Hæstiréttur íslands
Mál nr. 515/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 15. september 2011. |
|
Nr. 515/2011.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Torfi Ragnar Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Fallist var á með héraðsdómi að skilyrði væru til þess að X sætti farbanni en með hliðsjón af atvikum málsins var farbanninu markaður skemmri tími enda yrði að ætla að tíminn frá lokum aðalmeðferðar til þess tiltekna dags nægði til að ljúka dómi í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. september 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. september 2011, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi meðan máli Héraðsdóms Suðurlands nr. S-131-2011 er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 7. október 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með héraðsdómi að skilyrði séu til þess að varnaraðili sæti farbanni, en með hliðsjón af atvikum málsins, sem lýst er í hinum kærða úrskurði, þykir rétt að farbannið standi ekki lengur en til föstudagsins 30. september 2011, enda verður að ætla að tíminn frá lokum aðalmeðferðar til þess dags nægi til að ljúka dómi í málinu.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli ákæruvaldsins gegn honum fyrir Héraðsdómi Suðurlands, þó ekki lengur en til föstudagsins 30. september 2011 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. september 2011.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, kt. [...], [...] ,[...], verði bönnuð för frá Íslandi á meðan máli Héraðsdóms Suðurlands nr. S-131/2011 er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 7. október 2011, kl. 16:00.
Ákærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að farbanni verði einungis markaður tími til 15. september nk.
Í greinargerð ríkissaksóknara segir að með ákæru útgefinni 9. mars 2011 hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál fyrir Héraðsdómi Suðurlands á hendur sakborningi, X, fyrir tilraun til nauðgunar, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 30. júlí 2010, að [...] ,[...], reynt að þröngva brotaþola, A, kt. [...], með ofbeldi til samræðis eða annarra kynferðismaka, með því að veitast að henni, grípa um handleggi hennar og þvinga hana niður á gólf, slá hana í andlitið, sitja ofan á henni og halda henni, toga í hár hennar og reyna að afklæða hana.
Sakborningur þyki vera undir rökstuddum grun um að hafa með framangreindri háttsemi brotið gegn 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en slíkt brot geti varðað fangelsisrefsingu.
Brotaþoli hafi farið af landi brott til heimalands síns í [...] eftir meint brot og hafi dvalið þar síðan.
Málið hafi verið þingfest 19. apríl sl. þar sem fram hafi komið að ákærði neitaði sök. Málið hafi verið tekið fyrir 17. maí sl. þar sem lögð hafi verið fram greinargerð ákærða o.fl. Í þinghaldinu hafi verið ákveðið að aðalmeðferð færi fram 9. júní 2011. Í aðdraganda 9. júní sl. hafi ákæruvaldi borist upplýsingar um að brotaþoli vildi ekki koma fyrir dóminn og gefa skýrslu. Fyrirhugaðri aðalmeðferð hafi verið frestað utan réttar en boðað til fyrirtöku málsins 9. júní sl. Við þá fyrirtöku hafi ákæruvaldið lagt fram gögn, skjalmerkt nr.: 13 15, varðandi samskipti við brotaþola o.fl. Þá hafi ákæruvaldið gert kröfu um skýrslutöku af brotaþola fyrir dómsmálayfirvöldum í [...], sbr. dómskjal nr. 16. Með úrskurði héraðsdóms sem var kveðinn upp 1. júlí sl. hafi kröfunni verið hafnað. Ákæruvaldið hafi unað úrskurðinum. Með rafpósti sækjanda til héraðsdóms o.fl. hafi verið óskað eftir að fyrirhugaðri aðalmeðferð yrði frestað fram í september þar sem ákæruvaldið hafi ætlað að láta reyna til þrautar að fá brotaþola til að koma til landsins til skýrslugjafar. Með bréfi ríkissaksóknara til brotaþola 11. júlí sl. hafi leiðbeiningar verið veittar vegna málsins og gerð nánar grein fyrir fyrirhugaðri tilhögun á skýrslutöku brotaþola fyrir dómi, ferðalagi o.fl., sbr. dómskjal nr. 17 (samrit á [...]). Bréfið hafi verið birt af lögreglu fyrir brotaþola í [...]. Með erindi frá lögregluyfirvöldum í [...] 22. júlí sl. hafi verið tilkynnt um að brotaþoli hefði samþykkt að koma til landsins til skýrslugjafar, sbr. dómskjal nr. 20. Í framhaldinu hafi ríkissaksóknari hlutast til um nauðsynlegar ráðstafanir varðandi ferð brotaþola til landsins, farmiðakaup, hótelbókanir o.fl.
Að kröfu ríkissaksóknara hafi ákærða með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 19. apríl sl. verið bönnuð för frá Íslandi. Vegna óvissu um aðalmeðferð vegna málsins og fyrirkomulagi á skýrslutöku og brotaþola og vegna óvissu um samstarf brotaþola við ákæruvaldið um skýrslugjöf á Íslandi hafi ákærði verið látinn laus úr farbanni, sbr. bókun í þingbók 9. júní sl.
Fyrirhugað hafi verið að brotaþoli kæmi til Íslands með flugi frá [...] síðdegis þann 7. september sl. en af því hafi ekki orðið og um tíma verið óljóst um ástæður þess að brotaþoli kom ekki. Við upphaf aðalmeðferðar 8. september sl. hafi sækjandi upplýst um fjarveru brotaþola en ákveðið hafi verið að hefja aðalmeðferð þann dag og taka skýrslur af ákærða o.fl. Þá hafi einnig verið spiluð mynd- og hljóðupptaka af skýrslutöku af brotaþola hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi 31. júlí 2010. Að morgni 8. september sl., áður en aðalmeðferð hófst, hafi ríkissaksóknari lagt fyrir lögreglu að afla upplýsinga um brotaþola og leitast við að skýra fjarveru hennar, sbr. dómskjal nr. 22. Síðar sama dag hafi þær upplýsingar fengist frá lögreglu að brotaþoli hefði misst af flugi frá [...] en hún hefði lýst yfir vilja til að mæta til skýrslugjafar á Íslandi ef þess yrði óskað., sbr. dómskjal nr. 25 sem lagt hafi verið fram við upphaf þinghalds daginn eftir. Við lok þinghalds 8. september sl. hafi verið bókað að sækjandi krefðist þess að aðalmeðferð yrði frestað svo unnt yrði að taka skýrslu fyrir dómi af brotaþola. Með ákvörðun héraðsdóms hafi verið ákveðið að aðalmeðferð yrði framhaldið 9. september og skýrslutökur af öðrum vitnum yrðu kláraðar og síðan færi fram málflutningur um kröfu ákæruvaldsins um frestun aðalmeðferðar. Við framhald aðalmeðferðar að morgni 9. september sl. hafi ekki reynst unnt að taka símaskýrslu af B, lögregluvarðstjóra, þar sem ekki hafi náðst símasamband við vitnið á Spáni. Skýrslutökur af öðrum vitnum hafi verið kláraðar 9. september. Krafa ákæruvaldsins um fyrrgreinda frestun aðalmeðferðar, sem og vegna vitnisins B, hafi verið tekin til úrskurðar 9. september sl. og úrskurður kveðinn upp síðar sama dag. Ákæruvaldið hafi lagt áherslu á að málinu verði hraðað, sbr. bókun í þingbók 9. september.
Í málflutningi verjanda vegna frestunarkröfu hafi komið fram að ákærði hygðist fara frá Íslandi til Lettlands í byrjun október nk. og að hann ráðgerði að dveljast þar fram í janúar 2012. Þá hafi ákærði pantað farmiða og gert ráðstafanir vegna ferðalagsins. Hið sama hafi komið fram hjá ákærða 9. september í dómhúsi í hléi við rekstur málsins 9. september auk þess sem fram hafi komið að hann ætlaði að taka með sér bifreið í sinni eigu auk þess sem fram hafi komið að hann væri félítill. Ákærði hafi undanfarið verið með skráð lögheimili í [...] í húsnæði þar sem hann leigi herbergi. Ákærði sé ekki eigandi fasteignar hér á landi. Ákærði sé ekki talinn vera í launaðri vinnu og svo virðist sem hann hafi hrökklast í burtu og tengsl rofnað við samlanda, nágranna og/eða vinnufélaga [...] eftir að meint atvik áttu sér stað. Við skýrslutöku af syni ákærða, vitninu C, hjá lögreglu á Selfossi 2. desember sl., hafi meðal annars komið fram að samband þeirra feðga væri ekki mjög náið. Fyrir dómi við skýrslugjöf 8. september sl. hafi vitnið kannast við framburð sinn hjá lögreglu um þetta en virst gera minna úr meintu takmörkuðu sambandi þeirra feðga.
Ákæruvaldið telji vegna framangreindra persónulegra aðstæðna ákærða og þar sem hann sé borinn sökum um alvarlegt brot sem geti varðað hann fangelsisrefsingu, að veruleg hætta sé á því að ákærði fari til Lettlands og komi ekki til Íslands að nýju og komi sér þar með frá frekari meðferð málsins og hugsanlegri fullnustu fangelsisdóms.
Ákæruvaldið telji mikilvægt vegna frekari meðferðar málsins fyrir dómi, að ákærði dveljist áfram á Íslandi á meðan brotaþoli gefi skýrslu fyrir dómi. Við framburð brotaþola kunni að koma fram nýjar upplýsingar sem kunni að leiða til þess að nauðsynlegt verði að ákærði gefi skýrslu að nýju fyrir dómi. Þá hljóti nærvera ákærða við aðalmeðferð að skipta miklu máli svo tryggt sé að verjanda ákærða sé unnt með fullnægjandi hætti að gagnspyrja brotaþola um málsatvik. Þá skipti nærvera ákærða hér á landi einnig miklu máli komi til þess að hann verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og greiðslu skaðabóta en ákærði þurfi að taka við birtingu dómsins og taka afstöðu til áfrýjunar. Enn fremur sé nauðsynlegt vegna fullnustuhagsmuna, komi til sakfellingar samkvæmt ákæru, að tryggja nærveru ákærða, en ljóst sé að torvelt verði að fullnusta dóminn komi til þess að ákærði fari af landi brott og komi ekki aftur. Þá verði enn torveldara að ná fram fullnustu dómsins t.d. í Lettlandi ef ákærði fari frá Lettlandi til annars ríkis. Þurfi þá að koma til framsal frá viðkomandi ríki til Íslands og þaðan tilflutningur á fullnustu til heimalands.
Um heimild til farbanns sé vísað til b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Samkvæmt rannsóknargögnum var óskað eftir lögreglu og lækni að [...] að kvöldi 30. júlí sl. Hitti lögregla þar fyrir ætlaðan brotaþola sem bar áverka og var sýnilega í miklu uppnámi. Var mikið blóð á brotaþola. Ákærði var einnig á vettvangi og bar hann sjálfur áverka, en hann var all blóðugur og var aðeins klæddur í nærbuxur. Voru ummerki um átök í íbúðinni. Kom fram að bitið hefði verið framan af fingri ákærða.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu bar brotaþoli að hún og ákærði hefðu búið í sama húsi. Þau hafi bæði drukkið áfengi. Ákærði hafi viljað hafa við sig kynmök en það hafi hún ekki viljað. Ákærði hafi svo ráðist á sig í því skyni að reyna að hafa við hana kynmök en hún hafi veitt þá mótspyrnu sem hún hafi getað og hann hafi svo hætt eftir að hún hafi bitið hann.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu kannaðist ákærði við að hann og brotaþoli hefðu bæði drukkið áfengi. Kvað hann ætlaðan brotaþola hafa breyst og hún orðið árásargjörn og hafi hún byrjað að rífast og slást. Hafi orðið átök milli þeirra sem hafi lokið með því að hún hafi bitið af honum fingur.
Í rannsóknargögnum kemur fram að á neyðarmóttöku hafi brotaþoli virst vera fjarræn, í tilfinningalegu ójafnvægi, grátið, verið samhengislaus í frásögn, óróleg og óttaslegin. Þá hafi hún skolfið og verið með hroll, auk þess að vera föl og þreytuleg, auk vímuáhrifa. Þá kemur fram að ákærði hafi verið fluttur á sjúkrahús umrætt sinn. Hafi hann reynst vera með afrifur og klór en auk þess hafi verið bitið framan af litla fingri.
Líkt og greinir í kröfu ríkissaksóknara hófst aðalmeðferð máls nr. S-131/2011 þann 8. september 2011 og var haldið áfram 9. september 2011, en var þá frestað til 15. september 2011 að kröfu ákæruvalds. Hefur úrskurður um frestun ekki verið kærður. Má búast við að aðalmeðferð ljúk nefndan dag.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi hefur ákærði borið um samskipti sín við meintan brotaþola á áþekkan hátt og hjá lögreglu. Ekkert liggur fyrir um efnislega niðurstöðu málsins, enda aðalmeðferð þess ekki lokið.
Að virtum rannsóknargögnum og því sem fram kemur í kröfu ríkissaksóknara þykir bera að fallast á það með ákæruvaldinu að ákærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið það afbrot sem vísað er til í kröfunni og sem hann hefur verið ákærður fyrir og getur varðað hann fangelsisrefsingu ef sannast, sbr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt því sem lýst er í kröfu ríkissaksóknara þykir vera raunveruleg hætta á að ákærði muni fara burt frá Íslandi áður en dómur gengur í málinu. Hefur skýrlega komið fram hjá verjanda ákærða að hann hyggist fara til Lettlands í byrjun október nk. og hyggist ekki snúa aftur fyrr en í janúar 2012. Verði ákærði fundinn sekur blasir við að raunveruleg hætta er á því að hann muni ekki koma aftur til landsins til að afplána refsingu, en af því hefur hann augljósa hagsmuni. Samkvæmt gögnum málsins hefur ákærði ekki varanleg tengsl við landið, en litlu þykir breyta í því sambandi að hann hafi unnið hér um hríð og að sonur hans búi hér, en fram hafa komið vísbendingar um takmarkað samband þeirra. Það að farbanni hafi áður verið aflétt þykir ekki hafa hér afgerandi áhrif, enda lá þá ekki fyrir neitt um fyrirætlun ákærða að fara burt af landinu, en sem nú liggur fyrir.
Með vísan til þessa og á grundvelli b liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 101. gr., laga nr. 88/2008 verður því fallist á að kærði sæti farbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en tímalengd farbannskröfu þykir vera stillt í hóf, enda þykir ljóst að meðferð máls nr. S-131/2011 getur ekki lokið 15. september nk., en þann dag er fyrirhugað að ljúka aðalmeðferð málsins, auk þess að þá verður ekki kominn sá dagur sem ákærði hyggst fara til Lettlands.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærða, X, er bönnuð för frá Íslandi meðan máli Héraðsdóms Suðurlands nr. S-131/2011 er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 7. október 2011 kl. 16:00.