Hæstiréttur íslands
Mál nr. 295/2004
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 2004. |
|
Nr. 295/2004. |
Halldóra Steinunn Fannarsdóttir(Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Bergi-Huginn ehf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.
H slasaðist þegar hún var við vinnu sína um borð í fiskiskipi B ehf. Féll hún úr stiga þegar hún var að fara upp úr frystilest skipsins. H höfðaði mál gegn B ehf. til greiðslu skaðabóta. Ekki var fallist á að stiginn hafi verið vanbúinn eða að ekki hafi verið gætt nægilega að því að ísing myndaðist ekki í honum. Því var jafnframt hafnað að H hafi ekki verið nægilega vöruð við hættu sem þarna gæti myndast eða ekki verið veittar nægilegar leiðbeiningar um viðbrögð við henni, þegar hún réðst til starfa um borð í skipinu skömmu fyrir slysið. Samkvæmt framansögðu var slysið talið óhappatilviljun, sem mætti hvorki rekja til vanbúnaðar skipsins né saknæmra mistaka starfsmanna B ehf. Var B ehf. því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júlí 2004. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 11.569.069 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 8.558.854 krónum frá 7. október 1998 til 3. maí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 11.569.069 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá síðast nefndum degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi slasaðist áfrýjandi, þegar hún var við vinnu sína um borð í fiskiskipi stefnda Vestmannaey VE 54 þann 7. október 1998. Féll hún úr stiga þegar hún var að fara upp úr frystilest skipsins. Kröfur sínar um bótaábyrgð stefnda byggir hún í aðalatriðum á því að stiginn hafi verið vanbúinn, ekki hafi verið gætt nægilega að því að ísing myndaðist ekki í stiganum, hún hafi ekki verið nægilega vöruð við hættu sem þarna gæti myndast og ekki verið veittar nægilegar leiðbeiningar um viðbrögð við henni, þegar hún réðst til starfa um borð í skipinu skömmu fyrir slysið.
Stigi sá sem áfrýjandi féll úr mun vera af algengri gerð í frystiskipum. Stefndi hefur að eigin sögn aldrei fengið athugasemdir um umbúnað stigans, hvorki frá eftirlitsaðilum né skipverjum á skipinu. Telur hann vandséð hvernig unnt sé að haga þessum búnaði á annan veg en þann sem var í skipi hans. Hann fellst á að ísing geti myndast efst í stiganum, þó að hann telji ósannað, að svo hafi verið, þegar slysið varð. Sé um ísingu að ræða þurfi þeir sem um stigann fara að sýna aðgæslu, sem sé ekki annars eðlis en gerist og gengur við störf um borð í fiskiskipum. Hann mótmælir sjónarmiðum áfrýjanda um að slysið megi rekja til vanrækslu á að vara hana við hættu sem af þessu geti stafað eða skorts á leiðbeiningum til hennar.
Úr þessum málsástæðum aðilanna er leyst í hinum áfrýjaða dómi. Verður fallist á forsendur hans og niðurstöðu með athugasemd um að ekki verður talið að á áfrýjanda hafi hvílt frumkvæðisskylda, sem máli skipti við úrlausn málsins, til að vekja athygli yfirmanna skipsins á ætluðu sérstöku hættuástandi við stigann sem hún féll úr og krefjast úrbóta þætti henni ástæða til. Þá segir einnig í forsendum dómsins, að ekki liggi fyrir að fiskslor sé hálla en ís. Af hálfu áfrýjanda hefur slíku ekki verið haldið fram í málinu, heldur aðeins því að hafi slor verið á stiganum hafi það verið efniviður í ísingu til viðbótar vatni sem barst á stigann. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málins fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Halldóru Steinunnar Fannarsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2004.
Stefnandi málsins er Halldóra Steinunn Fannarsdóttir, kt. 290873-3399, Giljaseli 9, Reykjavík. Stefndi er Bergur-Huginn ehf., kt. 560384-0179, Geirseyri, Vestmannaeyjum, en réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 8. desember 2003, sem árituð er um birtingu af lögmanni stefnda og réttargæslustefnda hinn 9. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 11. sama mánaðar.
Málið var dómtekið 20. apríl sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Dómkröfur:
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 11.569.069 krónur, og þar af með vöxtum, samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, af 8.558.854 kr. frá 7. október 1998 til 3. maí 2001, og með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnandi gerir engar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.
Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð, og að málskostnaður verði látinn niður falla. Þess er enn fremur krafist af hálfu stefnda, verði stefnanda dæmdar einhverjar bætur, að bótafjárhæðir verði ákvarðaðar miðað við verðlag á þingfestingardegi, samkvæmt 15. gr. skbl., og beri bætur vegna þjáninga, miska og varanlegrar örorku 2% ársvexti frá 9. desember 1999 til dómsuppsögudags, en dráttarvexti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitti stefnanda gjafsókn hinn 21. maí 2003.
Málsatvik.
Málavextir eru þeir, að stefnandi var skipverji á m/s Vestmannaey VE-54, sem er í eigu stefnda og tryggð hjá réttargæslustefnda. Hún slasaðist við vinnu um borð í skipinu 7. október 1998. Sigurbjörn Árnason, stýrimaður skipsins, lýsir atburðinum svo í dagbók skipsins: Miðvikudagur 07/10/98. Um kl 01/30 vildi það óhapp til að Halldóra Fannarsdóttir datt niður stigann í lestinni og lenti hún á bakinu ofan á kassa og plastrúllur, lá hún þar í ca. 10-15 mín á meðan hún var að reyna að jafna sig. Kom hún síðan upp og var skoðuð og var hún aum í herðablöðunum báðum megin og gat lítið lyft upp höndunum. Ekki gat undirritaður séð mar eða sár á bakinu, síðan var henni gefið verkjastillandi og bólgueyðandi töflur. Helgi Helgason var sjónarvottur að þessu. Þess er einnig getið í dagbókinni, að föstudaginn 10. október hafi verið haft samband við Víði lækni í Vestmannaeyjum, sem hafi talið, að stefnandi ætti að hvíla sig og halda áfram að taka lyfin. Enn fremur kemur þar fram, að næsta mánudag hafi stýrimaður og stefnandi haft símasamband við Víði lækni um seinan bata stefnanda. Hann hafi talið að stefnandi væri bara svona lengi að jafna sig og sagði okkur að halda áfram á sömu braut. Loks segir í þeim úrdrætti dagbókarinnar, sem liggur frammi í dóminum, að þriðjudaginn 20. október um kl. 0900 var farið með Halldóru Fannarsdóttur yfir í Frá VE sem var á leið til Vestmannaeyja.
Stefnandi gaf skýrslu hjá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum 19. maí 1999. Þar lýsir hún slysinu svo, að hún hafi verið að störfum í lest m/s Vestmannaeyjar. Þegar slysið vildi til hafi hún verið á leið upp á þilfar um stiga, sem liggur þangað úr lestinni. Þegar hún var komin nánast alveg upp, hafi hún misst takið á stiganum, þar sem klaki hafði sest á eina rim hans. Hafi hún fallið aftur fyrir sig niður í lestina og komið niður á umbúðir og annað rusl, sem þar hafi verið. Fallið hafi verið um 2-3 metrar. Hún hafi misst meðvitund í smá tíma og legið þar í u.þ.b. 20 mínútur til að jafna sig.
Helgi Helgason, sem vitni varð að slysinu, gaf skýrslu um síma sem Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum skráði eftir honum 26. júlí s.á. Honum sagðist svo frá, að hann hafi verið að fara niður í lest skipsins, ásamt stefnanda. Hann hafi farið á undan. Hann hafi heyrt stefnanda reka upp óp, þegar hann var kominn niður í lestina og séð hana falla úr stiga niður í lestina. Hún hafi lent á umbúðum og vindum, sem þarna voru. Stefnandi hafi kvartað yfir eymslum í handlegg. Hann hafi aðstoðað hana upp úr lestinni. Hann kvað stigann niður í lestina geta verið hálan af völdum klaka, sem setjist á hann, og hafi svo verið, þegar slysið átti sér stað. Einnig er eftir honum haft, að menn gæti sín á þessu, en stefnandi hafi verið nýbyrjuð um borð og hafi því ekki áttað sig á þessari hættu.
Sjópróf var haldið út af atburðinum í Héraðsdómi Suðurlands 6. júní 2000. Verða nú rakin meginatriði þess, sem þar kom fram:
Stefnandi gaf þar skýrslu. Þar er eftir henni haft, að hún hafi verið komin langleiðina upp stigann, en slor af stórlúðu, sem hent var niður í lestina, hafi sest á rimar stigans og valdið því, að hún hafi ekki náð utan um það sem hún greip til. Hún hafi því misst takið og fallið aftur fyrir sig í lestina. Fram kom hjá stefnanda, að hún hafði veitt slorinu athygli, sem frosið hafði á rimum stigans á leið hennar niður í lestina, sem hafi verið vel sýnilegt. Við venjulegar aðstæður hafi verið auðvelt að ná taki á stigarimunum. Stefnandi sagðist síðan hafa komist af eigin rammleik upp úr lestinni með einhverjum hætti, en þegar upp var komið, hafi hún ekki getað hreyft handleggina og brotnað algjörlega saman. Farið hafi verið með hana í koju, henni gefin lyf og hún farið að sofa. Hún kvaðst hafa haft gúmmíhanska á höndum, sem hún hafi keypt um borð í skipinu, líklega af bátsmanni. Ýmsar gerðir vettlinga og vinnuhanska hafi verið notaðar af skipverjum. Fram kom hjá stefnanda, að frosið slor hafi verið á fleiri en einni rim og vel sýnilegt. Hún hafi verið í sinni annarri veiðiferð til sjós, þegar slysið vildi til og hafi það gerst á þriðja sjóferðardegi. Fyrri veiðiferðin hafi staðið yfir í 26 daga. Hún kvaðst ekki hafa verið vöruð sérstaklega við hálku í stiganum og þeirri hættu, sem af henni gæti stafað, en kannaðist við að stiginn hafi oft verið háll. Hún hafi farið um þennan stiga á hverri einustu vakt.
Skýrsla var einnig tekin af Birgi Þór Sverrissyni skipstjóra. Hann sagði að umræddur stigi hafi aldrei valdið neinum vandræðum. Engin slys hafi áður átt sér stað og aldrei hafi verið kvartað yfir því að hann væri hættulegur. Farið væri um stigann u.þ.b. 700 sinnum í hverri veiðiferð, þó misoft eftir afla. Hann kannaðist ekki við, að slor settist á rimar stigans, og ekki hafi verið kvartað yfir því í hans eyru. Auðvelt væri að ná taki á stiganum. Stórlúðu væri slakað niður í umrædda lest, en einnig væri hægt að nota lyftu til að koma henni þangað niður, en því fylgi ákveðin vandræði og tafir. Hann upplýsti að skipið hafi verið að toga, þegar slysið vildi til. Veður hafi verið gott, 2 vindstig eða svo, og sléttur sjór, enda hafði veður verið gott dagana á undan.
Þá gaf Hermann Valgarður Baldursson bátsmaður, skýrslu. Hann sagðist ekki vita til þess, að umræddur stigi hafi valdið vandræðum. Hann hafi skoðað stigann eftir slysið og þá hafi þrep hans verið hrein og íslaus. Ís gæti myndast í efstu þrepum hans, þar sem 25-30 gráðu frost væri í lestinni en heitara loft upp við lestaropið og reikna megi með því, að þrepin geti verið hál. Vitnið kannaðist við, að stórlúðu væri slakað niður í lestina niður með lúgukarminum en ekki niður með stiganum. Lúðan væri áður látin hanga. Hann kvaðst selja skipverjum vettlinga f.h. útgerðarinnar. Hverjum og einum væri frjálst að kaupa þá tegund, sem hann lysti. Engar leiðbeiningar væru gefnar í því sambandi.
Loks var skýrsla tekin af Sigurbirni Árnasyni stýrimanni. Hann sagðist hafa gefið stefnanda lyf, eins og fram kemur í dagbók skipsins. Það sé í hans verkahring. Hafi hann stuðst við leiðbeiningar lækna og eigin reynslu við lyfjagjöfina og gefið stefnanda bólgueyðandi og kvalastillandi lyf. Vitnið kannaðist ekki við að umræddur stigi hafi verið óvenjuháll af völdum íss eða slors. Hins vegar myndist ís við þær aðstæður, þegar mætast heitt og kalt loft, eins og eigi sér stað í frystilestum, þegar lúga sé opnuð. Hann staðfesti að lúða væri sett í umrædda lest og vera kynni, að hún rækist utan í stigann, þegar henni væri slakað niður í lestina. Hins vegar hefði það ekki þau áhrif, að hans mati, að þrepin yrðu hálli við það, en við venjulega ísmyndun.
Slysið hafði víðtæk og alvarleg áhrif á heilsufar stefnanda. Hún leitaði til fjölmargra lækna og dvaldist á heilsuhælum, án þess að fá bót meina sinna.
Læknarnir Atli Þór Ólason og Leifur Dungal mátu varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda af völdum slyssins. Fyrri matsgerð þeirra er dags. 31. maí 2000. Þar komust þeir að þeirri niðurstöðu, að ekki væri tímabært að meta varanlega örorku stefnanda, þar sem læknismeðferð væri ekki lokið. Síðari matsgerð þeirra er dags. 5. febrúar 2001. Niðurstaða hennar var á þessa leið: 1. Tímabundið atvinnutjón stefnanda var metið 100% frá slysdegi til 13. júní 2000. 2. Þjáningabótatímabil var metið þannig: a) Rúmliggjandi frá 1. janúar 1999 til 8. febrúar s.á., frá 5. október 1999 til 30. sama mánaðar og frá 4. maí 2000 til 13. júní s.á. b) Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, frá 7. október 1998 til 13. júní 2000 að frádregnum þeim tíma, sem hún var rúmliggjandi. 3) Varanlegur miski skv. 4. grein 18%. 4) Varanleg örorka skv. 5. grein 25%. 5) Varanleg hefðbundin læknisfræðileg örorka 18%.
Lögmaður stefnanda leitaði eftir skaðabótum hjá réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðina hf., með bréfi, dags. 3. apríl 2001, í kjölfar niðurstöðu matsmannanna. Félagið hafnaði bótakröfunni með bréfi, dags. 9. apríl 2001, á þeim forsendum, að slys stefnanda hefði ekki bakað stefnda, útgerð Vestmannaeyja, VE-54, skaðabótaábyrgð. Lögmaður stefnanda óskaði eftir því að málið yrði lagt fyrir tjónanefnd vátryggingarfélaganna með bréfi til réttargæslustefnda, dags. 13. nóvember 2002. Niðurstaða nefndarinnar var sú, að slys stefnanda væri ekki bótaskylt. Stefnandi sætti sig ekki við þessa úrlausn og skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Niðurstaða úrskurðarnefndar, sem dagsett er 25. mars 2003, var á þá leið, að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að stefndi beri fulla skaðabótaábyrgð á tjóni því sem hún varð fyrir við slysið 7. október 1998 í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 og sé því skylt að greiða henni óskertar skaðabætur.
Slysið megi rekja til vanbúnaðar stiga. Á stiganum hafi verið klaki og frosið slor, sem haft hafi verulega slysahættu í för með sér, eins og raunin hafi orðið.
Stefndi beri því skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyssins.
Í fyrsta lagi hafi klaki verið í stiganum, eins og fram komi í framburði vitnisins Helga Helgasonar í lögregluskýrslu, dags. 26. júlí 1999. Þar taki vitnið sérstaklega fram, að stiginn hafi verið háll vegna klaka, sem sest hafði á hann. Starfsmenn stefnda hefðu því átt að sandbera stigann eða nota hálkueyðandi efni til að draga úr slysahættu.
Í öðru lagi hafi starfsmenn stefnda hent stórlúðu ofan í lestina með þeim afleiðingum, að slor af lúðunni hafi frosið á rimum stigans. Stefnandi vísar í þessu sambandi til framburðar Birgis Þórs Sverrissonar, skipstjóra m/s Vestmannaeyjar, í sjóprófinu 6. júní 2000, en þar segir hann, að lúðu hefði alltaf verið hent niður um lúguna. Þetta hafi verið gert, þrátt fyrir lyftu, sem var fyrir hendi og hefði átt að nota við flutning lúðunnar niður í lestina. Við þetta hafi stiginn orðið enn hálli en ella og valdið því, að stefnandi missti tak á einni stigariminni og fallið aftur fyrir sig. Ekkert hafi verið gert af hálfu stefnda til að draga úr þessari slysahættu. Það hefði mátt gera með ýmsum hætti. Til dæmis með því að bera efni á stigann, eins og áður sé lýst, berja af honum klakann eða með því að leggja skipverjum til góða hanska til afnota við störf í umræddri lest. Þá hefði einnig mátt koma í veg fyrir fiskislorið sem var á stiganum. Það hefði til dæmis mátt gera með því að nota lyftuna.
Við mat á sök verði einnig að líta til reynslu stefnanda. Hún hafi aðeins verið 25 ára, þegar slysið átti sér stað, og verið nýbyrjuð að vinna á skipinu. Í lögregluskýrslu Helga Helgasonar komi fram, að stefnandi hafi ekki áttað sig á hættunni vegna þess að hún var nýbyrjuð um borð. Þá hafði hún ekki verið vöruð sérstaklega við þessum hættulegu vinnuaðstæðum. Hún hafi heldur ekki ráðið þeim vinnutækjum sem notuð voru á staðnum eða verið í þeirri aðstöðu að neita að nota stigann. Henni hafi heldur ekki verið ráðlagt að klæðast hönskum með sérstaklega góðu gripi við vinnu í umræddri lest.
Stefnandi kveðst miða dómkröfu sína við niðurstöðu matsmanna að því er varðar miskastig og hlutfall varanlegrar örorku. Útreikningur bóta vegna tímabundins atvinnutjóns og v/varanlegrar örorku miðist við meðallaun iðnaðarmanna í október 1998: Meðallaun samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknarnefnd hafi á þessum tíma numið 224.100 kr., en 237.546 kr. að teknu tilliti til 6% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Miða við maí 2001 nemi þannig uppreiknuð árslaun 2.850.552 kr. en kr. 3.220.126.-að teknu tilliti til 6% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð.
Endanlegar kröfur stefnanda sundurliðist miðað við framangreindar forsendur þannig:
Tekjutap vegna tímabundinnar örorku (20 mánuðir x 237.546 kr.) 4.750.920 kr.
Til frádráttar:
Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins fram í júní 2000 319.446 kr.
Greiðslur úr slysatryggingu launþega hjá TM 188.009 kr.
Laun greidd af vinnuveitanda stefnanda eftir slysið 1.233.250 kr.
Óbætt tímabundið tekjutjón 3.010.215 kr.
b) Þjáningabætur (rúmliggjandi 106 x 1620 kr.) ...171.720 kr.
þjáningarbætur (ekki rúmliggjandi 504 x 870 kr.) 438.480 kr.
Samtals 610.200 kr.
c) Varanlegur miski 18% (18% x 4.969.000 kr.) 894.460 kr.
d) Varanleg örorka 25% (25% x 3.220.126 kr.) 8.050.314 kr.
Til frádráttar örorkubætur úr slysatryggingu launþega 996.120 kr.
Óbætt varanleg örorka 7.054.194 kr.
Samtals 11.569.069 kr.
Stefnandi kveðst miða kröfu sína um vexti vegna þjáningabóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku við tímabilið frá slysdegi, þann 7. október 1998, til 3. maí 2001, en dráttarvaxtakröfuna frá þeim degi til greiðsludags, en þann dag hafi ár verið liðið frá því, að niðurstaða matsgerðarinnar lá fyrir.
Stefnandi vísar til meginreglna íslensks skaðabótaréttar svo og almennu sakarreglunnar til stuðnings kröfum sínum. Enn fremur vísar hún til meginreglna um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda vegna skaðaverka, sem rekja megi til ásetnings eða gáleysis starfsmanna hans, svo og til hlutlægra bótareglna um hættulegar vinnuaðstæður. Þá vísar stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Um aðild réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., vísar stefnandi m.a. til 21. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml.), en byggir málskostnaðarkröfu sína á ákvæðum 129. og 130. gr. sömu laga. Kröfu sína um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 50/1988. Dráttarvaxtakrafan sé byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, með síðari breytingum, og lögum nr. 38/2001, um vexti og verðbætur.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að tjón stefnanda verði fyrst og fremst rakið til óaðgæslu hennar sjálfrar og bendir m.a. á niðurstöðu rannsóknarnefndar sjóslysa í því sambandi. Í niðurstöðukafla nefndarinnar segi svo: Nefndin telur að ekki hafi verið sýnd fullnægjandi aðgæsla við að fara um stiga í kældri lest (frystilest). Hæð af umbúðum og upp í karm fyrir mannopið hafi verið rúmlega mannhæð.
Stefndi telur einnig lagaheimild skorta til að fella á hann ábyrgð á grundvelli hlutlægra bótareglna um hættulegar vinnuaðstæður. Aðstæður hafi verið góðar, þegar slysið vildi til. Veður hafi verið mjög gott og lítil sem engin hreyfing á skipinu, eins og fram komi í vætti skipstjóra. Ekkert hafi verið athugavert við aðstæður í frystilest skipsins og umræddur stigi ekki vanbúinn. Stefnandi hafi margoft farið um stigann og aldrei hafi áður komið upp vandamál í tengslum við hann. Einfalt sé að fara upp og niður stiga og þurfi ekki sérstakrar leiðbeiningar við. Stefnanda hafi verið kunnugt um það, að hálka gæti myndast í þrepum stigans.
Stefndi hafnar því, að slysið verði rakið til þess, að ekki hafi verið borinn sandur eða hálkueyðandi efni á stigann. Stefnandi hafi verið sérstaklega vöruð við hættulegum vinnuaðstæðum, m.a. í nýliðafræðslu, sem hún hafi tekið þátt í.
Þá byggir stefndi á því, að fullyrðing stefnanda um slorlag á stigarimum eigi sér enga stoð í gögnum málsins, né heldur að stórlúða hafi verið látin síga niður í lestina, þannig að slor hafi sest á stigarimarnar. Stefnandi minnist ekki á þetta í skýrslu sinni hjá lögreglu né heldur geri Helgi Helgason það. Bátsmaður skipsins hafi skoðað stigann eftir slysið og hafi hann þá verið hreinn, ekkert slor á honum og engin aukning á ummáli þrepanna vegna ísingar. Í þessu sambandi bendir stefndi einnig á, að skipverjar hafi borið um það, að stórlúða sé látin hanga áður en henni sé komið fyrir í lestinni. Stefndi heldur því enn fremur fram, að ekkert bendi til þess, að slor hafi gert stigann sleipari, enda hafi skipverjar ekki talið það hafa þau áhrif. Loks telur stefndi, að engu hafi breytt, hvernig hanska stefnandi hafi notað. Engin gögn liggi fyrir um það, að ein gerð hanska sé betri en önnur í þessu tilliti.
Verði ekki fallist á sýknu, styður stefndi varakröfu sína í fyrsta lagi þeim rökum, að slysið verði fyrst og fremst rakið til gáleysis stefnanda sjálfrar, eins og áður hafi verið bent á. Bótaábyrgð stefnda komi því aðeins til álita að mjög litlum hluta. Einnig sé kröfugerð stefnanda sé mótmælt sem allt of hárri.
Krafa stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku miðist við 2.850.552 kr. en við 3.220.126 kr. uppreiknuð fram í maí 2001. Þessi viðmiðun eigi sér enga stoð í gögnum málsins.
Krafa stefnanda fyrir varanlega örorku sé heldur engum gögnum studd. Hún geti fráleitt talist iðnaðarmaður. Tekjusaga hennar sýni, að hún hafi kosið að taka sér árlega nokkurra mánaða frí og ekkert bendi til þess, að hún hafi ráðgert að breyta vinnuferli sínu að þessu leyti. Samkvæmt framlögðum skattframtölum hafi tekjur stefnanda numið 1.346.022 kr. á árinu 1997, en 1.6665.425 kr. á árinu 1998. Reikna beri bótakröfu vegna varanlegrar örorku á grundvelli launa tjónþola síðustu 12 mánuði fyrir slysdag, skv. meginreglu 1. mgr. 7. gr. skbl. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn um þau laun og sé því nærtækast að mati stefnda að miða við laun ársins 1997. Þannig reiknuð árslaun nemi 1.790.101 kr. að teknu tilliti til breytinga lánskjaravísitölu frá slysdegi til kröfudags og 6% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Stefndi telur kröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku eiga að nema 4.475.253 kr. ( 1.790.101x10x25%), en ekki 8.050.314 kr., eins og stefnandi geri kröfu um. Stefnandi hafi fengið greiddar 1.013.552 kr. í bætur vegna varanlegrar örorku úr slysatryggingu sjómanna, sem eigi að koma til frádráttar, skv. 2. ml. 4. mgr. 5. gr. skbl. Þannig eigi krafa stefnanda vegna varnalegrar örorku að nema 3.461.701 kr.
Stefndi mótmælir því að vextir verði reiknaðir vegna tímabundins atvinnutjóns. Einnig byggja stefndu á því, að áfallnir vextir fyrir 9. desember 1999 séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 4/1905.
Stefndi mótmælir enn fremur dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur, að dráttarvexti eigi að miða við dómsuppsögudag, verði um áfellisdóm að ræða. Á því er byggt af hálfu stefnda, að stefnandi hafi ekki lagt fram nauðsynleg gögn, svo að hægt væri að fullu að gera sér grein fyrir tjóni hennar. Stefndi hafi fyrst fengið skattframtöl stefnanda 27. janúar sl., sem sýndu hverjar tekjur hennar hafi verið fyrir slysið, auk þess ekki liggi fyrir í málinu, hvernig kröfufjárhæð tímabundins atvinnutjóns sé fundin. Þá vekur stefndi athygli á því, að stefnandi framreikni kröfu sína til 8. desember 2003, en krefji engu að síður um dráttarvexti frá 3. maí 2001, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að réttargæslustefndi mótttók kröfubréf lögmanns stefnanda. Þessari kröfugerð sé sérstaklega mótmælt, enda geti stefnandi ekki bæði sleppt og haldið í þessu efni fremur en öðrum.
Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á sömu ákvæðum og stefnanda, svo og kröfu sína um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað.
Réttargæslustefndi hefur ekki látið málið sérstaklega til sín taka, enda engum beinum kröfum að honum beint.
Niðurstaða.
Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Hún lýsti atvikum með þeim hætti, að hún hafi verið að fara upp úr lest í skipinu og verið komin ofarlega í stigann, þegar hún missti takið og féll aftur fyrir sig og lenti á baki og hálsi. Hún kvaðst alltaf hafa sýnt varúð, þegar hún fór um stigann, en í þetta skipti hafi hún bara misst takið á stiganum. Ekki minntist stefnandi þess að hafa veitt neinu óvenjulegu athygli á leið sinni niður í lestina. Hún taldi að venjuleg viðdvöl í lestinni væri u.þ.b. stundarfjórðungur. Hún staðfesti, að slysið hefði gerst í annarri ferð hennar á skipinu, en hún hefði ekki verið á sjó, fyrr en hún réðst til starfa hjá stefnda. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa verið vöruð við þeirri hættu, sem væri því samfara að nota umræddan stiga, né heldur verið bent á það, að stiginn væri háll og klaki safnaðist þar. Hún hafi engar sérstakar ráðleggingar fengið um að nota sérstaka hanska, þegar hún færi um stigann. Hún kvaðst aðspurð hafa séð einn skipverja nota sérstaka hanska, þegar hann færi niður í lestina, en vissi ekki hvort þeir hafi verið sérstaklega hannaðir til að veita gott grip. Við nýliðakönnun hefði henni verið sýndar útgönguleiðir og farið að togvírum og henni sýnt hvar ekki ætti að standa meðan togað væri. Hún kvaðst aðspurð hafa ætlað að halda áfram á sjó. Hún upplýsti, að hún hefði unnið á nokkrum stöðum á árinu 1997, en ekki unnið samfellda vinnu. Hún hafi yfirleitt tekið sér árlega tveggja til þriggja mánaða frí til ferðalaga. Á árinu 1998 hafi hún unnið í Noregi frá febrúarbyrjun til mánaðamóta júlí/ágúst og hafið störf hjá stefnda í byrjun september. Í janúarmánuði hafi hún unnið aðeins eina viku, að því er hana minnti.
Álit dómsins:
Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því, að stigi úr lest skipsins hafi verið slysagildra. Ís hafi sest á rimar hans og valdið því, að hann varð háll viðkomu og hún hafi því misst handfestu og fallið aftur fyrir sig. Enn fremur byggir stefnandi á því, að frosið slor af stórlúðu, sem híft var ofan í lestina, hafi hlaðist utan á rimarnar og valdið því að þær hafi orðið hálli en ella og að erfiðara hafi verið að ná utan um rimarnar og góðu taki á þeim. Þá er á því byggt af hálfu stefnanda, að henni hafi ekki verið gerð grein fyrir þeirri hættu, sem því væri samfara að nota umræddan stiga. Hún hafi verið nýliði og því ekki áttað sig á hættueiginleikum stigans.
Lest sú, sem hér kemur við sögu, er frystilest. Farið er í lestina um lóðréttan stiga. Hvert þrep stigans er myndað af tveimur sívölum láréttum rimum. Þegar farið er um stigann er gripið í ytri rim hvers þreps, eins og framlagðar ljósmyndir sýna.
Engum getur dulist, að mati dómsins, að sýna verður aðgæslu, þegar farið er um stigann. Ekki verður talið að gera verði nýliðum sérstaka grein fyrir þeirri hættu, sem þeim er búin, sem stigann nota, svo augljós er hún öllum. Sérstakir hættueiginleikar stigans felast í því, að þeir, sem um hann fara, verða að tryggja sér næga hand- og fótfestu og sleppa eigi taki, fyrr en sú hönd og fótur, sem laus er, hefur náð tryggu haldi. Stefnandi hafði slysalaust farið niður í umrædda lest á hverri einustu vakt allt frá því hún réðst í skipsrúm hjá stefnda. Henni var einnig fullkunnugt um það, að rimar stigans gætu verið hálar af völdum íss og klaka og bar því, þegar af þeirri ástæðu, að sýna sérstaka aðgæslu, er hún fór um stigann. Stefnandi bar í sjóprófi í Héraðsdómi Suðurlands, 6. júní 2000, að hún hafi veitt því athygli, þegar hún fór niður í lestina umrætt sinn, að rimar stigans voru hálar og að slor hefði sest á þær.
Þessi vitneskja hennar átti að verða henni frekari hvatning til aðgæslu og/eða til þess að vekja athygli á þessu sérstaka hættuástandi, og krefjast úrbóta, þætti henni ástæða til.
Í vætti Hermanns Valgarðs Baldurssonar bátsmanns, við sjópróf í Héraðsdómi Suðurlands kom fram, að 25 til 30 gráðu frost væri í lestinni, en heitara loft uppi við lestaropið. Þetta ástand verði þess valdandi, að ís og klaki geti sest á efstu stigaþrepin. Skipstjóri og stýrimaður m/s Vestmannaeyjar tóku í sama streng í sama sjóprófi.
Ekki verður séð, að skipstjórnarmenn m.s. Vestmannaeyjar hafi haft sérstaka ástæðu til að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að ísmyndun ætti sér stað í efstu þrepum lestarstigans, s.s. með því að sandbera þrepin eða bera á þau hálkueyðandi efni, eins og stefnandi heldur fram, þar sem stiginn hafði engum vandkvæðum valdið, eftir því sem þeir best vissu.
Stefnandi byggir einnig á því, eins og áður er lýst, að slor hafi sest á rimar stigans og gert hann hálli og hættulegri en ella. Stefnandi er ein til frásagnar um þessa fullyrðingu. Fyrir liggur, að stórlúðu var komið fyrir í lestinni, en fyrrnefndir skipstjórnarmenn töldu ólíklegt, að slor hafi sest á stigaþrepin við það að setja lúðu niður í lestina. Hermann Valgarður bátsmaður sagðist hafa farið um stigann eftir að stefnandi hafði slasast og hvorki orðið þar var við klaka né slor.
Þá liggur ekki fyrir, að frosið slor sé hálla en venjulegur ís, sem myndast við þéttingu, eins og gerist í frystilestum við tilgreindar aðstæður.
Stefnandi byggir einnig á því, að henni hafi ekki verið leiðbeint um að nota sérstaka hanska, þegar hún fór um stigann. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn, sem sýna fram á að ein gerð hanska veiti betra grip en aðrar. Samkvæmt framburði Hermanns Valgarðs bátsmanns voru ýmsar gerðir hanska til sölu um borð í m/s Vestmannaey og skipverjum í sjálfsvald sett hvaða gerð þeir kysu að nota.
Loks byggir stefnandi á því, að starf það, sem hún vann við, falli undir hlutlægar bótareglur um hættulegar vinnuaðstæður.
Stefnandi styður þessa málsástæðu engum rökum og er henni því hafnað.
Niðurstaða dómsins er því sú, með vísan til þess, sem að framan er rakið, að slys það, sem stefnandi varð fyrir við vinnu um borði í m.s. Vestmannaey hinn 7. október 1998 verði að teljast óhappatilviljun, en verði hvorki rakið til vanbúnaðar skipsins né saknæmra mistaka starfsmanna stefnda. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á hendur honum.
Rétt þykir, með vísan til 3. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991, að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 21. maí 2003, eins og áður er getið.
Lögmaður stefnanda lagði fram málskostnaðarreikning, sem er byggður á hagsmunum stefnanda og ítrustu kröfum hennar. Ekki þykir fært að leggja reikning lögmannsins til grundvallar, m.a. með hliðsjón af úrslitum málsins.
Lögmannsþóknun Óðins Elíssonar, lögmanns stefnanda, ákveðst 475.000 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist af ríkissjóði.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Bergur-Huginn ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Halldóru Steinunnar Fannarsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Málskostnaður lögmanns stefnanda, 475.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.