Hæstiréttur íslands
Mál nr. 193/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. apríl 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt sakavottorði varnaraðila hefur hann frá árinu 2008 til ársins 2015 verið dæmdur átta sinnum í samtals þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir ýmis brot. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 6. apríl 2016 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gær í akstri á bifreiðinni [...] sem tilkynnt hafði verið stolin stuttu áður. X hafi verið í ökumannssæti er lögregla hafi haft afskipti af honum inni í bifreiðinni fyrir utan söluturninn [...] að [...] í Kópavogi, en bifreiðinni hafði verið stolið við [...] í Reykjavík.
Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um eftirfarandi 13 brot framin á undanförnum mánuðum:
Mál 007-2016-[...] – Þjófnaður og fíkniefni
7. mars sl. Tilkynnt hafi verið um aðila sem hafi verið að reyna að brjótast inn í mannlausar bifreiðar á bifreiðaplani við Smáralind. Kærði hafi verið handtekinn á vettvangi með efni í fórum sínum sem lögregla telji vera amfetamín.
Mál 007-2016-[...] – Nytjastuldur, þjófnaður og fíkniefnaakstur
19. og 20. febrúar sl. Kærði hafi verið verið handtekinn á bifreið sem tilkynnt hafi verið stolið daginn áður. Kærði hafi viðurkennt að hafa ekið henni og því grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í fórum kærða hafi fundist greiðslukort í eigu annars aðila sem tilkynnt hafði um þjófnað á þeim og einnig Iphone símtæki þann 17. feb. sl.
Mál 007-2016-[...] - Nytjastuldur
17. feb. sl. Kærði sé grunaður um að hafa tekið bifreið ófrjálsri hendi fyrir utan veitingastaðinn [...] í miðbæ Reykjavíkur.
Mál 007-2016-[...] – Fjársvik
17. feb. sl. Kærði sé verið grunaður um fjársvik með því að hafa bókað og gist á Hótel [...] með því greiða fyrir gistingu og veitingar með stolnu greiðslukorti.
Mál 007-2016-[...] - Eignaspjöll
17. feb. sl. Kærði sé grunaður um þjófnað á Iphone 5 síma og greiðslukortum sem stolið hafði verið af smitsjúkdómadeild LSH, sbr. mál 007-2016-[...] að ofan.
Mál 007-2016-[...] - Þjófnaður
26. jan sl. Kærði sé grunaður um að hafa stolið farsíma á Hotel [...] í miðbæ Rvk. Borið hafði verið kennsl á kærða á myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél.
Mál 007-2016-[...] - Þjófnaður
22. jan sl. Kærði sé grunaður um að hafa brotist inn í bifreið og stolið þaðan ýmsum verðmætum. Hann hafi verið handtekinn skammt frá vettvangi.
Mál 007-2016-[...] – Þjófnaður og nytjastuldur
18. jan sl. Kærði sé grunaður um nytjastuld en hann hafi verið stöðvaður í akstri á bifreið sem tilkynnt hafði verið stolin. Í fórum hans hafi fundist meint þýfi.
Mál 007-2016-[...] – Þjófnaður
16. jan sl. Kærði sé grunaður um þjófnað og vopnalagabrot í [...]. Hann hafi verið handtekinn á vettvangi.
Mál 007-2016-[...] – Þjófnaður
16. jab sl. Kærði sé grunaður um að hafa brotist inn í bifreiðar og stolið þaðan verðmætum. Hann hafi verið handtekinn á vettvangi.
Mál 007-2016-[...] - Þjófnaður
19. jan sl. Kærði sé grunaður um að hafa brotist inn í bifreið og stolið m.a. fatnaði merktum [...]. Hann hafi verið handtekinn síðar í fatnaði merktum félaginu.
Mál 007-2016-[...] – Fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot
13. jan. sl. Kærði viðurkenni vörslu á hníf og fíkniefnum
Mál 007-2016-[...] – Þjófnaður
5. jan. sl. Kærði sé grunaður um þjófnað á farsíma í [...] í Kringlunni. Þekkist á upptöku úr eftirlitsmyndavél.
Brotaferill kærða hafi verið samfelldur frá 5. janúar sl. og fram til dagsins í gær, er kærði hafi verið handtekinn. Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu vímuefna, sem hann virðist fjármagna að öllu leyti með afbrotum. Kærði eigi að baki nokkuð langan sakaferil og því ljóst að hann muni hljóta óskilorðsbundna fangelsisrefsingu fyrir þau brot sem reifuð séu í kröfugerð.
Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Til rannsóknar eru fjölmörg brot, sem kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið og varðað geta fangelsisrefsingu. Af því sem fram hefur komið fyrir dómi verður ráðið að miklar líkur séu á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt svo fallast megi á kröfu lögreglustjórans. Ekki þykir tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er eða til beitingar 100. gr. laga nr. 88/2008 í málinu. Verður krafan því tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. apríl 2016 kl. 16:00.