Hæstiréttur íslands

Mál nr. 635/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Haldlagning


                                     

Miðvikudaginn 2. október 2013.

Nr. 635/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Leifur Runólfsson hdl.)

Kærumál. Haldlagning

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að haldlagningu lögreglustjóra á fjármunum og skjölum yrði aflétt. Vísað var til þess að lögreglustjóri hefði til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot sem beindist meðal annars að þætti X í því, en rannsóknin var tilefni þess að hald var lagt á peninga og ýmsa muni sem fundust við húsleit á heimili X. Talið var að fullnægt væri skilyrðum til haldlagningar samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og þar sem rannsókn málsins væri umfangsmikil og hvergi nærri lokið væru ekki skilyrði til að fella haldlagninguna niður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2013 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að haldlagningu sóknaraðila á fjármunum og skjölum verði aflétt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sóknaraðila gert að afhenda sér hina haldlögðu muni.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili hefur til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot og beinist rannsóknin meðal annars að þætti varnaraðila í því. Rannsóknin var tilefni þess að hald var lagt á peninga og ýmsa muni sem fundust við húsleit 27. ágúst 2013 á heimili varnaraðila að [...] í [...]. Af gögnum málsins er ljóst að fullnægt var skilyrðum 1. málsliðar 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 til haldlagningarinnar. Rannsókn málsins sem er umfangsmikil er hvergi lokið og eru samkvæmt því ekki skilyrði til að fella haldlagninguna niður. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2013.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur 19. september sl., með bréfi sóknaraðila sama dag. Málið var þingfest 25. september og tekið til úrskurðar sama dag.

Sóknaraðili er X, kt. [...] til heimilis að [...] í [...]. Varnaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.

Sóknaraðili krefst þess að haldlagningu lögreglunnar á fjármunum og skjölum, sem gerð var í kjölfar húsleitar verði aflétt og að þeir fjármunir og skjöl sem lagt var hald á verði afhent sóknaraðila nú þegar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Málsatvik eru þau að þann 27. ágúst sl. gerði lögreglan húsleit í fasteign í [...] í [...], sem sóknaraðili hefur á leigu og á heimili hans að [...]. Við húsleit fundust Kannabisplöntur. Að sögn varnaraðila fundust 460 plöntur og tæplega 12 kíló af plöntuhlutum í þurrkun. Við húsleitina fundust einnig 3.153.000 kr. peningar og skjöl í læstu öryggishólfi á heimili sóknaraðila sem lagt var hald á.

Sóknaraðili krefst þess að umræddum peningum og skjölum verði skilað nú þegar. Kröfu sína hefur hann lagt fyrir héraðsdóm með vísan til 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að vilji eigandi eða vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, ekki hlíta þeirri ákvörðun geti hann þá borið ágreiningsefnið undir dómara. Krafa um að aflétta halda frestar því þó ekki. Byggir hann kröfu sína á því að haldlagning sé óþörf og ólögmæt. Hvað skjölin varði, þá séu rannsóknarhagmunir lögreglu tryggðir með því að hún ljósriti gögnin og afhendi sóknaraðila frumrit gagnanna. Hvað peningana varðar, þá sé fé þetta í eigu sóknaraðila, eiginkonu hans og sona, og þeirra og þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Sóknaraðili kveður haldlagða fjármuni vera sparifé ofangreindra aðila sem þau hafi safnað á lögnum tíma. Til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni leggur hann fram gögn um úttekt af 9 bankareikningum í eigu þessara aðila sem sýna að þau hafi tekið út af reikningum sínum, á tímabilinu frá því um mitt ár 2012 þar til í ágúst á þessu ári, fjárhæð sem samanlagt nemi hærri fjárhæð en sú sem lagt var hald á. Stærstur hluti þess fjár hafi verið geymdur í öryggishólfinu. Engar vísbendingar séu um að fjármunir þessir stafi frá ólöglegri starfsemi og ekkert tilefni verði til að gera þá upptæka. Sóknaraðili kveður varnaraðila bera sönnunarbyrðina fyrir því fullyrðingu um annað og verði að bera hallan af því að engin slík sönnun liggi fyrir í málinu.

Varnaraðili mótmælir framkominni kröfu sóknaraðila og krefst þess að ekki verði hróflað við haldlagningu. Kveður hann rannsókn málsins í fullum gangi og rannsóknargögn gefi lögreglu fullt tilefni til að hafa áfram umrædda fjármuni og skjöl haldlagða og ekki sé enn kominn sá tími að aflétta skuli haldlagningu skv. 72. gr. laga nr. 88/2008. Kveður varnaraðili uppruna fjármuna óljósa og bendir á að aðrir sakborningar í málinu sem eru til rannsóknar, þ.e. synir sóknaraðila, hafi neitað að tjá sig um það hvaðan féð komi.

Niðurstaða

Heimild lögreglu til að leggja hald á muni er að finna í 68. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þar sem segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. er lögreglu heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar og nema ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi við. Í 72. gr. laganna segir að aflétta skuli haldi þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið nema ákvæði a- til c-liðar 1. mgr. greinarinnar eigi við.

Eðli málsins samkvæmt er ekki gerð sú krafa til lögreglunnar í upphafi rannsóknar að hún leggi fram sönnun þess að haldlagðir muni hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir muni verða gerðir upptækir. Nægir í þessu efni að lögmælt tilefni sé til rannsóknar og grunur sé til staðar hvað þessi atriði varðar. Skerðir rannsóknarheimild lögreglunnar vissulega persónulega friðhelgi manna og verður heimildinni því ekki beitt nema gætt sé meðalhófs og rannsókn máls sé forsvaranleg að öðru leyti. Til að vega upp á móti þeim óþægindum og mögulegu tjóni sem menn geta orðið fyrir vegna íþyngjandi ákvarðana lögreglu eru rúm ákvæði um skaðabætur vegna meðferðar sakamála í XXXVII. kafla laganna.

Í máli því sem var tilefni haldlagningar sem hér er deilt um er til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot. Auk peninga og skjala var lagt hald á mikið magn fíkniefna og mikið af tækjum til framleiðslu þeirra. Framburður sóknaraðila um uppruna fjármunanna fær ekki stoð í framburði annarra sakborninga og af gögnum sem sóknaraðili lagði fram fyrir dómi verður engin áreiðanleg ályktun dregin um þetta atriði. Þá hafa aðrir sakborningar í málinu neitað að tjá sig um þessa fjármuni eða segjast ekkert um þá vita. Loks liggur fyrir að skammur tími er liðinn frá því rannsókn málsins hófst, margir aðilar sem tengjast málinu og skýrslutökur tímafrekar ekki síst í ljósi þess hve ruglingslegur framburður aðila er. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að þau skilyrði séu fyrir hendi til að aflétta haldlagningu.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, X, um að haldlagningu lögreglunnar á fjármunum og skjölum verði aflétt er hafnað.