Hæstiréttur íslands

Mál nr. 394/2007


Lykilorð

  • Endurupptaka
  • Útivistardómur
  • Ölvunarakstur
  • Ökuréttarsvipting
  • Ítrekun


                  

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007.

Nr. 394/2007.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari)

gegn

Einari Jóni Vilhjálmssyni

(Hilmar Magnússon hrl.)

 

Endurupptaka. Útivistardómur. Ölvunarakstur. Ökuréttarsvipting. Ítrekun.

 

Í héraðsdómi var E dæmdur til að greiða 180.000 krónur í sekt og sviptur ökurétti í tvö ár fyrir umferðarlagabrot. Fallist var á beiðni E um endurupptöku málsins og með það farið í samræmi við 188. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Krafðist E mildunar refsingar og að ökuréttarsviptingu yrði markaður skemmri tími, en ákæruvaldið „staðfestingar á dæmdum viðurlögum“. Talið var að við ákvörðun ökuréttarsviptingar yrði ekki litið til brota sem E framdi áður en hann varð 18 ára, eins og gert hafði verið í héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var E því sviptur ökurétti í átta mánuði. Þá var honum gert að greiða 70.000 króna sekt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2007 að undangenginni ákvörðun réttarins 7. júní sama ár um endurupptöku þess samkvæmt beiðni ákærða og er farið með málið í samræmi við 188. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og ökuréttarsviptingu markaður skemmri tími.

Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að aka bifreið aðfaranótt 24. september 2006 undir áhrifum áfengis og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Var litið til sakarferils við ákvörðun refsingar. Sakfelling er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdómi er tilgreindur sá verknaður ákærða að aka án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, en ekki er getið um heimfærslu þess brots til 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Augljóst er af fjárhæð þeirrar sektar sem ákærða var gerð að þar er ekki ákveðin refsing fyrir brot samkvæmt nefndri grein umferðarlaga og verður að líta svo á að ákærði hafi ekki verið sakfelldur fyrir þessa háttsemi. Samkvæmt áfrýjunarstefnu krefst ákæruvaldið „staðfestingar á dæmdum viðurlögum“. Kemur sakfelling samkvæmt 48. gr. umferðarlaga því ekki til frekari skoðunar.

Ákærði hefur tvisvar gengist undir sátt vegna umferðarlagabrota, 5. desember 2003 fyrir hraðakstur og 5. maí 2004 fyrir ölvunarakstur. Hann er fæddur 10. ágúst 1986 og hafði því ekki náð 18 ára aldri þegar hann gekkst undir framangreind viðurlög. Verður ekki litið til þeirra við ákvörðun réttindasviptingar nú, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er hann því sviptur ökurétti í átta mánuði frá 27. desember 2006 að telja. Þá verður ákærða gert að greiða 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæta ella sex daga fangelsi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Samkvæmt 2. mgr. 191. gr. laga nr. 19/1991 greiðist allur áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Einar Jón Vilhjálmsson, greiði 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella sex daga fangelsi.

Ákærði er sviptur ökurétti í átta mánuði frá 27. desember 2006 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. desember 2006.

Mál þetta, sem þingfest var þann 8. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 3. nóvember 2006 á hendur Einari Jóni Vilhjálmssyni, [kt.], Háhæð 8, Garðabæ,  „fyrir umferðarlagabrot  með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 24. september 2006 ekið bifreiðinni YS-427 án þess að hafa ökuskírteini meðferðis og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,98‰) suður Biskupstungnabraut, uns lögreglan hafði afskipti af akstri ákærða við gatnamót Biskupstungnabrautar og Suðurlandsvegar.

Ákæruvaldið telur þessa háttsemi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102.  gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997, lög nr. 23/1998, lög nr. 132/2003 og lög nr. 84/2004. “

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir löglega birtingu ákæru 14. nóvember sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði framdi brot það sem greinir í ákæru og það er réttilega fært til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. 

Samkvæmt sakarvottorði sem liggur frammi í málinu gerði ákærði sátt hjá lögreglustjóranum í Hafnarfirði þann 5. desember 2003 og var sviptur ökurétti í 1 mánuð auk þess að greiða 50.000 króna sekt til ríkissjóðs fyrir brot gegn 37. gr umferðarlaga og 5. maí 2004 gerði ákærði sátt hjá sýslumanninum í Kópavogi og var sviptur ökurétti í 4 mánuði fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga auk þess að greiða 50.000 króna sekt til ríkissjóðs. Með broti þessu er ákærði í annað sinn að brjóta gegn 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Að þessu virtu og með vísan til 101. gr. og. 102. gr. laga nr. 50/1987, skal refsing ákærða hæfilega ákveðin 180.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í 14 daga. Auk þess skal ákærði sviptur ökuleyfi í tvö ár frá birtingu dóms að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað er hlotist hefur af máli þessu kr. 25.492.-

             Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Einar Jón Vilhjálmsson, greiði 180.000 þúsund króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í fjórtán daga.

Ákærði skal sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu dóms að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað kr. 25.492.-