Hæstiréttur íslands
Mál nr. 298/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Skaðabætur
- Frávísunarúrskurður staðfestur að hluta
|
Fimmtudaginn 11. júní 2009. |
|
|
Nr. 298/2009. |
Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag(Kristinn Brynjólfsson framkvæmdastjóri) gegn VBS Fjárfestingabanka hf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Skaðabætur. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur að hluta.
M höfðaði mál fyrir héraðsdómi og var aðalkrafa hans tvíþætt. Annars vegar krafðist hann viðurkenningar á að „ranglega hafi verið staðið að nauðungarsölu“ fasteignar í sinni eigu og hins vegar skaðabóta auk dráttarvaxta vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna þess sem aflaga hafi farið við nauðungarsöluna. Til vara krafðist hann þess að eftirstöðvar vegna skuldabréfa sem tryggðar voru með veðrétti í eignunum, yrði færðar niður um tiltekna fjárhæð. Málinu var vísað frá héraðsdómi og var sá úrskurður kærður. Í dómi Hæstaréttar segir að fyrri hluti aðalkröfu M feli aðeins í sér málsástæðu fyrir síðari hluta hennar og hafi M því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá sérstakan viðurkenningardóm um hana. Var henni því vísað frá dómi með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Hæstiréttur taldi hins vegar síðari aðalkröfuna, um greiðslu skaðabóta og dráttavaxta, nægilega rökstudda og reifaða til þess að unnt væri að leggja dóm á hana. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er varðaði síðari aðalkröfu M. Þá staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms um frávísun varakröfu M, varðandi framkvæmd nauðungarsölunnar og úthlutun söluverð, með vísan til 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila og Kristins Brynjólfssonar stjórnarformanns og framkvæmdastjóra sóknaraðila.
Kröfum sóknaraðila í máli því sem vísað var frá héraðsdómi er lýst í hinum kærða úrskurði. Aðalkrafa hans er tvíþætt. Annars vegar krefst hann viðurkenningar á að „ranglega hafi verið staðið að nauðungarsölu“ tveggja eignarhluta með tilgreindum fastanúmerum 18. september 2007. Nægilega er ljóst að fasteignarhlutar þessir eru að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Hins vegar krefst hann skaðabóta auk dráttarvaxta vegna fjártjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess sem aflaga hafi farið við nauðungarsöluna. Ljóst er að fyrri hluti kröfunnar felur aðeins í sér málsástæðu fyrir síðari hluta hennar. Sóknaraðili hefur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá sérstakan viðurkenningardóm um hana. Verður því með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa fyrri hluta aðalkröfu sóknaraðila frá dómi.
Í hinum kærða úrskurði er atvikum lýst sem og fyrri tilraunum sóknaraðila til að hafa uppi kröfur á hendur varnaraðila í tilefni nauðungarsölunnar 18. september 2007. Um heimild fyrir síðari hluta aðalkröfu sinnar nú kveðst sóknaraðili vísa til 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Af málatilbúnaði hans er ljóst að hann telur varnaraðila hafa valdið sér tjóni með ólögmætum hætti með því að hafa lýst of hárri kröfu við nauðungarsöluna og ekki verið fús til að gefa upp rétta kröfufjárhæð. Þannig hafi sér verið gert ómögulegt að afstýra nauðungarsölunni með greiðslu kröfunnar. Fjárhæð kröfu sinnar byggir hann á því sem hann telur vera mismun á söluverði eignarhlutanna er varnaraðili keypti þá við nauðungarsöluna og matsverði sem hann hefur gert grein fyrir. Krafan er nægilega rökstudd og reifuð til þess að unnt sé að leggja dóm á hana. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi að því er þessa kröfu varðar og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnislegrar úrlausnar.
Fallist verður á með héraðsdómi að varakrafa sóknaraðila varði framkvæmd nauðungarsölunnar og úthlutun söluverðs, en um þau atriði verður ekki dæmt á grundvelli nefndrar heimildar í 3. mgr. 80 gr. laga nr. 90/1991. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur um varakröfu sóknaraðila.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um frávísun á fyrri hluta aðalkröfu og varakröfu sóknaraðila, Miðstöðvarinnar ehf. eignarhaldsfélags, frá dómi.
Lagt er fyrir héraðsdóm að taka til efnisúrlausnar síðari hluta aðalkröfu sóknaraðila.
Varnaraðili, VBS Fjárfestingabanki hf., greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15 apríl sl., er höfðað 25. september 2008.
Stefnandi er Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, Lágabergi 1, Reykjavík.
Stefndi er VBS Fjárfestingarbanki hf., Borgartúni 26, Reykjavík
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að staðfest verði með dómi að ranglega hafi verið staðið að nauðungarsölu eignarhluta með fastanúmer 204-3313 og 225-8525 hinn 18. september 2007 og að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 58.796.000 krónur auk dráttarvaxta frá 18. september 2007 til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að eftirstöðvar kröfu vegna veðskuldabréfa sem tryggðar voru með veði í l., 2. og 3. veðrétti framangreindra fasteigna, verði færðar niður um 22.600.000 krónur miðað við 18. september 2007.
Þá er og krafist málskostnaðar að mati dómsins auk 24,5% virðisaukaskatts.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að dómkröfur verði lækkaðar verulega.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð málsins og beri málskostnaðarfjárhæðin dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags.
Jafnframt er þess krafist að umboðsmaður stefnanda, Kristinn Brynjólfsson, verði dæmdur persónulega til greiðslu kostnaðar vegna tilefnislausrar málssóknar.
Hinn 15. apríl sl. fór fram munnlegur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér. Gerir stefndi þær kröfur að málinu verði vísað frá dómi og honum verði úrskurðaður málskostnaður. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og málið verði tekið til efnismeðferðar. Krefst hann málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að mál þetta sé til komið vegna vaxtalausra skammtímaskuldabréfa, útgefnum af VBS Fjárfestingarbanka og samþykktum til greiðslu af fyrri eiganda viðkomandi fasteigna að Rafstöðvarvegi 1a vegna fjármögnunar endurbóta á þeim. Bréfin hafi samtals verið að fjárhæð 252.000.000 króna að nafnvirði með krossveði í 7 eignarhlutum á 1., 2. og 3. veðrétti. Skipting milli veðrétta hafi verið þannig að á 1. veðrétti hvíldu 32 handhafaskuldabréf, hvert að fjárhæð 5.000.000 króna, útgefin þann 1. mars 2006, á 2. veðrétti hvíldu 10 handhafaskuldabréf, hvert að fjárhæð 5.000.000 króna, útgefin þann 5. október 2005 og á 3. veðrétti hvíldu 14 handhafaskuldabréf, hvert að fjárhæð 3.000.000 króna, útgefin þann 30. júní 2006. Bréfin hafi öll verið vaxtalaus og með sama gjalddaga, þann 1. september 2006.
Þann 18. apríl 2007 hafi eignarhlutar með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 verið seldir nauðungarsölu og hafi boði stefnda/uppboðsbeiðanda verið tekið. Söluverð eignarhluta 225-8524 hafi verið 44.800.000 krónur, eignarhluta 225-8526 44.800.000 krónur, eignarhluta 225-8527 44.800.000 krónur og eignarhluta 225-8528 90.000.000 króna eða samtals 224.400.000 krónur.
Samkvæmt úthlutunarfrumvarpi sýslumannsins í Reykjavík, dags 14. ágúst 2007, greiddust 191.989.893 krónur vegna bréfa á 1. veðrétti og 29.869.109 krónur upp í kröfu vegna bréfa á 2. veðrétti eða samtals 221.859.002 krónur.
Málið sem þessi krafa lúti að sé til komið vegna framhaldssölu eignarhluta með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525, sem fram hafi farið 18. september 2007, og hafi verið hluti af veðandlagi framangreindra skuldabréfa. Við byrjun uppboðs, sem fram hafi farið þann 22. ágúst 2007, hafi legið til grundvallar rangar kröfur þar sem ekki hafi verið tekið tillit til framangreinds úthlutunarfrumvarps sýslumannsins í Reykjavík vegna sölu eignarhluta með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 þann 18. apríl 2007, en samkvæmt því hafi 221.859.002 krónur greiðst upp í kröfuna.
Með rangri kröfugerð og synjun lögmanns varnaraðila um að upplýsa gerðarþola/sóknaraðila um eftirstöðvar kröfunnar hafi verið komið í veg fyrir möguleika hans á að koma í veg fyrir framhaldssölu með uppgjöri eftirstöðva.
Til stuðnings framangreindu sé nauðsynlegt að bera saman kröfulýsingar stefnda (uppboðsbeiðanda/uppboðskaupa) í söluandvirðið, sem lagðar hafi verið fram við framhaldssölu, annars vegar þann 18. apríl 2007 og hins vegar 18. september 2007.
Kröfulýsingar stefnda (uppboðsbeiðanda/uppboðskaupa), lagðar fram þann 18. apríl 2007, daginn sem sala á eignarhlutum með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 fór fram, hafi verið eftirfarandi:
|
1. veðréttur |
2. veðréttur |
3. veðréttur |
|
|
Höfuðstóll, gjaldfelldur |
160.000.000 |
50.000.000 |
42.000.000 |
|
Dráttarvextir til 18.04.2007 |
24.422.219 |
7.631.943 |
6.410.832 |
|
Málskostnaður |
6.029.318 |
2.225.610 |
1.948.977 |
|
Gagnaöflunargjald |
2.025 |
2.025 |
2.025 |
|
Birting greiðsluáskorunar |
3.000 |
3.000 |
3.000 |
|
Uppboðsbeiðni |
5.890 |
5.890 |
5.890 |
|
Kostnaður vegna uppboðs |
38.500 |
44.625 |
38.500 |
|
Kröfulýsing |
6.125 |
6.125 |
6.125 |
|
Vextir af kostnaði |
2.193 |
2.214 |
2.214 |
|
Virðisaukaskattur |
1.480.623 |
550.215 |
480.939 |
|
Samtals kr. |
191.989.893 |
60.471.647 |
50.898.502 |
Við seinni nauðungarsöluna, þann 18. september, á eignarhlutum með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525, sem krafa þessi lúti að, hafi kröfulýsing stefnda (uppboðsbeiðanda/uppboðskaupa) hins vegar verið eftirfarandi:
|
1. veðréttur |
2. veðréttur |
3. Veðréttur |
|
|
Höfuðstóll, gjaldfelldur |
160.000.000 |
50.000.000 |
42.000.000 |
|
Dráttarvextir til 18.09.2007 |
41.551.652 |
12.984.891 |
10.907.309 |
|
Málskostnaður |
6.543.201 |
2.386.199 |
2.083.871 |
|
Gagnaöflunargjald |
2.025 |
2.025 |
2.025 |
|
Birting greiðsluáskorunar |
3.000 |
3.000 |
3.000 |
|
Uppboðsbeiðni |
5.890 |
5.890 |
5.890 |
|
Kostnaður vegna uppboðs |
44.625 |
44.625 |
44.625 |
|
Kröfulýsing |
6.125 |
6.125 |
6.125 |
|
Vextir af kostnaði |
6.893 |
8.003 |
7.365 |
|
Virðisaukaskattur |
1.608.025 |
589.560 |
515.489 |
|
Samtals kr. |
209.768.435 |
66.030.318 |
55.575.699 |
Af þessu sjáist að ekki sé tekið tillit til ráðstöfunar söluandvirðis eignanna frá 18. apríl 2007, en stefndi hafi sjálfur eignast þær með kaupum á uppboðinu og tekið við þeim samkvæmt formlegri yfirlýsingu sýslumannsins í Reykjavík, dags. 20. júní 2007, þar sem fram komi að greiðsla hafi verið innt af hendi og stefnda (uppboðskaupa) veitt yfirráð yfir eigninni.
Því sé haldið fram af stefnanda að stefndi hafi með ásetningi komið í veg fyrir að stefnandi gæti greitt upp skuldina og knúið þannig fram uppboð þar sem um verðmætan hluta eignarinnar í heild hafi verið að ræða. Eftirfarandi sé frekari rökstuðningur fyrir þeirri fullyrðingu:
1) Við byrjun uppboðs framangreindra eignarhluta, hinn 22. ágúst 2007, hafi verið ljóst að stefnda hafði verið úthlutað 191.989.893 krónur vegna bréfa á 1. veðrétti og 29.869.109 krónur upp í kröfu vegna bréfa á 2. veðrétti eða samtals 221.859.002 krónur. Hins vegar hafi stefnanda (gerðarþola) ekki verið kynnt raunveruleg krafa stefnda (uppboðsbeiðanda) þar sem eingöngu hafi verið byggt á nauðungarsölubeiðnum frá 15. febrúar 2007. Engin ný gögn hafi leigð frammi og ekki hafi verið tekið tillit til mótmæla gerðarþola/stefnanda þar að lútandi. Óvissan hafi því verið algjör. Kröfu stefnanda (gerðarþola) um að framhaldssölu yrði frestað þar til fyrir lægi hver skuldin raunverulega væri hafi jafnframt verið hafnað en stefnandi hafi margítrekað óskað eftir útreikningum gerðarbeiðanda til uppgjörs skuldarinnar en án árangurs, eins og sjá megi af framlögðum tölvupóstsamskiptum og afriti af skeyti, mótteknu af umboðsmanni varnaraðila þann 13. ágúst 2007.
2) Þar sem ekki hafi verið vitað um hvaða kröfufjárhæð væri raunverulega að ræða hafi verið útilokað að grípa til úrræða skuldara til greiðslu á geymslufé samkvæmt heimild í lögum nr. 9/1978 til að firra sig vanefndaúrræðum kröfuhafa. Það hafi ekki verið fyrr en við sjálfa framhaldssöluna, hinn 18. september 2007, þegar nýjar kröfulýsingar voru lagðar fram, að fjárhæðin sem í raun hefði þurft að greiða til að hægt væri að koma í veg fyrir uppboð hafi komið í ljós. Kröfulýsingarnar hafi ekki tekið mið af því sem áður hafði verið ráðstafað. Þær hafi samtals verið að fjárhæð 331.374.452 krónur og eignirnar hafi verið seldar varnaraðila á 67.000.000 króna sem hafi verið 22.600.000 krónum undir meðalsöluverði hinna eignarhlutanna.
3) Í þessu sambandi þurfi sérstaklega að hafa í huga að stefndi hafði sjálfur eignast aðra hluta bygginganna sem voru veðsettir til tryggingar skuldinni. Hann hafi staðið skil á kaupverði til sýslumanns án athugasemda eftir 8 vikna samþykkisfrest og fengið hjá honum yfirlýsingu um umráð yfir eignunum. Þar að auki hafi hann látið skipta um læsingar og tekið þannig við þeim formlega.
4) Framhaldssalan, hinn 18. september 2007, hafi farið fram þótt ekki væri ljóst hver réttmæt kröfufjárhæð væri. Tilgreining á kröfu sem ekki hafi verið rétt hafi unnið gegn hagsmunum stefnanda (gerðarþola) og hafi útilokað möguleika hans til að greiða skuldina og koma í veg fyrir nauðungarsölu og það tjón sem af henni hlaust. Sýslumaður hafi vísað mótmælum gerðarþola á bug og engin bókun hafi verið gerð við framhaldssöluna að þessu leyti.
Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið hafi verið alvarlegir meinbugir á framhaldssölunni hinn 18. september 2007 og hafi sýslumaðurinn í Reykjavík ekki farið eftir skýlausum ákvæðum 3. tl. 2.mgr. 31.gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Í 80. gr. sömu laga sé kveðið á um rétt þess sem á lögvarinna hagsmuna að gæta, að leita úrskurðar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar innan 4 vikna frá lokum uppboðs og hafi það verið gert af hálfu stefnanda/gerðarþola í málinu Z-3/2007. Málinu hafi verið vísað frá dómi með úrskurði sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. febrúar 2008. Niðurstaða héraðsdóms um frávísun vegna vanreifunar hafi verið staðfest í Hæstarétti miðvikudaginn 16. apríl 2008. Málið hafi verið höfðað að nýju með ítarlegum rökstuðningi og hafi það verið þingfest 26. apríl síðastliðinn. Því hafi hins vegar verið vísað frá að nýju með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 3. júlí síðastliðinn á þeirri forsendu að frestur til að bera það undir héraðsdóm samkvæmt nauðungarsölulögum nr. 90/1991 hafi verið liðinn. Úrskurður Héraðsdóms, hafi enn á ný verið kærður til Hæstaréttar sem staðfest hafi úrskurðinn þriðjudaginn 2. september 2008.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi telur að ekki séu frekari lagaforsendur til ógildingar nauðungarsölunni og muni hún því standa. Það liggi hins vegar fyrir að samkvæmt 3. málsgrein 80. gr laga nr. 90/1991 sé heimild til að hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu á öðrum vettvangi, en þar segi orðrétt:
„Ákvæði 1. og 2. mgr. breyta því ekki að annars má hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu sem byggist á því að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu eða ranglega hafi verið staðið að henni.“
Í athugasemdum við framangreinda málsgrein laga um nauðungarsölu, sem hér sé vísað í, segi jafnframt orðrétt:
„Hins vegar kemur fram í 3. mgr. 80. gr. að þótt frestur til að leita dómsúrlausnar skv. XIV. kafla yrði liðinn, þá útiloki það ekki að hafa megi uppi bótakröfu eða greiðslukröfu af öðrum toga, sem væri leidd af annmörkum nauðungarsölu á öðrum vettvangi. Þessi regla felur í sér að ógildingar verði ekki leitað á nauðungarsölu eða einstökum atriðum hennar með öðrum hætti en í máli eftir XIV kafla frumvarpsins og að þau málalok verði þar með ekki fengin með annars konar málsókn. Á hinn bóginn útiloki þetta engan veginn að sá sem teldi hagsmunum sínum raskað með ólögmætum hætti af nauðungarsölu, leitist við að rétta hlut sinn með því að sækja peningakröfu í máli eftir almennum reglum. Þessi regla hefði til dæmis í för með sér að gerðarþoli, sem teldi gerðarbeiðanda hafa knúið fram nauðungarsölu til að fá fullnægt ólögmætri kröfu, gæti látið hjá líða að krefjast ógildingar á nauðungarsölunni með máli skv. XIV. kafla frumvarpsins, en höfðað þess í stað almennt einkamál á hendur gerðarbeiðandanum til heimtu skaðabóta vegna tjóns síns af nauðungarsölunni. Er enginn frestur settur í 80 gr. til að höfða slíkt mál.“
Af þessu megi ráða að framangreindu lagaákvæði sé ætlað að koma í veg fyrir óréttláta málsniðurstöðu og tryggja gerðarþola að minnsta kosti rétt til bóta ef ekki reynist unnt að fá efnislega umfjöllun um ógildingu nauðungarsölu vegna þess að frestur til þess hafi runnið út, eins og gerst hafi í þessu máli.
Það sé alveg ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna ólögmætrar nauðungarsölu eignarhlutanna. Fyrir liggi verð- og leigumat, unnið af Stefáni Páli Jónssyni, löggiltum fasteigna- fyrirtækja- og skipasala, hinn 8. mars 2007. Þar komi jafnframt fram lýsing á frágangi eignanna sem séu forsendur matsins, en eignarhluti 225-8525 hafi nánast verið fullbúinn samkvæmt lýsingunni. Verðmat hvors eignarhluta fyrir sig hafi verið 64.298.000 krónur eða samtals 128.596.000 krónur. Raunhæfar leigutekjur samkvæmt verðmatinu hafi verið metnar 2.250 krónur pr. fermeter eða samtals 1.031.400 krónur á mánuði fyrir báða eignarhluta. Áætlaður kostnaður við að fullklára eignarhlutana, ásamt hlutfallslegum kostnaði við frágang lóðar í samræmi við lýsingu í verðmati, hafi verið 1.400.000 krónur fyrir eignarhluta 225-8525 en 3.400.000 krónur fyrir eignarhluta 204-3313.
Aðalkrafan um skaðabætur taki mið af því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem nemi að lágmarki mismun á nauðungarsöluverði og matsverði eignanna að frádregnum kostnaði við að ljúka frágangi, samkvæmt kostnaðaráætlun, í samræmi við forsendur verðmatsins. Þá sé ekki litið til taps vegna glataðs arðs í formi leigutekna. Útreikningur á fjárhæð aðalkröfu sé því eftirfarandi:
|
Samanlagt matsverð eignarhlutanna |
128.596.000 |
|
Kostnaður við lokafrágang |
-4.800.000 |
|
Samanlagt nauðungarsöluverð eignarhlutanna |
-67.000.000 |
|
Aðalkrafa samtals kr. |
56.796.000 |
Þá sé jafnframt ljóst að annað réttarúrræði stefnanda/tjónþola lúti að ákvæðum 57. gr. nauðungarsölulaga þar sem kveðið sé á um að heimilt sé að krefjast þess að eftirstöðvar kröfu verði færðar niður um þá fjárhæð sem nemi mismun á söluverði og þess sem þyki sýnt að hafi verið markaðsverð eignar við samþykki boðs en þar segi m.a. orðrétt:
„Nú hefur einhver sá sem hefur notið réttinda yfir eigninni gerst kaupandi að henni við nauðungarsölu án þess að réttindum hans hafi verið fullnægt með öllu af söluverðinu og hann krefur síðan gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem stendur eftir af skuldbindingunni. Getur þá sá sem kröfunni er beint að krafist þess að hún verði færð niður um fjárhæð sem nemur mismun á því verði sem eignin var seld fyrir og því sem þykir sýnt að hafi verið markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs miðað við þau greiðslukjör sem eignin var seld gegn “.
Það liggi fyrir að umræddir eignarhlutar hafi verið seldir á verði sem var langt undir markaðsverði við samþykki boðs. Í því sambandi nægi að líta til þess verðs sem stefndi hafi greitt fyrir sambærilega og jafnstóra eignarhluta í sömu byggingu við nauðungarsölu þeirra, hinn 18. apríl 2007, en söluverð eignarhluta 225-8524 hafi verið 44.800.000 krónur, eignarhluta 225-8526 44.800.000 krónur og eignarhluta 225-8527 44.800.000 krónur. Eins og fram hafi komið hafi þeir eignarhlutar, sem má1 þetta snúist um, nánast verið fullbúnir en eignarhlutarnir sem stefndi hafi keypt á 44.800.000 krónur þann 18. apríl hafi sumir verið mun skemmra komnir. Kaupverð stefnda á eignarhlutum 204-3313 og 225-8525, hinn 18. september 2007, hafi hins vegar verið 31.000.000 króna fyrir eignarhluta 204-3314 og 36.000.000 króna fyrir eignarhluta 225-8524 eða samtals 67.000.000 króna, Fjárhæð varakröfu sé því reiknuð út á eftirfarandi hátt:
|
Nauðungarsöluverð 18.04.07, kr. 48.000.000 x 2 |
89.600.000 |
|
Samanlagt nauðungarsöluver 18.09.07, kr. |
67.000.000 |
|
Varakrafa samtals kr. |
22.600.000 |
Kröfunni til stuðnings sé vísað í lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lög um nauðungarsö1u. nr. 90/1991, einkum 53. og 80. gr. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt ofan á málskostnað styðst við lög nr. 50/1988 en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að kjarni kröfugerðar stefnanda sé andstæður 25. gr. eml. þar sem hún feli í sér sjálfstæða lögspurningu.
Í öðru lagi er krafist frávísunar á þeim grunni að málið sé verulega vanreifað af hálfu stefnanda. Kröfurnar virðast fremur eiga að beinast að sýslumanni en stefnda, þó það sé raunar fremur sýknuástæða en komi þó allt að einu til skoðunar sem frávísunarástæða þegar aðildin sé svo óljós. Þá sé skaðabótagrundvöllurinn fullkomlega óljós sem og bótafjárhæðir sem stefnandi krefur um. Allt leggist þetta á eitt að mati stefnda með þeim hætti að málið sé ódómtækt eins og það liggi fyrir. Stefndi vísar m.a. til 80. gr. eml. í því sambandi.
Í þriðja lagi telur stefndi að vísa beri máli þessu frá þar sem stefnandi hafi þegar látið reyna á þau álitaefni sem hér séu til meðferðar og vísi hann í því sambandi til héraðsdómsmálsins nr. Z-3/2007 hér fyrir réttinum. Stefnandi hafi raunar tvisvar látið reyna á sama málið bæði fyrri héraði og Hæstarétti, en án árangurs í bæði skiptin. Þó vissulega sé fyrir hendi, í sérstökum tilvikum, heimild í nauðungarsölulögum að bera mál sjálfstætt undir dómstóla, þ.e. utan við hefðbundnar kæruleiðir laganna, hljóti að verða að skýra þær heimildir þröngt, m.a. með hliðsjón af meginreglu réttarfarsins um res judicata.
Niðurstaða
Eins og rakið er hér að framan höfðaði stefnandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á nauðungarsölu sömu fasteignarhluta og mál þetta snýst um, eða fasteignahluta með fastanr. 204-3313 og 225-8525 við Rafstöðvarveg 1a í Reykjavík.
Í úrskurði héraðsdóms segir m.a. um málatilbúnað sóknaraðila að ekki verði greint með skýrum hætti milli málsatvika og málsástæðna sem krafan byggist á Meginmálsástæða sóknaraðila virðist vera sú að með markvissum hætti hafi verið komið í veg fyrir að sóknaraðili fengi að greiða skuldina og nauðungarsala knúin fram. Vanreifað sé hvort greiðslugeta hafi verið fyrir hendi eða greiðsla fram boðin. Einnig sé vanreifað að þær málsástæður sem á sé byggt geti leitt til þeirrar niðurstöðu sem krafist sé. Þótti málatilbúnaður sóknaraðila brjóta í bága við meginreglur einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað og var málinu vísað frá dómi. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands 16. Apríl 2008.
Stefnandi hefur nú aftur höfðað mál vegna nauðungarsölu á þeim fasteignarhlutum sem að framan getur. Virðist stefnandi nú byggja kröfur sínar á 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991.
Í 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 segir að ákvæði 1. og 2. mgr., sem fjalla um fresti til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, breyti því ekki að annars megi hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu sem byggist á því að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu eða ranglega að henni staðið. Í athugasemdum með greininni kemur hins vegar skýrt fram að þessi regla feli í sér að ógildingar verði ekki leitað á nauðungarsölu eða einstökum atriðum hennar með öðrum hætti en í máli eftir XIV. kafla laganna og að þau málalok verði þar með ekki fengin með annars konar málssókn. Segir í athugasemdunum að þessi regla hefði til dæmis í för með sér að gerðarþoli, sem teldi gerðarbeiðanda hafa knúið fram nauðungarsölu til að fá fullnægt ólögmætri kröfu, gæti látið hjá líða að krefjast ógildingar á nauðungarsölunni með máli samkvæmt XIV. kafla laganna en höfðað í þess stað almennt einkamál á hendur gerðarbeiðandanum til heimtu skaðabóta vegna tjóns síns af nauðungarsölunni.
Fyrir liggur að nauðungarsala fór fram 18. apríl 2007. Eins og fram kemur í athugasemdum með 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/199, sem raktar eru hér að framan, kemur skýrt fram að ákvæði 3. gr. 80. gr. feli í sér að ógildingar verði ekki leitað á nauðungarsölu eða einstökum atriðum hennar með öðrum hætti en í máli eftir XIV. kafla laganna og að þau málalok verði þar með ekki fengin með annars konar málssókn. Ljóst er að frestur til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi umræddrar nauðungarsölu eru löngu liðinn sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og í máli því sem hér að framan er rakið snýr málatilbúnaður stefnanda í þessu máli aðallega að framkvæmd og uppgjöri vegna nauðungarsölunnar og því að stefndi hafi komið í veg fyrir að stefnandi gæti greitt upp skuldina og knúið þannig fram uppboð þar sem um verðamætan hluta eignarinnar í heild væri að ræða. Lýsir hann þeirri skoðun sinni að eignarhlutarnir hafi verið seldir á verði sem var langt undir markaðsverði við samþykki boðs. Frestur til að leita úrlausnar dómsins um slík atriði er liðinn, sbr. það sem áður er rakið og ber því að vísa fyrri hluta aðalkröfu og varakröfu frá dómi af þeim sökum.
Í ljósi yfirlýsingar stefnanda í greinargerð sinni um að ekki séu lagaforsendur til ógildingar nauðungarsölunni og hún muni því standa, er fyrri hluti aðalkröfu hans óskiljanlegur. Er því um lögspurningu að ræða sem vísa ber frá dómi samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá er varakrafa stefnanda einnig óskiljanleg í þessu sambandi þar sem hún snertir framkvæmd nauðungarsölu sem stefnandi telur að standi, sbr. það sem áður segir.
Skaðabótakrafa stefnanda er með öllu órökstudd. Hvorki er gerð grein fyrir bótagrundvelli né gerð grein fyrir bótafjárhæðinni sem slíkri. Málatilbúnaður stefnanda er mótsagnakenndur og ruglingslegur. Þá eru dómkröfur í engu samræmi við málsástæður. Telst málið ódómtækt í þeim búningi sem það er og ber að vísa því frá dómi í heild sinni.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað. Ekki þykja efni til þess að dæma fyrirsvarsmann stefnanda, Kristinn Brynjólfsson, persónulega til greiðslu málskostnaðar.
Kristjana Jónddóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði stefnda, VBS Fjárfestingarbanka hf., 150.000 krónur í málskostnað.