Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-21
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lögbann
- Skaðabætur
- Sönnun
- Sönnunarmat
- Matsgerð
- Yfirmatsgerð
- Vörumerki
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 25. febrúar 2022 leitar Icelandic Water Holdings hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. janúar sama ár í máli nr. 631/2020: Þrotabú iGwater ehf. gegn Icelandic Water Holdings hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda til greiðslu skaðabóta vegna lögbanns sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 29. október 2013 við því að Iceland Glacier Wonders ehf., forveri gagnaðila, notaði og hagnýtti sér tilgreind vörumerki leyfisbeiðanda en lögbannsgerðin var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar 4. júní 2015 í máli nr. 731/2014. Sama dag var kveðinn upp dómur í máli Hæstaréttar nr. 721/2014 þar sem Iceland Glacier Wonders ehf. var bannað að nota auðkennið „ICELAND GLACIER“ í firmaheiti sínu. Í kjölfarið var nafni félagsins breytt í iGwater ehf.
4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sýknaður af fyrrnefndri kröfu. Eftir áfrýjun málsins var bú iGwater ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og tók gagnaðili þá við aðild að málinu. Með dómi Landsréttar var niðurstöðu héraðsdóms snúið við og leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 20.809.450 krónur ásamt vöxtum. Landsréttur vísaði til þess að umrætt lögbann hefði fallið niður vegna sýknu af þeim kröfum sem gerðinni var ætlað að tryggja og að leyfisbeiðanda bæri að bæta það fjártjón sem telja mætti að gerðin hefði valdið, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Bæði í yfir- og undirmatsgerð væri komist að niðurstöðu um að Icelandic Glacier Wonders ehf. hefði orðið fyrir tjóni vegna lögbannsins. Sönnunargildi yfirmatsgerðar sem ekki væri hnekkt með öðrum gögnum vegi alla jafna þyngra við mat á sönnun en undirmatsgerð. Í málinu hefði ekkert komið fram um að ekki hefði verið gætt réttra aðferða við mat yfirmatsmanna eða að niðurstaða þeirra væri reist á röngum forsendum og því væri byggt á yfirmatsgerð við úrlausn málsins að svo miklu leyti sem málatilbúnaður aðila gæfi tilefni til. Ekki var fallist á að sama tjón og yfirmatsmenn hefðu metið vegna lögbannsins hefði leitt af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2014. Loks taldi Landsréttur að misbrestur á afhendingu gagna frá félaginu til yfirmatsmanna gæti ekki leitt til frekari lækkunar á bótum vegna tjónsins en matsmenn hefðu sjálfir komist að niðurstöðu um.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en í því reyni á hvaða sönnunarkröfur séu gerðar í skaðabótamálum, þýðingu matsgerða við sönnun tjóns, heimildir dómstóla til endurmats á niðurstöðum matsmanna og bótareglu 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990. Skera þurfi úr um hvert sönnunargildi matsgerða geti verið þegar tjónþoli vanrækir að veita upplýsingar um tjón sitt. Gagnaðili hafi vanrækt að afhenda matsmönnum nauðsynleg gögn en hefðu þau legið fyrir hefði verið ljóst að tjónið væri ekkert. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng meðal annars um réttaráhrif dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2014 og ályktunar um lítt áberandi firmaheiti gagnaðila á vörum hans sem ekkert hafi legið fyrir um í málinu.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.