Hæstiréttur íslands
Mál nr. 412/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn
14. júní 2012. |
|
Nr.
412/2012. |
Lögreglustjórinn á
höfuðborgarsvæðinu (Jón
H.B Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán
Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi
sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og
Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2012
sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður
Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi
uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 10. júlí
2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. og b. lið 2. mgr. 192. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að
úrskurðurinn verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði
markaður skemmri tími og að honum „verði gert að sæta geðrannsókn á
gæsluvarðhaldstíma.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í varakröfu sinni krefst varnaraðili þess að honum verði gert
að sæta geðrannsókn á gæsluvarðhaldstíma. Héraðsdómur hefur ekki tekið afstöðu
til þeirrar kröfu og kemur hún því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann
staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12.
júní 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist
þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði
X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur
gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 10. júlí 2012 kl.
16.00.
Í greinargerð kemur fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
hafi unnið að rannsóknum mála þar sem ákærði sé grunaður um auðgunarbrot,
tilraun til nytjastuldar, tilraun til nauðgunar og brot er varði meiriháttar
nauðung.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012 hafi ákærða
verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 13. júní á grundvelli c.
liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Rannsókn sé lokið í nær öllum málum á hendur ákærða og
hafi þann 15. maí sl. verið gefin út
ákæra af embætti Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða vegna
fjölda auðgunarbrota sem ákærði hafi að mestu viðurkennt í yfirheyrslum hjá
lögreglu svo og við þingfestingu málsins þann 6. júní sl., sjá nánar meðfylgjandi
ákæru. Þá hafi farið fram aðalmeðferð vegna þeirrar ákæru þann 12. júní sl.
Að auki hafi mál þar sem ákærði sé grunaður um að hafa með
ofbeldi og hótunum gert tilraun til að nauðga vinkonu sinni á heimili hans þar
sem hann hélt henni nauðugri í fjórar klukkustundir verið sent til
ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða eigi hann að baki samfelldan
sakaferil frá því hann var 15 ára gamall og hafi hlotið fangelsisdóm fyrir
þjófnaði og tilraun til ráns. Þá komi fram í yfirheyrslum lögreglu að ákærði
hafi verið í mikilli neyslu vímuefna sem hann virðist að mestu leyti fjármagna
með afbrotum.
Með vísan til brotaferils ákærða á undanförnum mánuðum sé
það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að hann muni halda
áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái
fram að ganga.
Brotaferill ákærða er nær samfelldur frá 15 ára aldri hans.
Ákæra var gefin út á hendur ákærða 15. maí sl. vegna þjófnaðarbrota, tilraunar
til þjófnaðar, tilrauna til nytjastuldar og fjársvik, sem ákærði hefur að mestu
viðurkennt í yfirheyrslum hjá lögreglu og
fyrir dómi, en 10 af 11 brotum voru framin í mars og apríl sl. Þá hefur
mál þar sem ákærði er grunaður um tilraun til nauðgunar og meiriháttar nauðung
verið sent ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar.
Með vísan til brotaferils ákærða á undanförnum mánuðum verður fallist á með lögreglustjóra að
veruleg hætta sé á að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls
ferða sinna. Þykir fullnægt skilyrðum
c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að fallast á kröfu
lögreglustjórans eins og hún er fram sett.
Þorgerður Erlendsdóttir
héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú
R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákærði,
X, kt. [...],
skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur
en til þriðjudagsins 10. júlí 2012 kl. 16.00.