Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2006


Lykilorð

  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Hlutafélag


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. júní 2006.

Nr. 38/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Hákoni Hákonarsyni og

(Brynjar Níelsson hrl.)

Stefáni Kristni Garðarssyni

(Óskar Sigurðsson hrl.)

 

Staðgreiðsla opinberra gjalda. Hlutafélög.

H og S voru ásamt stjórnarformanni Í hf. ákærðir fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið hafði verið eftir af launum starfsmanna félagsins gjaldatímabilin júní, júlí og ágúst 2002. Með skírskotun til skyldu S sem stjórnarmanns í félaginu var hann sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem hann var ákærður fyrir. H var annar tveggja framkvæmdastjóra félagsins en ráðning hans hafði ekki verið tilkynnt hlutafélagaskrá. Taldi hann sig hafa verið faglegan framkvæmdastjóra, sem fyrst og fremst hefði séð um sölumál félagsins, og fékk það stoð í framburði meðákærðu og vitna. Engu að síður lá fyrir að H hafði undirritað mörg bréf sem framkvæmdastjóri félagsins í ágúst og september 2002 til fjármálaeftirlitsins, sem vörðuðu meðal annars fjármál þess og staðgreiðsluskatta, auk þess sem hann hafði setið fundi stjórnar félagsins á sama tímabili sem framkvæmdastjóri þess. Með vísan til þessara atriða og ákvæða í samþykktum félagsins og með skírskotun til verkefna framkvæmdastjóra samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 var H einnig sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem í ákæru greindi. Með þessu höfðu H og S gerst sekir um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og voru þeir því hvor um sig dæmdir til greiðslu sektar að fjárhæð 1.500.000 króna. Sú fjárhæð, sem félagið hafði ekki staðið skil á, var ekki talin veruleg samkvæmt 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og var þeim því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing þeirra verði þyngd.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu en til vara að refsing þeirra verði milduð.

Málið var höfðað með ákæru 12. maí 2005 gegn ákærðu og þriðja manni. Er ákærðu gefið að sök, Stefáni Kristni Garðarssyni sem stjórnarmanni Ísvár hf. en Hákoni Hákonarsyni sem framkvæmdastjóra í félaginu, að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á greiðslutímabilunum júní, júlí og ágúst 2002, samtals að fjárhæð 2.033.192 krónur en 1.674.388 krónur að frádregnum launum ákærða Hákonar. Meðákærði, sem var stjórnarformaður félagsins, unir héraðsdómi.

Ekki er ágreiningur um að af hálfu Ísvár hf. voru ekki staðin skil á þeim fjárhæðum, sem tilgreindar eru í ákæru. Ákærðu telja sig hins vegar ekki bera refsiábyrgð á því að skil á afdreginni staðgreiðslu starfsmanna félagsins væru í réttu horfi.

Ákærði Stefán Kristinn tók sæti í stjórn félagsins á aðalfundi sem haldinn var 26. apríl 2002. Hann sat í stjórn þess þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 15. nóvember sama ár. Samkvæmt framburði meðákærðu kom ákærði að rekstri félagsins fyrri hluta sumars 2002. Sem stjórnarmanni bar honum að fylgjast með rekstrinum og annast um að skipulag félagsins og starfsemi væri í góðu horfi og að eftirlit væri haft með bókhaldi og meðferð fjármuna þess, sbr. 1. mgr. og 3. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem í ákæru greinir.

Meðal gagna málsins er starfssamningur 10. apríl 2002, þar sem ákærði Hákon var ráðinn framkvæmdastjóri sölusviðs Ísvár hf. Með bréfi félagsins til fjármálaeftirlitsins 4. apríl 2002, sem ákærði Hákon undirritaði ásamt C þáverandi framkvæmdastjóra félagsins, var tilkynnt að Hákon hafi þann dag tekið við starfi F, sem verið hafði annar tveggja framkvæmdastjóra þess. Ekki verður á hinn bóginn séð að ráðning hans í starf framkvæmdastjóra hafi verið tilkynnt til hlutafélagaskrár. Ákærði telur sig hafa verið faglegan framkvæmdastjóra félagsins og fyrst og fremst séð um sölumál þess. Fær það stoð í framburði meðákærðu og vitna. Engu að síður undirritaði hann sem framkvæmdastjóri félagsins, ýmist einn eða með stjórnarformanni þess, mörg bréf í ágúst og september 2002 til fjármálaeftirlitsins, sem vörðuðu meðal annars fjármál þess og skil staðgreiðsluskatta. Þá sat hann á sama tímabili fundi stjórnar félagsins sem framkvæmdastjóri þess. Í 18. gr. samþykkta félagsins 4. apríl 2002 var kveðið á um að framkvæmdastjóri hefði með höndum stjórn á daglegum rekstri þess og kæmi fram fyrir þess hönd í öllum málum, er vörðuðu venjulegan rekstur. Var þar engin sérákvæði að finna um verksvið faglegs framkvæmdastjóra. Með vísan til þess, er að framan er rakið, og verkefna framkvæmdastjóra samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 verður ákærði Hákon sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem í ákæru greinir.

Ákærðu hafa með háttsemi sinni gerst sekir um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995. Þær fjárhæðir, sem brot þeirra lúta að, verða hins vegar ekki taldar verulegar samkvæmt. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995. Verða brot þeirra því ekki heimfærð undir 1. mgr. þeirrar greinar með áorðnum breytingum. Vegna þessa verður ákærðu ekki gerð fangelsisrefsing. Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um ákvörðun sekta vegna brota þeirra á 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með áorðnum breytingum, en um vararefsingu fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu verða hvor um sig dæmdir til að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Ákærðu verða dæmdir til að greiða óskipt annan sakarkostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði Hákon Hákonarson greiði 1.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 48 daga.

Ákærði Stefán Kristinn Garðarsson greiði 1.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms en sæti ella fangelsi í 48 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði Hákon greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

Ákærði Stefán Kristinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins, 57.336 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2005.

Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 12. maí sl., á hendur A, [...], Stefáni Kristni Garðarssyni, [...] og Hákoni Hákonarsyni, [...].

,,Ákærða [A] sem formanni stjórnar hlutafélagsins Ísvár, [...], ákærða Stefáni Kristni sem stjórnarmanni og ákærða Hákoni Hákonarsyni sem framkvæmdastjóra í félaginu eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins árið 2002, ákærðu [A] og Stefáni Kristni fyrir að hafa ekki staðið skil á kr. 2.033.192,- en ákærða Hákoni fyrir að hafa ekki staðið skil á kr. 1.674.388,- en þá hefur verið dregin frá heildarvanskilum staðgreiðsla vegna launa hans. Vanskil sundurliðast þannig:

 

Greiðslutímabil:

Heildarvanskil:

Júní

kr. 923.144

Júlí

kr. 663.054

Ágúst

kr. 446.994

Samtals:     

kr.     2.033.192

 

Greiðslutímabil: Vanskil að frádregnum vanskilum vegna launa ákærða Hákons:

Júní

kr. 802.156

Júlí  

kr. 544.146

Ágúst 

kr. 328.086

Samtals: 

kr. 1.674.388

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”

Ákærði, A, krefst þess að verða alfarið sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara krefst hann þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Stefán, krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Hákon, krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann málsvarnarlauna að mati dómsins er greiðist úr ríkissjóði.

 

Málsatvik.

Með bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins til Ríkislögreglustjóra, 5. janúar 2004, var Ríkislögreglustjóra sent til meðferðar mál ákærðu á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn skattrannsóknarstjóra á staðgreiðsluskilum skattaðilans Ísvár hf., sbr. skýrslu skattrannsóknarstjóra varðandi rekstrarárið 2002. Í bréfinu kemur fram að bú Ísvár hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipa með úrskurði uppkveðnum 15. nóvember 2002.

Í bréfinu kemur fram að ákærði, A, hafi verið stjórnarformaður félagsins, B stjórnarmaður, ákærði, Stefán Kristinn Garðarsson, stjórnarmaður og ákærði, Hákon Hákonarson, hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Í bréfinu segir jafnframt að við skýrslutökur hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi ákærði, A, sagt að ákærði, Stefán, hefði séð um daglegan rekstur skattaðilans vegna júní og júlí 2002 og að B hefði séð um daglegan rekstur vegna ágúst og september 2002, án þess að hafa með fjármál skattaðilans að gera.

B sagði við skýrslutökur að ákærði, Stefán, hefði séð um daglegan rekstur skattaðilans í júní árið 2002 og að daglegur rekstur skattaðilans hefði verið í höndum ákærða, Hákonar, í júlí, ágúst og september 2002.

Við skýrslutökur hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins kvaðst ákærði, Hákon, ekki hafa komið nálægt daglegum rekstri skattaðilans og ekki hafa komið nálægt fjármálum skattaðilans. Sá sem það gerði, hefði verið ákærði, Stefán, sem staðgengill fyrrverandi framkvæmdastjóra, C, frá og með apríl/maí 2002. Auk þess sagði ákærði, Hákon, að B hefði einnig verið fjármálalegur ráðgjafi skattaðilans og stjórnað því hverjum var greitt.

Ákærði, Stefán, sagðist hafa séð um daglegan rekstur skattaðilans í maí og júní 2002, en hefði samt ekki komið nálægt fjármálastjórn skattaðilans á þessu tímabili. Kvað hann ákærða, A, og B hafa séð um daglegan rekstur skattaðilans í júlí, ágúst og september 2002.

Jafnframt kemur fram í bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins að samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá hafi skráður tilgangur skattaðilans á því tímabili sem rannsókn hafi tekið til, verið vátryggingamiðlun, innflutningur, smásala, heildsala og hvers kyns skyld starfsemi, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós að ekki hafði verið staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna Ísvár hf. sem félaginu bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs, fyrir greiðslutímabilin júní, júlí og ágúst 2002. Þá hafi staðgreiðsluskilagreinum fyrir fyrrgreind tímabil ekki verið skilað á lögmæltum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs, allt að því er virðist af ásetningi eða a.m.k. af stórkostlegu gáleysi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar nam vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda til innheimtumanns ríkissjóðs vegna júní til og með ágúst 2002 samtals 2.033.192 krónum. Undir skilagreinar afdreginnar staðgreiðslu vegna þessa tímabils rituðu D endurskoðandi og E.

Samkvæmt upplýsingum skattrannsóknarstjóra hafði ekki verið greitt inn á staðgreiðsluskuld skattaðilans eftir að vanskil þau sem um ræðir byrjuðu að myndast.

Samkvæmt gögnum málsins var ákærði, A, stjórnarformaður á tímabilinu 26. apríl 2002 til 15. nóvember 2002. Ákærði, Stefán Garðarsson, var stjórnarmaður á sama tíma og C var framkvæmdastjóri á tímabilinu 26. apríl 2002 til 30. júlí 2002, en ákærði, Hákon, faglegur framkvæmdastjóri frá 26. apríl 2002 til 15. nóvember 2002. Þá var B í stjórn frá 26. apríl 2002 til 3. júlí 2002 og F sat í varastjórn á sama tíma.

Ákærðu, skiptastjóra þrotabúsins og B, var send niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra og tilkynning um lok hennar með bréfum 1. september 2003. Í bréfi skattrannsóknarstjóra kom og fram að mat skattrannsóknarstjóra væri að ákærðu kynnu að hafa skapað sér refsiábyrgð og ákærðu gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð, sbr. 2. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 373/2001. Svör bárust frá B og ákærða, Hákoni. Í bréfi B kemur fram að hann hafi setið í stjórn í rúma 2 mánuði, frá lokum apríl til 3. júlí 2002, þ.e. fyrir þann tíma sem fyrsta skilagrein vegna staðgreiðslu skatta hafi verið á eindaga. Því var það mat B að hann bæri ekki ábyrgð á staðgreiðsluskilum félagsins. Þá barst og svar frá lögmanni ákærða, Hákoni.

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til Ríkislögreglustjóra frá 14. september 2004 kemur fram að ákærði, Hákon, hafi tryggt áframhaldandi starfsleyfi félagsins og að með bréfi Ísvár hf. frá 4. apríl 2002 hafi Fjármálaeftirlitinu verið tilkynnt um framkvæmdastjóraskipti hjá félaginu. Þann dag hafi ákærði, Hákon, löggiltur vátryggingamiðlari, tekið við starfi framkvæmdastjóra félagsins af F. Athygli hafi vakið að ákærði, Hákon, skuli ekki hafa verið skráður sem framkvæmdastjóri félagsins í hlutafélagaskrá, en það breyti því ekki að hann hafi verið sá framkvæmdastjóri sem tryggt hafi félaginu áframhaldandi starfsleyfi á sínum tíma. Samhliða Hákoni hafi C verið framkvæmdastjóri hjá félaginu og hafi stjórnendur valið þann kost að hafa tvo framkvæmdastjóra, en ákærði, Hákon, hafi verið faglegur framkvæmdastjóri Ísvár hf., þar sem hann hafi uppfyllt skilyrði til að fá starfsleyfi sem vátryggingamiðlari. C hafi ekki haft stöðu faglegs framkvæmdastjóra. Þá segir jafnframt í niðurlagi bréfs Fjármálaeftirlitsins að ákærði, Hákon, virðist hafa lagt áherslu á að hafa umsjón með sölumönnum og birgjum erlendis, en minna komið að fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins. Lögð hafi verið á það áhersla af hálfu Fjármálaeftirlitsins í viðræðum við ákærða, Hákon, þegar í júní 2002, að hann þyrfti sem faglegur framkvæmdastjóri að hafa yfirsýn yfir starfsemi félagsins, þar á meðal reikningsskil og bókhald eftir því sem við ætti.

Fyrir dóminn voru lögð fram gögn um að ákærði, Stefán, hefði verið í sumarfríi frá 31. júlí 2002 til 14. ágúst 2002. Einnig að ákærði, Stefán, hefði verið til meðferðar á Teigi frá 19. ágúst 2002 til og með 13. september 2002. Þá var lagt fram í dóminum tölvubréf frá C til starfsmanna Ísvár hf., frá 18. apríl 2002, þess efnis að ákærði, Stefán, yrði staðgengill C meðan C væri að störfum í Danmörku fyrir félagið.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærði, A, kvaðst hafa verið stjórnarformaður í félaginu frá 26. apríl 2002 til þess tíma að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Ákærði kvað þá C og ákærða, Hákon, hafa verið framkvæmdastjóra félagsins, en ákærði, Hákon, hafi verið faglegur framkvæmdastjóri. Ákærði kvaðst ekkert hafa komið að bókhaldi félagsins, hans kraftar hafi fyrst og fremst farið í að reyna að finna fjármagn í fyrirtækið. Ákærði kvað að sér væri ljóst að nauðsyn hefði borið til að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, en það fé sem hann hefði lagt inn í fyrirtækið hefði farið í að greiða starfsmönnum laun. Ákærði kvaðst ekki draga í efa að þær fjárhæðir sem greinir í ákæru væru réttar. Ákærði kvaðst aldrei hafa haft prókúru fyrir félagið og aldrei haft ávísanahefti þess, eða séð um að borga reikninga sem félaginu bárust. Ákærði kvað að honum hefði fyrst orðið ljóst í ágústmánuði 2002 að vanskil væru á vörslusköttum. Ákærði kvað B hafa haft aðgang að netbanka og að hann hafi séð um að greiða reikninga. Þá kvað ákærði hugsanlegt að B hafi haft samráð við meðákærða, Hákon, vegna launa starfsfólksins. Ákærði nefndi að daglegir stjórnendur félagsins á þeim tíma er ákæra tekur til, hefðu verið þeir B, hann sjálfur og ákærði, Hákon. Ákærði, Stefán, hafi einnig verið daglegur stjórnandi, væntanlega í maí og júní 2002, en í júlí hafi hann yfirgefið félagið. Spurður um fundargerðir sem ákærði, Stefán, ritaði undir í ágúst og september 2002, kvað ákærði að farið hefði verið heim til Stefáns og hann undirritað þær þar. Nánar spurður um þetta atriði kvað ákærði að farið hefði verið með fundargerðirnar heim til Stefáns, hann lesið allt yfir og rætt hefði verið um fundinn og Stefán síðan skrifað undir. Einn fundur hefði verið haldinn heima hjá honum. Þá kvað ákærði mjög líklegt að ákærði, Stefán, hefði komið að greiðslu launa og staðgreiðslu í maí og júní 2002.

Ákærði, Stefán, kvaðst hafa séð um ,,rescuemál” hjá félaginu, séð um að eiga samskipti við ráðgjafa og koma á samningum þar sem einhverjir formgallar voru á samingum. Þá kvaðst hann hafa verið stjórnarmaður í félaginu frá apríl 2002 og ritari stjórnar. Hann kvaðst aldrei hafa gengið formlega úr stjórn, en hafi engu að síður gengið út úr fyrirtækinu í júlí 2002 og ekki komið nálægt því eftir það. Ákærði kvaðst ekki hafa setið stjórnarfundi eftir júlí. Hann kvaðst hafa ritað undir þær fundargerðir sem til komu eftir það, heima hjá sér, þar sem hann hefði verið veikur, en hann hefði ekki setið fundi eftir júlímánuð 2002. Ákærði kvað daglegan stjórnanda og framkvæmdastjóra hafa verið C. Þá hafi B séð að mestu um hina daglegu hlið fjármálanna. B hafi einnig tekið ákvarðanir um greiðslu launa. Hlutverk ákærða, Hákonar, hafi aðallega verið fólgið í að fylgjast með sölumönnunum. Ákærði kvaðst ekki hafa efnislegar forsendur til að rengja þær fjárhæðir sem greinir í ákæru. Ákærði kvaðst aldrei hafa haft prókúru fyrir félagið og aldrei hafa haft aðgang að bankareikningum. Ákærði kvaðst ekki telja að hann hefði verið daglegur stjórnandi í maí og júní 2002. Þá kvað ákærði að sér hefði ekki verið ljóst að félagið skuldaði vörsluskatt og það hefði ekki verið til umræðu á stjórnarfundum. Spurður um tölvupóst frá C, þar sem fram kemur að C sé að flytja til Danmerkur og að ákærði verði staðgengill hans á meðan, kvað ákærði það rangt að hann hefði gegnt stöðu framkvæmdastjóra. Ákærði kvað B hafa haft aðgang að netbanka félagsins sem og G, en yfirmaður G hefði verið C, þar til hann lét af störfum. Ákærði kvað að sér hefði orðið ljóst í júní eða júlí 2002 að félagið ætti í greiðsluörðugleikum.

Ákærði, Hákon, kvaðst hafa verið faglegur framkvæmdastjóri Ísvár hf. í júní, júlí og ágúst 2002, en C hafi verið aðalframkvæmdastjóri og hann hafi skrifað undir ráðningarsamning við ákærða. Ákærði hefði fyrst og fremst séð um sölumálin, verið nokkurs konar sölustjóri og gæðastjóri. Ákærði kvað C hafa hætt formlega störfum í ágúst 2002, en hann hafi engu að síður verið horfinn úr fyrirtækinu í byrjun maí 2002, en þó fjarstýrt ýmsu eftir það. Ákærði kvaðst aldrei hafa komið nálægt fjármálastjórn í fyrirtækinu og aldrei haft prókúru og aldrei verið tilkynntur inn til Hlutafélagaskrár sem framkvæmdastjóri. Að mati ákærða hafi B séð um fjármál fyrirtækisins. Ákærði kvaðst neita því að hann hafi á umræddu tímabili verið eini skráði framkvæmdastjóri félagsins og benti á að C hefið verið farinn til Danmerkur á þessum tíma, en hann hefði engu að síður verið áfram með prókúru fyrir félagið og einnig hafi hann sinnt ákveðnum erindum fyrir fyrirtækið. Þá benti ákærði á að ákærði, Stefán, hefði verið tilkynntur sem staðgengill C. Ákærði kvaðst aldrei hafa komið nálægt bókhaldi félagsins eða fjármálalegum ákvörðunum og aldrei hafa séð um launagreiðslur eða aðrar greiðslur. Ákærði kvað að eftir að C hætti störfum hafi ekki verið litið svo á af stjórn félagsins að ákærði tæki við stöfum C. Á þeim tíma hafi fjármálaleg stjórnun fyrst og fremst verið í höndum A og B. Ákærði kvaðst engar forsendur hafa til að rengja þær fjárhæðir sem greinir í ákæru. Borið var undir ákærða fylgiskjal með ráðningarsamningi ákærða, en þar kemur meðal annars fram að undir framkvæmdastjóra heyri bókhald og uppgjör, útborgun launa og fjárhagsáætlun. Ákærði var inntur eftir því hvort hann hefði einhvern tíma tekið við þessum verkefnum og kvað hann svo ekki vera, um þessi verk hefði C séð og síðar staðgengill hans, ákærði, Stefán, vegna tímabilsins byrjun maí til loka júlí 2002. Ákærði kvað hann hafa sinnt störfum framkvæmdastjóra. Ákærði kvað að ákvörðun um greiðslu launa og staðgreiðsluskil hafa verið í höndum ákærða, A, B og hugsanlega ákærða, Stefáns. Spurður um hvort ákærði Stefán hefði setið fundi félagsins 29. ágúst og 10. september 2002, kvaðst ákærði ekki hafa hitt ákærða, Stefán eftir júlí 2002. Ákærði var spurður um hvers vegna hann væri titlaður sem framkvæmdastjóri í fundargerðunum og einnig í bréfum Ísvár hf. til Fjármálaeftirlitsins. Kvað þá ákærði að um einhver mistök væri þar að ræða.

Vitnið, B, kvaðst hafa starfað sem fjármálalegur ráðgjafi hjá fyrirtækinu Ísvá hf. á tímabilinu júní, júlí og ágúst 2002. Hann kvaðst hafa greitt tiltekna reikninga fyrir fyrirtækið að beiðni ákærða, A. E, starfsmaður fyrirtækisins, hefði hins vegar greitt laun, en hún hefði heyrt undir stjórn ákærða, A. Mjög hafi verið á reiki hver hefði verið raunverulegur framkvæmdastjóri félagsins. Fyrst hafi það verið C og ákærði, Stefán, síðan ákærði, Hákon og síðan aftur ákærði, A, þegar ákærði, Hákon, hafi látið af störfum. Ákærði Hákon hefði verið faglegur framkvæmdastjóri með löggildingarleyfi. Vitnið kvaðst hafa haft aðgang að heimabanka í fjarveru E, en auk hans hefði C haft aðgang að honum. Vitnið kvað E ekki hafa tekið ákvörðun um hvaða reikningar væru greiddir, það hefði verið stjórn félagsins. Vitnið kvað að sér hefði ekki verið ljóst að félagið skuldaði vörsluskatta, fyrr en í ágúst 2002. Vitnið var nánar spurt um stöðu ákærða, Stefáns, og kvað vitnið ákærða, Stefán, hafa gegnt stöðu framkvæmdastjóra frá júní í fjarveru C og hafi sú stjórn einnig lotið að fjármálalegum þáttum fyrirtækisins. Vitnið kvað C hafa haft prókúru fyrir félagið og einnig ákærða, A, en vitnið kvaðst aldrei hafa haft prókúru fyrir félagið.

Vitnið, H, kvaðst staðfesta að hafa undirritað bréf á skjali nr. 20.2 í skýrslu skattrannsóknarstjóra og staðfesti efni bréfsins rétt. Vitnið kvaðst telja að ákærði, A, hefði fengið vitneskju um vanskil á vörslusköttum skömmu áður en hann óskaði eftir að fá umrætt bréf.

Vitnið, C, kvaðst hafa hafið störf hjá Ísvá hf. árið 1999 sem markaðsstjóri félagsins, og tekið við starfi framkvæmdastjóra á árinu 2000. Vitnið kvaðst hafa farið til Danmerkur og Lettlands í apríl 2002, en þá hafi vitninu verið falið að starfa að fyrirtækjum félagsins þar. Vitnið kvað ákærða, Stefán, hafa tekið við störfum vitnisins sem framkvæmdastjóri í apríl 2002. Vitnið kvaðst ekki hafa komið að störfum fyrir félagið á Íslandi eftir apríl 2002. Vitnið kvað fjármálastjóra félagsins hafa séð um greiðslu launa og staðgreiðslu opinberra gjalda. Vitnið kvað ákærða, Hákon, hafa verið faglegan framkvæmdastjóra félagsins á þessu tímabili, en hann hafi ekki haft með fjármál félagsins að gera. Vitnið kvaðst ekki vita hver hefði haft aðgang að heimabanka félagsins eftir að vitnið fór til útlanda um vorið 2002. Vitnið staðfesti það sem haft er eftir vitninu í skýrslu skattrannsóknarstjóra í mars 2003, að ákærðu, Stefán, A og B, hefðu séð um daglegan rekstur skattaðilans á rannsóknartímabilinu. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að ákærði, Hákon, hefði haft prókúru fyrir félagið og ekki haft aðgang að heimabanka félagsins. Eftir að vitnið hætti störfum hjá félaginu, kvað vitnið ákærða, Stefán, hafa tekið við starfi vitnisins sem framkvæmdastjóri félagsins.

Vitnið, I, kvaðst hafa verið stjórnarformaður Ísvár hf. frá 1999 til apríl 2002. Þegar vitnið lét af störfum hafi C verið rekstrarlegur framkvæmdastjóri félagsins og faglegur framkvæmdastjóri hafi verið ákærði, Hákon. Vitnið kvað ákærða, Hákon, ekki hafa haft neitt með fjármál félagsins að gera.

Vitnið, F, kvaðst hafa tekið við stöðu framkvæmdastjóra sölusviðs félagsins árið 2001. Vitnið kvaðst hafa verið löggiltur vátryggingamiðlari, en aldrei séð um fjármál félagsins. Síðar hafi ákærði, Hákon, verið ráðinn í það starf sem vitnið gegndi áður. Vitnið kvað að sér hefði ekki verið kunnugt um að ákærði, Hákon, hefði borið fjárhagslega ábyrgð á rekstri félagsins.

Vitnið, J, kvað ákærða, Hákon, aldrei hafa haft með fjármál félagsins að gera, ekki haft prókúru fyrir félagið eða aðgang að heimabanka. Vitnið kvaðst hafa haft samband við B vegna launa í uppsagnarfresti, eftir að vitninu hafði verið sagt upp störfum hjá félaginu í maí 2002, en vitnið kvaðst hafa litið svo á að B hefði haft með daglegan rekstur félagsins að gera.

Vitnið, K, kvaðst hafa starfað hjá Ísvá hf. frá árinu 2000 þar til félagið hafi hætt rekstri. Vitnið kvað yfirmann sinn hafa verið ákærða, Hákon og síðar ákærða, A og B. Vitnið kvað ákærða, Hákon, ekki hafa neitt með fjármál fyrirtækisins að gera á þeim tíma er vitnið var starfandi fyrir félagið.

Vitnið, L, kvaðst hafa unnið sem ráðgjafi hjá Ísvá hf. árin 1999, 2000, 2001 og 2002. Þeir sem séð hafi um fjármál fyrirtækisins síðustu mánuðina sem það var í rekstri, hafi verið ákærði, A, og B og hafi þeir tekið ákvarðanir um hvað greitt yrði. Vitnið kvað ákærða, Hákon, ekki hafa haft prókúru fyrir félagið, en kvaðst hafa reynt að hafa samband við ákærða, Stefán, vegna vangreiðslu á launum vitnisins í júní 2002.

 

Niðurstaða.

Í málinu er ágreiningslaust að fyrirtækið Ísvá hf. stóð ekki skil á þeim fjárhæðum til innheimtumanns ríkissjóðs, sem tilgreindar eru í ákæru, en ágreiningur lýtur að því hver hafi borið ábyrgð á bókhaldi félagsins og að skattskil væru í réttu horfi.

Ákærði, A, var stjórnarformaður frá 26. apríl þar til bú Ísvár hf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Ákærði kvaðst ekki hafa haft bókhald félagsins með höndum og það fé sem hann hefði séð um að útvega inn í fyrirtækið hafi farið í að greiða starfsfólki laun. Samkvæmt framburði hans sjálfs kvaðst hann hafa litið svo á að hann hefði séð um daglega stjórn fyrirtækisins ásamt þeim ákærða, Hákoni, og B. Þá hafi ákærði, Stefán, einnig komið að daglegri stjórnun fyrirtækisins, í maí og júní 2002, en í júlí hefði hann yfirgefið fyrirtækið.

Ákærði, Stefán, sat í stjórn Ísvár hf. frá 26. apríl 2002 til 15. nóvember 2002. Í málinu er fram komið að hann sagði sig aldrei formlega úr stjórn fyrirtækisins og undirritaði fundargerðir vegna stjórnarfunda í félaginu löngu eftir þann tíma sem hann hefur sagt að hann hafi verið horfinn frá fyrirtækinu. Þá liggur frammi í málinu tölvubréf frá C, dagsett 18. apríl 2002, þess efnis að ákærði, Stefán, verði staðgengill C meðan hann sé að störfum fyrir félagið í Danmörku. C bar og fyrir dómi að ákærði, Stefán, hefði í apríl 2002 tekið við störfum vitnisins sem framkvæmdastjóri. Þá staðfesti C fyrir dómi þann framburð sinn fyrir skattrannsóknarstjóra að ákærði, Stefán, hefði ásamt ákærða, A, og B séð um daglegan rekstur Ísvár hf. á rannsóknartímabilinu.

Samkvæmt framburði ákærða, A, sá ákærði, Stefán um daglega stjórnun fyrirtækisins í maí og júní 2002 og samkvæmt framburði ákærða, Hákonar, var ákærði, Stefán, staðgengill C frá maí til loka júlí 2002 og sinnti þá störfum framkvæmdastjóra.

Óumdeilt er að ákærði, Hákon, var ,,faglegur” framkvæmdastjóri félagsins í júní, júlí og ágúst 2002. Hann bar fyrir dómi að hann hefði aldrei séð um bókhald og uppgjör fyrirtækisins og að um þau verk hefði C séð og síðar ákærði, Stefán, í fjarveru C. Í málinu liggja frammi fjölmörg bréf frá miðju ári 2002, meðal annars bréf til Fjármálaeftirlitsins, undirrituð af ákærða, Hákoni, og bréf Fjámálaeftirlitisins til ákærða, Hákonar, sem og fundargerðir félagsins þar sem ákærði er titlaður framkvæmdastjóri. Þá kom fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins til Ríkislögreglusjóra frá 14. september 2004, að Fjármálaeftirlitið hefði lagt á það áherslu í viðræðum við ákærða, Hákon, þegar í júní 2002, að ákærði þyrfti sem faglegur framkvæmdastjóri að hafa yfirsýn yfir starfsemi félagsins og huga að starfsemi félagsins í heild sinni, þar á meðal reikningsskilum og bókhaldi eftir því sem við ætti.

Eins og að ofan greinir hefur enginn ákærðu viðurkennt að hafa borið ábyrgð á daglegri stjórn félagsins, nema ákærði, A. Enginn þeirra hefur sagst hafa haft prókúru fyrir félagið og enginn þeirra taldi það í sínum verkahring að annast skil á afdreginni staðgreiðslu. Samkvæmt 3. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.

Ákærðu voru allir í stjórn félagsins á þeim tíma er ákæruefnið tekur til og komu allir á einn eða annan hátt fram fyrir hönd fyrirtækisins á þeim tíma, eins og sjá má af gögnum málsins. Sem stjórnarmönnum bar þeim að fylgjast með rekstrinum og búa svo um hnútana að starfsemi félagsins væri í réttu og góðu horfi. Þeir áttu að annast um að nægilegt eftirlit væri haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins og átti framkvæmdastjóri að sjá til þess að bókhald félagsins væri fært í samræmi við lög og venjur, samkvæmt ofangreindri 68. gr. laga um hlutafélög. Ákærðu geta ekki firrt sig þeirri skyldu sinni, með því að benda á ábyrgð hver annars.

Ákærðu eru samkvæmt öllu ofangreindu fundnir sekir um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er réttilega heimfærð til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða þykja brot ákærðu vera stórfelld og varða því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

Ákærði, A, hefur ekki áður sætt refsingu. Brot ákærða fólst ekki aðeins í því að skila ekki afdreginni staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs, heldur einnig því að skila ekki staðgreiðsluskilagreinum á lögmæltum tíma. Refsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af framangreindu fangelsi í 3 mánuði, en rétt er að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Þá verður ákærði með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur, sem ákærði skal greiða innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði, Stefán, hefur aldrei sætt refsingu sem áhrif geti haft á ákvörðun refsingar í máli þessu. Brot ákærða fólst ekki aðeins í því að skila ekki afdreginni staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs, heldur einnig því að skila ekki staðgreiðsluskilagreinum á lögmæltum tíma. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í 3 mánuði, en rétt er að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Þá verður ákærði með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur, sem ákærði skal greiða innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði, Hákon, hefur aldrei áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Brot ákærða fólst ekki aðeins í því að skila ekki afdreginni staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs, heldur einnig því að skila ekki staðgreiðsluskilagreinum á lögmæltum tíma. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í 3 mánuði, en rétt er að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Þá verður ákærði með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 1.200.000 krónur, sem ákærði skal greiða innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði, A, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 273.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði, Stefán, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 220.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði, Hákon, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 220.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Björn Þorvaldsson, fulltrúi Ríkislögreglustjóra.

Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist vegna anna dómarans.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, A, sæti fangelsi í 3 mánuði, en frestað er fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði í ríkissjóð 1.500.000 króna sekt, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 3 mánuði. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 273.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði, Stefán Kristinn Garðarsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en frestað er fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði í ríkissjóð 1.500.000 króna sekt, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 3 mánuði. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 220.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði, Hákon Hákonarson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en frestað er fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði í ríkissjóð 1.200.000 króna sekt, innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 3 mánuði. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 220.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.