Hæstiréttur íslands
Mál nr. 197/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Varnarþing
- Dómstóll
|
|
Föstudaginn 27. apríl 2007. |
|
Nr. 197/2007. |
A(Garðar G. Gíslason hdl.) gegn B(Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Varnarþing. Dómstólar.
Máli A gegn B, sem var búsettur í Bandaríkjunum, var vísað frá héraðsdómi, þar sem A var ekki talinn hafa sýnt fram á að B yrði ekki sóttur fyrir dómi þar sem hann var búsettur, sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að málsóknin væri reist á því að A hefði öðlast réttindi yfir fasteign, sem B hafði selt, og að krafan risi af þeim réttindum. Var því talið að honum væri heimilt að sækja málið í þeirri þinghá þar sem fasteignin væri á grundvelli niðurlags 1. mgr. 34. gr. laga nr. 91/1991. Þá var því hafnað að vísa bæri málinu frá á þeim grundvelli að ákvæði í yfirlýsingunni útilokaði að krafist yrði efnda fyrir dómstólum á þeim skuldbindingum sem í henni fælust. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta til greiðslu fjárkröfu, sem hann telur sig eiga á hendur varnaraðila. Krafan er reist á skriflegri yfirlýsingu 4. febrúar 2001, sem gerð var í tilefni af beiðni um einkaskipti á dánarbúi foreldra málsaðila. Yfirlýsingin var undirrituð fyrir hönd varnaraðila, sem býr í Bandaríkjunum, á grundvelli umboðs, sem hann hafði veitt systur sinni, C. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var kveðið á um það í yfirlýsingunni að varnaraðili skyldi þinglýsa kvöð á fasteignina að X í Reykjavík þess efnis að yrði húsið selt á næstu tíu árum skyldi söluverð, að frádregnu fasteignamati og sannanlegum útgjöldum vegna endurbóta á húsinu eða lóðinni, skiptast jafnt milli erfingjanna, sem voru fimm. Fasteignin mun hafa verið seld 1. ágúst 2002 án þess að kvöðinni væri þinglýst. Samkvæmt stefnu nemur kröfufjárhæð í málinu einum fimmta af mismuninum á söluverði eignarinnar, að teknu tilliti til afsláttar, og fasteignamati hennar á þeim tíma sem hún var seld.
Í stefnu kemur fram að ákveðið hafi verið að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur meðal annars með vísan til 1. mgr. 34. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt niðurlagi málsgreinarinnar er unnt að sækja kröfur, sem rísa af réttindum yfir fasteign, í þeirri þinghá þar sem fasteignin er. Málsókn sóknaraðila er á því reist að með yfirlýsingunni hafi hann öðlast réttindi yfir fyrrgreindri fasteign og að krafan rísi af þeim réttindum. Verður á það fallist að sóknaraðila sé heimilt að sækja málið í þeirri þinghá þar sem fasteignin er á grundvelli framangreinds ákvæðis. Breytir engu í því sambandi þótt varnaraðili sé búsettur erlendis, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga.
Krafa varnaraðila um frávísun málsins byggist ennfremur á því að með yfirlýsingunni hafi aðilar samið um að bera efni hennar ekki undir dómstóla eða gera það opinbert á annan hátt. Í yfirlýsingunni segir að fullkominn trúnaður skuli vera um „sáttargjörð þessa og verður efni hennar ekki borið undir dómstóla.“ Þá kemur þar fram að eitt eintak væri gert af sáttinni og að það yrði geymt hjá nafngreindum lögmanni. Væri honum með öllu óheimilt að sýna öðrum en aðilum samkomulagsins skjalið eða afhenda afrit þess utanaðkomandi aðilum. Sóknaraðili hafnar því að skýra beri ákvæðið í yfirlýsingunni þannig að það útiloki að farið verði með málið fyrir dómstóla standi eitthvert systkinanna ekki við sinn hluta samkomulagsins.
Í yfirlýsingunni er ekki vikið að mögulegum úrræðum til að ná fram efndum samkomulagsins. Ber að skilja umrætt ákvæði hennar í ljósi þess að með yfirlýsingunni var stefnt að því að ná fram sátt milli erfingjanna hvernig einkaskiptunum á dánarbúi foreldra þeirra skyldi hagað. Ekki verður lagður sá skilningur í ákvæðið að það útiloki að krafist verði efnda á þeim skuldbindingum sem í yfirlýsingunni felast fyrir dómstólum. Verður því ekki fallist á að umrætt ákvæði hennar eigi að leiða til frávísunar málsins.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili skal greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, B, greiði sóknaraðila, A, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2007.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 27. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, [...] á hendur Helga Guðnasyni, [...], Bandaríkjum Norður-Ameríku, með stefnu birtri 4. desember 2006.
Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 975.200 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 1. ágúst 2002 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til þrautavara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð að mati dómsins og að m.a. verði tekið tillit til söluþóknunar stefnda af sölu fasteignarinnar að X, Reykjavík, auk lögfræðikostnaðar og annars útlagðs kostnaðar vegna gallakrafna kaupenda fasteignarinnar. Jafnframt er krafist sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Í þessum þætti málsins er frávísunarkrafa stefnda tekin til úrskurðar, en stefnandi krefst þess að henni verði hrundið og stefnanda tildæmdur málskostnaður að mati réttarins.
Málavextir.
Mál þetta er sprottið vegna skipta á dánarbúi foreldra málsaðila, en þeir eru bræður. Móðir þeirra lést 1998 og faðir í september 2000. Stefndi býr í Bandaríkjunum og veitti hann systur sinni allsherjarumboð vegna búskiptanna. Af tilefni búskiptanna undirrituðu systkinin yfirlýsingu dags. 4. febrúar 2001, sem liggur fyrir í málinu. Í 2. tl. hennar segir m.a. ,,[B] samþykki að þinglýst verði kvöð á [X] þess efnis, að verði húsið selt næstu 10 árin, skuli söluverð, að frádregnu fasteignamati og sannanlegum útgjöldum vegna endurbóta húss eða lóðar, skiptast jafnt milli erfingjanna 5. Til útgjalda í þessu sambandi reiknist einnig vinna eiganda eða annarra fyrir hans hönd. Kvöðin skuli falla niður við sölu og í síðasta lagi 1. desember 2010“. Í lok yfirlýsingarinnar segir enn fremur „Fullkominn trúnaður skal vera um sáttargjörð þessa og verður efni hennar ekki borið undir dómstóla. Eitt eintak er gert af þessari sátt og er það geymt hjá Halldóri Jónssyni, hdl., Lex, lögmannsstofu, Sundagörðum 2 í Reykjavík. Honum er með öllu óheimilt að sýna öðrum skjalið en ofanrituðum eða afhenda afrit þess utanaðkomandi aðiljum.“
Nefndri kvöð var aldrei þinglýst á fasteignina. Hinn 1. ágúst 2002 seldi stefndi fasteignina á 30.300.000 kr. Frá því mun hafa verið veittur 300.000 kr. afsláttur. Fasteignamat eignarinnar nam á sama tíma 25.124.000 kr. Mismunurinn er 4.876.000 kr. Stefnandi telur að hlutur hvers erfingja sé þannig 975.200 kr., sem er stefnufjárhæðin í málinu.
Hinn 20. júlí 2006 sendi lögmaður stefnanda stefnda greiðsluárskorun. Með bréfi lögmanns stefnda var óskað eftir eintaki af nefndu samkomulagi. Það var sent stefnda 14. ágúst 2006. Í ljósi þess að stefndi hefur ekki greitt stefnanda stefnukröfu málsins er mál þetta höfðað.
Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun málsins:
Frávísunarkrafa stefnda byggir í fyrsta lagi á því, að í yfirlýsingunni frá 4. febrúar 2001, sem málatilbúnaður stefnanda er reistur á, kemur fram að ,,fullkominn trúnaður skuli vera um sáttargjörð þessa og verði efni hennar ekki borið undir dómstóla”. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála hafa dómstólar vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu. Samkvæmt orðalagi yfirlýsingarinnar hafa aðilar samið um að bera efni hennar ekki undir dómstóla né að gera efni hennar opinbert á annan hátt. Þar til þessi málssókn hófst hefur einungis eitt eintak af yfirlýsingunni verið til og hafa afrit af henni ekki verið látin í té. Þegar af þeim sökum ber að vísa þessu máli frá dómi.
Í öðru lagi er frávísunarkrafa stefnda studd þeim rökum að ekki sé kveðið á um varnarþing í yfirlýsingunni, enda óheimilt að bera efni þess undir dómstóla. Því er mótmælt að 1. mgr. 34. gr. og 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eigi við um varnarþing stefnda. Ekki er að finna neinar heimildir í V. kafla laga um meðferð einkamála fyrir því að höfða mál gegn stefnda hér á landi, enda hefur stefnandi ekki getið um það í stefnu hvers vegna stefndi verði ekki sóttur fyrir dómi í Bandaríkjunum. Stefnanda skortir því heimild til að reka þetta mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun málsins.
Stefnandi heldur því fram, að ákvæði 24. gr. laga um meðferð einkamála standi máli þessu ekki í vegi. Fyrirliggjandi yfirlýsingu frá 4. febrúar 2001 beri að skilja svo, að efni hennar eigi ekki undir dómstóla. Hins vegar megi bera undir dómstóla ef hún er ekki efnd. Annað væri markleysa. Tilgangurinn með yfirlýsingunni var að binda enda á deildur milli systkinanna vegna skipta á dánarbúi foreldra þeirra. Um það voru systkinin að semja í yfirlýsingunni en aldrei hafi komið til álita að ekki væri unnt að fara með málið fyrir dómstóla, ef eitthvert systkinanna myndi ekki standa við sinn hlut samkvæmt yfirlýsingunni. Stefnandi leggur áherslu á að gera verði greinarmun á efni samkomulagsins og efndum samkvæmt samkomulaginu.
Þá tekur stefnandi fram að í fyrirliggjandi yfirlýsingu systkinanna sé ekki samið um varnarþing, en stefnandi telur lagaskyldu ekki standa til þess. Um varnarþing vísar stefnandi til 34. gr. og 35. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og telur heimilt að höfða málið hér á landi þótt stefndi sé búsettur í Bandaríkjunum. Stefnandi telur að umbjóðandi hans hafi átt óbein eignarréttindi í fasteigninni að X. Meðal annars þess vegna eigi ákvæði 34. gr. laga um meðferð einkamála við. Þá tekur stefnandi fram, að stefndi eignist ekki ríkari rétt þótt hann hafi vanrækt að þinglýsa kvöðinni. Stefnandi byggir einnig á því, að stefndi hafi ekki efnt samkomulagið, en það hafi hann átt að gera í Reykjavík og greiðslurnar hafi einnig átt að fara fram í Reykjavík. Því er heimilt skv. 35. gr. eml. að höfða málið í Reykjavík.
Forsendur og niðurstöður.
Mál þetta er sprottið af ágreiningi systkina vegna skipta á dánarbúi foreldra þeirra, en faðir þeirra sat í óskiptu búi er hann lést. Til þess að leysa ágreininginn um búskiptin leituðu systkinin til Lögmannsstofunnar Lex í Reykjavík og greiddi dánarbúið þóknun vegna þeirrar vinnu. Stefndi málsins býr erlendis og veitti hann systur sinni umboð til þess að koma fram fyrir sína hönd og undirritaði systirin því yfirlýsinguna frá 4. febrúar 2001 fyrir hans hönd.
Eins og að framan greinir er stefndi búsettur í Bandaríkjunum og ekki liggur annað fyrir en hann sé íslenskur ríkisborgari. Samkvæmt 3. tl. 32. gr. laga um meðferð einkamála má sækja íslenskan ríkisborgara, sem er búsettur erlendis fyrir dóm í Reykjavík, ef hann verður ekki sóttur fyrir dóm erlendis þar sem hann er búsettur. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að stefndi verði ekki sóttur fyrir dóm í Bandaríkjunum, en samkvæmt nefndu ákvæði verður að telja það aðalregluna. Með því að stefnandi hefur ekki sýnt fram á að ekki sé hægt að sækja málið á hendur stefnda í Bandaríkjunum verður að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnandi byggir í málatilbúnaði sínum á 1. mgr. 34. gr. laga um meðferð einkamála, um fasteignavarnarþing og 1. mgr. 35. gr. sömu laga um efndastaðar-varnarþing. Með vísan til þess sem að framan greinir og einnig þess hvernig atvikum málsins er háttað eiga tilvitnuð ákvæði ekki við.
Þegar af þeim ástæðum að ósannað er að stefndi eigi varnarþing í Reykjavík er máli þessu vísað frá dómi. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu, sem og 2. tl. 130. gr. laga um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 kr.
Af hálfu stefnanda flutti málið Garðar G. Gíslason hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Anna Linda Bjarnadóttir hdl.
Úrskurðinn kveður upp Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, A, greiði stefnda, B, 100.000 kr. í málskostnað.