Hæstiréttur íslands

Mál nr. 744/2012


Lykilorð

  • Málsástæða
  • Dómur
  • Ómerking héraðsdóms


                                     

Fimmtudaginn 18. apríl 2013.

Nr. 744/2012.

Magnús Árnason

(Hilmar Magnússon hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Málsástæða. Dómur. Ómerking héraðsdóms.

Í hf. höfðaði mál á hendur M til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi. Var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný þar sem talið var skorta mjög á að héraðsdómur hefði tekið afstöðu til allra málsástæðna M, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara sýknu að svo stöddu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerði áfrýjandi samning 11. mars 2005 við Íslandsbanka hf. um svonefnda einkabankaþjónustu, sem eftir efni samningsins fól í sér að bankinn tæki að sér fjárvörslu fyrir áfrýjanda, eignastýringu og alhliða fjármálaþjónustu. Í samningnum, sem var auðkenndur nr. 7281, kom fram að fjárvarsla næði til þess að bankinn tæki við fé áfrýjanda til fjárfestingar í verðbréfum, keypti þau og seldi, hefði vörslur þeirra og annaðist innheimtu, auk þess að veita ráðgjöf um „eignauppbyggingu.“ Í þessu skyni myndi bankinn stofna fjárvörslureikning á nafni áfrýjanda, þar sem yrði „varðveitt heildarverðbréfaeign“ hans. Eignastýring fæli í sér „tilfærslu á milli mismunandi tegunda verðbréfa eftir því sem tækifæri bjóðast á mörkuðum“ og veitti áfrýjandi bankanum „heimild til eignastýringar samkvæmt fyrirframákveðinni fjárfestingarstefnu“, sem bankinn sæi um að framkvæma. Í því ákvæði samningsins, sem geymdi nánari fyrirmæli um fjárfestingarstefnu, kom meðal annars fram að áfrýjandi heimilaði bankanum að stýra eignum sínum „innan þeirra frávika“, sem þar væru tilgreind. Síðar í samningnum var tekið fram að áfrýjandi gæti óskað eftir því að „verðbréfaviðskipti samkvæmt samningi þessum felist að einhverju leyti í viðskiptum með óskráð verðbréf“ ef hann yrði talinn fagfjárfestir í skilningi þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, reglugerða og reglna bankans, en eftir slíku yrði hann að óska skriflega við bankann. Í samningnum var ráðgert að áfrýjandi veitti bankanum umboð til að stýra eignum sínum í samræmi við fjárfestingarstefnu og tæki það meðal annars til kaupa, framsals og sölu verðbréfa og ráðstöfun greiðslna inn á og út af bankareikningum, sem yrðu stofnaðir í tengslum við samninginn. Loks er þess að geta að kveðið var á um það í samningnum að áfrýjandi gæti gefið bankanum munnleg eða skrifleg fyrirmæli um viðskipti, þar á meðal með símtali, sem bankanum væri heimilt að hljóðrita og styðjast við upptöku sem sönnun ef ágreiningur risi. Í skjali um fjárfestingarstefnu, sem einnig var undirritað 11. mars 2005, kom fram að skuldabréf og laust fé ættu að nema 75% af þeim eignum áfrýjanda, sem bankinn hefði í vörslum sínum samkvæmt samningnum, innlend hlutabréf 12,5% og erlend hlutabréf 12,5%, en kveðið var á um frávik frá þessum hlutföllum með tilteknu hámarki og lágmarki hvers flokks eigna. Jafnframt veitti áfrýjandi bankanum umboð sama dag í samræmi við ráðagerð um það í samningnum.

Áfrýjandi gerði annan samning 13. október 2006 um einkabankaþjónustu við bankann, sem þá hét orðið Glitnir banki hf., og var sá samningur auðkenndur nr. 7508. Samningurinn var í meginatriðum efnislega á sama veg og samningur þeirra frá 11. mars 2005 um þau atriði, sem að framan var getið. Jafnframt undirritaði áfrýjandi 13. október 2006 umboð til bankans, svo og skjal með fyrirsögninni „fjárfestingarstefna“, þar sem gert var ráð fyrir að tegundir eigna yrðu þær sömu og um ræddi í áðurnefndu skjali frá 11. mars 2005, en innbyrðis hlutföll þeirra voru á hinn bóginn ekki tilgreind. Að auki undirritaði áfrýjandi yfirlýsingu 13. október 2006, þar sem bankanum voru sett að handveði verðbréf, sem hann hefði í vörslum sínum á grundvelli samnings nr. 7508, til tryggingar öllum skuldbindingum áfrýjanda.

Í tengslum við gildistöku laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti gaf Glitnir banki hf. út svonefndar verklagsreglur um framkvæmd viðskiptafyrirmæla. Vegna ákvæða laganna undirritaði áfrýjandi 7. apríl 2008 skjal á eyðublaði frá bankanum, sem hafði að geyma upplýsingar um þekkingu hans og reynslu af verðbréfaviðskiptum, markmið hans í fjárfestingum og fjárhagslega stöðu. Fyrir liggur að á grundvelli þessara upplýsinga hafi bankinn flokkað áfrýjanda sem almennan fjárfesti í skilningi laganna.

Samkvæmt gögnum málsins átti áfrýjandi umfangsmikil viðskipti við bankann í skjóli fyrrnefndra tveggja samninga, en ekkert liggur fyrir um hvort eða hvernig áfrýjandi hafi komið að töku ákvarðana um þau í einstaka tilvikum. Meðal annars tóku viðskiptin til kaupa 7. júní 2006, 13. mars 2007 og 2. maí 2007 á hlutum í félagi með heitinu ROM ehf. að nafnverði samtals 48.800.000 krónur fyrir 50.105.541 krónu. Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi átti á þessum grunni stóran hlut í félaginu, sem ekki var skráð á verðbréfamarkaði. Þá voru keyptir 25. maí 2007 hlutir í félagi með heitinu Guardian Holding fyrir 4.243.500 krónur, en um þessa hluti og félagið liggja ekki fyrir frekari gögn í málinu. Einnig voru 18. október 2007 keyptir hlutir í VBS Fjárfestingarbanka hf. að nafnverði 787.035 krónur, en fyrir þá voru greiddar 27.546.225 krónur og mun þetta félag ekki hafa verið skráð á verðbréfamarkaði. Af gögnum málsins verður ráðið að öll hlutabréfin, sem hér um ræðir, hafi verið skráð á vörslureikning áfrýjanda, sem tengdist áðurnefndum samningi nr. 7281. Fram er komið að 29. október 2007 og 24. janúar 2008 hafi verið keyptir í þágu áfrýjanda samtals 80.000 hlutir í Kaupþingi banka hf. fyrir 109.714.964 krónur, auk þess sem 1.224 hlutir í sama félagi í eigu áfrýjanda komust í vörslur Glitnis banka hf. 9. janúar 2008 af ástæðum, sem gögn málsins skýra ekki frekar. Þessir hlutir voru færðir á vörslureikning áfrýjanda vegna samnings nr. 7508. Einnig liggur fyrir að áfrýjandi hafi 20. nóvember 2007 tekið frá 12. sama mánaðar við réttindum og skyldum ROM ehf. samkvæmt samningi við Glitni banka hf. um framvirk kaup á 5.000.000 hlutum í bankanum á genginu 31,112985, en að undangengnum framlengingum á þeim samningi keypti áfrýjandi þessa hluti samkvæmt svonefndu uppgjöri á framvirkum verðbréfaviðskiptum 17. apríl 2008 á genginu 36,802217 fyrir 184.011.087 krónur. Þessir hlutir voru einnig skráðir á vörslureikning áfrýjanda vegna samnings nr. 7508. Eins var farið með samtals 39.460 hluti í Landsbanka Íslands hf., sem skráðir voru á reikninginn 9. janúar og 30. apríl 2008, og 2.059.952 hluti í Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf., sem voru skráðir þar 9. janúar sama ár, en af gögnum málsins verður ekki séð hvort Glitnir banki hf. hafi keypt þessa hluti fyrir áfrýjanda. Þá er þess að geta að inn á sama vörslureikning var 20. nóvember 2007 skráð skuldabréf útgefið af Exista hf. að nafnverði 5.000.000 krónur, sem virðist hafa verið á gjalddaga 14. október 2011. Auk þessa liggur fyrir að talsverðu fé í eigu áfrýjanda var á grundvelli þessara samninga varið til kaupa á hlutdeild í peningamarkaðssjóði Glitnis banka hf., en umfang þessa var breytilegt á þeim tíma, sem hér um ræðir.

Við uppgjör á áðurnefndum framvirkum kaupum á 5.000.000 hlutum í Glitni banka hf. innleysti áfrýjandi 17. apríl 2008 inneign í peningamarkaðssjóði hjá bankanum fyrir 44.962.033 krónur og tók jafnframt þar að láni 105.000.000 krónur samkvæmt samningi 11. sama mánaðar, en á þeim tíma mun markaðsverð hlutanna hafa verið verulega lægra en umsamið verð í framvirku kaupunum. Lánið, sem hér um ræðir, átti að greiðast í einu lagi á gjalddaga 2. maí 2010, en vextir af því á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 2. ágúst 2008. Til tryggingar þessari skuld gaf áfrýjandi út yfirlýsingu 11. apríl 2008, þar sem hann setti bankanum að handveði verðbréf, sem skráð væru á vörslureikningi í tengslum við samning nr. 7508, svo og innstæðu á nánar tilgreindum innlánsreikningi hjá bankanum.

Fyrir liggur að á tímabilinu frá 12. ágúst til 2. október 2008 átti áfrýjandi fundi og samskipti með tölvubréfum við starfsmenn Glitnis banka hf., þar sem meðal annars mun hafa verið rætt um að selja áðurgreinda hluti áfrýjanda í þeim banka, Kaupþingi banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Framan af virðist sem rætt hafi verið um að verja fé áfrýjanda, sem þannig myndi losna um, til kaupa á ríkisskuldabréfum og hlutdeild í skuldabréfasjóðum Glitnis banka hf., en á síðari stigum um að nota jafnframt 50.000.000 krónur af fénu til greiðslu inn á skuld áfrýjanda við bankann samkvæmt lánssamningnum frá 11. apríl 2008. Ekkert varð af þessum ráðagerðum og er uppi ágreiningur um ástæður þess.

Glitnir banki hf. sendi áfrýjanda tilkynningu með tölvubréfi 17. september 2008, þar sem fram kom að skuld þess síðarnefnda samkvæmt lánssamningnum næmi 107.592.188 krónum, en andvirði verðbréfa, sem stæðu að veði til tryggingar skuldinni, væri orðið 149.767.462 krónur. Samkvæmt þessu væri hlutfall trygginga sem svaraði 139,199% af skuldinni, en samið hafi verið um að þetta hlutfall þyrfti ávallt að vera að lágmarki 175%. Var skorað á áfrýjanda að setja frekari tryggingar þessu til samræmis innan þriggja virkra daga. Samsvarandi tilkynning var send áfrýjanda með bréfi 25. september 2008, en þar kom þó fram að hlutfall trygginga svaraði til 156,931% af skuld hans samkvæmt lánssamningnum. Áfrýjandi mótmælti fyrrnefndu orðsendingunni með tölvubréfi til bankans 28. september 2008 á þeim grunni að starfsmenn hans hafi í heimildarleysi gert nánar tilgreindar breytingar á ákvæðum lánssamningsins, en þess var og getið að áfrýjandi hafi verið erlendis þegar þessi orðsending bankans hafi borist og ekki komið aftur til landsins fyrr en 26. sama mánaðar.

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. sama mánaðar var eignum Glitnis banka hf. með nánar tilteknum undantekningum ráðstafað til nýs banka, sem nú ber heiti stefnda. Meðal eigna, sem færðust á þennan hátt til stefnda, voru réttindi samkvæmt lánssamningnum milli áfrýjanda og Glitnis banka hf. frá 11. apríl 2008, en fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá mótmælum gegn því að aðilaskipti þessi hafi farið fram, sem hann hafði uppi í héraði sem stoð fyrir málsástæðu um aðildarskort stefnda. Óumdeilt er að hlutabréf í fjármálafyrirtækjum, sem áfrýjandi eignaðist samkvæmt framansögðu, urðu verðlaus með öllu, ýmist þegar í stað í október 2008 eða á næstu misserum þar á eftir, en þau munu þá enn hafa tilheyrt honum. Jafnframt lækkaði andvirði hlutdeildar áfrýjanda í peningamarkaðssjóði Glitnis banka hf., svo og fyrrnefnds skuldabréfs, sem gefið var út af Exista hf.

Áfrýjandi lýsti kröfu 23. nóvember 2009 við slit Glitnis banka hf. að höfuðstól 233.520.218 krónur auk tilgreindra fjárhæða í dráttarvexti og kostnað og krafðist þess að hún kæmi eftir þörfum til skuldajafnaðar við skuld sína eftir lánssamningnum frá 11. apríl 2008. Samkvæmt kröfulýsingu taldi áfrýjandi sig eiga tilkall til skaðabóta þessarar fjárhæðar, þar af 135.359.752 króna vegna vanrækslu starfsmanna bankans á að verða við fyrirmælum áfrýjanda um að selja áðurnefnd hlutabréf í Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf. og Landsbanka Íslands hf. í ágúst 2008 og 98.160.466 króna sökum þess að starfsmenn bankans hafi brotið gegn ákvæðum fyrrnefndra samninga við áfrýjanda um einkabankaþjónustu með því að festa fé hans í verðbréfum, sem ekki voru skráð á markaði. Slitastjórn Glitnis banka hf. hafnaði þessari kröfu og var ágreiningi um hana beint til Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafnaði að viðurkenna hana með úrskurði 9. nóvember 2012. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar, en úrlausn þess máls bíður dóms í þessu máli.

II

Stefndi höfðaði mál þetta 13. apríl 2010 til heimtu skuldar samkvæmt áðurnefndum lánssamningi áfrýjanda við Glitni banka hf. frá 11. apríl 2008. Í héraðsdómsstefnu var þess getið að áfrýjandi hafi greitt vexti af skuldinni, sem hafi verið á gjalddaga 2. ágúst 2008, en vanskil hafi orðið upp frá því og skuldin verið gjaldfelld þegar vextir hafi ekki verið greiddir á gjalddaga 2. nóvember sama ár. Af upphaflegum höfuðstól skuldarinnar, 105.000.000 krónum, hafi ekkert greiðst, en að viðbættum vöxtum, sem hafi verið á gjalddaga síðastgreindan dag, næmi skuld áfrýjanda 110.297.583 krónum. Til frádráttar kæmu nánar tilgreindar innborganir 14. og 15. apríl 2009 að fjárhæð samtals 5.849.862 krónur.

Áfrýjandi tók til varna með greinargerð, sem lögð var fram í héraði 5. október 2010. Kröfu um sýknu studdi hann þar fyrst í stað við málsástæðu um aðildarskort stefnda, en sem fyrr segir hefur hann fallið frá henni hér fyrir dómi. Að öðru leyti byggði áfrýjandi þessa dómkröfu á því að hann ætti kröfu á hendur Glitni banka hf., sem næmi hærri fjárhæð en skuld samkvæmt lánssamningnum, og yrði stefndi að hlíta því að sú krafa kæmi til skuldajafnaðar í málinu vegna áskilnaðar um slík réttindi í áðurnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Gagnkrafa þessi væri um skaðabætur og reist á því að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi valdið áfrýjanda verulegu tjóni með saknæmri háttsemi, sem hafi í fyrsta lagi falist í því að þeir hafi ekki sinnt skyldu bankans samkvæmt ákvæðum í fyrrnefndum samningum um einkabankaþjónustu til að verða við fyrirmælum áfrýjanda 28. ágúst og 3. október 2008 um að selja nánar tiltekin hlutabréf í eigu hans. Í öðru lagi hafi starfsmenn bankans í veigamiklum atriðum brotið gegn ákvæðum samninganna um einkabankaþjónustu og laga nr. 33/2003 og 108/2007 með því að hafa keypt fyrir fé áfrýjanda áðurgreind hlutabréf, sem ekki hafi verið skráð á verðbréfamarkaði, svo og með kaupum á skráðum hlutabréfum á grundvelli samnings nr. 7508, enda hafi engin fjárfestingarstefna verið mörkuð vegna þess samnings og því verið þörf á að afla skriflegs samþykkis áfrýjanda til slíkra viðskipta hverju sinni. Að auki var í þessu sambandi vísað sérstaklega til þess að starfsmönnum Glitnis banka hf. hljóti að hafa verið ljóst hversu mikil áhætta hafi fylgt stórfelldum kaupum á hlutum í bankanum í apríl 2008, sem ætla mætti að þeir kynnu sjálfir að hafa haft hagsmuni af. Í þriðja lagi hafi starfsmenn bankans vanrækt skyldu til að ganga að handveðsettum verðbréfum, sem hafi staðið til tryggingar skuld áfrýjanda, í framhaldi af því að hann hafi ekki orðið við fyrrgreindri áskorun í tölvubréfi bankans 17. september 2008, en með því hefði verið unnt að greiða skuld áfrýjanda. Til viðbótar þessu öllu bar áfrýjandi upp nýja málsástæðu til stuðnings kröfu um sýknu við munnlegan flutning málsins í héraði 16. september 2011 um að skilyrði væru til að ógilda eða víkja til hliðar skuldbindingu hans samkvæmt lánssamningnum frá 11. apríl 2008 af nánar tilgreindum ástæðum.

Í hinum áfrýjaða dómi var tekin afstaða til málsástæðna áfrýjanda, sem lutu að aðildarskorti stefnda, svo og því að starfsmönnum Glitnis banka hf. hafi orðið á mistök, sem bakað hafi honum skaðabótaskyldu, með því að hafa ekki annars vegar selt hlutabréf í eigu áfrýjanda á tímabilinu frá ágúst til október 2008 og hins vegar gengið að handveðsettum verðbréfum hans í september sama ár. Þá var áðurgreindri málsástæðu, sem áfrýjandi hélt fram við munnlegan flutning málsins, hafnað án efnislegrar umfjöllunar sem of seint fram kominni. Verulegur þáttur í málatilbúnaði áfrýjanda í héraði laut að fyrrnefndum málsástæðum hans um að kaup hlutabréfa, sem starfsmenn Glitnis banka hf. framkvæmdu í þágu áfrýjanda, hafi í nánar tilgreindum atriðum brotið gegn lögum og samningunum um einkabankaþjónustu. Í hinum áfrýjaða dómi var ekki tekin afstaða til annarra atriða í þessu sambandi en að kaup á hlutum í félaginu Guardian Holding gætu ekki varðað Glitni banka hf. skaðabótaskyldu, þar sem áfrýjandi hafi ekki gert athugasemd vegna eignarhalds síns á þessum bréfum. Samkvæmt þessu skortir mjög á að héraðsdómur hafi tekið afstöðu til allra málsástæðna áfrýjanda, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því fyrir Hæstarétti.

Það athugist að mál þetta var sem áður segir munnlega flutt í héraði 16. september 2011. Málið var tekið fyrir á nýjan leik 12. janúar 2012 og fært til bókar að dómur hafi ekki verið felldur á það innan lögmælts frests vegna anna dómara, svo og að það hafi verið munnlega flutt og dómtekið. Það sama gerðist aftur í þinghaldi 24. júlí 2012, en við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 14. september sama ár var gætt ákvæða síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Þessi málsmeðferð er aðfinnsluverð.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. júlí sl. er höfðað með stefnu birtri 13. apríl 2010. Mál þetta var upphaflega dómtekið 16. september 2011 en með því að dómur varð ekki lagður á það innan lögmælts frests vegna anna dómara var það endurupptekið og flutt að nýju hinn 12. janúar og með því að dómur var ekki lagður á það innan lögmælts frests vegna anna dómara var það flutt enn að nýju hinn 24. júlí sl.

Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.

Stefndi er Magnús Árnason, Jónsgeisla 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 110.297.583 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 110.297.583 krónum frá 2. nóvember 2008 til greiðsludags. Inn á skuldina hafi verið greiddar þessar innborganir, hinn 14. apríl 2009 389.758 krónur og hinn 15. apríl 2009 5.460.104 krónur og verði tekið tillit til þeirra við uppgjör kröfunnar á innborgunardegi.

Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu en til vara sýknu að svo stöddu. Þá krefst hann málskostnaðar.

Með úrskurði dómsins hinn 1. febrúar sl. var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

MÁLAVEXTIR

Stefnandi kveður skuld þá er hann krefur um greiðslu á vera samkvæmt lánssamningi sem stefndi hafi gert við Glitni banka hf., nú Íslandsbanka hf., en samningurinn hafi verið gerður hinn 11. apríl 2008. Samið hafi verið um lán til tveggja ára, að fjárhæð 105.000.000 í íslenskum krónum. Lánið hafi átt að greiða með einni greiðslu hinn 2. maí 2010.

Jafnframt skyldi greiða vexti af láninu skv. c lið 3. gr. samningsins. Vextir skyldu vera 3 mánaða REIBOR-vextir eins og þeir eru skráðir af Seðlabanka Íslands skv. 7. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 7 frá 16. mars 2000 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum, að viðbættu 3,65% vaxtaálagi. Vextirnir skyldu reiknast þannig að á ársgrundvelli sé margfaldað með raunverulegum fjölda daga og deilt í með 360. Vextir hafi reiknast frá útborgunardegi lánsins og skyldi greiða þá á 3 mánaða fresti, í fyrsta sinn 2. ágúst 2008.

Ekki hafi verið staðið við greiðslur vaxtagjalddaga og sé lánssamningurinn í vanskilum frá 2. nóvember 2008 og hafi hann verið gjaldfelldur þann dag samkvæmt. heimild í 11. gr. samningsins. Við gjaldfellingu hafi staða lánssamningsins með áföllnum vöxtum frá 2. ágúst 2008 verið 110.297.583 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Inn á skuldina hafi verið greiddar innborganir, hinn 14. apríl 2009 389.758 krónur og hinn 15. apríl 2009 5.460.104 krónur og verði tekið tillit til þeirra við uppgjör kröfunnar.

Dráttarvaxtakröfu sína í aðalkröfu byggi stefnandi á f-lið, sbr. e-lið 1. mgr. 3. gr. lánssamningsins sem kveði á um að ef lántaki vanefni skuld skv. samningi í íslenskum krónum beri lántaka að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.

Lánssamningurinn sé í vanskilum frá 2. nóvember 2008 og stefnanda því heimilt skv. ákvæðum lánssamningsins að gjaldfella alla skuldina og beri lántaka þá að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð samningsins.

Byggt sé á afdráttarlausum ákvæðum lánssamningsins um skuldbindingar stefndu, meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og þeirri meginreglu samningaréttar að samningar skuli standa. Dráttarvaxtakrafa byggist á 1. mgr. 5., sbr. 6. gr., sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa styðst við XXI. kafla 1. nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.

Af hálfu stefnda segir um málsatvik að stefnandi hafi í stefnu einungis gert grein fyrir meintri skuld stefnda skv. framlögðum lánssamningi án þess að gera nokkra grein fyrir aðdraganda og ástæðum fyrir útgáfu hans og því síður þeim atvikum er síðar hafi komið til er stefndi telur að leiða eigi til frávísunar eða sýknu í máli þessu.

Svo sem fram komi í lánssamningi skyldi ráðstafa lánsfjárhæðinni til uppgreiðslu tapstöðu vegna framvirks samnings stefnda við Glitni banka hf., en lánssamningurinn hafi verið gerður við þann banka. Hafi stefndi þá gert tvo svokallaða samninga um einkabankaþjónustu við bankann, annan frá árinu 2005 en hinn frá árinu 2006, er vörðuðu fjárvörslu og eignastýringu sbr. nánari skilgreining í 1. gr. samninganna.

Stefndi hafi fyrir gerð lánssamningsins gert framvirkan samning við umræddan banka og hafi myndast verulegt tap á þeim samningi. Til tryggingar samningnum hafi stefndi sett vörslureikning sinn í einkabankaþjónustu sem vistaður hafi verið í bankanum að handveði, en númer hans sé 7508. Hafi inneign á vörslureikningi þá verið langt umfram tap það er myndast hafði, en í stað þess að tapið yrði greitt upp af inneigninni, líkt og stefndi hafi talið eðlilegast, hafi stefndi farið að ráðum starfsmanna einkabankaþjónustu Glitnis banka hf. og skuldsett sig skv. framangreindum lánssamningi til þess að greiða tapið. Jafnframt hafi hann veitt starfsmönnunum bankans heimild til að stunda framvirk gjaldeyrisviðskipti þar sem hinn sami vörslureikningur hafi verið settur til tryggingar. Ráðgjöf starfsmanna Glitnis banka hf. hafi lotið að því að hin framvirku gjaldeyrisviðskipti myndu greiða upp lánið og þar með tapið, en hagnaður af þessum viðskiptum hafi átt að renna inn á greinda skuld. Hafi stefnda verið talin trú um að með þessum aðgerðum væri ekki falin nokkur tapsáhætta umfram inneign á vörslureikningnum færi allt á versta veg, þar sem veðkallsréttur bankans tryggði bankann gegn því að lánið tapaðist með tilheyrandi tjóni viðskiptavinar. Þess skuli getið í þessu sambandi að stefndi sé ekki og hafi ekki verið fagfjárfestir í skilningi þágildandi laga nr. 33/2003 er umrædd viðskipti áttu sér stað.

Stefndi hafi gert samning við Glitni hf. í mars 2005 um einkabankaþjónustu nr. 7281 ásamt viðaukum þar sem fram komi um þá fjárfestingastefnu er skyldi fylgt varðandi vörslu og ávöxtun fjármuna stefnda að skuldabréf og laust fé skyldi að hámarki vera 90% og innlend og erlend hlutabréf að hámarki 20% hvort. 

Annar samningur hafi svo verið gerður í október 2006 við Glitni banka hf. ásamt viðaukum þar sem fram skyldi koma fjárfestingastefna um vörslu og ávöxtun fjármuna stefnda, umboð og þóknun. Þá hafi jafnframt verið gengið frá handveðsyfirlýsingu/allsherjarveði þar sem stefndi hafi sett að handveði vörslusafn nr. 7508 til tryggingar öllum skuldum sínum við bankann.

Viðauki I um fjárfestingastefnu skv. síðari samningi hafi hvorki verið útfylltur né gengið frá ákveðinni stefnu um fjárfestingar í ákveðnum tegundum verðbréfa eða um hámark og lágmark þeirra. Taldi stefndi raunar að svipaðri stefnu yrði fylgt eftir og varðandi fyrri samning við bankann, án þess þó að þetta hefði borið sérstaklega á góma.

Engu að síður hafi starfsmenn Glitnisbanka hf. unnið eftir samningi þessum líkt og ákveðin fjárfestingastefna lægi fyrir sem telja yrði mjög áhættusama og hafi fjárfestingar í innlendum hlutabréfum í fjármálastofnunum og bönkum verið áberandi og þó sýnu mest í Glitni banka hf. sjálfum. Hafi svo verið komið að í ágúst 2008 hafi fjárfestingar stefnda skv. samningi 7508 í hlutabréfum bankanna numið um 150 millj. króna sem hafi verið nærfellt 100% af vörslusafni nr. 7508.

Fjárfestingar skv. samningi 7281 hafi á sama tíma numið rétt tæpum 100 millj. króna eingöngu í óskráðum innlendum og erlendum hlutabréfum, nánar tiltekið í innlendu félögunum ROM ehf. fyrir um 60 millj. og VBS fjárfestingabanka hf. fyrir um 30 millj. og erlenda félaginu Guardian holding ehf. fyrir um 8,0 millj. Hafi bankinn fjárfest án heimildar stefnda eða samþykki hans í VBS fjárfestingarbanka hf. og Guardian holding ehf. en til síðarnefnda félagsins þekki stefndi ekkert. Félagið ROM ehf. hafi hins vegar verið fært inn á safnið en það félag hafi að hluta til verið í eigu stefnda.

Eignasafn stefnda hafi þannig í ágústmánuði 2008 verið samtals rétt um 260 milljónir í skráðum og óskráðum bréfum, er lotið hafi einkabankaþjónustu stefnanda samkvæmt samningum þar um.

Fundur hafi verið haldinn í bankanum með stefnda og tengilið hans í einkabankaþjónustunni, Hilmari Steinari Sigurðssyni, hinn 12. ágúst 2008 þar sem lagðar hafi verið línur að breyttu eignasafni stefnda vegna hás vaxtastigs og mikillar verðbólgu. Hafi verið gerð tillaga um að hlutabréf viðskiptabankanna yrðu seld og andvirði þeirra, a.m.k. 50 millj., yrði ráðstafað til niðurgreiðslu á láni stefnda við Glitni banka hf. og afgangur settur í ríkisskuldabréf og sjóð 1 og 9 í Glitni banka hf. Hafi stefndi talið þetta skynsamlegt og haldinn hafi verið stöðufundur í bankanum hinn 27. ágúst kl. 16:00  þar sem tillögur þessar hafi verið nánar ræddar og skyldi nefndur Hilmar útfæra þær og framkvæma samdægurs. Á fundinum hafi Jón Þ. Hilmarsson, löggiltur endurskoðandi, jafnframt verið. Hafi stefndi sent Hilmari tölvupóst strax morguninn eftir þar sem enginn tölvupóstur hefði borist frá Hilmari og stefndi óskað eftir því að unnið yrði hratt í málinu þar sem hann væri að fara til Kamchatka í byrjun september. Hafi Hilmar loks sent tölvupóst kl. 15:13 þar sem fram hafi komið tillögur þess efnis er að ofan sé rakið og hafi stefndi staðfest það og samþykkt í símtali við Hilmar strax kl. 15:16. Hafi stefndi talið að eftir þessum tillögum yrði unnið og degi áður en stefndi hafi farið til útlanda hafi verið ákveðið að auki að gjaldeyrissamningur stefnda yrði virkur frá 29. september, þ.e. eftir að stefndi væri kominn aftur heim, og fjármunir á vörslureikningi hafðir þar til tryggingar þeim samningi. Skyldi sú stýring greiða niður eftirstöðvar lánsins sem þá hafi átt að nema um 56 milljónum króna.

Starfsmenn einkabankaþjónustu Glitnis banka hf., einkum Hilmar, hafi ekki unnið eftir þeim tillögum sem samþykktar hefðu verið og engin hlutabréf í föllnu viðskiptabönkunum hafi verið seld. Á þeim tíma hafi verið orðinn verulegur þrýstingur innan bankakerfisins að halda uppi gengi bréfanna með kaupum og letja til sölu.

Meðan stefndi var í útlöndum hafi borist veðkall frá Glitni banka hf., en þar sem stefndi hafi ekki verið í tölvusambandi hafi hann ekki vitað af því fyrr en hann hafi komið heim og hafi hann reynt strax mánudaginn 29. september að ná sambandi við Hilmar, sem þá hafi reynst vera í fríi. Hafi stefndi þá rætt við Jóhann Ómarsson, framkvæmdastjóra einkabankaþjónustu, og fundur verið haldinn 2. október þar sem stefndi hafi komið að sínum athugasemdum og krafist þess að hlutabréf hans yrðu seld svo sem ákveðið hefði verið, sem hann hafi svo áréttað í harðorðum tölvupósti daginn eftir, hinn 3. október.

Veðkall bankans hefði nefnilega borist 17. september í tölvupósti og þar hafi því verið lýst yfir að ef ekki yrði brugðist við því innan 3 daga myndi bankinn beita þeim heimildum sem hann hefði til að lagfæra veðtryggingarhlutfallið, en skv. lánssamningnum hafi bankinn haft heimild til að senda tilkynningar á tölvupóstfang stefnda þannig að bindandi væri fyrir stefnanda. Þrátt fyrir að tryggingar hafi legið fyrir til að geta greitt lánið eða hluta þess til að laga veðhlutfallið, líkt og áður hefði verið ákveðið, hafi bankinn ekki brugðist við með nokkrum hætti og heldur ekki eftir að stefndi hefði gefið skýr fyrirmæli um slíkt eftir að hann kom heim frá útlöndum, í byrjun októbermánaðar, svo sem áður er rakið.

Hinn 4. október hafi svo verið búið að loka fyrir sölu á hlutabréfamarkaði með hlutabréf hinna föllnu viðskiptabanka og hafi eignasafn stefnda orðið nánast verðlaust þann sama dag. Í kjölfarið hafi bankarnir verið teknir til slitameðferðar og hlutabréf í þeim af þeim sökum orðið einskis virði. Liggi því fyrir að þær tryggingar er bankinn hafi haft í sínum höndum og sinni umsjón hafi gengið honum úr greipum þrátt fyrir þá staðreynd að verulega hafi vantað upp á að veðhlutföll væru í samræmi við lánssamninginn og vanefndaúrræði bankanum tæk.

Stefndi hafi í kjölfarið óskað eftir fundi við Glitni banka hf. og hafi hann verið haldinn 21. október 2008 og hafi Ólafur Örn Svansson lögmaður mætt með stefnda. Hafi stefndi krafist þess að rituð yrði fundargerð þar sem hann hefði orðið þess áskynja að ekki hafi verið fylgt skýrum fyrirmælum eða ákvörðunum sem teknar hefðu verið og verið svo komið að bankinn hafi verið rúinn öllu trausti og mikil upplausn virst vera í bankanum á þessum tíma. Á þessum fundi hafi stefndi komið að athugasemdum sínum vegna vinnubragða starfsmanna bankans, einkum þess sem áður sé rakið í aðdraganda efnahagshrunsins og hafi stefndi talið að bankinn hefði með saknæmri háttsemi sinni valdið honum gríðarlegu fjárhagstjóni. Á fundinum hafi Ólafur Örn staðfest frásögn stefnanda sem einnig eigi sér stoð í frásögn Atla Ingólfssonar, lögmanns hjá Landsbankanum, sbr. tölvupóst hans frá 21. október 2008. Í niðurlagi fundargerðar komi fram að starfsmenn bankans hafi ætlað að fara ítarlega yfir málið og boða stefnanda á annan fund sem ekki hafi orðið.

Með bréfi, dagsettu 18. nóvember 2008, hafi innheimta verið hafin á skuld skv. lánssamningnum Þar sem kröfueigandi sé sagður vera Glitnir banki hf. og einnig í ítrekunarbréfi, dags. 29. desember s.á.

Í júní 2009 hafi stefnandi sagt upp samningi um einkabankaþjónustu á þeim grunni að stefnandi hefði tekið við öllum réttindum og skyldum Glitnis banka hf. skv. slíkum samningum miðað við 15. október 2008. Hafi stefndi óskað eftir upplýsingum frá stefnanda í september 2009 um kaup er gerð hafi verið í óskráðu erlendu félagi, að því er virtist án heimildar, og óskað upplýsinga um það hvort slík heimild hafi legið fyrir. Stefnandi hafi ekki talið sig geta dæmt um það og neitað að eiga fund með stefnda þar sem hann væri ekki lengur viðskiptavinur eignastýringardeildar stefnanda.

Hinn 9. desember 2009 hafi lögmaður stefnda óskað eftir því við stefnanda að öll gögn og upplýsingar varðandi málefni stefnda yrðu afhent, þar með talið allir tölvupóstar, skýrslur starfsmanna er rætt hefði verið við og upptökur af símtölum. Með bréfi stefnanda, dagsettu 15. desember 2009, þar sem fylgt hafi yfirlit yfir vörslureikning 7508, komi fram að engin símtöl væru til er vörðuðu vörslureikning 7508 en með bréfinu hafi fylgt afrit tölvupósta fyrir tímabilið 9. apríl til 14. október 2008.

Því bréfi hafi verið svarað með bréfi, dagsettu 17. febrúar 2009, þar sem fram hafi komið efasemdir um að ekki væru til upptökur af símtölum auk þess sem tölvupóstar, m.a. frá ágúst 2008, virtust ekki hafa ratað til lögmannsins, en um lykilgögn sé að ræða að mati stefnda er styðji fullyrðingar hans um það hvernig skyldi fara með vörslusafnið og uppgreiðslu á kröfu máls þessa.

Í bréfinu séu rakin samskipti aðilanna og sú skoðun stefnda að með athöfnum sínum hafi bankinn valdið stefnda gríðarlegu fjárhagstjóni og bætur vegna þess numið mun hærri fjárhæðum en eftirstöðvar lánssamningsins. Sé þar lýst yfir skuldajöfnuði við kröfu bankans er teljist þar með að fullu greidd og þess krafist að stefnda verði greiddur mismunurinn ásamt innistæðu á vörslureikningi 7508, sem sé óveruleg.

Með bréfi stefnanda, dagsettu 16. apríl 2009, hafni stefnandi því að geta borið ábyrgð á kröfum sem til hafi orðið fyrir 15. október 2008 og eigi rót sína að rekja til athafna starfsmanna Glitnis banka hf. Hins vegar telji stefnandi að komi í ljós að stefndi eigi skaðabótakröfu á hendur Glitni banka hf. er hann geti fengið greidda með skuldajöfnuði á móti kröfu skv. lánssamningnum, muni stefnandi færa kröfuna niður að því leyti sem bótakrafan hrökkvi til greiðslu hennar. Lýsi stefnandi því jafnframt yfir að aðgerðum verði frestað leggi stefndi fram fullnægjandi tryggingar, þar sem langur tími kunni að líða áður en niðurstaða fáist um viðurkenningu stefnda á bótakröfu sinni og fram bornum skuldajöfnuði. Slíkar tryggingar hafi stefndi ekki getað lagt fram, enda hafi hann tapað aleigu sinni við efnahagshrunið, er vörslusafn 7508 er forveri stefnanda einn hafi haft í sinni vörslu og verið honum einum til ráðstöfunar, hafi orðið verðlaust. Sömu sögu hafi verið að segja um vörslusafn 7281, er innihaldið hafi hlutabréf óskráðra félaga.

Hinn 22. nóvember 2009 hafi stefndi svo lýst bótakröfu sinni fyrir slitastjórn Glitnis banka hf., er numið hafi 252.933.790 krónum auk dráttarvaxta frá 22. apríl 2009 til greiðsludags og lýst þar jafnframt yfir skuldajöfnuði við þá kröfu sem lánssamningur í máli þessu sé sprottinn af. Hafi krafan verið móttekin og færð á kröfuskrá sem krafa nr. 253, en ekki hafi enn verið tekin afstaða til kröfunnar.

Stefndi byggi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti en skv. fram lögðum gögnum stefnda sé krafan talin vera eign Glitnis banka hf. löngu eftir að stefnandi hafi tekið við réttindum og skyldum þess banka skv. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sbr. innheimtubréf og ítrekunarbréf frá stefnda sjálfum í september og desember 2008. Sé þar skýrlega kveðið á um að kröfueigandi skv. lánssamningnum sé Glitnir banki hf. með kt. 550500-3530. Engar skýringar liggi fyrir í gögnum málsins með hvaða hætti stefnandi telji sig hafa eignast kröfuna eftir greind tímamörk.

Skv. heimild í ákvörðun FME skyldu ekki allar kröfur renna til stefnanda og af gögnum að dæma virðist krafa skv. lánssamningi stefnda við Glitni banka hf. ekki hafa verið framseld stefnanda þannig að hann geti í eigin nafni fengið dóm fyrir kröfunni líkt og hann sé eigandi hennar. Þvert á móti beri gögn málsins með sér að eigandi kröfunnar sé Glitnir banki hf. og beri því að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts. Vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. eml. til stuðnings kröfu sinni.

Þá byggi stefndi sýknukröfu sína á því að umrædd krafa sé greidd fyrir lýstan skuldajöfnuð, sem hafi verið gerður er stefndi lýsti bótakröfu sinni fyrir slitastjórn Glitnis banka hf. með bréfi dags. 23. nóvember 2009 ásamt því að lýsa yfir skuldajöfnuði við kröfu bankans skv. lánssamningnum sbr. og einnig bréf stefnda til stefnanda, dags. 17. febrúar 2009, sama efnis. Með því hafi krafan fallið niður við greiðslu fyrir skuldajöfnuð er leiði óhjákvæmilega til sýknu, en skilyrði til skuldajöfnunar hafi verið til staðar, þ.e. kröfurnar séu milli sömu aðila þar sem í ákvörðun FME hafi sérstaklega verið ákvarðað að þrátt fyrir yfirfærslu réttinda til stefnanda héldist skuldajafnaðarréttur er viðkomandi hafi átt gagnvart Glitni banka hf. Kröfurnar séu samkynja, þær séu báðar gildar og hæfar til að mætast hvað greiðslutíma snertir. Þá vísar stefndi sömuleiðis til aukins skuldajafnaðarréttar skv. 100. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 13. tl. ákvörðunar FME er veiti skuldara rétt til að hafa uppi skuldajöfnunarkröfu er hann átti á fyrri kröfuhafa eða þrotabú hans án tímatakmarkana. Sé viðsemjanda fjármálastofnunar þannig veitt rýmri skuldajöfnunarréttur. Það sé eðlilegt þar sem ákvæði gjaldþrotalaga miði að því að takmarka þann rétt við ákveðið tímamark til að koma í veg fyrir að útvaldir viðskiptamenn hins gjaldþrota aðila nái fram kröfum sínum á kostnað annarra með kröfum sem stofnast kunni rétt fyrir gjaldþrot. Eigi slíkt auðvitað ekki við um almenna viðskiptamenn fjármálastofnana, en Glitnir banki hf. sé til slitameðferðar en ekki til gjaldþrotaskipta, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, og því skilyrði þau sem fram komi í ákvörðun FME eðlileg og skiljanleg.

Stefndi byggi þannig á því að stefnandi verði að sæta því að stefndi komi að öllum sömu vörnum við stefnanda og hann hefði komið að gagnvart Glitni banka hf., verði talið að framsal til stefnanda eigi sér stoð í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008. Stefnandi geti þannig ekki einungis tekið til sín réttindi skv. samningnum en ekki borið neinar skyldur. Í 5. gr. ákvörðunar FME komi skýrt fram að stefnandi taki við öllum réttindum og skyldum skv. samningi um eignastýringu við viðskiptavini Glitni banka hf. Í því felist að hafi starfsmenn Glitnis banka hf. valdið tjóni vegna saknæmrar háttsemi sinnar við framkvæmd þess samnings, beri stefnandi á því ábyrgð skv. skýlausu ákvæði í 14. gr. samnings um einkabankaþjónustu, er hann telur sig hafa yfirtekið með nefndri ákvörðun. Sé engin undanþága gerð að þessu leyti í ákvörðun FME varðandi yfirtöku stefnanda á umræddum samningum. Hefði þurft að geta þess skýrlega hafi stefnandi átt að njóta þess hagræðis að viðskiptavinir Glitnis banka hf. hefðu ekki heimild til að bera fyrir sig varnir er lúti að framkvæmd einkabankaþjónustu, enda í blóra við almennar reglur fjármunaréttarins um aðilaskipti á kröfum, þess efnis að skuldari missi ekki neinar mótbárur er hann hafi átt gagnvart framseljanda, á hendur framsalshafa.

Þá sé þess sérstaklega getið að í 15. gr. ákvörðunar FME sé kveðið á um að framsal kröfuréttinda svipti ekki skuldara rétti til skuldajöfnunar er hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.

Skuldajöfnunarkrafa stefnda byggi á því að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi valdið honum verulegu fjártjóni með saknæmri háttsemi, er stefnda verði ekki á neinn hátt kennt um.

Í fyrsta lagi, svo sem rakið hafi verið hér að framan, hafi stefndi talið að þjónustufulltrúa hans, Hilmari, hafi verið falið að selja hlutabréf viðskiptabankanna sem verið hafi í vörslusafni 7508 og færa til greiðslu á skuld skv. lánssamningi þeim sem nú sé til innheimtu. Hafi stöðufundur verið haldinn í bankanum 27. ágúst 2008 þar sem þetta hafi verið rætt og hafi Hilmari verið ætlað að útfæra ákvörðun fundarins nánar. Hafi stefndi ýtt á eftir Hilmari daginn eftir með tölvupósti að hratt yrði unnið í málum hans, enda hafi stefndi talið ýmis teikn á lofti er gert hafi það að verkum að hann hafi viljað losa um hlutabréf í safni sínu, sem að vísu hefðu verið keypt án sérstakrar heimildar hans auk þess sem þau kaup hafi ekki samræmst fyrirliggjandi fjárfestingastefnu í samningi hans við bankann um einkabankaþjónustu nr. 7508. Sama sé að segja um kaup bankans á óskráðum innlendum og erlendum hlutabréfum í vörslusafni 7281. Sé um sjálfstætt brot á einkabankasamningunum að ræða og andvirði hinna óheimilu kaupa á hlutabréfum jafnhátt tjóni stefnda, er stefnandi beri bótaábyrgð á skv. ákvæðum í sjálfum samningnum og almennum reglum skaðabótaréttarins.

Þegar tillögur Hilmars hafi legið fyrir þann 28. ágúst 2008 hafi stefndi gefið skýr fyrirmæli í síma þann sama dag og síðar í tölvupósti, um að eftir þeim skyldi unnið, enda gert skv. ráðgjöf Hilmars sjálfs. Stefndi hafi hringt í Hilmar sérstaklega og tjáð honum þessa afstöðu sína. Ekki hafi fundist upptökur af einu einasta símtali stefnda við þjónustufulltrúa sinn skv. upplýsingum frá stefnanda, þrátt fyrir að kveðið sé á um að símtöl séu hljóðrituð og beri stefnandi því hallann af því og leggja verði til grundvallar frásögn stefnda af atvikum, sem þó styðjist við gögn og yfirlýsingar ótengdra aðila. Telur stefndi einkennilegt að engin slík gögn skuli nú vera til og að einungis óverulegur hluti af tölvupóstgögnum hafi fundist í fórum bankans, sem engu máli skipti. Virðist sem öll gögn er tengst hafi samskiptum stefnda við Glitni banka hf. á þeim tíma sem um ræðir hafi týnst á óskiljanlegan máta. Beri stefnandi að sjálfsögðu fulla ábyrgð á því.

Þeir fjármunir sem út úr sölunni fengjust skyldu settir inn á bankareikninga og peningamarkaðssjóð eftir að lánið væri greitt eða stór hluti þess. Þá fjármuni er eftir stæðu skyldi svo nýta í gjaldeyrissamningum við bankann og hefði stefndi ákveðið að þeir samningar yrðu virkir í lok september 2008, eftir að hann kæmi heim úr ferð til Kamchatka. Engin hlutabréf hafi verið seld og engir fjármunir færðir inn á lánið og telur stefndi að á þessum tíma hafi verið mikill þrýstingur á starfsfólk að halda uppi gengi á hlutabréfum í viðskiptabönkunum með því að örva kaup en letja til sölu. Með þessari háttsemi sinni hafi stefnandi valdið stefnda miklu tjóni er nemi að hámarki söluverði hlutabréfa í vörslusafni 7508, skv. tillögum frá 28. ágúst 2008, 135.359.752 krónum er lýst hafi verið til skuldajöfnunar kröfu bankans.

Til vara hafi verið lýst yfir skuldajöfnun á 128.452.481 krónu en það sé sú fjárhæð sem nýst hefði stefnda hefðu fjármunir við sölu hlutabréfanna verið nýttir til að greiða 50,0 millj. inn á lánið og afgangur settur í sjóð 9, en miðað sé við útgreiðsluhlutfall við slit sjóðsins hinn 30. október 2008, 85,12%. Skv. tillögunum skyldu 92.166.919 krónur renna inn á sjóðinn þannig að við slit og útgreiðslu úr honum hefði stefndi fengið 78.452.481 krónu.

Til þrautavara við þennan lið er lýst yfir skuldajöfnun á 53.120.496 krónum sem verið hafi andvirði hlutabréfa Kaupþings hinn 3. október 2008, en þann dag hafi stefndi  gefið þjónustufulltrúa sínum skýr fyrirmæli um að selja bréfin, líkt og hann hafi talið sig áður hafa gert með samþykki tillagna hans frá því í ágúst 2008.

Þjónustufulltrúinn hafi ekki brugðist við og bréfin verið óseld í lok þess dags, þó að mikil viðskipti hefðu verið með bréf bankans þann dag. Eftir þann dag hafi verið lokað fyrir viðskipti með bréf Kaupþings banka hf. Sé ljóst að þjónustufulltrúinn hafi brugðist gjörsamlega og gengið raunar þvert gegn eigin sannfæringu, þegar hann í ágúst hafi talið eignarhald á hlutabréfum orðið mjög áhættusamt, sérstaklega hlutabréf í fjármálafyrirtækjum.

Stefnda hafi hins vegar verið ómögulegt að selja úr safninu þar sem það hafi verið handveðsett bankanum og beri bankinn því fulla ábyrgð á því tjóni sem af því hafi hlotist að selja ekki hlutabréfin, þrátt fyrir skýran vilja stefnda, en við þeirri beiðni hafi bankanum borið að bregðast í samræmi við 18. gr. laga nr. 108/2007.

Í öðru lagi bendir stefndi á að skilmálar og ákvæði einkabankasamnings stefnda við Glitni banka hf. og lög um verðbréfaviðskipti hafi verið brotin í veigamiklum atriðum. Í samningi nr. 7281 sé skýrlega kveðið á um að ekki megi kaupa óskráð hlutabréf. Þrátt fyrir það hafi verið keypt bréf í VBS fjárfestingabanka hf. og Guardian Holding ehf. en síðarnefndu kaupin hafi verið gerð í maí 2007 skv. fyrirliggjandi kaupnótu. Seljandi þar virðist vera Arngeir Lúðvíksson með lögheimili í Sameinuðu Arabafurstadæmunum. Stefndi viti ekkert af hverju umrædd bréf hafi verið keypt, en andvirði þeirra í eignasafni í ágúst sé sagt vera 8.127.000 krónur. Sé þar um sjálfstætt brot á 8. gr. sbr. 9. gr. laga nr. 33/2003 að ræða.

Andvirði hlutabréfa í VBS fjárfestingabanka hf. sé sagt vera  29.907.330 krónur en stefndi hafi engar upplýsingar um þau kaup né hafi veitt heimild til þeirra. Svo virðist sem umrædd bréf séu verðlaus enda sé VBS til slitameðferðar. Beri stefnandi fulla bótaábyrgð á því tjóni sem stefndi hafi orðið fyrir vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna Glitnis banka hf. með því að brjóta ákvæði samningsins um einkabankaþjónustu skv. 5. gr. sbr. 15. gr. samningsins.

Þá hafi brotin einnig lotið að því að með umræddum kaupum hafi verið farið á svig við fjárfestingastefnu þá sem skyldi gilda um safnið, sbr. áskilnað 3. tl. 2. gr. laga nr. 108/2007, en hámark innlendra og erlendra hlutabréfa í safni skyldi vera 20% hvort. Í vörslusafni stefnda hafi slík hlutabréf verið 99,9% af safninu.

Við framkvæmd einkabankasamnings nr. 7508 hafi með sama hætti ákvæði hans verið þverbrotin, með þeim afleiðingum að stefndi hafi orðið fyrir gríðarlegu fjárhagstjóni er stefnandi beri bótaábyrgð á. Í samningnum hafi ekki verið kveðið á um fjárfestingastefnu, sem sé sjálfstætt brot á lögum um verðbréfaviðskipti og hafi starfsmönnum bankans því verið óheimilt að fjárfesta í verðbréfum, nema fyrir lægi skriflegt samþykki stefnda hverju sinni. Slíks samþykkis hafi ekki verið aflað og ekki unnið eftir ákveðinni stefnu er stefndi hefði fyrir fram ákveðið.

Virðist sem mikið kappsmál hafi verið að fjárfesta í hlutabréfum Glitnis banka hf. sjálfs eftir að upplýsingar hafi verið komnar fram um að bankakerfið kynni að standa höllum fæti. Hafi starfsmenn bankanna væntanlega átt verulegra hagsmuna að gæta þar sem þeir nær undantekningalaust hafi átt mikið af hlutabréfum í þeim bönkum sem þeir störfuðu við og því hafi hagsmunatengsl verið til staðar sem hafi verið óheppileg og brot á lögun nr. 161/2002 og II. kafla laga nr. 33/2003 og síðar laga nr. 108/2007.

Virðist t.d. sem keypt hafi verið hlutabréf í Glitni banka hf. fyrir rúmar 184,0 millj. í apríl 2008 og fært í eignasafn stefnda. Hafi starfsmönnum bankans mátt vera ljóst að á þeim tíma hafi verið um áhættumikla fjárfestingu að ræða sem farið hafi langt fram úr því sem eðlilegt hafi getað talist miðað við stærð vörslusafnsins og þá fjárfestingastefnu sem mörkuð hefði verið með samningi nr. 7281.

Ábyrgð bankans sé auðvitað enn þyngri fyrir þær sakir að umrætt vörslusafn hafi verið handveðsett Glitni banka hf. og síðar stefnanda, sem þannig hafi einn haft aðgang að safninu og einn heimild til að ráðstafa verðbréfum meðan veðsetning varaði, sbr. skilmála í handveðsyfirlýsingu frá 13. október 2006. Hafi stefnandi því borið ábyrgð á því að hið veðsetta nægði til tryggingar skuldum stefnda við bankann. Vanefnd stefnanda að bregðast við tilmælum stefnda og eftir að tryggingar lækkuðu verulega þannig að varðaði við vanefndaákvæði lánssamningsins, stefnda til tjóns, beri stefnandi einn ábyrgð á og ljóst að skuld stefnda við bankann hafi þá verið nægilega tryggð.

Með háttalagi sínu hafi starfsmenn gróflega brotið ákvæði þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, sbr. lög nr. 108/2007 er tóku gildi 1. nóvember 2007.

Þá byggi stefndi loks einnig á því að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þegar tryggingaþekja lánsins fór undir umsamin mörk skv. skýru ákvæði í lánssamningnum sjálfum. Í stað þess að afsetja tryggingar eftir að veðkall hafi verið gert réttilega, hinn 17. september 2008, hafi ekkert verið að gert. Í veðkalli bankans hafi verið boðað að gripið yrði til aðgerða í samræmi við ákvæði lánssamningsins. Ekkert slíkt hafi verið gert en einu aðgerðir bankans á þeim tíma hafi verið að greiða niður lánið með þeim tryggingum sem bankinn hafi haft í höndunum skv. handveðssamningi við stefnda frá október 2006.

Hafi stefnda enda verið mjög brugðið þegar hann hafi komið heim í lok september 2008 og áttað sig á því að lánið hefði ekki verið greitt upp og hafi hann strax reynt að ná í þjónustufulltrúa sinn án árangurs þar sem hann hafi verið í fríi. Hafi hann þá sent póst á yfirmann deildarinnar Jóhann Ómarsson til að fá svör við því hvort fulltrúinn væri hættur í bankanum. Hinn 3. október 2008 hafi stefndi svo sent tölvupóst á nefndan Hilmar og áréttað fyrri fyrirmæli sín um að selja hlutabréfin til að greiða inn á lánið. Ekki hafi það verið gert og tjón stefnda vegna vanefnda starfsmanna bankans að bregðast við því ástandi sem upp hafi verið komið, hafi því verið alfarið á ábyrgð bankans, og skýrt brot á 18. og 19. gr.  laga nr. 108/2007.

Sé ljóst að ef réttilega hefði verið brugðist við hefði tjón stefnda ekkert orðið og bankinn fengið lánið greitt. Um sýknu að svo stöddu:

Verði ekki á kröfur stefnda fallist krefst hann sýknu að svo stöddu. Vísar stefndi að nokkru leyti til málsástæðna sem raktar eru með frávísunarkröfu hans. Stefndi telur að óvíst sé hvort stefnandi geti krafist efnda á lánssamningi þar sem hann hafi lýst yfir skuldajöfnuði við kröfuna þannig að hún telst að fullu greidd verði á það fallist. Meðferð þess máls er ólokið en það á undir upphaflegum lánveitanda, Glitni banka hf., og stefnandi er bundinn við niðurstöðu í því máli, svo sem hann hefur sjálfur lýst yfir. Þannig er alls óvíst, meðan svo er, að stefndi verði krafinn um efndir lánssamnings þar sem hann teljist nú þegar fullefndur. Þar sem niðurstaða í máli stefnda og Glitnis banka hf. liggur ekki fyrir, og mun hugsanlega ekki gera það fyrr en eftir meðferð þessa máls fyrir héraðsdómi, sem ætlað er þá m.a. að fjalla um þá sömu skuldajöfnunarkröfu og hér er fyrir dómi, verður að sýkna stefnda að svo stöddu. Að öðrum kosti kann stefnandi þessa máls að vera með fullgilda og dæmda kröfu á hendur stefnda jafnhliða því að upphaflegur lánveitandi telji hana hafa greiðst fyrir skuldajöfnuð löngu fyrir þann tíma er dómur fellur í þessu máli. Með því kann stefnandi að ná fram niðurstöðu sem er gjörsamlega ósamrýmanleg niðurstöðu í málsmeðferð þeirri sem þegar er hafin fyrir slitanefnd Glitnis banka hf. og stefnandi hefur talið réttan farveg fyrir fjárkröfu stefnda er hann telur tæka til skuldajöfnunar.

Um dráttarvexti:

Verði á kröfur stefnanda fallist að einhverju eða öllu leyti þá telur stefndi að ekki verði dæmdir dráttarvextir á kröfuna þar sem stefnandi hefur í dómkröfum sínum ekki vísað til lagagreinar vaxtalaga líkt og lög áskilja, sbr. og skýr fordæmi Hæstaréttar Íslands. Hefur stefnandi einungis látið nægja að vísa til 3. kafla laga nr. 38/2001 án nánari tilgreiningar. Fullnægir það ekki þeim kröfum sem gerðar eru til að dómur verði lagður á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Ber því að sýkna stefnda af þeirri kröfu.

Lagarök.

Stefndi vísar til ákvæða laga nr. 21/1991 og laga nr. 91/1991, einkum um aðildarskort, sakarefni, gagnkröfu til skuldajafnaðar og reglur um sönnun og sönnunarbyrði. Þá vísar stefndi til almennrar reglna kröfu- og skaðabótaréttarins og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þágildandi laga nr. 33/2003, sbr. nú lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, einkum I. og II. kafla.

Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á ákvæðum laga nr. 91/1991, XXI. kafla. Um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar stefndi til laga nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þóknun sinni, en stefndi er ekki skattaðili í skilningi laganna og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda. 

NIÐURSTAÐA

Stefndi ber fyrir sig að kröfugerð um dráttarvexti sé ábótavant þar sem ekki komi fram vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 í dómkröfum í stefnu. Um það er þess að gæta að í stefnu vísar stefnandi í reifun sinni um málsatvik beinlínis til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því ekki efni til að gera athugasemdir við kröfugerð stefnanda hvað þetta varðar.

Stefndi ber fyrir sig að í bréfum stefnanda til hans frá 18. nóvember 2008 og 29. desember s.á. sé krafan á hendur honum talin eign Glitnis banka hf. löngu eftir að stefnandi, Íslandsbanki hf., hafi tekið við réttindum og skyldum samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008. Heldur stefndi því fram að stefnandi eigi ekki aðild að máli þessu þar sem eigandi kröfu á hendur honum sé Glitnir banki hf. og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 var öllum eignum Glitnis banka hf. ráðstafað til stefnanda þar á meðal kröfu samkvæmt lánssamningi þeim sem stefnandi krefur um greiðslu á í þessu máli. Þrátt fyrir orðalag í innheimtubréfi frá 18. nóvember 2008 og ítrekun þess frá 29. desember 2008 verður á því að byggja að með nefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi stefnandi fengið kröfu á hendur stefnda framselda og sé því réttur aðili máls. Er og til þess að líta að í bréfi stefnanda til lögmanns stefnda, dagsettu 16. apríl 2009, og bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 8. júní 2009, kemur skýrt fram að stefnandi er eigandi kröfunnar. Verður sýknukröfu stefnda á grundvelli aðildarskorts því hafnað.

Í þinghaldi 25. febrúar 2011 lagði lögmaður stefnanda fram bókun þar sem hann áskildi sér rétt til þess að leggja fram frekari gögn og koma að frekari málsástæðum og lagarökum umfram það sem fram kemur í greinargerð, m.a. að fjárkrafan að baki lánssamningi standi á ólögmætum grunni og að önnur atvik við gerð lánssamningsins leiði til breytinga eða ógildingar hans. Nánari lýsing og reifun á þessum málsástæðum kom ekki fram í bókuninni. Í þinghaldi 17. maí 2011 var  málinu frestað til frekari gagnaöflunar og aðalmeðferðar en engar nýjar málsástæður voru hafðar uppi í því þinghaldi eða fyrrgreindri bókun fylgt eftir. Var það fyrst við munnlegan flutning málsins hinn 14. september 2011 að því var haldið fram af hálfu stefnda að fjárkrafa að baki lánssamningi stæði á ólögmætum grunni og málsástæður hans þar að lútandi reifaðar. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykja þær málsástæður of seint fram komnar og komast ekki að í máli þessu. Eru því einungis þær málsástæður stefnda sem getur í greinargerð hans til úrlausnar hér.

Stefndi hefur uppi skuldajafnaðarkröfu gagnvart stefnanda byggða á því að starfsmenn Glitnis banka hafi valdið honum tjóni. Þjónustufulltrúa þeim sem hann átti samskipti við í bankanum, Hilmari S. Sigurðssyni, hafi verið falið að selja hlutabréf í viðskiptabönkunum sem verið hafi í vörslusafni 7508 og færa til greiðslu á skuld skv. lánssamningi þeim sem hér er til innheimtu í framhaldi af fundi 27. ágúst 2008. Hinn 28. ágúst eða daginn eftir sendi stefndi tölvpóst til þjónustufulltrúans þar sem hann segist leggja til að hratt verði unnið í málum hans þann dag. Þjónustufulltrúinn sendi stefnda tölvupóst síðar sama dag þar sem segir um efni: „Tillaga Magnús 28. ágúst með fyrirvara um samþykki.“ Í skýrslu vitnisins Jóhanns Ómarssonar framkvæmdastjóra kom fram að á fundi hinn 12. ágúst þar sem málefni stefnda hefðu verið til umræðu hefði stefndi ekki viljað selja hlutabréf úr eignasafni sínu. Jafnframt kom fram hjá vitninu að stefndi hafi verið viðskiptavinur sem þeir hafi viljað passa sig á og vanda sig mjög vel hvað sem þeir gerðu og framkvæma einungis það sem þeir hefðu haft heimildir til. Hann kvað stefnda ekki hafa gefið fyrirmæli um að selja á fundinum 27. ágúst, hann hafi ætlað að hugsa málið. Hann hafi verið á förum til útlanda og ætlað að hugsa málið í þeirri ferð. Minnti vitnið að hann hafi sagt Hilmari að senda yrði beiðni um skýra ákvörðun í tölvupósti. Það hafi sem sagt verið ákveðið að gera ekkert í málinu fyrr en stefndi kæmi og hafi þeir ákveðið að fylgjast með þessu. Í skýrslu vitnisins Hilmars S. Sigurðssonar fjármálaráðgjafa kom fram að fram hafi komið skýr ráðgjöf til stefnda um að selja. Hins vegar hafi ekki komið til þess. Vitnið hefði verið búinn að tilkynna verðbréfamiðlun bankans um að bréfin væru á leiðinni í sölu. Þreifað hefði verið á markaðnum en tilboð verið undir markaðsverði. Stefndi hafi verið áhugasamur um að selja og ganga frá málum sínum við bankann. Hins vegar hafi hann litið svo á að stefndi ætti eftir að samþykkja tillögur þær sem fram komu í tölvupóstinum frá vitninu. Þá sagði vitnið að á fundi sem vitnið, stefndi og vitnið Jón Þ. Hilmarsson endurskoðandi stefnda áttu 9. september á skrifstofu Jóns hafi stefnda verið ljóst að ekki var búið að selja bréfin. Þá hafi hann sagt stefnda, eins og fram komi í tölvupósti frá vitninu 3. október 2008, að fyrirmæli stefnda hafi verið skýr áður en stefndi fór til Rússlands að hann vildi láta eignasafnið standa óbreytt á meðan, þ.e. ekki selja neitt í GLB og KAUP þangað til bankinn hefði svarað bréfi stefnda. Þá kemur fram í tölvupósti frá stefnda til starfamanns stefnanda í framhaldi af veðkalli hinn 17. september 2008 að hann geri alvarlega athugasemd við það hvernig farið hafi verið inn í umrætt skuldabréf og það falsað.  Ekki verður af tölvupósti þessum hins vegar séð að stefndi geri sérstakar athugasemdir við að ekki hefði verið gengið að eignasafni hans sem stefnandi hafði að handveði eða að hann hafi hreyft athugasemdum við það að eignir hefðu ekki verið seldar í framhaldi af fundinum 27. ágúst. Þykir rétt að taka fram hér að með skýrslu vitnisins Odds Ólafssonar lögmanns kom fram skýring á því hvers vegna dagsetningum gjalddaga á bréfinu var breytt eftir undirritun þess og ekki önnur ályktun dregin af því sem fram kemur í málinu en að það hafi verið í samræmi við vilja stefnda hvernig þeim yrði háttað. Sú fullyrðing stefnda að hann hafi gefið starfsmönnum Glitnis banka hf. skýr fyrirmæli um að selja þegar hinn 28. ágúst 2008 er með hliðsjón af því sem hér að framan er rakið ekki sönnuð og þykir því ekki sýnt fram á það hér að stefnandi beri ábyrgð á tjóni sem stefndi telur sig hafa beðið vegna þess að eignasafn hans var ekki selt fyrr en það var að mestu verðlaust.

Um þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi átt að ganga að handveði er þess að geta að stefnandi átti um það val hvort hann gengi að handveðinu eða ekki og verður ekki fallist á það með stefnda að stefnanda hafi verið það skylt. Er því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að hann eigi skaðbótakröfu á hendur stefnanda vegna þessa.

Um sölu á bréfum á Guardian Holding er þess að gæta að í tölvupósti frá stefnda til Hilmars S. Sigurðssonar þjónustufulltrúa frá 3. október segir að sala á Guardian Holding ehf. skuli fara fram þegar Hilmar hafi látið hann vita um gengi bréfanna. Samkvæmt þessu verður ekki séð að stefndi hafi gert athugasemdir við að hann eignaðist bréf þessi og ætti þau. En samkvæmt nefndum tölvupósti hlaut honum að vera Það ljóst. Verður ekki fallist á það með stefnda að kaup bréfanna leiðin til bótaskyldu stefnanda.

Loks verður ekki fallist á það með stefnda að skilyrði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála taki til tilviks þessa og er því kröfu hans um sýknu að svo stöddu hafnað.

Samkvæmt öllu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda stefnukröfur. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

                                                                              DÓMSORÐ

                Stefndi Magnús Árnason greiði stefnanda Íslandsbanka hf. 110.297.583 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 110.297.583 krónum frá 2. nóvember 2008 til greiðsludags að frádregnum 389.758 krónum sem greiddar voru hinn 14. apríl 2009 og 5.460.104 krónum sem greiddar voru hinn 15. apríl 2009.

                Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.