Hæstiréttur íslands
Mál nr. 676/2013
Lykilorð
- Lax- og silungsveiði
- Stjórnarskrá
- Félagafrelsi
- Eignarréttur
- Sameign
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2014. |
|
Nr. 676/2013.
|
Ingibjörg Pálsdóttir og Fossatún ehf. (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár og (Karl Axelsson hrl.) Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. (Eiríkur Gunnsteinsson hrl.) |
Lax- og silungsveiði. Stjórnarskrá. Félagafrelsi. Eignarréttur. Sameign. Aðildarskortur.
I var eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð, en jörðinni fylgdi veiðiréttur í Grímsá og var I sem veiðiréttarhafi í ánni félagsmaður í V samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þá rak hún ferðaþjónustu á jörð sinni í nafni F ehf. Með samningum 1. mars 2007 og 22. apríl 2009 leigði V til VH ehf. um tiltekin tímabil allan rétt til stangveiði í Grímsá og Tunguá á félagssvæði V svo og veiðihús að Fossási. I og F ehf. höfðuðu mál á hendur V og VH ehf. og kröfðust viðurkenningar á því að V hefði verið óheimilt að selja veiðihúsið á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006, hvort heldur væri til VH ehf. eða annarra. Töldu I og F ehf. að V væri þetta óheimilt þar sem framangreint samrýmdist ekki lögboðnu hlutverki veiðifélagsins samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 auk þess sem þau töldu að samþykki allra félagsmanna veiðifélags þyrfti að liggja til grundvallar ákvörðun um slíkt. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að réttarstaða veiðifélaga væri ekki skilgreind með skýrum hætti í lögum nr. 61/2006 en þó væri ljóst að skipan mála innan þeirra og í skiptum út á við væri með sama hætti og þegar eignarréttindi að tilteknu verðmæti væru í sérstakri sameign. Þar sem reglum laganna sleppti giltu því almennar reglur eignarréttar um sérstaka sameign, en auk þess mætti hafa nokkra hliðsjón af lagaákvæðum um afmarkaða flokka sérstakrar sameignar eins og reglum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt almennum reglum eignarréttar gilti sú meginregla um sérstakra sameign að samþykki allra sameigenda þyrfti til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem væru meiriháttar þótt venjulegar gætu talist. Samkvæmt 41. gr. laga nr. 26/1994 giltu sérstakar reglur við ákvarðanatöku um sameiginleg málefni í fjöleignarhúsum og m.a. að samkvæmt A. lið ákvæðisins þarfnaðist ráðstöfun á verulegum hluta sameignar samþykkis allra eigenda þess. Í reglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um að mönnum væri skylt að eiga aðild að veiðifélagi fælist undantekning frá meginreglu 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að engan mætti skylda til aðildar að félagi. Í þessu fælist jafnframt takmörkun á eignarráðum fasteignareiganda hvað eignarrétt að veiði varðaði. Af þessu leiddi að viðfangsefni veiðifélaga takmarkaðist á hverjum tíma af þeim verkefnum sem löggjafinn fæli þeim og þyrftu þau að vera í nánu samhengi við tilgang laganna og markmið skylduaðildar. Taldi Hæstiréttur að ákvörðun veiðifélags um ráðstöfun stangveiði á félagssvæði sínu og samhliða henni ákvörðun um gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi, á skilgreindum veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 félli innan þeirra marka sem lög settu starfsemi veiðifélaga, sbr. c. og d. liði 1. mgr. 37. gr. laganna. Við töku slíkra ákvarðana réði afl atkvæða ef ekki væri á annan veg mælt í lögum eða samþykktum veiðifélags. Á hinn bóginn væri ákvörðun veiðifélags um að selja öðrum veiðihús á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma meiriháttar ákvörðun í skilningi óskráðra reglna eignarréttarins um sérstaka sameign og gilti þá einu hvort hún teldist venjuleg eða óvenjuleg. Til slíkrar ákvörðunar þyrfti því samþykki allra félagsmanna í veiðifélagi. Með vísan til þessa var krafa I á hendur V tekin til greina, en sýknað var af kröfu hennar á hendur VH ehf. sem og kröfu F ehf. á hendur V og VH ehf. sökum aðildarskorts.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. október 2013. Þau krefjast viðurkenningar á því að stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár sé óheimilt að selja veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, hvort heldur er til stefnda Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. eða annarra. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandinn Ingibjörg er þinglýstur eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð en jörðinni fylgir veiðiréttur í Grímsá, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006. Sem skráður veiðiréttarhafi í ánni samkvæmt 12. gr. sömu laga er áfrýjandinn félagsmaður í stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Á eignarjörð sinni hefur hún rekið ferðaþjónustu frá árinu 2005 og frá árinu 2010 í nafni áfrýjandans Fossatúns ehf. sem mun með öllu vera í eigu hennar og er hún stjórnarformaður félagsins. Með samningi 1. mars 2007 tók stefndi Veiðifélagið Hreggnasi ehf. á leigu allan rétt til stangveiði í Grímsá og Tunguá á félagssvæði stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Samkvæmt samningnum var leigutíminn veiðitími áranna 2008 til 2012 en veiðitími í Grímsá sagður vera frá 22. júní til 24. september og í Tunguá frá 12. júlí til 8. september ár hvert. Sömu aðilar gerðu samning 22. apríl 2009 um leigu Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. á veiðihúsinu að Fossási í Borgarbyggð til loka veiðitíma árið 2012. Fjárhæð leigu var 419.000 krónur á mánuði fyrir júlí, ágúst og september en 180.000 krónur aðra mánuði ársins. Með samningi 6. nóvember 2009 voru gerðar nokkrar breytingar á fyrrgreindum leigusamningi 1. mars 2007 um veiðina en jafnframt tekið fram að samningurinn 22. apríl 2009 um leigu á veiðihúsinu héldist óbreyttur. Leiga á veiðihúsinu var framlengd frá 1. apríl 2012 til ársloka 2014 með samningi 2. febrúar 2012. Samningurinn 6. nóvember 2009 var af hálfu stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár sem leigusala undirritaður af formanni stjórnar félagsins með fyrirvara um samþykki félagsfundar. Á fundi í veiðifélaginu 21. nóvember 2009 fór fram atkvæðagreiðsla um samninginn frá 6. sama mánaðar og var hann samþykktur með 18 atkvæðum, einn félagsmaður greiddi atkvæði á móti og 5 skiluðu auðu.
II
Stefndi Veiðifélagið Hreggnasi ehf. hefur frá árinu 2009 rekið gisti- og veitingaþjónustu í veiðihúsinu að Fossási utan veiðitíma þess sem áður greinir. Áfrýjendur telja sig af þeim sökum verða fyrir tekjumissi í ferðaþjónustu sinni og beindi áfrýjandinn Ingibjörg af því tilefni kæru til Fiskistofu, sbr. 43. gr. laga nr. 61/2006. Fór hún þess á leit að felld yrði úr gildi fyrrgreind samþykkt félagsfundar stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár 21. nóvember 2009 um að félagið leigði veiðihúsið að Fossási út til gisti- og veitingarekstrar til stefnda Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. Var kæran á því reist að 9. gr. samningsins 6. nóvember 2009, sem vísaði til þess að samningurinn 22. apríl sama ár héldist óbreyttur, samræmdist ekki lögum nr. 61/2006. Í kærunni sagði meðal annars að það færi ekki saman við tilgreind ákvæði stjórnarskrárinnar að áfrýjandinn Ingibjörg væri skylduð til þátttöku í félagi sem starfaði utan lögbundins starfsvettvangs síns og ynni með því gegn hagsmunum hennar sem félagsmanns. Þá væri ekki „sjáanlegt að lögin um lax- og silungsveiði bjóði upp á að ákvörðun meirihluta félagsmanna réttlæti rekstur fasteigna eða annan rekstur utan ramma laganna, að hagsmunir minnihluta aðildarfélaga séu bornir fyrir borð eða að félagið stuðli að óeðlilegri samkeppni innan annarra atvinnugreina.“
Í ákvörðun Fiskistofu 16. mars 2010 var vísað til markmiðs 1. gr. laga nr. 61/2006 og það sagt vera á valdi veiðifélaganna sjálfra að meta „hvað sé hagkvæm nýting þeirra eigna ... sem þau hafa yfir að ráða. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það mat einnig að lúta að því að ekki sé gengið á fiskistofna viðkomandi veiðisvæðis með veiði og ennfremur að veiðiréttareigendur fái sem mestan arð af þeim eignum og fjárfestingum sem til staðar eru hverju sinni. Það er mat Fiskistofu að vald veiðifélaga í þessu efni, varðandi rekstur veiðihúsa, verði þó að takmarkast við öldungis sambærilegan rekstur og rekinn er í veiðihúsum á veiðitímabili viðkomandi veiðisvæðis. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur Fiskistofa, að ekki verði fullyrt að sú nýting á veiðihúsi Grímsár og Tunguár, sem kærendur lýsa í kæru sinni, sé þess eðlis að hann falli utan þeirra marka sem lög og reglur varðandi veiðifélög setja starfsemi þeirra. Með vísan til 43. gr. laga nr. 61/2006 ... er það ákvörðun Fiskistofu í máli þessu að staðfest er að ákvörðun félagsfundar frá 21. nóvember 2009 ... sé formlega og efnislega lögmæt.“
III
Áfrýjandinn Ingibjörg vefengir ekki að henni sem veiðiréttarhafa samkvæmt lögum nr. 61/2006 sé skylt að eiga aðild að veiðifélagi í fiskihverfi sínu. Þá dregur hún heldur ekki í efa rétt stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár til þess að stunda í veiðihúsi því, sem reist hefur verið að Fossási, gisti- og veitingarekstur á skilgreindum veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 í tengslum við sölu veiðileyfa eða selja öðrum slíkan rekstur á leigu. Á hinn bóginn telur hún að veiðifélaginu sé óheimilt að selja veiðihúsið öðrum á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma og er tilgangur málshöfðunarinnar að fá skorið úr ágreiningi við stefndu hvað þetta varðar. Samkvæmt málflutningi áfrýjenda fyrir Hæstarétti telja þau allan gisti- og veitingarekstur í veiðihúsinu sem ekki tengist gagngert sölu veiðileyfa vera almennan. Er málatilbúnaður áfrýjenda í aðalatriðum á því reistur að leiga veiðihússins til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma samrýmist ekki lögboðnu hlutverki veiðifélagsins, sbr. síðari málslið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Jafnframt verður að skilja málatilbúnað áfrýjenda svo að þau telji að meirihluti félagsmanna í veiðifélaginu geti ekki í andstöðu við minnihlutann tekið slíka ákvörðun um ráðstöfun veiðihússins heldur þurfi samþykki allra félagsmanna til að koma. Eins og málatilbúnaði áfrýjenda er háttað ræðst úrlausn framangreinds ágreinings af því hver sé að lögum staða stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár og eignarréttarleg staða í skiptum þess og félagsmanna.
IV
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 61/2006 er markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna þar og verndun þeirra. Í 1. mgr. 5. gr. laganna er mælt á þann veg að eignarlandi hverju fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum. Er regla 1. mgr. 5. gr. í samræmi við þá fornu meginreglu íslensks réttar, sem meðal annars kom fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar, að hver maður ætti vatn og veiði fyrir sínu landi, svo sem nánar getur í dómi Hæstaréttar 20. mars 1963 í máli nr. 163/1961 sem birtur er á bls. 173 í dómasafni 1963. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 61/2006 segir að skrá skuli öll veiðivötn og veiðiréttarhafa og annast Fiskistofa þá skráningu. Þá segir í 1. mgr. 37. gr. að í því skyni að markmiðum laganna samkvæmt 1. gr. verði náð sé mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. eru félagsmenn veiðifélags allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar samkvæmt 12. gr. og um atkvæðisrétt þeirra fer eftir því sem segir í 40. gr. laganna. Í 1. mgr. 40. gr. er sú meginregla að eitt atkvæði fylgir hverri jörð sem veiðirétt á, en í 7. mgr. er sú undantekning gerð að sé lagt fyrir fund í veiðifélagi að ráðast vegna starfsemi félagsins í framkvæmdir, sem hafi fjárútlát í för með sér er nema að minnsta kosti 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, geti hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Samkvæmt 8. mgr. 40. gr. laganna ræður afl atkvæða um málefni sem ekki er sérstaklega kveðið á um í lögum eða samþykktum félags. Í 1. mgr. 41. gr. laganna segir að veiðifélagi sé skylt að láta gera skrá sem sýni þann hluta af veiði eða arði af veiði sem koma skal í hlut hverrar fasteignar, lögaðila eða einstaklings er veiðirétt á í vatni á félagssvæði. Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. skal við niðurjöfnun veiði eða úthlutun arðs af henni meðal annars taka tillit til aðstöðu til netaveiði og stangveiði, landlengdar að veiðivatni, vatnsmagns og stærðar vatnsbotns og hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks.
Ákvæði um skyldu manna til félagsskapar um skipulag lax- og silungsveiði í hverju fiskihverfi komu fyrst í lög með ákvæðum laga nr. 38/1970 um lax- og silungsveiði en fram að gildistöku þeirra hafði slík félagsstofnun verið valkvæð. Í fyrri málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er réttur manna til að standa utan félaga verndaður en þar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi. Í síðari málslið ákvæðisins er undantekning frá þessu en þar segir að með lögum megi kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félagið geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Til grundvallar því að skylduaðild að félagi geti verið nauðsynleg vegna réttinda annarra liggja meðal annars þau rök að við ákveðnar aðstæður geti tengsl á milli manna verið svo náin að nauðsynlegt þyki að leggja þá skyldu á þá að virða hagsmuni hvor eða hver annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni. Eru veiðifélög sérstaklega nefnd sem dæmi um þessa aðstöðu í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 og þar tekið fram að eigendum veiðiréttar sé gert að standa að sameiginlegu félagi vegna þeirra nánu tengsla sem séu á milli hagsmuna þeirra. Í athugsemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2006 sagði meðal annars að heimildir löggjafans til að mæla fyrir um skylduaðild að veiðifélögum helguðust af öðrum málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum sem það ákvæði væri reist á. Þá var í tengslum við umfjöllun um og rökstuðning fyrir skylduaðild að veiðifélögum tekið fram í frumvarpinu að ætlunin væri að auka enn frekar en áður hafi verið réttaröryggi einstakra félagsmanna í veiðifélögum. Væri það meðal annars gert með því að fjölga þeim atriðum sem veiðifélögum yrði gert skylt að taka upp í samþykktir sínar með það að markmiði að gera rekstur og ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélaga skýrari og skilvirkari og tryggja eftir föngum réttaröryggi einstakra félagsmanna sem þurfi að sæta skylduaðild.
V
Í lögum nr. 61/2006 er réttarstaða veiðifélaga ekki skilgreind með skýrum hætti. Þó er tekið fram í 6. mgr. 37. gr. laganna að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga og í arðskrárhlutfalli. Var þetta skýrt svo í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 61/2006 að með þessu væri áréttuð sú eignarréttarstaða í skiptum veiðifélags og félagsmanna að félagið sjálft væri ekki handhafi neins konar eignarréttarheimilda heldur teldust sjálfstæðar eignir félags tilheyra einstökum félagsmönnum og veiðiréttarhöfum í samræmi við hlutdeild þeirra í félaginu á grundvelli arðskrár. Þá er í 5. mgr. sömu lagagreinar sú regla um skuldskeytingu að taki nýr aðili við veiðirétti samkvæmt II. kafla laganna fyrir afsal eða á grundvelli ábúðarsamnings sé honum skylt að gerast félagi í veiðifélagi og taka á sig skuldbindingar fráfarandi félagsmanns. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laganna skulu félagsmenn greiða kostnað af starfsemi veiðifélags í því hlutfalli sem þeir taka arð og sagði um þá skipan mála í athugasemdum með síðastgreindu frumvarpi að hún væri í góðu samræmi við meginreglur íslensks réttar um óskipta sameign. Þótt réttarstaða veiðifélaga sé ekki skilgreind berum orðum í lögum nr. 61/2006 er af framansögðu ljóst að skipan mála innan þeirra og í skiptum út á við er með sama hætti og þegar eignarréttindi að tilteknu verðmæti eru í sérstakri sameign. Af því leiðir að þegar reglum laga nr. 61/2006 sleppir, þar á meðal hvað varðar heimildir félagsmanna til ákvörðunar um nýtingu og ráðstöfun eigna á forræði veiðifélags með eða án löggernings, gilda almennar reglur eignarréttar um sérstaka sameign. Auk þess má eftir því sem við á hafa nokkra hliðsjón af lagaákvæðum um afmarkaða flokka sérstakrar sameignar eins og reglum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Samkvæmt almennum reglum eignarréttar gildir sú meginregla um sérstaka sameign að samþykki allra sameigenda þarf til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem eru meiriháttar þótt venjulegar geti talist. Samkvæmt 41. gr. laga nr. 26/1994 gilda sérstakar reglur við ákvarðanatöku um sameiginleg málefni í fjöleignarhúsum og er þar greint á milli fjögurra tilvika. Í fyrsta lagi þarf til þeirra ákvarðana sem greinir í A. lið ákvæðisins samþykki allra eigenda. Í öðru lagi þarf til ákvarðana samkvæmt B. lið samþykki 2/3 hluta eigenda. Í þriðja lagi þarf til þeirra tilvika sem greinir í C. lið samþykki einfalds meirihluta eigenda og í D. lið segir að til allra annarra ákvarðana nægi samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við hlutfallstölur á löglega boðuðum húsfundi. Meðal þeirra tilvika sem nefnd eru í A. lið 41. gr. og þarfnast samþykkis allra eigenda er ráðstöfun á verulegum hluta sameignar, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Í síðarnefnda ákvæðinu segir að sameign fjöleignarhúss verði ekki ráðstafað af húsfélagi með samningi nema allir eigendur séu því samþykkir og gildir hið sama um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar. Í 2. mgr. 19. gr. er tekið fram að heimilt sé að selja eða leigja óverulegan hluta sameignar ef öllum eigendum er gefinn kostur á að eiga hlut að ákvörðun um það á löglegum húsfundi og að minnsta kosti 2/3 hlutar eigenda eru því meðmæltir.
VI
Í þeirri reglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 að mönnum sé skylt að eiga aðild að veiðifélagi felst undantekning frá þeirri meginreglu fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að engan megi skylda til aðildar að félagi. Jafnframt er fólgin í þessari skipan takmörkun á eignarráðum fasteignareiganda hvað eignarrétt að veiði varðar. Af þessu leiðir að viðfangsefni veiðifélaga takmarkast á hverjum tíma af þeim verkefnum sem löggjafinn gagngert felur þeim og ótvírætt þarf að vera að þau séu í nánu samhengi við tilgang laganna og þau markmið sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja. Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 kemur fram að tilvist veiðifélaga og skylduaðild að þeim er ætlað að tryggja að markmiðum laganna samkvæmt 1. gr. verði náð, en markmið laganna samkvæmt þeirri grein er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna þar og verndun þeirra. Í þessu felst meðal annars að ákvörðun veiðifélags um ráðstöfun stangveiði á félagssvæði sínu og samhliða henni ákvörðun um gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi, sem reist hefur verið, á skilgreindum veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 fellur tvímælalaust innan þeirra marka sem lög setja starfsemi veiðifélaga, sbr. c. og d. liði 1. mgr. 37. gr. laganna. Við töku ákvörðunar um slík málefni gildir sú regla 8. mgr. 40. gr. þeirra að afl atkvæða ræður ef ekki er á annan veg mælt í lögum eða samþykktum veiðifélags. Á hinn bóginn er ákvörðun veiðifélags um að selja öðrum veiðihús á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar í veiðihúsi utan skilgreinds veiðitíma meiriháttar ákvörðun í skilningi óskráðra reglna eignarréttarins um sérstaka sameign og gildir þá einu hvort hún telst venjuleg eða óvenjuleg. Af þessu leiðir að til slíkrar ákvörðunar þarf samkvæmt þeim reglum samþykki allra félagsmanna.
Samkvæmt því sem að framan greinir þurfti samþykki allra félagsmanna í stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár til þeirrar ráðstöfunar félagsins að selja stefnda Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. á leigu utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 veiðihúsið að Fossási til almenns gisti- og veitingarekstrar. Í málinu krefjast áfrýjendur hvor um sig viðurkenningar á því að slík samningsgerð sé hinu stefnda veiðifélagi óheimil hvort heldur er við stefnda Veiðifélagið Hreggnasa ehf. eða aðra. Sem félagsmaður í stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár hefur áfrýjandinn Ingibjörg af því lögvarða hagsmuni að fá viðurkenningu fyrir því að slík samningsgerð sé veiðifélaginu almennt óheimil en að því lýtur dómkrafa hennar í reynd. Verður krafa hennar því tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir. Áfrýjandinn Fossatún ehf. er á hinn bóginn ekki félagsmaður í hinu stefnda veiðifélagi og getur því ekki á sama grundvelli og áfrýjandinn Ingibjörg haft uppi slíka dómkröfu. Verða stefndu því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sýknaðir af kröfu áfrýjandans Fossatúns ehf. Áfrýjandinn Ingibjörg leitar sem fyrr segir með málshöfðun sinni viðurkenningar á því að stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár sé almennt óheimilt að leigja veiðihúsið að Fossási út til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006. Enga réttarfarsnauðsyn bar til að beina málsókninni jafnframt að stefnda Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. sem samkvæmt því verður með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 sýknaður af kröfum áfrýjandans Ingibjargar.
Eftir framangreindum úrslitum verður stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár dæmdur til að greiða áfrýjandanum Ingibjörgu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Áfrýjendur verða dæmd til að greiða óskipt stefnda Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, Veiðifélag Grímsár og Tunguár og Veiðifélagið Hreggnasi ehf., eru sýknir af kröfu áfrýjandans Fossatúns ehf.
Stefndi Veiðifélagið Hreggnasi ehf. er sýkn af kröfu áfrýjandans Ingibjargar Pálsdóttur.
Viðurkennt er að stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár er óheimilt án samþykkis allra félagsmanna að selja veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.
Stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár greiði áfrýjandanum Ingibjörgu Pálsdóttur samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjendur greiði óskipt stefnda Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 31. júlí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 3. júlí sl. er höfðað með stefnu birtri 1. febrúar og 16. febrúar 2012.
Stefnandi eru Ingibjörg Pálsdóttir, Fossatúni, Borgarnesi og Fossatún ehf., sama stað.
Stefndu eru Veiðifélag Grímsár og Tunguár, Hvannatúni, Hvanneyri, Borgarnesi og Veiðifélagið Hreggnasi ehf., Malarási 14, Reykjavík.
Í stefnu gerðu stefnendur þær kröfur aðallega að leigusamningur stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., dagsettur 22. apríl 2009, um leigu á veiðihúsi Veiðifélags Grímsár og Tunguár að Fossási í Borgarbyggð, og 9. gr. tímabundinnar breytingar, dagsettrar 6. nóvember 2009, á leigusamningi stefndu um veiðirétt á félagssvæði veiðifélagsins, frá 1. mars 2007, verði dæmd ógild.
Til vara voru þær kröfur gerðar að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sé óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu, til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, hvorki til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., né til annarra.
Jafnframt var þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnendum in solidum málskostnað.
Með bókun í þinghaldi 24. janúar sl. var kröfugerð breytt og voru dómkröfur stefnanda hvors um sig þær, aðallega, að leigusamningur stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., dagsettur 2. febrúar 2012, um leigu á veiðihúsi Veiðifélags Tunguár og Fossár að Fossási í Borgarbyggð verði dæmdur ógildur.
Dómkröfur stefnenda hvors um sig, til vara voru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sé óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossá í Borgarbyggð á leigu, til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinda veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, hvorki til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., né til annarra.
Stefnendur kröfðust málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu.
Með úrskurði dómsins hinn 27. febrúar sl. var málinu vísað frá dómi en með dómi Hæstaréttar hinn 16. apríl sl.var sú niðurstaða að vísa frá dómi aðalkröfu stefnenda, Ingibjargar Pálsdóttur og Fossatúns ehf., staðfest en lagt fyrir héraðsdóm að taka varakröfu stefnenda til efnismeðferðar.
Samkvæmt þessu er sú krafa stefnenda, hvors um sig, að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sé óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossá í Borgarbyggð á leigu, til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinda veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, hvorki til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., né til annarra ásamt kröfu þeirra málskostnað, til úrlausnar hér.
Stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár og krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar.
Stefndi Veiðifélagið Hreggnasi ehf. krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
MÁLSATVIK
Stefnandi, Ingibjörg Pálsdóttir, er þinglýstur eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð og rekur þar ferðaþjónustu. Stefnandi, Ingibjörg, er, sem þinglýstur eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð, skylduaðili að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár (VGT), og kveðst sem slík eiga lögvarða hagsmuni af því að dómkröfur nái fram að ganga. Stefnandi, Ingibjörg er einnig eini eigandi og stjórnarformaður stefnanda, Fossatúns ehf., rekstrarfélags ferðaþjónustu í Fossatúni. Fossatún ehf. hafi einnig lögvarða hagsmuni þar sem útleiga stefnda, VGT, á veiðihúsinu að Fossási, og rekstur sá er stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf., starfræki í veiðihúsinu, hafi neikvæð áhrif á afkomu af sambærilegum rekstri stefnanda, Fossatúns ehf. Stefndi, VGT, sem stefnandi er skyldugur til aðildar að, skv. lax- og silungsveiðilögum, er eigandi veiðihússins að Fossási. Stefndi, VGT, sem leigusali, hafi frá 1. mars 2007 leigt stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., sem leigutaka, allan veiðirétt á félagssvæði VGT. Þá hafi stefndi, VGT, sem leigusali, leigt stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð frá 2. febrúar 2012 til 31. desember 2014. Stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf. sé leigutaki verði viðurkennd verði stefndu, VGT og Veiðifélagið Hreggnasi ehf., að sæta ógildingu leigusamnings þeirra um leigu á veiðihúsi VGT, dagsettum 2. febrúar 2012.
Stefnandi, Ingibjörg, hafi keypt jörðina í lok árs 2001 og flutt þangað árið 2004 ásamt eiginmanni sínum. Hún hafi hafið þar rekstur ferðaþjónustu árið 2005. Stefnandi, Ingibjörg, hafi sett stefnanda, Fossatún ehf., á fót árið 2010, sem síðan hafi annast rekstur ferðaþjónustunnar í Fossatúni, og stefnandi hafi síðan unnið að því, ásamt eiginmanni sínum að efla þann rekstur. Á fyrstu árum rekstrarins hafi verið jafn stígandi í tekjum af útleigu veitingahúss og gistiaðstöðu stefnenda í Fossatúni og sölu veitinga þar. Fossatún, liggi að Grímsá og sé Ingibjörg þar með skylduaðili að VGT.
Stefndi, VGT, sem leigusali, hafi leigt stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., sem leigutaka, allan veiðirétt á félagssvæði VGT, með leigusamningi dagsettum 1. mars 2007. Umsaminn leigutími veiðiréttarins sé veiðitímabil áranna 2008 til og með 2012. Stefndi, VGT, sem leigusali, hafi leigt stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., sem leigutaka, veiðihús félagsins að Fossási, Borgarbyggð, með leigusamningi dagsettum 22. apríl 2009 og síðan hafi leiga á veiðihúsinu verið framlengd frá 1. apríl 2012 til ársloka 2014. Sem greiðslu fyrir hið leigða veiðihús árið 2009 skyldi leigutaki greiða leigusala, skv. leigusamningnum, 419.000 kr. á mánuði fyrir júlí, ágúst og september, en kr. 180.000 á mánuði aðra mánuði ársins. Leiguupphæðir séu verðtryggðar milli ára með viðmið við vísitölu neysluverðs, þannig að fyrir árið 2010 breytist ofanskráð upphæð í hlutfalli við breytingar á þeirri vísitölu frá september 2008 (þá 315,5 stig) til sama tíma árið 2009, og svo þannig ár frá ári uns samningnum lýkur. Í leigusamningnum sé einnig kveðið á um að þar sem veiðihúsið hafi frjálsa skráningu varðandi meðferð virðisaukaskatts leggist virðisaukaskattur ofan á framangreindar leiguupphæðir. Samningurinn sé ekki uppsegjanlegur en skuli falla niður ef leigusamningur sömu aðila um veiðirétt á félagssvæði leigusala verði úr gildi felldur meðan á leigutíma skv. samningnum stendur.
Stefndi, VGT, hafi samþykkt á fundi veiðifélagsins 21. nóvember 2009 að leigja veiðihúsið út til stefnda Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. sbr. 9. gr. samkomulags um tímabundnar breytingar á leigusamningi stefndu frá 1. mars 2007 þar sem segi að „Samningur aðila þessa samnings um leigu Hreggnasa ehf. á veiðihúsi VGT á Fossási, dags. 22. apríl 2009, helst óbreyttur.“ Stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf., sé því leigutaki veiðiréttar á félagssvæði stefnda, VGT, ásamt því að vera leigutaki og rekstraraðili veiðihússins að Fossási.
Frá því að fyrrgreind samþykkt félagsfundar stefnda, VGT, hafi verið samþykkt hinn 21. nóvember 2009 hafi í veiðihúsinu að Fossási verið rekin tiltekin starfsemi, utan hins hefðbundna veiðitímabils í Grímsá og Tunguá, en veiðitímabilið sé frá 22. júní til 24. september ár hvert. Sú starfsemi sé ekki í tengslum við sölu stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. á veiðileyfum eða nýtingu stefnda sem leigutaka á veiðirétti á félagssvæði stefnda, VGT, heldur sé um að ræða gisti- og veitingarekstur stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., í veiðihúsinu.
Stefnandi, Ingibjörg, hafi kært fyrrgreindan samning stefnda, VGT, við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., til Fiskistofu 15. desember 2009. Grundvöllur kærunnar hafi verið að stefnandi hafi talið 9. gr. þess samnings sem samþykkt veiðifélagsins lúti að, og vísar til leigusamningsins frá 22. apríl 2009, ekki samræmast lögum um lax- og silungsveiði og hafi stefnandi farið fram á að fellt yrði úr gildi ákvæði samþykktar félagsfundar frá 21. nóvember 2009. Fiskistofa hafi staðfest ákvörðun félagsfundarins frá 21. nóvember 2009, og kveðið samþykktina formlega og efnislega lögmæta. Stefnendur séu ósammála þessari niðurstöðu Fiskistofu.
Meginröksemdin í úrskurði Fiskistofu hafi verið sú að mælt væri fyrir um það í 1. gr. laga um lax- og silungsveiði að markmið þeirra væri m.a. skynsamleg, hagkvæm og sjálfbær nýting fiskstofna. Af því yrði dregin sú ályktun að það hljóti að vera á valdi veiðifélaganna sjálfra, að meta hvað sé hagkvæm nýting þeirra eigna sem þau hafi yfir að ráða þ.m.t. veiðihúsa í þeirra eigu. Hafi Fiskistofa talið að eðli málsins samkvæmt hlyti það mat einnig að lúta að því að veiðiréttareigendur fái sem mestan arð af þeim eignum og fjárfestingum sem til staðar séu hverju sinni. Fiskistofa hafi hins vegar metið það svo að vald veiðifélaga í þessu efni, varðandi rekstur veiðihúsa, yrði þó að takmarkast við „öldungis sambærilegan rekstur og rekinn sé í veiðihúsum á veiðitímabili viðkomandi veiðisvæðis“. Hafi Fiskistofa talið að ekki yrði fullyrt að sú nýting á veiðihúsi Grímsár og Tunguár, sem lýst væri í kærunni til Fiskistofu, væri þess eðlis að hann félli utan þeirra marka sem lög og reglur varðandi veiðifélög settu starfsemi þeirra.
Stefnendur séu alfarið ósammála þeirri niðurstöðu Fiskistofu að sá rekstur sem eigi sér stað í veiðihúsi Grímsár og Tunguár, skv. fyrrgreindum leigusamningi, utan skilgreinds veiðitímabils, megi öldungis jafna til þess reksturs sem rekinn sé í veiðihúsinu á veiðitímabili þess veiðisvæðis sem veiðifélagið nær til.
Stefnandi, Ingibjörg, viðurkenni skylduaðild sína að stefnda, VGT, að því er varði hina lögbundnu starfsemi félagsins skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006 og sé reiðubúin til að taka þátt í þeirri starfsemi stefnda,VGT. Stefnendur telji sér hins vegar ekki skylt að sæta því á grundvelli skylduaðildar hennar að veiðifélaginu, að fyrrgreind útleiga veiðihúss félagsins utan veiðitímabils, til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., valdi stefnendum tekjumissi. Tilgangur stefnda, VGT, sé skv. lax- og silungsveiðilögum m.a. sá að skapa stefnanda, Ingibjörgu, arð af hlut hennar í veiðirétti áðurgreinds veiðisvæðis og sé sá tilgangur m.a. grundvöllur skylduaðildar hennar að veiðifélaginu.
Málsástæður og lagarök:
Af hálfu stefnenda er til þess vísað að mál þetta varði mjög mikilsverða hagsmuni stefnenda sem þeim sé nauðsyn á að fá skorið úr fyrir dómstólum og vísa stefnendur m.a. til ákvæðis 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um þann rétt sinn að fá úrlausn dómstóla um áðurgreind réttindi sín og hagsmuni sem mál þetta varði og skyldu stefnda VGT að fara að lögum við útleigu veiðihúss þess að Fossási í Borgarbyggð utan skilgreinds veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006.
Stefnendur vísa til laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 sem hafa að geyma ákvæði er falla undir 2. málsgrein 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en þar sé kveðið á um að engan megi skylda til aðildar að félagi. Jafnframt segi þar að með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það sé nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
Þá vísa stefnendur einnig til 1. mgr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, en markmið laganna sé að kveða á um veiðirétt og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra.
Samkvæmt VI. kafla laganna, einkum 1. mgr. 37. gr., sé hlutverk veiðifélaga m.a. eftirfarandi:
a. að sjá til þess að reglum laga þessara og samþykktum viðkomandi félags um veiðistjórnun og veiðiaðferðir sé framfylgt á félagssvæðinu,
b. að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra.
c. að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra.
d. að ráðstafa rétti til stangveiði í fiskihverfi í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu.
e. að hafa að öðru leyti með höndum verkefni þau sem því eru falin í lögunum og varða framkvæmd þeirra.
Í 4. gr. félagssamþykkta stefnda, VGT, frá 2007 séu verkefni félagsins tilgreind í samræmi við ofangreint.
Stefnendur telja því ljóst vera og byggja á því að hvorki í lögunum sjálfum né samþykktum stefnda, VGT, séu ákvæði um rekstur eða leigu fasteigna utan veiðitímabils í öðrum tilgangi en veiðifélaginu sé ætlaður skv. fyrrgreindum lagaákvæðum. Útleiga veiðihúss veiðifélagsins til samkeppnisrekstrar, t.a.m. í veitinga- og gistirekstri, sé þar ekki sérstaklega heimiluð. Byggt sé á því að stjórnarskrá heimili ekki félagsskyldu til aðkomu að eða þátttöku í slíkum rekstri sem sé, að hluta eða heild, alfarið fyrir utan hið lögbundna hlutverk veiðifélags eins og áður greini.
Hér reyni því á meginreglu stjórnarskrárinnar um félagafrelsi, þ. á m. rétt manna til að standa utan félaga, og þau takmörk sem sú meginregla setji starfsemi og rekstri félaga sem löggjafinn hafi talið nauðsynlegt vegna almannahagsmuna eða hagsmuna annarra að skylda menn til aðildar að. Byggt er á því að starfsemi stefnda sem veiðifélags með skylduaðild, takmarkist við lögbundið hlutverk veiðifélaga skv. lax- og silungsveiðilögum. Önnur starfsemi sé stefnda, VGT, óheimil, þ.m.t. útleiga veiðihúss stefnda, VGT, til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., til veitingareksturs utan hefðbundins veiðitíma skv. lögum.
Stefnandi, Ingibjörg, sé eins og áður segi ein eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð, sem eigi veiðirétt í Grímsá og Tunguá, og á grundvelli lax- og silungsveiðilaga sé þessum stefnanda skylt að eiga aðild að stefnda,VGT. Hún byggir á því að útleiga veiðihúss VGT, skv. fyrrgreindum samningi, til gisti- og veitingareksturs utan veiðitímabils á veiðisvæði VGT og án tengsla við sölu veiðileyfa samræmist ekki þeirri skylduaðild og sé því stefndu óheimil og ólögmæt. Þar af leiðandi beri að ógilda leigusamning stefndu frá 2. febrúar 2012 um veiðihúsi VGT að Fossási.
Rekstur stefnanda, Fossatúns ehf., félags í eigu stefnanda, Ingibjargar, sem starfræki gisti- og veitingarrekstur að Fossatúni, hafi fundið verulega fyrir samkeppni við sambærilegan rekstur í veiðihúsi stefnda, VGT, eftir að stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf. hafi tekið við rekstri þess
Þar sem stefnanda, Ingibjörgu, sé skylt, sem landeiganda Fossatúns, að eiga aðild að stefnda, VGT, telji stefnendur að stefnda, VGT, hafi ekki verið heimilt að samþykkja framlengningu á leigusamningi stefndu, VGT og Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. um veiðihúsið en sú samþykkt heimilaði veiðifélaginu að leigja hús veiðifélagsins til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. Rekstur veiðihússins yfir vetrarmánuðina byggist ekki á þjónustu við veiðimenn sem keypt hafa veiðileyfi, enda sé veiðitímabili á umræddu félagssvæði þá lokið. Rekstur stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., í veiðihúsinu byggi á útleigu gistirýmis og sölu veitinga án neinnar tengingar við veiði í Grímsá eða Tunguá. Reksturinn yfir vetrartímann sé því ekki í tengslum við skilgreind verkefni veiðifélaga né tilgang þeirra skv. lax- og silungsveiðilögum. Stefnendur byggja á því að útleiga sú sem hér um ræði hafi ekki þau tengsl við markmið lax- og silungsveiðilaga eða tilgang og starfsemi veiðifélaga, sem áskilin séu í lögunum og sé því óheimil stefnda, VGT, sem veiðifélagi með skylduaðild.
Stefnendur telja að því séu takmörk sett hve langt stefndi, VGT, geti gengið í því að leigja út veiðihús sitt utan hins skilgreinda veiðitímabils á viðkomandi veiðisvæði til starfsemi sem sé óskyld og ótengd veiði á félagssvæði veiðifélagsins. Útleigan sem hér um ræði falli utan heimillar starfsemi félags sem skylduaðild er að.
Stefnendur telja að í ljósi skylduaðildar stefnanda, Ingibjargar, að veiðifélaginu samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, megi veiðifélagið ekki standa sjálft í, eða stuðla að, samkeppnisrekstri í veiðihúsinu, utan skilgreinds veiðitímabils á viðkomandi veiðisvæði, og þá sérstaklega ekki ef slík samkeppni beinist gegn hagsmunum skylduaðila að veiðifélaginu sem hafi atvinnu af sambærilegum rekstri. Slíkt gangi að mati stefnenda gegn tilgangi og markmiðum að baki stofnunar veiðifélaga og þeirrar starfsemi sem þeim sé ætluð samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006. Stefnendur telja að löggjafanum hafi verið þetta ljóst þegar lögin voru sett og því hafi í þeim einvörðungu verið talin upp þau verkefni sem veiðifélögum hafi verið ætlað að hafa með hendi. Þau verkefni sem í lögunum séu sérstaklega nefnd taki öll mið af þeim sameiginlegu hagsmunum sem séu grundvöllur ákvæða laganna um stofnun og rekstur veiðifélaga og skylduaðild að þeim.
Um veiðifélög gildi ákvæði lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006. Einnig gildi um þau ákvæði reglugerðar nr. 412/2007, um arðskrár veiðifélaga, og reglugerðar nr. 1024/2006, um starfsemi veiðifélaga. Þá beri einnig að líta til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkanlega 74. gr.
Samkvæmt 3. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 sé veiðifélag skilgreint sem félag allra veiðiréttarhafa í sama fiskihverfi, veiðivatni eða landsvæði, sbr. 38. gr., en í þeirri grein séu umdæmi veiðifélaga nánar skilgreind.
Þar sem veiðifélög séu lögbundin félög sem byggist á alveg sérstökum sjónarmiðum, sem m.a. séu áréttuð í tilgangsákvæði 1. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006, byggi stefnendur eins og áður segir á því að veiðifélaginu sé óheimilt að sinna öðrum verkefnum en lögbundnum, jafnvel þótt allir félagsmenn séu því samþykkir. Jafnvel þótt talið yrði að veiðifélaginu væri heimil takmörkuð nánar skilgreind verkefni sem ekki séu sérstaklega talin upp í lax- og silungsveiðilögum sé á því byggt að slíkum verkefnum verði að setja vissar þröngar skorður og fyrrgreind útleiga veiðihúss VGT falli þar fyrir utan og sé því óheimil.
Samkvæmt 1. gr. laganna sé markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Í því skyni að ná þessum markmiðum sé mönnum skylt að hafa með sér félagskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Um þetta séu nánari reglur í 37. gr. laganna og sé hlutverk veiðifélaga tíundað í 1. mgr. 37. gr. laganna og megi ráða af því ákvæði að þau verkefni sem veiðifélög skuli hafa með höndum varði með einum eða öðrum hætti fyrst og fremst verkefni sem þeim séu falin í lögunum og varði framkvæmd þeirra.
Líta verði svo á að veiðifélagi sé skylt að sinna öllum þeim verkefnum sem þarna séu talin upp. En ef heimila eigi veiðifélagi að sinna öðrum verkefnum en þeim sem beinlínis séu talin upp í lax- og silungsveiðilögum, þurfi með vísan til 74. gr. stjórnarskrár að túlka slíkar heimildir veiðifélaga þröngt. Stefnendur byggi fyrst og fremst á því að slík verkefni væru veiðifélögum óheimil, en jafnvel ef talið yrði að veiðifélögum væri heimilt að sinna öðrum verkefnum en þeim sem beinlínis eru talin upp í lögunum þá skuli túlka slíkar heimildir þröngt og að útleigan á veiðihúsi VGT falli þar fyrir utan og sé því óheimil.
Því geta veiðifélög ekki tekið að sér önnur verkefni sem ekki séu talin upp í lögunum nema slík verkefni séu í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga, ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur við starfrækslu slíkra verkefna og að þau gangi ekki berlega gegn lögvörðum hagsmunum einstakra skylduaðila að viðkomandi veiðifélagi. Það skilyrði sé ekki uppfyllt í máli þessu.
Þá ber að gæta þess að veiðifélög séu fjárhagsleg persónuleg félög með beinni, ótakmarkaðri solidariskri ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum félagsins og út frá því þurfi að meta með ströngum mælikvarða hvaða verkefni geti talist falla undir verksvið veiðifélags.
Félagsmenn í veiðifélagi verði ekki skyldaðir að lögum til þátttöku í verkefnum sem ekki séu í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélagsins. Stefnendur byggi á því að útleigan á veiðihúsinu sem hér um ræði, þ.e. utan hefðbundins veiðitímabils, sé ekki í slíkum nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélags árinnar að samrýmst geti skylduaðild stefnanda, Ingibjargar, að veiðifélaginu. Við mat á þessu verði að líta til tilgangs með veiðifélögum sem sé í fyrsta lagi að vernda fiskistofna á félagssvæðinu og í öðru lagi hagsmunagæsla félagsmanna varðandi skiptingu á veiði og arðs af henni. Verkefni veiðifélaga verði því að vera til þess fallin að stuðla að þessum markmiðum og önnur verkefni, eins og umrædd útleiga veiðihússins í Grímsá og Tunguá utan hefðbundins veiðitímabils á grundvelli leigusamningsins frá 22. apríl 2009 og 9. gr. hinnar tímabundnu breytingar á leigusamningi stefndu frá 1. mars 2007, myndu því ekki teljast í nánum efnislegum tengslum við lögbundin verkefni veiðifélaga.
Fjárfesting veiðifélaga í mannvirkjum og tækjum geti talist heimil sé hún gerð með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi og fjárfesting í veiðihúsum geti fallið þar undir, enda sé hún almennt talin nauðsynlegur þáttur í hagkvæmri nýtingu veiðiréttar á viðkomandi veiðisvæði og telja verður að einstakir félagsmenn í veiðifélagi geti almennt ekki sett sig á móti ákvörðun félagsins um að reisa veiðihús í þeim tilgangi, en þó séu mörk á því hversu viðamikil slík fjárfesting megi vera.
Stefnendur telji hins vegar að stefnda, VGT, sé óheimill rekstur og útleiga veiðihúss, sem ekki sé í nánum og beinum tengslum við nýtingu veiðiréttar þeirra sem skyldugir eru til aðildar að félaginu. Stefnendur halda því fram að stefndi, VGT, sé kominn langt út fyrir lögbundinn tilgang veiðifélags með því að veiðifélagið leigi út veiðihús sitt til aðila sem, á grundvelli heimildar í leigusamningnum, leigi húsið út til veitingareksturs og skemmtanahalds, matsölu og ferminga, án þess að um sölu veiðileyfis í ánni sé að ræða, enda standi slík starfsemi ekki í nánum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga eins og því sé lýst í lögum um lax- og silungsveiði.
Stefnendur telji augljóst að þessi starfræksla stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., á veiðihúsi VGT geti ekki samrýmst lögum um lax- og silungsveiði og tilgangi með rekstri veiðihúsa samkvæmt þeim lögum og þar af leiðandi sé stefnda, VGT, óheimilt að leigja stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., veiðihúsið út í þessu skyni.
Þótt boðið sé upp á gistingu og fæði í veiðihúsi VGT yfir bæði sumar- og vetrartímann þá séu rekstrarforsendur þessara tímabila ósambærilegar. Enginn geti fengið veiðihúsið leigt fyrir fundi, móttökur eða veislur yfir sumartímann, þ.e. á hinum skilgreinda veiðitíma, og almennir ferðamenn fái þar ekki gistingu eða fæði. Húsið sé þá eingöngu leigt veiðimönnum í tengslum við veiðileyfi á fiskisvæðinu. Að sama skapi séu engar forsendur fyrir að þjónusta veiðimenn í veiðihúsinu yfir vetrartímann, utan veiðitímabils. Þeir sem dvelji í húsinu utan veiðitímans hafi að sama skapi ekki keypt sér nein veiðileyfi í ánni, eðli málsins samkvæmt. Forsendur rekstrar í veiðihúsinu á þessum tveimur tímabilum, á meðan veiðitímabili stendur og utan þess, aéu því algerlega ósamræmanlegar að mati stefnanda.
Þá verði að setja umfangi starfsemi veiðifélags og verkefna þess skorður í ljósi ótakmarkaðrar og solidariskrar ábyrgðar félagsmanna á félaginu. Verði að telja að ekki megi ganga lengra en nauðsynlegt er til þess að ná þeim tilgangi sem að er stefnt með hinni skyldubundnu starfsemi veiðifélaga skv. lögunum um lax- og silungsveiði. Stefnendur telja því að stefnda, VGT, hafi verið óheimilt að semja við Veiðifélagið Hreggnasa ehf., um að það taki að sér rekstur veiðihúss utan lögbundins veiðitíma, sér í lagi þar sem gert sé ráð fyrir að sá rekstur sé í víðtækara mæli en leiði af lax- og silungsveiðilögum. Stefndi, VGT, hafi varið háum fjárhæðum til að auðvelda, stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., þessa starfsemi og aðlagað húsið að þörfum og kröfum Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. þannig að starfsemi þessi geti farið fram. Með háttsemi sinni og samningi við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., og þeirri starfsemi sem stunduð sé í veiðihúsinu utan veiðitíma, gangi stefndi, VGT, of langt í að þvinga stefnanda, Ingibjörgu, til að taka þátt í óskyldri starfsemi á vegum veiðifélagsins sem stefnandi eigi skylduaðild að.
Fjöldi gistiherbergja í veiðihúsinu séu nú 20 talsins, og í þeim séu rúmstæði fyrir a.m.k. 36-40 manns, sem sé vel umfram þá þörf sem hljótist af sölu veiðileyfa, en mest séu seld veiðileyfi fyrir 8 stangir í einu á vatnasvæði veiðifélagsins, og þó gert væri ráð fyrir að tveir aðilar sameinuðust um kaup á hverri stöng væru veiðimenn mest 16 talsins að veiðum á sama tíma. Í veiðihúsinu sé gistirými fyrir meira en tvöfaldan þann fjölda. Stefndi, VGT, sé búið að fjárfesta fyrir umtalsverðar fjárhæðir í umfangsmiklum breytingum og lagfæringum á veiðihúsinu svo það nýtist betur undir þann rekstur sem stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf., starfræki í veiðihúsinu utan lögskilgreinds veiðitímabils á veiðisvæði stefnda, VGT.
Enn fremur vísa stefnendur til þess að í ljósi skylduaðildar að veiðifélögum verði heimild meirihluta félagsmanna í veiðifélagi, til ákvarðana á vegum veiðifélagsins sem gangi gegn hagsmunum minnihluta félagsmanna, að vera metin út frá ströngum mælikvarða og verði sannanlega að rúmast innan þess tiltölulega þrönga valdssviðs sem veiðifélögum sé ætlað að lögum. Svo sé ekki í máli þessu.
Í því tilviki sem hér um ræði haldi stefnendur því fram að rekstur veiðihúss stefnda, VGT, utan skilgreinds veiðitímabils, með þeim hætti sem það hafi verið rekið að undanförnu af stefnda, Veiðifélaginu Hreggnasa ehf., fari verulega gegn hagsmunum stefnenda, eiganda og rekstraraðila Fossatúns, sem unnið hafi að uppbyggingu ferðaþjónustu og veitingareksturs á landareign stefnanda Ingibjargar Pálsdóttur.
Á heimasíðu stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., hreggnasi.is, megi sjá að áherslan varðandi rekstur veiðihúss VGT að Fossási liggi yfir vetrartímann í útleigu hússins til samkomu- og skemmtanahalds ásamt gisti- og veisluþjónustu. Þá sýni auglýsing Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. sem birst hafi í Morgunblaðinu 14. janúar 2012, að starfsemi sú sem rekin sé í veiðihúsinu að Fossási við Grímsá snúist um veitinga- og gistirekstur án nokkurrar tengingar við veiði í Grímsá og Tunguá. Starfsemin snúi að funda-, móttöku- og veisluhöldum. Viðskiptavinir þurfi að panta þjónustuna fyrirfram og hópar haldi þar árshátíðir og veislur en einnig viðgangist þar tónlistarflutningur og ýmis konar annað skemmtanahald. Þessi rekstur sé því sambærilegur við rekstur stefnenda að Fossatúni og í beinni samkeppni við hann. Það samrýmist ekki hlutverki veiðifélags með skylduaðild, líkt og stefndi VGT sé, að leigja út veiðihús sitt utan veiðitímabils til slíks rekstrar sem stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf., reki í veiðihúsinu í samkeppni við rekstur stefnenda.
Fallist er á að heimilt sé fyrir veiðifélög að reisa veiðihús og reka þau í tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga, sem sé að stýra veiði á félagssvæðinu og hámarka arð af þeirri veiði í þágu félagsmanna, en jafnframt tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu fiskistofna á félagssvæðinu. Í þeim tilgangi hafi enda veiðihús verið reist og rekin um áratugaskeið innan vébanda veiðifélaga á landinu.
Stefnendur hafna því hins vegar að hafa megi arð af veiðihúsi utan veiðitímabils ef sú arðsemi sé ekki grundvölluð á lögbundnu hlutverki veiðifélaga. Allt að einu byggja stefnendur á því að notkun eða arðsemi á veiðihúsi utan veiðitímabils megi ekki fela í sér verulega aukna fjárhagslega áhættu fyrir veiðifélagið miðað við eðlilegan árlegan arð af veiðisvæðinu í heild.
Að mati stefnenda er rekstur stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., í veiðihúsinu utan skilgreinds veiðitímabils einmitt því marki brenndur að hann sé í engum tengslum við þau markmið veiðifélaga sem leiði af lax- og silungsveiðilögum og sé í raun samkeppnisrekstur af óskyldu tagi.
Stefnandi, Ingibjörg, sem eigandi jarðarinnar Fossatúns og stefnandi, Fossatún ehf., sem sé rekstrarfélag þeirrar ferðaþjónustu sem starfrækt sé á jörðinni, hafi áhyggjur af framtíðarþróun mála og treysti sér ekki til að huga að fjárfestingum og frekari uppbyggingu gistiaðstöðu í Fossatúni í tengslum við veitingahús þar, fyrr en leikreglur um hlutverk og heimildir stefnda, VGT séu skýrar. Stefnendur telji að stefndi, VGT, hafi á undanförnum árum lagt fram verulegar fjárhæðir til endurbóta á veiðihúsi félagsins að Fossási. Í veiðihúsinu sé nú boðið upp á 20 gistiherbergi með fjölda gistirúma ásamt fundaraðstöðu. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að á veiðisvæði veiðifélagsins séu seld veiðileyfi fyrir 8 stangir í einu og taka beri fram að algengt er að gistiherbergi í veiðihúsum séu miðuð við seldan stangafjölda. Enda þótt gert væri ráð fyrir að tveir aðilar sameinuðust um hverja selda stöng þá væru veiðimenn einungis 16 talsins og gistiherbergi séu því orðin fleiri í veiðihúsinu en þörf sé á vegna gistiþarfa veiðimanna. Telja stefnendur ljóst að þeim miklu fjármunum sem stefndi, VGT, hafi varið til endurbóta á veiðihúsinu og fjölgunar gistiherbergja hafi verið varið í því skyni að veiðihús félagsins stæði undir því að gegna hlutverki sveitahótels yfir vetrartímann, þ.e. þann tíma sem ekki séu seld veiðileyfi á vatnasvæði veiðifélagsins.
Telji stefnendur algerlega ljóst að það samræmist ekki tilgangi, hlutverki eða markmiðum Veiðifélags Grímsár og Tunguár samkvæmt lax- og silungsveiðilögum að verja svo miklum fjármunum til endurbóta á veiðihúsi félagsins í því skyni að auðvelda útleigu þess utan veiðitímabils.
Stefnandi, Ingibjörg, vefengi ekki að henni sé skylt skv. lax- og silungsveiðilögum að eiga aðild að stefnda,VGT. Vefengi stefnandi ekki, að skylduaðild hennar að veiðifélaginu sé í samræmi við 2. málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Stefnandi viðurkenni skylduaðild sína að veiðifélaginu, að svo miklu leyti sem félagið einskorði starfsemi sína við það lögbundna hlutverk sem því sé falið að gegna á grundvelli lax- og silungsveiðilaga, sbr. 37. gr. laganna.
Stefnandi, Ingibjörg, telji hins vegar í ljósi skylduaðildarinnar að stefnda, VGT, sé stefnda VGT ekki heimil starfsemi utan hinna lögbundnu verkefni félagsins skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006.Undir lögbundin verkefni VGT falli ekki fyrrgreind útleiga veiðihúss félagsins til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., utan veiðitímabils á veiðisvæði því er veiðifélagið nái yfir. Stefnendur telji að lög um lax- og silungsveiði geri ekki ráð fyrir þeirri gisti- og veitingastarfsemi sem stefndi, Veiðifélagið Hreggnasi ehf. reki í veiðihúsinu utan veiðitímabilsins, á grundvelli leigusamnings við stefnda, VGT, og að stefndi, VGT, geti ekki skyldað stefnanda á grundvelli skylduaðildar að veiðifélaginu til þátttöku í útleigu veiðihússins sem geri fyrrgreindan rekstur stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., mögulegan. Með fyrrgreindri útleigu veiðihúss stefnda, VGT, sé starfsemi stefnda VGT orðin svo víðtæk að hún geti að þessu leyti ekki tengst hlutverki félagsins skv. lax- og silungsveiðilögum.
Stefnendur leggja áherslu á að ekki sé í lögum gert ráð fyrir öðrum verkefnum veiðifélaga en þeim sem tilgreind eru í lax- og silungsveiðilögum og þótt stefnanda, Ingibjörgu, sé skylt að vera aðili að veiðifélaginu þá geti slíkt skylduaðildarfélag ekki ákveðið að gera það sem meirihluta félagsmanna kunni að þóknast á hverjum tíma ef það tengist ekki lögbundnu hlutverki félagsins og með því skuldbundið alla félagsmenn þótt það sé gegn vilja einhverra þeirra og gangi gegn einstaklingsbundnum hagsmunum þeirra.
Lög þau sem starfsemi veiðifélagsins byggi á geri ekki ráð fyrir því að veiðifélagið leigi út veiðihús, sem byggt sé í tengslum við lögbundna starfsemi félagsins, til reksturs sem ekki standi í tengslum við lögbundið hlutverk og starfsemi félagsins. Stefnanda, Ingibjörgu, verði ekki gert skylt að hlíta ákvörðun meirihluta félagsmanna veiðifélagsins um slíka ráðstöfun á grundvelli skylduaðildar sinnar að félaginu. Ekki sé heimilt að víkja frá lögbundnu hlutverki veiðifélagsins á kostnað stefnanda án hans samþykkis líkt og gerst hafi í þessu tilviki. Slíkt samrýmist ekki félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. 74. gr. laga nr. 33/1944. Stefnendur halda því fram að á fundi stefnda, VGT, 21. nóvember 2009 hafi því verið óheimilt að ákveða að leigja veiðihús félagsins til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., utan veiðitímabils, til þeirrar starfsemi sem þar sé rekin, og jafnframt halda stefnendur því fram að leigusamningur stefndu um veiðihúsið frá 2. febrúar 2012 sé ógildur.
Vísað er til dómafordæma MDE, þar sem fram komi að ekki megi þvinga landeigendur til að ganga í veiðifélög og skylda þá til að afsala réttindum yfir landi sínu til veiðifélaga með markmið sem þeir væru í grundvallaratriðum andvígir. Í því ljósi verði að telja að stefnendur verði ekki þvinguð til að standa að fyrrgreindri útleigu veiðihúss stefnda, VGT, til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., utan veiðitímabils í ánum, sér í lagi þar sem sá rekstur sem þá fari fram í veiðihúsinu standi ekki í tengslum við lögbundin markmið og tilgang veiðifélaga skv. lögum um lax- og silungsveiði.
Í ljósi skylduaðildar stefnanda, Ingibjargar, og með hliðsjón af framangreindu sé því stefnda, VGT, sem leigusala óheimil útleiga veiðihússins til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., utan veiðitímabils þar sem starfsemi sú sem þá fer fram í veiðihúsinu sé í engum tengslum við lögbundin tilgang veiðifélagsins. Af þeim sökum beri að ógilda fyrrgreindan leigusamning stefndu um veiðihúsið.
Stefnendur telja jafnframt að stefndi, VGT, geti ekki vísað til þess að með útleigu veiðihúss í eigu hans sé stefndi, VGT, að leitast við að hámarka arðsemi eigna veiðifélagsins í samræmi við ákvæði lax- og silungsveiðilaga og að réttur hans sem leigusala til slíkrar útleigu veiðihússins sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Félagsmenn stefnda, þ.e. VGT séu skv. lögum skyldir til að vera félagsmenn í stefnda. Af hinu neikvæða félagafrelsi, sem varið sé af 74. gr. stjórnarskrár og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, leiði að stefndi, VGT, verði að sæta þeim takmörkunum í starfsemi sinni sem fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmálans og almenn lög setji henni. Af þeirri ástæðu sé honum óheimil útleiga veiðihúss félagsins til annarrar starfsemi en þeirrar sem standi í nánu samhengi við lögbundin markmið og tilgang veiðifélagsins skv. lax- og silungsveiðilögum, en svo sé ekki ástatt um útleigu veiðihússins til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., utan veiðitímabils á veiðisvæði veiðifélagsins.
Ef stefndi, VGT hyggist leigja rekstur veiðihúss síns að Fossási út allt árið, til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., til þess að þar verði stunduð ferðaþjónusta, þ.e. gisti- og veitingarekstur, hljóti slíkur rekstur í veiðihúsinu að verða að taka mið af þeim almennu leikreglum sem gildi um slíkan samkeppnisrekstur.
Það leiði af eðli málsins að stefndi, VGT, geti ekki rýmkað lögboðið starfssvið sitt með því að semja við verktaka líkt og stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., um rekstur einstakra þátta starfseminnar. Þannig sé stefnda, VGT, því t.d. óheimilt að semja við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., um að hann tæki að sér rekstur veiðihússins utan lögbundins veiðitíma ef gert sé ráð fyrir að sá rekstur sé í víðtækara mæli en leiðir af lax- og silungsveiðilögum.
Að mati stefnenda sé vandséð hvernig slíkur almennur samkeppnisrekstur sem ferðaþjónusta er, geti fallið undir starfssvið stefnda VGT skv. ákvæðum laga um lax- og silungsveiði.
Þá geti það ekki staðist að eigendur jarða er liggja að fiskisvæði veiðifélagsins, líkt og stefnandi, Ingibjörg Pálsdóttir, verði skylduð nauðug til að standa í samkeppni við eigin félög, líkt og stefnanda Fossatún ehf., í gegnum þá skylduaðild sína að veiðifélagi sem lax- og silungsveiðilögin kveði á um.
Fallast megi á að stefnda, VGT, sé heimilt að sinna þeim verkefnum sem berum orðum séu nefnd í lax- og silungsveiðilögum og öðrum verkefnum sem séu í nánum efnislegum tengslum við þessi verkefni og séu til þess fallin að stuðla að því að markmiðum laganna verði náð.
Stefnendur telji hins vegar að óskyld verkefni, sem í litlum eða engum tengslum standi við starfsemi veiðifélagsins, sé stefnda,VGT, hvorki heimilt að sinna, né stuðla að með samningi við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., og þá alveg sérstaklega ef þau verkefni varði rekstur í samkeppni við þá aðila sem skyldaðir séu til aðildar að viðkomandi veiðifélagi.
Enginn vafi sé á því að samkeppnislög gildi um starfsemi stefndu VGT og Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. en þó með þeim takmörkunum sem leiði af lax- og silungsveiðilögum varðandi veiðifélög. Samkeppnislög miði þannig við að veiðifélög stundi eftir atvikum samkeppni innan þeirra marka sem mælt sé fyrir um í lax- og silungsveiðilögum.
Stefnendur telji það dæmi um óheimila starfsemi stefnda VGT, að það hafi gert samning við stefnda, Veiðifélagið Hreggnasa ehf.,um starfsemi sem teljist í samkeppni við skylda starfsemi stefnenda á viðkomandi svæði. Sérstaklega þar sem stefndi, VGT, hafi greitt fyrir þeirri starfsemi með fjárframlagi, þ.e. með endurbótum á veiðihúsinu að Fossási í þágu leigutaka og með því að innheimta lægri leigu fyrir veiðihúsið utan veiðitímabils. Sé sú leiga lægri en almennt gerist fyrir sambærilegt húsnæði. Þessi háttsemi raski samkeppni að mati stefnenda og sé bönnuð samkvæmt samkeppnislögum.
Stefnendum sé af ofangreindum ástæðum nauðsyn að leita dóms um að áðurgreindur leigusamningur stefndu, VGT og Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., frá 2. febrúar 2012, sé lýstur ógildur.
Stefnendur telja því með hliðsjón af þessu og í ljósi skylduaðildar stefnanda, Ingibjargar, að stefnda, VGT, að VGT sé óheimilt að selja veiðihús sitt á leigu til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., til reksturs gisti- og veitingaþjónustu utan veiðitímabils og án tengsla við sölu veiðileyfa á veiðisvæði VGT þar sem slíkur rekstur sé í samkeppni við rekstur stefnenda að Fossatúni.
Eins og að framan er rakið hafi útleiga veiðihúss stefnda, VGT, að Fossási í Borgarbyggð, til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils á veiðisvæði VGT skv. lax- og silungsveiðilögum haft veruleg neikvæð áhrif á rekstur ferðaþjónustu stefnenda að Fossatúni frá því sem verið hafi áður en útleiga veiðihússins í þessu skyni hafi hafist. Stefnandi, Ingibjörg Pálsdóttir, uni því ekki að vera skyldug til þátttöku í slíkri samkeppni við rekstur hennar og stefnanda, Fossatúns ehf. sem leiði af umræddri útleigu á veiðihúsi stefnda VGT og telji hún leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar, utan skilgreinds veiðitímabils skv. lax- og silungsveiðilögum nr. 61/2006, hvort sem er til stefnda, Veiðifélagsins Hreggnasa ehf., eða til annarra ólögmæta og óheimila.
Stefnendur vísa m.a. til ákvæða lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006. Einnig er vísað til reglugerðar nr. 412/2007, um arðskrár veiðifélaga, og reglugerðar nr. 1024/2006, um starfsemi veiðifélaga. Enn fremur er vísað til ákvæða samkeppnislaga nr. 44/2005. Þá ber einnig að líta til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkanlega 70. og 74. gr., sem og til 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).
Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Af hálfu stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár er sýknu af kröfu stefnandans Fossatún ehf. í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti umrædds stefnanda.
Í öðru lagi sé krafa um sýknu að því er báða stefnendur varði byggð á því að þessum stefnda hafi verið fyllilega heimilt að gera hinn umþrætta samning og engin rök standi til að ógilda hann.
Þessi stefndi byggi á því að stefnandinn Fossatún ehf. geti ekki átt aðild að máli sem varði heimildir hans sem veiðifélag samkvæmt lögum nr. 60/2006 enda sé viðkomandi stefnandi ekki aðili að stefnda. Stefnandinn Fossatún ehf. sé því ekki réttur aðili til að gera kröfu í málinu eins og grundvöllur þess sé markaður. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum viðkomandi stefnanda.
Efnislega sýnist stefnendur byggja aðalkröfu sína á því að veiðifélögum sé óheimilt að viðhafa aðra starfsemi en tilgreind sé í 37. gr. laga nr. 61/2006, að ef veiðifélögum sé heimilt að viðhafa aðra starfsemi en 37. gr. tiltaki nákvæmlega verði að túlka slíka heimild þröngt, að starfsemi meðstefnda í veiðihúsi þessa stefnda samræmist ekki tilgangi og markmiðum veiðifélaga samkvæmt lögum nr. 61/2006, að eignarréttarvernd þessa stefnda, takmarkist af stjórnarskrárvörðu félagafrelsi stefnenda og loks að samkeppnislög nr. 44/2005 takmarki heimild stefndu til samningsgerðar.
Ljóst liggi fyrir að þau verkefni sem veiðifélögum er ætlað að sinna séu ekki tæmandi talin í 37. gr. laga nr. 61/2006. Þetta verði skýrlega ráðið af orðalagi 1. mgr. 37. gr. þar sem segir að hlutverk veiðifélaga sé m.a. það sem þar er tilgreint. Þetta verði aukinheldur ráðið af því að fjallað sé um heimildir veiðifélaga á ýmsum öðrum stöðum í lögunum og því eðli málsins samkvæmt ljóst að verkefnin séu ekki tæmandi talin í 37. gr. Þessu til viðbótar sé mælt fyrir um það í d-lið 3. mgr. 39. gr. laganna að í samþykktum veiðifélags skuli vera ákvæði um verkefni félagsins. Það liggi í hlutarins eðli að ekki væri nauðsynlegt að kveða á um verkefni félagsins í samþykktum þess væru þau tæmandi talin í 37. gr. eða öðrum ákvæðum laganna.
Samkvæmt framangreindu sé ljóst að lög nr. 61/2006 geri í raun ráð fyrir því að veiðifélög annist önnur verkefni en þar eru tilgreind. Ákvæði laganna beri því með réttu að túlka svo að veiðifélögum sé skylt að sinna þeim verkefnum sem þar séu tiltekin en frá þeim verði hins vegar fráleitt gagnályktað á þann veg að þeim sé ekki heimilt að sinna frekari verkefnum en þar séu beinlínis tilgreind.
Þar sem lögbundin skylduaðild sé að veiðifélögum sé hins vegar að sama skapi ljóst að heimildir veiðifélaga í því sambandi séu háðar ákveðnum takmörkunum. Stefndi byggir á því að þær heimildir skuli hins vegar ekki túlkaðar svo þröngt að verkefni sem sannanlega séu í efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga og séu til þess fallin að auka arðsemi félagsmanna falli þar utan við. Líkt og stefnendur bendi réttilega á sé fjárfesting veiðifélaga í veiðihúsum almennt talinn nauðsynlegur þáttur í hagkvæmri nýtingu veiðiréttar á viðkomandi svæði. Veiðifélögum beri svo eðli málsins samkvæmt að gæta hagsmuna félagsmanna í heild og eigi það þess kost að hafa tekjur af slíkum eignum félagsins utan lögbundins veiðitíma sé það félagsmönnum í heild sannanlega til hagsbóta og rúmist því tvímælalaust innan heimilda þeirra. Í raun væri það ámælisvert af hálfu veiðifélags sem félags með lögbundinni skylduaðild að láta undir höfuð leggjast að leita leiða til að draga úr rekstrarkostnaði vegna slíkra eigna og auka þannig arðshlut félagsmanna. Þá fáist ekki með nokkru móti séð að útleiga á veiðihúsinu gangi lengra en nauðsyn krefur til að ná því markmiði sem að sé stefnt en í því sambandi beri að hafa hugfast að þessi stefndi sé leigusali og fjárhagsleg áhætta af þeim rekstri sem fram fari í veiðihúsinu því engin. Þá sé því harðlega mótmælt sem bæði röngu og ósönnuðu að þessi stefndi hafi varið háum fjárhæðum í að að laga húsið að starfsemi meðstefnda í húsinu utan lögbundins veiðitíma.
Stefnendur byggi í þessu sambandi á því að þar sem stefnandinn Ingibjörg eigi skylduaðild að þessum stefnda sé honum óheimilt að standa sjálfur í eða stuðla að samkeppnisrekstri í veiðihúsinu utan skilgreinds veiðitímabils á viðkomandi veiðisvæði og þá sérstaklega þar sem slíkt beinist gegn hagsmunum hennar þar sem hún hafi atvinnu af sambærilegum rekstri. Þessi stefndi fái ekki séð að þessi staðhæfing hafi nokkra þýðingu í málinu enda standi hvorki þessi stefndi sjálfur í slíkum rekstri né sé kveðið sérstaklega á um það í leigusamningi hans við meðstefnda hvers konar starfsemi skuli rekin í húsinu utan lögbundins veiðitíma. Þá hafi ekki verið gerður neinn reki að því að sýna fram á að sú starfsemi sem meðstefndi reki í húsinu gangi á einhvern hátt gegn hagsmunum stefnenda eða að samkeppnisleg staða þeirra sé lakari vegna hennar. Það eina sem liggi fyrir sé að stefnandinn Ingibjörg fái hærri arð greiddan frá þessum stefnda og geti það ekki talist ganga gegn hagsmunum hennar.
Í öðru lagi byggir þessi stefndi á því að það hvort umrædd starfsemi meðstefnda í veiðihúsi hans samræmist tilgangi og markmiðum veiðifélaga samkvæmt lögum nr. 61/2006 sé máli þessu óviðkomandi. Ekki sé kveðið á um það í hinum umþrætta samningi hvers konar starfsemi skuli rekin í veiðihúsinu utan lögbundins veiðitíma og megi það í raun einu gilda enda sé þessi stefndi einungis leigusali en stundi ekki rekstur í veiðihúsinu. Hann beri skyldu gagnvart félagsmönnum sínum til að lágmarka kostnað við rekstur eigna félagsins og auka þar með arðshlut félagsmanna og hafi sinnt þeirri skyldu með því að selja veiðihúsið á leigu. Eini mælikvarðinn í þessu sambandi eigi því að vera hvort það samræmist lögbundnu hlutverki hans að selja veiðihúsið á leigu utan lögbundins veiðitíma sem það sannanlega geri. Hvaða starfsemi fari fram í húsinu sé málinu hins vegar óviðkomandi og hafi ekkert með hlutverk veiðifélaga samkvæmt lögum nr. 61/2006 að gera enda sé meðstefndi ekki slíkt veiðifélag.
Hvað sem framangreindu líði byggi stefndi aukinheldur á því að hvers kyns arðberandi starfsemi sem fram fari í veiðihúsi hans utan lögbundins veiðitíma sé í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk hans og samræmist því fyllilega tilgangi hans og markmiði. Því til stuðnings vísar stefndi til þess að bygging og rekstur veiðihúss sé tvímælalaust í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk hans og hið sama gildi því eðli málsins samkvæmt um hagkvæma nýtingu þess. Tilgangur stefnda með því að byggja og reisa veiðihús sé að tryggja hagkvæma nýtingu veiðisvæðis hans og auka þar með arð af eign félagsmanna þeim til hagsbóta. Það sé því tvímælalaust í samræmi við hlutverk stefnda sem fjárhagslegs félags að leitast við að lágmarka rekstrarkostnað við slíka eign þess og nýta hana með hagkvæmum hætti. Þar sem veiðihús verði eðli máls samkvæmt ekki nýtt af stangveiðimönnum nema hluta úr ári sé það eðlilegur þáttur i nýtingu eignarinnar að hafa af henni arð utan veiðitíma. Í þessu sambandi sé aukinheldur til þess að líta að starfsemi af því tagi sem meðstefndi reki í húsinu utan veiðitíma feli í sér beina markaðssetningu og þeir sem þar dvelji í fyrsta sinn á þeim tíma sækist oft eftir að kaupa veiðileyfi síðar.
Þessu til frekari stuðnings megi vísa til þess að lengi hafi tíðkast að reka arðberandi starfsemi í veiðihúsum utan lögbundins veiðitíma. Hefði vilji löggjafans staðið til að breyta þeirri framkvæmd hefði það komið fram í lögum nr. 61/2006 eða athugasemdum með frumvarpi til laganna. Þar sem í engu sé að því vikið megi hins vegar með réttu draga þá ályktun að löggjafinn telji slíka nýtingu samrýmast tilgangi og markmiði veiðifélaga, jafnvel þótt lögbundin skylduaðild sé að þeim.
Í þriðja lagi hafni stefndi því alfarið að eignarréttarvernd hans og raunar félagsmanna hans takmarkist af félagafrelsi stefnandans Ingibjargar Pálsdóttur fremur en félagafrelsi umrædds stefnanda takmarkist af eignarréttarvernd hans. Það sé fráleitt að halda því fram að félagafrelsi hennar sé eignarréttarvernd stefnda á einhvern hátt rétthærra. Hið rétta sé auðvitað að framangreind réttindi njóta jafnríkrar stjórnskipulegrar verndar og í báðum tilvikum hátti svo til að umrædd réttindi sé óheimilt að skerða nema með lögum, sbr. 1. mgr. 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Í tilviki stefnandans Ingibjargar sé mælt fyrir um skylduaðild hennar að þessum stefnda í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 og sé hún ekki vefengd af umræddum stefnanda svo sem fram komi í málatilbúnaði stefnenda. Heimild stefnda til að selja veiðihús sitt á leigu utan lögbundins veiðitíma sé hins vegar ekki takmörkuð með lögum. Svo sem áður er rakið sé útleiga veiðihússins ótvírætt í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk stefnda og til þess fallin að auka hagkvæmni í rekstri hans og þar með arðshlut félagsmanna hans. Til þess að takmarka rétt hans og félagsmanna hans til slíkrar hagnýtingar á umræddri eign þurfi því ótvírætt lagaboð sem ekki sé fyrir hendi.
Stefnendur virðist í þessu sambandi byggja á því að þar sem ekki sé með beinum hætti mælt fyrir um það í lögum nr. 61/2006 að þessi stefndi skuli leigja veiðihús sitt út utan lögbundins veiðitíma sé honum það óheimilt með hliðsjón af skylduaðild stefnandans Ingibjargar að umræddum stefnda. Þessari málsástæðu stefnenda er alfarið hafnað með vísan til þess sem áður er rakið um túlkun laga nr. 61/2006 í þessu sambandi sem og þeirrar skyldu sem þessi stefndi beri gagnvart félagsmönnum sínum. Enn fremur er áréttað að í umþrættum samningi stefndu á milli sé ekki vikið að því hvers konar starfsemi skuli viðhöfð í húsinu utan veiðitíma og það atriði því skylduaðild stefnandans Ingibjargar að þessum stefnda algjörlega óviðkomandi enda ástundi hann ekki umrædda atvinnustarfsemi.
Í tilefni af umfjöllun stefnenda í þessu sambandi um félagsfund þessa stefnda hinn 21. nóvember 2009 er því mótmælt að umræddur félagsfundur eða þær ákvarðanir sem á honum voru teknar hafi nokkra efnislega þýðingu í máli þessu.
Þá er því alfarið hafnað að tilvitnuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu hafi gildi í þessu máli enda varði þau annars konar álitaefni en hér sé til umfjöllunar og sé tilvitnun stefnenda til þeirra einvörðungu til marks um það hversu mótsagnakenndur málatilbúnaður þeirra sé enda ítrekað tekið fram að stefnandinn Ingibjörg viðurkenni skylduaðild sína að þessum stefnda.
Í fjórða lagi telur þessi stefndi fráleitt að heimild hans til þeirrar samningsgerðar sem mál þetta varðar takmarkist af ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005 og málatilbúnað stefnenda að því leyti með öllu haldlausan.
Framangreindu til stuðnings bendir þessi stefndi í fyrsta lagi á að því sé ekki lýst með hvaða hætti stefnendur telji að útleiga hans á veiðihúsinu brjóti gegn ákvæðum laga nr. 44/2005. Þannig séu ekki færð nokkur rök að því að hún brjóti gegn bannákvæðum laganna eða öðrum ákvæðum þeirra ef því sé að skipta eða að starfsemi þessa stefnda takmarkist á einhvern annan hátt af ákvæðum umræddra laga.
Stefnendur virðist byggja á því að þessi stefndi hafi greitt fyrir starfsemi meðstefnda með því að standa að endurbótum á veiðihúsinu auk þess sem leiguverð til meðstefnda sé lægra en gangi og gerist og þar með til þess fallið að raska samkeppni andstætt ákvæðum samkeppnislaga.
Í þessu sambandi sé í fyrsta lagi til þess að líta að endurbætur á veiðihúsinu hafi verið framkvæmdar í þágu starfsemi þeirrar sem rekin sé innan lögbundins veiðitíma svo sem áður er rakið. Það fáist því ekki með nokkru móti séð hvaða þýðingu umræddar endurbætur hafi í þessu sambandi.
Í öðru lagi er því alfarið mótmælt sem bæði röngu og ósönnuðu að sú leiga sem meðstefndi greiði sé hvort heldur sem er of lág eða lægri en gengur og gerist. Lægri leiga á veiðihúsinu utan veiðitímans byggi á því að þá sé starfsemin almennt bundin við helgar en alþekkt sé þegar um leiguhúsnæði sem hýsi árstíðabundna starfsemi sé að ræða að leigugreiðslur taki mið af þeirri staðreynd. Þá sé leigan líkt og áður er rakið í fullu samræmi við það sem almennt tíðkist við útleigu á veiðihúsum sama hvaða starfsemi sé stunduð í þeim utan lögbundins veiðitíma.
Í þriðja lagi fáist svo ekki séð að jafnvel þó endurbætur á veiðihúsinu hefðu verið framkvæmdar í þágu umræddrar starfsemi meðstefnda eða að leigugreiðslur væru lægri en almennt tíðkist að stefnendur hafi fært nokkur rök að því með hvaða hætti slíkt feli í sér brot á ákvæðum laga nr. 44/2005. Þannig sé ekki tilgreint hvaða ákvæði umræddra laga hafi verið brotin eða með hvaða hætti, viðeigandi markaðir hafa ekki verið skilgreindir og því eðli málsins samkvæmt ekkert mat lagt á stöðu aðila á þeim.
Þá er því alfarið mótmælt sem bæði röngu og ósönnuðu að starfsemi meðstefnda í veiðihúsinu hafi haft neikvæð samkeppnisleg áhrif á starfsemi stefnandans Fossatúns ehf. og hafi engin haldbær rök verið færð fram í málinu því til stuðnings. Þannig hafi markaðir svo sem áður greini ekki verið skilgreindir og enginn reki gerður að því að greina þær samkeppnislegu aðstæður sem umræddir aðilar búi við. Í raun hafi engin rök verið færð að því að stefnandinn Fossatún ehf. og meðstefndi starfi yfirleitt á sama markaði og dragi þessi stefndi raunar í efa að svo sé nema hugsanlega að óverulegu leyti. Þá sé og til þess að líta að útleiga veiðihússins til funda og skemmtana utan lögbundins veiðitíma hafi hafist haustið 2002 eða nokkrum árum áður en stefnandinn Ingibjörg hafi hafið rekstur ferðaþjónustu að Fossatúni eða stefnandinn Fossatún ehf. hafi tekið til starfa.
Hvað sem framangreindu líði sé vert að árétta að markmið laga nr. 44/2005 sé samkvæmt 1. gr. þeirra að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skuli náð með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum. Það sé því ljóst að tilvist starfsemi meðstefnda falli vel að markmiðum laganna og það væri raunar andstætt þeim að banna hana.
Í ljósi alls framangreinds standist þessi málsástæða stefnenda því ekki nokkra skoðun.
Að endingu sé rétt að árétta að telji stefnendur umræddan samning eða aðra háttsemi stefndu fela í sér brot á lögum nr. 44/2005 beri þeim að beina kæru þar að lútandi til Samkeppniseftirlitsins og haldlítið fyrir þá að byggja á marklausum staðhæfingum um slíkt brot án þess að leita réttar síns á þeim vettvangi áður.
Um lagarök vísar þessi stefndi m.a. til 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjskr., til laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, einkum ákvæða II. og VI. kafla laganna, til samkeppnislaga nr. 44/2005 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Krafan um málskostnað styðst svo sérstaklega við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi Veiðifélagið Hreggnasi ehf. byggir á því að sýkna beri hann af kröfu Fossatúns ehf. þar sem Fossatún ehf. sé ekki réttur aðili til að gera slíka kröfu. Eins og málið sé lagt fyrir af hálfu stefnenda verði ekki séð hvernig Fossatún ehf. geti gert kröfu um ógildingu samnings tveggja aðila sem félagið hafi í besta falli óbein tengsl við.
Nokkrum árum áður en stefndi hafi fyrst fengið veiðiréttinn í ánni hafi Stórlax ehf. leigt húsið allan ársins hring á sama hátt og stefndi geri nú. Hafi fyrirkomulag rekstrar verið með nokkuð svipuðu sniði utan veiðitíma og hafi það verið svo um nokkurra ára skeið áður en stefnendur hafi hafið rekstur ferðaþjónusta. Hafi þessar forsendur því legið fyrir og ekki getað dulist stefnendum þegar þau hafi hafið að reka ferðaþjónustu árið 2005. Sé það rangt og villandi að halda því fram að um einhvers konar grundvallarbreytingu hafi verið að ræða þegar stefndi hafi tekið við leigu hússins árið 2009.
Þegar stefndi hafi tekið við leigu og rekstri veiðihússins með samningi í apríl 2009 hafi ekki hvarflað að honum að útleigan utan veiðitímabils væri á einhvern hátt óheimil eða í andstöðu við lög um lax-og silungsveiði. Sé ljóst af þeim að útleiga veiðihúsa sé ekki bönnuð skv. lögunum enda sé hún í nánum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga þegar tryggja eigi arðbæran rekstur þeirra. Hafi stefndi því hafið að markaðssetja veiðihúsið og reyndar önnur veiðihús á hans snærum m.a. veiðihús við Laxá í Kjós. Verði það niðurstaða dómsins að ógilda leigusamninginn hafi stefndi í grandleysi sínu lagt út í töluverðan kostnað til einskis. Yrði slík niðurstaða í miklu ósamræmi við þá áralöngu venju að íslensk veiðihús sé leigð út utan veiðitímabils en ekki hafi verið hróflað við því fyrirkomulagi með lögum nr. 61/2006.
Sýknukröfu sína byggir stefndi fyrst og fremst á aðildarskorti. Stefndi sjái ekki um að leigja út veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð enda sé það ekki í hans eigu. Hann geti því aldrei þurft að þola viðurkenningu á því að honum sé óheimilt að leigja út húsnæði sem ekki sé í hans eigu. Hann sé því ekki aðili að þessari kröfu og verði því að sýkna hann af henni vegna aðildarskorts.
Verði ekki fallist á aðildarskort byggir stefndi á því að krafa stefnenda virðist hafa það að markmiði að heimilt sé að leigja húsið utan veiðitímabils en leigutaki megi einfaldlega ekki stunda almennan gisti og veitingarekstur á sama tíma. Með kröfunni sé því í raun verið að takmarka hvaða leiðir stefndi eða annar leigutaki geti farið til að afla sér tekna sem vegi upp á móti kostnaði við leigu og rekstur þess. Skv. 75. gr. stjórnarskrárinnar sé þó öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi en skorður við því verði einungis settar með lögum, krefjist almannahagsmunir þess. Slík lagasetning liggi ekki fyrir og sé því í andstöðu við stjórnarskrá ef banna eigi stefnda að stunda almennan gisti og veitingarekstur í veiðihúsinu utan veiðitímabils. Væri hins vegar fallist á slíkt bann, væri stefnda óheimilt að hafa tekjur upp í þann kostnað sem felist í því að reka svo stórt hús, en utan mánaðarlegs leigugjalds utan veiðitímabils greiði stefndi fyrir hita og rafmagn sem sé u.þ.b. 200.000 kr. á mánuði auk þess viðhalds sem sé nauðsynlegt í svo stóru húsi. Þá sé ótalið veitingaleyfi (hótel og vínveitingaleyfi) sem stefndi verði að hafa í rekstri sínum og sækja verði um til nokkurra ára í senn til hagræðingar fyrir stefnda. Megi öllum vera ljóst að slíkt fyrirkomulag gangi í berhögg við atvinnufrelsi stefnda.
Mjög óljóst sé í hverju stefnendur telji brot vera á samkeppnislögum. Þar að auki sé ætlað tjón stefnenda með öllu ósannað, og eigi það bæði við orsök og afleiðingar. Ekki verði séð af gögnum málsins að rekstur stefnenda hafi legið niður á við frá því í apríl 2009 og þó svo væri verði ekki með nokkru móti séð að skýring þess liggi í rekstri stefnda eða að hann hafi með ólögmætum hætti rýrt samkeppnisstöðu stefnenda á þessu afmarkaða svæði. Þá verði stefndi að gera athugasemdir við það að stefnendur telji sig vera í beinni samkeppni við hann. Fossatún og veiðihúsið séu vissulega nokkuð nálægt hvoru öðru en stefndi reki í raun hótel fyrir allt að 40 manns með veitingaþjónustu meðan Fossatún sé fyrst og fremst tjaldstæði með veitingaþjónustu og litlu húsi með gistingu fyrir 6 til 8 manns. Mun nærtækara væri að leita samanburðar við Hótel Hamar í Borgarnesi eða Hótel Reykholt sem samkeppnisaðila stefnda en ekki hafi verið gerðar neinar athugasemdir við starfsemi stefnda úr þeirri átt. Það verði hins vegar að segjast eins og er að það sé illmögulegt að verjast málatilbúnaði stefnenda sem byggi á svo almennum og óljósum hugmyndum um samkeppnisbrot. Í raun hafi stefndi lítið annað gert en aukið fjölbreytni og samkeppni á umræddu svæði og stuðlað þannig að tilgangi samkeppnislaga.
Sé í þessu sambandi mikilvægt að það komi fram að þær endurbætur sem gerðar hafi verið á veiðihúsinu síðustu ár séu ekki til komnar vegna starfsemi stefnda utan veiðitímabils. Veiðihúsið sé byggt árið 1973 og því nær 40 ára gamalt. Sé ekki nema eðlilegt að ráðist hafi verið í endurbætur á því til að fullnægja bæði nútímakröfum og ekki síður þeim kröfuharða hópi sem laxveiðimenn og konur séu. Sé þetta því fyrst og fremst til að bæta samkeppnisstöðu stefnda gagnvart öðrum veiðileyfasölum og um leið auka tekjumöguleika VGT. Stefndi sé fyrst og fremst veiðileyfasali og beini kröftum sínum í þá átt. Rekstur yfir vetrartímann sé einungis til þess að geta staðið straum af kostnaði við rekstur veiðihússins yfir vetrarmánuðina en á sama tíma hafi ferðamöguleikar í Borgarfirði orðið fjölbreyttari. Stefndi kannist hins vegar ekki við að hafa gengið á rétt stefnenda með starfsemi sinni.
Þvert á móti skekkist samkeppnistaða stefnda verði honum óheimilt að nýta veiðihúsið utan veiðitímabils. Sá kostnaður sem falli á hann vegna leigu og rekstarkostnaðar hússins verði því að leggja á veiðileyfi. Það sé með öllu ófær leið fyrir stefnda enda sé sala veiðiferða og veiðileyfa mjög harður samkeppnisrekstur.
Um lagarök vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála, einkum 18. og 19. gr, d.-g.lið 1. mgr. 80. gr. og 129. -132. gr. Þá er vísað til samkeppnislaga og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er vísað til laga nr. 44/2005 um samkeppni, einkum 1. gr. og laga nr. 61/2006 eftir því sem við á.
NIÐURSTAÐA
Svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar frá 16. apríl sl. eru skilyrði til samlagsaðildar sóknarmegin fyrir hendi sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því ekki fallist á það með stefnda Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. að sýkna beri hann af kröfu þessa stefnanda vegna aðildarskorts hans. Þá verður heldur ekki fallist á það með þessum stefnda að sýkna beri hann á grundvelli aðildarskorts hans enda sýnt að stefnendur hafa hagsmunni af því að fá úrlausn um gildi samnings þess sem hann gerði við meðstefnda og úrslit í því efni snerta hagsmuni stefnda Veiðifélagsins Hreggnasa ehf.
Stefnendur halda því fram að túlkun laga um lax- og silungsveiði girði fyrir það að stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár leigi út hús sitt utan veiðitíma og að stefnda Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. sé óheimil sú starfsemi sem fram fer á þess vegum í húsinu. Í 1. mgr. 37. gr., laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði segir að hlutverk veiðifélaga sé m.a. eftirfarandi:
a. að sjá til þess að reglum laga þessara og samþykktum viðkomandi félags um veiðistjórnun og veiðiaðferðir sé framfylgt á félagssvæðinu,
b. að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra,
c. að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra,
d. að ráðstafa rétti til stangveiði í fiskihverfi í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu,
e. að hafa að öðru leyti með höndum verkefni þau sem því eru falin í lögunum og varða framkvæmd þeirra.
Stefnendur halda því fram að þar sem hvorki í lögunum né í samþykktum hins stefnda veiðifélags séu ákvæði um rekstur eða leigu fasteigna utan veiðitímabils í öðrum tilgangi en veiðifélaginu sé ætlaður, sé útleiga veiðihúss veiðifélagsins til samkeppnisrekstrar, t.a.m. í veitinga- og gistirekstri ekki heimil. Um þessa málsástæðu stefnenda er það að segja að ekki verður fallist á það með stefnendum að ákvæði 1. mgr. 37. gr. laganna feli í sér tæmandi talningu á því hverjar heimildir stefndi Veiðifélag Grímsár og Tunguár séu til rekstrar einstakra þátta. Er og til þess að taka að ekki þykir nauðsyn bera til að telja með tæmandi hætti hverjar heimildir félög með skylduaðild hafi til athafna. Bygging, rekstur og eftir atvikum útleiga veiðihúsa þykir samrýmast starfsemi þeirri sem fram fer á vegum veiðifélaga samkvæmt fyrrgreindum lögum enda sé umfang þeirra í eðlilegu samræmi við það meginmarkmið að skapa aðstæður til þess að arður skapist af nýtingu þeirrar auðlindar sem í veiði fisks á félagssvæðinu felst. Í því tilviki sem hér um ræðir þykir umfang starfsemi þeirrar sem stefndi Veiðifélagið Hreggnasi ehf. rekur í veiðihúsi stefnda Veiðifélags Grímsár og Tunguár ekki vera það umfangsmikil að ósamrýmanlegt sé starfsemi hins stefnda veiðifélags. Þá er ekki heldur fallist á það með stefnendum að starfsemi stefnda Veiðifélagsins Hreggnasa ehf. í húsinu brjóti gegn reglum samkeppnislaga gagnvart stefnda Fossatúni ehf. enda engum gögnum fyrir að fara í máli þessu sem sýna fram á hvort og þá hvert tjón stefnandi Fossatún ehf. hefur beðið vegna starfsemi Veiðifélagsins Hreggnasa ehf.
Samkvæmt framansögðu verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og eftir úrslitum málsins verða stefnendur dæmdir til að greiða in solidum stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár eina og hálfa milljón króna í málskostnað og stefnda Veiðifélaginu Hreggnasa ehf. eina og hálfa milljón króna í málskostnað þ. m. t. virðisaukaskattur.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Veiðifélag Grímsár og Tunguár og Veiðifélagið Hreggnasi ehf., skulu sýknir af öllum kröfum stefnenda Ingibjargar Pálsdóttur og Fossatúns ehf.
Stefnendur greiði in solidum stefndu hvorum um sig eina og hálfa milljón króna í málskostnað.