Hæstiréttur íslands
Mál nr. 199/2004
Lykilorð
- Skaðabætur
- Vinnuslys
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 28. október 2004. |
|
Nr. 199/2004. |
Sverrir Karlsson(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.) gegn Hávirki sf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Skaðabætur. Vinnuslys. Gjafsókn.
S, sem var starfsmaður E, stjórnaði steypudælukrana í eigu E sem hafði tekið að sér sem verktaki steypuvinnu hjá H sf. S fór upp á u.þ.b. þriggja metra háan steyptan vegg til að stjórna dælubúnaði kranans með fjarstýringu. Honum skrikaði þá fótur með þeim afleiðingum að hann hrasaði og lenti á steypustyrktarjárni sem stóð upp úr veggnum. Talið var að S hafi mátt vera ljós hættan sem stafaði af því að fara upp á vegginn, en ekki yrði annað séð en hann hafi sjálfur ráðið því hvernig staðið yrði að verkinu. Hafi hann að þessu leyti ekki lotið verkstjórnarvaldi H sf. og hafi heldur ekkert komið fram um að hann hafi fengið fyrirmæli frá starfsmönnum H sf. um að stjórna krananum ofan af veggnum. Þá var ekki talið að slysið mætti rekja til skorts á öryggisráðstöfunum af hálfu H sf. Var H sf. því sýknað af kröfu S um greiðslu skaðabóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2004. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 20.544.071 krónu með 4,5% ársvöxtum af 3.019.873 krónum frá 21. mars 2000 til 19. september sama árs, en af 20.544.071 krónu frá þeim degi til 15. september 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti að mati Hæstaréttar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en áfrýjandi nýtur gjafsóknar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti að skaðlausu samkvæmt mati Hæstaréttar, en til vara að kröfur áfrýjanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður í því tilviki látinn niður falla.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sverris Karlssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. apríl 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. f.m., er höfðað 23. apríl 2003 af Sverri Karlssyni, Hraunsvegi 16, Reykjanesbæ, á hendur Hávirki sf., Hólmaslóð 4, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 20.544.071 krónu með 4,5% ársvöxtum af 3.019.873 krónum frá 21. mars 2000 til 19. september sama árs, en af 20.544.071 krónu frá þeim degi til 15. september 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið var ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 21. maí 2003 veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara lækkunar á dómkröfu stefnanda og málskostnaður verði felldur niður.
Stefnandi hefur stefnt Tryg-Baltica í Danmörku til réttargæslu.
I.
Mál þetta á rætur að rekja til vinnuslyss, sem stefnandi varð fyrir um hádegisbil þriðjudaginn 21. mars 2000, en hann var þá á 35. aldursári. Þegar slysið varð hafði stefnandi komið fyrir steypudælukrana við grunn nýbyggingar sem þá var verið að reisa við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og hafði í hyggju að hefja dælingu á steypu með honum, en til stóð að steypa botnplötu. Til þess að geta séð yfir vinnusvæðið fór stefnandi upp á um það bil þriggja metra háan steyptan vegg. Ætlaði hann að stjórna krananum og steypudælingu þaðan með fjarstýringu sem hann hélt á. Þar skrikaði honum fótur með þeim afleiðingum að hann féll og lenti á steypustyrktarjárni sem stóð upp úr veggnum. Stakkst járnið inn í líkama hans, 20 til 30 cm. Náði stefnandi sjálfur að losa sig af járninu. Hann var í kjölfarið fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og síðan á Landspítala-Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Um skoðun á Landspítalnum og aðgerð sem stefnandi gekkst þar undir segir svo í vottorði Tryggva Stefánssonar sérfræðings í almennum skurðlækningum, sem ritað var 20. október 2001: „Við skoðun þá hefur hann 2 cm breitt gat aftantil og vinstra megin við endaþarmsop. Vegna gruns um innri áverka var Sverrir tekinn til aðgerðar. [...] Áverkanum er lýst þannig að það sé gat eins og áður segir við endaþarmsop og myndaðist sár sem lá á milli innri og ytri hringvöðva. Það hefur tæst upp hluti af ytri hringvöðvanum og síðan hafði teinninn stungist upp úr hringvöðvanum og upp í endaþarminn aftanverðan og í gegnum endaþarm og inn í framvegg endaþarms. Þar hafði teinninn stungist í gegnum blöðruhálskirtil. Við kviðarholsaðgerð var þvagblaðran opnuð og sást þá að teinninn hafði komið út úr blöðruhálskirtli og gert sér leið inn í blöðru milli þvagleiðaraopanna neðst í þvagblöðru [...]. Teinninn stakkst síðan út úr blöðrutoppi og inn í hengju bugaristils [...]. Teinninn hefur síðan farið á bakvið kviðarholið [...] og endað í hæð við þind. Við komu þann 21.03.2000 var hann tekinn til aðgerðar þar sem blæðing í hengju bugaristils var stöðvuð og blaðra opnuð og saumað fyrir gat í blöðrubotni og blaðran síðan saumuð saman aftur. Nóttina eftir eða þann 22.03. þurfti hann að fara í aðra aðgerð vegna blæðingar. Við seinni aðgerðina kom í ljós önnur blæðing í hengju bugaristils og var hún einnig stöðvuð. [...] Sárin greru og hann útskrifaðist eftir 10 daga legu [...].“
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til heimtu bóta vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut í framangreindu slysi. Krefst hann í fyrsta lagi bóta vegna tímabundins atvinnutjóns og nemur sú krafa hans 680.902 krónum. Þá er krafist þjáningabóta að fjárhæð 179.800 krónur og bóta fyrir varanlegan miska að fjárhæð 2.159.171 króna. Loks er gerð krafa um bætur vegna varanlegrar örorku og nemur sú krafa, að teknu tilliti til lækkunar vegna bótagreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins, 17.524.198 krónum. Styðst þessi kröfugerð við matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar frá 4. apríl 2002. Var það niðurstaða þeirra að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá slysdegi til 19. september 2000. Þá hafi hann verið rúmliggjandi frá slysdegi til 31. mars 2000 og veikur án þess að vera rúmfastur frá 1. apríl til 19. september sama árs. Loks var varanlegur miski stefnanda metinn 40% og varanleg örorka 45%. Er ekki ágreiningur um þetta mat. Stefndi hafnar því hins vegar að ábyrgð á slysinu verði felld á hann. Slysið verði alfarið rakið til stórkostlegs gáleysis stefnanda og ákvarðana sem hann sjálfur tók.
Af hálfu stefnda er sú eina athugasemd gerð að því er varðar tölulegan grundvöll málsins að við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku sé ökutækjastyrkur ranglega talinn með í meðaltalsárslaunum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að teknu tilliti til þess eigi krafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku með réttu að nema 16.917.694 krónum.
II.
Á meðal gagna málsins er skjal frá sýslumanninum í Reykjavík þar sem fram kemur að samkvæmt firmaskrá embættisins sé stefndi sameignarfélag Ístaks hf., Miðvangs ehf. og Höjgaard og Schultz A/S í Danmörku. Segir þar að tilgangur félagsins sé „[að] annast verklegar framkvæmdir varðandi nýbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar“. Í samræmi við þetta og samkvæmt öðru því sem fram er komið í málinu hafði stefndi með höndum uppsteypu umræddrar nýbyggingar og utanhússfrágang. Stefnandi var á þeim tíma sem hér um ræðir starfsmaður hjá Einari Sædal Svavarssyni verktaka í Reykjanesbæ, en steypa til verksins var keypt af honum eða fyrirtæki á hans vegum.
Í skýrslu Sveins Adolfssonar tæknifulltrúa hjá Vinnueftirliti ríkisins, sem er dagsett 21. mars 2000, segir svo um tildrög slyssins og aðstæður á slysstað: „Tildrög slyssins voru þau að verið var að gera klárt fyrir dælingu á steypu með steypudælukrana [...]. Stjórnandi dælunnar þurfti að fara fara upp á steyptan grunn með hallandi veggjum til að hafa yfirsýn yfir vinnusvæðið og stýrði dælunni þaðan með fjarstýringu. [...] Strengt hafði verið segl milli veggja og 1”x6” borð lögð á til að halda seglinu. Þegar hann var að fara með stjórntækin eftir vegg grunnsins skrikaði honum fótur með þeim afleiðingum að hann féll og lenti á steypustyrktarjárni sem stóð uppúr vegg sökkulsins [...]. [...] Aðstæður á slysstað voru þær, að snjóföl var yfir segli og veggjum og mjög hált [...].“
Að beiðni þáverandi lögmanns stefnanda fór fram rannsókn á slysinu á vegum lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Gaf stefnandi skýrslu þar 8. febrúar 2001. Í henni er haft eftir honum að hann hafi verið búinn að vinna við umræddan steypudælukrana í nokkra mánuði þá er slysið varð. Hafi hann verið kominn með mikla reynslu í þessu starfi enda verið búinn að dæla „óhemju miklu magni af steypu við flugstöðvarbygginguna og á fleiri stöðum“. Þarna á staðnum hafi verið staddur starfsmaður byggingarverktakans, Jón Atli Brynjólfsson, og hafi hann átt að „sjá um þessi mál“. Vangaveltur hafi verið um það hvar stefnandi gæti staðsett sig með fjarstýringu dælukranans, en kapall hennar hafi ekki náð að þeim stað þar sem upphaflega hafi verið miðað við að stefnandi kæmi sér fyrir með hana. Jón Atli hafi þá spurt stefnanda hvar hann vildi vera. Þessu næst er eftirfarandi bókað eftir stefnanda: „Síðan segir mætti að Jón Atli hafi farið upp á vegg við dúkklæddu grindina og verið að segja mætta til með hvar mætti ætti að slaka bómunni til að hitta á gat sem var búið að gera dúkinn til að koma bómunni og steypunni þar niður. Mætti segir að mikið af steypustyrktarjárnum hafi verið á þeim vegg. Síðan hafi Jón Atli komið niður og mætti farið upp og Jón Atli farið að gefa slaka á kaplinum í stjórntækið. Mætti segir að sér hafi skrikað fótur á hálum dúknum en bæði var frost svo og nokkur snjór á dúknum svo hann var mjög háll en nokkur borð lágu langsum eftir dúknum. Mætti segir að sá sem tók við verkinu af sér hafi heldur ekki komist ætlaða aðgönguleið, heldur hafi verið rofið gat á dúkinn á hlið grindarinnar en það hafi sér ekki verið boðið upp á.“
Jón Atli Brynjólfsson gaf skýrslu hjá lögreglu 6. febrúar 2001. Kvaðst hann hafa verið starfsmaður Ístaks hf. þá er slysið varð. Til hafi staðið að steypa botnplötu „sem var undir grind sem var klædd dúki og kynt undir til að halda frosti frá“. Þá hafi hann verið búinn að gera göt á dúkinn, en niður um þau hafi endaslaga steypudælukranans átt að fara. Stigi hafi legið upp á þessa dúkklæddu grind. Hafi stefnandi farið þarna upp. Hafi hann haft á orði að líklega væri fjarstýringarkapall steypudælukranans ekki nógu langur til þess að hann gæti komist með fjarstýringuna á þann stað sem verið hafi „[ætluð] aðgönguleið vegna þessa verks“. Þessu næst er eftirfarandi bókað eftir Jóni Atla í þessari skýrslu hans: „Mætti segir að þeir hafi rætt um hvernig væri best að standa að þessu. Mætti segir að Sverrir hafi viljað fara þarna upp á þar sem að þægilegt væri að fylgjast með dælunni yfir götunum. Mætti segist hafa spurt Sverri hvort hann treysti sér þarna upp. Alla vega fór Sverrir þarna upp og mætti var að gefa eftir línu í stjórntækið og eitthvað að bauka og hafi þess vegna ekki fylgst með Sverri. [...] Mætti segir að þegar að annar starfsmaður kom á steypudælubílinn hafi verið ákveðið að kanna hvort snúran væri ekki nógu löng til að fara ætlaða gönguleið og reyndist svo vera“
Jóhannes Kristinn Jóhannesson, sem tók við stjórn steypudælukranans eftir slysið, gaf skýrslu hjá lögreglu 8. febrúar 2001. Í henni er haft eftir honum að þegar vettvangsrannsókn var lokið hafi starfsmaður á vegum byggingarverktakans, Jónas Þór Jónasson, spurt hann hvort ekki mætti koma fjarstýringunni í gegnum dúkinn við hliðina á steypudælukrananum, en þar hafi verið gat. Hann hafi talið svo vera og hafi orðið úr að taka fjarstýringuna þar í gegn. Þessu næst segir svo í skýrslunni: „Um hafi verið að ræða tvö bil en verið var að steypa í bil sem var fjær dælubílnum. Mætti segir að þó svo að tækið hafi verið tekið í gegnum hlið grindarinnar hafi það rétt náð yfir í bilið fjær en þó ekki nærri þeim stað sem verið var að steypa en nægjanlega þó að hægt væri að sinna þessu með aðstoð og tilsögn. Hér hafi kapallinn yfir í dælubílinn verið strekktur og því ekki lengra komist. Mætti segir að erfitt hafi verið að koma stjórntækinu þá leið sem það var tekið, það hafi verið þarna veggur og upp úr honum kaðrak af steypustyrktarjárnum. Mætti segir að Jón Atli Brynjólfsson hafi verið uppi á veggnum og tekið á móti stjórntækinu. Eftir að dælingu lauk segist mætti ekki hafa fengið neina aðstoð og verið einn að brasa við að koma stjórntækinu út og í gegnum þessi steypustyrktarjárn.“
Morten Feldskov Jannerup, sem er tæknifræðingur að mennt og sinnti meðal annars öryggismálum fyrir stefnda þá er slysið varð, gaf skýrslu hjá lögreglu 5. febrúar 2001. Í skýrslunni skýrði Morten svo frá að stiginn sem stefnandi notaði til að komast upp á vegginn hafi eingöngu verið ætlaður þeim sem unnið hefðu við það að koma fyrir dúknum, sem strengdur hefði verið á milli veggja grunnsins. Önnur aðgönguleið hafi verið ætluð þeim sem komu að steypuvinnunni. Kvaðst Morten telja að stefnanda hafi verið kunnugt um hana, en treysti sér ekki til að fullyrða það.
Magnús Steinar Sigmarsson, sem ók steypubifreiðinni að byggingarstað í umrætt sinn, kvaðst í skýrslu hjá lögreglu 1. apríl 2003 hafi séð Jón Atla Brynjólfsson koma með stiga og reisa hann upp við þann vegg sem stefnandi hafi síðan farið upp á. Jón Atli hafi hins vegar strax farið þarna upp „þar sem máta þurfti hvort bóman með steypurörunum á“ næði að götum sem gerð höfðu verið á plastdúkinn. Þaðan hafi Jón Atli sagt stefnanda til, en stefnandi hafi þá staðið við hliðina á stepudælukrananum. Þá kvaðst Magnús Steinar ekki hafa séð til stefnanda uppi á veggnum.
Óumdeilt er að stefnandi hafði réttindi til að stjórna steypudælukrananum sem hann vann við þá er slysið varð. Á meðal gagna málsins eru upplýsingar um slíkan krana og leiðbeiningar um notkun hans. Í þeim segir svo meðal annars: „Til þess að koma í veg fyrir slys og óhöpp er nauðsynlegt að skipuleggja vinnuna fyrirfram. Við skipulagningu er nauðsynlegt að meta heppilegustu staðsetningu steypudælunnar. [...] Við skipulagningu er einnig nauðsynlegt að athuga sjónlínu á milli þess staðar sem steypuvinna fer fram á, og stjórnanda steypudælunnar. Hafi stjórnandi ekki næga yfirsýn er nauðsynlegt að hafa merkjamann sem segir þá til um hreyfingar á bómu og dælingu. Nota skal viðurkennt merkjakerfi. Sé það ekki fullnægjandi skulu stjórnendur koma sér saman um merki sem ekki verða misskilin.“
III.
Í stefnu er á því byggt að verkstjórnarvald á byggingarstað hafi verið í höndum starfsmanna stefnda. Í verkahring þeirra hafi þannig verið að ákveða og stjórna því hvar steypa yrði losuð hverju sinni og sjá stefnanda fyrir öruggri aðgangs- og gönguleið. Sú gönguleið sem Jón Atli Brynjólfsson hafi bent stefnanda á hafi ekki komið til greina þar sem kapall fjarstýringarinnar hafi ekki náð þangað. Í kjölfarið hafa Jón Atli farið upp á þann vegg sem stefnandi hafi verið að ganga eftir þegar slysið varð. Hafi Jón Atli reist stiga upp við vegginn þannig að unnt yrði að komast upp á hann og farið þangað á undan stefnanda. Er á því byggt af hálfu stefnanda að framganga Jóns Atla á byggingarstað hafi orðið til þess að stefnandi fór upp á vegginn með fjarstýringu steypudælukranans. Þá hafi af hálfu stefnda verið séð til þess að sá sem tók við verki stefnanda eftir slysið kæmist aðra og örugga leið með fjarstýringuna, en stefnanda hafi ekki verið boðið upp á að fara hana.
Skaðabótakröfu sína í málinu byggir stefnandi annars vegar á því að öryggisbúnaður á vinnusvæðinu hafi verið óforsvaranlegur, en á því beri stefndi fulla ábyrgð. Í því sambandi vísar stefnandi til eftirfarandi umsagnar starfsmanns Vinnueftirlits ríkisins í skýrslu hans frá 21. mars 2000: „Örsök slyssins má rekja til þess að ekki voru til staðar fallvarnir og bendijárn (steypustyrktarjárn) stóðu óvarin uppúr vegg sökkulsins. Ennfremur getur hálka hafa verið meðvirkandi orsök slyssins. Ekki höfðu því verið gerðar öryggisráðstafanir sem uppfylltu ákvæði reglna um aðbúnað og hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996 [...].“ Telur stefnandi að slysið hefði sennilega ekki orðið og að minnsta kosti ekki haft í för með sér jafn alvarlegar afleiðingar og raun varð á ef steypustyrktarjárnin hefðu verið varin, en skylt hafi verið samkvæmt framansögðu að búa þannig um hnútana enda hafi það verið gert eftir slysið. Þeim mun meiri ástæða hafi verið til að grípa til þessara öryggisráðstafana þegar litið sé til þess að trésmiðir á vegum stefnda hafi farið þarna um skömmu áður er þeir unnu við að koma fyrir segldúknum sem áður er nefndur. Þá hefði að áliti stefnanda mátt bæta úr skorti á fallvörnum á einfaldan og öruggan hátt með því að hafa tiltæka körfu á krana, svokallaða mannakörfu. Loks er vísað til þess að það sé ein af meginskyldum vinnuveitanda að tryggja það að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980. Í þessu felist að vinnuveitanda og yfirmönnum á hans vegum beri að sjá til þess að starfsmönnum og utanaðkomandi sé ekki hætta búin á vinnustað.
Í annan stað er bótaábyrgð stefnda á því reist að verkskipulagningu af hans hálfu hafi verið ábótavant og verkstjórn því ómarkviss. Það hafi verið hlutverk starfsmanna stefnda að ákveða hvar steypa skyldi losuð og sjá til þess að aðgangsleiðir væru greiðfærar og án hættu fyrir stefnanda. Þegar legið hafi ljóst fyrir að kapall fjarstýringarinnar náði ekki á þann stað sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi að stefnandi kæmi sér fyrir með hana hafi stefnda borið að benda stefnanda á annan stað þar sem hann gæti unnið sitt starf án þess að honum væri hætta búin. Hefðu yfirmenn stefnda átt að þekkja best allra til aðstæðna á vinnusvæðinu og mátt vera kunnugt um búnað steypudælukranans. Hefðu þeir mátt gera sér grein fyrir því að ekki væri forsvaranlegt að velja þá gönguleið sem farin var. Eftir slysið hafi verið séð til þess af hálfu stefnda að sá sem tók við verkinu af stefnanda kæmist aðra og örugga leið með fjarstýringuna, en stefnanda hafi verið gefinn kostur á því að fara hana. Þá er sérstaklega á því byggt að starfsmaður stefnda, Jón Atli Brynjólfsson, hafi farið upp á vegginn á undan stefnanda og vísað honum þangað með fjarstýringuna. Loks er að því er þessa málsástæðu stefnanda varðar vísað til þess að í ljósi allra aðstæðna á vinnusvæðinu hafi verið ríkari ástæða en ella til að haga verkskipulagi og verkstjórn af hálfu stefnda með markvissari hætti en raun hafi orðið á, ekki hvað síst með samhæfingu vinnubragða einstakra verktaka í huga.
IV.
Í greinargerð er á því byggt að þá er slysið varð hafi stefnandi búið yfir mikilli reynslu í stjórnun stórra vinnuvéla. Þá hafi hann verið búinn að vinna við það frá því í nóvember 1999 að afgreiða steypu í nýbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Hann hafi því verið kunnugur aðstæðum á á vinnusvæðinu.
Af hálfu stefnda er lögð á það áhersla að veggurinn sem stefnandi fór upp á í umrætt sinn hafi ekki verið í ætlaðri göngu- eða aðgönguleið neins, enda veggurinn hár og mjór. Því hafi engum hugkvæmst að þörf væri á sérstökum fallvörnum þar eða að þar kynni að leynast slysagildra. Fullyrðir stefndi að það tíðkist ekki við framkvæmd af því tagi sem hér um ræðir að hvert einstakt steypustyrktarjárn sé varið sérstaklega burtséð frá staðsetningu þess. Þá hafi stiginn, sem vísað hafi verið til af hálfu stefnanda, verið notaður til að koma dúknum, sem áður er nefndur, fyrir. Stiganum hafi þannig ekki verið ætlað að vera sérstök gönguleið upp á vegginn. Þá hafnar stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að starfsmaður félagsins hafi farið með verkstjórnarvald gagnvart stefnanda við þær steypuframkvæmdir sem verið var að vinna við þá er slysið varð. Þar um sé í fyrsta lagi til þess að líta að stefnandi hafi verið starfsmaður annars sjálfstætt starfandi verktaka, sem stefndi hafi keypt þjónustu af. Í öðru lagi hafi stefnandi verið stjórnandi vinnuvélar, sem búin sé flóknum dælubúnaði. Vinnuveitandi stefnanda hafi borið ábyrgð á búnaðinum og stefnandi hafi kunnað manna best á hann. Í þriðja lagi hafi aðgönguleiðir á verkstað verið greiðar og ekki skapað vandamál, heldur takmörkuð lengd kapalsins í fjarstýringu dælubúnaðarins. Framangreindu til viðbótar mótmælir stefndi því að eftir slysið hafi þeim, sem tók við verkinu af stefnanda, verið gefinn kostur á að fara aðra leið með fjarstýringuna og að sá möguleiki hafi aldrei verið orðaður við stefnanda. Stefnandi hafi átt val um það með hvaða hætti hann sinnti starfi sínu og stefndi hafi engar skorður sett honum í því sambandi. Reyndar sé það ljóst að samstarfsmaður stefnanda hafi farið þá leið sem við blasti að athuguðu máli. Loks er til þess vísað af hálfu stefnda að hefði stefnandi litið svo á að aðstæður væru með þeim hætti að hann gæti ekki sinnt því verk sem honum var ætlað hafi hann með réttu getað brugðist við með þeim hætti að neita að svo stöddu að afgreiða steypuna.
Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að slysið verði alfarið rakið til stórkostlegs gáleysis stefnanda og ákvarðana sem á engan hátt voru á ábyrgð stefnda. Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að fara í hálku og snjó upp á háan og mjóan vegg sem var engum vörnum búin. Þar sem hann hafi verið með fjarstýringuna í höndunum hafi verið útilokað fyrir hann að einbeita sér að því sem mestu skipti úr því sem komið var, það er að halda jafnvægi á mjóum og hálum vegg við erfiðar aðstæður. Hættan á alvarlegu slysi hafi því hlotið að vera honum ljós. Hvorki stefndi né starfsmenn hans hafi þannig valdið slysinu eða átt sök á því. Samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar beri stefndi því ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Þessu til frekari stuðnings vísar stefndi til þess að af framlögðum gögnum blasi við að staðurinn, þar sem stefnandi hrasaði, hafi ekki verið ætlað að vera í gönguleið neins. Sá sem þangað fór hafi gert það á eigin áhættu. Ekki hafi verið ætlast til þess að stefnandi færi upp á vegginn og er hann gerði sig líklegan til þess hafi hann sérstaklega verið inntur eftir því hvort hann treysti sér til þess. Ekki hafi verið til þess ætlast að brölt yrði upp á vegginn og því síður að gengið yrði eftir honum. Engin fyrirsjáanleg fallhætta fyrir starfsmenn hafi verið tengd veggnum, en þegar slysið varð hafi verið unnið við plötusteypu á jörðu niðri. Þá leiði það ekki af ákvæðum reglugerðar nr. 547/1996, sem stefnandi hefur vísað til, að stefnda hafi verið skylt að búa umræddan vegg sérstökum fallvörnum eða reisa þar vinnupalla. Hvernig sem á málið sé litið liggi ljóst fyrir að stefnandi hafi ekki krafist fallvarna. Ekki hafi heldur verið orsakatengsl á milli slyssins og meints skorts á fallvörnum því stefnandi hafi dottið aftur fyrir sig án þess að falla niður af veggnum. Af framangreindum ástæðum er ekki á það fallist af hálfu stefnda að á honum hafi hvílt sérstök skylda til að verja steypustyrktarjárn á þessum stað, það er á vegg sem ekki tilheyrði umferðarleið um vinnusvæðið. Hafnar stefndi því þannig alfarið með tilliti til þess verks sem unnið var við í umrætt sinn að fyrirsjáanleg slysahætta hafi stafað af umræddum vegg eða steypustyrktarjárnum sem stóðu upp úr honum. Þá mótmælir stefndi því að verkskipulagi af hans hálfu hafi verið ábótavant eða verkstjórn ómarkviss þá er slysið varð. Í því sambandi sé fyrst til þess að líta að stefnandi hafi komið fram sem starfsmaður sjálfstæðs verktaka, sem stefndi hafi keypt þjónustu af. Starfsmenn stefnda hafi ekki haft boðvald yfir stefnanda. Hann hafi verið sérfræðingurinn á sínu sviði, haft mikla reynslu í því starfi sem hann þarna gegndi og þekkt verkstaðinn vel. Hann hafi því verið fullkomlega bær til að taka sjálfur ákvarðanir um eigið verklag. Þá sé það fjarri öllu lagi að starfsmenn stefnda hafi lagt fyrir stefnanda að fara upp á margnefndan vegg. Að öðru leyti séu fullyrðingar í stefnu um að verkstjórn af hálfu stefnda hafi verið ábótavant engum haldbærum rökum studdar.
Varakröfu sína um lækkun á dómkröfu stefnanda byggir stefndi á því að hvernig sem á málið sé litið hafi eigin sök stefnanda verið stórfelld af ástæðum sem raktar hafa verið hér að framan, einkum þegar litið sé til aldurs hans og reynslu. Stefnandi verði því í öllu falli að bera mestan hluta af tjóni sínu sjálfur.
V.
Svo sem fram er komið varð stefnandi fyrir talsverðu líkamstjóni í vinnuslysi 21. mars 2000, en hann var þá sem stjórnandi steypudælukrana að undirbúa dælingu á steypu í botnplötu nýbyggingar sem verið var að reisa við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Stefndi var verktaki við byggingu hússins, en starfi sínu á staðnum sinnti stefnandi á vegum þess aðila sem steypan var keypt af. Ljóst er að vandkvæði komu upp varðandi dælingu steypunnar vegna dúksins sem komið hafði verið fyrir yfir losunarstaðnum. Fram telst komið að gert hafi verið ráð fyrir því í upphafi að stefnandi myndi ná að athafna sig með fjarstýringu steypudælukranans við losunarstaðinn og undir dúknum. Atvikum í undanfara slyssins og slysinu sjálfu lýsti stefnandi svo í aðilaskýrslu sinni við aðalmeðferð málsins: „Á leiðinni á stjórnunarstaðinn þá spyr Jón Atli mig hvort að þetta nái nokkuð og þá meinar hann náttúrlega kapalstýribúnaðinn eða stjórntæki búnaðarsins. Og ég segi strax nei. Þá förum við til baka aftur og þá spyr hann að því hvar ég vilji vera og þá benti ég þarna upp, þarna vil ég vera ef hægt er. Þegar það var búið að tala um það þá fer Jón Atli upp á vegginn til þess að segja mér til, til að ég hitti ofan í götin. Svo kemur hann niður aftur og þá fer ég upp. Ég er varla kominn nema svona tvö til þrjú skref þegar mér varð fótaskortur og þetta voru afleiðingarnar af því. Ég svona hrasa aftur fyrir mig og lendi á þessum teini.“ Sá starfsmaður stefnda, sem stefnandi kveðst samkvæmt framansögðu hafa átt samskipti við í umrætt sinn, Jón Atli Brynjólfsson, skýrði svo frá í vitnisburði sínum fyrir dómi að stefnandi hafi viljað fara upp á vegginn og stjórna steypudælingu þaðan. Hafi vitnið þá innt hann eftir því hvort hann treysti sér til þess. Kvaðst vitnið ekki hafa sagt stefnanda að fara þarna upp, enda hafi vitnið ekki haft verkstjórnarvald yfir honum.
Stefnandi var 34 ára gamall þá er slysið varð. Hann fékk réttindi til að stjórna steypudælukrana í febrúar 1999 og hafði á slysdegi öðlast nokkra reynslu við það verk. Verður í ljósi þessa og þeirrar reynslu sem stefnandi telst búa yfir vegna annarra starfa sem hann hefur haft með höndum í gegnum tíðina ekki ályktað á annan veg en þann, þegar litið er til þess hvernig aðstæðum öllum var háttað, að honum hafi mátt vera ljós hætta sem stafaði af því að fara upp á vegginn með fjarstýringu steypudælukranans í höndunum. Þá verður ekki annað séð en að stefnandi hafi sjálfur ráðið því hvernig staðið yrði að því verki sem hann átti að vinna. Hafi hann talið að hann gæti ekki framkvæmt verk sitt án þess að setja sjálfan sig í hættu gat hann með réttu gert kröfu til þess að úr yrði bætt, en ella neitað að vinna það. Að því marki sem hér skiptir máli laut stefnandi þannig ekki verkstjórnarvaldi stefnda eða starfsmanna félagsins. Er og ekkert komið fram í málinu sem virða má á þann veg að stefnandi hafi fengið um það fyrirmæli frá starfsmanni stefnda að hann ætti að fara upp á vegginn og stjórna steypudælingu þaðan. Þá er fallist á það með stefnda að engin efni séu til að líta svo á að slysið verði rakið til þess að skort hafi á öryggisráðstafanir af hálfu stefnda á vinnusvæðinu, enda undir það tekið að ekki hafi verið skylt að verja steypustyrktarjárn á þeim stað sem slysið varð, það er á vegg sem ekki tilheyrði umferðarleið um vinnusvæðið. Breytir í því sambandi engu þótt starfsmenn stefnda hafi þurft að athafna sig á veggnum meðan þeir voru að komu dúknum, sem áður er nefndur, fyrir þar.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að ekki séu efni til að fella ábyrgð á slysi stefnanda á stefnda. Verður stefnandi þannig sjálfur að bera ábyrgð á því hvernig til tókst í umrætt sinn. Er stefndi samkvæmt þessu sýknaður af kröfu stefnanda um skaðabætur, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Hávirki sf., á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Sverris Karlssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur.