Hæstiréttur íslands
Mál nr. 431/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Hundahald
- Aðild
- Samaðild
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 14. desember 2001. |
|
Nr. 431/2001.
|
Þorgerður Nielsen (Jón Egilsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) Bessastaðahreppi heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis (Jóhann H. Níelsson hrl.) og úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998
|
Kærumál. Hundahald. Aðild. Samaðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Uppvíst varð um að hundur í eigu Þ og fjöldkyldu hennar hefði bitið tvö börn, sem komu inn á heimilið, og kröfðust foreldrar annars barnsins þess, að hundurinn yrði aflífaður. Lauk stjórnsýslumeðferð þess máls svo, að heilbrigðisnefnd ákvað að afturkalla áður útgefið leyfi Þ til að halda hundinn á heimili sínu. Höfðaði Þ mál á hendur íslenska ríkinu (Í), sveitarfélaginu B, heilbrigðisnefnd (HN) og heilbrigðiseftirliti (HE) umdæmisins og úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 (Ú). Ú hafði enga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og var kröfum Þ á hendur Ú því sjálfkrafa vísað frá dómi. Jafnframt var, sökum vanreifunar, sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi kröfum Þ á hendur Í. Með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 7/1998 var talið að B væri réttilega stefnt til aðildar í málinu en ekki HE og HN, sem annast höfðu málið sem lægra sett stjórnvöld í umboði og á ábyrgð B. Fyrir dómi gerði Þ kröfu um ógildingu tiltekinna stjórnsýsluákvarðana. Talið var að Þ hefði óhjákvæmilega orðið að beina kröfum sínum jafnframt að þeim mönnum sem borið höfðu fram stjórnsýslukæru þá er málið var sprottið af, sbr. Hrd. 1997:2856. Að þessu var ekki gætt við höfðun málsins og var því einnig vísað frá dómi kröfum Þ á hendur B. Samkvæmt þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hún krefst þess jafnframt að málskostnaður í héraði í þessum þætti málsins verði felldur niður og að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðilinn íslenska ríkið krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.
Varnaraðilarnir Bessastaðahreppur, heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis lýsa afstöðu sinni svo að byggt sé á þeim rökstuðningi og þeirri niðurstöðu, sem fram komi í hinum kærða úrskurði, en af þeirra hálfu verði „ekki gerðar frekari kröfur eða gerð frekari grein fyrir málinu fyrir Hæstarétti.“
Varnaraðilinn úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Í stefnu til héraðsdóms lýsir sóknaraðili málavöxtum á þann veg að hún og fjölskylda hennar hafi eignast hund og fengið skráð leyfi hjá heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 9. mars 1999 fyrir því að hafa hann á heimili þeirra að Sjávargötu 23 í Bessastaðahreppi. Dagana 29. júlí 2000 og 14. ágúst sama árs hafi það gerst að hundurinn beit tvö börn, sem komu inn á heimilið. Foreldrar barnsins, sem átti í hlut í síðara skiptið, tilkynntu lögreglu þegar um atvikið og kröfðust þess að hundurinn yrði aflífaður. Fyrra atvikið mun hins vegar ekki hafa verið tilkynnt lögreglu fyrr en eftir að hið síðara gerðist.
Meðal málsgagna er bréf heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 16. ágúst 2000 til sóknaraðila, en tilefni bréfsins var fram komin krafa til lögreglu vegna atviksins 14. sama mánaðar. Í bréfinu var meðal annars vakin athygli á 11. gr. samþykktar nr. 154/2000 um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, en samkvæmt henni geti hundeigandi leitað álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara, áður en ákvörðun um aflífun hunds sé tekin. Eftir nokkur bréfaskipti samþykkti heilbrigðiseftirlitið 18. september 2000 með tilteknum skilyrðum beiðni sóknaraðila um að mega fela nafngreindum hundaþjálfara að „endurþjálfa“ hundinn, en að því loknu yrði málið tekið fyrir að nýju og þá ákveðið hvort leyft yrði að taka hundurinn aftur inn á heimili sóknaraðila. Að fenginni greinargerð hundaþjálfarans tók heilbrigðiseftirlitið málið enn fyrir 24. nóvember 2000 og ákvað að hundurinn mætti vera á heimilinu, enda hefðu eigendur hans fylgt gefnum fyrirmælum og greinargerð hundaþjálfarans benti ekki til annars en að þjálfun hundsins hefði tekist. Þá mun heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafa samþykkt 11. desember 2000 að hún gerði ekki kröfu um að hundurinn yrði aflífaður, enda verði hann ekki hafður utan dyra án gæslu fullorðinna. Þessa niðurstöðu sættu foreldrar barnanna, sem áður er getið um, sig ekki við og vísuðu málinu ásamt tveimur nágrönnum til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998. Töldu þau ýmsa annmarka vera á meðferð málsins og kröfðust þess að hundurinn yrði aflífaður, en að öðrum kosti látinn fara úr sveitarfélaginu. Felldi úrskurðarnefndin afgreiðslu heilbrigðisnefndarinnar úr gildi 1. febrúar 2001 og lagði fyrir heilbrigðiseftirlitið að fjarlægja hundinn af Sjávargötu 23 í samræmi við ákvæði 14. gr. áðurnefndrar samþykktar. Að þessari niðurstöðu fenginni ákvað heilbrigðisnefndin 26. febrúar 2001 að afturkalla leyfi sóknaraðila til að halda hundinn á heimili sínu. Mál sóknaraðila gegn varnaraðilum var síðan höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness 8., 10. og 11. maí 2001.
II.
Kröfur sóknaraðila í málinu lúta að því að dæmt verði að ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 24. nóvember 2000 og ákvörðun heilbrigðisnefndar sama svæðis 11. desember sama árs skuli standa óhaggaðar og jafnframt að síðari ákvörðun nefndarinnar 26. febrúar 2001 og úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 hinn 1. sama mánaðar verði felldar úr gildi. Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er tekið fram að ýmis stjórnvöld hafi komið að málinu og afstaða þeirra verið ólík. Af hennar hálfu er aðild varnaraðila að málinu skýrð svo að ekki hafi annað þótt tækt en að „stefna öllum er hafa tekið sjálfstæðar ákvarðanir þannig að öll sjónarmið komi fram og dómur komist þannig að efnislega réttri niðurstöðu.“
III.
Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998 er heimilt að vísa ágreiningi um framkvæmd laganna, ákvarðanir yfirvalda og fleira til sérstakrar úrskurðarnefndar, en í henni eiga sæti þrír lögfræðingar, sem skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Eru úrskurðir nefndarinnar fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar, sbr. 4. mgr. 31. gr., um önnur mál en þau, sem sérstaklega eru tilgreind í 32. gr. laganna. Nefndin, sem hér gegndi hlutverki æðsta stjórnvalds á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar, hefur hins vegar enga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sem gæti leitt til aðildar hennar að því. Verður samkvæmt því að vísa sjálfkrafa frá dómi kröfum sóknaraðila á hendur nefndinni.
Sóknaraðili hefur ekki borið fram neinar haldbærar skýringar á því að málinu er meðal annars beint að íslenska ríkinu. Er málið að þessu leyti svo vanreifað að vísa verður sjálfkrafa frá héraðsdómi kröfum sóknaraðila á hendur þessum varnaraðila.
Í II. kafla laga nr. 7/1998 er meðal annars kveðið á um stjórn mála samkvæmt lögunum, en í 10. gr. segir að ekkert sveitarfélag skuli vera án heilbrigðiseftirlits og greiði sveitarfélög kostnað af því nema lög mæli fyrir á annan veg. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. er landinu skipt í eftirlitssvæði og skal heilbrigðisnefnd, sem kosin er eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar, starfa á hverju svæði. Eiga fimm menn, kosnar af hlutaðeigandi sveitarstjórnum, sæti í hverri nefnd. Í 2. mgr. sömu greinar eru eftirlitssvæði, sem getið er um í 1. mgr. skilgreind, en samkvæmt 9. tölulið er eitt þeirra Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði. Tekur það til Hafnarfjarðarkaupstaðar, Bessastaðahrepps, Garðabæjar og Kópavogsbæjar. Sveitarfélög bera ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði, sbr. 1. mgr. 12. gr. og samkvæmt 13. gr. skal heilbrigðisnefnd meðal annars sjá um að framfylgt sé samþykktum sveitarfélaga, sem settar eru samkvæmt lögunum. Þá er í 15. gr. kveðið á um heimild heilbrigðisnefnda til að ráða heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaga með þeim viðfangsefnum, sem falla undir lögin. Starfar heilbrigðisfulltrúi í umboði heilbrigðisnefndar.
Samkvæmt framanröktu fara sveitarstjórnir með yfirstjórn þeirra mála, sem heilbrigðisnefnd og heilbrigðiseftirlit annast sem lægra sett stjórnvöld í umboði sveitarstjórna og á þeirra ábyrgð. Ágreiningur málsaðila lýtur að ákvörðunum slíkra stjórnvalda um hundahald í Bessastaðahreppi, sem teknar voru á grundvelli samþykktar nr. 154/2000, og sett var fyrir áðurnefnd fjögur sveitarfélög með stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998. Telst það sveitarfélag, sem í hlut á, réttur aðili að dómsmáli, sem rís um ákvarðanir um framkvæmd samþykktarinnar og varða það sérstaklega. Eru lægra sett stjórnvöld á vegum sama sveitarfélags eða fleiri sveitarfélaga hins vegar ekki hæf til að eiga aðild að dómsmáli um slíkan ágreining, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Var Bessastaðahreppi því réttilega stefnt til aðildar í málinu, en ekki heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og heilbrigðiseftirliti sama svæðis.
Sóknaraðili átti þess kost að höfða mál gegn varnaraðilanum Bessastaðahreppi, þar sem leitað yrði viðurkenningar á rétti hennar til að halda hundinn, sem ágreiningur málsaðila snýst um. Þess í stað kaus hún að krefjast dóms varðandi tilteknar stjórnsýsluákvarðanir, þar á meðal að ógiltur yrði úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998. Hann gekk í tilefni stjórnsýslukæru nokkurra manna, en í dómsmáli þessu er gerð krafa um að hnekkt verði gildi stjórnsýsluúrskurðar í máli, sem þeir áttu aðild að. Þar eð sóknaraðili hagaði kröfum sínum með þessum hætti var óhjákvæmilegt að beina þeim jafnframt að þeim mönnum, sem báru fram umrædda stjórnsýslukæru, sbr. dóm Hæstaréttar 1997, bls. 2856 í dómasafni réttarins. Að þessu var ekki gætt við höfðun málsins. Er því óhjákvæmilegt samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að vísa einnig frá héraðsdómi kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Bessastaðahreppi.
Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. f.m., er höfðað 8., 10. og 11. maí 2001 af Þorgerði Nielsen, Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi á hendur umhverfisráðherra f.h. íslenska ríkisins, Bessastaðahreppi, heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Garðatorgi 7 í Garðabæ, heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og nefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur:
1. Að ógiltur verði úrskurður nefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 frá 1. febrúar 2001 í málinu nr. 3/2000 og að úrskurður heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 11. desember 2000, þar sem stefnanda var að tilteknum skilyrðum uppfylltun heimilað að hafa hundinn Nóa áfram á heimili sínu, standi óhaggaður.
2. Að ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 26. febrúar 2001 um að afturkalla leyfi stefnanda til að halda hundinn Nóa á heimili sínu verði ógilt.
Þá gerir stefnandi kröfu um það að fullnustu úrskurðarins frá 1. febrúar 2001 verði frestað þar til niðurstaða í máli þessu liggi fyrir. Loks krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi íslenska ríkið krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi að því er það varðar, en til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndu Bessastaðahreppur, heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis krefjast sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Sótt var þing af hálfu nefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 við þingfestingu málsins og henni ásamt öðrum stefndu veittur frestur til greinargerðar. Í næsta þinghaldi féll þingsókn af hálfu nefndarinnar hins vegar niður og hefur hún ekki látið málið frekar til sín taka.
Í þinghaldi 12. f.m. var málið að undangengnum munnlegum málflutningi tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda íslenska ríkisins og til úrlausnar um það hvort vísa beri því að öðru leyti og án kröfu frá dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
I.
Hinn 14. ágúst 2000 bárust lögreglunni í Hafnarfirði upplýsingar um að hundur sem stefnandi hélt á heimili sínu að Sjávargötu 23 í Bessastaðahreppi hefði bitið tvö börn sem búa við sömu götu. Munu bæði atvikin hafa átt sér stað á heimili stefnanda, hið fyrra 29. júlí 2000 en hið síðara sama dag og upplýsingar um þau bárust lögreglu. Málið kom í kjölfar þessa til kasta heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Fyrir nefndinni gerðu foreldrar barnanna þá kröfu að hundurinn yrði aflífaður. Að undangenginni gagnaöflun komst nefndin að þeirri niðurstöðu í úrskurði 11. desember 2000 að hafna bæri fram kominni kröfu um aflífun hundsins enda yrði þess gætt að hann yrði ekki hafður utan dyra án gæslu fullorðinna. Þessum úrskurði skutu foreldrarnir til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrir nefndinni var þess aðallega krafist af foreldrum annars barnsins að hundurinn yrði aflífaður, en til vara að hann yrði fjarlægður úr sveitarfélaginu. Foreldrar hins barnsins gerðu kröfu um það að úrskurði heilbrigðisnefndar yrði hnekkt og gripið til viðeigandi ráðstafana samkvæmt 14. gr. samþykktar um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000, en í því ákvæði er mælt fyrir um heimildir heilbrigðisnefndar til aðgerða þegar um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni er að ræða eða þegar hundeigandi eða umráðamaður hunds sinnir ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds. Getur nefndin afturkallað skráningu samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundaeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað eða látið fjarlægja hann. Þá barst úrskurðarnefndinni ennfremur bréf frá tveimur íbúum í Bessastaðahreppi þar sem gerð var sú krafa að úrskurður heilbrigðisnefndar yrði felldur úr gildi og að hundinum yrði lógað. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð sinn í málinu 1. febrúar 2001. Er úrskurðarorð hans svohljóðandi: „Felld er úr gildi afgreiðsla heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og lagt fyrir heilbrigðiseftirlit sama svæðis að fjarlægja hundinn af Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi í samræmi við ákvæði 14. gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000.” Með kröfugerð sinni í þessu máli leitar stefnandi eftir því að úrskurður þessi verði felldur úr gildi og niðurstaða heilbrigðisnefndar standi óhögguð. Þá er þess jafnframt krafist að afturköllun á leyfi stefnanda til að halda þann hund sem hér um ræðir, sem kynnt var stefnanda með bréfi 28. febrúar 2001, verði felld úr gildi.
II.
Mál það sem úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir leiddi endanlega til lykta á stjórnsýslustigi með framangreindum úrskurði sínum 1. febrúar 2001 laut að ákvörðun sem heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis tók hinn 11. desember 2000 í tilefni af atburðum er áttu sér stað á heimili stefnanda 29. júlí og 14. ágúst 2000 og sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Úrskurðarnefndin gegndi í þessu tilviki hlutverki æðra stjórnvalds á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir að í þessu dómsmáli sé tekist á um gildi þessa úrskurðar hefur nefndin enga lögvarða hagsmuni af úrlausn þess sem leitt geta til aðildar hennar að því. Af þessum sökum verður án kröfu að vísa frá dómi kröfum stefnanda á hendur nefndinni. Má til stuðnings þessari niðurstöðu vísa til H.1997.2856.
Stefnandi hefur á engan hátt skýrt ástæðu þess að málinu sé beint að íslenska ríkinu og Bessastaðahreppi. Er málið svo vanreifað að þessu leyti að vísa verður kröfum stefnanda sjálfkrafa frá dómi hvað þessa aðila varðar.
Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir heyrir heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis undir heilbrigðisnefnd sama svæðis. Samkvæmt 13. gr. laganna ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að verða falið að annast framkvæmd á. Þá skal nefndin vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæði sínu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er síðan mælt fyrir um það að heilbrigðisnefndir á hverju eftirlitssvæði ráði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Samkvæmt lokamálslið ákvæðisins starfa heilbrigðisfulltrúar í umboði heilbrigðis-nefndar. Í ljósi þessa verður ekki talið að heilbrigðiseftirlitið sé persóna að lögum sem geti borið skyldur eða átt réttindi að landslögum, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það skortir því hæfi til að geta átt aðild að dómsmáli. Verður kröfum stefnanda því sjálfkrafa vísað frá dómi að því er varðar heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.
Framangreindur úrskurður nefndar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 gekk í tilefni af stjórnsýslukæru sex einstaklinga. Telja verður óhjákvæmilegt að kröfu stefnanda um ógildingu þess úrskurðar verði beint að þeim og heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, enda varðar málið gildi stjórnsýsluúrskurðar í máli þeirra. Að þessu var ekki gætt við höfðun málsins. Er því óhjákvæmilegt samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að vísa einnig frá dómi kröfu stefnanda á hendur heilbrigðisnefndinni um ógildingu úrskurðarins, sbr. ennfremur H.1997.2856. Að þessari niðurstöðu fenginni geta aðrar kröfur stefnanda ekki sætt efnislegri úrlausn.
Samkvæmt öllu framansögðu verður að vísa máli þessu frá dómi.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi. Í samræmi við þessa meginreglu verður að gera stefnanda að greiða stefndu, íslenska ríkinu, Bessastaðahreppi og heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hverjum um sig málskostnað svo sem í úrskurðarorði greinir. Málskostnaður til handa heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verður ekki úrskurðaður, enda skortir það samkvæmt framansögðu hæfi til að eignast slík réttindi.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Þorgerður Nielsen, greiði stefndu, íslenska ríkinu, Bessastaðahreppi og heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hverjum um sig 30.000 krónur í málskostnað.