Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 28

 

Föstudaginn 28. september 2001.

Nr. 359/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

             

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur varir í máli, sem ákæruvaldið hefur höfðað gegn honum, en þó eigi lengur en til mánudagsins 22. október n.k. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ákæruvaldsins gegn varnaraðila, sem kveðinn var upp 24. september 2001, var hann sakfelldur fyrir tvö ránsbrot og tvær tilraunir til ráns. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár. Í dóminum var einnig dæmd með eins mánaðar fangelsisrefsing hans, er hann hlaut með dómi 9. desember 1999 fyrir skjalafals. Sú refsing var skilorðsbundin í tvö ár og var varnaraðili talinn hafa rofið skilorð dómsins með framangreindum brotum. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 18. júlí 2001 í máli nr. 271/2001, verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2001.

Ár, mánudaginn, er á dómþingi sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allan Vagni Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Ríkissaksóknari hefur með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála krafist þess að dómfellda X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur varir, en þó eigi lengur en til mánudagsins 22. október nk. kl. 16.00.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í dag var var dómfellda gert að sæta tveggja ára fangelsi fyrir ítrekuð ránsbrot. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 29. maí 2001.  Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c og d liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991.

Við uppkvaðningu dómsins tók dómfelldi sér frest til að taka ákvörðun um áfrýjun. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 29. maí 2001 vegna gruns um brotin sem hann nú hefur verið dæmdur fyrir. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19,1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laganna stendur svo og meðan málið er til meðferðar fyrir æðra dómi. Dómfelldi hefur nú í dag verið dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir m.a. tvö ránsbrot og tilraun til tveggja ránsbrota. Með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sbr. 106. gr. sömu laga verður krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur varir í máli S-1564/2001, en þó eigi lengur en til mánudagsins 22. október 2001 kl. 16.