Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skjal


Mánudaginn 21

 

Mánudaginn 21. janúar 2002.

Nr. 14/2002.

Jón Ágúst Jóhannsson

Sigríður Sveinsdóttir og

Jón Jóhannsson ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Gunnari Andrési Jóhannssyni

Sigurði Garðari Jóhannssyni og

Holtabúinu ehf.

(Magnús Thoroddsen hrl.)

 

Kærumál. Skjöl.

J o.fl. kröfðust þess að gagnaðilar þeirra yrðu skyldaðir til að leggja fram á dómþingi nánar tilgreind skjöl. Í dómi Hæstaréttar segir að lagaúrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali úr hendi gagnaðila séu tæmandi talin í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verði önnur ákvæði laganna ekki skýrð svo að héraðsdómara sé að kröfu aðila rétt að kveða upp úrskurð um skyldu gagnaðila samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laganna til þess eins að ljóst liggi fyrir hvort afleiðingar vanrækslu á þeirri skyldu verði slíkar, sem um ræði í 1. mgr. 68. gr., enda sé að auki andstætt meginreglum einkamálaréttarfars að dómari taki með úrskurði undir rekstri máls afstöðu til efnislegra atriða varðandi sönnun.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. janúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. nóvember 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilum yrði gert að leggja fram í máli þeirra nánar tiltekin skjöl. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað að nýju, en til vara að tekin verði til greina krafa þeirra um að lagt verði fyrir varnaraðila að leggja fram áðurnefnd gögn. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og  sóknaraðilum gert að greiða þeim kærumálskostnað.

Kröfu sína um ómerkingu hins kærða úrskurðar virðast sóknaraðilar einkum reisa á því að héraðsdómara beri að fella úrskurð á kröfu þeirra um að varnaraðilar verði skyldaðir til að leggja fram á dómþingi nánar tilgreind skjöl, sbr. 2. mgr. 67. gr. og d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Héraðsdómari hafi á hinn bóginn hafnað kröfunni með vísan til þess að lagaúrræði sóknaraðila til að fá aðgang að skjali úr hendi varnaraðila séu tæmandi talin í 1. mgr. 68. gr. laganna. Sóknaraðilum sé ljóst að slíkum úrskurði verði ekki fullnægt með aðför eins og þegar skjöl eru varðveitt hjá þriðja manni, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, heldur sé krafan gerð til að þau geti notið þeirrar réttarstöðu, sem um ræðir í 1. mgr. sömu lagagreinar, láti varnaraðilar hjá líða að leggja gögnin fram, þrátt fyrir úrskurð um skyldu þeirra til þess.

Ef aðili einkamáls skorar á gagnaðila sinn að leggja fram skjal, sem sá síðarnefndi hefur í vörslum sínum, ber gagnaðilanum samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 að verða við því ef aðilinn á rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að gagnaðilanum væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu. Í 1. mgr. 68. gr. laganna er mælt svo fyrir að verði gagnaðilinn ekki við slíkri áskorun um að leggja fram skjal, sem þykir sannað að hann hafi undir höndum, geti dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði eru lagaúrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali úr hendi gagnaðila tæmandi talin á þennan hátt í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Verða önnur ákvæði laganna ekki skýrð svo að héraðsdómara sé að kröfu aðila skylt að kveða upp úrskurð um skyldu gagnaðila samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 til þess eins að ljóst liggi fyrir hvort afleiðingar vanrækslu á þeirri skyldu verði slíkar, sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. laganna, enda væri að auki andstætt meginreglum einkamálaréttarfars að dómari tæki með úrskurði undir rekstri máls afstöðu til efnislegra atriða varðandi sönnun. Brestur samkvæmt þessu lagastoð í senn fyrir aðalkröfu og varakröfu sóknaraðila fyrir Hæstarétti. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Jón Ágúst Jóhannsson, Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf., greiði í sameiningu varnaraðilum, Gunnari Andrési Jóhannssyni, Sigurði Garðari Jóhannssyni og Holtabúinu ehf., hverjum fyrir sig 30.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. nóvember 2001.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 8. nóvember sl., að afloknum munnlegum málflutningi.

Stefnendur eru Jón Ágúst Jóhannsson og Sigríður Sveinsdóttir, persónulega og fyrir hönd Jóns Jóhannssonar ehf., Ásmundarstöðum, Ásahreppi, Rangárvallahreppi.

Stefndu eru Holtabúið ehf. kt. 580179-0459, Árbæ, Holta-og Landsveit, Rangárvallasýslu, Gunnar Andrés Jóhannsson, sama stað og Sigurður Garðar Jóhannsson, Hegranesi 22, Garðabæ.

Stefnandi krefst úrskurðar samkvæmt d-lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skyldu stefndu til að leggja fram viðskiptareikninga sína hjá Holtabússamsteypunni árin 1989, 1991 og 1992, þ.e. hlutafélögin Holtabúið, Fóðurblönduna, Hveitimylluna, Ewos og Húskaup.

Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda verði hafnað. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda í þessum þætti málsins.

Stefnendur byggja kröfu sína um úrskurð dómsins á d-lið 143. gr. laga nr. 91/1991, en þar er að finna heimild til kæru úrskurðar vegna skyldu aðila eða vörslumanns til að láta skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn af hendi eða veita aðgang að því.

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 eru lagaúrræði málsaðila til að fá aðgang skjala úr hendi gagnaðila þar tæmandi talin, sbr. hæstaréttardóm nr. 99/1995 sem uppkveðinn var 24. mars 1995 í máli Einars Þórs Kolbeinssonar gegn Olíuverslun Íslands hf. Krafa stefnenda á sér samkvæmt ofangreindu ekki lagastoð og ber því að hafna henni, en rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti máls bíði efnisdóms í málinu.

Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu stefnenda um að stefndu, Gunnari Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni, sé skylt að leggja fram viðskiptareikninga sína hjá Holtabússamsteypunni, þ.e. hlutafélögunum Holtabúinu, Fóðurblöndunni, Hveitimyllunni, Ewos og Húskaupum, árin 1989, 1990 1991 og 1992 er hafnað.