Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Innstæða
- Ábyrgð
|
|
Þriðjudaginn 17. febrúar 2015. |
|
Nr. 91/2015.
|
Glitnir hf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Innstæða. Ábyrgð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu sem T lýsti við slit G hf. var skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. G hf. hafði gefið út ábyrgðaryfirlýsingu 31. mars 2008 tilhanda T á grundvelli þágildandi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 89/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að G hf. hefði ekki fært nein haldbær rök fyrir þeirri staðhæfingu að álit Fjármálaeftirlitsins 27. október 2008, um að L hf. hafi 6. október sama ár ekki verið fær um að endurgreiða eigendum andvirði tryggðra innstæðna þeirra hjá þeim banka, hafi verið áfátt þannig að ekki yrði á því byggt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2015 þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 1.140.771.545 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og lögin voru orðuð haustið 2008, sagði: „Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu. Í yfirlýsingunni skal hver viðskiptabanki og sparisjóður ábyrgjast að hann muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar þegar henni ber að endurgreiða innstæður skv. III. kafla í einhverjum viðskiptabanka eða sparisjóði sem aðild á að sjóðnum.“ Á þessum grundvelli gaf sóknaraðili út ábyrgðaryfirlýsingu þá sem um ræðir í málinu. Sóknaraðili hefur engin haldbær rök fært fram fyrir þeirri staðhæfingu að áliti Fjármálaeftirlitsins 27. október 2008, um að Landsbanki Íslands hf. hafi 6. október sama ár ekki verið fær um að endurgreiða eigendum andvirði tryggðra innstæðna þeirra hjá þeim banka, hafi verið áfátt þannig að ekki verði á því byggt. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, 650.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2015.
Þetta mál, sem barst dóminum, 8. febrúar 2013, með bréfi slitastjórnar Glitnis hf., var þingfest 19. febrúar það ár og tekið til úrskurðar 21. nóvember 2014.
Sóknaraðili, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, kt. [...], Borgartúni 35, Reykjavík, krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að krafa hans, að fjárhæð 1.310.675.851 kr., auðkennd nr. CL20091127-5326 í kröfuskrá varnaraðila, njóti stöðu sem forgangskrafa, samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili þess að krafa um dráttarvexti af kröfunni, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. apríl 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði með dómi að krafa hans, að fjárhæð 1.310.675.851 kr., auðkennd nr. CL20091127-5326 í kröfuskrá varnaraðila, njóti stöðu sem forgangskrafa, samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slit varnaraðila að fram komnu því skilyrði að sóknaraðili greiði eigendum innlána varnaraðila andvirði innstæðna þeirra, hvort sem er í heild eða að hluta, í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þá krefst sóknaraðili þess að krafa um dráttarvexti af kröfunni, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. apríl 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði með dómi að krafa hans, að fjárhæð 1.310.675.851 kr., auðkennd nr. CL20091127-5326 í kröfuskrá varnaraðila, njóti stöðu sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili þess að krafa um dráttarvexti af kröfunni, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. apríl 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Til þrautaþrautavara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að krafa sóknaraðila, að fjárhæð 1.310.675.851 kr., auðkennd nr. CL20091127-5326 í kröfuskrá varnaraðila, njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila að fram komnu því skilyrði að sóknaraðili greiði eigendum innlána varnaraðila andvirði innstæðna þeirra, hvort sem er í heild eða að hluta, í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þá krefst sóknaraðili þess að krafa um dráttarvexti af kröfunni, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. apríl 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Hvernig svo sem mál þetta fer krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, Glitnir hf., kt. [...], Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar að hafna kröfu sóknaraðila, að fjárhæð 1.310.675.851 kr., nr. CL20091127-5326 í kröfuskrá varnaraðila.
Til vara krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila að fjárhæð 1.310.675.851 kr., nr. CL20091127-5326, verði hafnað að svo stöddu.
Til þrautarvara krefst hann þess, verði fallist á kröfu sóknaraðila, að hún teljist til almennrar kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir
Sóknaraðili er sjálfseignarstofnun um tryggingarsjóð sem veitir meðal annars innstæðueigendum lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum aðildarfyrirtækja sjóðsins, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Glitnir banki hf. var eitt aðildarfyrirtækja sjóðsins, sbr. 3. gr. laganna, áður en hann var tekinn til slitameðferðar.
Að sögn sóknaraðila bar aðilum sjóðsins, þar á meðal bankanum, samkvæmt þágildandi 1. mgr. 6. gr. laganna, að greiða árlega gjald í innstæðudeild sóknaraðila. Heildarfjárhæð gjaldsins nam 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í bankanum á næstliðnu ári. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. bar aðildarfyrirtækjum sóknaraðila, þar á meðal Glitni banka, að leggja fram sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu næði heildareign innstæðudeildar sjóðsins ekki tilskildu lágmarki. Bankinn gaf slíka ábyrgð út 31. mars 2008 að heildarfjárhæð 1.140.771.545 kr. sem þó takmarkaðist árlega við einn tíunda hluta (10%) af lágmarksstærð sóknaraðila, væri sú fjárhæð lægri.
Vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði haustið 2008 setti Alþingi lög nr. 125/2008, sem tóku gildi 7. október 2008. Með þeim var meðal annars breytt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til sérstakra ráðstafana teldi það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.
Í samræmi við þessa nýfengnu heimild skipaði Fjármálaeftirlitið Glitni banka hf. skilanefnd, 7. október 2008. Með ákvörðun eftirlitsins, 14. október 2008, voru tilteknar eignir og skuldir bankans færðar til nýstofnaðs banka sem þá hét Nýi Glitnir banki hf. en heitir nú Íslandsbanki hf. Meðal þess sem var ekki fært til nýja bankans voru erlendar innstæður, svonefnd heildsöluinnlán og peningamarkaðslán.
Fjármálaeftirlitið birti, 4. nóvember 2008, það álit sitt að mánuði áður, 3. október 2008, hafi Glitnir banki hf. ekki verið fær um að greiða innstæðueigendum andvirði innstæðna þeirra í bankanum. Með álitinu stofnaðist skylda sóknaraðila til þess að greiða öllum innstæðueigendum Glitnis banka úr innstæðudeild sinni andvirði innstæðu þeirra, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Fjármálaeftirlitið gaf út sambærilegt álit, 27. október 2008, vegna Landsbanka Íslands og 30. október 2008 vegna Kaupþings banka hf. Þar sem greiðsluskylda sóknaraðila gagnvart þeim sem áttu tryggðar innstæður í Landsbanka Íslands hafi stofnast fyrr en gagnvart þeim sem áttu innstæður í Kaupþingi og Glitni banka taldi sóknaraðili sér bera að greiða innstæðueigendum Landsbankans (nú LBI) þá fjármuni og aðrar eignir sem voru í sjóðnum þann dag sem FME gaf út álit um greiðslugetu þess banka. Þetta kemur fram í ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 8. september 2011, þar sem fjallað er um greiðslu úr innstæðudeild sóknaraðila í kjölfar hruns íslensku bankanna haustið 2008 og síðar.
Sóknaraðili tiltekur ýmis atvik sem hafi orðið til þess að greiðsla hans til innstæðueigenda LBI hafi tafist. Í fyrsta lagi framlengdi viðskiptaráðherra þrisvar sinnum frest sóknaraðila til að greiða innstæðueigendum, vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum. Í öðru lagi fóru fram viðræður íslenskra, hollenskra og breskra yfirvalda um svokallaða Icesave-samninga sem voru felldir með þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Í þriðja lagi hafi innstæðueigendur LBI ekki viljað taka við greiðslum sóknaraðila vegna ágreinings um aðferðir sóknaraðila við útgreiðslu og þau skilyrði sem sóknaraðili hafi sett. Viðræður standi enn yfir milli sóknaraðila og kröfuhafa um framkvæmd við útgreiðslu. Kröfuhafar hafi hins vegar ekki gefið í skyn að þeir muni falla frá kröfum sínum á hendur sóknaraðila og því geri sóknaraðili ráð fyrir að hann þurfi að inna greiðsluna af hendi fyrr eða síðar.
Sóknaraðili bendir á að fyrir liggi það mat slitastjórnar LBI hf. að allar forgangskröfur við slit LBI hf. fáist að fullu greiddar. Jafnframt liggi fyrir að endurgreiðslu forgangskrafna muni ekki ljúka fyrr en á árinu 2017. Mat slitastjórnar sé háð ýmsum óvissuþáttum og brugðið geti til beggja vona um að fjármunir LBI hf. nægi að endingu til að greiða forgangskröfuhöfum að fullu. Jafnframt sé ljóst að talsverður tími líði þar til lokagreiðsla vegna slita LBI hf. verði innt af hendi. Yfirgnæfandi líkur séu þannig á því að sóknaraðili muni þurfa að greiða kröfuhöfum LBI hf. alla þá fjármuni sem séu í sjóðum sóknaraðila og að þær eignir nægi ekki til að greiða að fullu þær kröfur sem á sóknaraðila standi. Hvernig sem á málið sé litið hafi sóknaraðila verið skylt og nauðsynlegt að krefja aðildarfyrirtæki sín um greiðslu iðgjalda árið 2009 í samræmi við þau lög sem þá giltu og miðað við að ekkert fé væri í innstæðudeild sóknaraðila.
Mikil óvissa hafi ríkt um uppgjör milli Glitnis banka og Nýja Glitnis banka hf. (nú Íslandsbanka hf.) fyrstu mánuðina eftir hrun þess fyrrnefnda, það er óvissa um hvaða eignir hefðu verið færðar yfir til hins nýja banka og hverjar ekki. Meðal annars vegna þessa hafi sóknaraðili ritað Nýja Glitni banka hf. bréf, 15. janúar 2009, og krafist þess að sá banki greiddi ábyrgðina. Síðar hafi komið í ljós að ábyrgðin hvíldi enn á varnaraðila enda sé hún skuldbinding samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sem var ekki tilgreind í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins meðal þeirra sem hefðu flust til Íslandsbanka hf. Umrætt bréf breyti því ekki neinu um rétt sóknaraðila sem skýrt verði ráðinn af kröfulýsingu hans. Önnur túlkun myndi stríða gegn þeirri meginreglu gjaldþrotalaga að kröfuhafar fylgi réttindum sínum eftir með kröfulýsingu.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Glitni banka slitastjórn, 12. maí 2009, á grundvelli laga nr. 161/2002, sbr. og lög nr. 44/2009 um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, 26. maí 2009, var lýst eftir kröfum við slit varnaraðila og rann kröfulýsingafrestur út 26. nóvember 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfu við slit varnaraðila, 24. nóvember 2009. Krafan var vegna þessarar ábyrgðartryggingar varnaraðila frá 31. mars 2008 og nam höfuðstóll hennar 1.140.771.545 kr. en hún nam samtals 1.434.789.798 kr. með áföllnum kostnaði og dráttarvöxtum. Henni var lýst á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fjárhæð kröfunnar var byggð á fjárhæð ábyrgðaryfirlýsingarinnar en lögbundin lágmarksstærð sóknaraðila um áramót 2007 og 2008 var 16.915.955.000 kr. Sóknaraðili bendir á að sú takmörkun að ábyrgðin yrði ekki hærri en 10% af lágmarksstærð sóknaraðila eigi því ekki við enda sé sú fjárhæð hærri en fjárhæð ábyrgðartryggingarinnar.
Með bréfi, 2. apríl 2011, hafnaði varnaraðili framangreindri kröfu meðal annars með vísan til þess að gögn vantaði til stuðnings henni auk þess sem hún var ekki talin eiga rétt á sér. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila til kröfunnar með bréfi 14. apríl 2011. Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundi 31. janúar 2013 og var því ákveðið að vísa málinu til dóms.
Sóknaraðili hefur nú fallið frá kröfu um kostnað fallinn til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 55.804.830 kr. og kröfu um innheimtuþóknun að fjárhæð 68.309.117 kr. sem krafa var gerð um í kröfulýsingu. Af fjárkröfu sóknaraðila stendur eftir höfuðstóll að fjárhæð 1.140.771.546 kr. og dráttarvextir samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2008 til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 169.904.306 kr.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Aðalkrafa
Sóknaraðili byggir fjárkröfu sína á ábyrgðaryfirlýsingu sem Glitnir banki hf. gaf út, 31. mars 2008, að höfuðstólsfjárhæð 1.140.771.545 kr. Með henni hafi bankinn lýst yfir því að hann ábyrgðist greiðslu til innstæðudeildar sóknaraðila ef og þegar sóknaraðila bæri að endurgreiða innstæður, samkvæmt III. kafla laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, í einhverjum viðskiptabanka eða sparisjóði sem eigi aðild að sóknaraðila og heildareign deildarinnar sé lægri en lögboðin lágmarksfjárhæð. Ábyrgðin takmarkist við framangreinda fjárhæð og hafi jafnframt takmarkast árlega við einn tíunda af lágmarksstærð sóknaraðila, reyndist sú fjárhæð lægri. Ábyrgðin skyldi gilda þar til innstæðudeild sóknaraðila hefði náð lögboðnu lágmarki samkvæmt þágildandi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999 og fjárhæð hennar skyldi jafnframt lækka vegna iðgjalda sem varnaraðili kynni að greiða síðar.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna hafi greiðsluskylda sóknaraðila orðið virk þegar Fjármálaeftirlitið gaf út álit þess efnis, 27. október 2008, að LBI hf. væri ófær um að inna af hendi greiðslu. Á þeim degi hafi orðið ljóst að sóknaraðila bæri að endurgreiða innstæður samkvæmt III. kafla laga nr. 98/1999 vegna LBI hf. og skilyrði ábyrgðaryfirlýsingarinnar og laga nr. 98/1999 því fullnægt að því leyti. Sóknaraðili áréttar að hvorki ábyrgðaryfirlýsingin né lög nr. 98/1999 geri ráð fyrir því að sóknaraðili þurfi fyrst að greiða innstæðueigendum það sem þeim ber áður en hann geti krafið varnaraðila um greiðslur samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni.
Því skilyrði að aðildarfyrirtæki yrði aldrei krafið um hærri greiðslu en sem næmi einum tíunda af lágmarksstærð sjóðsins, væri hún lægri, sé jafnframt fullnægt. Fyrir umrætt tímabil hafi heildareign innstæðudeildar sóknaraðila ekki mátt vera lægri en 16.915.955.000 kr. Því til stuðnings vísar sóknaraðili til fram lagðs skjals, „Inngreiðsluþörf TIF vegna 2007“, sem unnið hafi verið af endurskoðendum sóknaraðila, KPMG. Sú takmörkun að ábyrgðin verði ekki hærri en 10% af lágmarksstærð sóknaraðila eigi því ekki við enda sé sú fjárhæð hærri en fjárhæð ábyrgðartryggingarinnar sem nam 1.140.771.545 kr. Því reyni ekki á þessa takmörkun og af þeim sökum beri varnaraðila að standa sóknaraðila skil á allri fjárhæð ábyrgðaryfirlýsingarinnar.
Fyrir liggi að greiðsluskylda sóknaraðila hafi orðið virk í október 2008 en á þeim tíma hafi iðgjöld verið innheimt árlega með greiðslum sem inntar skyldu af hendi fyrir 1. mars ár hvert. Það hafi því ekki komið til frekari iðgjaldagreiðslna til sóknaraðila þegar greiðsluskyldan varð virk. Því sé óumdeilanlegt að innstæðudeild sóknaraðila hafi ekki getað náð tilskildu lágmarki síðar á árinu 2008. Alkunna sé að innlán í útibúum LBI hf. erlendis hafi aukist mikið á árinu 2008. Þessu til staðfestingar vísar sóknaraðili til skjalsins „Inngreiðsluþörf TIF vegna 2008“.
Sóknaraðili telur ótvírætt að öll skilyrði sem fram koma í ábyrgðaryfirlýsingunni og í lögum nr. 98/1999 séu uppfyllt og því beri varnaraðila að samþykkja kröfuna með þeirri fjárhæð sem lýst er.
Sóknaraðili byggir á því að krafa hans um greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni njóti rétthæðar sem forgangskrafa, samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, sbr. 9. gr. laga nr. 125/2008. Í orðalagi 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 séu ekki settar sérstakar takmarkanir við því hvers eðlis þær kröfur eru sem njóta eigi stöðu sem forgangskröfur. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps, er varð að lögum nr. 125/2008, segi að kröfur vegna innstæðna njóti framangreindrar rétthæðar en sú takmörkun komi ekki fram í lagaákvæðinu sjálfu. Þess utan byggi sóknaraðili á því að í þessu máli geri hann kröfur vegna innstæðna enda tengist ábyrðaryfirlýsingin innstæðum órjúfanlegum böndum.
Þá krefst sóknaraðili dráttarvaxta af höfuðstól kröfunnar frá 4. nóvember 2008 til greiðsludags og vísar því til stuðnings til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þess sé jafnframt krafist að dráttarvextir frá 4. nóvember 2008 til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 169.904.306 kr. njóti sömu stöðu og höfuðstóll kröfunnar, eða sem forgangskrafa, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Vöxtum eftir 22. apríl 2009 hafi verið lýst sem eftirstæðum kröfum sbr. 1. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varakrafa
Fallist dómurinn ekki á að varnaraðila beri að greiða samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni óháð því hvort sóknaraðili hafi áður greitt innstæðueigendum byggir sóknaraðili á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af viðurkenningu á kröfunni með því skilyrði að til greiðslu komi síðar. Að öðru leyti vísar hann til rökstuðnings fyrir aðalkröfu.
Þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa
Fallist dómurinn ekki á að krafa sóknaraðila í aðal- eða varakröfu skuli njóta rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 byggir sóknaraðili á því að fjárkrafa hans njóti stöðu almennrar kröfu í kröfuröð samkvæmt 113. gr. sömu laga. Hann byggir á því að greiðsluskylda varnaraðila hafi stofnast við útgáfu álits Fjármálaeftirlitsins, 27. október 2008, og ekki verði gert að skilyrði að sóknaraðili hafi greitt innstæðueigendum bætur áður en hann geti krafið varnaraðila um greiðslur samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni. Telji dómurinn hins vegar að slíkt skilyrði felist í ábyrgðaryfirlýsingunni krefjist sóknaraðili þess í öllu falli að rétthæð verði viðurkennd með því skilyrði að til greiðslu komi síðar. Hann vísar til rökstuðnings fyrir aðal- og varakröfu um framangreint eftir því sem við getur átt.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, einkum ákvæða 6., 9. og 10. gr. laganna, reglugerðar nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og til almennra reglna eignar-, samninga- og kröfuréttar. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. Hann hafnar því að á honum hvíli greiðsluskylda gagnvart sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að skilyrði greiðsluskyldu skv. lögum nr. 98/1999 séu komin fram og þar með ekki hvort skylda til greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni sé orðin virk. Þess vegna eigi fjárkrafa hans ekki rétt á sér.
i. Greiðsluskylda ekki virk samkvæmt lögum nr. 98/1999
Eins og segi í 9. gr. laga nr. 98/1999, sé sóknaraðila skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu þegar fyrir liggi það álit Fjármálaeftirlitsins að aðildarfyrirtækið sé ekki fært um að greiða andvirði innstæðu sem viðskiptavinur hafi krafið það um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda.
Varnaraðili telji nokkur atriði koma í veg fyrir að greiðsluskylda sóknaraðila sé orðin virk, verði hún yfirhöfuð talin fyrir hendi. Fyrir það fyrsta hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á hvaða viðskiptavinir hafi krafist endurgreiðslu og þar af leiðandi ekki heldur hvort, hafi einhver krafist endurgreiðslu, hann sé viðskiptavinur í skilningi 9. gr. laganna. Þótt sýnt yrði fram á það, hafi sóknaraðili að sama skapi ekki sýnt fram á að sá tími sé kominn að honum beri að greiða viðkomandi viðskiptavini. Sóknaraðili tiltaki raunar sjálfur að innstæðueigendur LBI hf. hafi ekki viljað taka við greiðslum sóknaraðila vegna ágreinings um aðferðir sóknaraðila við útgreiðslu og þau skilyrði sem sóknaraðili hefur sett. Jafnframt segi sóknaraðili að viðræður standi enn yfir milli sóknaraðila og kröfuhafa um framkvæmd við útgreiðslu. Varnaraðili telji það ófullnægjandi að sóknaraðili útskýri ekki að einhverju marki hvers vegna innstæðueigendur LBI hf. hafi ekki viljað taka við greiðslum og hvert sé efni ágreinings þeirra og sóknaraðila.
Varnaraðili byggi aðallega á því að hafna beri kröfunni þar sem skilyrði þágildandi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999 sé ekki fullnægt en þar segi að í ábyrgðaryfirlýsingunni skal hver viðskiptabanki og sparisjóður ábyrgjast að hann muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar þegar henni ber að endurgreiða innstæður skv. III. kafla [...]. Varnaraðili líti svo á að það tímamark sé ekki komið, þ.e. að sóknaraðila beri að endurgreiða innstæður. Sóknaraðila beri að sýna fram á að þær aðstæður séu fyrir hendi en varnaraðili telji svo ekki vera eins og áður segi, þar sem sóknaraðili hafi greint frá ágreiningi milli hans og þeirra sem eigi innstæður í LBI hf.
Í athugasemdum við ákvæðið, sem hafi komið inn með lögum nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði og sé efnislega eins og 6. gr. laga nr. 98/1999 hljóðaði þar til því var breytt, 29. júní 2012, með lögum nr. 79/2012, segi að í yfirlýsingunni skuli hver viðskiptabanki ábyrgjast að hann muni inna af hendi sérstaka greiðslu til innstæðudeildar sóknaraðila í þeim tilvikum sem deildinni ber að endurgreiða innstæður. Þetta styðji þá túlkun varnaraðila að ekki beri að greiða fyrr en raunveruleg greiðsluskylda sóknaraðila sé orðin að veruleika. Skilyrði laga fyrir greiðslu séu því ekki enn komin fram.
Þær breytingar sem hafi orðið á reglum laga nr. 98/1999 með svokölluðum neyðarlögum, nr. 125/2008, styðji þessa túlkun enn fremur, að mati varnaraðila. Með neyðarlögunum hafi innstæðum verið veitt staða forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafa sjóðsins vegna ábyrgðaryfirlýsingar gagnvart varnaraðila sé almenn krafa, eins og nánar verði útskýrt síðar, þrátt fyrir að sóknaraðili haldi öðru fram. Það að krafa sóknaraðila sé almenn krafa gagnvart varnaraðila þýði að þótt fallist yrði á kröfu hans, muni hann aldrei fá greitt fyrr en við lok slitameðferðar varnaraðila, sem sé alls ófyrirséð hvenær verði.
Forsendur þess að sóknaraðili greiði þeim, sem eigi innstæður í LBI hf. áður Landsbanka Íslands, séu annars vegar að hann eigi fjármuni og hins vegar að innstæðueigendur hafi ekki þegar fengið greiddar innstæður sínar úr slitabúi Landsbankans. Innstæðueigendur LBI hf. eigi forgangskröfu sem megi greiða fyrr út en almennar kröfur og þar með standi allar líkur til þess að slitastjórn LBI greiði þeim áður en varnaraðili greiði almennar kröfur.
Í ljósi alls þessa telur varnaraðili að sóknaraðili muni aldrei þurfa að greiða þeim sem eiga innstæður í LBI hf. þá fjármuni sem hann krefst af varnaraðila.
Um stöðuna o.fl.
Samkvæmt mati á fjárhagsstöðu LBI hf. eftir fyrsta fjórðung ársins 2013 séu áætlaðar endurheimtur 1.551.000.000.000 króna. Það sé 226.000.000.000 króna hærri fjárhæð en nemi bókfærðri stöðu forgangskrafna, skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslur til innstæðueigenda LBI séu hafnar og hafi slitastjórn LBI, 12. september 2013, greitt forgangskröfuhöfum fjórðu hlutagreiðslu. Heildargreiðslur til forgangskröfuhafa nemi 730.400.000.000 króna, sem séu um 55% af forgangskröfum. Það liggi því fyrir að innstæðueigendur LBI muni fá innstæður sínar greiddar að fullu við slit Landsbankans.
Samkvæmt fram lögðum gögnum muni þeir, sem eigi innstæður hjá Kaupþingi og varnaraðila, fá sínar innstæður greiddar frá slitabúum þeirra fyrirtækja.
Þá liggi fyrir að Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. hafi gert nauðasamninga við kröfuhafa sína. Straumur hafi jafnframt samið við bankatryggingasjóð Danmerkur um að allar innstæður yrðu greiddar að fullu. Innlendar innstæður Straums hafi verið færðar yfir til Íslandsbanka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 17. mars 2009. Allar innstæður hjá Straumi muni fást greiddar og þar af leiðandi virðist sóknaraðili ekkert þurfa að greiða þeim sem eigi þær.
Í ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 8. september 2011, komi meðal annars fram að Greiðslur iðgjalda til TIF mynduðu nýjan sjóð frá og með gjalddaga ársins 2009 og er rétt að líta svo á að þeir fjármunir standi til útgreiðslu fyrir innstæðueigendur fjármálafyrirtækja sem FME lýsti ógjaldfær eftir það tímamark. Við þá fjárhæð bætast síðan þeir fjármunir sem að endingu skila sér til baka úr slitameðferðum LBI, Kaupþings banka hf. (Kaupþing) og Glitnis banka hf. (Glitnis) en svo sem rakið er hér á eftir er mikilli óvissu háð hvort eða hversu mikla fjármuni verður þar að ræða.
Um Straum segi í ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 8. september 2011, að [i]ðgjöld ársins 2009 ætti því fyrst að nýta til greiðslu til innstæðueigenda hjá þeim banka áður en til álita kemur hvort unnt sé að greiða innstæðueigendum annarra aðildarfyrirtækja af þeim fjármunum sem þá töldust til staðar í innstæðudeild TIF.
Síðar segi í ákvörðuninni: Svo sem kunnugt er var gerður nauðasamningur við kröfuhafa Straums í júlí 2010, sem fól í sér að forgangskröfur voru greiddar að fullu. Stjórn TIF lítur því svo á að ekki komi til greiðslu úr innstæðudeild vegna þess aðildarfyrirtækis.
Innlendar innstæður sparisjóða hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. hafi verið fluttar yfir til Seðlabanka Íslands en aðrar innstæður þess banka verið fluttar til Kaupþings banka hf. Í sparisjóðabankanum hafi ekki verið aðrar innstæður og þar af leiðandi muni sóknaraðili ekki þurfa að greiða neitt út vegna Sparisjóðabankans.
Innstæðum í Spron hf. hafi verið ráðstafað til Kaupþings banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. mars 2009. Ein önnur innstæða hafi verið í Spron og hafi Byggðastofnun átt hana, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 352/2013. Sú krafa fáist greidd úr þrotabúi Spron hf. Af þeim sökum muni sóknaraðili ekki þurfa að greiða innstæðueiganda Spron.
Um Sparisjóðabankann og Spron segi í ákvörðun stjórnar sóknaraðila, dags. 8. september 2011, að [e]kki hafa verið gerðar kröfur á TIF vegna greiðsluþrots Sparisjóðabanka Íslands hf. annars vegar eða Spron hf. hins vegar. Ekki er því útlit fyrir að þörf verði á að innheimta þær ábyrgðaryfirlýsingar sem gefnar voru út af hálfu aðildarfyrirtækja frá og með árinu 2009 né þau iðgjöld sem greidd voru í sjóðinn haustið 2009 eða síðar.
Varnaraðili áréttar að í ákvörðun stjórnar sóknaraðila sé ekki rökstutt frekar hvers vegna greiðsla iðgjalda til hans hafi myndað nýjan sjóð frá og með gjalddaga ársins 2009. Hins vegar sýni það sem rakið hafi verið að sóknaraðili muni ekki þurfa að greiða út innstæður ofangreindra fyrirtækja. Í það minnsta muni sóknaraðili ávallt fá greitt það fé, sem hann kynni að greiða innstæðueigendum, þar sem allar innstæður í ofangreindum fyrirtækjum, hafi verið greiddar eða séu í greiðsluferli.
Á þessu sé raunar tekið í ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 8. september 2011, þar sem segi að [s]amkvæmt áætlunum slitastjórnar LBI um endurheimtur eigna bankans er gert ráð fyrir að forgangskröfur fáist greiddar að mestu eða jafnvel öllu leyti. Sú spurning hljóti þá að rísa hvað TIF beri að gera við þá fjármuni. Þessari spurningu svari stjórn sóknaraðila þannig að það sé mat stjórnarinnar að grundvallarskylda sjóðsins sé að greiða þá lágmarkstryggingu sem kveðið er á um í 1. mgr. 10. gr. itrl. Rétt sé því talið að nota þá fjármuni sem fást munu greiddir við slitameðferð LBI til að inna af hendi viðbótargreiðslu til þeirra innstæðueigenda LBI sem ekki fá lágmarkstrygginguna greidda við fyrstu útgreiðslu úr sjóðnum eða við úthlutun frá LBI.
Í umfjöllun um viðskiptavini Kaupþings segi stjórnin að greiðslur til þeirra velti á hlutfalli endurgreiðslu frá Landsbankanum enda kemur til viðbótargreiðslu til innstæðueigenda hjá LBI ef endurgreiðsluhlutfallið nær 100%. Þeir fjármunir sem renna til TIF í því tilfelli standa þá til greiðslu til innstæðueigenda hjá Kaupþingi. Hvað varnaraðila varðar segir stjórn sóknaraðila að á sama hátt skiptir máli hvert endurgreiðsluhlutfallið verður frá LBI og Kaupþingi.
Varnaraðili bendir á að nú liggi fyrir að endurgreiðsluhlutfall LBI, Kaupþings og hans verði 100%. Því sé þegar ljóst að sóknaraðili muni ekki þurfa að greiða þeim sem eigi innstæður í þeim fyrirtækjum andvirði innstæðna þeirra.
Tjónsleysi sóknaraðila
Varnaraðili áréttar að lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta hafi tekið gildi 1. janúar 2000. Þau hafi verið samin í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 97/9/EC, sem sett hafi verið í framhaldi af tilskipun um innstæðutryggingar, nr. 94/19/EC, sem var sett árið 1994. Lög nr. 98/1999 hafi tekið við af lögum um viðskiptabanka og sparisjóði en þeim hafi verið breytt árið 1996, með lögum nr. 113/1996, meðal annars til að uppfylla ákvæði tilskipunar um innstæðutryggingar nr. 94/19/EC.
Sóknaraðili hafi frá upphafi, og eðli máls samkvæmt, gegnt hlutverki bótasjóðs. Í greinargerð með lögum nr. 113/2006 sé rætt um bætur á þó nokkrum stöðum, til að mynda að bætur skulu skertar hlutfallslega jafnt ef eignir Tryggingarsjóðs [...] duga ekki til að bæta innstæður að fullu. Hið sama kemur fram í greinargerð með lögum nr. 98/1991 en þar sé rætt um „bætur“ sem fjárfestir fái og svari að lágmarki til 20.000 evra. Þar sé meðal annars sérkafli sem heiti Bætur til innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi þar sem útlistuð séu hin eldri lög nr. 113/1996 og lög nr. 13/1996. Þá segi í 10. gr. laga nr. 98/1999 að sjóðurinn verði ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt „tjón“ kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu. Tilgangur sjóðsins sé að bæta innstæðueigendum það tjón sem þeir verði fyrir verði fjármálafyrirtæki gjaldþrota. Þar sem ekki sé lagt upp með að innstæðueigendur fái allt tjón sitt bætt sé mælt fyrir um lágmarksvernd í lögunum. Eðli sjóðsins sé því af skaðabótaréttarlegum meiði og verði þar af leiðandi að líta til þeirra sjónarmiða sem gildi á sviði skaðabótaréttar.
Að mati varnaraðila verði að túlka ákvæði laganna með ofangreind sjónarmið að leiðarljósi.
Eðlisbreyting á sjóðnum með lögum nr. 125/2008
Þegar lög nr. 113/1996 og síðar lög nr. 98/1999 hafi verið sett hafi innstæður notið stöðu almennra krafna, skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, og hafi gert allt fram á haustið 2008. Með 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. hafi í fyrsta sinn verið mælt fyrir um að við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóti kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Innstæður hafi því orðið að forgangskröfum.
Þau sjónarmið, sem legið hafi til grundvallar lögum nr. 113/1996 og lögum nr. 98/1999, hafi meðal annars verið að slit geti tekið langan tíma og bagalegt væri fyrir innstæðueigendur að þurfa að bíða lengi eftir innstæðum sínum. Það hafi verið rökrétt þar sem krafa innstæðueiganda, við slit viðskiptabanka eða sparisjóðs, hafi á þessum tíma verið almenn krafa en þrotabúi sé almennt óheimilt að greiða þær út fyrr en við skiptalok. Í 156. gr. laga nr. 21/1991 segi að sé skiptum ekki lokið samkvæmt 154. eða 155. gr. laganna skuli búið, svo fljótt sem unnt er, efna þær kröfur á hendur því sem hafi þegar hlotið viðurkenningu og fáist efndar að fullu eftir stöðu sinni í skuldaröð. Þegar innstæður fái stöðu forgangskrafna, skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sé við slitameðferð mögulegt að greiða þær út áður en skiptum ljúki og í raun skuli gera það svo fljótt sem unnt er, eins og ákvæðið hljóði, svo framarlega sem greiðsla komi upp í allar forgangskröfur.
Framangreind breyting á stöðu kröfu innstæðueigenda í kröfuröð frá því að lögin voru sett sé umtalsverð og með henni hafi tilvist sóknaraðila í reynd verið breytt. Hlutverk hans verði nú veigaminna þar sem greiðast muni upp í forgangskröfur sem almennt verði að teljast líklegt þegar skuldarinn sé viðskiptabanki. Þetta sjáist af því að nú liggi fyrir að innstæðueigendur muni fá greiddar kröfur sínar frá öllum þrotabúum hinna föllnu fjármálastofnana. Markmið sóknaraðila verði einnig verulega veigaminna við það að innstæðueigandi fái greitt fyrr en við skiptalok þar sem líklegra sé að forgangskröfur fáist greiddar fyrr en almennar kröfur.
Þótt ekki sé útilokað að innstæðueigandi geti fengið fyrr greitt frá sóknaraðila en viðkomandi viðskiptabanka verði tilgangur sjóðsins orðinn óeðlilegur enda hafi hann ekki verið settur á stofn til að keppa við slitabú banka um greiðslu til innstæðueigenda.
Skipan innstæðna í stöðu forgangskröfu hafi einnig önnur áhrif. Greiði sóknaraðili viðskiptavini aðildarfyrirtækis áður en slitabú geri það verði krafa hans forgangskrafa en ekki almenn krafa. Hann muni því fá kröfu sína greidda, greiði hann innstæðueigendum áður en viðkomandi slitabú fjármálafyrirtækis takist að gera það.
Það að greiðslur til sóknaraðila séu ekki endurkræfar, skv. þágildandi 5. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999, þýði að hvort sem sóknaraðili greiði út til innstæðueigenda á undan slitabúi Landsbankans eður ei muni hann fá fjármuni frá varnaraðila sem nýtist í raun ekki til greiðslu innstæðueigenda. Þeir fjármunir sem hann gæti fengið frá varnaraðila fáist ekki greiddir fyrr en við skiptalok þar sem þeir hafi stöðu almennrar kröfu og þar af leiðandi muni þeir fjármunir aldrei nýtast til að greiða þeim sem eigi innstæður í Landsbankanum.
Greiði sóknaraðili innstæðueigendum áður en slitabú Landsbankans greiði þeim eignist hann kröfu við slit Landsbankans sem njóti stöðu forgangskröfu og forgangskröfur Landsbankans muni allar fást greiddar. Sóknaraðili muni í því tilviki þjóna einhvers konar tilgangslitlu millifærsluhlutverki sem ekki verði séð að samræmist því markmiði sem sjóðurinn hafði þegar hann var settur á stofn. Sóknaraðili sé þá í einhvers konar kappi við slitabú Landsbankans um hvor greiði innstæður út á undan.
Varnaraðili telur enn fremur að túlka verði það ákvæði 5. mgr. 6. gr. að greiðslur til sóknaraðila séu óendurkræfar með hliðsjón af því ákvæði 2. mgr. 6. gr. að aðildarfyrirtæki beri ekki að greiða sóknaraðila fyrr en því „ber að endurgreiða innstæður“ með þeim hætti að greiðsluskylda varnaraðila stofnist ekki fyrr en fyrirséð sé að sóknaraðili muni raunverulega þurfa að greiða eitthvað. Miðað við stöðuna nú líti út fyrir að sóknaraðili muni ekki þurfa að greiða neitt. Í það minnsta hafi hann ekki sýnt fram á að sú staða sé sannarlega fyrir hendi.
Innstæðueigendur Landsbankans eru ekki „viðskiptavinir“
Sú regla að sóknaraðili þurfi að greiða innstæðueigendum sé sett með neytendasjónarmið í huga vegna þess að venjulegir innstæðueigendur þurfi á innstæðum sínum að halda fljótt og eigi ekki að þurfa að bíða eftir slitum í lengri tíma en reglan hafi tekið mið af því að innstæður væru almennar kröfur. Sóknaraðili sé raunar sammála þessu svo vitnað sé í ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 8. september 2011: Megintilgangur með uppsetningu á tryggingarkerfi er að veita neytendum aðgang að fjármunum sem þeir hafa falið viðskiptabanka varðveislu á í formi innlána. Líta verði til þess að hinir raunverulegu innstæðueigendur séu, samkvæmt upplýsingum sóknaraðila, breska og hollenska ríkið sem fengu innstæður framseldar til sín eða aðilar sem eigi heildsöluinnlán eða peningamarkaðsinnlán. Á þessum aðilum og einstaklingum sem hafi fjármuni sína á innstæðureikningum sé mikill munur og telur varnaraðili að túlka verði ákvæðið með þeim hætti. Varnaraðili telji aðila ekki geta talist viðskiptavini í skilningi 6. og 9. gr. laga nr. 98/1999 hafi þeir tekið við kröfu með framsali og einnig að þau neytendaverndarsjónarmið sem eru ljós af markmiði reglunnar eigi ekki við á sama hátt þegar um sé að ræða fjársterka lögaðila en ekki einstaklinga. Af þeim sökum skorti lagaskilyrði til þess að verða við kröfunni.
ii. Tilskipun EB, 9. gr. laga nr. 98/1999 og athafnaleysi Fjármálaeftirlitsins
Varnaraðili bendir á að tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 97/9/EC hafi verið fyrirmynd laga nr. 98/1999 eins og fyrr greinir en áður hafi verið sett tilskipun 94/19/EC sem hafi verið fyrirmynd breytinga á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996. Sú tilskipun hafi aðallega fjallað um innlánatryggingakerfi.
Í 3. tölulið 1. gr. tilskipunar 94/19/EC hafi hugtakið ótiltækt innlán verið skilgreint en það hafi verið talið háð þeirri forsendu að lögbær yfirvöld hefðu metið það svo að viðkomandi lánastofnun væri að þeirra dómi að sinni ekki fær um að endurgreiða innlánið af ástæðum er tengjast beint fjárhagslegri stöðu hennar og verði það ekki í náinni framtíð.
Hefði ofangreint mat ekki farið fram, hafi verið mælt fyrir um að innlán gæti einnig verið ótiltækt ef dómstóll hefur af ástæðum er tengjast beint fjárhagslegri stöðu lánastofnunarinnar kveðið upp úrskurð sem skerðir möguleika innstæðueiganda til að leggja fram kröfu á hendur henni [...].
Í 7. gr. tilskipunarinnar segi að innlánatryggingakerfin tryggi að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20.000 ECU verði innlánin ótiltæk.
Ofangreind ákvæði tilskipunar 94/97/EC hafi verið lögfest með 77. gr. laga nr. 113/1996:
Meginhlutverk Tryggingarsjóðs innlánsstofnana er að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hefur krafist endurgreiðslu á í samræmi við þá skilmála er um hana gilda og viðskiptabanki eða sparisjóður er að áliti bankaeftirlitsins ekki fær um að inna tafarlaust af hendi eða í nánustu framtíð vegna greiðsluerfiðleika. Álit bankaeftirlitsins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að bankaeftirlitið fær fyrst staðfestingu á því að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður hafi ekki greitt innstæðu eins og honum bar að gera. Greiðsluskylda tryggingarsjóðsins vaknar einnig ef ákveðið er að slíta viðskiptabanka eða sparisjóði, sbr. ákvæði VIII. kafla.
Reglunni hafi síðan verið breytt með lögum nr. 98/1999, þar sem sagði í 9. gr.:
Nú er aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda. Er þá sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Greiðsluskylda sjóðsins verður einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti
Í tilskipuninni sé gert ráð fyrir því að lögbær yfirvöld meti það hvort viðkomandi lánastofnun sé að þeirra dómi ekki fær um að endurgreiða innlánið. Varnaraðili bendi á að regla 77. gr. þágildandi laga nr. 113/1996 hafi ekki gert ráð fyrir sjálfstæðu mati heldur hafi verið látið nægja að hið lögbæra yfirvald (áður Bankaeftirlitið en síðar Fjármálaeftirlitið) fengi staðfestingu á því að einhver hafi ekki fengið greidda innstæðu sína.
Eftir að reglunni hafi verið breytt, með lögum nr. 98/1999, til samræmis við efni tilskipunarinnar hafi orðið ljóst að hið lögbæra yfirvald, Fjármálaeftirlitið, þyrfti að láta vinna mat á því hver staða fjármálafyrirtækisins væri. Þetta sjáist af orðalagi ákvæðisins svo og af orðalagi tilskipunarinnar, sér í lagi þegar hin íslenska regla sé túlkuð með hliðsjón af orðum tilskipunarinnar. Ekki hafi lengur verið nægjanlegt að viðskiptavinur fengi ekki innstæðu sína greidda þá þegar heldur þyrfti Fjármálaeftirlitið að láta vinna efnislegt mat.
Fjármálaeftirlitið hafi birt þrjú álit í lok október og í byrjun nóvember árið 2008. Það hafi, 27. október 2008, birt álit um Landsbanka Íslands hf. og vísað til þess að þar sem Icesave-vefsíða Landsbanka Íslands hf. hefði orðið óvirk 6. október sl., væri það álit Fjármálaeftirlitsins að sama dag hafi Landsbanki Íslands hf. ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga, þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust. Þann 30. október 2008 hafi birst það álit Fjármálaeftirlitsins að þar sem Kaupþing Edge-vefsíða Kaupþings banka hf. hafi verið orðin óvirk 9. október 2008 hafi Kaupþing banki hf. sama dag ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga, þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust. Þann 4. nóvember 2008 hafi birst álit eftirlitsins um varnaraðila en þar sagði að 31. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið fengið staðfestingu á því að varnaraðili hefði ekki verið fær um að endurgreiða andvirði tiltekinna heildsöluinnlána í Bretlandi 3. október 2008. Það væri því álit Fjármálaeftirlitsins að sama dag hafi Glitnir banki hf. ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga, þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust.
Eins og ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins beri með sér, virðist ekkert mat hafa farið fram á því hvort innstæður væru greiðanlegar eður ei. Varnaraðili telur að þar sem slíkt mat sé skilyrði þess að greiðsluskylda stofnist, eins og ákvæðið 9. gr. laga nr. 98/1999 mæli fyrir um, hafi hún ekki enn stofnast, lagaskilyrði skorti. Innstæðurnar hafi ekki verið ótiltækar í skilningi innstæðutilskipunarinnar og aðildarfyrirtæki hafi þvert á móti ekki verið fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu. Slíkt hefði ef til vill komið í ljós hefði Fjármálaeftirlitið látið fara fram sjálfstætt mat. Það sé ekki hægt að líta svo á að mat hafi farið fram með því einu að vefsíður Landsbankans og Kaupþings hafi verið óvirkar. Aðildarfyrirtæki sóknaraðila muni greiða allar innstæður og Fjármálaeftirlitið hefði getað komist að því hefði eftirlitið látið fara fram efnislegt mat, sem virðist ekki hafa verið gert. Varnaraðili telji þetta eitt nægja til þess að hafna beri kröfunni. Lagaskilyrðum fyrir stofnun greiðsluskyldunnar sé ekki fullnægt.
Þar sem löggjafinn hafi eftirlátið stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best henti í hverju máli með tilliti til allra aðstæðna sé stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja fastmótaða reglu sem taki til allra tilvika. Þegar löggjafinn hafi falið stjórnvöldum að taka ákvarðanir á matskenndum grundvelli beri þeim einnig skylda til að framkvæma matið. Stjórnvöld verði að meta hvert tilvik fyrir sig.
Álit Fjármáleftirlitsins hafi einnig verið ólögmætt þar sem eftirlitinu hafi verið veitt skattlagningarvald án lagastoðar. Starfsemi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sé lögmælt. Sjóðurinn sé sjálfseignarstofnun sem hafi verið komið á fót með lögum og sé rekin fyrir fjármuni sem sé aflað með sköttum, þ.e. greiðslum til innstæðudeildar, og teljist þar af leiðandi til stjórnsýslu ríkisins.
Samkvæmt 77. gr. stjórnarskrárinnar skuli skipa skattamálum með lögum. Ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Af orðalagi ákvæðis 77. gr. og með vísun til ummæla í greinargerð með ákvæðinu, verði ráðið að ætlun stjórnarskrárgjafans hafi verið sú að banna með því fortakslaust, að almenni löggjafinn heimili stjórnvöldum að ákveða hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema.
Varnaraðili telji reglu 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 brjóta í bága við 77. gr. stjórnarskrárinnar að því að leyti að með reglunni sé Fjármálaeftirlitinu í raun falið að ákveða, með áliti sínu, hvort skattur skuli greiddur eður ei.
Samkvæmt þessari reglu beri Fjármálaeftirlitinu að hafa skoðun á því hvort aðildarfyrirtæki sé fært um að greiða andvirði innstæðu eða ekki. Lagaákvæðið feli því í sér að hið opinbera stjórnvald og hluti framkvæmdavaldsins, Fjármálaeftirlitið, skuli meta það efnislega hvort framangreind staða sé uppi. Það eitt sé brot gegn 77. gr. stjórnarskrárinnar að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að meta það efnislega hvort tiltekin staða sé uppi þar sem skattskyldan stofnist ef eftirlitið telur svo vera. Til viðbótar því að reglan sem slík sé ólögmæt, hafi FME ekki heldur fylgt henni samkvæmt efni hennar að því er virðist. Fjármálaeftirlitið hafi ályktað sem svo að þar sem vefsíður Landsbankans og Kaupþings væru óvirkar, þýddi það að Landsbankinn gæti ekki innt af hendi greiðslu á andvirði innstæðu. Slíkur rökstuðningur sé ekki tækur til að fullnægja því mati sem FME ætti að láta fara fram samkvæmt ákvæðinu. Framkvæmdavaldinu sé falið að ákveða með mati hvort tilteknar aðstæður séu fyrir hendi svo að fyrirtæki þurfi að greiða skatt og framkvæmdavaldið virðist í ofanálag vanrækja að láta matið fara fram. Með því lagaákvæði þar sem Fjármálaeftirlitinu sé veitt þetta mat sé því brotið gegn 77. gr. stjórnarskrárinnar svo og óskráðum og skráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Varnaraðili telur því lagaskilyrði skorta til þess að krafan stofnist.
iv. Greiðsluskylda ekki virk skv. ábyrgðaryfirlýsingu
Í þeirri ábyrgðaryfirlýsingu sem Glitnir banki hafi gefið út, 31. mars 2008, segi að hann ábyrgist greiðslu til innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, ef og þegar innstæðudeildinni ber að endurgreiða innstæður skv. III. kafla laga nr. 98/1999 [...].
Samkvæmt skýru orðalagi yfirlýsingarinnar verði greiðsluskylda varnaraðila ekki virk fyrr en sóknaraðili þurfi að endurgreiða innstæður sbr. ef og þegar. Sóknaraðili hafi ekki enn þurft að greiða innstæður og viðurkenni það raunar sjálfur að það sé alls ófyrirséð hvenær það verði. Varnaraðili vísar til þess sem hann hafi áður rakið að líklega muni aldrei koma til greiðslu úr sjóðnum og þótt greitt yrði úr honum, fengi sóknaraðili þá fjármuni að fullu endurgreidda frá viðkomandi slitabúi. Varnaraðili telur sóknaraðila bera að sýna fram á að greiðsluskylda hans sé hafin yfir vafa áður en hann geti krafið varnaraðila um greiðslu.
Varnaraðili telur jafnframt að skýra beri ábyrgðaryfirlýsinguna með hliðsjón af meðskýringarreglu samningaréttar. Í henni felist að velja skuli þá leið sem sé síst íþyngjandi fyrir loforðsgjafa, leiki vafi á um efni skuldbindingar.
Þar sem ekki sé samið á annan veg beri, samkvæmt meginreglum kröfuréttar, að líta á ábyrgðaryfirlýsinguna sem einfalda ábyrgð. Í því felist að ábyrgðin sé aðeins trygging gegn ógjaldfærni. Það þýði að sóknaraðili eigi ekki kröfu á varnaraðila fyrr en hann hafi sýnt fram á að krafa hafi borist og hann ekki getað greitt. Ekki sé nægjanlegt fyrir sóknaraðila að halda uppi kröfu gegn ábyrgðarmanni fyrr en hann þurfi sjálfur að greiða. Engu skipti í þeim efnum hver sé ástæða þess að hann hafi ekki sjálfur greitt. Sjónarmið um að deilur um útreikning séu fyrir hendi megi frekar túlka á þann máta að það sé frekar vafi um hvort eitthvað verði almennt greitt. Sér í lagi þegar horft sé til þess að tíminn vinni með ábyrgðaryfirlýsingahafa. Þeim mun lengri tími sem líði þeim mun ólíklegra verði að sóknaraðili þurfi að greiða eitthvað út þar sem slitastjórn LBI muni þegar hafa greitt innstæðueigendum og allt eins sé líklegt að deila sóknaraðila og innstæðueigenda muni taka lengri tíma en það taki slitastjórn LBI að greiða innstæðueigendum. Eins og áður segi sé líklegast, vegna forgangsstöðu innstæðna, að slitastjórn LBI greiði innstæður löngu áður en varnaraðili greiði almennar kröfur.
v. Hafna ber kröfunni vegna þess að efndatími skyldu er ekki kominn
Varnaraðili áréttar að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999 skuli viðskiptabanki ábyrgjast að hann muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar þegar henni ber að endurgreiða innstæður skv. III. kafla í einhverjum viðskiptabanka [...].
Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að sá tími sé kominn að honum beri að endurgreiða innstæður. Hann viðurkenni raunar að hann og innstæðueigendur deili. Hann segi þá í viðræðum og að innstæðueigendur hafi ekki viljað taka við greiðslum sóknaraðila. Í því ljósi að sóknaraðili muni ekki þurfa að greiða þeim sem eigi innstæður hjá LBI fari svo að slitastjórn LBI hafi þegar gert það á undan sóknaraðila telur varnaraðili sýnt að hafna beri kröfunni að svo stöddu.
Varnaraðili telur að hafna beri kröfunni þar sem efndatími skyldu sé ekki kominn skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 skv. framangreindum sjónarmiðum.
Það styðji þá málsástæðu einnig að líklega muni sóknaraðili hvorki þurfa að greiða þeim sem eigi innstæður í LBI né þeim sem eigi innstæður í öðrum aðildarfyrirtækjum hans neitt.
Verði ekki fallist á að hafna beri kröfunni af framangreindum ástæðum, krefst varnaraðili þess að kröfunni verði hafnað að svo stöddu með vísan til sama rökstuðnings.
Rétthæð kröfu
Sóknaraðili byggi á því að krafa hans njóti stöðu í réttindaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hann byggi kröfu sína jafnframt á 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 en þar segi orðrétt: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi. Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
Eins og ákvæðið hljóði eigi það ekki við um fjárkröfur sem eigi lagastoð í 6. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Skýrt sé kveðið á um það að fái viðskiptavinur, sem átti innstæðu hjá viðskiptabanka sem geti ekki endurgreitt hana, greiðslu frá innstæðudeild sóknaraðila eignist sóknaraðili kröfu viðskiptavinarins á hendur viðskiptabankanum sem ekki greiddi. Það sé endurkrafa sóknaraðila á hendur viðskiptabankanum sem njóti rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þessa skýringu hafi sóknaraðili staðfest í ákvörðun stjórnar 8. september 2011.
Sóknaraðili hafi ekki þurft að greiða viðskiptavinum varnaraðila neinar kröfur enda, eins og áður segi, hafi varnaraðili greitt öllum þeim forgangskröfuhöfum sem áttu innstæður hvort sem þær voru heildsöluinnlán eða peningamarkaðsinnlán og þannig staðið við þá skyldu sína að endurgreiða öllum innstæðueigendum fjármuni sína. Það sé í raun aðeins sú krafa sem sóknaraðili yfirtaki af viðkomandi innstæðueiganda sem njóti stöðu forgangskröfu, skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafa sóknaraðila til greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu njóti ekki slíkrar stöðu enda hvergi mælt fyrir um það og ómögulegt að túlka ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 þannig.
Í ljósi ofangreinds sé ekki hægt að fallast á það með sóknaraðila að krafa hans, með auðkennið CL20091129-5326, njóti rétthæðar sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Verði fallist á hana að einhverju leyti njóti hún stöðu sem almenn krafa skv. 113. gr. laganna.
Af framangreindu leiði einnig að krafa sóknaraðila um dráttarvexti frá 4. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 geti ekki notið stöðu forgangskröfu.
Dráttarvaxtakrafa
Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila ekki eiga rétt á sér og þar af leiðandi geti sóknaraðili ekki átt kröfu um dráttarvexti. Verði talið að sóknaraðili eigi kröfu að einhverju leyti á hendur varnaraðila hafnar varnaraðili dráttarvaxtakröfu sóknaraðila eins og henni er lýst.
Sóknaraðili geti ekki krafist dráttarvaxta af fjárkröfum sínum frá 4. nóvember 2008 þar sem sóknaraðili hafi ekki krafið varnaraðila um greiðslu fyrr en með kröfulýsingu í nóvember 2009. Í kröfunni felist einungis lögbundin greiðsluskylda sýni sóknaraðili fram á það að skilyrðum 6. gr. laga 98/1999 sé fullnægt, þ.e. að ekki séu til nægir fjármunir í innstæðudeild tryggingarsjóðsins og að greiðsluskylda sé að öðru leyti fyrir hendi sbr. framangreint.
Þar sem gjalddaginn sé ekki fyrir fram ákveðinn heldur háður ákveðnum skilyrðum eigi ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 við um dráttarvaxtakröfu sóknaraðila. Hann gæti einungis átt rétt á dráttarvöxtum á kröfuna að liðnum mánuði frá því að hann krafði varnaraðila fyrst um greiðslu sem hann hafi ekki gert fyrr en með kröfulýsingu sinni og því eigi hann ekki rétt til greiðslu dráttarvaxta af kröfu sinni frá 4. nóvember til og með 22. apríl 2009 er slitameðferð varnaraðila hófst. Í ljósi þess verði að telja að sóknaraðili eigi ekki rétt á dráttarvöxtum af kröfu sinni. Dráttarvextir sem falli á kröfur varnaraðila eftir 22. apríl 2009 séu eftirstæðar kröfur, skv. 114. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili vísi til þess sem áður sé rakið um rétthæð dráttarvaxta. Þar að auki hafi sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að gera kröfu skv. 114. gr. laga nr. 21/1991 þar sem fyrir liggi að ekkert muni koma upp í greiðslu eftirstæðra krafna frá varnaraðila. Varnaraðila sé því óskylt að taka afstöðu til kröfunnar þar sem telja megi fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti skv. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. nr. 125/2008, laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 (brottfallin), laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, tilskipunar 97/9/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta, laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði (brottfallin), laga nr. 39/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði (brottfallin), laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði (brottfallin), laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglna gjaldþrota-, kaupa- og kröfuréttar. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki vísar hann til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
Niðurstaða
Í þessu máli er sú spurning lögð fyrir dóminn, hvort varnaraðila, Glitni, sem áður var og hét Glitnir banki, sé skylt að greiða sóknaraðila, Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, fjárhæð á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar sem bankinn gaf úr 31. mars 2008.
Eins og lög nr. 98/1999 voru orðuð haustið 2008 áttu að vera í innstæðudeild sóknaraðila fjármunir sem námu ekki lægri fjárhæð en 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Væri eignin lægri áttu allir viðskiptabankar og sparisjóðir að greiða, eigi síðar er 1. mars ár hvert, gjald til sjóðsins. Þetta þýddi að eigi síðar en 1. mars 2008 átti Glitnir banki hf. að hafa greitt sóknaraðila hlutdeild sína í því sem vantaði upp á að fjármunir innstæðudeildar næðu 1% af meðaltali tryggðra innstæðna ársins 2007. Framlag hvers aðildarfyrirtækis sóknaraðila, Glitnis þar á meðal, skyldi þó ekki nema hærri fjárhæð en 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í fyrirtækinu á viðmiðunarárinu.
Í 2. mgr. 6. gr. laganna stóð jafnframt: „Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu fyrir sama hlutfalli þeirrar fjárhæðar er vantar á lágmarkið og nemur hlutfalli tryggðra innstæðna hlutaðeigandi af samanlögðum tryggðum innstæðum.“
Á grundvelli þessa ákvæðis gaf Glitnir banki, sem og önnur aðildarfyrirtæki sóknaraðila, út ábyrgðaryfirlýsingu. Með því fyrirkomulagi var þeim í reynd veittur frekari frestur til þess að inna af hendi, í reiðufé, framlag sitt til sóknaraðila, þ.e.a.s. til þess dags þegar greiðsluskylda félli á hann samkvæmt áliti Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 98/1999 féll sú greiðsluskylda á sóknaraðila 27. október 2008.
Það er rökleiðsla sóknaraðila að Glitnir banki hf., sem varnaraðili leiðir réttindi sín og skyldur frá, hafi gefið út ábyrgðaryfirlýsingu, 31. mars 2008, þar sem hann lýsi yfir því að hann ábyrgist að greiða innstæðudeild sóknaraðila ef og þegar sóknaraðila beri að endurgreiða innstæður samkvæmt III. kafla laga nr. 98/1999. Þegar Fjármálaeftirlitið hafi gefið út það álit sitt, 27. október 2008, að Landsbanki Íslands hf., sem síðar varð LBI hf., hefði ekki verið fær, 6. október 2008, um að endurgreiða innstæðueigendum andvirði tryggðra innstæðna þeirra hjá þeim banka hafi greiðsluskylda sóknaraðila stofnast. Vegna orðalags ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi jafnframt, á sama tíma, orðið virk skylda Glitnis banka hf. til að greiða sóknaraðila þá fjárhæð sem tilgreind er í ábyrgðaryfirlýsingunni.
Varnaraðili vefengir ekki skyldu sína samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni. Hann ber því hins vegar við í fyrsta lagi að greiðsluskylda hans sé ekki enn orðin virk þar sem honum beri, samkvæmt yfirlýsingunni, að greiða ef og þegar innstæðudeild sóknaraðila beri að endurgreiða innstæður skv. III. kafla laga nr. 98/1999. Sóknaraðili hafi ekki enn þurft að inna af hendi neinar greiðslur og muni ekki þurfa að gera það. Af þeim sökum sé skylda hans til að greiða sóknaraðila samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni ekki orðin virk.
Að mati dómsins tekur orðalag 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og hún var orðuð á þessum tíma, af öll tvímæli um það að skylda sóknaraðila til að greiða innstæðueigendum í Landsbanka Íslands stofnaðist 27. október 2008 við áðurnefnt álit Fjármálaeftirlitsins. Henni hefur ekki verið létt af sóknaraðila en hann hefur jafnframt gert grein fyrir ástæðum þess að það hefur tafist að hann innti greiðsluna af hendi.
Í ábyrgðaryfirlýsingunni lýsir Glitnir banki hf. yfir að hann ábyrgist greiðslu til innstæðudeildar sóknaraðila „ef og þegar innstæðudeildinni ber að greiða innstæður skv. III. kafla laga nr. 98/1999 í einhverjum viðskiptabanka og sparisjóði sem aðild á að sjóðnum og heildareign deildarinnar er undir lögboðnu lágmarki“.
Samkvæmt þessu orðalagi vaknaði skylda Glitnis banka hf. til að greiða sóknaraðila um leið og greiðsluskylda þess síðarnefnda stofnaðist, þegar honum bar að greiða, en ekki síðar þegar hann hefði innt greiðslurnar af hendi. Greiðsluskylda féll á sóknaraðila 27. október 2008 og vegna orðalags ábyrgðarinnar varð skylda varnaraðila gagnvart sóknaraðila einnig virk sama dag.
Dómurinn fær ekki séð að sóknaraðila sé skylt að gera varnaraðila, eða öðrum aðildarfyrirtækjum hans, grein fyrir því hverjir þeir einstaklingar eru sem áttu tryggðar innstæður í Landsbanka Íslands. Það haggar ekki heldur greiðsluskyldu sóknaraðila að tveir erlendir tryggingarsjóðir hafi fengið þessar kröfur framseldar til sín. Samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni er skylda varnaraðila til að greiða sóknaraðila órjúfanlega bundin við það að skylda til að greiða innstæðueigendum hafi fallið á sóknaraðila. Þar fyrir utan hafa þeir sjóðir, sem greiddu þeim sem áttu innstæður í LBI hf. og eiga nú kröfu á sóknaraðila, einmitt það hlutverk að gæta réttinda neytenda eins og þessara innstæðueigenda. Varnaraðila tjóar því ekki að bera því við að greiðsluskylda hans sé bundin við það að sóknaraðili þyrfti að greiða innstæðueigendum sem væru „neytendur“ en nú séu kröfuhafarnir aðrir.
Dómurinn getur ekki heldur fallist á að varnaraðili hafi sýnt fram á að sóknaraðili muni hvorki þurfa að greiða þeim sem áttu tryggðar innstæður í Landsbanka Íslands né þeim tryggingarsjóðum sem innstæðueigendurnir framseldu réttindi sín.
LBI hf., sem er Landsbanki Íslands í slitum, hefur vissulega greitt upp í forgangskröfur en þó aðeins rétt ríflega helming þeirrar fjárhæðar sem hver og einn forgangskröfuhafa á rétt til. LBI hf. telur sig geta lokið greiðslu allra forgangskrafna á árinu 2017. Hvort þær ráðagerðir standist veit enginn og á meðan hann hefur ekki greitt þeim, sem áttu tryggðar innstæður, að fullu hvílir greiðsluskyldan á sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 98/1999.
Það haggar ekki greiðsluskyldu sóknaraðila þótt breski tryggingarsjóðurinn og sá hollenski deili við hann um afhendingu greiðslunnar. Það haggar ekki heldur greiðsluskyldu sóknaraðila þótt innstæðum hafi með lögum nr. 125/2008 verið veittur forgangsréttur við slit viðskiptabanka og sparisjóða en ekki kröfum sóknaraðila á hendur þeim.
Ekki þykir heldur skipta máli þótt öll þau fyrirtæki sem varnaraðili tilgreinir, önnur en LBI hf., hafi greitt eða muni að fullu greiða þeim viðskiptavinum sem áttu innstæður hjá þeim við upphaf slitameðferðar.
Að mati dómsins hafa hvorki túlkunarreglur skaðabótaréttar né samningaréttar þýðingu við mat á því hvort greiðsluskylda varnaraðila samkvæmt lögum nr. 98/1999 og þeirri ábyrgðaryfirlýsingu sem hann gaf út 31. mars 2008 hafi stofnast.
Varnaraðili telur jafnframt að túlkunarreglur samningalaga eigi að leiða til þess að ábyrgð hans teljist einföld.
Varnaraðili, eins og önnur aðildarfyrirtæki sóknaraðila á þessum tíma, átti að sjá til þess að í innstæðudeild sóknaraðila væru ætíð fjármunir sem næmu eigi lægri fjárhæð en 1% tryggðra innstæðna. Þeim var hins vegar gefinn kostur á því að fresta því að reiða fram hluta fjárins þar til sóknaraðili þyrfti á honum að halda en afhenda þess í stað ábyrgðaryfirlýsingu sem tryggði að sóknaraðili fengi reiðuféð afhent þegar greiðsluskylda félli á hann og hann gæti með því staðið við lögboðna skyldu sína. Af þessum sökum er einnig hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að ábyrgð hans sé einungis einföld og verði ekki gjaldkræf fyrr en sýnt sé að sóknaraðili geti ekki greitt þeim sem eigi tryggðar innstæður í aðildarfyrirtækjum hans þá lágmarksfjárhæð sem honum ber að greiða þeim.
Varnaraðili telur þessu til viðbótar að ekki verði byggt á áliti Fjármálaeftirlitsins þar sem það hafi vanrækt að leggja mat á greiðslugetu Landsbanka Íslands hf. áður en það gaf út álit sitt 27. október 2008.
Eins og fram er komið voru lög nr. 98/1999 orðuð þannig árið 2008 að aðildarfyrirtæki sóknaraðila þurftu ekki að greiða honum í reiðufé allt það framlag sem hann þurfti til þess að innstæðudeild hans ætti lögboðna lágmarksinneign heldur var þeim gefinn kostur á að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu um framlag í reiðufé ef tiltekið skilyrði kæmi fram. Aðildarfyrirtækjunum var þannig gefinn kostur á að veita sóknaraðila loforð um að greiða honum reiðufé. Loforðið var bundið því frestskilyrði að sóknaraðila yrði skylt að greiða innstæðueigendum einhvers þeirra tryggða innstæðu. Eins og áður greinir er skilyrðið að mati dómsins komið fram og gerði það 27. október 2008. Í loforðinu, ábyrgðaryfirlýsingunni, eru engir fyrirvarar við það hvernig það ber til að frestskilyrðið er uppfyllt, það er að greiðsluskylda sóknaraðila stofnast. Í máli þar sem sóknaraðili krefur varnaraðila um greiðslu á grundvelli loforðs þar sem ekki eru settir neinir fyrirvarar við frestskilyrðið getur varnaraðili ekki byggt vörn sína á því að áliti Fjármálaeftirlitsins, sem veldur því að frestskilyrðið þykir uppfyllt, hafi verið áfátt. Það geti því ekki haft nein réttaráhrif og frestskilyrðið sé þar með ekki komið fram.
Varnaraðili ber því einnig við að 9. gr. eða að minnsta kosti 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 sé andstæð 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem í því ákvæði sé Fjármálaeftirlitinu falið að meta hvenær sóknaraðili megi leggja skatt á aðildarfyrirtæki sín.
Eins og áður er greint er sóknaraðili sjálfseignarstofnun um tryggingarsjóð sem Glitnir banki og aðrir viðskiptabankar og sparisjóðir voru, samkvæmt lögum nr. 98/1999, aðilar að. Það gjald eða framlag sem aðildarfyrirtækjum sóknaraðila er ætlað að greiða honum með fyrirmælum 6. gr. laga nr. 98/1999 getur vart talist skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem því er einungis ætlað að veita innstæðueigendum í þeim viðskiptabönkum og sparisjóðum, sem eru aðilar að sóknaraðila, lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Varnaraðili heldur því ekki fram að það gjald, sem aðildarfyrirtækjum er ætlað að leggja sóknaraðila til, samkvæmt 6. gr. laga nr. 98/1999, þannig að hann geti gætt lögboðinnar skyldu sinnar, renni engu að síður í ríkissjóð og sé nýtt til almenns reksturs þjóðfélagsins. Því þykir ekki þörf á að fjalla frekar um þessa málsástæðu varnaraðila.
Dómurinn hefur því hafnað öllum málsástæðum varnaraðila gegn því að honum sé skylt að greiða innstæðudeild sóknaraðila þá fjárhæð sem er greind í þeirri ábyrgðaryfirlýsingu sem Glitnir banki hf. gaf út 31. mars 2008.
Þar sem fallist er á að öll skilyrði laga nr. 98/1999 og ábyrgðaryfirlýsingarinnar séu uppfyllt er viðurkennt að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila og að höfuðstóll hennar nemi þeirri fjárhæð sem tilgreind er í ábyrgðaryfirlýsingunni, 1.140.771.545 kr.
Í stefnu og kröfulýsingu krefst sóknaraðili 1.310.675.851 kr. við slit varnaraðila en það er höfuðstóllinn að viðbættum dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem eru reiknaðir frá 4. nóvember 2008 til og með 22. apríl 2009, alls 169.904.306 kr. Við munnlegan málflutning kom fram að til hefði staðið að krefjast þess að höfuðstóllinn bæri dráttarvexti frá 27. október 2008 þegar skylda sóknaraðila til þess að greiða innstæðueigendum hefði stofnast og þar með skylda varnaraðila samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni. Varnaraðili nyti hins vegar góðs af innsláttarvillu sóknaraðila.
Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila um dráttarvexti og telur hann í allra fyrsta lagi geta átt rétt til þeirra að liðnum mánuði frá þeim degi sem hann lýsti kröfu við slit varnaraðila, 26. nóvember 2009.
Þar sem gjalddagi kröfunnar var ekki fyrir fram ákveðinn þykir sóknaraðili ekki geta átt rétt á dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Hins vegar þykir 3. mgr. 6. gr. þeirra laga eiga við um upphafstíma dráttarvaxta. Enda þótt ekki hafi verið tiltekið í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. að skylda til greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni hefði flust til Nýja Glitnis banka hf. skoraði sóknaraðili á Nýja Glitni banka hf., 15. janúar 2009, að greiða ábyrgðina. Síðar kom í ljós að skylda til að greiða ábyrgðina hefði ekki flust til þess banka.
Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi verið í vafa um það hvort skylda til að greiða ábyrgðina hafi verið færð frá gamla bankanum til þess nýja og þrátt fyrir að sama starfsfólk hafi unnið fyrir báða lögaðilana og á sömu starfsstöð þykir greiðsluáskorun til hins nýstofnaða banka ekki verða jafnað til þess að hún hafi verið send gamla bankanum. Meðal gagna málsins eru ekki nein skjöl um að sóknaraðili hafi skorað á varnaraðila að greiða fyrr en hann lýsti kröfu við slit hans, sem varnaraðili tók við 26. nóvember 2009. Að mati dómsins á sóknaraðili því rétt á dráttarvöxtum frá 26. desember 2009 þegar mánuður var liðinn frá því að varnaraðili tók við kröfulýsingunni.
Þá þarf að meta stöðu fjárkröfu sóknaraðila í kröfuröð við slit varnaraðila. Að mati dómsins er ekki unnt að túlka 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 þannig að hún taki til þeirrar beinu kröfu sem sóknaraðili á á hendur viðskiptabönkum og sparisjóðum vegna ábyrgðaryfirlýsinga sem þeim bar að gefa út samkvæmt 6. gr. laganna. Þeirri kröfu verður ekki jafnað til þeirrar kröfu sem sóknaraðili mun eiga á hendur sömu fyrirtækjum þegar hann hefur greitt og fengið framseldar sér tryggðar innstæður í þeim fyrirtækjum. Þar sem sóknaraðili byggir kröfu sína á ábyrgðaryfirlýsingu sem Glitnir banki gaf út en ekki á því að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli kröfu sem innstæðueigandi hafi framselt honum verður ekki fallist á að fjárkrafa sóknaraðila við slit varnaraðila njóti stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar er fallist á að hún njóti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. þeirra laga.
Krafa um dráttarvexti, sem falla á höfuðstól eftir að varnaraðili var tekinn til slita 22. apríl 2009, nýtur stöðu eftirstæðrar kröfu, skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt þessu hefur verið viðurkennt að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila sem nemi 1.140.771.545 kr. svo og að hún beri dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. desember 2009 til greiðsludags.
Jafnframt hefur verið fallist á að höfuðstóllinn njóti stöðu í kröfuröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og dráttarvextirnir stöðu samkvæmt 114. gr. sömu laga.
Vegna þessarar niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 1.500.000 kr. í málskostnað.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Við slit varnaraðila, Glitnis hf., skal krafa sóknaraðila, Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, að fjárhæð 1.140.771.545 kr., auðkennd með númerinu CL20091127-5326 í kröfuskrá varnaraðila, njóta stöðu almennrar kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Viðurkennt er að þessi höfuðstóll beri dráttarvexti frá 26. desember 2009 til greiðsludags svo og að fjárhæð þeirra njóti stöðu eftirstæðrar kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.500.000 kr. í málskostnað.