Hæstiréttur íslands

Mál nr. 40/2000


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skilorð
  • Miskabætur
  • Sérálit


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. apríl 2000.

Nr. 40/2000.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Ævari Þór Ævarssyni

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

                                                             

Kynferðisbrot. Skilorð. Miskabætur. Sérálit.

Æ var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa með ofbeldi og ógnandi framkomu þröngvað stúlkunni K til holdlegs samræðis. Æ og K, sem verið höfðu að fagna próflokum, voru bæði undir áhrifum áfengis og mundu óglöggt atburði kvöldsins. Fallist var á sakarmat héraðsdómara og færslu til refsiákvæðis, en héraðsdómari taldi breyttan framburð ákærða, sem áður hafði viðurkennt verknaðinn, ekki trúverðugan. Var Æ talinn hafa gerst brotlegur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 15 mánuði, en með vísan til ungs aldurs og þess að hann hafði ekki áður verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað og með hliðsjón af atvikum málsins var ákveðið að fresta fullnustu refsingarinnar í þrjú ár. Þá var Æ dæmdur til að greiða K 500.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. janúar 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og refsingu á hendur honum, svo og að honum verði gert að greiða K 800.000 krónur í miskabætur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum í ákæru. Til vara krefst hann þess, að refsiákvörðun verði milduð, og komi til frelsissviptingar verði hún höfð skilorðsbundin. Þá krefst hann sýknu af miskabótakröfu K.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð greinargerð Ingibjargar Sigurjónsdóttur námsráðgjafa um stuðningsviðtöl hennar við K og auglýsing úr bæjarblaði heimabæjar hennar og ákærða honum til stuðnings.

Atvik málsins eru ítarlega rakin í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram voru ákærði og K ásamt skólafélögum sínum að fagna próflokum 15. maí 1999. Samkvæmt eigin framburði og vætti vitna voru þau bæði undir áhrifum áfengis og muna óglöggt atburði kvöldsins. Þau tóku þátt í samkvæmi, sem haldið var á heimili eins af skólabræðrum þeirra. Tilviljun réði því síðan, að þau hittust aftur í sama húsi nokkru eftir miðnættið, þegar það var nær mannlaust. Ljóst er, að fyrstu samskipti þeirra voru þá í fullri vinsemd, og greinir þau ekki á um, að á milli þeirra hafi farið einhver blíðuhót. Hins vegar er frásögn stúlkunnar eindregið á þá leið, að hún hafi verið því mótfallin að lengra yrði gengið. Er þetta í samræmi við skýrslu ákærða hjá lögreglu, þar sem hann kvað stúlkuna hafa reynt að verjast sér og beðið sig að hætta. Þann framburð sinn dró ákærði til baka fyrir dómi og sagði kynmökin hafa verið með fullu samþykki stúlkunnar, þótt hann hefði skynjað það, „að hún hefði engan áhuga á þessum kynmökum.“

Við skýrslutöku hjá lögreglu var réttargæslumaður ákærða viðstaddur og var hlé gert á henni, svo að þeir gætu rætt einslega saman. Héraðsdómari taldi, að breyttur framburður ákærða væri ekki trúverðugur. Eru ekki efni til að hnekkja því mati. Framburð vitnisins S, sem kom að ákærða og stúlkunni í samförum, verður að meta svo, að ekki hafi verið um eðlileg samskipti þeirra að ræða. Læknisvottorð og vitnisburður lögregluvarðstjóra styðja einnig framburð stúlkunnar, en hún kærði ákærða innan tveggja klukkustunda frá því að atvik gerðust. Telja verður nægilega fram komið fyrir dómi, að ákærða hefði fljótlega átt að verða ljóst, að stúlkan vildi ekki þau kynmök, sem lýst er í ákæru málsins. Er því fallist á sakarmat héraðsdómara og færslu til refsiákvæðis.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin í héraðsdómi, 15 mánaða fangelsi. Með vísan til ungs aldurs ákærða, en hann var nýorðinn 17 ára, er brot var framið, og þess að hann hefur ekki áður verið dæmdur sekur fyrir refsiverðan verknað, svo og með sérstakri hliðsjón af öllum atvikum máls þessa þykir mega ákveða, að fullnustu refsingar hans skuli fresta og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Miskabætur til handa K þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur með hliðsjón af því, að framangreint brot hefur valdið henni óvenju mikilli félagslegri röskun.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og þóknun réttargæslumanns eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem í dómsorði greinir.

Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason taka fram, að þeir telji að einungis eigi að skilorðsbinda fullnustu 12 mánaða af refsingu ákærða.

Dómsorð:

Ákærði, Ævar Þór Ævarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði K 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. maí 1999 til 30. desember 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og þóknun til réttargæslumanns eru staðfest.

Ákærði greiði þóknun réttargæslumanns K fyrir Hæstarétti, Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. desember 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 17. þ.m., hefir ríkissaksóknari höfðað með ákæruskjali útgefnu 2. júlí 1999 á hendur Ævari Þór Ævarssyni, [...];

„…fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 16. maí 1999 í svefnherbergi á neðri hæð hússins að [...], með ofbeldi og ógnandi framkomu þröngvað stúlkunni K, [...], til holdlegs samræðis í leggöng.

Telst þetta varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 2. gr. laga nr 40, 1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

K krefst miska- og þjáningabóta að fjárhæð kr. 846.800 með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 16. maí 1999 til 21. júlí 1999 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.“

 

Dómkröfur skipaðs verjanda, Ólafs Birgis Árnasonar, hæstaréttarlögmanns, voru þær, að aðallega var krafist sýknu af öllu kröfum samkvæmt ákæruskjali, en til vara að ákærði yrði dæmdur til vægustu refsingar, sem lög leyfa og að miska- og þjáningabótakrafa yrði stórlækkuð. Þá krafðist verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.

I.

Málavextir.

1. Sunnudaginn 16. maí, kl. 02:30, kom á lögreglustöðina á B, kærandi í máli þessu, K, [...], ásamt unnasta sínum, A. Samkvæmt frumskýrslu Hreiðars Hreiðarssonar, lögregluvarðstjóra, hafði nefndur A orð fyrir þeim í fyrstu og tilkynnti að u.þ.b. einni klukkustundu áður, um kl. 01:30, hefði unnustu hans verið nauðgað. Í lögregluskýrslunni er því lýst að við komu hefði kærandi verið grátandi og mjög miður sín, en aðspurð greint frá því að meintur atburður hefði gerst í hjónaherbergi á neðri hæð í heimahúsi að [...], þar sem samkvæmi ungmenna hefði verið haldið þá um kvöldið og um nóttina. Aðspurð bar kærandi að ákærði, Ævar Þór, hefði átt þar hlut að máli. Í frumskýrslu lögregluvarðstjórans er síðan eftirfarandi haft eftir kæranda;

„…Um aðdraganda þess hvernig nauðgunina bar að, kvaðst K ekki vita með vissu, hefði hún verið undir einhverjum áfengisáhrifum, en þó ekki það miklum að [hún muni] mjög vel eftir atvikum, þegar Ævar Þór hafi viljað eiga við K kynmök, en hún hafi ekki viljað slíkt. Hafi þá Ævar þvingað sig til samfara bæði með því að skipa sér með beinum hætti að setja getnaðarlim Ævars upp í munn K og sjúga hann, og einnig hafi Ævar skipað henni að hafa kynmök við sig þarna í hjónarúminu. Hafi Ævar togað K úr buxunum og nærbuxunum, en K kvaðst þó hafa verið í brjóstahaldara allan tímann, saknaði þó hlýrabols sem hún hafði verið í. Kvað K að Ævar hefði beitt sig ofbeldi, togað í hár hennar og skipað henni að hafa mök við sig með hótunum. Hefði Ævar beitt aflsmunum við að koma vilja sínum fram gegn hennar vilja. Kvaðst K hafa öskrað að beðið hann að láta sig vera en hann ekki sinnt því á nokkurn hátt, kvaðst hún hafa barist um. Hafi hann sett getnaðarlim sinn inn í sköp hennar og um leggöng hennar og haft við sig mök í nokkuð langa stund. Hafi Ævar verið alveg nakinn. Kvað K nauðgun þessa hafa endað með því að vinkonu hennar S, hafi borið þarna að og hafi þá Ævar tekið lim sinn úr kynfærum hennar og hafi hann horfið á brott. Hafi S komið K til aðstoðar þar sem S hefði sennilega heyrt neyðaróp K. Kvaðst síðan K hafa klætt sig og farið frá [...] til kærasta síns, A að [...] og tilkynnt honum um nauðgunina og hafi þau síðan komið í sameiningu á lögreglustöðina“. „Kvaðst K vilja leita aðstoðar og hjálpar vegna þessa máls og kvaðst K vera tilbúin að leggja fram kæru á hendur Ævari Þór Ævarssyni vegna þessa.“

Samkvæmt lögregluskýrslunni gat kærandi þá um nóttina ekki greint frá því með vissu hverjir hefðu verið í nefndu íbúðarhúsi er meintur verknaður átti sér stað. Í skýrslunni er þess getið að kærandi hafi verið íklædd orange litaðri Adidas peysu, brúnleitri blússu, svörtum buxum og verið berfætt í gúmmískóm. Þá hafi hún greint frá því að hún væri íklædd nærbuxum og brjóstahaldara.

Í rannsóknargögnum lögreglu er ekki getið um skemmdir á nefndum fatnaði, en lögregla lagði hald á hann eftir læknisskoðun kæranda.

Eftir komu kæranda á lögreglustöð umrædda nótt var fulltrúa barnaverndarnefndar, foreldrum hennar svo og réttargæslumanni, Berglindi Svavarsdóttur, héraðsdómslögmanni, tilkynnt um meintan verknað.

Þá um nóttina var kærandi, að tilhlutan lögreglu, færð til læknisrannsóknar á neyðarmóttöku [...]. Í vottorði Vilhjálms Kristins Andréssonar, yfirlæknis á kvensjúkdómadeild, segir um kæranda að hún hafi svarað öllum spurningum greiðlega og ekki verið með áberandi kreppuviðbrögð, en verið niðurdregin. Hún hafi verið með þrjár nýlegar húðblæðingar á vinstri handlegg og með eymsli í hársverði á hnakka. Engin áverkamerki hafi fundist á kynfærum, en hins vegar hafi verið svolítil tíðablæðing. Auk venjubundinnar sýnatöku var tekið blóðsýni úr kæranda til alkóhólrannsóknar, kl. 06:30, og reyndist magn alkóhóls í sýninu, samkvæmt vottorði Rannsóknarstofu í lyfjafræði, 0,70‰. Vegna endurkomu kæranda á neyðarmóttöku [...] þann 15. júní s.l. er tiltekið í vottorði nefnds yfirlæknis, sem dagsett er sama dag, að andleg heilsa hennar hafi verið eðlileg, en þess getið að hún endurlifi atvik máls í svefni, væri oft pirruð og þunglynd gagnvart foreldrum. Þá er tiltekið í vottorðinu að kærandi hafi ekki orðið fyrir félagslegri röskun og ekki misst úr vinnu og loks að frekari meðferð kæranda á sjúkrahúsinu væri ekki fyrirhuguð.

Kærandi bar fram formlega kæru á hendur ákærða hjá lögreglu 16. maí s.l., kl. 18:20, að viðstöddum réttargæslumanni, og bar að meintur verknaður hefði átt sér stað í áðurnefndu heimahúsi um kl. 01:00 til 01:30 þá um nóttina. Í framhaldi af kærunni óskaði lögreglustjóri eftir skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi, sbr. a lið 1. mgr. 74. gr. a laga um meðferða opinberra mála nr. 19, 1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36, 1959, og fór skýrslutakan fram mánudaginn 17. maí s.l.

Við upphaf lögreglurannsóknar, kl. 04:30, hinn 16. maí s.l., kannaði lögregla vettvang að [...] og tók ljósmyndir. Í svefnherbergi á neðri hæð hússins voru öll rúmföt tekin úr vatnsrúmi, en einnig fannst þar svartur hlýrabolur, svo og hárteygja á náttborði við hliðina á rúminu. Á salerni inn af forstofu á efri hæð fannst salernispappír með leyfum af einhvers konar vessum.

Ofangreinda nótt var farið að heimili ákærða þar sem föður hans var gerð grein fyrir málsatvikum, en ákærði var þar sofandi í herbergi sínu ásamt unnustu sinni. Í framhaldi af því var ákærði handtekinn, kl. 04:55, og færður á lögreglustöð, en kl. 05:38 var hann fluttur til rannsóknar á sjúkrahúsi. Í niðurstöðu sjúkrahússlæknis, Geirs Karlssonar, segir um rannsóknir á ákærða; greinilega kvíðinn, rjóður í framan, lítur mikið niður, hraður púls og verður vart skjálfta. Samvinnuþýður. Lítill marblettur á vinstri framhandlegg, sem hann segir að hafi komið í gærkvöldi, veit ekki hvernig. Við skoðun er blóðlitaður vessablettur framan á nærbuxum, limurinn rakur undir forhúð og í stroki þaðan sést blóðlitaður vessi, ekki sár á lim né áverkar. Bendir því allt til þess að hann hafi haft samfarir síðast liðið kvöld eða nótt. Ekki merki átaka utan lítils marbletts á vinstri framhandlegg, en getur að sjálfsögðu skýrst af öðrum ástæðum.

Tekið var blóðsýni úr ákærða á lögreglustöð, kl. 06:45, en jafnframt lét hann í té þvagsýni til alkóhólrannsóknar. Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfjafræði reyndist magn alkóhóls í blóðsýninu 0,45‰, en 0,85‰ í þvagsýninu.

Í rannsóknargögnum lögreglu er frá því greint að ákærði hafi komið á lögreglustöð eftir læknisrannsókn kl. 07:36, að faðir hans hefði komið til hans kl. 08:00 og verið hjá honum þar til réttargæslumaður hans kom á vettvang, kl. 08:20, og eftir viðtal þeirra í milli hafi fyrri lögregluyfirheyrsla yfir ákærða farið fram, kl. 08:20 til 10:01, en tiltekið er að skýrslutökunni hefði lokið er rafmagn fór af lögreglustöðinni. Greint er frá því að ákærði hefði verið færður í fangaklefa kl. 10:30, en kl. 12:40 leyft að dvelja í setustofu lögreglumanna við luktar dyr og undir gæslu. Ákærði hefði síðan verið færður í fangaklefa á ný kl. 17:50 vegna yfirheyrslu á kæranda og vitnum, en hann síðan yfirheyrður öðru sinni kl. 20:00 - 23:53 að viðstöddum réttargæslumanni, en að því loknu hefði ákærði verið látinn laus og í framhaldi af því farið af lögreglustöðinni ásamt réttargæslumanni.

Samkvæmt rannsóknargögnum voru teknar skýrslur á rannsóknarstigi af vitninu S síðdegis 16. maí s.l., en af vitninu T 23. s.m.

 

2. Framburður ákærða, kæranda og vitna.

Við yfirheyrslu ákærða, Ævars Þórs, þann 16. maí s.l. kl. 08:45 - 10:01, skýrði hann frá því að hann hefði kvöldið áður verið í samkvæmi ungmenna að [...], drukkið þar 7 flöskur af bjór, 33 cl., og verið nokkuð ölvaður um kl. 22:00 - 23:00, en hann kvaðst hafa haft heimild gestgjafans til að geyma bjórflöskur í ísskápnum á heimilinu. Í samkvæminu kvað ákærði kæranda, K, í tvígang hafa komið til hans, tekið utan um hann og kysst hann á hálsinn. Hann kvaðst hafa farið heim til sín ásamt unnustu sinni um kl. 01:30 - 02:00. Ákærði kvaðst ekki hafa haft samfarir umrætt kvöld og þá ekki um nóttina. Við skýrslutökuna greindi ákærði frá því að hann ætti vanda til að missa minni þegar hann neytti áfengis í of miklu magni. Við síðari skýrslutöku hjá lögreglu, sunnudaginn 16. maí, kl. 20:00 til 23:53, sem líkt og hin fyrri, var tekin að viðstöddum réttargæslumanni, lýsti ákærði því í upphafi að hann vildi viðurkenna „að sá atburður hafi átt sér stað, að mætti hafi átt mök við K gegn vilja hennar og kveðst gera sér fulla grein, eftir á að hyggja fyrir því, að um nauðgun hafi verið að ræða.“

Við síðastgreindu skýrslutökuna hjá lögreglu, líkt og fyrir dómi, lýsti ákærði athöfnum sínum laugardaginn 15. maí s.l. svo og aðdraganda þess að hann hitti kæranda nokkru eftir miðnættið aðfaranótt 16. maí. Kvaðst ákærði þannig hafa farið í próf í skólastofnun sinni kl. 08:30 þann 15. maí, en þá um kvöldið hefðu nokkur skólasystkini hans ákveðið að hittast í samkvæmi á heimili vitnisins U að [...]. Nefndan dag kvaðst ákærði hafa hitt U niður við bryggju og þá fengið leyfi hans til að geyma 11 bjóra í ísskáp á heimilinu. Þar á bryggjunni kvaðst ákærði og hafa veitt kæranda athygli þar sem hún var í hópi kunningja sinna, augljóslega nokkuð undir áhrifum áfengis. Ákærði kvaðst í raun lítið hafa þekkt stúlkuna, þrátt fyrir að hún hefði verið skólasystir hans til margra ára. Á bryggjunni kvaðst ákærði hafa veitt því athygli að stúlkan vinkaði til hans, og bar að það hefði aldrei borið við áður.

Ákærði kvaðst hafa hafið bjórdrykkju um kl. 20:00 og ætlaði að hann hefði drukkið samtals 7 bjóra í samkvæminu að [...]. Í samkvæminu kvað hann hafa verið auk unnustu sinnar og húsráðanda, kæranda máls þessa, A, V og a.m.k. þrjú önnur ungmenni. Ákærði áréttaði að það hefði gerst í tvígang í þessu samkvæmi að kærandi hefði komið til hans, í allra augsýn, og kysst hann. Ákærði kvað þetta hafa verið svonefndir „mömmukossar“, en ætlaði að kossunum hefði þó fylgt ákveðin skilaboð, og að auki verið frekar vandræðalegir fyrir nærstadda aðila. Vegna ölvunar sinnar kvaðst ákærði ekki fyllilega geta greint frá atvikum máls eftir þetta, en ætlaði að upp úr miðnætti hefði verið komin nokkur hreyfing í húsinu, sumir gestir verið að fara, en aðrir að koma. Kvaðst ákærði þannig ekki hafa haft fulla skynjun á því hversu margir voru í samkvæminu er hann ákvað að fara á neðri hæð íbúðarhússins, en ekki kvaðst hann hafa átt þangað sérstakt erindi, einungis verið „á rólegheitarölti“. Þar kvaðst ákærði hafa litið inn í barnaherbergi, en síðan séð hvar kærandi, K, var inni í hjónaherbergi og horfði þar út um gluggann „niður yfir bæinn“. Við dómsyfirheyrslu var ákærða kynnt frásögn fyrrum unnustu hans, L, um að þau hefðu líkt og aðrir gestir samkvæmisins farið út úr húsinu og í miðbæinn, en komið þangað aftur að nokkrum tíma liðnum og að unnustan hefði þá farið inn á salerni í forstofunni. Ákærði vísaði til minnisglapa um þetta atriði, en vefengdi þó ekki framburð stúlkunnar, en ákærði kvaðst ekki hafa haft lyklavöld að húsinu. Samskiptum sínum við kæranda í hjónaherberginu lýsti ákærði nánar svofellt í áðurgreindri yfirheyrsluskýrslu hjá lögreglu;

„…segir mætti að K hafi gengið til sín og kysst hann mjög innilegum kossi á munninn og hafi alls ekki verið um neinn kunningjakoss að ræða, heldur mjög alvarlegan og djúpan koss þar sem tungur snertust og kallast má „sleikur“.“ … „Segir mætti að K hafi verið mjög ákveðin þarna í herberginu, og hafi þau látið mjög vel hvort að öðru. Segist mætti hafa talið að þarna væri um vísbendingu að ræða um örvandi snertingu og atlot, svo sem kynmök. Segist mætti hafa fundið til mikillar örvunar, og að sér hafi risið hold. Segir mætti að þau hafi fækkað fötum hvort í sínu lagi, og segist mætti hafa talið að um gagnkvæma örvun og tilgang hafi verið að ræða. Segir mætti að ekki hafi herbergisdyrum verið læst og einungis hafi hurðinni verið hallað að dyrastaf. Segir mætti að þarna hafi hlutirnir gengið mjög hratt fyrir sig og fljótlega hafi þau verið komin þarna í hjónarúmið og mætti talið að um kynmök yrði að ræða. Segist mætti ekki geta gert sér grein fyrir því með fullri vissu á hvaða tímapunkti K sagði mætta að ganga ekki lengra. Hugsanlega hafi K verið búin að sjúga getnaðarlim mætta tvisvar til þrisvar, með fullum vilja án þess þó að mætti geti fullyrt um að hann hafi ekki hvatt hana til þess. Segist mætti telja að þegar K hafi sogið lim mætta þessi tvö eða þrjú skipti hafi það hugsanlega verið bæði áður og eftir að K bað mætta að hætta gjörðum sínum og mökin höfðu hafist. Segist mætti ekki geta áttað sig á því hvort mætti hafi verið búinn að setja getnaðarlim sinn inn í sköp K eða um leggöng hennar, þegar hún hafi beðið hann að ganga ekki lengra, eða hvort K bað mætta um að hætta eftir að hún áttaði sig á því að mætti var búinn að koma lim sínum í leggöng hennar. Segist mætti vilja viðurkenna það að hann hafi komið vilja sínum um kynmök fram við K eftir beiðni hennar um að hætta. Segist mætti hafa verið orðinn það kynferðislega örvaður að hann hafi ekki getað stjórnað eigin tilfinningum og því ekki sinnt beiðni K um að hætta, og því komið sínu fram gegn vilja K. Kveðst mætti gera sér fulla grein fyrir því að um misbeitingu var að ræða gegn K, en að meðan á atburðunum stóð kveðst mætti í raun ekki hafa gert sér fulla grein fyrir því að um svo alvarlegan atburð væri að ræða. Aðspurður kveðst þó mætti, nú eftirá gera sér fulla grein fyrir því að um refsiverða misbeitingu var að ræða, sem nauðgun kallast. Segir mætti að eftir að hann hóf samfarir við K hafi hún streist á móti og beðið hann þráfaldlega að hætta. Segir mætti að K hafi tekist að hrinda mætta ofan af sér en mætti segist hafa haldið áfram gegn hennar vilja með því að þvinga hana til samræðis. Segist mætti vita það að hann hafi beitt K nokkru harðræði, bæði með því að toga í hár hennar og beita líkamlegum yfirburðum. Segir mætti að K hafi barist nokkuð um og hafi verið farin að gráta, og beðið mætta að hætta. Segist mætti hafa haft mök við K með þeim hætti að hún hafi legið á bakinu undir mætta og jafnframt hafi hún legið á maganum undir mætta. Segir mætti að atburður þessi hafi staðið í nokkra stund, en kveðst ekki geta ákvarðað þann tíma nákvæmlega, þó hafi ekki verið um að ræða stutta stund frekar 10 til 20 mínútur. Segir mætti ástæðu þess að hann hætti mökunum við K þá, að stúlka að nafni S hafi opnað dyrnar og komið að mætta þar sem að atburður þessi fór fram, en segist þó ekki geta fullyrt um það hvort dregið hafi verið úr mökunum áður eða þau nánast á enda og mætti hættur þeim. Segist mætti þó telja að dyrnar á hjónaherberginu hafi ekki verið læstar og jafnvel ekki lokaðar, heldur aðeins hallað aftur. Segist mætti lítið sem ekkert muna eftir atburðum eftir að hann fór úr herberginu þegar S hafði gripið inn í atburðarásina. Kveðst mætti hugsanlega hafa verið í einhverri geðshræringu, en jafnframt hafi mætti verið orðinn þreyttur. Aðspurður kveðst mætti vera þess fullviss að hafa ekki fengið fullnægingu þarna á vettvangi og að mætti hafi ekki haft sáðfall í samförum þessum. Aðspurður kveður mætti að nokkuð hafi komið á mætta og hann hrokkið við þegar S bar að garði. Segist mætti ekki muna eftir því þegar hann klæddi sig á ný eða neitt eftir málsatvikum í framhaldinu. Kveðst þó mætti muna eftir mikilli einmanatilfinningu þarna á eftir og hann skynjaði sig sem aleinan þarna í húsinu“. … „Aðspurður kveðst mætti nú eftir á, vera fullur iðrunar og eftirsjár vegna atburða þeirra sem að ofan er lýst og kveðst muni biðja afsökunar á framferði sínu við viðkomandi aðila og aðra henni tengdum. Hefðu hlutirnir farið úr böndum þó aldrei hafi verið um beinan ásetning sinn að ræða gegn K í upphafi atburða. Segist mætti vera meðvitaður um að vera feiminn að eðlisfari og sú athygli sem K sýndi mætta hafi vakið hjá honum þær kenndir sem síðan atburðarás mótaðist af. Segir mætti ástæðu þessa nýja framburðar síns fyrir lögreglu koma til af því að í fyrri skýrslutöku hafi mætti verið hræddur og kvíðinn og þar hafi ekki réttir hlutið komið fram, enda hafi mætti aldrei lent í slíku áður.“

Ákærði kom fyrir dóm 15. og 26. október og 17. desember s.l. Ákærði neitaði þá sakargiftum og lýsti jafnframt framburð sinn við síðari skýrslutöku hjá lögreglu þann 16. maí s.l. sem uppspuna og efnislega rangan, að því er varðaði samskipti hans við kæranda á neðri hæð í íbúðarhúsinu að [...]. Fyrir dómi ítrekaði ákærði að það hefði í raun verið fyrir tilviljun að hann hitti kæranda í hjónaherberginu í nefndu húsi og áréttaði að upphafið hefði verið það að kærandi hefði gengið til hans og kysst hann á munninn og sýnt mikinn áhuga. Í framhaldi af þessu hefðu þau klætt sig úr fötum, sitt í hvoru lagi og kærandi þá strax hafið við hann munnmök, en þau síðan farið upp í rúmið, en á nýjan leik farið fram úr rúminu og kærandi þá aftur viðhaft munnmök og þau loks endað í rúminu. Kvaðst ákærði hafa rifjað upp þessa atburðarás eftir að hann gaf framangreinda skýrslur, og neitaði hann því að kærandi hafi sýnt mótþróa við nefndar athafnir eða beðið hann um að hætta þeim. Þá kvaðst ákærði aldrei hafa hótað stúlkunni og staðhæfði að engin hljóð hefðu heyrst frá þeim. Kærandi hefði og fyrst byrjað að öskra og gráta eftir að vitnið S kom að þeim í hjónaherberginu. Ákærði ætlaði að hann hefði dvalið í herberginu með kæranda í u.þ.b. 10-15 mínútur, en ekki mundi hann hvort að ljós hefðu verið kveikt eða slökkt, eða hvort að dregið hafi verið fyrir glugga eða ekki. Fyrir dómi bar ákærða að engin sérstök orðaskipti hefðu farið fram á milli þeirra í greint sinn. Nánar aðspurður greindi ákærði frá því að hann hefði skynjað það á kæranda, á ákveðnu tímabili, að hún hefði „engan áhuga á þessum kynmökum“ í hjónarúminu. Voru orð ákærða fyrir dómi um þetta atriði svofelld; „Skynjaði svona, einhvern örlítinn svona, hún gaf það ekki augljóslega í skyn, ég skynjaði það svona, en þú veist, ég vildi samt halda áfram, hún hélt bara áfram með mér … hún sýndi þessu engan áhuga á þeim tímapunkti. … Ég hafi skynjað það að hún vildi eiginlega ekkert svona eða hún vildi, vildi ekkert halda áfram eða neitt þannig, en síðan bara ekkert meira með það, hún vildi bara, síðan héldum við bara áfram“. Við nefnd kynmök í hjónarúminu kvaðst ákærði ávallt hafa verið ofan á kæranda og hún þá legið á bakinu.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa rifið í hár kæranda og taldi að marblettir á höndum hennar væru því ekki af hans völdum. Sjálfur kvaðst ákærði hafa hlotið marblett á hendi fyrr um kvöldið er hann rak sig á vegg á efri hæð hússins.

Fyrir dómi kvaðst ákærði ráma til þess að hann hefði rætt við vitnið T eftir að hann hafði farið frá kæranda í hjónaherberginu, en eftir það kvaðst hann hafa farið út úr húsinu ásamt fyrrum unnustu sinni, L, og í framhaldi af því verið ekið heim af vitninu V.

Fyrir dómi kvað ákærði ástæður breytts framburðar frá lögregluskýrslu vera þær, að rétt fyrir skýrslutökuna, um kl. 19:30, hefði lögregluvarðstjórinn Hreiðar Hreiðarsson komið að máli við hann í fangaklefa og staðhæft að vitnaleiðslur væru honum ekki í hag og að komið væri að vendipunkti í rannsókninni. Ákærði bar að lögregluvarðstjórinn hefði jafnframt fullyrt að hann gæti fengið hann læstan í klefa, í 10 - 15 daga gæsluvarðhald. Vegna þessara orða lögregluvarðstjórans kvaðst ákærði hafa gefist upp, enda ekki getað hugsað sér að dvelja lengur í fangaklefanum og því ákveðið að breyta fyrri framburði sínum. Kvaðst ákærði hafa tilkynnt lögregluvarðstjóranum er hann kom til hans í klefann að nýju að hann hefði „miklu meira að segja“. Hafi hann þá verið færður til skýrslutöku, kl. 20:00. Við yfirheyrsluna hefði hann verið spurður leiðandi spurninga og hann í framhaldi af því játað á sig verknaðinn. Ákærði staðfesti að réttargæslumaður hans hafi verið viðstaddur og þeir jafnframt rætt saman einslega er hlé var gert á skýrslutökunni. Kvaðst ákærði m.a. hafa fært í tal einstök efnisatriði sem spurt hefði verið um svo og áður greinda orðræðu lögregluvarðstjórans. Á síðari stigum, og eftir að hann hafði verið látinn laus úr vörslu lögreglu, kvaðst ákærði hafa hugleitt að gefa nýju skýrslu. Ákærði kvaðst ekki hafa rætt þetta við réttargæslumann sinn og því ekkert orðið úr þessum áformum.

 

Kærandi K var yfirheyrð um málsatvik fyrir dómi þann 17. maí s.l., svo og við aðalmeðferð málsins.

Kærandi kvaðst hafa ákveðið að taka þátt í skemmtum framhaldsskólanema í tilefni prófloka laugardaginn 15. maí s.l., og hafið áfengisdrykkju með vinkonu sinni, vitninu S, síðdegis þann dag. Kvaðst hún hafa drukkið ávaxtabjór en einnig sterkt áfengi blandað með gosdrykk. Hún kvaðst í fyrstu hafa verið í miðbænum, þ.á.m. í bifreiðum kunningja sinna, en auk þess farið niður á bryggju þar sem nokkrir skólafélagar hennar hefðu haldið til vegna bílaviðgerða. Þar á vettvangi kvað hún m.a. hafa verið skólafélaga sinn, ákærða í máli þessu, en í raun kvaðst hún lítil kynni hafa haft af honum og minntist þess ekki aðspurð að hafa vinkað til hans. Hún ætlaði að klukkan hefði verið um 17:00 til 18:00 er þetta gerðist, en eftir það kvaðst hún hafa haldið áfram að aka um í bifreiðum, en jafnframt neytt nokkuð mikils áfengis. Kærandi kannaðist við að hafa farið á áðurgreinda skemmtun skólanema, grillpartý, en vegna mikillar ölvunar þar treysti hún sér ekki til að greina fyllilega frá gjörðum sínum. Vegna þessa ástands hennar hefði vinkonan, S, hringt í unnasta hennar, A, og hann þá komið á vettvang og farið með hana í bifreið sinni. Kvaðst kærandi hafa ekið með kærasta sínum í lengri tíma, en jafnframt kvaðst hún lítið sem ekkert hafa neytt af áfengi eftir kl. 21:00. Þrátt fyrir það og vegna áður greinds ölvunarástands kvaðst kærandi eiga í nokkrum erfiðleikum með að greina frá ferðum sínum síðar um kvöldið og nóttina. Vísaði kærandi til þess að hún væri ekki vön að drekka áfengi og að í slíku ástandi gerðist það gjarnan að hún missti minni á einhverjum tímabilum. Kærandi kvaðst síðar um kvöldið hafa farið ásamt kærasta sínum að [...] þar sem haldið hafi verið samkvæmi nokkurra skólafélaga hennar, en kærandi kvaðst hafa þekkt vel til á heimilinu vegna veru sinnar þar á árum áður. Þar á vettvangi kvaðst kærandi hafa þekkt m.a. ákærða og unnustu hans, kærandi kvað tónlist hafa verið í samkvæminu og fólk dansað. Þá kannaðist kærandi við að hafa faðmað fólk og kysst það á kinnina, þ.á.m. ákærða og húsráðandann, U, og taldi öruggt að hún hefði gert það oftar en einu sinni. Kærandi bar að þetta háttalag tíðkaði hún oft við þessar aðstæður, en staðhæfði aðspurð að það hefði ekki verið í þeim tilgangi að gefa nefndum aðilum undir fótinn og í raun engin alvara legið að baki, fólk faðmað hana á móti og vísaði til þess að fólk hefði verið að fagna próflokum. Fyrir dómi ætlaði kærandi að kærasti hennar hefði farið út úr húsinu um miðnættið, en gat samt lítið gert grein fyrir eigin gjörðum þar á eftir og þar á meðal ekki hvort hún hefði farið út úr húsinu, en komið inn aftur. Kvaðst kærandi næst hafa áttað sig er hún hefði verið stödd einsömul á neðri hæð í íbúðarhúsinu að [...], og taldi líklegt að hún hefði farið út úr húsinu í einhvern tíma og síðan komið aftur inn um dyr á neðri hæðinni. Kærandi staðhæfði að hún hefði ekki verið mjög ölvuð á þessari stundu og vísaði til þess að hún hafði þá ekki drukkið áfengi í um 4 klukkutíma. Kærandi kvaðst ekki hafa haft vitneskju um hverjir voru í íbúðarhúsinu á þessari stundu, en á leið upp stiga að efri hæðinni kvaðst hún hafa hitt ákærða. Framhaldinu lýstu hún svofellt fyrir dómi; „svo veit ég ekki hvort ég dró hann inn í herbergið (hjónaherbergið) eða hann mig, en alla vega ég var stödd inni í þessu herbergi allt í einu, ég veit ekki hvernig ég komst þangað“.

Kærandi staðhæfði að herbergishurðin hefði verið lokuð er atburðir gerðust, sem mál þetta er af risið, en ætlaði að ljós hefði verið kveikt í herberginu. Vísaði hún til þess að í sviptingum þeim, sem síðar urðu í herberginu, hefði hún beðið ákærða árangurslaust að slökkva ljósin, m.a. í þeim tilgangi að hún gæti betur brugðist við athæfi hans. Fyrir dómi kannaðist kærandi ekki við að hafa kysst ákærða í hjónaherberginu og staðhæfði að þau hefðu bæði staðið við hjónarúmið er ákærði hefði látið hana krjúpa, en jafnframt rennt niður hjá sér buxnaklaufinni og þá sagt að hún ætti að „totta“ lim hans. Kærandi bar að ákærði hefði sífellt klifað á setningunum „þú átt að gera þetta“ og „hvað áttu að gera“. Hún kvað ákærða hafa öskrað að henni þessi orð og hún þannig átt að hlýða orðum hans og í rauninni kvaðst hún hafa gert það þrátt fyrir að hún væri athæfinu mótfallin. Jafnframt kvaðst kærandi e.t.v. hafa sogið lim ákærða öðru sinni stutta stund er hann hefði sagt að hún gerði þetta ekki nægilega vel. Kærandi kvaðst á nefndri stundu hafa verið hrædd við ákærða vegna ruddalegs háttalags hans, en kvaðst e.t.v. ekki hafa sýnt ákærða andstöðu sína nægilega skýrlega þrátt fyrir að honum hefði, að hennar áliti, mátt vera ljós andstaða hennar í síðara skiptið sem munnmökin áttu sér stað, þar eð þá hefði hún verið farin að öskra. Kærandi kannaðist ekki við að hafa farið með kæranda í rúmið á milli áðurgreindra munnmaka.

Fyrir dómi kvaðst kærandi í raun ekki gera sér grein fyrir hvernig hún fór úr fötum sínum, en þó rámaði hana til þess er ákærði var að toga í buxurnar. Kærandi kvaðst hins vegar hafa gert sér ljóst er hún var komin upp í hjónarúmið að ákærði ætlaði að hafa við hana kynmök er hann sagði; helvítis tíkin ég ætla að ríða þér í rass eða rassgat. Kvaðst kærandi þá hafa verið orðin „alveg brjáluð“ og ákærða því mátt vera fullkomlega ljóst að hún vildi ekki hafa við hann samræði og að athæfi hans var í andstöðu við vilja hennar þar sem hún hefði þá verið bæði farin að öskra að ákærða og gráta. Sviptingum sem með þeim urði í hjónarúminu lýsti kærandi nánar svofellt fyrir dómi: „Hann var að reyna að snúa mér yfir á magann og ég var alltaf að reyna að snúa mér í hina áttina því maður getur náttúrulega ekki varist mikið þegar maður liggur á maganum og svo var ég að reyna að ýta honum frá og hann hélt um tíma, hann hélt svona um hendurnar á mér um úlnliðina og þá fór ég að öskra eins og ég sagði áðan „af hverju ertu að gera mér þetta“, sagði það einhvern veginn og sagði eitthvað meira, eitthvað í þá áttina að hann ætti ekki að gera þetta og ég man ekki hverju hann svaraði sko, en hann ætlaði sér að gera þetta þrátt fyrir það.“ Kærandi bar að ákærði hefði aðeins náð að setja lim sinn inn í kynfæri hennar og byrjað samræðishreyfingar. Kærandi kvað það ástand ekki hafa varað í langan tíma og ákærða ekki orðið sáðfall, en ekki áttaði kærandi sig á því hvort hún hafði þá legið á bakinu eða maganum, en vísaði til þess að ákærði hefði stöðugt reynt að snúa henni á magann og að lokum tekist það. Kærandi bar að er á þessu stóð hefði ákærði rifið í hár hennar í hnakkanum og þannig náð að halda henni niður við dýnuna í vatnsrúminu, en jafnframt hefði hann haldið höndum hennar föstum og af þeim sökum kvaðst hún hafa fengið marbletti við úlnliðina, en auk þess litla skrámu á mjöðm. Kærandi kvaðst hafa grenjað og hrópað að ákærða, en hins vegar ekki kallað á hjálp annarra og vísaði til þess að hún hefði ekki almennilega gert sér grein fyrir því á verknaðarstundu að aðrir aðilar gætu komið henni til aðstoðar.

Kærandi bar að þessu ástandi hefði fyrst linnt er vitnið S kom inn í herbergið, en hún kvað fætur þeirra beggja þá hafa snúið að fótagaflinum og ákærði að einhverju leyti legið ofan á henni. Kærandi bar að ákærði hefði þegar stokkið á fætur og afsakað sig eitthvað. Kærandi kvaðst hafa öskrað að S, að hún vildi fá teppi, en S í framhaldi af því hent til hennar fötum og þá um leið spurt hvort hún hefði viljað þetta athæfi. Kvaðst kærandi hafa svarað „nei ég hefði örugglega ekki viljað þetta“, en kærandi kvaðst í raun ekki fyllilega hafa áttað sig á athæfi ákærða á þeirri stundu. Kærandi kvaðst og hafa verið í miklu sjokki og m.a. ekki munað eftir því þegar hún klæddi sig í fötin, en veitt því athygli síðar að hún hafði hneppt skyrtunni öfugt og gleymt hlýrabolnum. Kærandi kvaðst hafa verið mjög miður sín er hún fór út úr [...] og grátið mikið á leið þeirra að heimili kærastans, A, en þar kvaðst hún hafa öskrað til hans að sér hefði verið nauðgað. Kærandi bar að nefnd vinkona hefði ekkert tjáð sig um málsatvik og vísaði kærandi til þess að hún hefði ekki viljað skipta sér af því hvernig hún tæki á þessu máli. Kærandi bar að kærasti hennar hefði brugðist við tíðindunum með því að rjúka út, en komið aftur skömmu síðar og þá spurt hana hvað hún ætlaði að gera og í framhaldi af því lagt til að þau færu á lögreglustöðina, a.m.k. til að athuga málið. Kvaðst kærandi hafa fallist á þá ráðstöfun og í framhaldi af því farið ásamt kærastanum á lögreglustöðina. Hún kvaðst hafa róast eftir viðræður við lögreglumennina og síðan fallist á að fara í læknisskoðun þá um nóttina. Eftir að hafa sofið um daginn kvaðst kærandi hafa farið síðdegis ásamt foreldrum sínum, kærasta og réttargæslumanni á lögreglustöðina á nýjan leik og þá lagt fram formlega kæru á hendur ákærða, þrátt fyrir vitneskju hennar um þá erfiðleika er því fylgdu, enda þá verið búin að átta sig til fulls á því að brotinn hafði verið á henni réttur.

Fyrir dómi skýrði kærandi frá því að síðast liðið haust hefði hún flutt úr heimabyggð sinni ásamt kærasta og bar að þessi atburður hefði haft úrslitaáhrif þar um. Vísaði kærandi til umtals fólks og mikilla flokkadrátta, en að auki kvaðst hún hafa óttast að hitta ákærða og í raun átt erfitt með að umgangast aðra en nána vini. Vegna andlegrar vanlíðanar kvaðst kærandi hafa átt fundi með sálfræðingi, Ingibjörgu Sigurjónsdóttur, í fjögur skipti og ætlaði að hún hefði haft nokkra bót af því. Upplýst er að kærandi er nú á öðru ári í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Vitnið M, fæddur 1980, kvaðst sem einn af forráðamönnum nemendafélagsins hafa staðið fyrir grillveislu í tilefni prófloka laugardagskvöldið 15. maí s.l. Vitnið ætlaði að um 20 manns hefðu sótt skemmtunina og gestir almennt verið undir áhrifum áfengis. Vitnið bar að kærandinn, K, hefði komið til hans í tvígang á skemmtuninni, sest í fang hans og „hreint út sagt gerst full ágeng“. Kærandi hefði þannig verið með kynferðislega tilburði og reynt að kyssa hann á munninn, en hann vikið sér undan. Jafnframt kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að kærandi viðhafði svipaða tilburði við aðra tvo stráka á skemmtuninni og séð a.m.k. annan þeirra taka „hraustlega á móti“. Vitnið bar að kærandi hefði verið nokkuð ölvuð er hún kom á skemmtunina um kl. 20:00 - 22:00, en um síðir orðið þannig „að hún stóð ekki í lappirnar“. Vegna þessa kvaðst vitnið í samráði við vinkonu hennar, S, hafa gert ráðstafanir til að tilkynna kærasta hennar um ástandið og hann um síðir sótt hana á skemmtunina. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt kæranda sérstaklega vel og mundi ekki til þess að hafa séð hana áður undir áhrifum áfengis.

Vitnið U, fæddur 1982, kvaðst hafa boðið nokkrum skólafélögum sínum og vinum í samkvæmi á heimili sitt að [...] laugardagskvöldið 15. maí s.l., alls um 10 manns, og þ.á.m. ákærða og kæranda. Vitnið kvað samkvæmið hafa farið fram á efri hæð hússins, en nokkrir aðilar þó farið á neðri hæðina. Vitnið kvað vín hafa verið haft um hönd og kvaðst vitnið hafa verið lítillega undir áhrifum áfengis. Vitnið staðfesti að ákærði hefði fengið leyfi til að geyma bjórflöskur í ísskápnum á heimilinu. Vitnið bar að kærandi hefði verið illa á sig komin og mjög ölvuð í samkvæminu. „Hún var bara mjög full og bara rugluð, örugglega ekkert vitað hvað hún var að gera, ég hef aldrei séð hana svona.“ Vitnið bar að kærandi hefði dansað og hoppað út um allt og m.a. brotið vasa. Jafnframt hefði hún verið utan í öllum strákum og reynt að kyssa þá og þ.á.m. hann sjálfan og að mati hans reynt að fá þá til að koma með sér eitthvað, og það þrátt fyrir að kærasti hennar væri á vettvangi. Vitnið ætlaði að um kl. 22:00 hefði hann rekið alla gesti sína út úr húsinu þar eð óboðnir gestir voru að gera sig heimakomna. Vitnið kvaðst þá hafa læst útihurðinni aðaldyramegin á eftir hæðinni, en áður kvaðst hann hafa gætt að fólki á neðri hæðinni svo og slökkt öll ljós í húsinu. Vitnið kvað bakdyr líkt og venjulega hafa verið ólæstar. Vitnið minntist þess að kærandi hefði, ásamt vinkonu sinni S, farið út úr húsinu ásamt áðurgreindum kærasta, A. Vitnið kvaðst hafa hitt kæranda og S í miðbænum um miðnættið og staðhæfði að kærandi hefði þá óskað eftir akstri aftur að heimili hans, og farið fram á að hann opnaði húsið að nýju, að því er vitninu skildist til áframhaldandi samkvæmishalds. Var það mat vitnisins að ölvunarástand kæranda hefði verið svipað og fyrr um kvöldið, en einnig kvaðst vitnið hafa séð áfengisáhrif á S, „en samt ekkert alvarlegt“. Vitnið kvaðst hafa hafnað bón kæranda og ekkert hafa séð frekar til ferða hennar nefnda nótt. Í miðbænum kvaðst vitnið einnig hitt ákærða og gefið honum leyfi til að fara inn á heimilið til þess að ná í bjórflöskur, og þá bent honum á að fara inn um bakdyrnar. Vitnið kvaðst fyrst hafa farið á heimili sitt um nóttina er lögreglumenn báru fram ósk um að fara þar inn til vettvangsskoðunar.

Vitnið L, fædd 1982, fyrrverandi unnusta ákærða, kvaðst hafa verið í samkvæminu að [...] umrætt kvöld ásamt ákærða og „fullt af fólki“. Vitnið kvaðst hafa veitt því athygli að kærandi virtist „rosalega út úr heiminum“, og að mati vitnisins var hún drukkin. Þá kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að kærandi gekk til ákærða í tvígang, tók utan um hann „og var eitthvað að kyssa hann svona smá á hálsinn“. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt því eftirtekt að kærandi gerði þetta við fleiri stráka í samkvæminu. Vitnið kvaðst hafa farið út úr húsinu ásamt öðrum gestum og niður í bæ, en þar kvaðst hún hafa orðið ölvuð. Vitnið kvaðst síðar um nóttina hafa farið aftur að [...] ásamt ákærða og eftir það hafst við á salerni vegna magaólgu og mikillar ölvunar. Vitnið kvaðst hafa ætlað á þeirri stundu að hún væri ein með ákærða í húsinu og kannaðist ekki við að hafa heyrt háreysti í húsinu og minntist þess ekki að hafa opnað útihurð fyrir vitnunum T og S. Vitnið rámaði þó til þess að hafa rifist eitthvað við S og enn síðar er ákærði kom upp af neðri hæðinni og var að leita að veski sínu eða gleraugum. Skömmu síðar kvaðst vitnið hafa farið heim með ákærða og sofnað þar.

Vitnið N, fæddur 1982, kvaðst hafa farið í samkvæmið að [...] um kl. 20:00 laugardagskvöldið 15. maí s.l. ásamt vinum sínum, ákærða og unnustu hans og V. Vitnið bar að þar fyrir hefðu verið nokkrir krakkar á hans reki, en síðar um kvöldið kvaðst vitnið einnig hafa séð bekkjarsystur sína, kæranda, svo og unnusta hennar A. Vitnið minntist þess hins vegar ekki að hafa séð vitnið S umrætt kvöld, en vitnið kvaðst hafa verið lítillega undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að kærandi var ölvuð og að áliti vitnisins „stjórnlaus“ og „réði greinilega ekki neitt við hvað hún gerði“. Vísaði vitnið til þess að hún hefði rokið á stráka í samkvæminu og m.a. kysst þá á kinnina. Vitnið bar að þar hefði komið sögu að húsráðandinn U hefði vísað öllum gestum sínum út úr húsinu og ætlaði að klukkan hefði þá verið á bilinu 22:00 - 24:00. Kvaðst vitnið hafa ætlað að allir hefðu hlýtt boði húsráðandans, en ekki kvaðst vitnið hafa fylgst frekar með ferðum kæranda og m.a. aldrei séð hana í miðbænum síðar um nóttina. Vitnið kvaðst hafa farið út úr húsinu með sömu aðilum og hann hafði áður komið með og þau síðan öll farið í miðbæinn. Vitnið kvað áfengisdrykkju þar hafa haldið áfram og L af þeim sökum orðið bumbult og kastað upp. Vegna þessa hefði verið fengið leyfi áðurgreinds húsráðanda til að fara með L aftur að [...], og kvaðst vitnið hafa fylgt stúlkunni og ákærða inn í húsið um aðaldyr, sem þá hafi verið ólæstar. Vitnið bar að L hefði þegar farið inn á salerni í forstofunni og kastað þar upp, en vitnið kvaðst hafa fylgt ákærða í eldhúsið, rætt þar við hann í um 5 mínútur, en farið síðan aftur út í bifreiðina til V með þeirri ætlan að leita að veski eða gleraugum sem ákærði hafði týnt. Á þeirri stundu kvaðst vitnið hafa ætlað að ákærði og L væru ein í íbúðarhúsinu að [...]. Um ½ til 1 klukkustundu síðar kvaðst vitnið ásamt V hafa farið á nýjan leik að íbúðarhúsinu. Vitnið kvað aðaldyrnar þá hafa verið læstar og eftir að hafa bankað og kallað árangurslaust kvaðst vitnið hafa gengið suður fyrir húsið áleiðis að bakdyrainngangi, en þá komið að stórum glugga og séð að þar inn í herbergi voru tvær mannverur uppi í hjónarúmi. Hefði önnur þeirra setið eða kropið en hin legið undir, en vitnið kvaðst einungis hafa séð efri hluta líkama þeirra. Kvaðst vitnið hafa horft inn um gluggann „í örfá sekúndubrot“ en brugðið við og hörfað frá og þá farið sömu leið til baka í bifreiðina til V. Nánar aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð hvaða manneskjur þetta voru, en vitnið kvaðst hafa veitt því athygli að sú er undir lá var í dökkum fötum. Vitnið kvaðst hafa séð aftan á aðra öxl manneskjunnar sem var ofan á og séð að hún var án fata. Vitnið kvaðst hafa talið á nefndri stundu að allt væri eðlilegt í fari þeirra. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt hljóð frá herberginu, en ekki kvaðst vitnið hafa veitt því athygli hvort gluggi á herberginu var opinn eða lokaður. Vitnið kvaðst og hafa talið að nefndar mannverur hefðu verið ákærði og unnusta hans. Vitnið kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvort ljós var kveikt í herberginu, en vísaði til þess að tiltölulega bjart hefði verið úti í samræmi við árstíma. Vitnið kvaðst hafa greint V félaga sínum frá því sem hann hafði séð og þeir í framhaldi af því ákveðið að aka frá húsinu. Við enda götunnar hefðu þeir mætt annarri bifreið og minnti vitnið að í henni hefðu verið vitnin T og S. Vitnið kvað þá félagana hafa stoppað stutta stund hjá þeim og V þá greint frá því sem hann hafði séð skömmu áður í herberginu. Vitnið greindi frá því að nokkrum dögum síðar hefði hann heyrt af kæru kæranda gegn ákærða, en jafnframt að málið hefði verið látið falla niður. Í nóvembermánuði síðast liðnum kvaðst vitnið hins vegar hafa frétt af málarekstrinum og í framhaldi af því rætt við vin ákærða svo og vinkonu kæranda, en loks greint ákærða og föður hans frá vitneskju sinni.

Vitnið V, fæddur 1982, kvaðst hafa verið í fylgd vina sinna laugardagskvöldið 15. maí s.l., ákærða, L og N, en vitnið kvaðst hafa verið ökumaður á bifreið ákærða. Fyrir dómi var frásögn vitnisins í aðalatriðum samhljóða frásögn vitnisins N um málsatvik. Vitnið ætlaði að þau hefðu komið í samkvæmið að [...] um kl. 21:00, en farið þaðan út að boði húsráðandans U um kl. 22:00 - 23:00, og þau eftir það haldið áfram að skemmta sér í miðbænum. Vitnið bar að um 20 manns hefðu verið í samkvæminu og þ.á.m. kunningjastúlka hans og skólasystir, kærandi máls þessa og kærasti hennar A. Að mati vitnisins var kærandi nær stjórnlaus, grenjandi eina stundina og öskrandi hina og „hún var flaðrandi upp um fólk, takandi utan um menn og faðma þá“. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt samskiptum stúlkunnar og ákærða sérstaka athygli í samkvæminu og ekki séð að hún væri að kyssa strákana. Vitnið kvaðst hafa ekið samferðafólki sínu á nýjan leik að [...] um kl. 24:00 vegna ölvunarástands L og ætlaði vitnið að ákærði hefði þá farið inn í húsið um bakdyr og opnað fyrir þeim aðaldyrnar, þar eð húsráðandinn hefði læst húsinu fyrr um kvöldið. Vitnið kvað L þá strax hafa farið á salerni, en þeir N hins vegar staldrað stutta stund við hjá ákærða, m.a. í eldhúsi, en þeir tveir síðan farið út úr húsinu í þeim tilgangi að leita að veski sem ákærði kvaðst hafa týnt. Vitnið kvaðst hafa talið að húsið væri á þeirri stundu algjörlega mannlaust fyrir utan ákærða og unnustu hans. Vitnið bar að ákærði hefði verið undir áhrifum áfengis, en ekki áberandi drukkinn eða valtur. Um það bil 1 til 1 ½ klst eftir þetta kvaðst vitnið hafa ekið enn á ný að [...] til að athuga með ákærða og unnustu hans. Vitnið kvaðst í það sinn ekkert hafa farið út úr bílnum og því einungis hlýtt á frásögn N um parið á neðri hæðinni. Vitnið kvaðst því næst hafa ekið frá húsinu en mætt bifreið T við enda götunnar og þá skýrt honum svo og S, frá ætluðu athæfi ákærða og unnustu hans í hjónarúminu. Eftir það kvaðst vitnið hafa ekið um stund í miðbænum, en síðan enn ekið að [...], en vitnið bar að þá hefðu verið í húsinu áðurgreindir aðilar, þ.e. ákærði, L, T og S. Vitnið kvaðst hins vegar ekkert hafa séð til kæranda. Vitnið kvaðst ekki hafa farið inn í húsið í þessari síðustu ferð og einungis staldrað þar við í um 2 mínútur og vísaði til þess að ákærði og unnusta hans hefðu fljótlega komið út og hann í framhaldi af því ekið þeim heim. Vitnið bar að ákærði hefði á þeirri stundu verið mjög rólegur og að mati þess var ekkert óeðlilegt í fari hans. Vitnið kvaðst hins vegar ekkert hafa rætt við hann á heimleiðinni.

Fyrir dómi kvaðst vitnið ekkert hafa rætt við S umrædda nótt einungis séð til hennar og var það álit þess að hún hefði verið í „góðu ástandi og það var ekkert á henni að sjá, að hún væri neitt full eða svoleiðis“.

Vitnið T, fæddur 1982, gaf skýrslu við lögreglurannsókn þann 23. maí s.l. svo og við aðalmeðferð máls fyrir dómi. Samkvæmt framburði vitnisins var hann skólabróðir ákærða og kæranda og ágætur vinur þeirra beggja.

Laugardagskvöldið 15. maí s.l. kvaðst vitnið hafa ekið um á bifreið sinni og um kl. 19:00 - 19:30 hitt kæranda og S. Kvaðst vitnið hafa ekið með þær stutta stund, en síðan farið með þær í grillveislu sem haldin var í tilefni prófloka hjá framhaldsskólanemum í bænum. Vitnið bar að báðar hefðu stúlkurnar verið ölvaðar, kærandi „virkilega drukkin“, en S í mun betra ástandi. Vitnið kvaðst hafa farið í samkvæmið í [...] um kl. 23:30 og bar að þar hefði þá verið talsvert af fólki og mikið fjör. Vitnið kvaðst hafa verið í húsinu í um 15-30 mínútur, en þá farið heim til sín. Í samkvæminu kvaðst vitnið hafa séð til kæranda og að áliti þess var ölvunarástand hennar þá svipað og verið hafði fyrr um kvöldið, en hún virst ánægð líkt og allir aðrir. Vitnið kvaðst hafa hafið akstur aftur um kl. 00:40 og þá ekið í miðbæinn. Þar kvaðst vitnið hafa hitt áðurgreinda S, sem þá hefði verið að leita að kæranda, en haft grun um að hún gæti verið í [...]. Vitnið kvað S á þessum tíma virst „eilítið drukkin, ekki mikið, eitthvað full, en ekki það mikið að hún væri með skerta hugsun og almennt í góðu lagi og ekkert slöpp eða reikul í spori“. Að beiðni stúlkunnar kvaðst vitnið hafa ekið að nefndu húsi, en á leiðinni þangað kvaðst það hafa mætt vitnunum V og N og stöðvað hjá bifreið þeirra stutta stund. Vitnið bar að þeir hefðu spurst fyrir um veski ákærða, en minntist ekki frekari orðaskipta, og þ.á.m. ekki að þeir hefðu minnst á að fólk væri að elskast í [...]. Vitnið kvaðst hins vegar hafa heyrt þessa aðila ræða um þetta tiltekna atriði síðar. Að [...] kvaðst vitnið hafa bankað og hringt dyrabjöllu þar eð útihurðin hefði verið læst. Að nokkurri stundu liðinni kvaðst vitnið hafa heyrt að salernishurð í forstofu var aflæst og síðan séð hvar stúlkan L kom þar út, fremur illa á sig komin. Hún hefði opnað fyrir þeim hurðina en síðan farið strax aftur inn á salernið og læst hurðinni. Vitnið kvaðst hafa beðið í forstofunni á meðan S litaðist um í stofu á efri hæð og fór síðan niður á neðri hæðina. Vitnið kvaðst ekkert hafa heyrt í húsinu á þeirri stundu. Vitnið kvaðst síðan hafa heyrt að hurð var opnuð á neðri hæðinni en lokað aftur, en síðan heyrt að annarri hurð var lokið upp enn skelt strax aftur. Í staðfestri skýrslu hjá lögreglu lýsti vitnið atvikum máls nánar þannig:

„T kveðst þá í andránni hafa heyrt hurðaskell og þá strax öskur, sem hann kvaðst hafa þekkt sem frá K. Hún hafi öskrað, „komdu honum út, komdu honum út“. T segist þá hafa hlaupið niður á neðri hæðina og hafi hann þá hitt Ævar Þór þar sem hann var að koma út úr herberginu þar niðri. T segir hafa liðið um 20-30 sekúndur frá því að S fer niður og þar til hann heyrir öskrin í K. Síðan örstutt stund um 5 sekúndur þar til hann kemur niður og sér Ævar Þór koma út úr herberginu. T segir Ævar hafa verið alklæddan, í bol, lausreimuðum í hálsmálið, og buxum. T kveðst hafa heyrt að K var grátandi inni í herberginu, en engin orðaskil hefði hann heyrt.“

Fyrir dómi bar vitnið að ákærði hefði haldið á sokkum og svarað efnislega er hann var spurður hvort eitthvað hefði verið að gerast: „Nei það var ekkert að gerast, hún dró mig inn í herbergið, ég ætlaði ekkert að gera með henni, ég er með frábærri stelpu og hún bíður bara eftir mér uppi og ég ætlaði ekki að gera neitt.“ Vitnið kvað ákærða ekki hafa skýrt orð sín frekar, en að mati vitnisins var hann töluvert drukkinn, en ástand hans að öðru leyti eðlilegt. Vitnið kvaðst hafa staðið rétt fyrir utan lokaðar herbergisdyrnar og heyrt að K var að gráta inni í herberginu en engin orðaskil heyrt. Eftir stutta stund kvað vitnið S hafa komið út úr herberginu og aðspurt hvort eitthvað alvarlegt hefði gerst hefði hún svarað að svo væri ekki, „bara einn koss“. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð inn í herbergið til K en veitt því eftirtekt hvað S var óstyrk í málrómnum og eftir á að hyggja kvaðst það hafa verið vantrúað á orð hennar, og vísaði til þess að það hefði verið líkast því sem hún vildi leyna einhverju. Eftir nefnd orðaskipti kvaðst vitnið hafa farið út úr húsinu, en vitnið ætlaði að það hefði dvalið þar í u.þ.b. 5 mínútur.

Vitnið S, fædd 1982, gaf skýrslu við lögreglurannsókn sunnudaginn 16. maí, kl. 15:00 - 17:42, svo og við aðalmeðferð málsins.

Vitnið greindi frá því að umræddan dag, laugardaginn 15. maí s.l., hefði hún ásamt vinkonu sinni, kæranda, ákveðið að skemmta sér saman í tilefni prófloka þá um morguninn. Eftir að hafa tekið sig til kvað hún þær hafa hafið áfengisneyslu um kl. 17:00, en þær síðan farið saman í miðbæinn, hitt þar skólafélaga og rúntað í bifreiðum, þ.á.m. með vitninu T. Vitnið kvað þær einnig hafa farið á skemmtun á vegum nemendafélagsins, en vegna ölvunar kæranda kvaðst vitnið hafa hringt til kærasta kæranda, um kl. 20:00-20:30, og hann þá komið og sótt hana. Vitnið kvað því minna hafa orðið úr áformum þeirra vinkvennanna um að vera saman nefnt kvöld en til stóð. Á tilgreindum tíma kvaðst vitnið og hafa verið orðið mjög ölvað, en staðhæfði að smám saman hefði runnið af því áfengisvíman eftir því sem á kvöldið leið og nóttina. Vegna nefnds ástands hafði vitnið hins vegar fyrirvara um allar tímasetningar. Vitnið skýrði frá því að umrætt kvöld hefði það tví- eða þrívegis komið við í íbúðarhúsinu að [...], í samkvæmi, sem þar hefði verið haldið, en staldrað frekar stutt við í hvert sinn. Í staðfestri lögregluskýrslu lýsti vitnið för þeirra vinkvennanna að [...], að það ætlaði kl. 00:30, en vitnið kvað húsráðandann U þá hafa verið í dyragættinni á leið út. Fyrir í húsinu kvað vitnið þá einungis hafa verið vini sína og skólafélaga, þ.á. m. ákærða í máli þessu og unnustu hans. Vitnið bar að unnustan hefði verið í æstu skapi og miður sín vegna áfengisdrykkju og því tilgangslaust að eiga við hana orðastað. Vitnið kvaðst hafa misst sjónar á kæranda, og eftir að hafa gætt að skófatnaði hennar án árangurs í nefndum húsakynnum, kvaðst hún hafa farið út, og kvað hún útihurðina þá hafa skollið í lás. Vitnið kvaðst ekkert hafa séð til ferða kæranda við húsið og því ályktað að hún hefði farið niður í bæ á undan henni. Vitnið kvaðst því hafa gengið í miðbæinn, hitt þar vitnið T, er hefði ekið henni á nýjan leik að [...]. Vitnið kvaðst þar hafa bankað og hringt dyrabjöllu í nokkrar mínútur uns áðurnefnd unnusta ákærða kom út af salerni í forstofunni og opnaði útidyrnar, en hvarf síðan aftur inn á salernið, greinilega miður sín vegna ölvunarástands. Í áðurgreindri lögregluskýrslu, sem tekin var eins og áður sagði 16. maí s.l., lýsti vitnið gjörðum sínum og atvikum máls nánar þannig;

Mætta segist hafa tekið eftir, þegar hún kom að stiga, sem liggur niður á neðri hæð hússins, hljóð eins og vein og grát. S kveðst hafa þekkt hljóðin, að þau komu frá K. S kveðst hafa farið og gengið á hljóðið og komið að svefnherbergi og segist hún hafa farið þar inn. Þar hafi hún strax séð, á hjónarúmi, vatnsrúmi, Ævar Þór Ævarsson, og á grúfu á rúminu hafi legið K, vinkona hennar, í brjóstahaldara, en að öðru leyti nakin.  Mætta segir að Ævar hafi legið ofan á henni og hafi farið ofan af henni strax og mætta kom inn í herbergið. Mætta segist hafa séð að Ævar tók getnaðarlim sinn út úr leggöngum K. Mætta kveðst hafa séð að getnaðarlimur Ævars var reistur. Mætta segir að K hafi brjálast, sparkað og öskrað þegar Ævar fór af henni. S telur að Ævar hafi verið allsber, en mætta kveðst þó ekki viss hvort hann var í sokkum eður ei, en segir að hann hafi verið að öðru leyti ber. S segir Ævar hafa sagt strax: „S, ég er feiminn, ég hef alltaf verið talinn feiminn“ og hafi hann endurtekið þetta nokkrum sinnum. Mætta kveðst hafa séð að honum hafi verið brugðið og kveðst mætta hafa verið „frekar hvöss“ við Ævar og sagt honum að „klæða sig og drulla sér út úr herberginu“. Mætta segir Ævar hafa farið í buxur, tekið afganginn af fötum sínum og farið út. Mætta segir K hafa verið talsvert flekkótta í framan, hárið ruglað og hafi augu hennar verið rauð og mætta kveðst hafa gert sér grein fyrir að hún hefði verið búin að gráta talsvert lengi. Mætta segir K hafa verið í talsverðri geðshræringu og hafi hún grátið og veinað og einnig beðið um að mætta breiddi teppi yfir hana og segist mætta hafa gert það strax, breitt rúmteppið yfir hana. Hún hafi síðan sagt eftir að Ævar fór úr herberginu, „þetta skiptir ekki máli, mér var bara nauðgað“. Mætta segir einnig að K hafi sagt Ævar hafa rifið í hár hennar við nauðgunina. Mætta segist hafa haldið hurð herbergisins lokaðri til vonar og vara, meðan K klæddi sig, en það hafi tekið hana nokkra stund að finna fötin sín, og hafi hún t.d. ekki fundið bol sem hún var í. Mætta kveðst hafa litið út um dyr herbergisins og þá séð T og Ævar og hafi þeir verið að ræða saman á gangi framan við dyrnar. Mætta kveðst hafa beðið T um að fara og hafi hann gert það.

Við dómsyfirheyrslu lýsti vitnið atvikum máls í greint sinn á þá leið, að hún kvaðst hafa verið á leið niður á neðri hæð hússins, nánar tiltekið verið í efri hluta tvískipts stiga, er hún fyrst heyrði rödd eða vein, sem hún kvaðst hafa þekkt sem rödd vinkonunnar K. Í framhaldi af því kvaðst hún hafa gengið beinustu leið að herbergi því sem hljóðið kom frá, en áður en hún opnaði kvaðst vitnið hafa heyrt K segja „hættu þessu“ eða eitthvað í þeim dúr. Vitnið kvaðst því hafa opnað hurðina og þá séð hvar vinir hennar, ákærði og K lágu skáhallt í hjónarúminu, allsnakin, en K í brjóstahaldara. Ekki mundi vitnið hvort ljós voru kveikt í herberginu eða hvort hún hefði sjálf kveikt ljósin. Vitnið kvaðst hafa séð kynfæri þeirra beggja og bar að augljóst hefði verið að ákærði hefði verið að hafa samræði við K aftan frá. Vitnið bar að K hefði legið einhvern veginn á hliðinni og ákærði þar fyrir aftan, en með hendi ofan á miðjum líkama hennar. Vitnið kvað ákærða strax hafa hætt samræðinu við komu hennar inn í herbergið og virst brugðið, en haft á orði að hann hefði ekkert gert og að hann elskaði L, en síðan klætt sig að hluta og farið út. Vitnið kvaðst hafa veitt því athygli er hún kom inn í herbergið að K var rauð í andliti, líkt því sem hún hefði verið búin að gráta lengi. Þá kvað vitnið hana strax hafa farið að gráta og öskra og sparka, og verið í mjög æstu skapi og rosalega reið strax eftir að ákærði hafði farið úr rúminu og það ástand hennar varað allt þar til ákærði var farinn út úr herberginu. Eftir það kvað vitnið K aðeins hafa grátið. Vitnið vísaði til þess að K væri grátgjörn við áfengisdrykkju og þegar hún lenti í andstreymi, en bar að nefndur grátur hefði verið „allt öðruvísi, þetta var miklu sárara“. Eftir yfirlestur lögregluskýrslu við lok dómsyfirheyrslu kvaðst vitnið ekki með vissu geta sagt til um hvort K hefði verið að gráta þegar hún kom inn í herbergið eða hvort að grátur hennar hefði hafist þá. Vitnið bar að eftir að þær voru orðnar einar í herberginu hefði K haft á orði að þetta skipti ekki máli, sér hefði bara verið nauðgað. Vegna þessa leiðinlega og óeðlilega ástands alls kvaðst vitnið hafa farið út úr herberginu til að ræða við T, sem þá hafi verið þar fyrir utan og farið fram á það við hann að hann færi í burtu. Vísaði vitnið til þess að hún hefði á þeirri stundu ekki vitað hvort K ætlaði að láta þetta spyrjast út.

Vitnið bar fyrir dómi að þær hefðu lítið rætt saman um atvik máls eftir þetta og bar að K hefði lýst vilja til að fara heim til kærasta síns, A. Vitnið kvaðst því hafa fylgt K út úr húsinu og þær síðan gengið og hlaupið að heimili kærastans. Vitnið bar að K hefði verið grátandi er þær hittu A og kvaðst hún því hafa sagt við hann að kærasta hans þyrfti að „segja honum svolítið“. Vitnið kvaðst því ekkert hafa upplýst A um málsatvik heldur farið út og skilið þau eftir á heimilinu.

Vitnið A, fæddur 1978, unnusti kæranda, bar að hún hefði margnefndan dag farið að skemmta sér ásamt vinkonu sinni S í tilefni prófloka. Vitnið bar að S hefði síðar um kvöldið hringt á heimili hans, um kl. 20:00, og tilkynnt að K væri orðin væri orðin ofurölvi. Vitnið kvaðst þá hafa farið á bifreið sinni þangað sem framhaldsskólanemar héldu skemmtun sína og náð í K. Eftir það kvaðst vitnið hafa ekið með K í 2-3 klst. í þeim tilgangi að áfengisvíman rynni af henni. Að mati vitnisins var hún að þeim tíma liðnum orðin í það góðu ástandi að hún var fær um að halda skemmtun sinni áfram með nefndri vinkonu. Vitnið kvaðst því hafa farið frá K um kl. 23:00-24:00 og vísaði til þess að það hefði þurft að mæta til vinnu daginn eftir kl. 06:00. Síðar um nóttina kvaðst vitnið hafa tekið á móti K hágrátandi í fylgd S á heimili sínu. Vitnið bar að S hefði verið eitthvað undir áhrifum áfengis og greinilega mjög brugðið og strax haft á orði að hann ætti að reyna að hugga K. Vitnið bar að S hefði dvalið hjá þeim í 15-20 mínútur, en á þeim tíma aldrei sagt neitt um ástæðu fyrir bagalegu ástandi K. Vitnið bar að K hefði verið mjög miður sín, hágrátandi og skjálfandi og virst ófær um að tjá sig í fyrstu. Vitnið kvaðst hafa þekkt K í 9 mánuði er atburðir þessir gerðust og ætlaði að þetta hefði verið í annað eða þriðja skipti sem hún neytti áfengis, en vitnið kvaðst aldrei áður hafa séð hana í slíku ástandi, hún hefði í raun ekkert ráðið við sig. En er hún hefði sefast hefði hún greint frá því að ákærði hefði nauðgað henni. Vitnið kvaðst þá hafa rokið út af heimilinu með þeirri ætlan að leita ákærða uppi, en fljótlega horfið frá því og haldið heim aftur og þá bent K á að hún gæti kært athæfi ákærða. Vitnið bar að K hefði hugleitt orð hans eitthvað, en síðan samþykkt þá ráðstöfun. Kvaðst vitnið í framhaldi af því hafa ekið K á lögreglustöðina, en síðan fylgt henni á sjúkrahús og daginn eftir fylgt henni á ný ásamt foreldrum á lögreglustöð þar sem hún hefði borið fram formlega kæru á hendur ákærða.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir, námsráðgjafi með BA próf í sálarfræði og fyrrverandi ráðgjafi á félagsþjónustu, kvaðst fyrir dómi hafa verið kvödd á lögreglustöð vegna meintrar nauðgunar umrædda nótt. Lýsti vitnið kæranda þannig, að hún hefði þá setið samanhnipruð og fellt tár, en lítið tjáð sig og virst tiltölulega róleg í fasi. Vitnið kvaðst hafa verið kæranda til aðstoðar við lögreglu- og læknisrannsóknir og í framhaldi af því átt við hana fjögur viðtöl um félagsleg og tilfinningaleg málefni.

 Vilhjálmur Kristinn Andrésson, yfirlæknir og sérfræðingur í kvensjúkdómafræðum kom fyrir dóminn og staðfesti læknisfræðileg gögn í málinu, þ.á.m. lýsingu á áverkum kæranda, og bar að leiða mætti líkur að því að marblettir á vinstri handlegg hennar væru fersk húðblæðing, en treysti sér ekki til að segja til um hvernig þeir væru til komnir.

Hreiðar Hreiðarsson, lögregluvarðstjóri, sem stjórnaði lögreglurannsókn málsins, kom fyrir dóm og lýsti aðgerðum í samræmi við lögregluskýrslur. Vitnið kvaðst hafa rætt við kæranda við komu hennar á lögreglustöð aðfaranótt 16. maí s.l. og að mati hans var hún þá ekki áberandi undir áhrifum áfengis, og frásögn hennar verið skýr og heilstæð. Að öðru leyti lýst vitnið ástandi kæranda í samræmi við frumskýrslu lögreglu. Vitnið kvaðst hafa farið af vakt um kl. 09:00 um morguninn, en komið aftur til vinnu kl. 17:00. Nokkru eftir það kvaðst vitnið hafa farið til ákærða í fangaklefa, spjallað þar stutta stund við hann og m.a. spurt hvort hann vanhagaði um eitthvað, kynnt honum réttarstöðu, en síðan gert honum grein fyrir að lögreglurannsókn yrði haldið áfram, m.a. með vitnaskýrslum, og að til gæsluvarðhalds gæti komið vegna rannsóknarnauðsynjar. Vitnið kvaðst jafnframt hafa gert ákærða grein fyrir að honum væri í sjálfsvald sett að skýra frekar frá málsatvikum við skýrslutöku. Fyrir dómi andmælti vitnið því alfarið að hann hefði í greint sinn nefnt við ákærða eða hótað honum ákveðnum dagafjölda í gæsluvarðhaldsvist eða sagt að aðrar skýrslur væru honum í óhag. Vitnið bar að ákærði hefði hins vegar nokkru eftir nefnt samtal gert vart við sig og þá óskað eftir að tjá sig frekar um málavexti. Vitnið kvað þá hafa verið kallað á réttargæslumann ákærða og skýrsla síðan tekin af honum frá kl. 20:00 til 23:53. Vitnið staðhæfði að ákærði hefði skýrt sjálfstætt og heilstætt frá atvikum máls, en í framhaldi af því kvaðst vitnið hafa spurt ákærða nánar um sömu atriði, skýrslan síðan samin og í framhaldi af því vandlega yfirfarin af ákærða og réttargæslumanni hans og loks undirrituð. Fyrir dómi bar vitnið að kappkostað hefði verið við vörslur ákærða á lögreglustöðinni, að hann væri sem mest í setustofu lögreglumanna og hann því aðeins verið færður í fangaklefa er aðilar sem tengdust málinu komu á lögreglustöð til skýrslugjafa.

 

Niðurstaða.

Með eigin framburði kæranda og vitnisburðum S, M, T og unnusta hennar A, er upplýst að kærandi hóf áfengisdrykkju síðdegis laugardaginn 15. maí s.l. og var orðin ofurölvi um kl. 20:00. Vegna þessa ástands fór hún af samkomu framhaldsskólanema í fylgd unnusta síns, um kl. 21:00, og var í umsjá hans fram eftir kvöldinu. Hefur kærandi haldið því fram að hún hafi eftir þetta lítið sem ekkert bragðað áfengi. Þá um kvöldið, um kl. 22:00 - 23:00, fór kærandi í fylgd nefnds unnusta í samkvæmi skólafélaga að [...] og er óumdeilt að þar hafi hún tekið utan um ákærða og kysst hann a.m.k. í tvígang á hálsinn, en að auki viðhaft svipað athæfi við fleiri stráka. Af framburðum vitna verður ráðið að kærandi hafi haldið skemmtan sinni áfram í nefndum húsakynnum eftir að unnusti hennar hvarf af vettvangi nokkru fyrir miðnætti, en af gögnum málsins verður ráðið að samkvæminu hafi lokið fljótlega eftir það. Við meðferð málsins hefur kærandi vegna gloppótts minnis vegna áfengisneyslu ekkert getað greint frá gjörðum sínum þar á eftir, og allt þar til hún var stödd einsömul á neðri hæð nefnds íbúðarhúss.

Samkvæmt eigin frásögn ákærða hóf hann áfengisdrykkju umrætt kvöld um kl. 20:00 og fór í framhaldi af því í samkvæmið að [...] ásamt unnustu sinni og félögunum N og V. Við meðferð málsins lýsti ákærði áðurnefndum blíðuhótum kæranda sem „mömmukossum“, sem þó hefðu gefið ákveðin skilaboð að hans áliti. Að mati dómsins verður í þessu samhengi að líta til frásagnar ákærða um að hann hefði fyrr um daginn veitt kæranda sérstaka athygli er hann sá hana í hópi skólafélaga. Vegna minnisglapa umrætt kvöld vegna áfengisneyslu gat ákærði ekkert sagt til um gjörðir sínar eftir að los kom á gesti í samkvæminu og allt þar til hann fór í „rólegheitarölti“ og „án sérstaks erindis“ niður á neðri hæð nefnds íbúðarhúss. Með vætti nefndrar unnustu ákærða og ofangreindra vitna er það hins vegar sannað að ákærði fór í millitíðinni með nefndu fólki út úr húsinu, um kl. 23:00, en komið þangað aftur með sömu aðilum um miðnættið og fór þá inn um bakdyr á neðri hæðinni. Samkvæmt vætti nefndra vitna varð ákærði síðan einn eftir í húsinu ásamt unnustu sinni, sem vegna veikinda hélt kyrru fyrir á salerni á efri hæðinni.

Verður af framangreindu ráðið að tilviljun hafi ráðið því að fundum kæranda og ákærða bar saman skömmu eftir miðnættið í nefndum húsakynnum.

Í máli þessu er m.a. ágreiningur með ákærða og kæranda hvernig viðskipti þeirra hófust í greint sinn. Hefir ákærði við alla meðferð málsins haldið því fram að hann hafi hitt kæranda í hjónaherbergi á neðri hæð og að þau hafi þar sýnt hvort öðru blíðuhót með kossi, hann örvast kynferðislega, kærandi sýnt fullan vilja til nánari kynna og í framhaldi af því viðhaft við hann munnmök í tvígang, og samkvæmt frásögn hans fyrir dómi haft við hann að auki kynmök sjálfviljug. Frásögn kæranda um upphaf nefndra viðskipta er á hinn bóginn að mati dómsins nokkuð brotakennd. Hún hefur þannig ekki getað lýst því hvernig hún fór inn í hjónaherbergið með ákærða eða hvernig hún fór úr fötum sínum, en rámað þó í að ákærði hefði togað buxurnar af henni. Kærandi hefur hins vegar ekki kannast við að hafa kysst ákærða við upphaf samskipta þeirra í herberginu. Jafnframt hefur kærandi staðhæft, að vegna ruddalegs orðbragðs ákærða og ráðaleysis hennar, hafi hún í tvígang látið að vilja hans til munnmaka, í stutta stund. Það athæfi hafi verið andsætt vilja hennar og hún látið það strax í ljós við ákærða, en eftir atvikum ekki nægjanlega skýrt. Á hinn bóginn hefur kærandi borið að hún hafi ótvírætt og ítrekað, bæði með orðum og athöfnum, árangurslaust andæft ásetningi ákærða til að hafa við hana kynmök. Er frásögn kæranda að þessu leyti að áliti dómsins í allgóðu samræmi við skýrslugjöf ákærða hjá lögreglu að kveldi 16. maí s.l. Þá voru ákærði og kærandi sammála um að eiginlegar samræður hefðu aldrei farið fram á milli þeirra í greint sinn.

Kærandi tilkynnti lögreglu um meintan verknað ákærða tæpum tveimur klukkustundum eftir að samskiptum þeirra lauk í nefndu íbúðarhúsi. Verður ráðið af rannsóknarskýrslu læknis, vitnisburði meðferðaraðila og vætti lögregluvarðstjóra, að hún hafi þá um nóttina verið andlega niðurdregin. Er það og í fullu samræmi við vitnisburði S, T og unnusta hennar, A. Kærandi bar fram formlega kæru á hendur ákærða hjá lögreglu daginn eftir og gaf skýrslu sína fyrir dómi í framhaldi af því, en einnig við aðalmeðferð málsins.

Við alla meðferð málsins hefur kærandi að mati dómsins verið staðföst í frásögn sinni um að ákærði hafi eftir fyrstu viðskipti þeirra í hjónaherberginu að [...] viðhaft ofbeldi og þvingað fram samræði gegn vilja hennar. Að áliti dómsins er frásögn kæranda um meint athæfi ákærða einlæg og trúverðug. Framburður S og T, sem dómurinn metur sem trúverðug vitni, styður frásögn kæranda um að alvarlegir atburðir hafi gerst í samskiptum hennar við ákærða, en einnig vottorð læknis um áverka og vitnisburður meðferðaraðila og lögregluvarðstjóra. Að áliti dómsins hnekkir frásögn vitnisins N ekki nefndum framburðum og rannsóknarskjölum, en samkvæmt orðum vitnisins leit það inn um herbergisgluggann á neðri hæð íbúðarhússins að [...] í örfá sekúndubrot.

Að mati dómsins hefur frásögn ákærða frá upphafi verið reikul um atvik máls. Ákærði neitaði þannig í fyrstu skýrslu hjá lögreglu að hann hefði haft kynmök umrædda nótt, en játaði við síðari skýrslutökuna hjá lögreglu að hann hefði haft kynmök við kæranda og lýsti jafnframt samskiptum þeirra, en við skýrslugjafirnar naut hann aðstoðar réttargæslumanns. Loks dró hann þennan framburð sinn til baka í öllum aðalatriðum fyrir dómi og andmælti sakargiftum. Að ofangreindu virtu, svo og þegar litið er til vitnisburðar lögregluvarðstjóra, sem yfirheyrði ákærða á rannsóknarstigi og annarra rannsóknargagna, er það álit dómsins að skýringar ákærða fyrir hinum breytta framburði fyrir dómi, frá síðari skýrslu hans fyrir lögreglu, séu ótrúverðugar. Framburður ákærða fyrir dómi um samskipti hans við kæranda, eftir fyrstu viðskipti þeirra í hjónaherberginu, og varðar sakarefni máls þessa, hefur að mati dómsins að auki verið harla brotakenndur.

Að öllu ofangreindu virtu er að mati dómsins lögfull sönnun fram komin með framburði kæranda, sem hefir stuðning í skýrslum áðurgreindra vitna og öðrum rannsóknargögnum, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi er í ákæruskjali greinir og hann því gerst brotlegur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

 

2. Ákærði, sem var 17 ára er hann framdi brot sitt, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins, ekki áður sætt refsingu. Brot ákærða er alvarlegs eðlis og þykir refsing hans með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eftir atvikum hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi.

 

Berglind Svavarsdóttir, héraðsdómslögmaður og réttargæslumaður kæranda, bar fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, fyrir hennar hönd, með bréfi, dagsettu 21. júní 1999, og krafðist miskabóta að fjárhæð kr. 800.000 sbr. 4. gr. sbr. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en að auki var krafist þjáningabóta að fjárhæð kr. 46.800 sbr. 3. gr. sömu laga. Þá var krafist vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 16. maí 1999 til 21. júlí 1999 en með dráttarvöxtum frá þ.d. til greiðsludags sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Loks krafðist réttargæslumaðurinn hæfilegrar þóknunar skv. f- og i- lið 44. gr. laga nr. 19/1991 sbr. lög nr. 36/1999.

Lögmaðurinn rökstuddi kröfur sínar við aðalmeðferð málsins.

Ákærði andmælti bótakröfunni fyrir dómi og krafðist aðallega sýknu, en til vara stórfelldrar lækkunnar

Kærandi á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að mati dómsins hefur verið sýnt fram á að kærandi hafi orðið fyrir verulegum sálrænum erfiðleikum og félagslegri röskun vegna verknaðar ákærða og verður hann því dæmdur til að greiða henni miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eigi hafa hins vegar að áliti dómsins verið lögð fram nægjanlega skýr gögn er sýna fram á að kærandi eigi rétt á þjáningabótum til viðbótar miskabótunum sbr. 3. gr. laganna, en upplýst er að hún missti ekki úr vinnu og var ekki rúmliggjandi. Verður nefndri kröfu því vísað frá dómi. Ákærði verður hins vegar dæmdur til að greiða vexti eins og í dómsorði greinir.

Réttargæslumaður kæranda gætti hagsmuna hennar á rannsóknarstigi og veitti henni aðstoð við alla meðferð málsins, þ.á.m. vegna áðurgreindrar einkaréttarkröfu skv. XX. kafla laganna, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999. Verður réttargæslumanninum því ákvörðuð þóknun skv. 1. mgr. 44. gr. f- laga nr. 19/1991, sem þykir hæfilega ákveðin kr. 100.000.

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.á.m. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Birgis Árnasonar, hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin kr. 200.000.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari.

Málinu var úthlutað dómara 3. september sl. og var það dómtekið að afloknum munnlegum málflutningi 26. október, en endurflutt, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991, 30. nóvember s.l., og loks endurupptekið 17. desember sl. samkvæmt heimildarákvæði 131. gr. nefndra laga vegna vitnaleiðslna skipaðs verjanda og var málið þá flutt að nýju og dómtekið.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði, Ævar Þór Ævarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði K 400.000 krónur í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. maí 1999 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 frá þ.d. til greiðsludags.

Ákærði greiði þóknun réttargæslumanns, Berglindar Svavarsdóttur, héraðsdómslögmans, 100.000 krónur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Birgis Árnasonar, hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.