefnaneyslu og áform um neyslu umræddra efna er um margt óljós og ótrúverðugur. Ákærði, sem er erlendur ríkisborgari, kom til landsins haustið 2010, að eigin sögn til dvalar án þess þó að eiga vinnu vísa, gróf efnin í jörðu áður en hann fór af landinu en vitjaði þeirra ári síðar, sbr. síðari tölulið ákæru. Þykir það ekki benda til þess að fíkniefnin  hafi verið ætluð til eigin neyslu. Þá er magn fíkniefnanna að mati dómsins það mikið að fullvíst megi telja að fíkniefnin hafi að verulegu leyti verið ætluð til sölu. 

Þegar allt framangreint er virt í heild sinni er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að þau fíkniefni sem tilgreind eru í fyrri tölulið ákæru, og ákærði hefur viðurkennt að hafa flutt til landsins, hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Með hliðsjón af því verður ákærði, Adomas Daubaris, sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í fyrri tölulið ákæru, og telst hún rétt færð til refsiákvæða.  

Ákæruliður 2.

Í síðari tölulið ákæru er öllum ákærðu gefið að sök vörslur og meðferð umræddra 374,34 g af kókaíni í sumarhúsi nr.[...] í [...] aðfaranótt fimmtudagsins 27. október 2011, og að hafa ætlað efnin til söludreifingar í ágóðaskyni.

Ákærði, Adomas Daubaris, hefur viðurkennt vörslur og meðferð á umræddum fíkniefnum. Ákærði lýsti því fyrir dómi hvernig hann stóð að þurrkun efnanna sem var í gangi þegar lögreglan handtók ákærðu í sumarhúsinu. Sannað er með vísan til skýlausrar játningar ákærða, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, að ákærði er sekur um vörslur og meðferð ofangreindra fíkniefna aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl., eins og nánar er lýst í síðari tölulið ákæru. 

Ákærði hefur hins vegar neitað að umrædd fíkniefni hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni og segir þau hafa verið ætluð til eigin nota. Við leit í sumarhúsinu nr.[...] í [...] fundust 374,34 g af kókaíni. Um var að ræða töluvert magn af kókaíni og reyndist styrkleiki meginhluta fíkniefnanna, eða 369,13 g, á bilinu 50% - 52%, sem bendir eindregið til þess að drýgja hefði mátt efnin all nokkuð. Eins og rakið er í fyrri tölulið ákæru var framburður ákærða um eigin fíkniefnaneyslu og áform um neyslu umræddra efna um margt óljós og ótrúverðug. Þá þykir sú staðreynd að ákærði, sem er erlendur ríkisborgari og stundar hvorki atvinnu né á fjölskyldu hér á landi og kom aftur til landsins til að vitja umræddra efna benda til að hann hafi ætlað efnin til sölu hér á landi í ágóðaskyni. Þá er magn fíkniefnanna að mati dómsins það mikið að fullvíst megi telja að fíkniefnin hafi að verulegu leyti verið ætluð til sölu. 

Þegar allt framangreint er virt í heild sinni er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að þau 374,34 g af kókaíni sem fundust í sumarhúsinu nr.[...] í [...] aðfaranótt 27. október sl., hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Með hliðsjón af því verður ákærði, Adomas Daubaris, sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í síðari tölulið ákæru, og telst hún rétt færð til refsiákvæða.    

Ákærðu Arturas Urmonas og Vytas Vadeika neita sök samkvæmt síðari tölulið ákæru. 

Fyrir dómi kvaðst ákærði, Arturas, hafa farið í sumarhúsið ásamt meðákærðu Adomas og Vytas, sem hann þekki lítillega, til að hvíla sig. Þeir hafi drukkið áfengi og verið vel drukknir. Hann hafi hjálpað meðákærða Vytas að grilla og verið nýbúinn að klæða sig eftir klukkutíma dvöl í heita pottinum þegar lögregla kom inn í húsið. Tók ákærði fram að hefði lögregla fylgst með þeim í tvo klukkutíma þá hefði hún átt að taka eftir því að hann hafi verið í heita pottinum í klukkutíma og verið nýbúinn að klæða sig þegar lögreglan kom. Ákærði kvaðst því ekkert hafa fylgst með því sem fram fór í sumarhúsinu, ekki komið nálægt bakaraofninum og því hvorki vitað um né séð þau fíkniefni sem fundust í sumarbústaðnum. Þá greindi ákærði frá því að hann notaði ekki fíkniefni.

Fyrir dómi kvaðst ákærði, Vytas, hafa verið umrætt kvöld í sumarhúsinu til að hvíla sig ásamt meðákærðu Adomas og Arturas, samlöndum sínum, sem stundum komi til Íslands. Þeir hafi hist í bænum og tekið sameiginlega ákvörðun um að fara í sumarbústað. Hann hafi ekki getað leigt húsið þar sem hann borgi ekki gjald til stéttarfélags og því hafi vitnið M tekið húsið á leigu í sínu nafni. Eins og ákærði Arturas kvaðst ákærði Vytas hafa drukkið áfengi, reykt úti, farið í heita pottinn og verið að grilla mat áður en lögreglan kom á staðinn og ekki orðið var við eldamennsku inni í bakaraofninum. Hann hafi fyrst heyrt af fíkniefnum í yfirheyrslu hjá lögreglu enda ekki vitað að ákærði Adomas hafi verið með kókaín í sumarbústaðnum. 

Í skýrslutöku yfir ákærða Adomas kom fram að ákærðu Arturas og Vytas hafi ekki vitað um fíkniefnin og engan þátt tekið í þurrkun þeirra. Taldi ákærði Adomas að meðákærðu hefðu ekki einu sinni  áttað sig á því sem hann hafði verið að gera og hann hafi ekki útskýrt það fyrir þeim sérstaklega.

Eins og ítarlega er rakið í málavaxtalýsingu og framburði lögreglumannanna B og A, átti handtaka ákærðu í sumarhúsinu nr.[...] í [...], klukkan 00:43 aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl., sér þó nokkurn aðdraganda. Fram kom við meðferð málsins fyrir dómi að áðurnefndir lögreglumenn hófu að vakta húsið í þágu rannsóknar málsins að kvöldi miðvikudagsins 26. október sl., líklega um klukkan 21.30 og fram kom hvernig staðið var að þeirri vöktun eins og nánar er rakið í málavaxtakafla dómsins og fram kemur í framburði lögreglumannanna fyrir dómi. Þá leiddi meðferð málsins fyrir dómi það einnig í ljós að nokkrar ljósmyndir, sem liggja frammi í málinu, voru teknar eftir að hreyft hafði verið við vettvangi og einnig virðist sem að leit í sumarhúsinu hafi verið lokið þegar rannsóknarlögreglumaður kom á staðinn eftir að ákærðu höfðu verið færðir á lögreglustöðina á Selfossi. Þá kom einnig fram að rannsóknarlögreglumanninum, sem setti upp myndamöppu málsins og skráði skýringar við myndirnar og síðar yfirheyrði ákærðu, var hvorki kunnugt um að þeir fjórir diskar með fíkniefnum, sem sjást á eldhúsborði á mynd á dskj. nr. 6, skjal I. nr. 13.1.1 og 13.1.2, voru   inni í bakaraofninum sem straumur var á og stóð hálf opinn þegar lögregla kom fyrst inn í sumarhúsið, né að fíkniefni í tveimur krukkum, sem sjást fyrir aftan hjónarúmið á mynd á dskj. nr. 6, skjali I, nr. 13.1.5, voru lítillega inn undir rúminu. Jafnframt kom fram að diskur á borði í stofu, sem fram kemur í frumskýrslu að á hafi verið gluggaskafa og skeiðar með efnisleifum, og vog sem sögð er með efnisleifum í frumskýrslu, og fannst í tösku á hjónarúminu, voru ekki send til greiningar. Þá kom einnig fram við meðferð málsins fyrir dómi, sem ekki er getið í frumskýrslu lögreglu, að hurð að hjónaherberginu var lokuð þegar lögregla kom fyrst inn í húsið en þar var meginhluti fíkniefnanna, samtals 309,82 g, undir rúmi í tveimur krukkum og skaftpotti. Dómurinn kynnti sér aðstæður á vettvangi og skoðaði sérstaklega húsið nr.[...] í [...].

Það er skilyrði fyrir sakfellingu ákærðu Arturas og Vytas fyrir vörslur fíkniefnanna að ákæruvaldið sanni að annað hvort hafi ákærðu komið fíkniefnunum fyrir þar sem þau fundust í sumarhúsinu eða að þau hafi að minnsta kosti verið geymd þar með þeirra vitneskju.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á rannsókn málsins kom fram með skýrum hætti í framburði lögreglumannanna B, A og E fyrir dómi, að þegar lögregla kom fyrst inn í sumarhúsið, klukkan 00:40 aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl., hafi eftirfarandi áhöld eða ílát, sem rannsókn málsins leiddi í ljós að innihéldu fíkniefni, verið sýnileg í opnu rými sumarhússins. Glerkrukka, u.þ.b. hálf af hvítu duftkenndu efni á eldhúsborði, sem í reyndist vera 56,71 g af kókaíni, súpuskál með hvítu duftkenndu efni á ofni við enda eldhúsinnréttingar, sem í reyndist vera 3,79 g af kókaíni og fjórir diskar á plötu í bakarofni sem opinn var til hálfs og í reyndust vera 7,81 g af kókaíni. Hurð að hjónaherbergi var eins og áður greinir lokuð en þar inni, undir hjónarúmi, var meginhluti fíkniefnanna. 

Fyrir liggur í máli þessu, með vísan til framburðar vitnanna L og  M, sem höfðu milligöngu um leigu sumarhússins, og framburðar ákærða Vytas, sem lýsti því fyrir dómi að það hafi verið sameiginleg ákvörðun allra ákærðu að fara í sumarbústað, að ákærðu Arturas og Vytas voru ekki fyrir tilviljun staddir í sumarhúsinu nr. [...] í [...] þegar þeir voru handteknir. Þá hafa ákærðu ekki haldið því fram að þeir hafi verið nýkomnir í sumarhúsið, þvert á móti lýstu ákærðu Arturas og Vytas því fyrir dómi hver tilgangur fararinnar í sumarhúsið hafi verið og að þeir hafi, áður en lögreglan kom inn í húsið,  neytt áfengis, verið í heita pottinum og grillað. Þá kom fram hjá vitnunum og lögreglumönnunum B og E að þegar lögregla kom á vettvang hafi grillið á sólpallinum verið lokað og vitnið B kvaðst ekki hafa fundið hita frá grillinu. Þá greindu vitnin og lögreglumennirnir B, Aog E frá því að heiti potturinn á sólpallinum hafi verið lokaður þegar þeir komu að húsinu og vitnin B, E og C lýstu því að matarleifar og bréf utan af kjöti hafi verið í ruslapoka á sólpallinum. Framangreint bendir til þess að nokkuð hafi verið um liðið frá því ákærðu grilluðu og fóru í heita pottinn. Einnig kom fram hjá vitnunum B, A, E og C að umbúðir undan áfengi hafi verið í húsinu og má sjá þær í gluggakistu á mynd af sólskála hússins, dskj. nr. 6, skjal nr. I, 13.1.1 Þá vaktaði lögregla sumarhúsið nr.[...] frá því um klukkan 21.30 að kvöldi miðvikudagsins 26. október sl., líklega fram undir miðnætti þegar hlé varð á vöktun vegna ferða lögreglu niður að Suðurlandsvegi eins og nánar er gerð grein fyrir  í málavaxtalýsingu og framburði lögreglumanna B og A. Meðan á vöktun hússins stóð sá vitnið A þrjá menn í húsinu. Því liggur fyrir að ákærðu voru ekki nýkomnir í sumarhúsið þegar lögregla kom inn í húsið. Ákærðu höfðu umrætt sumarhús til sameiginlegra afnota þó svo að enginn þeirra hafi verið hinn eiginlegi leigutaki og þar innan dyra fundust fíkniefnin og lítil tölvuvog. Umrætt sumarhús er 57,6 fermetrar að stærð og var hluti fíkniefnanna vel sýnilegur í nokkuð þröngu opnu rými eins og lýst er hér að framan. Ákærði Adomas hefur lýst því hvernig hann meðhöndlaði fíkniefnin í þeim tilgangi að þurrka þau, meðal annars með því að hella yfir þau leysiefninu aceton, sem nokkuð sterk lykt er af, og setja efnin þannig til þurrkunar í bakaraofn sumarhússins. Af ummerkjum í húsinu að dæma hafði þurrkun efnanna staðið yfir í einhvern tíma og við hana voru notuð all mörg áhöld, m.a. úr eldhúsi sumarhússins auk þess sem fjórar flöskur af leysiefnum frá ákærða Adomas voru í húsinu. Þá var þurrkun efnanna enn í gangi þegar lögregla kom inn í húsið og fram kom í framburði vitnisins F að þurrkun í bakarofni tæki líklega um hálfa til eina klukkustund. Þá liggur fyrir með vísan til framburðar lögreglumannanna sem handtóku ákærðu, að þeir fundu allir sterka lykt þegar inn í sumarhúsið kom. Vitnið B kvaðst hafa fundið sterka og megna leysiefnalykt. Vitnið A lýsti gríðarlega sterkri og þungri lykt af olíu og leysiefnum og vitnið E kvað sterka lykt hafa verið í húsinu. Vitnið I kvaðst hafa fundið kemíska eða sterka lykt í húsinu og vitnið J sagði lyktina hafa verið líkasta lykt af grillolíu sem ekki kviknar strax í, og framburður K lögreglumanns var á svipaðan veg.

Þegar allt framangreint er virt í heild er að mati dómsins, gegn neitun ákærðu, hafið yfir skynsamlegan vafa að þurrkun fíkniefnanna, með tilheyrandi lykt og notkun leysiefna, og geymsla efnanna í þröngu rými sumarhússins, sem ákærðu höfðu til sameiginlegra nota, hafi getað farið fram hjá ákærðu Arturas og Vytas. Þykir því fram komin lögfull sönnun þess að fíkniefnin sem voru í eldhúsi og opnu rými hússins og efni sem geymd voru undir rúmi í hjónaherbergi hússins, samtals 374,34 g af kókaíni, hafi verið í vörslum ákærðu Arturas og Vytas í skilningi 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, þegar lögreglan handtók þá aðfaranótt fimmtudagsins 27. október 2011.

Gegn eindreginni neitun ákærðu Arturas og Vytas hefur að mati dómsins ekki verið færð fram nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir þátttöku ákærðu Arturas og Vytas í þurrkun fíkniefnanna.

Ákærðu Arturas og Vytas er einnig gefið að sök að fíkniefnin hafi verið ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærðu neita sök. Um var að ræða töluvert magn af kókaíni, eða 374,34 g, og reyndist styrkleiki meginhluta efnisins, eða 369,13 g, á bilinu 50% - 52%, sem bendir eindregið til þess að drýgja hefði mátt efnin all nokkuð. Í framburði vitnisins F, prófessors við Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði kom fram að kókaín sem komið hefur til rannsóknar hér á landi sé að meðaltali í kringum 50%. Um var að ræða talsvert magn fíkniefna sem ákærði Adomas þurrkaði í sumarhúsinu. Að mati dómsins var magn fíkniefnanna það mikið að fullvíst megi telja að efnin hafi að verulegu leyti verið ætluð til sölu. Er því að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu Arturas og Vytas,  sem báðir báru fyrir dómi að þeir neyttu ekki fíkniefna, hafi getað dulist að fíkniefnin hafi verið ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Með hliðsjón af framansögðu verða ákærðu, Arturas Urmonas og Vytas Vadeika, því sakfelldir fyrir vörslur á 374,34 g af kókaíni sem ætlað var til söludreifingar í ágóðaskyni og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í síðari lið ákæru.

Ákvörðun refsingar

Ákærði, Adomas Daubaris, er fæddur þann 21. ágúst 1968. Upplýsingar liggja fyrir um sakarferil ákærða frá Interpol í Vilnius í Litháen þar sem fram kemur að ákærði hefur verið sakfelldur sex sinnum fyrir þjófnað á árunum 1992 til 2009 og árið 1998 fyrir ólæti á almannafæri (hooliganism). Samkvæmt framlögðu sakavottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki áður sætt refsingu hér á landi svo kunnugt sé. Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.

kærði hefur verið fundinn sekur um að standa einn að innflutningi á kókaíni og einnig fyrir vörslur og meðferð á talsverðu magni af fíkniefnum ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni í félagi við meðákærðu Arturas og Vytas og beindist brot ákærða því að mikilvægum hagsmunum. Þá er við ákvörðun refsingar einnig litið til almennra hættueiginleika kókaíns og þess að dómstólar hafa því að jafnaði ákveðið þungar refsingar fyrir innflutning og vörslur á kókaíni. Ákærði stóð einn að innflutningi efnanna og miðað við styrkleika efnanna má ljóst vera að úr þeim hefði fengist verulegur fjöldi söluhæfra eininga. Er refsing ákærða því ákvörðuð með vísan til 1., 3. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði á sér engar málsbætur en þó er litið til þess að ákærði var nokkuð samvinnuþýður við rannsókn málsins og játaði greiðlega hluta ákæruliða. Er refsing ákærða Adomas Daubaris ákveðin fangelsi í 15 mánuði, sem að engu leyti verður skilorðsbundið. Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/19490 skal draga frá dæmdri refsingu gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti undir rannsókn málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði, Arturas Urmonas, er fæddur þann 12. maí 1969. Upplýsingar liggja fyrir um sakarferil ákærða frá Interpol í Vilnius í Litháen þar sem fram kemur að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir þjófnað árið 1994 og smygl árið 1995 og árið 2000 fyrir ögrandi ólæti á almannafæri (aggraveted hooliganism). Samkvæmt framlögðu sakavottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki áður sætt refsingu hér á landi svo kunnugt sé. Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.

Ákærði hefur verið fundinn sekur um vörslur á talsverðu magni af fíkniefnum ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni í félagi við meðákærðu Adomas og Vytas. Miðað við styrkleika efnanna má ljóst vera að úr þeim hefði fengist verulegur fjöldi söluhæfra eininga.  Þá er við ákvörðun refsingar einnig litið til almennra hættueiginleika kókaíns og þess að dómstólar hafa því að jafnaði ákveðið þungar refsingar fyrir innflutning og vörslur á kókaíni. Er refsing ákærða því ákvörðuð með vísan til 1., 3. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði á sér engar málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 10 mánuði, sem að engu leyti verður skilorðsbundið. Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/19490 skal daga frá dæmdri refsingu gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti undir rannsókn málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði, Vytas Vadeika, er fæddur þann 7. mars 1963. Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir frá Interpol í Vilnius í Litháen er hann ekki á sakaskrá þar í landi. Samkvæmt framlögðu sakavottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði tvisvar sætt refsingu fyrir umferðarlagabrot hér á landi svo kunnugt sé, en sakarferill hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.

Ákærði hefur verið fundinn sekur um vörslur á talsverðu magni af fíkniefnum ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni í félagi við meðákærðu Adomas og Arturas. Miðað við styrkleika efnanna má ljóst vera að úr þeim hefði fengist verulegur fjöldi söluhæfra eininga. Þá er við ákvörðun refsingar einnig litið til almennra hættueiginleika kókaíns og þess að dómstólar hafa því að jafnaði ákveðið þungar refsingar fyrir innflutning og vörslur á kókaíni. Er refsing ákærða því ákvörðuð með vísan til 1., 3. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði á sér engar málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 10 mánuði, sem að engu leyti verður skilorðsbundið. Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal daga frá dæmdri refsingu gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti undir rannsókn málsins eins og nánar greinir í dómsorði. 

Krafa um upptöku

Með vísan til lagaákvæða í ákæru skulu upptæk gerð til ríkissjóðs 374,34 g af kókaíni, efnaskrá lögreglu nr. 21540, og vog, en lagt var hald á fíkniefnin og vogina við rannsókn málsins.

Sakarkostnaður

Með vísan til 1. mgr. 219. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 greiði ákærði,  Adomas Daubaris, málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar,  hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur vegna vinnu við dómsmeðferð málsins að meðtöldum virðisaukaskatti og 2.437 krónur í ferðakostnað. Í framlögðu yfirliti yfir sakarkostnað kemur fram að verjanda ákærða var ákvörðuð þóknun fyrir störf á rannsóknarstigi að fjárhæð 267.680 krónur og skal ákærði greiða þá fjárhæð. Þá greiði ákærði, með vísan til 2. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008, hlut sinn í kostnaði við matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, 227.102 krónur samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað.

Með vísan til 1. mgr. 219. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal ákærði  Arturas Urmonas greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Torfa Ragnars Sigurðssonar, héraðsdómslögmanns, 514.550 krónur vegna vinnu við dómsmeðferð málsins að meðtöldum virðisaukaskatti. Í framlögðu yfirliti yfir sakarkostnað kemur fram að verjanda ákærða var ákvörðuð þóknun fyrir störf á rannsóknarstigi að fjárhæð 405.730 krónur og skal ákærði greiða þá fjárhæð. Þá greiði ákærði, með vísan til 2. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008, hlut sinn í kostnaði við matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, 227.102 krónur samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað.

Með vísan til 1. mgr. 219. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, greiði ákærði,  Vytas Vadeika, málsvarnarlaun verjanda síns, Gríms Hergeirssonar, héraðsdómslögmanns,  451.800 krónur vegna vinnu við dómsmeðferð málsins að meðtöldum virðisaukaskatti og 13.320 krónur í ferðakostnað. Í framlögðu yfirliti yfir sakarkostnað kemur fram að verjanda ákærða var ákvörðuð þóknun fyrir störf á rannsóknarstigi að fjárhæð 225.900 krónur og skal ákærði greiða þá fjárhæð. Þá greiði ákærði, með vísan til 2. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008,  hlut sinn í kostnaði við matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, 227.102 krónur samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Selfossi, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóminn.    

Dómsorð:

Ákærði, Adomas Daubaris, sæti fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. október 2011 til 4. nóvember 2011 og frá 10. desember 2011 til 30. desember 2011 að fullri dagatölu.

Ákærði, Arturas Urmonas, sæti fangelsi í 10 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. október 2011 til 4. nóvember 2011 að fullri dagatölu.

Ákærði, Vytas Vadeika, sæti fangelsi í 10 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. október 2011 til 4. nóvember 2011 að fullri dagatölu.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs haldlögð fíkniefni, 374,34 g af kókaíni, efnaskrá nr. lögreglu 21540, og vog sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði, Adomas Daubaris, greiði 999.219 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar, hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 2.437 krónur í ferðakostnað.

Ákærði, Arturas Urmonas, greiði 1.147.382 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Torfa Ragnars Sigurðssonar, héraðsdómslögmanns, 514.550 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði, Vytas Vadeika, greiði 918.122 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Hergeirssonar, héraðdómslögmanns, 451.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 13.320 krónur í ferðakostnað.