Hæstiréttur íslands

Mál nr. 175/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárslit milli hjóna
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 20. apríl 2010.

Nr. 175/2010.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Kærumál. Hjón. Fjárslit milli hjóna. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var frávísunarúrskurður héraðsdóms í máli þar sem K krafðist skilnaðar að borði og sæng frá M. Fyrir Hæstarétti var upplýst að daginn fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var kveðinn upp úrskurður um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila. Af forsendum hins kærða úrskurðar var ljóst að upplýsingar um þetta hafi ekki legið fyrir þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Af þessum ástæðum og með vísan til 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 var talið óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fyrir Hæstarétti er upplýst að 2. mars 2010, daginn fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar, var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurður um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila. Af forsendum hins kærða úrskurðar er ljóst að upplýsingar um þetta hafa ekki legið fyrir þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Af þessum ástæðum og með vísan til 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 8. febrúar, að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, var höfðað fyrir dómþingi Reykjavíkur með stefnu birtri 8. nóvember 2009 af K, [...], [...], á hendur M, [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær, að henni verði með dómi veittur skilnaður að borði og sæng frá stefnda.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.  Til vara krefst stefndi þess, að skilnaði að borði og sæng verði hafnað og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Er frávísunarkrafa stefnda einungis til úrlausnar hér.

II

Málavextir eru þeir, að málsaðilar gengu í hjónaband hinn [...].  Þau eiga engin börn.  Stefndi bjó þá í [...] og flutti stefnandi skömmu eftir brúðkaupið til hans, ásamt tveimur börnum sínum.

Stefnandi kveður að fljótlega eftir brúðkaupið hafi stefndi farið að beita hana og börnin ofbeldi og jafnframt hafi komið í ljós að fjármál hans væru í miklum ólestri.  Stefndi hefur mótmælt þessum fullyrðingum stefnanda.  Stefndi kveðst hafa haft um 14.500.000 króna árstekjur á þeim tíma sem sambúð aðila hafi varað.  Hann hafi algjörlega séð um framfærslu fjölskyldunnar.  Stefndi kveður stefnanda hins vegar hafa sýnt sér óvirðingu og hafi erfitt viðmót dóttur stefnanda gert heimilisaðstæður erfiðar.  Deilur um uppeldisaðferðir hafi verið daglegt brauð og öll ástúð og virðing í hjónabandinu hafi farið dvínandi.  Stefnda var sagt upp vinnu sinni á árinu 2009 og hafi þá verið ákveðið að flytja á ný til Íslands.  Kveðst stefnandi þá hafa tilkynnt stefnda að hjúskapnum væri lokið og hafi þau slitið samvistum 28. júlí 2009.  Stefndi kveðst hafa óskað eftir skilnaði áður en þau fluttu til Íslands og tekið þá ákvörðun eftir að til Íslands kom, að óska eftir skilnaði.

Stefnandi mætti hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 14. ágúst 2009 og óskaði eftir skilnaði að borði og sæng á grundvelli 33. eða 34. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  Stefnandi lýsti þar yfir eignaleysi.  Stefndi mætti hjá sýslumanninum hinn 16. september 2009 og hafnaði beiðni um skilnað að borði og sæng á þeim forsendum, sem stefnandi tilgreindi.  Hann fullyrti að búið væri ekki eignalaust, en staðfesti að þar væri hvorki að finna fasteign né bifreið, en sagði að innbúið væri verðmætt.  Ástæða þess að stefnandi hafi lýst yfir eignaleysi kveður stefndi vera þá, að allt innbúið sé á hennar heimili og hefði hann tekið undir fullyrðingar stefnanda um að búið væri eignalaust hefði hann aldrei fengið afhenta þá hluti úr búinu sem honum beri.  Stefndi kveður stefnanda ekki hafa afhent sér persónulega muni sína eða gögn í hans eigu, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. 

Með tölvupósti, dagsettum 28. september 2009, var þess óskað af hálfu lögmanns stefnanda að málinu yrði vísað frá embætti sýslumannsins, þar sem sættir myndu ekki takast.  Málinu var vísað frá embætti sýslumannsins þar sem ekki höfðu tekist sættir.

III

Stefnandi byggir kröfu sína um skilnað að borði og sæng á 34. gr. laga nr. 31/1993 og höfðar mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 31/1993.  Stefnandi telur sig ekki geta haldið áfram í hjúskap með stefnda. Aðilar eigi engin börn saman.  Þá kveður stefnandi að ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga nr. 31/1993 eigi ekki við í máli þessu.

Aðilar hafi ekki samið um fjárskipti sín, m.a. vegna ágreinings um eignastöðu.  Stefnandi telur búið vera eignalaust.  Stefndi fullyrði að í félagsbúi aðila sé verðmætt innbú, en staðfesti hjá sýslumanni að um aðrar eignir sé ekki að ræða.  Stefnandi hafi lýst yfir eignaleysi við fyrirtöku hjónaskilnaðarmálsins hjá sýslumanni hinn 14. ágúst 2009, og sé það ígildi fjárskiptasamnings, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993. Að mati stefnanda séu engar lagalegar hindranir sem standi í vegi fyrir því að skilnaður að borði og sæng verði veittur á grundvelli 34. gr. laga 31/1993.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 130. gr. þeirra laga. 

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri henni nauðsyn til að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.

IV

Stefndi kveðst frá upphafi málsins hafa viljað fá skilnað, en það sé ekki mögulegt fyrr en búið sé að skipta búinu og hann hafi fengið sína persónulegu muni og gögn, sem séu á heimili stefnanda.  Af þeim sökum fari hann fram á frávísun málsins, með vísan til 1. mgr. 44. gr. og 95. gr. laga nr. 31/1993, þar sem ekki sé fullnægt lögmæltum skilyrðum fyrir höfðun máls þessa.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 130. gr. og 131. gr. laganna, en að mati stefnda, sé málshöfðun þessi þarflaus í skilningi a-liðar ákvæðisins og því beri stefnanda að greiða stefnda málskostnað .

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnanda.

V

Aðilar málsins hafa ekki komist að samkomulagi um fjárskipti sín á milli og ágreiningur er um eignastöðu.  Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 31/1993 skal, áður en skilnaður er veittur annað tveggja vera samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárskipta.

Samkvæmt 95. gr. laga nr. 31/1993 skal ráða fjárskiptum hjóna vegna skilnaðar að borði og sæng annars vegar með fjárskiptasamningi og hins vegar með yfirlýsingu þeirra um eignaleysi, staðfest fyrir sýslumanni eða dómara eftir því hvar skilnaðarmálið er til meðferðar.  Samkvæmt orðanna hljóðan er vafalaust að yfirlýsing annars hjóna um eignaleysi nægir ekki.

Eftir að mál þetta var höfðað óskaði stefnandi eftir að félagsbú aðila yrði tekið til opinberra skipta, en úrskurður hefur ekki enn verið kveðinn upp.  Eru því opinber skipti á búinu ekki hafin. 

Samkvæmt þessu er því ekki fullnægt skilyrðum fyrir höfðun máls þessa og ber að fallast á frávísunarkröfu stefndu.  

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.