Hæstiréttur íslands
Mál nr. 407/2004
Lykilorð
- Ábyrgð
- Banki
|
|
Fimmtudaginn 17. mars 2005. |
|
Nr. 407/2004. |
Ingólfur Gauti Ingvarsson(Halldór H. Backman hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Ábyrgð. Bankar.
I var gert að greiða L hf. tiltekna fjárhæð óskipt með S ehf. samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu þar sem I ábyrgðist skuldbindingar S ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 23. júlí 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. september sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 5. október 2004 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með hinum áfrýjaða dómi var Suðvestan tveimur ehf. gert að greiða stefnda 7.566.433 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Jafnframt var áfrýjanda óskipt með Suðvestan tveimur ehf. gert að greiða 4.200.000 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Suðvestan tveir ehf. unir héraðsdómi og er því eingöngu þáttur áfrýjanda til endurskoðunar hér fyrir dómi.
Í yfirliti stefnda um tékkareikning nr. 1147 dagsettu 22. maí 2003 kemur fram að síðasta hreyfing á reikningnum hafi verið 1. október 2002 og hafi yfirdráttarskuld á honum þá numið 8.327.891 krónu. Þá var bréf það sem veitti handveð í viðskiptakröfum og innheimtum kröfum Suðvestan tveggja ehf. gefið úr 30. janúar 2001. Að öðru leyti er málavöxtum rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að í stefnu til héraðsdóms hefur stefnda láðst að tilgreina fyrirsvarsmann stefnanda svo sem honum bar að gera samkvæmt b. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ingólfur Gauti Ingvarsson, greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 6. júní 2003.
Stefnandi er Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 11, Reykjavík vegna útibús bankans að Höfðabakka 9, Reykjavík.
Stefndu eru Suðvestan tveir ehf, Stórhöfða 15, Reykjavik og Ingólfur Gauti Ingvarsson, Lækjarhvammi 15, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Suðvestan tveir ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 7.566.433,03 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 8.327.891,03 krónum frá 1. október 2002 til 3. júní 2003, af 7.566.433,03 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að stefndi, Ingólfur Ingvarsson, verði dæmdur til að greiða þar af in solidum með stefnda, Suðvestan tveimur ehf., 4.200.000 krónur auk dráttarvaxta frá 1. október 2002 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafist málskostnaðar.
Einnig er þess krafist að stefndi, Suðvestan tveir ehf., verði dæmdur til að þola staðfestingu og viðurkenningu skv. handveðsbréfi nr. 100281 útgefnu þann 30. janúar 2001 að fjárhæð 5.000.000 króna sem er falið Landsbanka Íslands hf., skv. 22. gr. 1. nr. 75/1997 um samningsveð.
Af hálfu stefnda, Ingólfs Gauta Ingvarssonar, er þess krafist að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.
Af hálfu stefnda, Suðvestan tveggja ehf. hefur ekki verið sótt þing.
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að þann 16. mars 2000 stofnaði stefndi, Suðvestan tveir ehf., tékkareikning nr. 1147 við útibú stefnanda að Höfðabakka, Reykjavík og fékk jafnframt útgefið debetkort til úttekta of reikningnum. Þann 16. mars 2000 námu innistæðulausar færslur á reikningnum 8.327.891,03 krónum. Var reikningnum lokað. Með sjálfskuldarábyrgð, dags. 1. mars 2001 tók stefndi, Ingólfur Gauti Ingvarsson, ábyrgð á skuld þessari sem sjálfskuldarábyrgðaraðili gagnvart Landsbanka Íslands hf., fyrir allt að 4.200.000 króna auk vaxta og kostnaðar við innheimtu skuldarinnar. Þann 3. júní 2003 voru greiddar 761.458 krónur inná skuldina. Stefnufjárhæðin í þessu máli sé því 7.566.433,03 krónur. Tekið hefur verið tillit til þess í dómkröfum.
Kröfu um handveðsbréfið sé þannig til komin að stefndi, Suðvestan tveir ehf., hafi gefið út þann 30. janúar 2002 handveðsbréf (lausafé eða viðskiptabréf (22.gr.)) nr. 100281 að fjárhæð 5.000.000 krónur til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu sinni á skuldum sínum við Landsbanka Íslands hf. Með handveðsbréfinu setti stefndi, Suðvestan tveir ehf., Landsbanka Íslands hf., að veði viðskiptakröfur í innheimtuþjónustu Landsbanka Íslands hf., Höfðabakkaútibúi og kjörbók nr. 0116-05-62636 sem innheimtar kröfur ráðstafast inn á.
Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða má1 til greiðslu hennar.
Byggt er á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt of málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi Ingólfur kveðst hafa ráðist til starfa hjá stefnda, Suðvestan tveimur ehf., sem framkvæmdastjóri á árinu 2000 en það félag rak útgáfustarfsemi. Viðskiptahugmynd félagsins hafi byggst á útgáfu hótelbókarinnar, Gestsins, sem markaðssett var fyrir ferðaþjónustu og tekjur félagsins byggst að meginstefnu á því að selja auglýsingar í bókina en fyrsta útgáfa bókarinnar skyldi koma út vorið 2001.
Stefnandi hafi verið viðskiptabanki félagsins og það fengið lánafyrirgreiðslu á árinu 2000 með yfirdrætti á tékkareikningi félagsins hjá Höfðabakkaútibúi stefnanda nr. 1147.
Í ársbyrjun 2001 hafi yfirdráttarskuld félagsins á tilgreindum reikningi numið 3.074.427 krónum.
Þann 30. janúar 2001 undirritaði stefndi handveðsbréf til stefnanda fyrir hönd reikningshafa þar sem settar voru veði viðskiptakröfur félagsins á hendur viðskiptamönnum sínum til tryggingar skuldum allt að 5.000.000 króna auk vaxta og kostnaðar. Þar sem ekki hafi verð komið að útgáfu bókarinnar hafi ekki verið unnt á þessu tímamarki að innheimta viðskiptakröfur félagsins og hafi stefndi því samþykkt þann l. mars 2001 að ábyrgjast yfirdráttarskuld á reikningi félagsins allt að 4.200.000 krónum til þess að unnt væri að ljúka gerð bókarinnar. Stefndi heldur því fram að samkomulag hafi verið um að ábyrgðin félli niður þegar reikningar og innheimtukröfur hefðu verið afhentar stefnanda. Stefndi samþykkti að nýju sjálfskuldarábyrgð á yfirdrætti á tékkareikningi nr. 1147 allt að 700.000 krónum með yfirlýsingu dags. 6. jú1í 2001.
Í sjálfskuldaryfirlýsingu þessari komi skýrlega fram að upphæð hámarksheimildar sem ábyrgst er sé 700.000 króur og sé skuldbindingin skilgreind þannig:
"Ábyrgðarmaðurinn gengst í ábyrgð á skuldbindingu viðskiptamanns sem sinni eigin skuld, en það nefnist sjálfskuldarábyrgð, allt í samræmi við tilgreinda skilmála á fram- og bakhlið þessa skjals og almenn viðskiptakjör einstaklinga við Landsbankann svo og almenna ábyrgðarskilmála.
Ábyrgðin er bundin við hámarksfjárhæð nema það sé sérstaklega tekið fram hér að neðan."
Á bakhlið yfirlýsingarinnar sé kveðið á um í 3. gr. að ábyrgðarmaður takmarki ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð en beri að greiða auk þess vexti og kostnað sem fylgi bankalegri kröfugerð, standi aðalskuldari ekki við umsamda greiðsluskyldu, svo og kostnað of lögfræðilegri innheimtu þeirrar skuldar sem ábyrgðinni er ætlað að tryggja.
Af þessu megi ljóst vera að ábyrgðin frá 6. jú1í 2001 hafi kveðið á um hámarksábyrgð stefnda á yfirdrætti á tékkareikningi nr. 1147 og því ljóst að fyrri ábyrgð hafi verið niður fallin enda í samræmi við fullyrðingar stefnda um málsatvik og samninga aðila.
Stefndi hafi greitt upp ábyrgð sína samkvæmt þessari ábyrgð þann 3. júní 2003 og beri kvittun stefnanda áritunina "lokagreiðsla ábyrgðar nr. 1147".
Á því er byggt að með því hafi hann efnt að fullu ábyrgðir þær sem hann gekk í fyrir yfirdrætti á tékkareikningi nr. 1147 enda hafi ábyrgðaryfirlýsingin frá 1. mars 2001 verið fallin niður við útgáfu hinnar síðari eða að minnsta kosti í síðasta lagi fallið niður við útgáfu hennar.
Því er haldið fram að með vísan til stöðu aðila beri að meta allan vafa um efnisinnihald skjala og samninga um sjálfsskuldarábyrgðir stefnda í hag.
Stefndi bendir jafnframt á máli sínu til stuðnings að ábyrgðar þeirrar sem stefnandi krefur í máli þessu sé ekki getið í skráningu Reiknistofu bankanna um fjárhagsstöðu einstaklinga en aðilar að reiknistofunni hafa skuldbundið sig til þess að skrá slíkar skuldbindingar þannig að einstaklingar geti fengið heildaryfirlit um skuldbindingar sínar í bankakerfinu.
Stefndi styður kröfur sínar við almennar reglur samninga- og kröfuréttar um samninga og gildi sjálfskuldarábyrgða.
Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
NIÐURSTAÐA
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda Ingólf Ingvarsson um greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu stefnda frá 1. mars 2001 þar sem stefndi ábyrgist skuldbindingar meðstefnda Suðvestan tveggja ehf. vegna reikningsláns á reikningi nr. 1147 og er upphæð hámarksheimildar 4.200.000 króna að því er fram kemur á yfirlýsingunni sem er sú fjárhæð sem þessi stefndi er krafinn um auk vaxta og kostnaðar. Ekki er tilgreind nein takmörkun ábyrgðar stefnda og ekki eru henni sett tímamörk í yfirlýsingu þessari. Leiðir þannig ekki af efni yfirlýsingarinnar sjálfrar að hún sé niður fallinn. Stefndi heldur því fram að um það hafi verið samið að ábyrgðin félli úr gildi þegar reikningar viðskiptaaðila meðstefnda og innheimtukröfur hefðu borist stefnanda og segir í greinargerð hans að útibússtjóri stefnanda geti staðfest þetta. Þessari staðhæfingu var mótmælt af Tómasi Hallgrímssyni, þá svæðisstjóra stefnanda og Kolbrúnu Stefánsdóttur, útibússtjóra hjá stefnanda og hefur stefnda ekki tekist sönnun um það að yfirlýsing hans hafi fallið úr gildi vegna samkomulags um það við stefnanda.
Stefndi Ingólfur gaf út yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð 6. júlí 2001 að fjárhæð 700.000 krónur til tryggingar skuld meðstefnda vegna reikningslaáns á sama reikningi og fyrr er getið. Stefndi greiddi stefnanda 810.000 krónur 3. júní 2003 og segir í kvittun til hans dagsettri þann dag að þar sé um að ræða lokagreiðslu ábyrgðar nr. 1147. Stefndi heldur því fram að með útgáfu þeirrar yfirlýsingar hafi hin fyrri frá 1. mars sama árs fallið niður. Telja má augljóst að yfirlýsingin frá 6. júlí hafi verið gefin til frekari tryggingar skuldum meðstefnda Suðvestan tveggja ehf. og að með henni hafi stefndi leystst undan skyldum sínum samkvæmt yfirlýsingunni frá 1. mars. Er því þessari málsástæðu stefnnda hafnað.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda á hendur stefnda Ingólfi Ingvarssyni teknar til greina með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Af hálfu stefnda Suðvestan tveggja ehf. hefur ekki verið sótt þing og verður málið dæmt gagnvart honum eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda og verða kröfu stefnanda teknar til greina að öllu leyti.
Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmdir in soildum til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Suðvestan tveir ehf. greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf. 7.566.433,03 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 8.327.891,03 krónum frá 1. október 2002 til 3. júní 2003, en af 7.566.433,03 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi, Ingólfur Ingvarsson, greiði stefnanda, Landsbanka Íslands, in solidum með stefnda, Suðvestan tveimur ehf., 4.200.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. október 2002 til greiðsludags.
Staðfestur er veðréttur stefnanda í viðskiptakröfum í innheimtuþjónustu Landsbanka Íslands, Höfðabakkaútibúi og kjörbók nr. 0116-05-62636, sem innheimtar kröfur ráðstafast inn á, samkvæmt handveðsbréfi nr. 100281 útgefnu 30. janúar 2001 af stefnda Suðvestan tveimur ehf. að fjárhæð 5.000.000 króna.
Stefndi Suðvestan tveir ehf. og stefndi Ingólfur Ingvarsson greiði stefnanda Landsbanka Íslands óskipt 500.000 krónur í málskostnað.