Hæstiréttur íslands
Mál nr. 128/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 19. mars 1999. |
|
Nr. 128/1999 |
X (Sigurður Eiríksson hdl.) gegn Akureyrarbæ (Baldur Dýrfjörð hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdómara um að hafna kröfu X um að fellt yrði úr gildi samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess að hún yrði vistuð gegn vilja sínum á sjúkrahúsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. mars 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 12. þessa mánaðar til þess að hún yrði vistuð gegn vilja sínum á sjúkrahúsi. Kæruheimild er 4. mgr. 31. gr. , sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hún krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. mars 1999.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær, er tilkomið vegna kröfu Sigurðar Eiríkssonar hdl. f.h. sóknaraðilja X með vísan til 30. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, þar sem borin er undir dóminn samþykki Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 12. þ.m. um að sóknaraðilji verði vistaður á sjúkrahúsi gegn eigin samþykki allt að 21 sólarhring.
Gerir hún þá kröfu að heimild til nauðungarvistunar og þvingaðrar lyfjagjafar verði felld niður.
Barst dóminum krafa þessi 12. þ.m. kl. 18:44.
Varnaraðilji krefst þess að kröfu sóknaraðilja verði hafnað.
Sóknaraðili dvelst nú á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og í kröfunni á dskj. nr. 1 segir að hún hafi í fyrstu komið sjálfviljug á sjúkrahúsið, en eftir að henni var ljóst að um nauðungarvistun var að ræða hafi hún orðið því andvíg. Hafi hún í nokkur skipti áður verið sjúklingur á geðdeild, en hún telji sig hins vegar aldrei verið haldin geðsjúkdómi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið samþykkti vistun sóknaraðilja 12. þ.m., sbr. dskj. nr. 2. vegna ástæðna er greinir í 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 og er samþykki ráðuneytisins byggt á vottorði Péturs Péturssonar, heilsugæslulæknis, dags. 11. þ.m., en beiðni um nauðungarvistun samkvæmt 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, er undirritað af Ráðgjafadeild Akureyrar 12. þ.m., sbr. dskj. nr. 8.
Í beiðninni á dskj. nr. 8 segir að sóknaraðilji sé haldinn ofskynjunum og sé að fá fyrirmæli að handan. Hafi hún að sögn ekki tekið lyf í mánuð, sé illa áttuð og sé ekki í neinu ástandi til að annast börn sín. Vilji hún ekki þiggja lyfjagjöf þar sem hún telji það skemma fyrir miðilshæfileikum sínum. Sé því nauðsynlegt fyrir hana og börn hennar að hún nái sem fyrst bata, en hún geri sér ekki grein fyrir ástandi sínu og er því farið á leit að hún verði lögð inn á geðdeild og fái þar þá meðferð er hún þurfi.
Í læknisvottorði, Péturs Péturssonar, heilsugæslulæknis, til Dóms- og kirkjumálaráðuneytis dags. 11. þ.m., sbr. dskj. nr. 10, segir svo um sjúkdómsferil og félagslegar aðstæður sóknaraðilja, að hún hafi verið sjúk af geðklofa síðan 1996 og hafi nokkrum sinnum þurft að vistast á geðdeild FSA og hafi jafnvel komið til sviptingar vegna þess arna. Sé hún í sambúð með föður yngra barns síns, sem sé 6 ára, og eigi auk þess 10 ára gamlan son með öðrum manni. Hafi sóknaraðilji ekki unnið undanfarin misseri vegna veikinda sinni, sem þó hafi tekist ágætlega að halda niðri á köflum með viðeigandi lyfjameðferð. Undanfarnar vikur hafi hún þó engin lyf tekið og hafi hún verið að sigla upp í óróleika síðustu vikuna.
Þar sem hún var ekki til samvinnu við geðlækni kvöldið áður hafi læknirinn gert sér ferð heim til hennar og hafi þar verið vel tekið.
Skoðun læknisins á heimili sóknarðilja þann 11. þ.m. kl. 11:30 segir hann sóknaraðilja vel vakandi, en nokkuð öra og bresti mjög gjarnan í grát þegar hún skýri frá skilningsleysi fjölskyldu sinnar og heilbrigðisstétta á miðilshæfileikum sínum. Haldi hún sæmilega þræði í frásögn sinni, sem sé mjög full af ranghugmyndum um yfirnáttúrulega krafta sem að stýri henni, yfirnáttúrulega hæfileika hennar til að hafa samband við fólk í öðrum heimi og nauðgun sem hún hafi orðið fyrir af annars heims veru morguninn áður. Hafi hún farið úr jafnvægi við það og lent í árekstri í gær og sé það sannleikanum samkvæmt að hún hafi ekið bíl sínum á kyrrstæða bifreið tannlæknis hér í bæ, sem hafi haft samband við lækninn vegna annarlegs ástands sóknaraðilja. Sé sóknaraðilji bærilega áttuð á stað og stund, en hún hafi ekkert sjúkdómsinnsæi. Hún bresti mjög auðveldlega í grát og sé mjög á ferð og flugi og sé óróleg. Sýni hún enga árásartilburði og sé vel samvinnuþýð og hafi lækninum tekist að ná henni það til samvinnu að hún fylgi honum á sjúkrahús.
Í niðurstöðu læknisins segir að sóknaraðilji hafi þurft innlagnar við á geðdeild FSA í apríl og september 1996 og í júlí og nóvember 1997 og hafi hún þá hlotið greininguna aðsóknargeðklofi F20.D (ICD10). Hún sé með mjög alvarlegan geðsjúkdóm og hafi nú misst allt raunveruleikaskyn og valdi aðsóknarhugmyndir henni verulegri vanlíðan. Hún hafi ekkert sjúkdómsinnsæi og neiti að taka lyf þó að hún hafi samþykkt innlögn. Ljóst sé því að hún þarfnist bráðrar sérhæfðrar meðferðar á lokaðri deild, þar sem að hún sé alls ófær um að taka ákvarðanir eða bera ábyrgð á þeim og ekki sé hægt að treysta á neina samvinnu af hennar hálfu. Hætt sé við að hún geti skaðað sjálfa sig, börn sín, ellegar annað umhverfi. Mælir hann því með að gengið sé frá formsatriðum varðandi nauðungarvistun þannig að hægt sé að veita henni nauðsynlega læknismeðferð.
Í athugasemdir Sigmundur Sigfússonar, yfirlæknis geðdeildar FSA, dags. 14. þ.m., sbr. dskj. nr. 14 og 15, vegna umfjöllunar dómsins um nauðungarvistun og þvingaða lyfjagjöf sóknaraðilja þá segir yfirlæknirinn að 10. þ.m. hafi heimilislæknir sóknaraðilja, Pétur Pétursson, beðið vakthafandi geðlækni á FSA um mat á geðheilsu hennar og helst vistun á sjúkrahúsinu vegna gruns um að geðheilsa hennar hefði farið mjög versnandi. Á áttunda tímanum um kvöldið hafi sóknaraðilji komið sjálfviljug á sjúkrahúsið í fylgd sambýlismanns síns. Eftir stutt viðtöl við hana og sambýlismanninn sitt í hvoru lagi og saman hafi verið fullljóst að veruleg versnun hafi orðið á áður þekktum geðklofasjúkdómi hennar, enda hafi sóknaraðilji upplýst að hún hafi ekki tekið þau lyf sem geðlæknir hennar, Brynjólfur Ingvarsson, hafi ráðlagt til að halda sjúkdómseinkennum niðri. Hafi sóknaraðilji verið í viðtali ör og spennt og sagt óðamála frá meintum miðilshæfileikum sínum og reyndi að sýna þá. Ljóst var að hún væri haldin miklum hugsanatruflunum, ranghugmyndum og sennilega ofskynjunum. Hafi hún brugðist illa við þegar reynt var að stöðva orðaflaum hennar. Hugmyndir hennar um og upplifanir um samband við sitt við annan heim hafi verið svo megnar að hún hafi talið sig þá um morguninn vaknað alblóðuga vegna nauðgunar af völdum veru sem ekki hafi verið af þessum heimi. Kvaðst hún hafa sýnt 6 ára barni sínu vegsummerkin og hafi hún talið barnið einnig hafa orðið vitni af ofbeldisverkinu í sínum draumi. Þegar reynt hafi verið að fá sóknarðilja með góðu að skilja að geðdeildin gæti hjálpað henni með vistun og viðeigandi lyfjagjöf hafi hún brugðist reið við og sagst ekki vera veik. Hafi hún þó virst vera dálítið tvístígandi í afstöðu sinni til innlagnarinnar, en geðlæknir taldi að ekkert gagn myndi vera af innlögn nema sjúklingurinn myndi hlíta læknisráði um meðferð. Reynsla sé af því að lyfjameðferð við bráðri geðveiki hafi gagnast sóknaraðilja í fyrri innlögnum hennar á geðdeild FSA, í apríl 1996, í júlí s.á. og í september og nóvember 1997. Að svo búnu hafi sóknaraðilji farið fremur ósátt heim til sín í fylgd sambýlismanns, en heimilislæknir upplýstur um málalok. Bjóst hann þá til að meta hvort efni væru til að vista sóknaraðilja á sjúkrahúsi gegn vilja hennar með leyfi Dómsmálaráðuneytisins.
Varðandi innlögnina þá hafi sóknaraðilji komið í hádeginu 11. þ.m. til innlagnar á geðdeildina og hafi heimilislæknir hennar, Pétur Pétursson, fylgt henni. Sjúkdómseinkennin hafi verið þau sömu og daginn áður og sjúkdómsinnsæi ekkert. Af hálfu lækna geðdeildar FSA hafi innlögnin verið samþykkt í trausti þess að leitað yrði leyfis fyrir nauðungarvistun m.a. til að unnt yrði að koma við nauðsynlegri lyfjameðferð. Meðan leyfis var beðið hafi ekki verið reynt að gefa sóknaraðilja lyf, enda hafi hún ekki talið sig þurfa á þeim að halda.
Eftir viðtal fulltrúa Ráðgjafadeildar Akureyrarbæjar við sóknarðilja að morgni 12. þ.m. hafi af hálfu Ráðgjafadeildar verið sótt um leyfi dómsmálaráðuneytis til vistunar á sóknaraðilja á sjúkrahúsi gegn vilja hennar, með vísan til læknisvottorðs Péturs Péturssonar, dags. 11. þ.m. svo sem áður er rakið. Hafi leyfi ráðuneytisins borist í símriti til sjúkrahússins kl. 14:27 þann 12. þ.m. og yfirlæknirinn þá kynnt sóknaraðilja hina nýju skilmála vistunar hennar á geðdeildinni laust fyrir kl. 15:30 og boðið henni að þiggja forðalyfjasprautu í vöðva (Trilafon Decanovat 1 ml.) hafi hún þá mótmælt bæði nýjum vistunarskilmálum og lyfjagjöf, sem hún hafi fengið gegn vilja sínum um kl. 15:45 þann 12. þ.m.
Þar sem að hún hafi óskað að kæra bæði vistun og meðferð hafi henni strax verið hjálpað til að fá lögmann á vettvang til aðstoðar við kæru til Héraðsdóms Norðurlands eystra.
Að kvöldi 12. og 13. þ.m. hafi sóknaraðiljinn kosið fremur að taka ráðlögð lyf í töfluformi en sprautu. Eftir nauðungarlyfjagjöfina hafi hún verið fremur róleg í sínum hugarheimi á geðdeildinni. Hafi hún þó látið í ljós reiði í garð starfsfólks deildarinnar og náinna aðstandenda. Sé hún enn haldin miklum hugsanatruflunum og hafi tilhneigingu til að ganga klæðalaus um, sem þurfi endurtekið að leiðrétta.
Í áliti yfirlæknisins segir að hans mati þarfnist sóknaraðilji nauðsynlega áframhaldandi vistunar og meðferðar á geðdeild FSA. Gefa þurfi henni aðra forðalyfjasprautu að 2 vikum liðnum, eftir það yrði hún líklega fljótlega fær um brautskráningu af sjúkrahúsinu heim til sín miðað við fyrri reynslu. Hún þarfnist síðan áfram langvarandi lyfjameðferðar til að hindra endurtekin veikindi af því tagi sem hafi leitt til innlagnar nú, en skortur á sjúkdómsinnsæi af hennar hálfu hafi hingað til hindrað samfellda meðferð.
Hér fyrir dómi kvaðst sóknaraðilji, aðspurð af dómara, vera alheilbrigð og í þinghaldinu 14. þ.m. hélt hún fast við kröfuna að hrundið yrði samþykki Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um nauðungarvistun og þvingaða lyfjagjöf.
Rakti hún í stórum dráttum samskipti sín við lækna og starfsfólk geðdeildar FSA, sem hún sagði alla vera óhæfa og hygðist kæra sérstaklega vegna afskipta af málefnum hennar. Kvaðst hún eiga tvö börn hér á jörð og þrjú fyrir handan sem hún væri í sambandi við í gegnum miðla og spákonur.
Í þinghaldinu í gær þá var sóknaraðilji tilbúin að dveljast inn á geðdeild á eigin forsendum.
Álit dómsins.
Með vísan til þess sem að framan er rakið í vottorði Péturs Péturssonar, heilsugæslulæknis, á dskj. nr. 10 og athugasemda Sigmundar Sigfússonar, yfirlæknis, á dskj. nr. 14 og 15 telur dómurinn sannað að geðheilsu sóknaraðilja sé þannig varið, með vísan til 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, að ekki sé tilefni til að fella úr gildi samþykki Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 12. þ.m. um vistun sóknaraðilja á sjúkrahúsi gegn vilja hennar og að hún hljóti viðeigandi læknismeðferð.
Þóknun skipaðs talsmanns hennar, Sigurðar Eiríkssonar hdl., kr. 30.000 auk virðisaukaskatts greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kröfu X um að fellt verði úr gildi samþykki Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 12. þ.m. til meðferðar henanr á sjúkrahúsi vegna ástæðna er greinir í 2. mgr. 19. gr. lögræðisilaga nr. 71, 1997 er hafnað.