Hæstiréttur íslands

Mál nr. 354/2001


Lykilorð

  • Forkaupsréttur
  • Hlutafélag
  • Kaupsamningur
  • Innlausn


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. mars 2002.

Nr. 354/2001.

Þorsteinn Már Aðalsteinsson

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

gegn

Samherja hf.

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

 

Forkaupsréttur. Hlutafélög. Kaupsamningur. Innlausn.

K og S hf. gerðu með sér ,,drög að kaupsamningi” um sölu hlutabréfa K í SD hf. með fyrirvara ,,um endanlegt samþykki félagsstjórna viðkomandi” og að aðrir hluthafar í SD hf. ,,afsali sér forkaupsrétti sínum.” Þ, erfingi eins af hluthöfum í SD hf., höfðaði síðar mál gegn S hf. á þeim grundvelli að við söluna hefði verið brotið með ólögmætum hætti gegn forkaupsrétti, sem Þ eða þeir, er hann leiddi rétt sinn frá, hafi átt. Að gefnu tilefni var tekið fram, að samingsaðilar geti ekki gert forkaupsrétt að engu með því að semja sín á milli um að sala viðkomandi eignar sé háð því að forkaupsréttar verði ekki neytt. Af hálfu K var litið svo á að kaupin væru háð samþykki stjórnar SD hf. og þeim skilningi hafði S hf. ekki andmælt. Lýsti K samningsdrögin úr gildi fallin þegar samþykki stjórnar SD hf. fékkst ekki og gat forkaups­réttur annarra hluthafa í SD hf. því ekki orðið virkur á grundvelli þeirra. Nokkru eftir að ofangreind atvik urðu, voru á aðalfundi SD hf. teknar ákvarðanir um breytingar á samþykktum félagsins, sem m.a. lutu að afnámi forkaupsréttar hluthafa við sölu á bréfum í félaginu. Í málinu byggði Þ á því að ákvörðunin væri ógild, þar sem ekki hefði verið boðað til fundarins með lögmætum hætti. Þar sem Þ hafði ekki höfðað mál til ógildingar á ákvörðuninni innan þess frests sem kveðið var á um í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 32/1978 og sannanlega haft vitneskju um hluthafafundinn áður en hann var haldinn, var talið ótækt að hann, tæplega 10 árum síðar, gæti byggt rétt á því að ákvörðun fundarins hefði í öndverðu verið ógild. Umræddar breytingar á samþykktum félagsins voru því álitnar gildar gagnvart Þ og var S hf. samkvæmt því sýknað af kröfum sem Þ reisti á þessum grunni. Af hálfu Þ var til ítrustu vara gerð krafa um að S hf. leysti til sín hlutabréf hans í SD hf. Eins og málatilbúnaði Þ var háttað að þessu leyti þótti ekki annað fært en að sýkna S hf. jafnframt af þessari kröfu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 407.956.733 krónur, en til vara 95.029.379 krónur. Verði ekki á það fallist krefst hann greiðslu 9.714.317 króna úr hendi stefnda, en að því frágengnu að stefndi greiði sér 2.262.961 krónu. Í öllum tilvikum er þess krafist að dæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til ítrustu vara krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 102.213 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. mars 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum þessum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru kröfur áfrýjanda, aðrar en ítrasta varakrafa hans, skaðabótakröfur, sem reistar eru á því að brotið hafi verið með ólögmætum hætti gegn forkaupsrétti, sem hann eða þeir, er hann leiðir rétt sinn frá, hafi átt við sölu á hlutabréfum Kaupfélags Eyfirðinga í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. á vormánuðum 1990 til félags, sem þá bar heitið Samherji hf. Samkvæmt þágildandi samþykktum Söltunarfélags Dalvíkur hf. skyldi hluthafi, sem selja vildi bréf sín í félaginu, tilkynna það félagsstjórn, sem hafði forkaupsrétt að bréfunum fyrir hönd þess. Vildi stjórnin ekki neyta forkaupsréttar félagsins skyldu hluthafar öðlast forkaupsrétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína.

Faðir áfrýjanda, Aðalsteinn Loftsson, átti hlut í Söltunarfélagi Dalvíkur hf., sem nam 0,01% af nafnverði heildarhlutafjár. Aðalsteinn lést 1. september 1986. Samkvæmt einkaskiptagerð erfingja hans 27. nóvember 1986 komu hlutabréfin í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. í hlut sambýliskonu hans Jónínu R. Kristjánsdóttur, móður áfrýjanda. Með áritun á hlutabréf í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. 25. maí 1991 framseldi Jónína áfrýjanda hlutinn sem fyrirframgreiddan arf. Frekari gögn liggja ekki fyrir um þetta efni. Er svo að sjá að formlega hafi ekki orðið af þessari fyrirframgreiðslu arfs, enda voru hlutabréfin talin meðal eigna dánarbús Jónínu í beiðni áfrýjanda og systur hans um leyfi til einkaskipta eftir lát hennar 30. júlí 1992. Komu bréfin í hlut áfrýjanda samkvæmt einkaskiptagerð, sem afhent var sýslumanni við lok skipta á dánarbúinu 19. ágúst 1992.

Samkvæmt framangreindu voru hlutabréfin í Söltunarfélagi Dalvíkur hf., sem forkaupsrétturinn, sem deilt er um í máli þessu, er leiddur af, í eigu móður áfrýjanda á árinu 1990 þegar Kaupfélag Eyfirðinga seldi hlut sinn í félaginu. Skiptir því engu fyrir úrlausn þessa máls að bú áfrýjanda var tekið til gjaldþrotaskipta 24. maí 1989 og þeim hafi fyrst lokið 4. október 1996. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi sé réttur aðili að máli þessu.

II.

Kaupfélag Eyfirðinga og Samherji hf. gerðu með sér „drög að kaupsamningi“ 8. apríl 1990 um sölu hlutabréfa fyrrnefnda félagsins í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. Lokamálsgrein samningsdraganna var svohljóðandi: „Þessi drög að kaupsamningi eru gerð með fyrirvara um endanlegt samþykki félagsstjórna viðkomandi, og að aðrir hluthafar í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. afsali forkaupsrétti sínum.“ Greinir aðilana á um hvort forkaupsréttur á grundvelli hlutabréfanna, sem síðar komust í eigu áfrýjanda, hafi orðið virkur við gerð þessara samningsdraga þótt ekki hafi orðið úr kaupunum á grundvelli þeirra.

Samkvæmt gögnum málsins voru á þessum tíma fjórir hluthafar í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. Auk Kaupfélags Eyfirðinga voru þeir fyrrnefnd Jónína R. Kristjánsdóttir, Dalvíkurbær og Hallgrímur Antonsson. Sá síðastnefndi lýsti því yfir með bréfi 21. apríl 1990 að hann myndi neyta forkaupsréttar síns. Stefndi heldur því fram að þar með hafi skilyrði samningsdraganna 8. apríl 1990 um að hluthafar féllu frá forkaupsrétti sínum ekki verið fullnægt og þau því ekki orðið bindandi fyrir Kaupfélag Eyfirðinga, seljanda bréfanna, sem aftur hafi leitt til þess að forkaupsréttur annarra hluthafa í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. hafi ekki orðið virkur. Á þetta verður ekki fallist. Í forkaupsrétti felst sjálfstæður réttur forkaupsréttarhafa til að ganga inn í samning um sölu þeirrar eignar, sem sá réttur lýtur að, óháð vilja þeirra, er að samningnum standa. Þann rétt geta samningsaðilar ekki gert að engu með því að semja sín á milli um að sala eignarinnar sé háð því að forkaupsréttar verði ekki neytt.

Kaupfélag Eyfirðinga leitaði eftir því við stjórn Söltunarfélags Dalvíkur hf. með bréfi 2. maí 1990 að hún heimilaði framangreinda sölu bréfa kaupfélagsins í söltunarfélaginu með vísan til greinar 2.04 í þágildandi samþykktum síðastnefnda félagsins. Málið var samdægurs tekið fyrir á fundi stjórnar söltunarfélagsins. Hafnaði hún að veita samþykki sitt fyrir sölunni með þeim rökum að ekki væri „nægjanlega ljóst hvar hlutabréfin kunni að lenda endanlega og eigi heldur hvort vinnsla sjávarafurða muni fara fram hér á Dalvík eða í hvaða mæli ...“. Með vísan til þessarar afstöðu stjórnar Söltunarfélags Dalvíkur hf. tilkynnti Kaupfélag Eyfirðinga Samherja hf. með bréfi 10. maí 1990 að samningur félaganna frá 8. apríl þess árs um sölu á hlutabréfunum væri úr gildi fallinn. Verður ekki séð af gögnum málsins að af hálfu Samherja hf. hafi verið gerðar athugasemdir við þá afstöðu.

Ætla verður að áðurgreint orðalag samningsdraganna 8. apríl 1990, þar sem fyrirvari var gerður um endanlegt samþykki „félagsstjórna viðkomandi“, hljóti að hafa átt við stjórnir þeirra félaga, sem voru aðilar að drögunum, en ekki jafnframt stjórn Söltunarfélags Dalvíkur hf., enda verður ekki séð að í orðalagi greinar 2.04 í þágildandi samþykktum síðastnefnds félags hafi falist með ótvíræðum hætti að framsal hlutabréfa í því væri háð samþykki stjórnar þess. Engu að síður er ljóst af því, sem að framan er rakið, að það var skilningur seljanda bréfanna, Kaupfélags Eyfirðinga, sem fyrirhugaður kaupandi þeirra, Samherji hf., andmælti ekki, að kaupin væru háð samþykki stjórnar Söltunarfélags Dalvíkur hf. Lýsti seljandinn sem áður segir samningsdrögin úr gildi fallin þegar það samþykki fékkst ekki. Samningsdrögin 8. apríl 1990 urðu því ekki bindandi fyrir aðila þeirra, Kaupfélag Eyfirðinga og Samherja hf. Gat forkaupsréttur annarra hluthafa í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. því ekki orðið virkur á grundvelli þeirra.

III.

Aðalfundur Söltunarfélags Dalvíkur hf. var haldinn 18. maí 1990. Voru þar teknar ákvarðanir um breytingar á samþykktum félagsins, sem meðal annars lutu að afnámi forkaupsréttar hluthafa við sölu á bréfum í félaginu. Gerðu Kaupfélag Eyfirðinga og Samherji hf. að því búnu nýjan kaupsamning 20. sama mánaðar um sölu á öllum hlutabréfum fyrrnefnda félagsins í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. Greinir málsaðila á um lögmæti boðunar til aðalfundarins að því er varðar breytingar á samþykktum félagsins og þar með gildi þeirra breytinga, sem þar voru gerðar á forkaupsrétti hluthafa. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að umræddar breytingar á samþykktum félagsins séu nú gildar gagnvart áfrýjanda. Þá er staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms niðurstaða hans um sýknu stefnda af ítrustu varakröfu áfrýjanda, sem lýtur að innlausn hlutabréfa hans í Söltunarfélagi Dalvíkur hf.

Samkvæmt framansögðu verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. júlí 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 13. júní s.l., hefur Þorsteinn M. Aðalsteinsson, kt. 010852-3079, Mímisvegi 17, Dalvík, höfðað hér fyrir dómi á hendur Samherja hf., kt. 610297-3079, Glerárgötu 30, Akureyri, með stefnu útgefinni 6. apríl 2000.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 407.956.733,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 27. apríl 2000 til greiðsludags.  Til vara er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 95.029.379,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 27. apríl 2000 til greiðsludags.  Til þrautavara er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 9.714.317,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 27. apríl 2000 til greiðsludags.  Til þrautaþrautavara er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 2.262.961,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 27. apríl 2000 til greiðsludags.  Til þrautaþrautaþrautavara er þess krafist, að stefndi verði dæmdur til greiðslu kr. 102.213,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 14. mars 1997 til greiðsludags.  Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Verði talið að bótaskylda sé til staðar er þess krafist til vara, að bótafjárhæðir verði lækkaðar verulega að mati dómsins og málskostnaður látinn niður falla.

Málsatvik:

Af hálfu stefnanda hefur málsatvikum verið lýst svo, að mál þetta lúti að ráðstöfun tiltekins hluthafa á hlutafé í Söltunarfélagi Dalvíkur hf., hér eftir nefnt SFD hf., nánar til tekið sölu sem fram hafi farið í apríl 1990, sem og aðgerða stjórnar félagsins.  Þá snúist málið einnig að hluta um ólögmæta innlausn á hlut stefnanda í SFD hf.

Í upphafi árs 1990 hafi SFD hf. verið í eigu Dalvíkurbæjar (36,26 %), Kaupfélags Eyfirðinga (63,32 %), hér eftir nefnt KEA, Hallgríms Antonssonar (0,41 %) og Jónínu R. Kristjánsdóttur (0,01 %), nú stefnanda.

Aðalsteinn Loftsson, faðir stefnanda, hafi eignast hlut í SFD hf. árið 1945.  Þegar Aðalsteinn hafi andast hafi hlutur hans í SFD hf. runnið til dánarbúsins, en skiptum á búinu hafi lokið 27. nóvember 1986.  Hafi bréfin eftir skiptalok verið í eigu Jónínu R. Kristjánsdóttur, móður stefnanda,  þar til 25. maí 1991 er stefnandi hafi fengið þau, sem fyrirfram greiddan arf.  Svo virðist hins vegar sem ekki hafi verið gengið frá framsalinu við opinbera aðila, sem með búskipti fara, fyrr en með einkaskiptagerð eftir lát Jónínu, dags. 18. ágúst 1992.  Fyrir 25. maí 1991 hafi stefnandi hins vegar haft fullt og ótakmarkað umboð móður sinnar til að fara með hlutabréf hennar í SFD hf.  Stefnandi hafí því í raun, allt frá andláti föður síns, gætt hagsmuna tengdu ofangreindu hlutafé.  Við framsalið 25. maí 1991 hafi stefnandi öðlast allan þann rétt sem fyrri hluthafi hafi átt, þ.m.t. hugsanlegan bótarétt.

Í apríl 1990 virðist sem KEA hafi tekið ákvörðun um að selja hlut félagsins í SFD hf., sem þá hafi verið 63,32 % hlutafjár.  Samkvæmt samþykktum SFD hf. frá maí 1982 hafi aðrir hluthafar notið forkaupsréttar.  Á fundi bæjarráðs Dalvíkur 8. apríl 1990 hafi verið lagt til, að Dalvíkurbær afsalaði sér forkaupsrétti á bréfum KEA í SFD hf.  Á fundi bæjarstjórnar Dalvíkur 10. apríl 1990 hafi bæjarstjórnin fallið frá forkaupsrétti að hlutabréfum KEA í SFD hf.

Ákvörðun bæjarstjórnar Dalvíkur, um að falla frá ofangreindum forkaupsrétti, hafi tengst samkomulagi KEA við Dalvíkurbæ þess efnis, að KEA keypti hlut Dalvíkurbæjar í Útgerðarfélagi Dalvíkur.  Samkvæmt kaupsamningsdrögum þessara aðila, dags. 8. apríl 1990, hafi KEA keypt hlut Dalvíkurbæjar í Útgerðarfélagi Dalvíkinga. 

Þann 10. apríl 1990 hafi stjórn KEA sent frá sér fréttatilkynningu, sem lesin hafi verið í fréttum RÚV.  Í fréttinni hafi m.a. komið fram, að KEA ætlaði að selja hlut sinn í SFD hf. til Útgerðarfélagsins Samherja hf. og nota söluandvirðið, kr. 62.000.000,-, til greiðslu kaupverðsins á hlut Dalvíkurbæjar í Útgerðarfélagi Dalvíkinga.

Í svæðisútvarpi Norðurlands þann 11. apríl 1990 hafi verið lesin fréttatilkynning frá stjórn KEA þar sem m.a. hafi komið fram, að stjórnin hefði samþykkt að selja Samherja hf. hlutabréf KEA í SFD hf. á grundvelli bráðabirgðasamnings frá 8. apríl 1990.

Stjórn SFD hf. hafi verið fullkunnugt um sölu KEA og í raun tekið afstöðu til hennar.  Þrátt fyrir vitneskju stjórnar SFD hf. um sölu KEA á hlut félagsins, hafi hluthöfum, öðrum en Dalvíkurbæ, ekki verið gefinn kostur á að neyta forkaupsréttar.  Hvorki stefnanda né móður hans hafi verið tilkynnt um sölu KEA á hlut félagsins í SFD hf. þrátt fyrir að skylda þess efnis hafi hvílt á stjórn SFD hf.

Einum eða tveimur dögum eftir framangreinda atburði hafi þáverandi bæjarstjóri Dalvíkurbæjar, Kristján Þ. Júlíusson, og forseti bæjarstjórnar, Trausti Þorsteinsson, komið að máli við stefnanda og Hallgrím Antonsson og farið þess á leit, að þeir féllu frá forkaupsrétti sínum í SFD hf.  Því hafi stefnandi og Hallgrímur hafnað og jafnframt lýst því yfir, að þeir hyggðust nýta sér forkaupsrétt sinn.

Hallgrímur Antonsson hafi lýst því formlega yfir við stjórn SFD hf., að hann myndi neyta forkaupsréttar síns.  Í svarbréfi Kristjáns Þ. Júlíussonar, þáverandi stjórnarformanns SFD hf. segi, að stjórn félagsins hafi „... synjað um samþykki sitt til sölu bréfanna ...“ og hafi því engin bréf til ráðstöfunar.

Þann 10. maí 1990 hafi stefnanda, f.h. móður sinnar borist boðun til aðal- og hluthafafundar í SFD hf., sem fram hafi átt að fara þann 18. maí s.á.  Í fundarboðun hafi verið dagskrá fundarins í 8 liðum, en einn af þeim liðum hafi verið „... tillögur að breytingum á samþykktum félagsins“.  Ekki hafi verið vikið frekar að fyrirhuguðum breytingum á samþykktum félagsins.

Á aðalfundi SFD hf. þann 18. maí 1990 hafi samþykktum félagsins verið breytt.  Í einni breytinganna hafi falist niðurfelling á forkaupsrétti hluthafa.  Stefnandi hafi ekki mætt á þennan fund þrátt fyrir að hafa umboð móður sinnar til að mæta.  Í framhaldi fundarins hafi KEA selt hlut sinn aftur til Samherja hf.

Dalvíkurbær hafi selt hlut sinn í SFD hf., 36,4 %, til Samherja hf. árið 1995.  Stefnanda hafi ekki verið boðinn forkaupsréttur á hlut Dalvíkurbæjar, þrátt fyrir að forkaupsréttur hans væri enn í gildi.

Með bréfi lögmanns Samherja hf., dags. 22. janúar 1996, hafi því verið lýst yfir, að Samherji hf. myndi leysa til sín hlut stefnanda í SFD hf., 0,01 % á kr. 25.000,-.  Ári síðar, þann 3. febrúar 1997, hafi Samherji hf. sent ávísun að fjárhæð kr. 25.000,- til stefnanda.  Með bréfi dags. 14. febrúar s.á., hafi stefnandi endursent ávísunina með skírskotun til brota á forkaupsrétti við sölu KEA á hlut félagsins í SFD hf. í apríl 1990.  Ekki hafi verið réttilega staðið að innlausninni enda ekki gætt ákvæða hlutafélagalaga, þar sem meint innlausn hafi í raun farið fram 3. febrúar 1997 og þá gegn mótmælum stefnanda.

Þann 15. febrúar 1997 hafi SFD hf., Matvælaiðjan Strýta hf., Samherji hf., Útgerðarfélagið Hamar hf., Stokknes hf. og Eyrarfrost hf., verið sameinuð með stofnun nýs félags, stefnda Samherja hf.  Sameiningin hafi miðast við 1. júlí 1996 þrátt fyrir að stefnandi hafi þá átt 0,01 % í SFD hf.

Stefndi hefur lýst málsatvikum á þá lund, að fyrri hluta árs 1990 hafi farið fram viðræður um aukið samstarf aðila í útgerð og fiskvinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu.  Tildrög viðræðnanna hafi verið slæm fjárhagsstaða Útgerðarfélags Dalvíkur og SFD hf. og hafi verið ræddar leiðir til að bæta stöðu fyrirtækjanna.  Þessar viðræður hafi m.a. leitt til þess, að hlutur Dalvíkurbæjar í Útgerðarfélagi Dalvíkur hafi verið seldur KEA og jafnframt hafi verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða.  Þá hafi m.a. komið til tals að stefndi keypti hlut KEA í SFD hf. og hafi farið fram viðræður innan bæjarstjórnar Dalvíkur og stjórnar KEA um þessi málefni.  Drög hafi verið gerð að kaupsamningi, sem dagsett hafi verið 8. apríl 1990.  Hafi drögin verið gerð með fyrirvara um endanlegt samþykki stjórna viðkomand félaga og að aðrir hluthafar í SFD hf. afsöluðu sér forkaupsrétti sínum.  Stjórn SFD hf. hafi fundað um málið þann 2. maí 1990.  Á þeim fundi hafi verið tekin ákvörðun um að hafna beiðni KEA um samþykki við sölu hlutabréfanna

Á umræddum fundi hafi verið ákveðið, að á næsta aðalfundi skyldu lagðar fram tillögur um að auka hlutafé í félaginu og að fella úr samþykktum hömlur á meðferð hlutabréfa.  Tillögur til breytinga á samþykktum hafi svo verið kynntar á fundi stjórnar félagsins, sem haldinn hafi verið 7. maí 1990.

Á aðalfundi félagsins, sem haldinn hafi verið 18. maí 1990, hafi verið mætt fyrir 99,99 % hluthafa félagsins.  Ekki hafi verið mætt fyrir dánarbú Aðalsteins Loftssonar og hafi það verið eini hluturinn í félaginu, sem ekki hafi verið mætt fyrir.  Á fundinum hafi verið gerðar boðaðar breytingar á samþykktum félagsins og m.a. felldur niður forkaupsréttur.

Í framhaldi af niðurstöðu fundar bæjarstjórnar hinn 2. maí 1990 hafi farið fram óformlegar viðræður milli forsvarsmanna bæjarfélagsins, KEA og Samherja hf. um það, hvernig tryggja mætti að hagræðingaraðgerðir kæmu ekki illa niður á atvinnulífi í bænum.  Hafi þær viðræður leitt til þess, að samkomulag hafi tekist að nýju um aðkomu Samherja hf. að SFD hf. og hafi verið gerður kaupsamningur um sölu á hlut KEA til Samherja þann 20. maí 1990.  Ákveðið hafi verið, að reikningsskil yrðu miðuð við 1. apríl s.á., eins og upphaflega hafi verið gert ráð fyrir og útreikningar miðast við.

Á þeim tíma, sem umrædd kaup hafi verið gerð, hafi stefnandi ekki verið fjár síns ráðandi.  Bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskiptameðferðar 24. maí 1989, en skiptalok hafi ekki orðið fyrr en 4. október 1996.  Skiptastjóri búsins, Árni Pálsson hrl., hafi á engum tíma haft uppi kröfu um nýtingu forkaupsréttar.

Með bréfi lögmanns stefnda dags. 22. janúar 1996 hafi því verið lýst yfir, að stefndi myndi leysa til sín hlut stefnanda í SFD hf.  Slík innlausn hafi fyllilega verið í samræmi við hlutafélagalög nr. 2, 1995 og hafi hún tekið gildi 22. janúar 1996.  Stefnandi hafi hins vegar ekki viljað taka við greiðslu fyrir hinn innleysta hlut og ekki sýnt því áhuga, að kallaðir yrðu til dómkvaddir matsmenn til að meta hinn innleysta hlut.

 Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi kveðst byggja aðal- og varakröfur sínar á því, að sannað sé að sala KEA á hlut fyrirtækisins í SFD hf. hafi farið fram 10. apríl 1990.  Stjórn SFD hf. hafi verið tilkynnt um söluna, a.m.k. hafi henni verið kunnugt um hana.  Stjórninni hafi borið að tilkynna Jónínu R. Kristjánsdóttur, nú stefnanda, um söluna til þess að viðkomandi gæti nýtt lögvarinn forkaupsrétt, en þar sem slíkt hafi verið látið hjá líða hafi verið um bótaskylda háttsemi að ræða.  Þar að auki hafi stjórn SFD hf. gripið til alls óviðeigandi og ólögmætra aðgerða, þ.e. að synja um samþykki fyrir sölu á bréfunum, sbr. bréf formanns stjórnar félagsins, dags. 2. maí 1990.  Þrautavarakrafa stefnanda byggi á því, að innlausn á 0,01 % hlut hans í SFD hf. í febrúar 1997 hafi verið ólögmæt og ekki rétt að henni staðið, en fjárhæð þrautavarakröfu svari til þess innlausnarverðs, sem stefnandi telji rétt að miða við.

Ekki sé hægt að krefjast  efnda in natura, þ.e. að stefnandi fái útgefin og afhent hlutabréf í SFD hf. fyrir 63,32 % hlut, þar sem SFD hf. hafi verið lagt niður og hlutafé þess runnið inn í stefnda.  Ómöguleiki standi þannig í vegi fyrir kröfu um efndir in natura.  Jafnframt hafi stjórn SFD hf. synjað um samþykki sitt fyrir sölu KEA á hlutabréfunum, sbr. bréf stjórnarformanns, dags. 2. maí 1990 og því hafi stjórnin í raun hindrað á ólögmætan hátt, að hægt væri að nýta forkaupsrétt.  Þá sé rétti stefnanda betur borgið með skaðabótum enda hafi lögskipti hans og stefnda undanfarin ár verið með þeim hætti, að stefnanda fýsi ekki að eiga frekari samskipti við stefnda.

Stefnandi hafi eignast hlut móður sinnar í maí 1991 og þar með talda hugsanlega skaðabótakröfu dánarbúsins vegna háttsemi stjórnar félagsins.

Stefnandi kveðst byggja á því, að brotin hafi verið forkaupsréttarákvæði samþykkta SFD hf. við sölu á hlut KEA í SFD hf. árið 1990 til Samherja hf.  Ef forkaupsréttur stefnanda, upphaflega Jónínu R. Kristjánsdóttur, hefði verið virtur í apríl 1990 hefði stefnandi getað eignast allan hlut KEA í SFD hf., þ.e. 63,32 % enda hafi ekki aðrir forkaupsréttarhafar haldið rétti sínum til haga.  Til vara sé byggt á því, að stefnandi hafi átt forkaupsrétt á 1/42 hluta KEA í SFD hf.

Telur stefnandi sannað, að KEA hafi selt hlut sinn í SFD hf. þann 10. apríl 1990, salan hafi a.m.k. farið fram fyrir aðalfund SFD hf. 18. maí 1990.  Bendir stefnandi á, að KEA hafi greitt fyrir kaupin á Útgerðarfélagi Dalvíkur með skuldabréfi útgefnu af Samherja hf., að fjáhæð kr. 62.000.000,-, samkvæmt kaupsamningi sem öðlast hafi gildi 10. apríl 1990.  Þá vísar stefnandi til bréfs þáverandi stjórnarformanns SFD hf. dags. 2. maí 1990 þar sem fram komi að stjórn félagsins hafi, að svo komnu, synjað um samþykki sitt til sölu bréfanna.

Stefnandi byggir á því að stjórn SFD hf. hafi borið að tilkynna öðrum hluthöfum en Dalvíkurbæ um sölu KEA á hlut sínum, enda hafi stjórninni verið kunnugt um söluna, sbr. bréf stjórnarformanns dags. 2. maí 1990.  Háttsemi stjórnar SFD hf. hafi valdið Jónínu R Kristjánsdóttur, nú stefnanda, tjóni og hindrað með ólögmætum hætti, að lögvarinn forkaupsréttur yrði virkur.  Vísar stefnandi um þetta til greinar 2.04. í þágildandi samþykktum SFD hf., en þar segi:  „... vilji félagsstjórn eigi neyta forkaupsréttar fyrir félagsins hönd eða standi landslög í vegi fyrir slíkum kaupum, þá hafa einstakir félagsmenn forkaupsrétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína.  Stjórnin tilkynni þeim þá þegar í stað sölutilboð [...]  Skal hún gera það skriflega þegar í stað.“  Stjórn SFD hf. hafi ekki gætt þessa ákvæðis, þegar sala KEA á hlut félagsins hafi verið tekin til meðferðar og synjað var um samþykki fyrir sölunni.

Stjórn SFD hf. hafi komið í veg fyrir að forkaupsréttur annarra hluthafa en Dalvíkurbæjar yrði virkur þegar KEA seldi hlut sinn í SFD hf. í apríl 1990, sbr. þá ákvörðun stjórnarinnar að synja um söluna, sbr. títtnefnt bréf stjórnarformannsins dags. 2. maí 1990 til Hallgríms Antonssonar.  Stjórn SFD hf. hafi verið óheimilt að synja um söluna, enda hafi hvorki í lögum né samþykktum félagsins á þessum tíma verið slík heimild.  Háttsemi stjórnar SFD hf. hafi verið ólögmæt og hindrað að Jónína R. Kristjánsdóttir, nú stefnandi, gæti nýtt sér forkaupsrétt á bréfum KEA í SFD hf.

Þar sem stjórn SFD hf. hafi synjað um sölu KEA á hlutafé félagsins hafi Jónína R. Kristjánsdóttir, nú stefnandi, ekki getað gengið inn í kaupin né boðið fram greiðslu kaupverðsins, þar sem stjórnin hafi lagt bann við sölunni.  Framangreind háttsemi hafi verið saknæm og bótaskyld samkvæmt ólögfestum reglum skaðabótaréttar, sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð.

Stefnandi kveðst byggja á því, að hlutafélag beri vinnuveitandaábyrgð á starfsmönnum sínum, þ.m.t. stjórnarmönnum, ef saknæmar athafnir þeirra valdi öðrum tjóni.  Stjórn SFD hf. hafi með háttsemi sinni valdið Jónínu R. Kristjánsdóttur, nú stefnanda, tjóni sem bótaskylt sé samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga.  Þannig hafi stjórnin hvorki farið að lögum né samþykktum félagsins þegar KEA seldi hlut sinn í apríl 1990 til Samherja hf.  Þar sem stefndi, Samherji hf., hafi nú tekið við réttindum og skyldum SFD hf. sé fjárkröfum beint að félaginu.

Stefnandi kveðst ennfremur byggja á því, að breytingar, sem gerðar hafi verið á samþykktum SFD hf. þann 18. maí 1990, hafi verið ólögmætar og í raun aldrei öðlast gildi.  Annmarki hafi verið á boðun til fundarins, þar sem í henni hafi eingöngu verið tiltekið „tillögur að breytingum á samþykktum“.  Í grein 4.02. í samþykktum félagsins frá 1982 sé fjallað um fundarboðun.  Þar segi m.a., að ef taka skuli til meðferðar breytingar á samþykktum skuli greina meginefni tillögunnar í fundarboði.  Þessa ákvæðis hafi ekki verið gætt við boðun hluthafafundar 18. maí 1990 og þá hafi fundarboðunin jafnframt farið í bága við ákvæði 71. gr. þágildandi laga um hlutafélög nr. 32, 1978.

Með vísan til þess, að breytingar á samþykktum hafi verið ólögmætar kveðst stefnandi telja ljóst, að seinni kaup Samherja hf. á hlutum KEA í SFD hf. hafi ekki verið í samræmi við gildar samþykktir SFD hf. þar sem forkaupsréttarákvæði hafi ekki verið felld úr gildi með lögmætum hætti.

Stefnandi kveður þrautavarakröfu byggja á því, að stefnda beri að leysa til sín hlut hans í stefnda.  Innlausn sem stefnanda hafi verið tilkynnt í janúar 1996 hafi verið ólögmæt.  Þannig hafi innlausnarverðið ekki verið greitt inn á geymslureikning, að fjórum vikum liðnum frá meintum innlausnardegi.  Þess í stað hafi stefnanda verið send ávísun með bréfi dags. 3. febrúar 1997, að fjárhæð kr. 25.000,-.  Stefnandi hafi endursent ávísunina og tekið það skýrt fram að hann sætti sig ekki við innlausnina.  Aðilar hafi því ekki verið sammála um innlausnarverð og þá telji stefnandi ekki eðlilegt að miða við matsverð frá því í janúar 1996 við innlausn sem fram eigi að fara í febrúar ári síðar.

Stefndi hafi ekki hlutast til um nein þau úrræði sem honum hafi verið tæk vegna ágreinings um innlausnina, s.s. að fá matsmenn til að meta hlut stefnanda eða að geymslugreiða innlausnarverðið.  Rétt sé að miða innlausnarverðið við gengi í stefnda í febrúar 1997, enda hafi það legið fyrir 3. febrúar 1997, að SFD hf. yrði sameinað öðrum félögum í stefnda.  Það eitt hafi leitt til hækkunar á því verði, sem miðað hafi verið við í janúar 1996.

Gerir stefnandi þær kröfur, að stefnandi innleysi hlut hans í stefnda, áður SFD hf.  Stefnandi hafi sannanlega átt 0,01 % hlut í SFD hf., en hann jafngildi 0,000008177 hlut í stefnda.  Nafnverð þess hlutar sé kr. 8.177,- en miðað við gengi í stefnda í febrúar 1997, 12,5, þá hefði innlausnarverðið átt að vera kr. 102.213,-.  Á þessu byggi þrautavarakrafan og sé dráttarvaxtakrafan miðuð við mánuð frá dags. bréfs stefnanda til stefnda í febrúar 1997.

Stefnandi kveðst vekja athygli á því, að þegar áðurnefnd fyrirtæki hafi verið sameinuð í stefnda, hafi fyrirsvarsmenn félagsins lýst því yfir, að SFD hf. hafi alfarið verið í eigu þeirra.  Það sé rangt, enda hafi hvorki verið rétt staðið að innlausn á hlut hans né hún framkvæmd á réttan hátt.  Stefnandi sé því enn þann dag í dag hlutahafi, nú í stefnda. 

Þá kveðst stefnandi telja, að stefnda beri að greiða honum málskostnað, óháð niðurstöðu málsins.  Atvik þess séu með þeim hætti, að eðlilegt sé að láta reyna á lögmæti aðgerða stefndu, sem hljóti að telja a.m.k. vafasamar.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á reglum laga um hlutafélög nr. 32, 1978, sbr. nú lög nr. 2, 1995.  Vísist sérstaklega til IV., X. og XVI. kafla laga nr. 32, 1978.  Þá byggi stefnandi á meginreglum skaðabótaréttar, sérstaklega sakarreglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð.  Kröfu um dráttarvexti byggi stefnandi á III. kafla laga nr. 25, 1987 og kröfu um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991.  Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda: 

Stefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu á þeirri málsástæðu, að eignaréttur að umræddum hlut hafi átt að renna til þrotabús stefnanda í maí 1991 þegar móðir stefnanda hafi afsalað hlutnum til hans.  Skiptastjóri þrotabúsins, Árni Pálsson hrl., hafi eftir það verið réttur forsvarsmaður þessa hluta.

Þá sé á það bent, að stefnandi hafi enga möguleika átt á að leggja fram fjármagn til kaupa á hlutabréfum þar sem hann hafi verið gjaldþrota og skiptastjóri einn getað gefið skuldbindandi yfirlýsingar um ráðstöfun eigna búsins.

Stefndi kveðst jafnframt byggja sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu, að forkaupsréttur hafi aldrei orðið virkur.  Drög að kaupsamningi hafi verið gerð með skýrum fyrirvara um að félögin samþykktu hann, og að aðrir hluthafar féllu frá forkaupsrétti.  Stjórn KEA hafi samþykkt að selja, en stjórn SFD hf. hafi hafnað sölu.  Aldrei hafi reynt á það, hvort stjórn Samherja hf. samþykkti kaupin á þessu stigi.  Einn hluthafa, Hallgrímur Antonsson, hafi hins vegar lýst því yfir, að hann myndi neyta forkaupsréttar ef af kaupum yrði.

Kaupsamningur milli aðila, sem sé skilyrtur, geti ekki virkjað forkaupsrétt fyrr en að skilyrðunum uppfylltum.  Yfirleitt felist í forkaupsrétti, að forkaupsréttarhafa sé heimilt að kaupa eign þá, sem forkaupsrétti sé háð, með sömu skilmálum og eigandinn hafi komist að með kaupsamningi við annan mann.   Líta verði svo á, að forkaupsréttur verði virkur um leið og eigandinn hafi skapað sér skyldu til þess að selja eignina, hann sé t.d. bundinn af kaupsamningi við þriðja mann.  Það hefði KEA í þessu tilfelli ekki orðið fyrr en að uppfylltum skilyrðum kaupsamningsdraganna, þ.e. að fengnu samþykki stjórnar SFD hf. og þegar aðrir hluthafar hefðu fallið frá forkaupsrétti.

Kveður stefndi ljóst, að í samþykktum SFD hf. hafi verið ákvæði, sem gert hafi það að skilyrði fyrir sölu, að stjórn félagsins samþykkti þá ráðstöfun.  Í grein 2.04. segi m.a.:  „Beiðni um veðsetningu, sölu eða annað framsal á hlutum skal vera skrifleg.  Ákvörðun um hvort veita skuli samþykki, skal tekin án tafar og aldrei síðar en tveim mánuðum eftir að samþykkis er óskað.“  Ákvæði þetta hafi stuðst við 20. gr. þágildandi hlutafélagalaga þar sem sagði:  „Ákveða má í samþykktum, að veðsetning, sala eða annað framsal á hlutum megi einungis fara fram með samþykki félagsins...“  „Ákvörðun um, hvort veita skuli samþykki, skal tekin án tafar og aldrei síðar en tveimur mánuðum eftir, að samþykkis er óskað.“  Augljós tengsl séu milli ákvæðis samþykktanna og lagaákvæðisins.  Ef félagið synji um sölu geti seljandinn hins vegar krafist þess, að félagið innleysi hlutina.

Með hliðsjón af ofangreindu ákvæði verði að telja, að það hafi verið eðlilegur fyrirvari í drögum að kaupsamningi milli KEA og Samherja hf., að stjórnir allra félaganna samþykktu söluna.  Það hafi hins vegar ekki gengið eftir, m.a. af þeirri ástæðu að einn hluthafa, Hallgrímur Antonsson, hafi haft lýst því yfir að hann myndi neyta forkaupsréttar.  Félagið hafi þá séð fram á að miklar tafir yrðu á framgangi mála, sem hefðu haft í för með sér fjártjón fyrir félagið.  Því hafi verið ákveðið að hafna því að salan yrði framkvæmd að sinni.  Jafnframt hafi verið tekin ákvörðun um að breyta samþykktum félagsins til að ekki þyrfti í framtíðinni að sæta kúgun af hálfu minni hluta hluthafa.  Hafi 99,58 % hlutahafa haft hug á að ganga til samstarfs við Samherja hf. um uppbyggingu á fyrirtækinu.  Ákvörðun hafi verið tekin um að boða til aðalfundar, þar sem þessi meiri hluti myndi beita sér fyrir því að fella úr samþykktum ákvæði um forkaupsrétt.

Höfnun þess, að leyfa söluna, hafi í alla staði verið eðlileg og í samræmi við ákvæði í samþykktum félagsins og lögum um hlutafélög.  Þá verði að horfa til þess, að forkaupsréttur hluthafa hafi aldrei getað orðið virkur fyrr en stjórn félagsins hefði fallið frá forkaupsrétti.  Réttarúrræði þau, sem um ræði, þ.e. heimild til að synja um sölu og forkaupsréttur stjórnar, séu af sama meiði.  Þeim sé ætlað að gera stjórnendum kleift að standa vörð um hagsmuni félagsins.

Þegar niðurstaða fundarins þann 2. maí 1990 hafi legið fyrir hafi KEA sent bréf til Samherja hf. þar sem tilkynnt hafi verið um að samningurinn frá 8. apríl 1990 væri fallinn úr gildi.

Forkaupsréttur hafi síðan verið felldur úr samþykktum með atkvæðum allra fundarmanna, annarra en Hallgríms Antonssonar, sem farið hafi með 0,41 % atkvæða, en mætt hafi verið á fundinum fyrir hluthafa sem fóru með 99,99 % atkvæða.  Einungis sá hlutur, sem stefnandi hafi farið með umboð fyrir, hafi ekkert fyrirsvar haft á fundinum.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður kveðst stefndi byggja á því, að stefnandi hafi í raun hafnað forkaupsrétti með aðgerðarleysi sínu.

Stefnanda hafi verið kynnt fyrirhuguð sala á hlutabréfum KEA til Samherja hf. eins og réttilega komi fram í stefnu.  Þar komi einnig fram, að stefnandi hafi haft fullan hug á að notfæra sér forkaupsrétt sinn.  Stefnandi hafi hins vegar enga tilburði haft uppi til að fara fram á að fá að neyta forkaupsréttar fyrr en í maí 1991.  Að vísu komi fram yfirlýsing í bréfi hans dags. 9. október 1990 þess efnis, að hann „geri stjórn og stjórnarformann Söltunarfélags Dalvíkur ábyrg fyrir öllum þeim gjörðum, sem átt hafa, eða eiga sér stað frá ólöglegri yfirtöku á hlut Kaupfélags Eyfirðinga í félaginu.“  Forkaupsréttur er hins vegar ekki nefndur af hálfu stefnanda fyrr en með bréfi dags. 23. maí 1991 er stefnandi lýsir því yfir, að hann líti svo á að „forkaupsréttur á hlut KEA í SFD sé einn og óskiptur hjá d.b. Aðalsteins Loftssonar, sem ég fer með umboð fyrir.“

Stefndi kveður ekkert liggja fyrir í málinu er gefi vísbendingu um að stefnandi hafi verið í félagi við Hallgrím Antonsson, þegar Hallgrímur gaf yfirlýsingar um að hann myndi neyta forkaupsréttar.  Stefnandi hafi þannig ekki haft uppi neins konar athugasemdir við framgang mála fyrr en rúmum fjórum mánuðum eftir að forkaupsréttur var felldur úr gildi.  Þá hafi hann ekki sett fram hugmyndir um nýtingu forkaupsréttar fyrr en ári eftir að hann var felldur niður.

Þar sem fyrir liggi, að stefnanda hafi verið tilkynnt um að gerð hefðu verið drög að kaupsamningi, sé á því byggt, að honum hefði borið að halda fram rétti sínum ef hann hefði talið forkaupsrétt vera orðinn virkan.  Það hafi hins vegar eðlilega verið afstaða stjórnar SFD hf., að synjun hennar um að kaupin yrðu framkvæmd, kæmi í veg fyrir að forkaupsréttur yrði virkur.  Verði að telja að stefnandi hafi með aðgerðarleysi sínu samþykkt þá afstöðu.

Kveðst stefndi byggja á því, að aðalfundur 18. maí 1990 hafi í alla staði verið lögmætur.  Til hans hafi verið boðað með lögmætum hætti og mætt hafi verið fyrir 99,99 % hluta í félagin.  Þar af hafi 99,58 % samþykkt það sem fram fór á fundinum.  Þeirri málsástæðu stefnanda, að umræddur aðalfundur hafi verið ólögmætur vegna annmarka á boðun til hans, sé því mótmælt.  Stefnandi hafi vitað um fundinn og hafi hann fengið umboð frá móður sinni til að sitja hann.  Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst, að meginefni tillagnanna  hafi ekki verið tilgreind í fundarboðun, líkt og áskilið hafi verið í samþykktum félagsins og 3. mgr. 71. gr. laga nr. 32, 1978 um hlutafélög.  Ástæða þessa hafi verið sú, að hluthafar í félaginu hafi á þessum tíma ekki verið nema fjórir talsins og þeim því öllum fyllilega ljóst efni tillagnanna.  Stefnandi geti því tæplega borið fyrir sig ágalla í boðun enda hafi hann ekki réttmæta hagsmuni af því að bera slíkt fyrir sig.  Í annan stað megi á það benda, að boðun breytinga á samþykktunum með þessum einfalda hætti hafi verið venjuhelguð á þessum tíma og hafi það ekki breyst fyrr en við gildistöku nýrra hlutafélagalaga.

Þar sem stefnandi hafi ekki sætt sig við ákvörðun aðalfundarins hafi honum verið rétt að höfða mál til ógildingar hennar skv. 79. gr. laga nr. 32, 1978 um hlutafélög.  Samkvæmt 2. mgr. 79. gr. laganna hafi átt að höfða slíkt mál innan þriggja mánaða frá því, að ákvörðun var tekin, ella teldist hún gild.  Stefndi kveðst því í málinu byggja á því, að 2. mgr. 79. gr. eigi hér við og því hljóti ákvarðanir aðalfundarins þann 18. maí 1990 að vera gildar.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður kveðst stefndi byggja á þeirri málsástæður, að stefnandi hafi sýnt tómlæti er leiði til þess að allur réttur, sem hugsanlega hefði verið til bóta, sé niður fallinn.

Nú 10 árum eftir þá atburði, sem um sé deilt, hafi SFD hf. verið lagt niður sem sérstakur lögaðili eftir að það sameinaðist Samherja hf.  Áður en til þess kom hafi hlutur stefnanda verið leystur til Samherja hf.  Stefnandi hafi á þessum áratug aldrei gert neitt til þess að halda fram hinni umstefndu kröfu.  Bréf dags. 14. febrúar 1997 hafi ekki borist stefnda fyrr en löngu eftir að samruninn fór fram.  Hótanir og fúkyrði, sem þar sé að finna, geti ekki talist aðgerðir.

Kveðst stefndi halda því fram, að stefnandi hefði þurft að höfða mál þetta án ástæðurlausra tafa eftir að framvinda málsins hafi orðið ljós og í síðasta lagi eftir að auglýst hafi verið með lögboðnum hætti samruni félagsins við Samherja hf.  Eignaraðild að félaginu hafi breyst verulega á undanförnum áratug og væri með öllu óeðlilegt að núverandi eigendur yrðu látnir standa skil á bótum vegna atburða, sem þeim hafi með engum hætti verið gert kunnugt um.

Hvað innlausn varði þá kveður stefndi í 24. gr. laga nr. 2, 1995 um hlutafélög segja, að ef hluthafi eigi meira en 9/10 hlutafjár í félagi og ráði yfir samsvarandi atkvæðamagni geti hluthafinn og stjórn félagsins í sameiningu ákveðið að aðrir hluthafar í félaginu skuli sæta innlausn hluthafans á hlutum sínum.  Einnig sé þar kveðið á um framkvæmd slíkrar innlausnar.

Við boðun innlausnarinnar með bréfi til stefnanda dags. þann 22. janúar 1996 hafi þessa ákvæðis verið gætt að öllu leyti.  Þegar ljóst hafi verið orðið, að stefnandi hefði ekki hug á að framselja hlutabréf sín, hafi verið ákveðið að senda ávísun til stefnanda að andvirði hlutafjárins.  Synjun á viðtöku endurgjalds breyti því ekki, að innlausn hafi farið fram.

Stefndi kveðst ennfremur byggja aðalkröfu sína á því, að þær fjárhæðir, sem fram komi í kröfugerð stefnanda, séu byggðar á óljósum og beinlínis röngum forsendum.

Í aðalkröfu stefnanda sé gengið út frá því, að hann hefði getað nýtt sér forkaupsrétt að öllu hlutafé KEA í SFD hf.  Þrautavarakrafa stefnanda er síðan miðuð við að hann hafi getað nýtt sér 1/42 hluta af þessu hlutafé.  Fjárhæðir krafna séu síðan reiknaðar miðað við það, að stefnandi hefði nýtt sér forkaupsrétt og hefði öðlast hlut í stefnda.  Engu virðist skipta þótt stefnandi hafi ekki verið fjár síns ráðandi á þeim tíma, er kaupin voru gerð.  Þessar kröfufjárhæðir séu grundvallaðar á ímynduðum forsendum, sem mjög ólíklegt hljóti að teljast, að geti verið réttar.  Stefndi telji því að reikniformúla stefnanda fyrir fjártjóni sé úr lausu lofti gripin og að forsendur hennar séu rangar.

Ef niðurstaða dómsins yrði sú, að forkaupsréttur hefði orðið virkur, sé ljóst, að Hallgrímur Antonsson hefði verið sá, sem nýtt gat forkaupsréttinn.  Hann hafi skilmerkilega tilkynnt, að hann myndi nýta sér forkaupsrétt.  Hins vegar verði að líta svo á, að stefnandi hafi fallið frá forkaupsrétti.  Réttur Hallgríms hafi verið tengdur eignarhlut hans í félaginu, sem hann hafi selt, en kaupendur hafi ekki haft uppi kröfu um að fá að nýta forkaupsréttinn.  Jafnvel þó svo litið yrði fram hjá þessum staðreyndum og það hugleitt hver staðan yrði ef móðir stefnanda yrði talin hafa átt virkan forkaupsrétt, virðist ljóst, að hann hefði aldrei getað orðið stærri en 1/42 þar sem Hallgrímur hafi átt 0,41 % hlutafjár en móðir stefnanda 0,01 %.

Stefndi kveður fjárhæðir varakröfu og þrautaþrautavarakröfu stefnanda einnig vera byggðar á ímynduðum forsendum og sé þeim mótmælt með sömu rökum og að ofan greini.

Kröfu sína í málinu kveðst stefndi byggja á almennum reglum skaðabótaréttarins um sönnun tjóns og bótaábyrgð.  Málskostnaðarkröfur byggi á 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum.

Niðurstaða:

Óumdeilt er að bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta þann 24. maí 1989 og lauk skiptum á því ekki fyrr en 4. október 1996.  Var Árni Pálsson, hæstaréttarlögmaður, skipaður skiptastjóri búsins.  Bar Árni fyrir dómi, að hann hafi á meðan á skiptunum stóð ekki haft vitneskju um eignarhluta stefnanda í SFD hf.

Stefnandi hefur lagt fram óundirritað skjal, dags. 26. júlí 1989.  Samkvæmt texta skjalsins er um að ræða erfðaskrá Jónínu R. Kristjánsdóttur, móður stefnanda.  Segir í skjalinu:  „Það er vilji minn að Þorsteinn Már erfi 1/3 – einn þriðja hluta – af eignum mínum að mér látinni og að því fráteknu erfi hann og Elsa jafnan hlut. -  Skal arfshluti þeirra verða séreign þeirra og vera undanþegin aðför og gjaldþrotaskiptum.“  Þá liggur einnig fyrir í málinu einkaskiptagerð vegna dánarbús Jónínu, dags. 18. ágúst 1992.  Í skiptagerðinni kemur fram, að til grundvallar við skipti búsins sé lögð erfðaskrá hinnar látnu, dags. 7. október 1989.  Þá kemur einnig fram í skiptagerðinni, að í hlut stefnanda við skiptin komi m.a. hlutabréf í SFD hf.

Eins og áður segir er hin framlagða erfðaskrá Jónínu R. Kristjánssdóttur óundirrituð.  Gegn eindregnum mótmælum stefnda verður því þegar af þeirri ástæðu ekki byggt á henni í málinu, sbr. 40. gr. erfðalaga nr. 8, 1962.

Sannað þykir með vísan til ofangreindrar einkaskiptagerðar, að stefnandi hafi á grundvelli hennar orðið eigandi að umdæddum eignarhluta í SFD hf.  Verður að fallast á það með stefnda, að eignarhlutinn hafi átt að renna inn í þrotabú stefnanda í samræmi við ákvæði gjaldþrotalaga.  Með vætti Árna Pálssonar, skiptastjóra búsins, fyrir dómi þykir hins vegar sannað, að það hafi hann ekki gert, en skiptum á búinu lauk eins og áður sagði þann 4. október 1996.  Að öllu framangreindu röktu er það niðurstaða dómsins, að engum öðrum en stefnanda sé til að dreifa, sem nú geti farið með þau réttindi, er mögulega má nú leiða af umræddum eignarhluta.  Telst stefnandi því vera réttur aðili að máli þessu.

Í málinu liggur fyrir skjal dags. 8. apríl 1990, er ber yfirskriftina „DRÖG AÐ KAUPSAMNINGI“.  Í skjalinu segir, að seljandi (KEA) lofi að selja og kaupandi (Samherji hf.) að kaupa öll hlutabréf seljanda í SFD hf. sem teljist vera 63,32 % heildarhlutafjár í félaginu eða kr. 3.577.580,-.  Í niðurlagi skjalsins segir síðan:  „Þessi drög að kaupsamningi eru gerð með fyrirvara um endanlegt samþykki félagsstjórna viðkomandi, og að aðrir hluthafar í Söltunarfélagi Dalvíkur hf. afsali forkaupsrétti sínum.“

Fyrir liggur að Hallgrímur Antonsson lýsti því yfir, sbr. bréf hans til stjórnar SFD hf., dags. 21. apríl 1990, að hann myndi;  „... ganga að verandi (sic) kauptilboði í hlutabréf í Söltunarfélagi Dalvíkur h.f. og (---) neyta forkaupsréttar.“  Þá byggir málatilbúnaður stefnanda allur á því, að hann hafi ekki ætlað að falla frá forkaupsrétti.

Þegar að fenginni afstöðu Hallgríms Antonssonar þann 21. apríl 1990 var ljóst, að áðurrakið skilyrði í niðurlagi skjalsins frá 8. apríl 1990 um að aðrir hluthafar afsöluðu forkaupsrétti sínum, yrði ekki uppfyllt.  Varð skjal það því aldrei skuldbindandi samkvæmt efni sínu fyrir samningsaðilana, KEA og Samherja hf.  Með vísan til þessa er það niðurstaða dómsins, að forkaupsréttur hluthafa í SFD hf. hafi aldrei orðið virkur á grundvelli samningsins frá 8. apríl 1990.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu er að mati dómsins þarflaust að fjalla um lögmæti þeirrar ákvörðunar stjórnar SFD hf., sem tekin var á fundi hennar þann 2. maí 1990, að „... hafna beiðni KEA um samþykki við sölu hlutabréfanna ...“

Ágreiningslaust er með aðilum, að boðun, dags. 9. maí 1990, til hluthafafundar í SFD hf., sem haldinn var 18. s.m.,  hafi verið haldin þeim ágöllum, að meginefni tillagna að breytingum á samþykktum félagsins hafi ekki verið tilgreint í fundarboðun líkt og áskilið var í samþykktum félagsins og 3. mgr. 71. gr. laga nr. 32, 1978 um hlutafélög.  Er ekki önnur niðurstaða tæk í ljósi skýrra fyrirmæla samþykktanna sjálfra og 3. mgr. 71. gr. laga nr. 32, 1978, en boðun til umrædds aðalfundar hafi verið ólögmæt og því hafi allar ákvarðanir, sem á fundinum voru teknar, einnig verið ólögmætar. 

Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 32, 1978 sagði eftirfarandi.: „Hluthafi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri getur höfðað mál vegna ákvörðunar hluthafafundar, sem hefur verið tekin með ólögmætum hætti, eða brýtur í bága við lög þessi eða samþykktir félagsins.“  Í 2. mgr. sagði síðan:  „Mál skal höfða innan þriggja mánaða frá því, að ákvörðun var tekin, ella telst hún gild.“  Þá sagði jafnframt í 3. mgr.:  „Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við: ... c.  Þegar boðun til hluthafafundar hefur ekki  farið fram eða reglna þeirra, sem um fundarboðun gilda, hefur í verulegum atriðum ekki verið gætt.“

Fyrir liggur, að stefnandi höfðaði ekki mál til ógildingar á þeirri ákvörðun hluthafafundarins, að fella forkaupsrétt hluthafa út úr samþykktum SFD hf., innan þess þriggja mánaða frests, sem kveðið var á um í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 32, 1978.  Þá er ljóst af málatilbúnaði stefnanda, að hann hafði vitneskju um hluthafafundinn 18. maí 1990, áður en fundurinn var haldinn, sbr. t.d. ummæli í stefnu, áðurnefnt boðunarbréf, dags. 9. maí 1990, og framlagt símskeyti frá móður stefnanda, sent 10. maí 1990, sem innihélt umboð til handa stefnanda til að mæta á fundinum.  Í ljósi þessa þykir ótækt að stefnandi geti nú, tæpum 10 árum eftir að umræddir atburðir áttu sér stað, byggt rétt á því að ákvörðun hluthafafundarins hafi í öndverðu verið ógild.  Þykir því c-liður 3. mgr. 79. gr. laga nr. 32, 1978 ekki eiga við í málinu, enda ber ákvæðið að mati dómsins með sér, að því sé ætlað að vernda hagsmuni grandlausra hluthafa.  Er það því niðurstaða dómsins, að umrædd ákvörðun hluthafafundarins sé nú gild gagnvart stefnanda, sbr. 2. mgr. 79. gr. laga nr. 32, 1978.

Í 1. mgr. 24. gr. laga um hlutafélög nr. 2, 1995 segir, að ef hluthafi eigi meira en 9/10 hlutafjár í félagi og ráði yfir samsvarandi atkvæðamagni geti hluthafinn og stjórn félagsins í sameiningu ákveðið, að aðrir hluthafar í félaginu skuli sæta innlausn hluthafans á hlutum sínum.  Sé slíkt ákveðið skuli senda nefndum hluthöfum tilkynningu með sama hætti og gildi um boðun aðalfundar eftir því sem við eigi þar sem þeir séu hvattir til að framselja hluthafanum hluti sína innan fjögurra vikna.  Í 2. mgr. sömu greinar segir síðan, að skilmála fyrir innlausn og matsgrundvöll innlausnarverðs skuli greina í tilkynningunni.  Ef ekki náist samkomulag um verðið skuli enn fremur tilgreina að það verði ákveðið af matsmönnum sem dómkvaddir verði á heimilisvarnarþingi félagsins.

Fyrir liggur að bréf SFD hf. og Samherja hf., dags. 22. janúar 1996, þar sem stefnanda var tikynnt um innlausn Samherja hf. á hlut hans í SFD hf., uppfyllti framangreind skilyrði 24. gr. laga nr. 2, 1995.  Stefnandi varð hins vegar ekki við þeim tilmælum, að framselja Samherja hf. hlut sinn í SFD hf. innan fjögurra vikna frestsins.  Þar sem frumkvæði að innlausninni kom frá Samherja hf. bar félaginu í ljósi fyrirmæla 1. mgr. 24. gr. og málsatvika allra, að leita eftir skýrri afstöðu stefnanda til innlausnarverðsins að liðnum áðurnefndum fjögurra vikna fresti og þannig kanna hvort um það væri sátt.  Væri svo ekki hafi Samherja hf. síðan í framhaldinu borið, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 24. gr. og bréf félagsins dags. 22. janúar 1996, að hlutast til um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta hlut stefnanda.  Verður og að horfa til þess, að afstaða stefnanda lá skýr fyrir á þeirri stundu sem Samherja hf. barst bréf stefnanda, dags. 14. febrúar 1997, en bréfinu fylgdi tékki sá, er félagið hafði sent stefnanda með bréfi dags. 3. s.m.  Verður ekki séð, að Samherji hf. hafi á nokkurn hátt brugðist við þessari afdráttarlausu afstöðu stefnanda, en til þess var full ástæða í ljósi skýrra fyrirmæla 2. mgr. 24. gr. laga nr. 5, 1995.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða dómsins, að innlausn á hluta stefnanda í SFD hf. hafi aldrei farið fram, þar sem félagið lét undir höfuð leggjast að fylgja fyrirmælum 24. gr. laga nr. 2, 1995 um ákvörðun innlausnarverðs.  Þá þykir ákvæði 25. gr. laganna vera til stuðnings þessari niðurstöðu.

Ekki kemur berum orðum fram í kröfugerð stefnanda, að hann krefjist þess að stefndi innleysi þann hlut, sem hann kveðst nú eiga í stefnda.  Hins vegar er augljóst af stefnu, að kröfur stefnanda í málinu byggja að hluta á því, að stefnda verði gert að innleysa þann meinta hlut.  Þar sem stefnandi hefur ekki krafist viðurkenningar á því, að hann eigi hlut í stefnda, verður ekki tekin frekari afstaða til umrædds álitaefnis í málinu en þegar hefur verið gert að framan.  Þá hefur stefnandi um innlausn ekki vísað á skýran hátt til réttarheimilda, en dómurinn telur ljóst, sbr. ákvæði 55. gr. laga nr. 2, 1995, að ákvæði 24.-26. gr. laganna geti ekki stutt innlausnarkröfu stefnanda á hendur stefnda.  Þegar við bætist sú yfirlýsing stefnanda í stefnu, að hann sé enn þann dag í dag hluthafi, en nú í stefnda, þykir ekki annað fært en sýkna stefnda af þrautaþrautaþrautavarakröfu stefnanda.

Að öllu framangreindu töldu er það niðurstaða dómsins, að sýkna verði stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála sem og atvika málsins, að málskostnaður falli niður.

Dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna anna dómara en ekki hefur þótt ástæða til að flytja málið að nýju samkvæmt fyrirliggjandi yfirlýsingum lögmanna aðila.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Samherji hf., skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Þorsteins M. Aðalsteinssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.