Hæstiréttur íslands

Mál nr. 759/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


                                              

Fimmtudaginn 3. janúar 2013.

Nr. 759/2012.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanns

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Litháen var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 14. ágúst sama ár um að framselja varnaraðila til Litháen. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. 

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

            Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

            Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012.

Málið var tekið til úrskurðar 14. desember sl.  Það barst dóminum með bréfi ríkissaksóknara 16. nóvember sl.  Ríkissaksóknari verður hér eftir nefndur sóknaraðili.

Málavextir eru þeir að innanríkisráðherra ákvað 14. ágúst sl. að fallast á beiðni dómsmálayfirvalda í Litháen um að framselja X litháískan ríkisborgara, sem sætir farbanni hér á landi og hér eftir verður nefndur varnaraðili, til Litháens.  Varnaraðila var kynnt þessi ákvörðun 21. september sl. og sama dag krafðist hann úrskurðar dómsins um hana.  Í gögnum málsins kemur fram að beiðni litháískra yfirvalda er gerð í krafti handtökuskipunar héraðsdóms í Klaipeda, 21. júlí 2010, og að beiðnin hefur borist íslenskum yfirvöldum eftir diplómatískum leiðum.  Sakarefninu er allítarlega lýst í gögnum málsins og vísast um það til málsreifunar aðilanna hér á eftir.  Verður ekki annað ráðið af gögnunum en að varnaraðili sé undir rökstuddum grun, sem uppfylli grunnreglur íslenskra laga, um að hafa framið það athæfi sem framsalsbeiðni yfirvalda í Litháen er reist á.

Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun innanríkisráðherra verði staðfest.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Sóknaraðili gerir þá grein fyrir málavöxtum að lögreglan í Klaipeda-borg hafi nú til rannsóknar mál þar sem varnaraðili er grunaður um brot gegn 1. mgr. 182. gr., 1. mgr. 183. gr. 1. mgr. 214. gr. og 1. mgr. 215. gr. litháenskra hegningarlaga. Sé hann grunaður um auðgunarbrot í þremur tilvikum, framin í starfi hans sem framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins A.  Í fyrsta lagi með því að hafa þann 25. mars 2008 dregið sér 665 Evrur, sem hann fékk frá nafngreindum bílstjóra fyrirtækisins og átti að skila bókhaldsdeild fyrirtækisins.  Í öðru lagi sé hann grunaður um að hafa þann 2. apríl 2008 dregið sér 200 Evrur, sem hann fékk frá nafngreindum bílstjóra fyrirtækisins og skila átti til bókhaldsdeildar fyrirtækisins.  Í þriðja lagi sé hann grunaður um að hafa tekið við umslagi sem innihélt bankakort, útgefið af B banka á nafn nafngreinds manns, ásamt leyninúmeri, og lofað að koma kortinu til eiganda þess, sem hann hafi ekki gert, haldið því ólöglega frá eigandanum og tekið 3.320 litas út af kortinu í hraðbanka.  Í gögnum málsins komi ennfremur fram að varnaraðili hafi leynst við rannsókn málsins og því hafi reynst nauðsynlegt að lýsa eftir honum 7. janúar 2009.  Athæfi það sem framsals sé krafist út af myndi hér á landi vera talið varða við 244. gr. og 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 en refsimark slíkra brota sé 6 ára fangelsi. 

Sóknaraðili hafi sent innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 25. júní 2012, en þar komi fram það álit embættisins að skilyrði framsals samkvæmt lögum um framsal sakamanna nr. 13, 1984 séu uppfyllt.  Ráðuneytið hafi svo fyrir sitt leyti komist að þeirri niðurstöðu, að þegar málsatvik væru virt heildstætt væru ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaganna.  Því hafi verið fallist á framsalsbeiðnina.

Í greinargerð varnaraðila segir að varnaraðili sé nú í fastri vinnu og að nokkrir ættingjar hans, móðursystir og börn hennar, búi hér á landi.  Þá segir að hann hafi ekki reynt að koma sér undan refsingu með því að flytja hingað til lands.  Hann kannist við mál það sem framsalsbeiðnin byggist á.  Hann hafi verið í mikilli áfengisneyslu á þeim tíma sem málið reis og vefengi hann ekki að atvik hafi verið með þeim hætti sem segir í framsalsbeiðninni.  Fyrir honum hafi vakað að vinna sér inn fé hér á landi til þess að endurgreiða það sem hann tók.  Þegar tekin sé ákvörðun um framsalið beri dóminum að vega og meta hagsmuni litháískra yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan, annars vegar, og hins vegar hagsmuni varnaraðila.  Um þá sé það að segja að hann eigi þrjú börn í Litháen og sendi þeim fé eftir getu. Þá hafi hann verið búsettur á hér í rétt rúm fjögur og hálft ár, stundi vinnu samviskusamlega og hafi ekki komist í kast við lög hér á landi.  Myndi framsal nú raska aðstæðum hans allverulega, sem og barna hans og barnsmæðra.  Hljóti það að vega þyngra en hagsmunir litháískra yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan vegna afbrots sem gerðist fyrir tæpum fimm árum.  Með vísan til þessa og til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993 beri að hafna framsalskröfunni og ákvarða réttargæslumanni varnaraðila þóknun úr hendi ríkissjóðs.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. og 2. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum má framselja þann erlendan ríkisborgara sem í erlendu ríki er grunaður um refsiverðan verknað.  Samkvæmt  1. mgr. 3. gr. laganna er framsal á manni því aðeins heimilt að verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.  Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um það að hafa, sem í starfi hans sem framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins A dregið sér í tveimur tilvikum samtals 865 evrur.  Þá sé hann grunaður um að taka heimildarlaust út af reikningi annars manns með bankakorti, sem hann komst yfir, 3.320 litas í hraðbanka.  Er þetta talið varða við 182., 183., 214. og 215. gr. litháískra hegningarlaga og varðar þar fangelsi allt að þrem árum (182. og 183. gr.) og allt að sex árum.  Sambærilegir verknaðir eru hér á landi talinn vera fjárdráttur, annars vegar, og þjófnaður, hins vegar, sem hvort tveggja varðar allt að sex ára fangelsi, sbr. 247. og 244. gr. almennra hegningaralaga.  Dómurinn lítur svo á að skilyrði 1. og 5. mgr. 3. gr. framsalslaga séu þannig uppfyllt.  Þá teljast skilyrði 2. mgr. 3. gr. og 12. gr. laganna um handtökuskipun í erlenda ríkinu og um diplómatíska málsmeðferð einnig vera uppfyllt.  Enn er þess að geta að brot varnaraðila teldist ófyrnt að íslenskum lögum, sbr. 1. mgr. 9. gr. framsalslaga. Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að synja kröfu varnaraðila um það að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að framselja hann til Litháen.  Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um að staðfesta þá ákvörðun.

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. framsalslaga greiðist þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., úr ríkissjóði og þykir hún hæfilega ákveðin 180.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu varnaraðila, X, er synjað.

Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 14. ágúst 2012, um að framselja varnaraðila til Litháen.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.