Hæstiréttur íslands

Mál nr. 120/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Samaðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. mars 2002.

Nr. 120/2002.

ÁÁ eignarhaldsfélag hf.

Fjárfestingafélagið Brúskur ehf.

Gallabuxnabúðin ehf.

Gull ehf.

Hópsnes ehf.

Laugasel sf.

Sonja ehf.

Sparisjóður Hafnarfjarðar og

Lilja Hrönn Hauksdóttir

(Sigurbjörn Magnússon hrl. og

Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

Rekstrarfélagi Kringlunnar og

(Helgi V. Jónsson hrl.)

Reykjavíkurborg

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

 

Kærumál. Aðild. Samaðild. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

ÁÁ hf. o.fl., sem voru eigendur að samtals 7,897% í fjöleignarhúsinu Kringlunni 4-12 í Reykjavík, höfðuðu mál á hendur Rekstrarfélagi Kringlunnar (R) og Reykjavíkurborg (RB) þar sem þau kröfðust þess að viðurkennt yrði að ákvörðun R um að fjarlægja tvo rúllustiga í syðri hluta norðurhúss Kringlunnar hafi verið ólögmæt og að R yrði gert að setja umrædda rúllustiga aftur upp og færa húsnæðið til fyrra horfs. Þá kröfðust þau þess að ákvörðun RB um að veita leyfi til þess að fjarlægja þessa rúllustiga yrði felld úr gildi og að lagt yrði fyrir RB að hlutast til um að rúllustigarnir yrðu settir upp á ný og húsnæðið fært í fyrra horf. Í dómi Hæstaréttar segir að óumdeilt sé að ÁÁ hf. o.fl. séu eigendur að húsinu Kringlunni 4-12 ásamt nokkrum fjölda annarra manna og félaga. Með málsókn sinni leitist þau við að fá umræddri ákvörðun R  hrundið og húsnæðið fært í fyrra horf. Af þessu hafi ÁÁ hf. o.fl. sjálfstæða hagsmuni, sem þau séu bær um að fylgja eftir með málsókn án þess að þörf sé samaðildar þeirra með öðrum eigendum hússins, sbr. síðari málslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þótt kröfur þeirra á hendur R geti varðað aðstöðu annarra húseigenda til verslunarrekstrar og eftir atvikum leitt til kostnaðar fyrir þá, verði ekki horft fram hjá því að R einn hafi tekið ákvörðunina og látið verða af þeim framkvæmdum, sem ÁÁ hf. o.fl. vilji láta ganga til baka. Fyrst svo hafi háttað til sé R jafnframt bært um að svara einn til saka í málinu án þess að sóknaraðilum beri vegna fyrri málsliðar 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 nauðsyn til að beina kröfum sínum um leið að öðrum eigendum hússins. Séu því ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna ákvæða 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Að því er snerti skyldu RB til að hlutast til um að umræddir rúllustigar yrðu settir aftur í húsið að Kringlunni 4-12 og að annað það, sem breytt var í tengslum við brottnám þeirra, yrði fært í fyrra horf tók Hæstiréttur fram að ekki yrði leyst efnislega úr um það hvort RB gæti verið þetta skylt nema hún ætti aðild að málinu. RB hafi ekki hnekkt því að ÁÁ hf. o.fl. geti haft lögvarða hagsmuni af því að fá hana skyldaða til að ljá atbeina sinn til að koma fram þessum breytingum á húsinu. Af þessum sökum verði ekki fallist á með RB að ástæða sé til að vísa málinu frá dómi að því er hana varðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og honum gert að taka málið til efnismeðferðar, til vara að svo verði gert að því er varðar aðrar kröfur þeirra en þá, sem auðkennd var nr. 3 í héraðsdómsstefnu, en til þrautavara að þetta verði gert um aðrar kröfur en þær, sem auðkenndar voru nr. 3 og 5 í stefnunni. Í öllum tilvikum krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðilans Rekstrarfélags Kringlunnar.

Varnaraðilinn Rekstrarfélag Kringlunnar krefst þess að hinn kærði úrskurður verður staðfestur og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilinn Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Sóknaraðilar munu vera eigendur að samtals 7,897% í fjöleignarhúsinu Kringlunni 4-12 í Reykjavík, þar sem rekin er verslunarmiðstöð með heitinu Kringlan. Þau höfðuðu þetta mál 31. október 2001 og gerðu samkvæmt héraðsdómsstefnu svofelldar dómkröfur: Í fyrsta lagi að viðurkennt yrði að ólögmæt hafi verið ákvörðun varnaraðilans Rekstrarfélags Kringlunnar 7. desember 2000 um að fjarlægja tvo rúllustiga milli 1. og 2. hæðar í syðri hluta norðurhúss Kringlunnar. Í öðru lagi að ákvörðun varnaraðilans Reykjavíkurborgar 4. janúar 2001 um að veita leyfi til þess að fjarlægja þessa rúllustiga yrði felld úr gildi. Í þriðja lagi að varnaraðilanum Rekstrarfélagi Kringlunnar yrði gert að setja innan 30 daga frá uppsögu dóms umrædda rúllustiga aftur upp og færa húsnæðið til fyrra horfs. Í fjórða lagi að síðastnefndum varnaraðila yrði gert að greiða málskostnað. Loks í fimmta lagi að lagt yrði fyrir varnaraðilann Reykjavíkurborg að hlutast til um að rúllustigarnir yrðu settir upp á ný og húsnæðið fært í fyrra horf innan frests, sem byggingarnefnd hans ákveði. Fyrstu fjórum kröfunum var beint eingöngu að varnaraðilanum Rekstrarfélagi Kringlunnar, en þeirri fimmtu að varnaraðilanum Reykjavíkurborg einum.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila tók varnaraðilinn Rekstrarfélag Kringlunnar ákvörðun um að fjarlægja áðurgreinda rúllustiga úr húsinu Kringlunni 4-12 og fylgdi henni eftir með framkvæmdum í ársbyrjun 2001. Óumdeilt er að sóknaraðilar, níu að tölu, séu eigendur að húsinu ásamt nokkrum fjölda annarra manna og félaga. Með málsókn sinni leitast sóknaraðilar við að fá umræddri ákvörðun varnaraðilans hrundið og húsnæðið fært í fyrra horf. Af þessu hafa sóknaraðilar sjálfstæða hagsmuni, sem þeir eru bærir um að fylgja eftir með málsókn án þess að þörf sé samaðildar þeirra með öðrum eigendum hússins, sbr. síðari málslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þótt kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Rekstrarfélagi Kringlunnar geti varðað aðstöðu annarra húseigenda til verslunarrekstrar og eftir atvikum leitt til kostnaðar fyrir þá, verður ekki horft fram hjá því að varnaraðilinn einn tók ákvörðunina og lét verða af þeim framkvæmdum, sem sóknaraðilar vilja láta ganga til baka. Fyrst svo háttaði til er þessi varnaraðili jafnframt bær um að svara einn til saka í málinu án þess að sóknaraðilum beri vegna fyrri málsliðar 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 nauðsyn til að beina kröfum sínum um leið að öðrum eigendum hússins. Eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna ákvæða 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Með áðurnefndum fimmta lið í kröfum sínum leita sóknaraðilar dóms um skyldu varnaraðilans Reykjavíkurborgar til að hlutast til um að umræddir rúllustigar verði settir aftur í húsið að Kringlunni 4-12 og að annað það, sem breytt var í tengslum við brottnám þeirra, verði fært í fyrra horf. Ekki verður leyst efnislega úr um það hvort varnaraðilanum geti verið þetta skylt nema hann eigi aðild að málinu. Varnaraðilinn hefur ekki hnekkt því að sóknaraðilar geti haft lögvarða hagsmuni af því að fá hann skyldaðan til að ljá atbeina sinn til að koma fram þessum breytingum á húsinu. Af þessum sökum verður ekki fallist á með varnaraðilanum Reykjavíkurborg að ástæða sé til að vísa málinu frá dómi að því er hann varðar.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2002.

I

Mál þetta er höfðað 31. október sl. og tekið til úrskurðar 13. febrúar sl.

Stefnendur eru ÁÁ eignarhaldsfélag hf., Kringlunni 8 – 12, Fjárfestingafélagið Brúskur ehf., Sundaborg 24, Gallabuxnabúðin ehf., Laugavegi 64, Gull ehf., Jöklafold 16, Laugasel sf., Vesturfold 23, og Sonja ehf., Laugavegi 95, allir í Reykjavík og Lilja Hrönn Hauksdóttir, Haukanesi 13, Garðabæ og Hópsnes ehf., Vesturbraut 3, Grinda­vík og Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8 – 10, Hafnarfirði.

Stefndu eru Rekstrarfélag Kringlunnar, Kringlunni 4 – 12, Reykjavík og Reykja­víkur­borg.

Stefnendur gera eftirfarandi kröfur á hendur stefnda, Rekstrarfélagi Kringlunnar:

1.Að viðurkennt verði að sú ákvörðun stjórnar Rekstrarfélags Kringlunnar, sem tekin var 7. desember árið 2000, um að fjarlægja tvo rúllustiga milli 1. og 2. hæð­ar í syðri hluta norðurhúss Kringlunnar, á lóð nr. 4 – 12 við Kringluna í Reykjavík, hafi verið ólögmæt.

2.Að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. desember árið 2000 um að veita leyfi til þess að fjarlægja nefnda tvo rúllustiga milli 1. og 2. hæðar í syðri hluta norðurhúss Kringlunnar á lóð nr. 4 – 12 við Kringluna, sem lögð var fram á fundi borgarráðs Reykjavíkur þann 29. desember 2000 og samþykkt á fundi borg­ar­stjórnar 4. janúar 2001, verði felld úr gildi.

3.Að hið stefnda félag verði skyldað til þess að setja aftur upp rúllustigana, sbr. kröfu­lið 1 til 2, og færa til fyrra horfs þær breytingar aðrar sem gerðar voru í tengslum við brottnám stiganna, innan 30 daga frá uppkvaðningu dóms.

Þá er krafist málskostnaðar.

Á hendur stefnda, Reykjavíkurborg, eru gerðar eftirfarandi kröfur:

Að lagt verði fyrir byggingarnefnd Reykjavíkurborgar að hlutast til um að rúllu­stigar, sbr. kröfulið 1 til 2, verði settir upp aftur og færðar verði til fyrra horfs þær breyt­ingar aðrar sem gerðar voru í tengslum við brottnám stiganna, innan hæfilegs frests sem byggingarnefnd ákveður.

Stefndi, Rekstrarfélag Kringlunnar, krefst aðallega frávísunar og málskostnaðar.

Stefndi, Reykjavíkurborg, krefst frávísunar.

II

Stefnendur kveða málavexti vera þá að í maí árið 2000 hafi stefndi, Rekstrarfélag Kringl­unnar, kynnt hugmyndir um að fjarlægja tvo rúllustiga milli 1. og 2. hæðar í syðri hluta norðurhúss Kringlunnar í Reykjavík.  Í kjölfar fundar um málið hafi milli 60 og 70 eigendur og rekstararaðilar í Kringlunni ritað undir mótmælayfirlýsingu gegn þessum hugmyndum.  Á stjórnarfundi í stefnda 7. desember 2000 hafi svo verið sam­þykkt að rúllustigarnir yrðu fjarlægðir og var miðað við að framkvæmdir hæfust í árs­byrjun 2000.  Stefnendur kveða kynningarfund hafa verið haldinn um miðjan desem­ber en fáir hafi sótt hann vegna anna í miðri jólaverslun.  Í sama mánuði hafi verið sótt um byggingarleyfi til að fjarlægja rúllustigana og hafi sú umsókn verið sam­þykkt af byggi­ngarfulltrúa 19. desember 2000 og samþykkt á fundi borgarstjórnar 4. janúar 2001.  Framkvæmdir við að rífa rúllustigana hafi hafist 2. janúar 2001.  Beiðni um að málið yrði borið undir félagsfund með formlegum hætti hafi hins vegar verið hafnað á þeim forsendum að stjórn félagsins hefði fullt forræði um ákvarðanir sem þessar.  Í janúar 2001 leituðu 4 stefnenda álits Kærunefndar fjöleignarhúsamála á lög­mæti þessarar ákvörðunar og 4. júlí s.á. lét kærunefndin í ljós það álit að ákvörðun stjórnar stefnda frá 7. desember 2000 um að fjarlægja rúllustigana væri ólögmæt.

Stefndi, Rekstrarfélag Kringlunnar, gerir þá grein fyrir málavöxtum að hann hafi verið stofnaður 30. mars 2000 af Húsfélaginu Kringlunni 8 – 12, Rekstrarfélagi Borg­ar­kringlunnar og Þyrpingu hf.  Tilgangur stefnda sé að sjá um sameiginlegan rekst­ur versl­unarmiðstöðvarinnar í Kringlunni 4 – 12, gæta hagsmuna eigenda, afnota­hafa og rekstraraðila og koma fram fyrir þá sameiginlega út á við.  Meðal nýmæla í sam­þykktum stefnda var að eigendur skyldu bera kostnað við endurbætur á fast­eign­un­um eftir eignarhlut sínum í þeim.  Eignarhald fasteignanna hafi eftir sem áður verið óbreytt, það er aðilar að Félagi húseigenda Kringlunni 8 – 12 eiga þá fasteign í óskiptri sameign, Þyrping hf. er eigandi tengibyggingar á milli upphaflegu Kringl­unnar og Borgarkringlunnar og aðilar að Rekstrarfélagi Borgarkringlunnar eigi þá fasteign. 

Á stofnfundi stefnda hafi verið lögð fram tillaga um framkvæmdir á árinu 2000.  Í henni hafi komið fram að í athugun væri hvort framangreindir rúllustigar yrðu fjar­lægðir eða ekki.  Tillaga um þessa athugun var samþykkt með öllum greiddum at­kvæð­um.  Á árinu 2000 hafi verið haldnir fundir með rekstraraðilum og eigendum í Kringl­­unni þar sem þetta mál var kynnt og kom þá í ljós að rekstraraðilar í suðurhúsi og í tengibyggingu voru hlynntir því að stigarnir yrðu fjarlægðir en nokkrir rekstr­ar­aðilar í nágrenni rúllustiganna voru því mótfallnir.  Mótmælalisti var lagður fram á þessum tíma með undirskriftum þeirra sem ekki voru hlynntir því að stigarnir yrðu fjar­­lægðir en með nánari kynningu og fleiri fundum hafi hins vegar stuðningur aukist við töku þeirra.  Bendir stefndi á að sjá megi það á þessu máli þar sem stefnendur séu aðeins níu.  Á fundi í stjórn stefnda 7. desember 2000 var samþykkt að stigarnir skyldu fjarlægðir og eins hafi það verið samþykkt á fundi stjórnar Félags húseigenda í Kringl­­unni 8 – 12  12. desember 2000.  Framkvæmdir við að fjarlægja stigana hafi svo hafist í ársbyrjun 2001.

III

Stefnendur byggja kröfugerð sína á því að stjórn stefnda, Rekstrarfélags Kringl­unnar, hafi tekið sér vald umfram lögmætar heimildir við ákvörðun og framkvæmdir við brottnám rúllustiganna.  Vald til þessarar ákvörðunartöku hafi verið í höndum eigenda á löglega boðuðum félagsfundi.  Eigendur húsnæðisins hafi ekki framselt stjórn stefnda heimild til slíkrar ákvörðunartöku um breytingar á húsnæðinu, hvorki sér­­stak­lega né á almennan hátt.  Vísa stefnendur máli þessu til stuðnings til ákvæða í sam­­þykkt­um Félags húseigenda Kringlunni 8 – 12 en í þeim samþykktum sé eingöngu að finna ákvæði er lúti að framsali valds til rekstrarlegra framkvæmda á vegum hússins. 

Þá vísa stefnendur til þess að í samþykktum stefnda sé í ýmsum atriðum vikið frá ákvæð­um laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, svo sem heimilað sé í 2. gr. laganna, enda hýsi Kringlan eingöngu atvinnustarfsemi.  Samþykktir þessar séu hins vegar ekki tæm­­andi og vísi til fjöleignarhúsalaganna um þau atriði sem ekki sé fjallað um í þeim.  Samkvæmt samþykktunum sé stjórn stefnda falið æðsta vald í öllum mál­efnum þess milli félagsfunda nema samþykktir og lög leiði til annars.  Af upptalningu á störfum stjórn­arinnar megi ráða að henni sé ekki veitt vald til ákvörðunartöku í mál­um eins og hér sé deilt um.  Stjórnin fari einungis með rekstrarlega stjórnun sam­kvæmt sam­þykkt­unum en félagsfundir hafi hins vegar vald til ákvarðana um verulegar breyt­ingar eins og þá sem hér um ræði.

Þá benda stefnendur á að hvorki í ákvæðum samþykkta fyrir húsfélag Kringl­unnar né stefnda sé ákvörðun, eins og sú sem hér er deilt um, með nægjanlega skýrum hætti undanþegin meginreglu 39. gr. fjöleignarhúsalaganna þar sem hús­eig­anda er veittur óskoraður réttur til að taka þátt í ákvörðunum er varða eignina.  Í þessu sam­bandi er sérstaklega bent á þau verkefni, sem stefnda séu falin í samþykktunum og einkum varða ákvarðanir sem lúta að sameiginlegum rekstri verslunar­mið­stöðvar­innar. 

Stefnendur telja að ákvörðunin um að fjarlægja rúllustigana teljist veruleg. Þá feli þessi ákvörðun stjórnar stefnda í sér ákvörðun um aðrar og mjög verulegar breytingar, m.a. lokun inngangs í húsið næst rúllustigunum.  Framkvæmdir þessar muni kosta sam­­tals um 40 til 50 milljónir króna.  Þær feli í sér verulega takmörkun aðgengis og um­­gangs um sameiginlegt rými húsnæðisins, sem gjörbreyti forsendum verslunar á þessu svæði. 

Stefnendur byggja á því að tillögu um brottnám rúllustiganna hafi átt að leggja fyrir almennan og löglega boðaðan félagsfund húseigenda, þar sem um breytingar á hús­­næðinu og hagnýtingu þess sé að ræða, enda fyrirhugað að nýta stigasvæðið sem versl­­unareiningu.  Stefnendur telja að slík ákvörðun falli utan valdsviðs stjórnar stefnda.  Í þessu sambandi er vísað til ákvæða samþykkta stefnda og ákvæða fjöl­eign­ar­­húsalaganna.

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið telja stefnendur að til slíkrar ákvörð­un­­artöku hafi þurft að minnsta kosti 2/3 hluta atkvæða eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta og vísa máli sínu til stuðnings til ákvæða 41., sbr. 2. mgr. 30. gr. fjöl­eign­ar­húsalaganna. 

Verði ekki fallist á framangreint um aukinn meirihluta þá telja stefnendur að í öllu falli þurfi að ákveða slíkar breytingar á félagsfundi með samþykki einfalds meiri­hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta og vísa því til stuðnings til fram­an­­greindra ákvæða fjöleignarhúsalaganna. 

Krafa stefnenda samkvæmt 2. tölulið dómkrafna byggir á því að fallist verði á kröfu samkvæmt 1. tölulið. Að fenginni þeirri niðurstöðu telja stefnendur jafnframt að bygg­­ingarleyfið sem fengið var á grundvelli hinnar ólögmætu ákvörðunar sé þar með ógilt, enda séu þá brostnar forsendur fyrir veitingu þess þar sem umsækjandi hafi í raun ekki haft umboð til að sækja um það.  Því er gerð sú krafa að byggingarleyfi frá 19. desember 2000 verði ógilt.

Í þriðja kröfulið dómkrafna er þess krafist að stefnda, Rekstrarfélagi Kringlunnar, verði gert að setja aftur upp rúllustigana og færa til fyrra horfs þær breytingar sem brott­­námið hafði í för með sér.  Til viðbótar þessari kröfu kemur svo hliðstæð krafa á hendur stefnda, Reykjavíkurborg, um að lagt verði fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að knýja stefnda, Rekstrarfélag Kringlunnar, til að færa bygginguna til fyrra horfs að þessu leyti, sbr. ákvæði 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig byggingarreglugerð nr. 44/1998.  Stefnendur telja að nauðsynlegt hafi verið að stefna Reykjavíkurborg beint inn í málið enda verði ekki mælt fyrir um skyldu til fram­­kvæmda af hálfu hennar nema hún sé beinn aðili að þessu máli, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Frávísunarkrafa stefnda, Rekstrarfélags Kringlunnar, byggir á því að í málinu skorti á samaðild, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála. Kröfur stefnenda lúti að óskiptum réttindum/hagsmunum allra eigenda og rekstraraðila í Kringlunni.  Stefn­endur séu eigendur í norðurhúsi Kringlunnar að undanskildum Sparisjóði Hafn­ar­­fjarðar, sem sé eigandi í turnbyggingu í Kringlunni 4 – 6.  Stefnendur reki aðeins lít­inn hluta af þeim verslunum og þjónustusölum, sem til staðar séu í Kringlunni en gögn máls­ins beri með sér að þeir eigi aðeins samtals 7,897% af heildarhluta hús­eign­ar­innar.  Ekki liggi fyrir umboð til stefnenda frá öðrum rekstraraðilum og eig­endum Kringl­unnar til að hafa uppi þær kröfur, sem hér séu hafðar uppi en þær lúti þó að sam­eiginlegum hagsmunum þeirra allra.

Til frekari stuðnings bendir stefndi á að ef fallist yrði á kröfur stefnenda myndi það snerta mun fleiri aðila heldur en þá.  Rúllustigarnir hafi verið fjarlægðir vegna bygg­­ingar nýrrar tengibyggingar, sem tengdi saman Kringluna 4 – 6 og Kringluna 8 – 12.  Við þessa breytingu hafi orðið til ein heildarverslunarmiðstöð og í kjölfarið hafi verið ráðist í verulegar breytingar sem breyttu Kringlunni í heild til samræmis við það.  Ein þeirra breytinga sem nauðsynlegt var að gera var að taka niður umrædda rúllustiga og bæta öðrum við nær hinum enda verslunarmiðstöðvarinnar til að jafna og bæta flæði viðskiptavina um húsið.   Kveður stefndi þessar breytingar hafa náð tilgangi sín­um en verði hann knúinn til að setja rúllustigana upp aftur muni það hafa áhrif á alla rekstr­araðila í Kringlunni og þá sérstaklega þá, sem nú reka verslanir í hinni nýju bygg­ingu og þá sem reka verslanir í suðurhúsi.  Þá þurfi einnig að líta til þess að kostn­aður við uppsetningu rúllustiganna myndi stefndi þurfa að bera, sem leiði það af sér að kostnaðurinn muni í raun lenda sameiginlega á öllum eignaraðilum í Kringl­unni.  Það sé því ljóst að stefnendur eigi ekki einir þá hagsmuni, sem um er fjallað í máli þessu, og geti því ekki einir látið skera úr ágreiningnum.

Loks bendir stefndi á að ef orðið yrði við kröfu stefnenda myndi það ekki aðeins brjóta gegn reglunni um samaðild heldur myndi það einnig ganga gegn greiðsluáætlun þeirri sem aðalfundur stefnda hafi samþykkt um framkvæmdir í Kringlunni og skipt­ingu útgjalda vegna þeirra.  Það væri óforsvaranlegt að eigendur yrðu dæmir til að greiða slík útgjöld án þess að fá að tjá sig um það fyrir dóminum en Félag húseigenda Kringl­­unni 8 – 12 og Rekstrarfélag Borgarkringlunnar hafi ekki fengið að taka til varna í málinu.

Stefndi, Reykjavíkurborg, styður frávísunarkröfu sína þeim rökum að hann hafi enga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Þá byggir stefndi á því að engin réttar­fars­­nauðsyn sé á að gefa honum kost á að láta til sín taka í dómsmáli sem höfðað er til ógild­­ingar á ákvörðun byggingarfulltrúa og eingöngu sé þörf á aðild þeirra, sem bera óskipta skyldu eða eiga óskipt réttindi í máli þessu, þ.e. eigenda Kringlunnar.  Vísar stefndi máli sínu til stuðnings til dómafordæma og telur að af þeim megi ráða að engin þörf sé á aðild hans að málinu.

IV

Ágreiningsefni málsins er hvort sú ákvörðun stjórnar stefnda, Rekstrarfélags Kringl­unnar, að fjarlægja tvo rúllustiga á milli 1. og 2. hæðar í Kringlunni í Reykjavík hafi verið lögmæt.  Kringlan er, eins og kunnugt er, verslunarmiðstöð í Reykjavík.  Sam­kvæmt gögnum málsins samanstendur hún nú af upphaflegu Kringlunni, sem nefnt er Norðurhús, og Borgarkringlunni, sem nefnt er Suðurhús, og svo tengi­bygg­ingu á milli þeirra.  Rúllustigarnir umdeildu voru í suðurhluta Norðurhúss.

Í greinargerð stefnda kemur fram að eignarhald á Kringlunni sé með þeim hætti að Félag húseigenda Kringlunni 8-12 eigi þá fasteign (upphaflegu Kringluna), Þyrping hf. eigi tengibygginguna og aðilar að Rekstrarfélagi Borgarkringlunnar eigi þá fast­eign.  Eignarhaldi að Kringlunni 8-12 sé háttað þannig að eigendur eigi tiltekna hundr­að­s­hluta eignarinnar í óskiptri sameign og fái þeir, hver um sig, tiltekinn hundr­aðs­hluta eignarinnar undir starfsemi sína með sérstökum afnotasamningi.  Slíkri einingu fylgi síðan hlutfallsleg afnot af sameiginlegum svæðum fasteignarinnar. 

Stefndi, Rekstrarfélag Kringlunnar, er, samkvæmt samþykktum sínum, félag eig­enda og afnotahafa í fasteignum í Kringlunni, þ.e. allri verslanamiðstöðinni, og eiga þeir skylduaðild að félaginu.  Tilgangur stefnda er að sjá um sameiginlegan rekstur versl­unarmiðstöðvarinnar, gæta hagsmuna eigenda, afnotahafa og rekstraraðila og koma fram fyrir þá sameiginlega út á við.  Í samþykktum stefnda kemur fram að það eru eigendur og rekstraraðilar sem bera kostnað af viðhaldi og endurbótum á fast­eign­inni eftir nánari reglum, sem settar eru í samþykktinni. 

Félagatal stefnda frá því í desember 2001 hefur verið lagt fram og samkvæmt því skipta þeir tugum.  Að málssókninni standa hins vegar aðeins 9 og eiga þeir samtals 7,897% af heildar húseigninni.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal vísa máli frá dómi ef þeim, sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til saka.  Enn fremur segir að hið sama eigi við ef þeir, sem eigi óskipt réttindi, sæki ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa sé höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra, sem ekki á aðild að því.

Kröfugerð stefnenda varðar hagsmuni allra eigenda að Kringlunni, enda myndi kostn­aður við að koma rúllustigunum aftur fyrir lenda á þeim öllum.  Þá eru ótaldir þeir hagsmunir, sem eigendur og rekstraraðilar hafa af því hvernig umferð fólks um húsið er háttað.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði einkamálalaganna er óhjákvæmilegt að þeim, sem ekki sækja málið, sé gefinn kostur á að taka til varna um hagsmuni sína.  Það hefur ekki verið gert og verður því að fallast á það með stefnda, Rekstrarfélagi Kringl­unnar, að vísa beri málinu á hendur honum frá dómi.

Málið varðar ágreining á milli stefnenda, sem eru nokkrir eigendur að húsnæði í Kringl­unni, og stefnda, Rekstrarfélags Kringlunnar, og þar með annarra eigenda og rekstr­araðila í Kringlunni.  Stefndi, Reykjavíkurborg, hefur enga lögvarða hagsmuni af því hvernig úr þessum ágreiningi verður leyst og var óþarfi að stefna honum í mál­inu.  Verður því kröfu á hendur honum einnig vísað frá dómi.

Samkvæmt öllu framansögðu verður málinu í heild sinni vísað frá dómi en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Málinu er vísað frá dómi en málskostnaður fellur niður.