Hæstiréttur íslands

Mál nr. 574/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


                                     

Föstudaginn 5. september 2014.

Nr. 574/2014.

A

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tólf mánuði.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. ágúst 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. ágúst 2014 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. ágúst 2014.

Með beiðni, dagsettri 29. júlí 2014, hefur Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess, með vísan til a- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, að varn­ar­aðili, A, kt. [...], [...], Reykjavík, verði sviptur sjálfræði í 12 mánuði, svo unnt sé að veita honum læknismeðferð við geð­sjúk­dómi en hann sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna sjúkdómsins. Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. 

Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað. Til vara er þess krafist að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími.

Í vottorði B geðlæknis, dagsettu 23. júlí sl., kemur fram að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Hann hafi sögu um misnotkun fíkniefna, sérstaklega örvandi efna. Varnaraðili hafi fimm sinnum verið vistaður á geðdeild frá því á árinu 2012.  Hann hafi í öll skiptin lagst inn vegna geðrofseinkenna. Miklar líkur séu á að geðrofseinkenni hans tengist neyslu hans á örvandi efnum, en talið er líklegt að hann sé að þróa með sér geðrofssjúkdóm.

Varnaraðili hafi verið lagður inn á bráðageðdeild 32C á Landspítalanum 10. júlí sl. og vistaður þar í 48 klukkustundir með heimild í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997.  Hinn 11. júlí sl. var varnaraðili nauðungarvistaður á geðdeild í 21 dag.  Um sé að ræða sjöttu innlögn varnaraðila á geðdeild en í þremur síðustu innlögnum hafi varnaraðili verið nauðungarvistaður á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1994.  Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili sé með lítið sjúkdómsinnsæi og sé tortrygging í garð meðferðaraðila og ekki hafi reynst unnt að byggja upp traust meðferðarsamband á milli þeirra.  Þá hafi varnaraðili iðulega hafið neyslu að nýju fljótlega eftir útskrift og verið tregur til eða hætt töku nauðsynlegra geðrofslyfja sem hafi leitt til endurinnlagna.  Kemur þar og fram að aðsóknarhugmyndir varnaraðila séu það miklar að hættuástand geti skapast og með því geti hann orðið hættulegur bæði sjálfum sér og umhverfi sínu.

Í málinu liggur einnig frammi læknisvottorð C, dagsett 11. júlí 2014, vegna beiðni um nauðungarvistun varnaraðila á geðdeild, samkvæmt heimild í 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Í vottorði hennar kemur fram að varnaraðili hafi sögu um misnotkun fíkniefna, sérstaklega örvandi efna. Hann hafi farið í meðferð á Vog og Teig fyrir nokkrum árum. Varnaraðili sé með miklar aðsóknarhugmyndir og hafi hvorki innsæi í veikindi sín né þörf á meðferð.  Atferli hans stjórnist af ranghugmyndum og hann sé mjög illa haldinn, hræddur, spenntur og órólegur.  Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg. Án hennar stefni hann heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum til bata.

B gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti læknisvottorð sitt. Hann kvað bráðnauðsynlegt að miða sjálfræðissviptingu varnaraðila við tólf mánuði, þar sem varnaraðili hefði lengi verið mjög veikur og nauðsynlegt væri að halda honum í með­ferð og endurhæfingu, en varnaraðili hefði ekki fengist til að taka þau lyf sem væru honum nauðsynleg nema í stuttan tíma.  Varnaraðili hefði vaxandi aðsóknarhugmyndir og meðferð væri því nauðsynleg til að vernda líf hans og heilsu.  Með sjálfræðissviptingu væri ætlunin að ná samvinnu við varnaraðila um læknismeðferð, en ekki væri ætlunin að halda honum á lokaðri deild í langan tíma.

Dómurinn telur vafalaust af því sem að framan er rakið að varnaraðili hafi alvar­legan geðsjúkdóm og af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum. Með vísan til a-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 verður varn­ar­aðili sviptur sjálfræði í 12 mánuði svo tryggja megi honum viðeigandi læknis­meðferð.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði kostnað af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., eins og í úrskurðarorði greinir. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í 12 mánuði.

Kostnaður af málinu þ.m.t. þóknun verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.