Hæstiréttur íslands
Mál nr. 316/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
|
|
Mánudaginn 3. september 2001. |
|
Nr. 316/200. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Páll A. Pálsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna.
Kærður var úrskurður héraðsdómara þar sem hafnað var kröfu X um að fá afhent endurrit fjögurra úrskurða um símhleranir hjá honum. Hæstiréttur féllst á kröfu X og taldi sóknaraðila bresta heimild til að synja X um aðgang að umræddum úrskurðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2001, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fá afhent endurrit fjögurra úrskurða um símhleranir hjá honum frá 12. desember 2000 í máli nr. R-499/2000, frá 10. janúar 2001 í máli nr. R-22/2001, frá 10. febrúar 2001 í máli nr. R-51/2001 og frá 11. apríl 2001 í máli nr. R-166/2001. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér afhent endurrit ofangreindra úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur um símhleranir. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Úrskurð þennan kvað upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var varnaraðili handtekinn 12. desember sl. vegna gruns um refsiverða aðild að hvarfi A, sem saknað hefur verið frá 19. júní 1994. Var varnaraðili yfirheyrður vegna þess máls sem sakborningur daginn sem hann var handtekinn og þann næsta. Var honum gefinn kostur á því að fá sér skipaðan verjanda en hann afþakkaði það. Með ákvörðun héraðsdóms Reykjavíkur 8. ágúst sl. var Páll A. Pálsson hæstaréttarlögmaður skipaður verjandi varnaraðila að ósk hans með vísan til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti er meðal annars á því byggt að skýra beri ákvæði 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 á þann hátt að verjandi eigi aðeins rétt til afhendingar gagna þegar um sé að ræða „eiginlega kæru“ og „beinar aðgerðir lögreglu gegn kærða, svo sem handtöku eða yfirheyrslur.“ Því sé ekki nú þannig farið með varnaraðila. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að varnaraðili er enn grunaður um að eiga aðild að mannshvarfinu. Liggur meðal annars frammi bréf sóknaraðila 14. maí sl. til verjanda varnaraðila þar sem fram kemur að rannsókn málsins sé ekki lokið og muni honum með vísan til 4. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 verða gert viðvart ef og þegar rannsókn á hendur honum verði hætt. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að varnaraðila hafi borist slík tilkynning. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að hafna beri af þessum sökum kröfu varnaraðila um afhendingu endurrita ofangreindra fjögurra úrskurða.
Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, skal verjandi fá jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum er málið varða. Frá þessari meginreglu er sú undantekning í 2. málslið þessa ákvæðis að lögregla getur neitað að veita verjanda aðgang að skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslu hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Í 1. mgr. 88. gr. sömu laga er meðal annars fjallað um upptökur símtala, sem aflað er á grundvelli 86. gr. laganna. Eftir 2. mgr. fyrrnefndrar greinar skal birta eða tilkynna sakborningi úrskurð um aðgerðir samkvæmt 86. gr., þar á meðal símhleranir, þegar aðgerð er lokið. Skal þetta gert svo fljótt sem verða má, „þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins.“ Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðila verið kynnt að símar hans hafi verið hleraðir en sóknaraðili hefur neitað verjanda hans um aðgang að þeim úrskurðum sem heimiluðu þær hleranir. Sóknaraðili byggir þá synjun sína meðal annars á því að líta beri svo á að ofangreind 88. gr. laga nr. 19/1991 sé sérákvæði sem gangi framar hinni almennu reglu 1. mgr. 43. gr. laganna um aðgang verjanda að gögnum máls og afhending úrskurðanna muni skaða frekari rannsókn málsins. Á þetta verður ekki fallist með sóknaraðila, enda ber að túlka ákvæði 88. gr. með hliðsjón af framangreindri meginreglu 1. mgr. 43. gr. um að verjandi skuli fá endurrit gagna jafnskjótt og unnt er. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að það myndi skaða rannsóknarhagsmuni málsins ef endurrit ofangreindra fjögurra úrskurða yrði afhent varnaraðila, en almenn staðhæfing þessa efnis nægir ekki. Sóknaraðili hefur heldur ekki byggt á því að hann hyggist taka skýrslu af varnaraðila eða öðrum vegna rannsóknar málsins fyrir dómi samkvæmt heimild í b. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999.
Samkvæmt öllu því sem að framan greinir brestur heimild til að synja varnaraðila um aðgang að umræddum fjórum úrskurðum. Ber sóknaraðila því eftir kröfu varnaraðila að afhenda verjanda hans endurrit þeirra.
Dómsorð:
Lögregla skal afhenda verjanda varnaraðila endurrit fjögurra úrskurða um símhleranir hjá varnaraðila, 12. desember 2000 í máli nr. R-499/2000, 10. janúar 2001 í máli nr. R-22/2001, 10. febrúar 2001 í máli nr. R-51/2001 og 11. apríl 2001 í máli nr. R-166/2001.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2001
Með bréfi Páls Arnórs Pálssonar hrl., dags. 9. ágúst 2001 og mótteknu sama dag, gerir hann, með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 21. júní sl. og bókunar í þinghaldi 25. maí sl. við skýrslutöku af X [ ], sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald 21. maí sl., kröfu um að honum verði afhent endurrit af eftirtöldum úrskurðum um símahleranir hjá X:
Úrskurður frá 12. desember 2000 í máli nr. R-499/2000
Úrskurður frá 10. janúar 2001 í máli nr. R-22/2001
Úrskurður frá 10. febrúar 2001 í máli nr. R-51 /2001
Úrskurður frá 11. apríl 2001 í máli nr. R-166/2001.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krefst þess að kröfu Páls Arnórs Pálssanar, hrl., fyrir hönd X, um afhendingu úrskurða Héraðaðóms Reykjavíkur í málum nr. R-449/2000, R-22/2001, R-51l2001 og R-166/2001 verði aðallega vísað frá dómi en til vara að afhendingu framangreindra úrskurða verði hafnað.
Málsatvik eru þau að X, var handtekinn þann 12. desember 2000 og færður á lögreglustöðina í Reykjavík til yfirheryslu. Var þá verið að rannsaka hvarf A sem hvarf árið 1994 Var Páll Arnór Pálsson hrl. kallaður til sem verjandi og var viðstaddur skýrslutöku. Var X látinn laus daginn eftir að lokinni skýrslutöku.
Þann 9. april sl. var X boðaður til skýrslutöku hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík vegna rannsóknar á innflutningi J á e-pillum til landsins 26. mars sl. en J var búinn að sitja í gæsluvarðhaldi síðan þá. X neitaði að hafa verið í vitorði með J.
Þann 21. maí sl. var hann síðan handtekinn á ný. Í framhaldi af þessu var gerð húsleit hjá honum á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. maí sl. og tilefni handtöku og húsleitar var rannsókn á áðurgreindu máli J. Fannst eitthvað af fíkniefnum hjá honum. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald síðar sama dag og sat í gæsluvarðhaldi til 25. maí. Í úrskurðarbeiðni lögreglustjórans í Reykjavík kom fram að sími X hefði verið hleraður um nokkurt skeið og við skýrslutöku 25. maí var bókuð krafa lögmannsins um að fá afhenta úrskurði um símahlerun hjá X og aðgang að öðrum gögnum er hann varðaði.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 14. júní 2001, var hafnað kröfu lögmannsins um að honum yrðu afhent endurrit af úrskurðum um símahleranir hjá X frá árinu 1995 til 25. maí 2001. Var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar Íslands sem með dómi sínum 21. júní 2001 vísaði málinu frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí sl. var síðan vísað frá dómi kröfu lögmannsins um afhendingu endurrita ofangreindra úrskurða.
Umrædd krafa er á því byggð að Páll Arnór Pálsson hrl. sé skipaður verjandi X í báðum þeim málum sem séu til rannsóknar og eigi því fulla kröfu til þess að fá aðgang að gögnum samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991. Þá hafi hann ekki fengið neinar upplýsingar um hverjir úrskurðirnir væru eða hvaða máli þeir tengdust, áður en krafa hafi verið sett fram. Verjandi hafi fengið yfrlit frá héraðsdómi um úrskurðina og sé krafan nú byggð á þeim upplýsingum. Verjandi sé engu nær um það hvoru rannsóknarmálinu úrskurðirnir tengist, að öðru leyti en því að sækjandi hafi gefið í skyn að þeir hafi verið kveðnir upp vegna rannsóknar á hvarfi A.
Ofangreindir úrskurðir fáist ekki afhentir hjá lögreglu, þrátt fyrir skýr ákvæði 2. mgr. 88. gr. laga nr. 19/1991. Aðgerð hljóti að vera lokið þar sem X hafi verið kunngert að símar hans hafi verið hleraðir. Nauðsynlegt sé að mannréttindi hans og friðhelgi einkalífs sé virt og að rannsóknaraðilar misnoti ekki þau rannsóknarúrræði sem eigi að vera háð úrskurði og eftirliti dómstóla. Það eigi að vera lágmarkskrafa til dómstóla að sá sem sé sakaður um verknað fái um það upplýsingar hvaða skýringar lögregla gefi dómstólum fyrir nauðsyn þess að rjúfa friðhelgi einkalífs og stjórnarskrárvarin mannréttindi. Ekki síst eigi upplýsingarnar að liggja fyrir þegar rannsóknaraðgerðin sé liðin hjá og ekki þörf á leynd um hana eins og í tilviki X.
Lögreglustjórinn í Reykjavík reisir kröfur sínar á eftirfarandi:
Með dómi Hæstaréttar frá 21. júní 2001 hafi kröfu lögmannsins um aðgang að framangreindum úrskurðum verið hafnað en í dóminum segi: "Skilja verður l. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, þannig að verjandi geti aðeins krafist aðgangs að gögnum, sem varða mál, þar sem hann hefur verið skipaður verjandi. Í kröfu varnaraðila sé ekki getið um hvaða mál þeir úrskurðir varði, sem hann krefst endurrita af, heldur óskar hann aðgangs að endurritum allra úrskurða, sem varða varnaraðila á tilteknu tímabili. Eins og kröfugerð varnaraðila er háttað verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi."
Þann 24. júlí sl. hafi héraðsdómur tekið fyrir á ný kröfu lögmannsins um afhendingu framangreindra úrskurða. Þeirri kröfu hafi verið vísað frá dómi með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar.
X hafi verið yfirheyrður hjá lögreglu þann 12. og 13. desember 2000 vegna hvarfs A. Með honum við fyrri yfirheyrsluna hafi verið Páll Arnór Pálsson hrl. sem lögreglan hafi tilnefnt sem verjanda hans við yfirheyrsluna. Við síðari yfirheyrsluna hafi X ekki séð ástæðu til að lögmaðurinn væri viðstaddur. Þann 3l. júlí 2001 hafi X komið á lögreglustöð og óskaði eftir að lögmaðurinn yrði skipaður verjandi sinn. Beiðni X hafi verið send héraðsdómi og hafi komið fram í beiðninni að X hefði komið til lögreglunnar gagngert til að óska eftir skipun verjanda, en hann hefði áður verið yfirheyrður um málavexti. Þann 8. ágúst sl. var lögmaðurinn skipaður verjandi X vegna ætlaðrar aðildar hans að mannshvarfi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík byggir frávísunarkröfu sína á því að ekki hafi verið skilyrði til þess samkvæmt l. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að skipa X verjanda þann 8. þ.m. Þegar skipun þessi hafi átt sér stað hafi verið liðnir tæpir átta mánuðir frá því að X var yfirheyrður í þágu rannsóknar á hvarfi A. Nefnd lagagrein geri ráð fyrir skipun verjanda áður en til málshöfðunar kemur ef ástæða þykir til að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna. Á þessum tíma hafi ekkert legið fyrir um það hvort fyrirhugaðar væru frekari aðgerðir gegn X, svo sem frekari yfirheyrslur. Því síður hafi nokkuð legið fyrir um að mál yrði höfðað á hendur honum, sbr. l. mgr. 35. gr. laganna. X hafi því ekki haft neina hagsmuni af því að honum yrði skipaður verjandi. Beiðni X um skipan verjanda sé augljóslega fram sett til þess eins að fá aðgang að þeim gögnum sem honum hafi, með framangreindum dómi Hæstaréttar, verið synjað um aðgang að og aftur með úrskurði héraðsdóms þann 24. júlí sl. Beri því að vísa kröfu þessari frá með vísan til dóms Hæstaréttar frá 21. júní sl.
Varakrafa er á því byggð að afhending úrskurða héraðsdóms geti spillt fyrir rannsókn málsins og því beri héraðsdómi að hafna kröfu um afhendingu þeirra með vísan til lokamálsliðar 2. mgr. 88. gr. laga nr. 91/1991. Í tilvitnuðu lagaákvæði komi fram að úrskurðir um símahlerun skuli birtir þeim sem hún beinist að eða aðgerðin tilkynnt honum svo fljótt sem verða megi, þó þannig að það skaði ekki rannsókn málsins. Í framangreindu lagaákvæði sé ekki mælt fyrir um fortakslausa skyldu til að afhenda þargreind gögn heldur einungis í þeim tilvikum þegar það skaði ekki frekari rannsókn málsins. Rannsókn á hvarfi A sé enn í gangi hjá lögreglu og sé rannsóknin á því stigi að lögreglan geti ekki látið neitt uppi um stöðu hennar. Það sé engum vafa undirorpið að afhending framangreindra úrskurða skaði mjög frekari rannsókn málsins hjá lögreglu.
Byggt er á því að 88. gr. laganna, sem gildi um þau gögn sem hér sé krafist aðgangs að, sé sérákvæði sem gangi framar hinni almennu reglu um aðgang verjanda að gögnum máls sem fram komi í l. mgr. 43. gr. laganna. Auk þess verði að skilja síðarnefnda ákvæðið á þann hátt að það eigi við um afhendingu gagna þegar um eiginlega rannsókn á hendur sökunaut sé að ræða og sé ákvæðið til þess ætlað að auðvelda honum vörn í málinu. X hafi á sínum tíma verið yfirheyrður sem sakborningur í málinu og hafi honum verið gefin sú réttarstaða til að gæta sem best hagsmuna hans. Þær aðstæður sem 1. mgr. 43. gr. laganna geri ráð fyrir séu ekki fyrir hendi nú. Hlutverki verjanda sé lýst í 1. mgr. 41. gr. laganna og sé staða þessa máls ekki með þeim hætti að verjandi hafi þar nokkru hlutverki að gegna.
Niðurstaða
Lögreglan vinnur að hvarfi A sem saknað hefur verið frá því í júní 1994 og hefur X verið yfirheyrður vegna gruns um aðild að hvarfi hans. Úrskurðir þeir um símahlerun, sem krafist er afhendingar á, eru allir uppkveðnir vegna rannsóknarhagsmuna í því máli og eru númer málanna og dagsetningar úrskurða tilgreind í kröfu sóknaraðila. Þykir krafa hans því nægilega skýr að þessu leyti til þess að um hana verði fjallað efnislega.
Samkvæmt 35. gr. laga nr. 19/1991 er dómara endranær heimilt, eftir ósk sakbornings, að skipa honum verjanda við rannsókn máls áður en til málshöfðunar kemur ef ástæða er til þess að mati dómara, með tilliti til brots og allra aðstæðna. Fyrir liggur að Páll Arnór Pálsson hrl. var með bréfi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur skipaður verjandi X vegna ætlaðrar aðildar hans að mannshvarfi með vísan til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1991. Að mati héraðsdómara voru skilyrði samkvæmt þessu lagaákvæði til þess að skipa X verjanda. Hefur þessi ákvörðun dómara ekki verið afturkölluð og telst því í fullu gildi. Er ekki fallist á frávísunarkröfu lögreglustjórans í Reykjavík sem að þessu lýtur.
Fallast má á það með lögreglustjóranum í Reykjavík að í 43. gr. laga nr. 19/1991 sé að finna almenna reglu um aðgang verjanda að gögnum máls en að í 2. mgr. 88. gr. laganna sé um að ræða sérákvæði sem gangi lengra, en eins og greinir í ákvæðinu ber að tryggja að rannsókn skaðist ekki við það að tilkynnt sé um aðgerðir samkvæmt greininni eða að afhent séu endurrit úrskurða.
Fram er komið að X var kynnt að símar hans hefðu verið hleraðir og að því leyti hefur ákvæði 2. mgr. 88. gr. laga nr. 19/1991 verið uppfyllt. Hins vegar er fallist á það, með tilliti til þeirrar stöðu sem rannsókn á hvarfi A er í, að það myndi skaða rannsóknarhagsmuni málsins ef endurrit ofangreindra úrskurða yrði afhent. Er kröfu lögmannsins því hafnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu Páls Arnórs Pálssonar hrl. f.h. X um að afhent verði endurrit fjögurra úrskurða um símahleranir hjá X frá 12. desember 2000 í máli nr. R-499/2000, frá 10. janúar 2001 í máli nr. R-22/2001, frá 10. febrúar 2001 í máli nr. R-51 /2001 og frá 11. apríl 2001 í máli nr. R-166/2001.
Kristjana Jónsdóttir