Hæstiréttur íslands
Mál nr. 174/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Faðerni
- Börn
- Mannerfðafræðileg rannsókn
|
|
Þriðjudaginn 17. maí 2005. |
|
Nr. 174/2005. |
A og B (Jón Sveinsson hrl.) gegn C (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Faðerni. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn.
Hæstiréttur hafnaði kröfu C um að nýta mætti lífsýni úr látinni móður hans og látnum föður þeirra A og B við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í faðernismáli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2005, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að nýta mætti lífsýni úr látinni móður hans og látnum föður sóknaraðila við mannerfðafræðilega rannsókn til sönnunarfærslu í faðernismáli, sem varnaraðili rekur á hendur sóknaraðilum, enda gæfi hann jafnframt blóðsýni hjá Rannsóknastofu í réttarlæknisfræði í þágu sömu rannsóknar. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi eða ómerktur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða sér kærumálskostnað. Til vara krefst hann þess að ákveðin verði þóknun lögmanns hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem greiðist úr ríkissjóði.
I.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili fæddur [...]. Móðir hans var D, fædd [...], sem lést [...]. Hún gekk í hjúskap [...] við E, en hann var fæddur [...] og lést [...]. Taldist E vera faðir varnaraðila á grundvelli 1. gr. laga nr. 57/1921 um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, sem í gildi voru þegar varnaraðili fæddist.
Varnaraðili leitaði 21. ágúst 2003 eftir því við Rannsóknastofu í réttarlæknisfræði að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífssýnum úr sér og þeim D og E til að staðreyna hvort sá síðastnefndi hafi í reynd verið faðir sinn. Í álitsgerð rannsóknastofunnar 26. febrúar 2004 var komist að þeirri niðurstöðu að útilokað væri að E væri faðir varnaraðila. Til samræmis við þetta mun hafa gengið dómur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. september 2004 í máli, sem varnaraðili höfðaði til vefengingar á faðerni sínu, þar sem dæmt var að E væri ekki faðir hans.
Varnaraðili höfðaði mál þetta 8. desember 2004 á hendur sóknaraðilum með þeirri kröfu að þeim yrði gert að þola að F, sem fæddist [...] og lést [...], yrði dæmdur faðir varnaraðila. Í héraðsdómsstefnu var greint þannig frá atvikum málsins að varnaraðili hafi frá ungum aldri verið þess fullviss að hann væri ekki sonur E, sem hafi verið eiginmaður móður varnaraðila þegar hann fæddist og „því skráður faðir samkvæmt pater est reglunni.“ Hafi varnaraðili ætíð talið sig son F og meðal annars haft orð móður sinnar fyrir því. Um atvik málsins var að öðru leyti greint í stefnunni frá áðurnefndri mannerfðafræðilegri rannsókn og niðurstöðu máls varnaraðila um vefengingu á faðerni sínu. Um málsástæður og lagarök vísaði hann til þess að hann ætti lögvarinn rétt á að fá skorið úr faðerni sínu þegar það lægi orðið fyrir að E hafi með mannerfðafræðilegri rannsókn útilokast frá því að geta verið faðir hans. Var þess og getið að málinu væri beint að sóknaraðilum sem skylduerfingjum F eftir reglum 10. gr. barnalaga um málsaðild. Að öðru leyti en þessu laut efni stefnunnar einungis að kröfu varnaraðila um að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á lífssýnum úr sér, D og F, svo og röksemdum fyrir þeirri kröfu ásamt kröfu um málskostnað. Sóknaraðilar hafa haldið uppi vörnum í málinu og krefjast sýknu. Varnaraðili ítrekaði kröfu sína um að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 21. mars 2005. Gegn andmælum sóknaraðila féllst héraðsdómari á kröfuna með hinum kærða úrskurði.
II.
Í máli þessu neytir varnaraðili þeirrar heimildar, sem veitt er barni sjálfu með 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga til að höfða dómsmál um faðerni sitt. Þegar það er gert gildir sú regla samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar að varnaraðili máls skuli vera sá maður eða þeir, sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns, en að honum eða þeim látnum megi beina máli að lögerfingjum, sem gengju barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Móðir varnaraðila lést sem áður segir [...], áratugum eftir að hann átti þess fyrst kost að höfða dómsmál um faðerni sitt. Því er ekki borið við í málinu að hún hafi nokkru sinni fyrir yfirvöldum eða dómi lýst F föður varnaraðila. Ekkert liggur fyrir í málinu af hennar hendi um að hún hafi talið svo vera. Varnaraðili hefur heldur ekkert fært fram, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt gæti verið það meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málsókn þessari, sem áður er getið. Er reyndar ekki staðhæft berum orðum í málatilbúnaði varnaraðila að slík atvik hafi gerst. Mannerfðafræðileg rannsókn samkvæmt 15. gr. barnalaga getur farið fram til að leita sönnunar í dómsmáli, sem rekið er um faðerni barns. Þeirri heimild verður eðli máls samkvæmt ekki beitt nema fyrir hendi séu þau grundvallarskilyrði fyrir höfðun faðernismáls, sem skortir hér á samkvæmt framansögðu. Að því virtu verður hafnað kröfu varnaraðila um að slík rannsókn verði gerð í máli þessu.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Samkvæmt 11. gr. barnalaga skal greiða þóknun lögmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, C, um að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á lífssýnum úr honum sjálfum, D og F.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Þóknun lögmanns varnaraðila fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti, 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2005.
Mál þetta var höfðað 8. desember sl.
Stefnandi er C, [heimilisfang]
Stefndu eru A og B.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að þola að F f. [...], d. [...], verði dæmdur faðir hans. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður.
Þegar mál þetta var tekið fyrir 21. mars sl. setti lögmaður stefnanda fram þá kröfu að dómurinn úrskurðaði að heimilað verði að fram fari mannerfðafræðilegar rannsóknir á lífsýnum frá D, móður stefnanda, f. [...], d. [...] og F, meintum föður stefnanda, f. [...], d. [...]. Jafnframt að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram á blóðsýni úr stefnanda til þess að staðreyna faðerni hans.
Lögmaður stefndu mótmælti því að slík rannsókn fari fram og að úrskurðað verði um það.
Lögmaður stefndu óskaði bókað að hann mótmæli framkvæmd og niðurstöðu þeirrar blóðrannsóknar sem gerð var á stefnanda þar sem ósannað sé að lífssýni sem rannsakað var sé tekið úr stefnanda. Hann telur einnig að það sé grundvallarskilyrði að óvéfengjanleg blóðrannsókn á stefnanda fari fram áður en frekari rannsóknir verði gerðar. Lögmaður stefndu telur jafnframt að ekki sé rétt að beina kröfum að stefndu varðandi notkun lífsýna úr F og D í þágu mannerfðafræðilegrar rannsóknar.
Lögmaður stefnanda mótmælti afstöðu stefndu varðandi aðgang að lífsýnum og benti á að barnalög geri ráð fyrir mannerfðafræðilegum rannsóknum í málum af þessu tagi og að dómari úrskurði þar um. Hann benti jafnframt á að fyrir liggi dómur í vefengingamáli sem stefnandi höfðaði þar sem staðfest var að E væri ekki faðir stefnanda.
Krafa stefnanda var síðan tekin til úrskurðar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 2. september 2004, í málinu nr. E-4612/2004, sem stefnandi höfðaði til viðurkenningar á því að E, f. [...], d. [...], væri ekki faðir hans, var fallist á kröfur stefnanda. Eins og greinir hér að framan vefengja stefndu þá rannsókn á blóði stefnanda sem fram fór í tengslum við málið og byggt var á í málinu. Segir í greinargerð stefndu að stefnandi í málinu nr. E-4612/2004 hafi, hinn 30. október 2003, sent blóðsýni á rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði sem tekið var af systur hans og hafi hún vottað blóðtökuna með undirskrift sinni og kennitölu. Telur stefndi að gera verði þá kröfu að algerlega óháður og viðurkenndur aðili, sem hafi til þess þekkingu, taki slíkt blóðsýni úr viðkomandi og að það berist rannsóknaraðila með sannanlegum hætti fyrir milligöngu sjálfstæðs óháðs aðila. Ekki hafi svo verið í því tilviki sem hér um ræði.
Framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hefur ekki verið hnekkt og er það ekki á valdi dómara þessa máls að taka afstöðu til niðurstöðu í því máli.
Samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003 getur dómari, samkvæmt kröfu, ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og barni og ennfremur sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir. Eru þeir sem í hlut eiga skyldir til að hlíta blóðtöku svo og annarri rannsókn í þágu sérfræðilegra kannana. Dómari getur með sama hætti ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn og mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram á foreldrum og eftir atvikum systkinum aðilanna, svo og á börnum þeirra.
Móðir stefnanda er látin. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu veit stefnandi ekki til að annar maður en F hafi getað verið faðir hans. Þykir ljóst að mál þetta verður ekki til lykta leitt öðruvísi en að mannerfðafræðilegar rannsóknir fari fram.
Samkvæmt fyrirliggjandi álitsgerð Gunnlaugs Geirssonar prófessor er til lífsýni frá móður stefnanda, D. Hins vegar liggur ekki fyrir hvort lífsýni frá F er til. Þykir það hins vegar ekki standa því í vegi að heimilað verði að nota slíkt sýni, sé það til staðar, í þágu mannerfðafræðilegrar rannsóknar svo unnt sé að leiða mál þetta til lykta, en fallast ber á að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni að því að fá úr því skorið hver var faðir hans.
Þar sem stefnandi hefur farið fram á að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram á blóðsýni úr sér til þess að staðreyna faðerni hans, sbr. kröfu hans, þykir með hliðsjón af andmælum stefndu rétt að blóðsýni úr honum verði tekið hjá Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði.
Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á kröfu stefnanda.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Heimilt er að nota lífsýni frá D, f. [...], d. [...] og F, f. [...], d. [...] í þágu mannerfðafræðilegrar rannsóknar til staðfestingar á faðerni stefnanda, C. Þá skal stefnandi gefa blóðsýni hjá Rannsóknastofu í réttarlæknisfræði í þágu sömu rannsóknar.