Hæstiréttur íslands

Mál nr. 392/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                                                           

Mánudaginn 28. júní 2010.

Nr. 392/2010.

A

(Ingvar Þóroddsson hdl.)

gegn

B

(Hreinn Pálsson hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2010, sem stimpluð er um móttöku Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. sama mánaðar. Kæran barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 21. júní 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. júní 2010, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði frá þeim degi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaður, þar með talin þóknun verjanda hans fyrir Hæstarétti, verði greiddur úr ríkissjóði.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar úr ríkissjóði til handa skipuðum talsmanni sínum fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig. 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. júní 2010.

Mál þetta barst dómnum 8. júní sl. og var tekið til úrskurðar 11. júní sl.

Sóknaraðili er B, kt. [...], [...], [...]. Varnaraðili er sonur hennar, A, kt. [...], sama stað.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði og sæti áfram nauð­ung­a­r­vistun á geðdeild.  Þá krefst talsmaður sóknaraðila hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að sjálf­ræðis­sviptingu verði markaður svo stuttur tími sem lög leyfa, þ.e. sex mánuðir. Þá krefst verjandi hans hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði sér til handa.    

I.

Varnaraðili var lagður inn á geðdeild 15. maí sl., eftir að hafa sýnt af sér hegðun sem vakti ótta um að hann myndi skaða sig, samkvæmt því sem nánar er rakið í vottorði Braga Sigurðssonar heimilislæknis, sem skoðaði varnaraðila á geðdeildinni þann 17. maí sl. Var niðurstaða læknisins að varnaraðili hefði depurðareinkenni með verulegri sjálfsvígshættu. Hann hefði ekki ákveðin geðrofseinkenni við skoðun, en nauðsynlegt að hann yrði vistaður gegn vilja sínum vegna sjálfsvígshættunnar.

Þann 18. maí sl. samþykkti dómsmála- og mannréttindaráðuneytið beiðni sóknar­aðila um að varnaraðili yrði vistaður nauðugur á sjúkrahúsi, með heimild í 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997.

Í kröfu sóknaraðila er vísað til þess álits Lárusar Karlssonar geðlæknis að varnar­aðili þurfi lengri og markvissari meðferð, en unnt væri að veita á þeim tíma sem samþykki ráðuneytisins tæki til. Aflaði sóknaraðili vottorðs Lárusar og Sigmundar Sigfús­sonar forstöðulæknis um heilsufar varnaraðila. Staðfesti hinn síðarnefndi vott­orðið hér fyrir dómi. Þar kemur fram að varnaraðili býr heima hjá móður sinni og manni hennar. Hann er einhleypur reglumaður, sem hefur lengi unnið hjá [...] hér í bæ. Í vottorðinu er greint að varnaraðili hafi á tveim tímabilum hitt geðlækni á göngudeild, fyrst 2008 og aftur fyrr í ár. Í bæði skiptin hafi verið lýst heyrnarofskynjunum en einnig aðsóknarkennd. Reynt hafi verið að meðhöndla hann með nánar greindu geðlyfi, en meðferðarheldni hans hafi ekki verið fullnægjandi. Móðir hans, þ.e. sóknaraðili, hafi lýst því að orðið hafi breyting á varnaraðila á síðustu misserum. Seint í febrúar í ár muni hann hafa ætlað að ganga í sjóinn í nágrenni vinnustaðar, í tengslum við vanlíðan. Yfirmaður hafi gripið inn í og komið honum til sóknaraðila. Sóknaraðili hafi eftir vinnuveitanda að varnaraðili hafi verið meira annars hugar í vinnunni, dottið út og afköst hafi minnkað mikið. Í gegnum tíðina hafi hann stundað [...], en hætt því um síðustu áramót. Hafi hann í tengslum við þetta talað um að unnið væri gegn honum, eða hann væri í einhvers konar hættu. Þá hafi hann upplifað um nokkurt skeið að nágranni ynni gegn honum. Einnig hafi hann heyrt raddir fyrir utan íbúðina, sem hann þekki ekki, en tali illa um hann.

Hinn 15. maí sl., þegar varnaraðili hafi verið að horfa á sjónvarp, hafi hann heyrt þessar raddir, sem hafi talað neikvætt um hann. Þá hafi hann farið fram í eldhús, tekið hníf og farið út úr húsi og í nærliggjandi móa. Þar hafi hann skorið á vinstri úlnlið. Síðan hafi hann gengið niður að [...] og sagt svo frá að þar hafi hann hugsað um að stökkva út í, en ekki þorað. Hann hafi farið aftur heim og systir hans fylgt honum á bráðamóttöku. Síðan hafi hann verið vistaður sjálfviljugur á geðdeild, en ekki viljað þiggja lyfjameðferð. Hann hafi yfirgefið deildina daginn eftir, en verið lagður inn á ný 17. maí sl., eftir að hafa fundist úti á gangi. Þá hafi hann verið vistaður nauðugur. Þann 30. maí hafi hann stokkið fram af svölum, þar sem hann hafi verið í ,,reykpásu,“ en fundist fljótlega, þar sem hann hafi verið á gangi með ferðatösku og bakpoka. Hann hafi verið reiður og ósáttur er lögregla færði hann aftur á deildina.

Í vottorðinu, sem er ritað 2. júní sl., er lýst geðskoðun á varnaraðila þann dag. Hafi hann verið mjög á varðbergi og svarað spurningum stuttaralega eða ekki viljað svara þeim. Hafi hann þó lýst því að hann teldi fólk á deildinni vilja sér illt og ekki viljað trúa því að ætlunin væri að hjálpa honum. Hafi honum ekki orðið hnikað með skoðanir sínar. Telji hann sér líða betur og vilji fara heim. Hann trúi því ekki að ráðuneytið hafi samþykkt nauðungarvistun, telji úrskurðinn falsaðan og að verið sé að refsa honum fyrir atvik í fortíðinni.

Niðurstaða læknanna er að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms, sem ekki hafi tekist að meðhöndla sem skyldi vegna skorts á meðferðarheldni. Hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, aðsóknargeðklofa (Paranoid schizophrenia, ICD-10, F20.0). Batahorfur ráðist af meðferðarstjórn. Eina sjáanlega leiðin sé að gefa honum sefandi lyf/geðrofslyf með reglulegu millibili, til að fyrirbyggja og/eða stytta með öllum hugsanlegum ráðum geðrofs­lotur. Sérhver slík lota í geðklofasjúkdómi brjóti niður geðheilsu umfram það sem sjúkdómurinn geri sjálfur. Veikindi varnaraðila séu mjög alvarlegs eðlis og sjúk­dómsinnsæi hans nánast ekkert. Ólíklegt sé að bati náist án viðeigandi meðferðar. Sjálfræðissvipting virðist því nauðsynleg til að hægt verði að koma við nauðsynlegri reglubundinni lyfja- og læknismeðferð.    

II.

Varnaraðili kom fyrir dómara er málið var þingfest, en ekki við síðari fyrirtökur þess. Hann tjáði dómara að ekkert amaði að sér og að hann vildi losna af geðdeild. Hann kvaðst ekki trúa því að sóknaraðili hefði uppi kröfu um að hann yrði sviptur sjálfræði. Ítrekaði hann þessa afstöðu, er hann var inntur eftir því hvort hann vildi benda á tiltekinn lögmann sem verjanda.

Það er mat dómsins, eftir þessa fyrirtöku með varnaraðila, að engin efni séu til að ve­fengja niðurstöðu læknanna, sem rakin er hér næst að framan. Verður einnig talið að málið sé nægilega upplýst, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997. Ber brýna nauðsyn til að varnaraðili verði áfram vistaður á sjúkrahúsi, þar sem allt verði gert sem unnt er til að koma heilsu hans til betri vegar. Er skilyrði a. liðar 4. gr. laga nr. 71/1997 uppfyllt, þar sem varnaraðili er sem stendur ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms. Verður krafa um lögræðissviptingu tekin til greina. Með hliðsjón af því að í skýrslu forstöðulæknis hér fyrir dómi kom fram að gera mætti sér vænt­ingar um árangur af meðferð, fremur fyrr en seinna, og með vísan til reglu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 71/1997, þykir rétt að taka til greina varakröfu varnaraðila um að svipt­ingin verði tímabundin í sex mánuði, sbr. heimild í 1. mgr. 5. gr. sömu laga, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hreins Pálssonar hrl., og skipaðs verjanda varnaraðila, Ingvars Þóroddssonar hdl., sem ákveðast eins og greinir í úrskurðarorði, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

 Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá og með deginum í dag, 14. júní 2010, að telja.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hreins Pálssonar hrl. og skipaðs verjanda varnaraðila, Ingvars Þóroddssonar hdl., 75.300 krónur til hvors um sig.