Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-86
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Barnavernd
- Forsjársvipting
- Meðalhóf
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 15. júní 2022 leita A og B leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. maí 2022 í máli nr. 628/2021: A og B gegn C á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðendur verði sviptir forsjá sonar síns á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að svipta leyfisbeiðendur forsjá sonar síns. Í dóminum voru niðurstöður matsgerða um forsjárhæfni leyfisbeiðenda raktar og niðurstaða yfirmatsgerðar um að leyfisbeiðendur væru ekki hæf til að fara með forsjá sonar síns lögð til grundvallar. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði a-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga væru ekki uppfyllt í málinu. Aftur á móti hefðu matsmenn sem að málinu hefðu komið ekki talið áfrýjendur hæf til að fara með forsjá sonar síns. Með vísan til þess og gagna málsins að öðru leyti taldi Landsréttur að skilyrði d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga fyrir forsjársviptingu væru uppfyllt. Landsréttur tók því næst til skoðunar hvort skilyrði barnaverndarlaga um meðalhóf væri fullnægt, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. laganna eða hvort hafna bæri kröfu gagnaðila þar sem vægari úrræðum en forsjársviptingu hefði ekki verið beitt til að bæta úr ágöllum á forsjárhæfni leyfisbeiðenda. Með vísan til 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og þeirrar grundvallarreglu að hagsmunir barna skyldu hafðir í fyrirrúmi eftir því sem velferð þeirra krefðist komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga stæði því ekki í vegi að leyfisbeiðendur yrðu svipt forsjá sonar síns.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Þau vísa til þess að málið hafi fordæmisgildi um beitingu þeirrar grundvallarreglu barnaverndarlaga að ávallt skuli leitast við að almenn úrræði séu reynd áður en gripið sé til þeirra úrræða sem eru mest íþyngjandi, eins og forsjársvipting. Leyfisbeiðendur vísa í því efni til þess að ekki hafi verið farið eftir ákvæði 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga um meðalhóf. Þau telja jafnframt að málið sé fordæmisgefandi um hvaða áhrif barnaverndarmál annarra barna foreldra geti haft á ákvörðun um forsjársviptingu. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að málið varði mikilvæga hagsmuni þeirra enda um að ræða forsjársviptingarmál. Enn fremur byggja þau á því að hinn áfrýjaði dómur sé bersýnilega rangur að efni til þar sem Landsréttur hafi metið það svo að meðalhófs hafi ekki verið gætt en engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að þau skildu svipt forsjá sonar síns.
6. Að því gættu að reglur 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga eru ekki fortakslausar um að ávallt beri að beita vægari úrræðum áður en gripið er til forsjásviptingar og að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðendur hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni þeirra þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að forsjá barna. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.