Hæstiréttur íslands

Mál nr. 550/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárslit


                                              

Föstudaginn 20. september 2013.

Nr. 550/2013.

K

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

M

(Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Hjón. Fjárslit.

Kærður var úrskurður þar sem leyst var úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna hjónaskilnaðar. Fyrir Hæstarétti deildu aðilar annars vegar um hvort skilyrði væru til að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að því er varðaði andvirði fasteignar og hins vegar hvort taka ætti við fjárslitin tillit til skuldar við O ehf., sem K vefengdi að væri fyrir hendi. Ekki voru talin efni til að víkja frá helmingaskiptareglu við fjárslitin að því er varðaði fasteignina. Þótt í kaupmála M og K væri mælt fyrir um að hlutafjáreign í O ehf. væri séreign M var þar tiltekið að arður af þeirri séreign hans væri sameign aðilanna að jöfnu svo og eignir sem keyptar væru fyrir arðinn. Fallist var á að M hafi staðið í skuld við O ehf. sem taka bæri tillit til við fjárslitin þó þannig að arðgreiðsla vegna ársins 2009 kæmi til frádráttar skuldinni, enda gæti M ekki látið hjá líða að greiða úr félaginu arð sem var sameign þeirra K samkvæmt kaupmála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2013 þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við skiptin verði vikið frá reglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og andvirði fasteignarinnar að A á [...], að fjárhæð 95.000.000 krónur, sem sóknaraðili krefst að fá útlagða, verði skipt þannig að sóknaraðili fái 33,87% að óskiptu í sinn hlut en 66,13% teljist hjúskapareign aðila að jöfnu. Einnig er þess krafist að við skiptin verði hafnað að draga frá hjúskapareign varnaraðila skuld við B ehf. að fjárhæð 43.271.104 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og ráðið verður af úrskurðarorði hins kærða úrskurðar kom til efnisúrlausnar í héraði ágreiningur aðilanna varðandi sex atriði í tengslum við fjárslit milli þeirra. Þannig deildu þau í fyrsta lagi um hvort skilyrði væru til að víkja frá reglu 103. gr. hjúskaparlaga að því er varðar andvirði fasteignarinnar að A og var hafnað kröfu sóknaraðila um svo yrði gert. Í öðru lagi hvort taka ætti við fjárslitin tillit til skuldar að fjárhæð 43.271.104 krónur sem varnaraðili kvaðst standi í við B ehf. og var hafnað andmælum sóknaraðila gegn því. Í þriðja og fjórða lagi hvert ætti að teljast andvirði fasteignarinnar að A og annarrar fasteignar að C í [...], en um fyrrnefndu eignina var miðað við þá fjárhæð sem sóknaraðili gerði kröfu um og um þá síðarnefndu fjárhæð sem varnaraðili krafðist. Í fimmta lagi var í úrskurðinum kveðið á um hvort varnaraðila væri heimilt að fá þessar tvær fasteignar útlagðar sér við fjárslitin og var orðið við kröfum hans í þeim efnum. Loks var í sjötta lagi tekin til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að greiða sér mánaðarlega tiltekna fjárhæð í húsaleigu vegna A sem hún hafði andmælt. Svo sem dómkröfur sóknaraðila fyrir Hæstarétti bera með sér lúta þær aðeins að þeim tveimur atriðum sem fyrst voru greind hér að framan og verður því að líta svo á að ákvæði úrskurðarins um önnur efni séu hér ekki til endurskoðunar.

 Í hinum kærða úrskurði segir að ekki verði annað ráðið af málatilbúnaði aðila en að óumdeilt sé að lagt skuli til grundvallar mat fasteignasala 14. apríl 2011 um að verðmæti fasteignarinnar að A sé 95.000.000 krónur. Í greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar er þessu andmælt og byggt á því að miða eigi við mat dómkvadds manns 19. október 2012 en þar var andvirði eignarinnar talið nema 107.000.000 krónum. Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti kemur þetta atriði ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti.

II

Svo sem greinir í úrskurði héraðsdóms hófu aðilar sambúð um mitt ár 2002. Þau gengu síðan í hjónaband 17. desember 2004 en þá höfðu þau eignast saman tvö börn. Aðilar slitu sambúð sinni 22. ágúst 2009 en 1. mars 2010 tók sýslumaður fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem greinir í hinum kærða úrskurði verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki séu efni til að víkja frá reglu 103. gr. hjúskaparlaga að því er varðar fasteignina að A.

III

Með hinum kærða úrskurði var fallist á að skuld varnaraðila við B ehf. kæmi til frádráttar hjúskarpareignum hans, en fjárhæð skuldarinnar var talin 43.271.104 krónur miðað við stöðu hennar 1. mars 2010, sem er viðmiðunardagur skiptanna, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Er ágreiningur með aðilum um hvort taka eigi tillit til þessarar skuldar við skiptin en sóknaraðili vefengir að krafan sé fyrir hendi.

Fyrir hjúskap aðila gerðu þau með sér kaupmála 16. desember 2004 en samkvæmt honum var hlutafjáreign í tilgreindum einkahlutafélögum séreign varnaraðila. Þar á meðal var hlutur hans B ehf. en varnaraðili sinnir atvinnu sinni á vegum þess félags. Samkvæmt kaupmálanum taldist arður af séreignum varnaraðila sameign aðila að jöfnu svo og þær eignir sem keyptar yrðu fyrir arðinn.

Samkvæmt ársreikningi B ehf. fyrir árið 2004 nam skuld varnaraðila við félagið 17.781.518 krónum í lok þess árs. Í ársreikningi 2005 nam skuldin 28.877.539 krónum í árslok, en fram kemur í ársreikningi 2007 að skuldin hafi í árslok 2006 numið 31.836.186 krónum og í árslok 2007 hafi hún verið 48.891.070 krónur. Aftur á móti var varnaraðili því sem næst skuldlaus við félagið í árslok 2008 og 2009 samkvæmt ársreikningum fyrir þau ár.

Á skattframtali varnaraðila vegna ársins 2009 kemur fram skuld hans við Arion banka hf. að fjárhæð 44.944.029 krónur. Samkvæmt hreyfingalista úr bókhaldi B ehf. fékk varnaraðili 45.000.000 krónur að láni frá félaginu 5. janúar 2010 og mun fénu hafa verið ráðstafað til að gera upp skuld hans við Arion banka hf.

Í tölvupósti lögmanns varnaraðila 7. október 2011 til skiptastjóra var að finna skýringar löggilts endurskoðanda B ehf. á greiðslu til varnaraðila. Þar kom fram að arði úr félaginu hafi verið úthlutað áður en ársreikningur var samþykktur. Í bókhaldi félagsins hafi úttektirnar verið færðar á viðskiptamannareikning sem fyrirfram greiddur arður og síðan hafi verið tekin ákvörðun um arðsúthlutun þegar ársreikningur hafði verið tekinn saman og samþykktur. Þannig hafi arðurinn verið tekinn jafnóðum út úr félaginu og hann myndaðist þar til skattstjóri hafi gert athugasemd við þetta fyrirkomulag á árinu 2008. Þá hafi varnaraðili tekið lán til að gera upp skuld sína við félagið. Í sömu skýringum endurskoðandans kom fram að skuld varnaraðila við félagið í árslok 2007 hafi numið 48.900.000 krónur en aðeins hafi verið heimilt að úthluta arði að fjárhæð 42.800.000 krónur. Vegna þess árs hafi verið úthlutað 42.000.000 krónum en mismunurinn verið skattlagður hjá varnaraðila sem laun. Þá sagði í þessum skýringum endurskoðandans að B ehf. hafi í árslok 2009 skuldað varnaraðila 2.000.000 krónur en á því hafi orðið breyting í upphafi árs 2010 þegar varnaraðili fékk lán hjá fyrirtækinu til að greiða lán frá banka sem hann tók til að gera upp skuld sína við B ehf.

Í bréfi sama endurskoðanda 15. maí 2012 til lögmanns varnaraðila kom fram að skuld hans við B ehf. hafi í lok febrúar 2010 numið 43.271.104 krónum. Einnig sagði í bréfinu að í raun hafi arður vegna ársins 2009 verið tekinn út úr félaginu fyrirfram án þess að hann hafi verið samþykktur eða bókfærður. Hagnaður ársins hafi reynst mun minni en þær greiðslur sem inntar voru af hendi fyrirfram. Heimild félagsins til arðsúthlutunar hafi numið 21.500.000 krónur en að teknu tilliti til skattgreiðslna hefði verið unnt að lækka skuld varnaraðila við félagið um 15.200.000 krónur. Með því að fullnýta heimild til arðsúthlutunar hefði skuld varnaraðila við félagið lækkað í rúmar 28.000.000 krónur. Fram kom að við útreikning á skattgreiðslum hafi endurskoðandinn tekið tillit til þess að helmingur af arði umfram 20% eigin fjár skattleggist sem laun.

 Eins og greinir í hinum kærða úrskurði verður ráðið af skýrslum aðila fyrir dómi og gögnum málsins að kostnaður við að reisa frístundahús að C hafi verið greiddur með fjárframlögum frá B ehf. Einnig verður að leggja til grundvallar að fjármunum frá félaginu hafi verið ráðstafað í sameiginlegar þarfir fjölskyldunnar. Svo sem fram kom í skýringum endurskoðanda félagins gerðu skattyfirvöld athugasemd á árinu 2008 við greiðslur frá félaginu til varnaraðila. Í skýrslu endurskoðandans fyrir héraðsdómi kom fram að varnaraðili hafi í kjölfarið tekið lán í lok árs svo skuld hans við félagið kæmi ekki fram á ársreikningi. Þetta kemur heim og saman við skuld á skattframtali varnaraðila fyrir árið 2009 vegna yfirdráttar á reikningi í Arion banka hf. að fjárhæð 44.944.029 krónur og greiðslu frá félaginu til hans í ársbyrjun 2010 að fjárhæð 45.000.000 krónur. Í samræmi við þetta verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi staðið í skuld við félagið sem taka ber tillit til við fjárslitin. Skiptir þá engu með tilliti til fjárslitanna hvort þetta fyrirkomulag á greiðslum frá félaginu hafi farið í bága við reglur laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Samkvæmt því sem komið hefur fram hjá endurskoðanda B ehf. nam skuld varnaraðila við félagið 43.271.104 krónum á viðmiðunardegi skiptanna. Þá hefur ekki verið tekið tillit til arðgreiðslu félagsins vegna ársins 2009. Svo sem áður er rakið hefur endurskoðandi félagsins staðfest að arðinum hafi að jafnaði verið ráðstafað til lækkunar á skuld varnaraðila við félagið, enda miðað við að arðurinn kæmi jafnóðum til greiðslu úr félaginu. Að þessu gættu gat varnaraðili ekki látið hjá líða að greiða úr félaginu arð, sem var sameign aðila samkvæmt kaupmála, í trausti þess að skuld hans við það kæmi að fullu til frádráttar hjúskarpareignum meðan arðurinn stæði inni í félaginu sem var séreign hans. Að teknu tilliti til arðgreiðslunnar, sem endurskoðandi telur að hæst hefði getað numið 15.200.000 krónum að frádregnum sköttum, verður miðað við að skuld varnaraðila við félagið hafi á viðmiðunardegi skipta numið 28.071.104 krónum og ber að leggja þá fjárhæð til grundvallar við fjárslitin.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest, en rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður að öðru leyti en því að við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skal taka tillit til skuldar varnaraðila við B ehf. að fjárhæð 28.271.104 krónur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2013.

Mál þetta var þingfest 20. janúar 2012 og tekið til úrskurðar að loknum munn­legum málflutningi 5. júní sl. Sóknaraðili er K, [...], [...] en varnaraðili er M, [...], [...].

                Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær í fyrsta lagi að við skipti aðila verði hafnað að draga frá hjúskapareign varnaraðila skuld við B ehf., að fjárhæð 43.271.104 krónur samkvæmt skattframtali 2010 eða aðra og lægri fjárhæð.

                Í öðru lagi krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að við skipti á búi sóknaraðila og varnaraðila skuli vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, og að verðmæti fasteignarinnar að A, [...], fasta­númer [...], 95.000.000 krónur, sem sóknaraðili krefst útlagningar á, verði ákvarðað þannig, að sóknaraðili fái 33,87% af óskiptu verðmæti eignarinnar í sinn hlut, en 66,13% teljist hjúskapareign sóknaraðila og varnaraðila að jöfnu.

                Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Endanlegar dómkröfur varnaraðila eru þær í fyrsta lagi að staðfest verði að við fjár­skipti milli aðila skuli farið samkvæmt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þannig að hjúskapareignir hvors aðila um sig skiptist helmingaskiptum á milli þeirra að frádregnum þeim fjárskuldbindingum sem á viðkomandi aðila hvíldu á við­miðunardegi skipta þann 1. mars 2010 í samræmi við 100. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og 109. gr. laga nr. 20/1991.

                Í öðru lagi krefst varnaraðili þess að synjað verði kröfu sóknaraðila um að hafna beri að draga frá hjúskapareign varnaraðila skuld hans við B ehf., 43.271.104 krónur samkvæmt skattframtali 2010 eða aðra og lægri fjárhæð. Varnaraðili gerir þá kröfu að tekið verði tillit til skuldar hans við B ehf. að fjárhæð kr. 43.271.104, eins og hún var á viðmiðunardegi skipta þann 1. mars 2010, og að hún komi að fullu til frá­dráttar hjúskapareignum varnaraðila við skipti milli aðila eins og aðrar skuldir sem á aðilum hvíla, samræmi við 100. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og 109. gr. laga nr. 20/1991.

                Í þriðja lagi krefst varnaraðili þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að við skipti milli aðila skuli vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og að verðmæti fasteignarinnar við BarA, [...], fasta­númer [...], kr. 95.000.000, sem sóknaraðili krefst útlagningar á, verði ákvarðað þannig að að sóknaraðili fái 33,87% af óskiptu verðmæti í sinn hlut en 66,13% teljist hjú­skapareign sóknaraðila og varnaraðila að jöfnu. Varnaraðili gerir þá kröfu að fast­eignin sem og aðrar hjúskapareignir aðila, skiptist jafnt á milli aðila samkvæmt helm­inga­skiptareglu 103. gr.  hjúskaparlaga nr. 31/1993.

                Í fjórða lagi krefst varnaraðili þess að staðfest verði að við skipti milli aðila, hvað varðar fasteignirnar við A og C, verði miðað við metið markaðsverðmæti/söluverðmæti húseignanna þegar mat á þeim fór fram í stað þess að miða við framreiknaðan byggingarkostnað vegna sumarhússins við C. Jafnframt að staðfest verði að varnaraðili eigi rétt á að leysa til sín fasteignina við C samkvæmt mati á markaðsverðmæti eignarinnar. Jafnframt gerir varnaraðili kröfu um innlausn A, fallist sóknaraðili ekki á að leysa hana til sín samkvæmt mati á markaðsverðmæti eignarinnar.

                Í fimmta lagi krefst varnaraðili þess að viðurkennt verði að 50% lóðar við SkC, sé séreign varnaraðila samkvæmt kaupmála.

                Í sjötta lagi krefst varnaraðili þess að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að greiða varnaraðila húsaleigu vegna afnota hennar af 50% eignarhluta varnaraðila í fast­eign­inni við A, fastanúmer [...], 175.000 krónur á mánuði eða aðra fjárhæð samkvæmt mati dómsins, frá 1. mars 2010 þar til afnotum sókn­ar­aðila af fasteigninni lýkur eða gengið hefur verið frá ráðstöfun eignarinnar.

                Loks krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

                Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 1. desember 2011, var skotið til dómsins ágreiningi við opinber skipti til fjárslita milli K, sóknaraðila og M, varnaraðila.

Málavextir eru þeir að aðilar máls kynntust árið 2000. Varnaraðili er [...] og sérfræðingur í [...] og starfar sem slíkur. Varnaraðili er eigandi einka­hlutafélagsins B sem heldur utan um rekstur varnaraðila. Á þessum tíma rak varn­ar­aðili [...]en í dag rekur hann stofu að [...]. Sóknaraðili er [...] og starfaði á hjúskapar­tím­anum sem framkvæmdastjóri D.

Ágreiningur er milli aðila um fjárhagslega stöðu varnaraðila á þessum tíma. Sókn­ar­aðili telur að hann hafi á þeim tíma ekki staðið vel fjárhagslega. Hann hafi nokkru áður [...]stofu sína úr [...] í [...][...] í [...], þar sem hann hafi starfað með öðrum [...]. B ehf. hafi ekki staðið undir fjárfestingum í stofunni að [...]. Vorið 2002 hafi varnaraðili afsalað hlut sínum í fasteigninni að [...] til samstarfsaðila síns gegn yfirtöku hans á skuldum. Í hlut varnaraðila hafi komið þrír [...]. B ehf. hafi sama ár keypt hlut fyrir um 25 milljónir króna í einkahlutafélaginu E, í [...]. Gagn­gerar breytingar hafi verið gerðar á húsnæði félagsins í [...]. Annarri eins fjár­hæð hafi verið varið til að koma húsnæðinu í [...]í það horf sem varnaraðili kaus. Þessi kostnaður hafi annars vegar verið greiddur með lántökum og hins vegar eigin­fjár­framlagi varnaraðila að fjárhæð um 10 milljónir króna, en það fé hafi fengist með sölu á einbýlishúsi varnaraðila við [...]. E ehf. hafi síðar komist í 100% eigu B ehf. Varnaraðili hafnar því að fjárhagsstaða hans hafi verið bágborin og rekur að þegar málsaðilar kynntust hafi hann auk B ehf. átt einbýlishús við [...] í [...] og bifreið af gerðinni Toyota Landcruiser. Hann hafi einnig átt sumarbústað og land að jöfnu á móti bróður sínum við C. Við stofnun hjúskapar aðila mun sóknaraðili hafa átt raðhús við [...] á [...], innbú og bifreið af gerðinni Audi Allroad.

Sambúð málsaðila hófst um mitt ár 2002 þegar varnaraðili flutti inn á þáver­andi heimili sóknaraðila að [...]. Hinn 14. mars 2003 keyptu málsaðilar fast­eign að A. Kaupverð fasteignarinnar var 62 milljónir króna og voru málsaðilar þinglýstir eigendur hennar í jöfnum hlutföllum. Kaupverðið var greitt með eftirfarandi hætti:

Með peningum við undirritun kaupsamnings

Kr. 15.000.000

Með peningum við sölu á eign sóknaraðila

Kr. 21.000.000

Með peningum 1. ágúst 2003

Kr.   6.000.000

Með peningum 1. október 2003

Kr.   6.000.000

Með peningum 1. desember 2003

Kr.   6.000.000

Með fasteignaveðbréfi við Íbúðalánasjóð

Kr.   8.000.000

Samtals

Kr. 62.000.000

Óumdeilt er að sóknaraðili lagði fram þær 21 milljón króna sem kom út úr sölu fast­eignarinnar hennar að [...]. Sú fjárhæð nemur 33,87% af kaupverði eignar­innar. Þá var sóknaraðili lántaki að ofangreindu fasteignaveðbréfi að fjárhæð 8.000.000 króna. Eftirstöðvar þess á viðmiðunardegi skipta, 1. mars 2010, munu vera 12.370.436 krónur. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi fjármagnað sinn hluta í kaupverði fasteignarinnar, samtals að fjárhæð 33 milljónir króna, með lánum, annars vegar láni frá Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 15 milljónir króna en að öðru leyti með lánum frá B ehf. Eftirstöðvar lánsins við Kaupþing banka séu 19.260.806 krónur á viðmiðunardegi skipta.

Varnaraðili rekur að skömmu eftir að aðilar fluttu inn í húsið hafi þau staðið fyrir umfangsmiklum endurbótum á eigninni sem hafi lokið síðla árs 2004. Frekari endur­bætur og breytingar á húsinu hafi verið gerðar yfir meðan á hjónabandinu stóð. Allar framkvæmdir hafi verið greiddar af varnaraðila.

Aðilar máls gengu í hjónaband [...] 2004. Daginn áður gerðu máls­aðilar kaupmála. Samkvæmt kaupmálanum skyldi 50% eignarhluti varnaraðila í sumar­húsi og lóð við C, hlutafjáreign í fyrirtækjunum B ehf., F ehf. og E ehf. og tvö málverk, annað eftir Karl Kvaran og hitt eftir Nínu Tryggvadóttur, vera séreign varnaraðila. Samkvæmt 2. gr. kaupmálans skyldi arður af séreignunum vera sameign aðila að jöfnu og einnig eignir sem keyptar væru fyrir arðinn.

Hinn 12. desember 2005 keyptu aðilar 50% eignarhluta bróður varnaraðila í fast­eigninni við C. 50% eignarinnar er þinglýst eign varnaraðila vegna sér­eignar­innar sem hann átti fyrir en síðan eru 25% á nafni hvors aðila um sig, sem er þeirra hjúskapareign. Aðilar munu hafa byrjað að byggja nýtt sumarhús á lóðinni vorið 2006 en eldra sumarhús var síðar fjarlægt. Helmingur lóðarinnar við C er talin vera séreign varnaraðila en hinn helmingurinn og nýtt sumarhús á lóð­inni hjúskapareign þeirra að jöfnu. Varnaraðili og B ehf. munu hafa greitt fyrir fram­kvæmdir við byggingu nýja hússins. Kostnaður við byggingu nýja sumarhússins og kaup á innbúi mun hafa numið um 120 milljónum króna.

Aðilar máls slitu samvistum 22. ágúst 2009. Hjónaskilnaðarmál aðilanna var fyrst tekið fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík 1. mars 2010 og miðast eignir og skuldir við það tímamark, sbr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Leyfi til lög­skiln­aðar milli aðila var gefið út 15. apríl 2011.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir aðallega á því að helmingaskipti milli hans og varnaraðila á grundvelli 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 séu bersýnilega ósanngjörn í hans garð, og því eigi að víkja frá helmingaskiptum með heimild í 1. mgr. 104. gr. sömu laga. Sókn­ar­aðili telur að við mat á því, hvort beita eigi skáskiptum eigi að horfa til fjárhags aðil­anna, lengdar hjúskaparins og þess hvor annað hjóna hafi við stofnun hjúskaparins flutt verulega miklu meira en hitt í búið.

                Sóknaraðili rekur að fyrir hjúskap og á hjúskapartímanum hafi hann verið fram­kvæmdastjóri [...]. Launatekjur sóknaraðila og varnaraðila hafi á sambúðar- og hjúskapartímanum verið nánast hinar sömu. Allar arður frá félögum í eigu varnaraðila hafi átt að verða sameign málsaðila að jöfnu, sem og allt sem keypt væri fyrir arðinn. Varnaraðili hafi því ekkert meira lagt til heimilishalds eða eigna­myndunar en sóknaraðili á sambúðar og hjúskapartíma.

                Aðilar málsins hafi gengið í hjúskap 17. desember 2004. Honum hafi lokið í ágúst 2009 er varnaraðili hafi flutt út af heimili þeirra. Skilnaðarmál málsaðila hafi hins vegar fyrst verið tekið fyrir hjá sýslumanni 1.mars 2010. Hjúskapur sóknaraðila og varnaraðila hafi því verið skammvinnur – liðlega fjögur ár.

                Við upphaf sambúðar sóknaraðila og varnaraðila á árinu 2002 hafi varnaraðili verið skuldum vafinn og þurft að fá lánsveð í fasteign sóknaraðila til að tryggja skuldir félags síns, B ehf. Varnaraðili hafi lítið flutt með sér í búið fyrir stofnun hjúskapar og í raun ekkert við stofnun hans, nema 50% hlut í fasteigninni að A. Aðilar málsins hafi keypt fasteignina árið 2003 og hafi varnaraðili greitt sinn hluta með bankalánum og úttektum úr B ehf., sem hann hafi ávallt verið í mikilli skuld við. Sá skuldahali hafi náð til tíma fyrir upphaf sambúðar aðilanna á árinu 2002. Varnaraðili hafi tekið skammtímalán til að greiða inn á skuld sína þar til formleg ákvörðun um arðgreiðslu lægi fyrir til að hann og félögin þyrftu ekki að greiða tekjuskatt af úttektum umfram laun.

                Ákvörðun um arðgreiðslur frá félögum varnaraðila hafi verið alveg í hendi varnaraðila. Þetta hafi komið í ljós árið 2010 þegar varnaraðili hafi ákveðið að greiða ekki arð vegna rekstrar á árinu 2009, þó skilyrði hafi verið til þess. Með því hafi varn­ar­aðila tekist að auka séreign sína enn frekar.

                Varnaraðili hafi nýtt það fé sem hann hafi tekið út úr félögum sínum, hvort heldur var í formi arðs eða lána, fyrst og síðast til að byggja tæplega 250 fermetra hús að C, sem hann geri kröfu um að eiga 75% í á móti 25% hlut sóknaraðila. Kostnaður við byggingu hússins hafi numið yfir 120 milljónum króna. Krafa sóknaraðila um að hann fái í sinn hlut 33,87% af óskiptu verðmæti fast­eign­ar­innar að A gangi út á að hann fái af óskiptu það fé, sem hann hafi lagt fram við kaup fasteignarinnar árið 2003 og hafi komið úr sölu fasteignarinnar að [...]. Þessi krafa sé hófleg og haldi vart í við verðbólgu áranna 2003 til 2010.

                Sóknaraðili byggir á því að verði ekki vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. laga nr. 31/1993 haldi varnaraðili öllu því, sem hann hafi átt við stofnun hjúskapar þeirra sem séreign og fái í sinn hlut á 50.000.000 krónur húsið að C, sem hann hafi ákveðið að leggja yfir 120 milljónir í á hjúskapartíma aðilanna, sem að mestu hafi verið fjármagnað með arði greiddum út úr B ehf.

                Eina skuldin áhvílandi á fasteigninni að C sé lán varnaraðila hjá Arion banka hf. Þetta lán hafi upphaflega verið að fjárhæð 10.000.000 króna, gengistryggt. Greitt hafi verið af láninu samkvæmt skilmálum þess frá því það var tekið. Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands á árinu 2010 um gengistryggð lán og setn­ingar laga nr. 151/2010 hafi varnaraðila verið sendur endurútreikningur þess frá bank­anum, dagsettur 10. október 2011. Sá útreikningur sýni að bankinn hafi talið skuldina vera 5.781.136 krónur. Sú krafa sé væntanlega röng og eigi að vera lægri, þar sem Hæsti­réttur hafi í nýlegum dómi hafnað því að lög nr. 151/2010 geti verið aftur­virk, eins og útreikningurinn byggi á. Til þessa hafi ekki verið tekið tillit við útreikn­inga á hreinni hjúskapareign varnaraðila.

                Sóknaraðili byggir á því að til grundvallar skiptum og útlagningu fasteignanna að A til sóknaraðila og C til varnaraðila verði lagt til grund­vallar að verðmæti fasteignarinnar að A, sé 95.000.000 krónur. Af því beri sóknaraðila að fá af óskiptu 33.87% eða 32.176.500 krónur. Eftirstöðvar verð­mætis fasteignarinnar, að fjárhæð 62.823.500 króna, teljist hjúskapareign og skuli sókn­ar­aðila lögð eignin út á því verði. Verðmæti fasteignarinnar að C sé 50.000.000 krónur, sem skiptist þannig milli aðila þannig að hjúskapareign sóknar­aðila sé 12.500.000 krónur, eða 25% af verðmæti hennar, en hjúskapareign varnar­aðila sé 37.500.000 krónur, eða 75% af verðmæti hennar.

                Hrein hjúskapareign aðila máls í fasteignunum tveimur sé því þessi:

Varnaraðili                                                                                                         Sóknaraðili

A                             31.411.750                                                         31.411.750

C                            37.500.000                                                         12.500.000

                                                                68.911.750                                                         43.911.750

Arion banki                          (19.260.806)                        Íbúðalánasj.        (12.370.436)       

[...]                                        ( 5.482.000)                                                         (5.482.000)

Arion banki                           ( 5.781.136)                           Spron                    (1.301.782)

[...]                                        ( 2.103.027)                                                         (2.103.027)

Hrein eign til skipta            36.284.781                                                           22.654.505

Jöfnun hjúskaparhl.                                                                                          13.630.276

                                                                               36.284.781                                                          36.284.781

Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Krafa varnaraðila um helmingaskipti eigna/skulda:

Varnaraðili byggir á því að ekki sé grundvöllur fyrir að víkja frá helm­inga­skipta­reglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 í skiptum milli aðila. Einnig að til frá­dráttar hjúskapareignum hvors aðila um sig komi þær skuldbindingar sem hvílt hafi á við­kom­andi aðila á viðmiðunardegi skipta 1. mars 2010, í samræmi við 100. gr. hjú­skapar­laga og 109. gr. laga nr. 20/1991.

Fullyrðingar sóknaraðila um að varnaraðili hafi verið skuldum vafinn og eigna­laus en einungis sóknaraðili hafi staðið vel að vígi fjárhagslega við upphaf hjónabands aðila eigi ekki stoð í gögnum málsins.

Krafa sóknaraðila um hafna eigi að draga frá hjúskapareign varnaraðila skuld við B ehf., að fjárhæð kr. 44.944.029 samkvæmt skattframtali 2010 eða aðra og lægri fjárhæð.

Varnaraðili rekur að samkvæmt skattframtali aðila hafi fjárhæð þessarar skuldar við áramótin 2009/2010 numið 44.944.029 krónum. Samkvæmt staðfestingu endur­skoðanda B ehf. og gögnum úr bókhaldi félagsins hafi fjárhæð skuldarinnar verið 43.271.104 krónur í lok febrúar 2010 en viðmiðunardagur skipta sé 1. mars 2010. Þess sé krafist að staðfest verði að sú fjárhæð komi til frádráttar hjúskapar­eignum varnaraðila við útreikning á hreinni hjúskapareign hans í samræmi við 100. gr. hjú­skap­ar­laga og 109. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Þetta sé persónuleg skuld varnaraðila við félagið B ehf. sem hafi veirð stað­fest með gögnum úr bókhaldi félagsins og skattframtölum aðila. Skuld sé til komin vegna úttekta aðila úr fyrirtækinu sem hafi runnið til eignamyndunar, neyslu og fram­kvæmda þeirra. Þannig hafi í raun verið búið að taka fyrirfram arð út úr félaginu vegna ársins 2009 en hins vegar hafi átt eftir að bókfæra og samþykkja arðinn. Varnar­aðili þurfi að endurgreiða þessa skuld. Úttektirnar hafi runnið til beggja aðila og hafi ekki verið sýnt fram á að með þeim hafi varnaraðili einn auðgast á kostnað sókn­ar­aðila. Varnaraðili hafi tekið persónulegt lán hjá Arion banka hf. til að greiða skuld­ina við félagið, þannig að hún væri ekki í bókum félagsins B ehf. um ára­mótin 2009/2010. Það lán sé tilgreint í skattframtali varnaraðila sem persónuleg skuld að fjárhæð 44.944.029 króna. Skuldin hafi þannig verið nægilega staðreynd og því sé ekki mótmælt af hálfu sóknaraðila að umrædd skuld hafi verið til staðar. Tveimur mán­uðum síðar, á viðmiðunardegi skipta, hafi skuldin verið skráð sem skuld varnar­aðila við félagið B ehf. í bókhaldi félagsins.

Sóknaraðili sé [...] og hafi að verulegu leyti um séð um ráð­legg­ingar til varnaraðila varðandi úttektir úr félaginu, arðgreiðslur o.fl. Honum hafi þannig verið fullkunnugt um persónulegar úttektir aðila úr félaginu og tilvist skuldar­innar, enda hafi hún skrifað undir skattframtal aðila.

Krafa sóknaraðila um að við skipti milli aðila skuli vikið frá helminga­skipta­reglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og að verðmæti fasteignarinnar við A, kr. 95.000.000, sem sóknaraðili krefst útlagningar á, verði ákvarðað þannig að sóknaraðili fái 33,87% af óskiptu verðmæti í sinn hlut en 66,13% teljist hjúskapareign sóknaraðila og varnaraðila að jöfnu.

Varnaraðili hafnar þessari kröfu. Ef víkja eigi frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjú­skaparlaga nr. 31/1993 beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir að skáskipti eigi við og verði að leggja fram fullnægjandi gögn og rök því til stuðnings. Skilyrði þess að ská­skiptum verði beitt komi fram í 104. gr. hjúskaparlaga.

Krafa sóknaraðila fái ekki fá stoð í umræddu lagaákvæði. Ekki liggi fyrir að fjár­hagur sóknaraðila hafi verið mun betri en fjárhagur varnaraðila við upphaf hjóna­bands­ins eða að eignamyndun aðila í hjónabandinu stafi að mun meira leyti af hennar fram­lagi. Framlag aðila til kaupa á eigninni við A hafi verið nokkuð svipað. Sóknaraðili hafi einungis haldið því fram að hún hafi lagt fram 21 milljón króna af kaupverðinu sem var 62 milljónir króna, sem og tekið lán að fjár­hæð 8 milljónir króna. Varnaraðili hafi þannig lagt fram afganginn, 33 milljónir. Fyrir liggi staðfesting úr bókhaldi félagsins B ehf. að árið 2003 hafi verið tekið út úr félag­inu samtals 18 milljónir króna vegna greiðslu kaupverðs fasteignarinnar. Einnig liggi fyrir staðfesting á 15 milljóna króna greiðslu varnaraðila 26. mars 2003 vegna kaup­anna. Þannig hafi útborgun vegna fasteignarinnar einnig komið frá varnaraðila og hans framlag verið meira en frá sóknaraðila.

Afar óeðlilegt sé að sóknaraðili telji að hún eigi að njóta síns framlags utan skipta en allt framlag varnaraðila komi til helmingaskipta milli aðila. Fasteignin sé þing­lýst eign aðila að jöfnu. Kaupmáli hafi ekki verið gerður um að framlag sóknar­aðila til kaupanna ætti að vera hennar séreign enda virðist aðilar hafa gengið út frá að fram­lag þeirra væri nokkuð jafnt fyrir utan atvinnurekstur varnaraðila. Þá hafi sóknar­aðili ekki haldið því fram að hún hafi lagt fram annað til eignamyndunar í hjónabandi aðila en umrædda greiðslu. Önnur eignamyndun virðist því stafa frá varnaraðila. Yrði fallist á kröfur sóknaraðila væri sú niðurstaða mjög ósanngjörn gagnvart varnaraðila, þar sem sóknaraðili héldi öllu sínu en fengi auk þess helming af annarri eignamyndun.

Skáskipti eigi ekki við á þeim grundvelli að hjúskapur aðila hafi verið sér­stak­lega skammvinnur. Aðilar hafi kynnst árið 2000 og gengu í hjónaband 17. desember 2004. Skilnaðarleyfi hafi verið gefið út 15. apríl 2011. Samband þeirra hafi þannig staðið yfir í u.þ.b. 10 ár og hjónabandið í u.þ.b. sex og hálft ár. Hjónabandið hafi þannig ekki verið sérstaklega skammvinnt. Veruleg fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum sem hafi ekki búið við séreignafyrirkomulag heldur staðið sameiginlega að framfærslu fjölskyldunnar en þau eigi saman tvö börn. Tekjur varnaraðila hafi runnið til framfærslu fjölskyldunnar og eignamyndunar og hann hafi ekki auðgast á kostnað sóknaraðila. Sá arður sem hafi verið greiddur út úr fyrirtæki hans hafi jafn­framt runnið til þágu beggja aðila. Gögn málsins beri með sér að aðilar hafi tekið tölu­vert út úr fyrirtækinu enda hafi eignamyndun þeirra verið töluverð í hjónabandinu.

Kröfur sóknaraðila taki ekki tillit til að framlags varnaraðila. Lántaka varnar­aðila og greiðslur frá honum og fyrirtæki hans hafi verið grundvöllur þess að aðilar gátu fest kaup á fasteigninni við A enda hafi aðilar ekki átt lausafé til að stað­greiða eignina. Fasteignin hafi hækkað verulega í verði frá því hún var keypt eða úr 62 milljónum króna í 95 milljónir. Sú verðhækkun eigi að falla til beggja aðila í sam­ræmi við framlög þeirra. Við fjárskipti milli aðila muni sóknaraðili halda því sem hún hafi lagt fram og töluvert meira en það þrátt fyrir að skipt verði helmingaskiptum.

Tekjur varnaraðila meðan á hjónabandinu stóð hafi verið hærri en sóknaraðila. Heildartekjur varnaraðila hafi numið 63.157.222 krónum árin 2004-2009 en sóknar­aðila 54.727.122 krónum á sama tímabili. Samkvæmt persónulegum skattframtölum aðila 2005 til 2011 hafi þau á sama tímabili fengið arðgreiðslur út úr fyrirtæki varnar­aðila, B ehf., að fjárhæð 137.900.000 krónur.

Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um að hún hafi engan arð fengið í sinn hlut eða notið góðs af útgreiddum arði. Greiddur arður hafi verið talinn fram á skattframtölum og runnið til þágu beggja. Ekki hafi verið sýnt fram á að varn­ar­aðili hafi haldið arðgreiðslum fyrir sig í því skyni að auðgast eða halda þeim utan skipta. Sá arður hafi verið greiddur sem unnt hafi verið að greiða og forsendur voru til, sbr. staðfestingu endurskoðanda B ehf.

Röksemdir sóknaraðila um að lán á nafni varnaraðila, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna sem hvílir á fasteigninni að C muni koma til frekari lækk­unar skipti ekki máli við úrlausn þessa máls. Samkvæmt yfirliti yfir eftirstöðvar skuld­ar­innar sé heildarstaða lánsins 5.000.314 krónur. Skuldin muni koma inn í upp­gjör milli aðila. Einungis sé um að ræða atriði sem varðar uppgjör milli aðila. Við upp­gjör vegna eigna megi setja inn fyrirvara um að verði lánið (eða önnur lán) lækkuð meira þá muni sú lækkun skiptast milli aðila.

Krafa varnaraðila um að miðað verði við metið markaðsverðmæti fasteigna aðila og krafa varnaraðila um innlausn fasteigna.

Sóknaraðili miði kröfur sínar út frá því að verðmat fasteignarinnar við A sé 95.000.000 krónur og sé ekki um ágreiningur um það verðmat. Varðandi fasteignina við C byggi sóknaraðili á því að byggingar­kostn­aður hennar hafi verið mun hærri en núverandi markaðsverð og líta beri til þess í inn­byrðis skiptum aðila. Varnaraðili hafnar þessum málatilbúnaði og telur að við skiptin verði að líta til raunverulegs markaðsverðmætis eignarinnar líkt og venja sé við fjár­skipti milli aðila og sé í samræmi við ákvæði laga nr. 20/1991, sbr. 105. og 110. gr., sbr. 17. til 21. gr. laganna. Í samræmi við þetta telji varnaraðili sig eiga rétt á að fá eign­ina sér lagða út samkvæmt fyrirliggjandi verðmati á söluverðmæti eignarinnar enda hafi sóknaraðili ekki hnekkt því mati.

Algengt sé að fjármunum sé varið til eigna sem ekki fáist endilega til baka við sölu. Þegar ráðist var í framkvæmdir og kaup á sumarhúsinu hafi aðilar verið í hjóna­bandi og þau hafi væntanlega gengið út frá að vera það áfram og að þau myndu hag­nýta eignina. Ákveðinn forsendubrestur hafi orðið við hið svokallaða efnahags­hrun. Eignir hafi gjarnan lækkað í verði og algengt að fólk hafi keypt eignir mun dýrara verði en þær seljist nú á eða lagt meira í þær. Aðilar hafi tekið sameiginlega ákvörðun um byggingu sumarhússins og hvernig að henni var staðið.

Krafa varnaraðila um að viðurkennt verði að 50% lóðar við C, sé séreign hans samkvæmt kaupmála. - Nánar varðandi skiptingu/­eignar­hald sumarhúss og lóðar.

Varnaraðili byggir á því að 50% lóðarinnar sé séreign varnaraðila samkvæmt kaup­mála aðila. Fasteignin að C sé hins vegar 75% hjúskapareign hans sam­kvæmt þinglýsingarvottorði en 25% hjúskapareign sóknaraðila. Það komi því að fullu inn í skipti milli aðila, að frádregnum skuldum, enda byggt eftir að kaupmálinn var gerður. Samkvæmt verðmati Eignamiðlunar hafi heildarlóðin verið metin á 5.000.000 króna en sumarhúsið sjálft á 50.000.000 króna eða samtals 55.000.000 króna. Þannig skiptist milli aðila 52.500.000 krónur en 2.500.000 krónur séu séreign varn­ar­aðila. Þess sé því krafist að staðfest verði að varnaraðili leysi heildareignina til sín á 52.500.000 krónur.

Krafa varnaraðila um að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að greiða honum húsa­leigu vegna afnota hennar af 50% eignarhluta hans í fasteigninni við A, fastanúmer [...].

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi búið endurgjaldslaust í fasteigninni við A frá því aðilar slitu samvistum. Varnaraðili hafi hins vegar þurft að leigja sér fasteign en hafi nú fest kaup á íbúð. Afnot sóknaraðila af fasteigninni feli í sér fjárhagsleg verðmæti fyrir hana því ella væri unnt að leigja eignina út og leigan gæti runnið upp í útgjöld vegna eignarinnar og það sem umfram væri til aðila. Sóknar­aðili hafi ekki viljað ljúka málum með samkomulagi, hún hafi hafnað að ganga út frá helm­inga­skiptum sem meginreglu og hafi hafnað öllum sáttaboðum varnaraðila. Þannig hafi dregist verulega að ljúka fjárskiptum milli aðila. Allan þennan tíma hafi sóknar­aðili búið í fasteign aðila og þannig notið fjárhagslegs ávinnings af þeirri töf sem orðið hafi. Óeðlilegt sé og ósanngjarnt eftir svo langan tíma að sóknaraðili greiði ekki húsaleigu fyrir afnot af eignarhluta varnaraðila. Í dómaframkvæmd hafi verið fallist á skyldu aðila til að greiða gagnaðila fyrir slík afnot. Aðilar séu ekki lengur hjón og gagnkvæm framfærsluskylda þ.a.l. ekki í gildi milli þeirra lengur. Þá hafi varnar­aðili greitt aukið meðlag með börnum aðila frá þeim degi sem húsaleigukrafan miðast við eða frá 1. mars 2010.

Varnaraðila hafi borist vitneskja um að sóknaraðili leigi hluta eignarinnar út til þriðja aðila án hans samþykkis. Umræddur aðili sé skráður með lögheimili í eigninni. Varn­ar­aðili eigi rétt til helmings þeirra leigutekna sem eigandi eignarinnar. Ráðstöfun rétt­inda/eigna án samþykkis skiptastjóra sé ekki heimil undir opinberum skiptum enda hafi eignin ekki verið lögð sóknaraðila út, sbr. 108. gr. laga nr. 20/1991.

Varnaraðili hafi einn greitt öll gjöld vegna eignarinnar frá samvistaslitum aðila. Varnaraðili hafi greitt fasteignagjöld fyrir 19 af 26 mánuðum sem liðnir séu frá þeim tíma auk trygginga af eigninni. Sóknaraðili hafi því ekki greitt hluta varnaraðila af gjöldum vegna eignarinnar heldur hefur það verið öfugt þrátt fyrir afnot hennar. Hvor aðili um sig hafi greitt af lánum á nafni viðkomandi.

Varnaraðili hafi aflað mats frá tveimur fasteignasölum á því hvað unnt væri að leigja eignina á. Markaðsleiga fyrir heildareignina sé talin vera á bilinu 350.000-400.000 krónur. Krafa varnaraðila miðist við helming lægri fjárhæðarinnar.

Varnaraðili vísar til meginreglna um fjárskipti milli hjóna og til ákvæða hjú­skap­ar­laga nr. 31/1993 um fjárskipti milli hjóna o.fl. Einnig vísar varnaraðili til ákvæða í lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa  um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Niðurstaða

                Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að við skipti á búi aðila skuli vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, og að verðmæti fast­eign­ar­innar að A, fastanúmer [...], 95.000.000 krónur, sem sóknaraðili krefst útlagningar á, verði ákvarðað þannig, að sóknaraðili fái 33,87% af óskiptu verðmæti eignarinnar í sinn hlut, en 66,13% teljist hjúskapareign sóknar­aðila og varnaraðila að jöfnu.

                Í 6. og 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 kemur fram meginreglan um helm­inga­skipti við fjárslit milli hjóna. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laganna má víkja frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Á þetta einkum við þegar tekið er tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjú­skapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjú­skaparstofnun. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar geta frávik frá helm­inga­skiptum enn fremur átt sér stað þegar annað hjóna hefur með vinnu, framlögum til fram­færslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjár­eign sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hefur átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti.

Við upphaf sambúðar aðila árið 2002 átti sóknaraðili raðhús við [...]. Hinn 14. mars 2003 keyptu málsaðilar fasteign að A. Kaupverð fasteignarinnar var 62 milljónir króna og voru málsaðilar þing­lýstir eigendur hennar í jöfnum hlutföllum. Óumdeilt er að við kaup þeirrar eignar lagði sóknaraðili fram 21 milljón króna sem fengust við sölu fasteignar hennar að [...]. Sú fjárhæð nemur 33,87% af kaupverði eignarinnar, sem sóknaraðili gerir kröfu um að fá í sinn hlut af óskiptu verðmæti eignarinnar. Byggir sóknaraðili á því að helmingaskipti milli aðila á grundvelli 103. gr. hjúskaparlaga séu bersýnilega ósann­gjörn í hennar garð, og því eigi að víkja frá helmingaskiptum með heimild í 1. mgr. 104. gr. sömu laga.

Aðilar gengu í hjónaband 17. desember 2004. Þau slitu samvistum 22. ágúst 2009. Af gögnum máls verður ekki annað ráðið en með þeim hafi verið fjárhagsleg sam­staða á sambúðar- og hjúskapartíma. Að því er varðar fjármögnun aðila vegna kaupa fasteignarinnar að A liggur fyrir að sóknaraðili lagði til kaupanna 21 milljón króna, en auk þess kveðst sóknaraðili hafa tekið lán að fjárhæð 8 milljónir króna. Annað framlag vegna kaupanna stafaði frá varnaraðila. Þá kveðst varnaraðili hafa lagt fram verulegar fjárhæðir vegna framkvæmda við húsið í upphafi er eldhús var endurnýjað. Krafa sóknaraðila að þessu leyti verður ekki við það studd að hjú­skapur aðila hafi staðið stutt eða að uppfyllt séu að öðru leyti skilyrði 104. gr. hjú­skap­ar­laga um frávik frá reglunni um helmingaskipti. Þá hefur fasteignin að A hækkað verulega í verði frá því að hún var keypt, sem eðlilegt er að komi aðilum jafnt til góða. Þegar til alls þessa er litið verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um að við skipti á búi aðila skuli vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga að því er varðar fasteignina að A. Verður því staðfest sú krafa varnaraðila að við fjárskipti milli aðila skuli farið samkvæmt helminga­skipta­reglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Þá krefst sóknaraðili þess að við skipti á búi aðila verði því hafnað að draga frá hjú­skapareign varnaraðila skuld við B ehf., að fjárhæð 43.271.104 krónur sam­kvæmt skattframtali 2010 eða aðra og lægri fjárhæð. Byggir sóknaraðili á því að engin gögn liggi fyrir sem staðfesti tilvist þessarar skuldar. Varnaraðili gerir hins vegar þá kröfu að tekið verði tillit til þessarar skuldar, eins og hún var á viðmiðunardegi skipta, 1. mars 2010, og að hún komi að fullu til frádráttar hjúskapareignum varnaraðila við skipti milli aðila eins og aðrar skuldir sem á aðilum hvíla, í samræmi við 100. gr. hjú­skap­arlaga nr. 31/1993, sbr. og 109. gr. laga nr. 20/1991. Varnaraðili byggir á því að um sé að ræða persónulega skuld varnaraðila við félagið B ehf. sem hafi verið stað­fest með gögnum úr bókhaldi félagsins og skattframtölum aðila. Skuldin sé til komin vegna úttekta aðila úr fyrirtækinu sem hafi runnið til eignamyndunar, neyslu og fram­kvæmda þeirra. Varnaraðili þurfi að endurgreiða þessa skuld. Úttektirnar hafi runnið til beggja aðila og hafi ekki verið sýnt fram á að með þeim hafi varnaraðili einn auðg­ast á kostnað sóknaraðila. Varnaraðili skýrði frá því fyrir dómi að arður úr fyrir­tæki hans, B ehf., sem var sameign aðila samkvæmt kaupmála, hafi alltaf verið tekin út fyrirfram og runnið til fjölskyldunnar og umframúttektir hafi orsakað skulda­myndun. Varnaraðili kvaðst hafa tekið lán yfir áramót svo ekki stæði skuld við fyrir­tækið vegna arðgreiðslna.

Samkvæmt útskrift úr bókhaldi B ehf. var bókfærð skuld varnaraðila við félagið 43.271.104 krónur, 26. febrúar 2010. Samkvæmt skýringum G, löggilts endurskoðanda, myndaðist skuldin í byrjun árs 2010 og var að mestu leyti til komin vegna uppgjörs á láni frá Arion banka frá því í árslok 2009, sem skuld­fært var í skattframtali aðila 2010 að fjárhæð 44.944.029 krónur. Þá liggur fyrir sam­kvæmt framburði aðila fyrir dómi og gögnum máls að arðgreiðslur sem varn­ar­aðili fékk úr fyrirtæki sínu hafi m.a. verið nýttar til þess að fjármagna bygging­ar­kostnað fasteignarinnar við C. Samkvæmt yfirlýsingu endur­skoðandans hafði allur arður úr fyrirtækinu vegna ársins 2009 verið tekin út fyrir fram og hagnaður ársins 2009 hafi reynst mun minni en fyrirframgreiðslurnar.

Samkvæmt skattframtölum aðila árin 2005-2011 voru arðgreiðslur úr fyrirtæki varn­ar­aðila B ehf. á árunum 2004 til 2008 alls 137.900.000 kr. Arður úr félaginu var sameign aðila að jöfnu samkvæmt kaupmála. Samkvæmt skattframtali 2009 voru arð­greiðslur frá B ehf. 42.000.000 kr. á árinu 2008 en samkvæmt skattframtali 2010 voru þær 2.000.000 kr. á árinu 2009. Þegar til þessa er litið er fallist á að stofnast hafi til skuldar hjá varnaraðila vegna úttekta sem runnu til eignamyndunar og sam­neyslu aðila og arðgreiðslum var ætlað að standa undir. Verður því fallist á þá kröfu varn­ar­aðila að taka beri tillit til þessarar skuldar, eins og hún var á viðmiðunardegi skipta, 1. mars 2010, og að hún komi að fullu til frádráttar hjúskapareignum varnar­aðila við skipti milli aðila.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði að við skipti milli aðila, hvað varðar fast­eignirnar við A og C, verði miðað við metið markaðsverðmæti/söluverðmæti húseignanna þegar mat á þeim fór fram. Jafnframt krefst hann þess að staðfest verði að hann eigi rétt á að leysa til sín fast­eignina við C, samkvæmt mati á markaðsverðmæti eign­ar­innar. Jafnframt gerir varnaraðili kröfu um innlausn A, fallist sóknaraðili ekki á að leysa hana til sín samkvæmt mati á markaðs­verð­mæti eignarinnar.

Af málatilbúnaði aðila verður ekki annað ráðið en að óumdeilt sé að við mat á verðmæti fasteignirnar að A, skuli lagt til grundvallar matsverð hennar samkvæmt verðmati Sverris Kristinssonar, löggilts fasteignasala, dags. 14. apríl 2011, að fjárhæð 95.000.000 kr. og verður við það miðað. 

Með aðilum er hins vegar ágreiningur um verðmæti fasteignarinnar við C. Telur sóknaraðili að miða skuli við byggingar­kostnað eignarinnar, en varnaraðili telur að við skiptin verði að líta til raunverulegs mark­aðs­verðmætis hennar. Í 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 segir að verði ekki sam­mæli um verðmat eigna geti aðilar krafist mats á þeim í samræmi við ákvæði 17.-23. gr. laganna. Í 17. gr. laganna er gert ráð fyrir því að eignir séu metnar til peningaverðs og í 20. gr. er tekið fram að við mat á eign til peningaverðs skuli miðað við gangverð hennar gegn staðgreiðslu kaupverðs. Verður því ekki fallist á það sjónarmið sóknar­aðila að miða skuli í þessu efni við byggingarkostnað eignarinnar. Í málinu liggur fyrir mats­gerð dómkvadds matsmanns, dags. 19. október 2012, þar sem markaðsverðmæti heildar­fasteignarinnar að C, er talið vera 75.000.000 kr. Því mati hefur ekki verið hnekkt. Ber því að leggja það verðmat til grundvallar við skiptin.

Staðfest er að varnaraðili eigi rétt á að leysa til sín fasteignina við C samkvæmt framangreindu mati á markaðsverðmæti eignarinnar. Þá er fallist á kröfu varnaraðila um innlausn A, leysi sókn­ar­aðili hana ekki til sín samkvæmt framangreindu verðmati eignarinnar.

Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að 50% lóðar við C, sé séreign varnaraðila samkvæmt kaupmála. Þessi krafa er ekki meðal þeirra ágreiningsatriða, sem skiptastjóri vísaði til úrlausnar dómsins með bréfi sínu, 30. nóvember 2011. Samkvæmt því, og með vísan til 112. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, er kröfu þessari vísað frá dómi.

                Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að greiða varn­ar­aðila húsaleigu vegna afnota hennar af 50% eignarhluta varnaraðila í fasteign­inni við A, fastanúmer [...], 175.000 krónur á mán­uði eða aðra fjárhæð samkvæmt mati dómsins, frá 1. mars 2010 þar til afnotum sókn­ar­aðila af fasteigninni lýkur eða gengið hefur verið frá ráðstöfun eignarinnar.

Fyrir liggur að sóknaraðili hefur búið í fasteign aðila að A, frá samvistarslitum. Fallist er á það með varnaraðila að sóknaraðila beri að greiða honum húsaleigu vegna afnota hennar af eignarhluta hans í fasteigninni. Sam­kvæmt þeim verðmötum sem fyrir liggja í gögnum máls er útleiguverð eignarinnar á frjálsum markaði á bilinu 320.000 til 400.000 kr. á mánuði. Þegar litið er til þess að sókn­ar­aðili býr í húsinu ásamt börnum aðila sem eru í sameiginlegri forsjá þeirra þykir eftir atvikum hæfilegt að sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 kr. í húsaleigu á mánuði frá 1. mars 2010 að telja.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 við uppkvaðningu úrskurðarins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Við fjárskipti milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skal farið samkvæmt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Við skipti milli aðila skal taka tillit til skuldar varnaraðila við B ehf. að fjárhæð 43.271.104 krónur, eins og hún var á viðmiðunardegi skipta, 1. mars 2010, og að hún komi að fullu til frádráttar hjúskapareignum varnaraðila.

Við mat á verðmæti fasteignirnar að A skal lagt til grundvallar matsverð hennar samkvæmt verðmati Sverris Krist­ins­sonar, löggilts fasteignasala, dags. 14. apríl 2011, að fjárhæð 95.000.000 krónur.

Við mat á verðmæti fasteignirnar að C lagt til grundvallar markaðsverðmæti heildarfasteignarinnar samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns, dags. 19. október 2012, að fjárhæð 75.000.000 krónur.

Varnaraðili á rétt á að leysa til sín fasteignina við C, samkvæmt framangreindu mati á markaðsverðmæti eignarinnar. Þá er fallist á kröfu varnaraðila um innlausn A, leysi sóknaraðili hana ekki til sín samkvæmt framangreindu verðmati eignarinnar.

Sóknaraðili skal greiða varnaraðila 100.000 krónur í húsaleigu á mánuði frá 1. mars 2010 að telja.

Kröfu varnaraðila um að viðurkennt verði að 50% lóðar við C, sé séreign varnaraðila samkvæmt kaupmála, er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.