Hæstiréttur íslands
Mál nr. 630/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. ágúst 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að matsmaður verði dómkvaddur í samræmi við matsbeiðni, en til vara að það verði gert að því undanskildu að felld verði brott orðin „í skilningi höfundaréttar“ í fyrsta og öðrum lið í beiðninni. Í báðum tilvikum krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila hóf Gunnar Bachmann á árinu 1935 starfsemi undir heitinu Rafskinna, sem fólst í birtingu auglýsinga á svonefndri flettiauglýsingagrind. Sóknaraðilar kveða þetta tæki hafa verið rafknúið, þar hafi verið flett teikningum með auglýsingum frá ýmsum fyrirtækjum og hafi það verið staðsett í glugga við Austurstræti í Reykjavík. Gunnar hafi einhvern tíma á árabilinu 1943 til 1945, líklega á síðastnefnda árinu, fengið Jón Kristinsson, föður sóknaraðila, til að teikna auglýsingar fyrir þessa starfsemi og því hafi Jón sinnt allt þar til hún lagðist af 1957. Staðið hafi verið þannig að þessu að Gunnar hafi rætt við auglýsendur og komið óskum þeirra á framfæri við Jón, sem hafi síðan unnið úr þeim. Jón hafi fengist við þetta sem verktaki, en ekki gert skriflegan samning við Gunnar um skipti þeirra að frátöldum samningi um verk á afmörkuðum tíma á árinu 1949. Jón hafi framan af haft aðstöðu til vinnu sinnar á teiknistofu, en á síðari stigum á heimili sínu og hafi hann allt frá byrjun sjálfur lagt til efni og áhöld. Auglýsingarnar, sem Jón hafi gert, hafi verið málaðar teikningar á pappír með „teiknuðum texta úr letri sem Jón hannaði“, svo sem komist var að orði í matsbeiðni sóknaraðila, og hafi þar jafnframt verið teikningar af merki eða vöru auglýsandans. Teikningarnar hafi flestar eða allar verið merktar Rafskinnu og stundum líka með nafni Jóns. Hann hafi afhent Gunnari frummynd auglýsinga og ekkert afrit verið gert, en þær hafi síðan verið til sýnis í auglýsingagrindinni í tvær til þrjár vikur. Sóknaraðilum sé ekki kunnugt um að Gunnar hafi notað myndirnar frekar, að því frágengnu að örfáar þeirra hafi verið birtar í auglýsingum í dagblöðum. Að þessari notkun lokinni hafi Jón tekið einhvern hluta myndanna aftur til sín, en aðrar orðið eftir hjá Gunnari.
Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að Jón Kristinsson lést 2009. Þar er einnig greint frá því að Gunnar Bachmann hafi fallið frá 1957, en eitt fjögurra barna hans hafi verið Benedikt Bachmann, sem hafi andast 2012. Ekkja Benedikts sé varnaraðilinn Margrét og séu varnaraðilarnir Hrefna og Þorsteinn börn þeirra, en þau þrjú hafi á árinu 2013 stofnað varnaraðilann Familíuna ehf. og það félag síðan skráð lénið rafskinna.net.
Sóknaraðilar kveða varnaraðilann Þorstein hafa tjáð einu þeirra í október 2013 að afkomendur Gunnars Bachmann undirbyggju sýningu í Gallerí Fold í Reykjavík, sem varnaraðilinn Fabrik ehf. rekur, á myndverkum, sem Jón Kristinsson og annar nafngreindur maður hafi gert og birst í Rafskinnu. Ekki hafi verið leitað samþykkis sóknaraðila fyrir opinberri sýningu á verkum Jóns. Í framhaldi af þessu hafi sóknaraðilum meðal annarra verið boðið að vera viðstödd opnun sýningarinnar 1. nóvember 2013. Á boðskortum hafi verið mynd, sem hafi verið skeytt saman úr hlutum af fjölmörgum teikningum Jóns, auk þess sem þar hafi verið orðið Rafskinna, sem hafi verið sett saman með bókstöfum sem hafi verið klipptir út úr texta á myndverkum hans. Á sýningunni hafi frummyndir af verkum Jóns verið til sölu, en að auki hafi myndverkin verið fjölfölduð með gerð veggspjalda, póstkorta og límmiða, sem einnig hafi verið boðin til sölu. Veggspjöldin hafi verið merkt með áletruninni „© familían ehf. | www.rafskinna.net“, en Jóns ekki getið sem höfundar verkanna.
Eftir árangurslausar tilraunir aðilanna til að ná samkomulagi höfðuðu sóknaraðilar mál 20. október 2015 á hendur varnaraðilum. Gerðu sóknaraðilar í ellefu töluliðum kröfur um afhendingu tilgreindra myndverka Jóns Kristinssonar eða eftir atvikum eftirgerðar þeirra og greiðslu tiltekinna fjárhæða í skaðabætur vegna ætlaðs fjártjóns og miska, svo og um að varnaraðilum yrði gert að fjarlægja nánar tilgreint efni af vefnum og afhenda sóknaraðilum tiltekið myndefni til eyðingar auk þess sem þau yrðu dæmd, að undanskildum varnaraðilanum Fabrik ehf., til að fá birtan dóm í málinu í dagblöðum. Varnaraðilar tóku til varna í málinu. Ein af mörgum málsástæðum, sem varnaraðilarnir Familían ehf., Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Þorsteinn Bachmann báru fyrir sig í greinargerð fyrir héraðsdómi, laut að kröfum sóknaraðila, sem vörðuðu bókstafi og letur í myndverkum Jóns. Í því sambandi báru varnaraðilarnir einkum fyrir sig að almennt gæti leturgerð ekki talist „uppfylla skilyrði um að vera ný og sjálfstæð andleg sköpun“ og þannig orðið háð höfundarétti. Fyrir slíku bæru sóknaraðilar sönnunarbyrði, en þau hafi hvorki rökstutt í stefnu hvers vegna Jón hafi átt höfundarétt að letri á myndverkunum né fært fram sönnur fyrir því.
Sóknaraðilar lögðu fram í þinghaldi í héraði 24. maí 2016 beiðni um að dómkvaddur yrði „matsmaður, helst grafískur hönnuður, til þess að meta staðreyndir og inna af hendi mat í því skyni að færa fram sönnur um, hvort letur sem er að finna í myndverkum Jóns Kristinssonar sem tilgreind eru á fylgiskjölum ... með matsbeiðninni, sé afrakstur sjálfstæðs, persónulegs sköpunarframlags Jóns og þar með verk í skilningi höfundalaga nr. 73/1972.“ Í beiðninni gerðu sóknaraðilar í þremur liðum nánari grein fyrir því, sem meta skyldi. Í fyrsta lagi leituðu þau eftir því að matsmaður lýsti í stuttu máli letri á tilteknum myndverkum Jóns og „fagurfræðilegum einkennum þess, s.s. grunngerð og uppbyggingu letursins og öðrum þeim einkennum sem kunna að gefa letrinu listrænt gildi eða leiða til þess að Jón Kristinsson hafi innt af hendi sjálfstætt og persónulegt framlag í skilningi höfundaréttar til sköpunar letursins og einstakra stafa sem fyrirfinnast á myndverkunum.“ Í öðru lagi að matsmaður lýsti sérstaklega letri í sex tilgreindum myndverkum Jóns, sem sóknaraðilar teldu að notað hafi verið í úrklippum til að mynda orðið Rafskinna á póstkortum og límmiðum sem dómkröfur þeirra varða, en nánar væri þá átt við að „matsmaður lýsi grunngerð og uppbyggingu letursins og einstakra stafa og öðrum þeim einkennum sem kunna að gefa letrinu og einstökum bókstöfum listrænt gildi eða leiða til þess að Jón Kristinsson hafi innt af hendi sjálfstætt og persónulegt framlag til sköpunar letursins og einstakra bókstafa í skilningi höfundarréttar.“ Í þriðja lagi að matsmaður legði „með rökstuddum hætti faglegt mat sitt á það hvort letur það er greinir í lið 1 og 2 að framan og einstakir bókstafir séu afrakstur sjálfstæðs og persónulegs sköpunarframlags Jóns Kristinssonar.“ Varnaraðilar andmæltu því að matsmaður yrði dómkvaddur og var beiðni sóknaraðila sem áður segir hafnað með hinum kærða úrskurði.
II
Fyrir Hæstarétti hafa varnaraðilar lýst sig sammála forsendum hins kærða úrskurðar. Koma því ekki til skoðunar hér fyrir dómi þær röksemdir, sem varnaraðilar færðu í héraði fyrir andmælum sínum gegn matsbeiðni sóknaraðila og hafnað var í úrskurðinum.
Svo sem ráðið verður af áðursögðu reisa sóknaraðilar dómkröfur sínar á hendur varnaraðilum meðal annars á því að Jón Kristinsson hafi átt höfundarétt að myndverkunum, sem hann gerði í þágu Gunnars Bachmann, og taki sá réttur jafnframt til leturs á þeim. Ljóst er að við úrlausn um efni málsins yrðu sóknaraðilar að bera halla af því að ekki yrði sýnt fram á að letur þetta hafi verið gert þannig úr garði að fullnægt sé skilyrðum til að telja það háð höfundarétti. Ekki er á færi dómara að taka eingöngu á grundvelli almennrar þekkingar sinnar og menntunar eða lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, afstöðu til þess hvort letrið hafi verið þessum eiginleikum gætt. Þótt dómari geti beitt heimild í 2. mgr. 2. gr. sömu laga til að kveðja menn, sem búa yfir sérþekkingu á þessu sviði, til að taka sæti í dómi í málinu, getur kunnátta slíkra meðdómsmanna ekki komið í stað sönnunarfærslu af hendi aðilanna, heldur er það hlutverk meðdómsmanna að þessu leyti að taka ásamt dómsformanni afstöðu til sönnunargagna varðandi sérhæfð atriði máls. Sóknaraðilar verða að bera kostnað af matsgerð, sem þau gera kröfu um, og áhættu af því hvort hún komi að notum, en ófært er að líta svo á að fyrir fram sé ljóst að hún verði tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. áðurnefndra laga. Eru því ekki efni til að hafna kröfu sóknaraðila um að dómkvaddur verði matsmaður.
Hér að framan voru tekin upp meginatriðin í lýsingu sóknaraðila á því, sem þau vilja fá metið, en það hafa þau greint í þrjá liði. Í fyrstu liðunum tveimur hafa þau meðal annars lýst þessu svo að þau leiti matsgerðar um hvort Jón Kristinsson hafi innt af hendi sjálfstætt og persónulegt framlag „í skilningi höfundaréttar“ við gerð leturs á myndverkum sínum. Tilvitnuðum orðum er ofaukið í beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns, enda er það ekki hlutverk slíks manns að taka afstöðu til skilnings á lagareglum á sviði höfundaréttar. Þá er í þriðja liðnum í raun ekki annað að finna en endurtekningu á því, sem fram kemur í fyrri liðunum tveimur, að viðbættu því að óskað er eftir að matsmaður leggi „með rökstuddum hætti faglegt mat“ á þau atriði sem hinir liðirnir varði. Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 er matsmanni gert að semja rökstudda matsgerð, þar sem greind séu þau sjónarmið sem álit hans er reist á, en af eðli máls leiðir að slíkt álit feli í sér það, sem sóknaraðilar nefna samkvæmt áðursögðu faglegt mat. Þessum lið í matsbeiðni er því jafnframt ofaukið.
Að virtu því, sem að framan segir, verður fyrrgreind varakrafa sóknaraðila fyrir Hæstarétti tekin til greina að öðru leyti en því að hafna verður beiðni þeirra um dómkvaðningu manns til að leggja mat á þau atriði, sem greinir í þriðja lið hennar.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Beiðni sóknaraðila, Guðbjargar Jónsdóttur, Gunnars Rafns Jónssonar, Katrínar Jónsdóttur, Kristins Jónssonar, Kristjönu Jónsdóttur, Sigrúnar Jónsdóttur, Sveinbjörns Jónssonar, Þorsteins Jónssonar og Þórhildar Jónsdóttur, um dómkvaðningu matsmanns er tekin til greina á þann hátt, sem segir í forsendum dóms þessa.
Varnaraðilar, Fabrik ehf., Familían ehf., Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Þorsteinn Bachmann, greiði óskipt sóknaraðilum 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. ágúst 2016
I.
Mál þetta var höfðað með stefnu þingfestri 29. október 2015. Af hálfu stefnanda er þess a) aðallega krafist að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að afhenda stefnendum frumgerðir 163 myndverka Jóns Kristinssonar sem tilgreind eru í stefnu. Jafnframt krefjast stefnendur þess b) aðallega að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlegadæmd til að afhenda stefnendum frumgerðir annarra sex tilgreindra myndverka.
Verði þær aðalkröfur sem tilgreindar eru í liðum a) og b) ekki teknar til greina er þess krafist til vara að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði dæmd til að afhenda eftir gerðir af þeim verkum sem tilgreind eru í a- og b-liðum aðalkröfu, nánar tiltekið rafræn eintök af skönnuðum verkum eða litfilmur.
Stefnendur krefjast þess jafnframt að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 5.131.067 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur þess að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann og Margrét Þorsteinsdóttir verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum miskabætur að fjárhæð kr. 11.990.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnendur krefjast þess einnig að stefndi Fabrik ehf. verði dæmdur til að greiða stefnendum skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 1.089.573 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Enn fremur er þess krafist að stefndi Fabrik ehf. greiði stefnendum miskabætur að fjárhæð kr. 15.080.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefjast stefnendur þess að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 1.224.316 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er þess krafist að Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnendum miskabætur fyrir að fjárhæð kr. 470.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2013 til birtingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnendur krefjast þess einnig að stefndi Familían ehf. verði dæmdur til að fjarlægja kynningarmerkið RAFSKINNA af vef sem er vistaður á léninu rafskinna.net og að fjárlægja fimm tilgreindar færslur af samskiptavefnum facebook.com.
Loks er þess krafist að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði dæmd til að þola að öll eintök í birgðum af eftirprentunum af verkum Jóns Kristinssonar í formi boðskorts, póstkorta, límmiða, veggspjalda og auglýsingaspjalds verði afhent stefnendum til eyðingar og að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, og Margrét Þorsteinsdóttir verði dæmd til að fá birtan dóm í máli þessu í heild í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Loks er þess krafist að stefndu Familían ehf., Þorsteinn Bachmann, Hrefna Bachmann, Margrét Þorsteinsdóttir og Fabrik ehf. verði dæmd til að greiða stefnendum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur.
II.
Við fyrirtöku málsins 24. maí sl. lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu eins matsmanns með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Af hálfu stefndu var beiðninni mótmælt. Lögmönnum aðila var gefinn kostur á munnlegum athugasemdum í þinghaldi 7. júní sl. og síðan aftur í þinghaldi 26. ágúst sl. en ágreiningur aðila að svo búnu tekinn til úrskurðar.
Stefndu mótmæla beiðninni á þeim forsendum að ekki sé unnt að leggja mat á þau atriði sem beiðnin lýtur að. Þá sé matsbeiðnin í andstöðu 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, um að dómari leggi sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar.
Í matsbeiðni stefnenda kemur fram að við mat á því hvort verk verði talið list í skilningi höfundarlaga þannig að það sé háð höfundarrétti reyni einkum á almenna þekkingu og menntun, auk lagaþekkingar, en á þetta leggi dómari sjálfstætt mat, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Við mat á gildi leturs í þessu tilliti þurfi að líta til ýmissa tæknilegra atriða, en á þau verði færðar sönnur eftir almennum reglum, þar með talið með matsgerð eftir almennum reglum IX. kafla laga nr. 91/1991. Því hafi matsbeiðandi kosið að afla matsgerðar til framlagningar í dómi til sönnunar á því að teikning letursins hafi falið í sér sjálfstæða sköpun í skilningi höfundaréttar og að sá hluti verkanna sem er letur, eins og meginefni myndverkanna, teljist vera verndað verk í skilningi 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 72/1972. Beiðni matsbeiðanda snúi þannig að því að fá dómkvaddan óvilhallan matsmann til að færa fram staðreyndir til að staðreyna hvort framangreint letur teljist verk í skilningi höfundalaga.
Í munnlegum athugasemdum sínum vísaði lögmaður stefnanda til þess að í stefnu komi fram áskilnaður um frekari gagnaöflun, meðal annars með matsbeiðni og að tilefni til þess að leggja fram matsbeiðni hefði fyrst komið fram í kjölfar þess að greinargerðir stefndu voru lagðar fram. Þá lagði lögmaður stefnanda áherslu á að ekki væri gerð krafa um það í matsgerð að meta ætti hvort verk nyti verndar að höfundarrétti heldur hvort letrið sem um ræðir í málinu væri sjálfstætt og persónulegt sköpunarframlag Jóns Kristinssonar.
Einnig kom fram að hann teldi rétt að til matsstarfa yrði kvaddur matsmaður sem væri helst grafískur hönnuður maður með sambærilega kunnáttu.
Þær spurningar sem stefnandi óskar eftir að matsmaður svari eru eftirfarandi:
1. Þess er óskað að matsmaður lýsi í stuttu máli letri því sem er að finna á myndverkum Jóns Kristinssonar sem tilgreind eru á dskj. 118 í dómsmálinu og fagurfræðilegum einkennum þess, s.s. grunngerð og uppbyggingu letursins og öðrum þeim einkennum sem kunna að gefa letrinu listrænt gildi eða leiða til þess að Jón Kristinsson hafi innt af hendi sjálfstætt og persónulegt framlag í skilningi höfundarréttar til sköpunar letursins og einstakra stafa sem fyrirfinnast á myndverkunum.
2. Þess er óskað að matsmaður lýsi sérstaklega letri því sem er að finna á eftirgreindum myndverkum (en það eru þau myndverk sem stafirnir er mynda orðið RAFFSKINNA á póstkorti og límmiðum, sbr. fskj. 1-3 eru teknir úr, tilvísanir eru til dskj. 118 í dómsmálinu).
2 Kraftur í hverri sneið (notað tvisvar)
21 Klæðið af yður kuldann (notað þrisvar)
37 Loksins allar sammála um vörugæðin
47 Blindur er bóklaus maður
89 Athyglin beinist að yndisþokkanum
JK01 Bókin á hug hans allan.
Hér er átt við að matsmaður lýsi grunngerð og uppbyggingu letursins og einstakra stafa og öðrum þeim einkennum sem kunna að gefa letrinu og einstökum bókstöfum listrænt gildi eða leiða til þess að Jón Kristinsson hafi innt af hendi sjálfstætt og persónulegt framlag til sköpunar og einstakra bókstafa í skilningi höfundarréttar.
3. Þess er óskað að matsmaður leggi með rökstuddum hætti faglegt mat sitt á það hvort letur það er greinir í lið 1 og 2 að framan og einstakir bókstafir séu afrakstur sjálfstæðs og persónulegs sköpunarframlags Jóns Kristinssonar.
Af hálfu stefnda er matsbeiðninni mótmælt. Stefndi telur matsbeiðni stefnanda í fyrsta lagi of seint fram komna. Með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda hafi verið fullt tilefni til þess að leggja beiðnina fram í beinu framhaldi af þingfestingu málsins eða framlagningu greinargerðar stefnda. Í annan stað telur stefndi beiðnina lúta að lagaatriðum sem dómara beri sjálfum að leggja mat á samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
III. Niðurstaða.
IX. kafla laga nr. 91/1991 er að finna reglur um matsgerðir. Í 1. mgr. 61. gr. laganna er mælt fyrir um að í matsbeiðni skuli koma skýrlega fram hvað meta skuli og hvað aðili hyggist sanna með mati. Af 2. mgr. 60. gr. leiðir að ekki er unnt að beiðast matsgerðar ef tilgangur hennar er að sanna lögfræðileg atriði, enda er það hlutverk dómara máls að leggja mat á atriði sem krefjast lagaþekkingar. Þá er í 1. mgr. 66. gr. kveðið á um að dómari geti úrskurðað um atriði er varða framkvæmd matsgerða svo sem hvort það hafi verið metið, sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningu, eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd rísi ágreiningur um kröfu um endurskoðun hennar. Loks er mælt fyrir um í 1. mgr. 65. gr. að matsmanni beri, krefjist málsaðili þess, að koma fyrir dóm og gefa þar skýrslu til skýringar og staðfestingar um atriði sem tengjast matsgerð.
Beiðni stefnanda um mat var lögð fram í þinghaldi 24. maí sl. en lögmaður stefnanda upplýsti dóminn um að hann hygðist leggja fram slíka beiðni í þinghaldi 7. apríl 2016. Engar athugasemdir voru þá gerðar af hálfu lögmanna stefndu.
Með hliðsjón af þessu, svo og í ljósi almenns áskilnaðar stefnanda um frekari gagnaöflun í stefnu, verður ekki á það fallist að beiðni stefnanda um dómkvaðningu sé svo seint fram komin að fyrir liggi að matsgerð samkvæmt henni verði tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, eða beiðnin sé ósamrýmanleg meginreglunni um skilvirka meðferð dómsmála. Verður beiðni stefnanda því ekki hafnað af þessari ástæðu.
Matsbeiðni stefnenda er hins vegar því marki brennd að í 1. og 2. lið hennar óskað eftir því að matsmaður taki afstöðu til einkenna leturs sem kunna að „gefa letrinu listrænt gildi eða leiða til þess að Jón Kristinsson hafi innt af hendi sjálfstætt og persónulegt framlag í skilningi höfundarréttar til sköpunar letursins og einstakra stafa sem fyrirfinnast á myndverkunum.“ og leggi í kjölfarið „með rökstuddum hætti faglegt mat á“, sbr. 3. lið, hvort letrið sem greint er í 1. og 2. lið matsbeiðninnar og einstakir bókstafir séu „afrakstur sjálfstæðs og persónulegs sköpunarframlags“ Jóns Kristinssonar.
Í ljósi þess að matsbeiðandi ber kostnað og áhættu af sönnunargildi matsgerðar, verður almennt að játa matsbeiðanda ákveðið svigrúm til þess að afla matsgerðar til stuðnings málsástæðum sínum. Hins verður engu að síður að gera þá kröfu til matsbeiðni að fyrirhuguð matsgerð hafi það að markmiði að afla sérfræðilegs álits eða mats á staðreyndum svo sem gert er ráð fyrir með 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og rakið er hér að framan hafa stefnendur lýst því að umrædd matsgerð sé ætluð til sönnunar á því að teikning letursins hafi falið í sér sjálfstætt og persónulegt framlag í skilningi höfundaréttar.
Þótt stefnendur hafi í beiðni sinni vísað til þess að ætlunin með matsgerðinni sé að færa fram „staðreyndir til að staðreyna“ hvort umrætt letur teljist verk í skilningi höfundalaga, felst engu að síður í spurningum um sjálfstætt og persónulegt framlag Jóns Kristinssonar til sköpunar verksins að þar er efnislega leitað svara við því hvort þau myndverk sem ágreiningur máls þessa lýtur að teljist til listaverka í skilningi 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en það atriði hefur úrslitaþýðingu um hvort verkin njóti þeirra verndar sem málatilbúnaður stefnenda byggist á. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að í athugasemdum við ákvæði 1. gr. í frumvarpi því sem varð að höfundalögum nr. 73/1972 kemur fram að hugtakið listaverk beri að skýra svo að í verkinu „eigi að koma fram andleg sköpun, sem sé ný og sjálfstæð, a.m.k. að formi til.“
Með vísan til framangreinds verður ekki annað séð en að matsbeiðni stefnenda leiti þannig efnislega svars við spurningunni um hvort það letur, sem er meginefni myndverkanna sem mál þetta snýst um, teljist vera verndað verk í skilningi 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 72/1972.
Ljóst er að það girðir í sjálfu sér ekki fyrir dómkvaðningu matsmanns þótt í matsspurningu sé gert ráð fyrir því að matsmaður taki að einhverju marki afstöðu til lagalegra atriða þegar spurningunni er svarað. Hins vegar getur það ekki verið aðalmarkmið matsgerðar að fá skorið úr um túlkun réttarreglna, hvort heldur er almennt eða með hliðsjón af atvikum máls, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til þeirra sjónarmiða sem ganga verður út frá við túlkun 1. gr. höfundalaga, að virtum þeim sjónarmiðum sem fram koma í lögskýringargögnum og almennt eru viðurkennd í höfundarétti, verður ekki annað séð, miðað við hvernig matspurningarnar eru orðaðar, en að með matsbeiðninni sé í reynd verið að leita eftir skýringum matsmanna á lagalegum atriðum og heimfærslu atvika til lagareglna sem heyrir undir dóminn að taka afstöðu til samkvæmt ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, eftir atvikum með aðstoð sérfróðra meðdómenda, sbr. 2. mgr. 2. gr. sömu laga.
Vegna tilvísunar stefnanda í munnlegum málflutningi til dóms Hæstaréttar frá 3. október 2013 í máli nr. 178/2013 er rétt að taka fram að andlag matsgerðarinnar í því máli var að töluverðu leyti frábrugðið því sem matsbeiðni stefnenda lýtur að í þessu máli. Í fyrrnefnda málinu var aflað matsgerðar til að varpa ljósi hvaða aðstæður hefðu verið til staðar við undirbúning og töku ljósmyndar þegar hún var tekin og að hvaða leyti aðili málsins hafði haft áhrif þar á, meðal annars með vali á myndefni og samsetningu þess, sjónarhorns, skerpu og lýsingar.
Matsbeiðni stefnenda í þessu máli lýtur hins vegar eins áður segir að því að túlka ákvæði höfundalaga og taka afstöðu til þess hvort letur sem gert var fyrir meira en hálfri öld falli undir vernd þeirra laga.
Samkvæmt öllu framangreindu verður beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns hafnað í heild sinni. Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegs dóms.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Beiðni stefnenda, Guðbjargar Jónsdóttir, Þórhildar Jónsdóttur, Kristjönu Jónsdóttur, Sveinbjarnar Jónssonar, Kristins Jónssonar, Katrínar Jónsdóttur, Þorsteins Jónssonar, Sigrúnar Jónsdóttir og Gunnars Rafns Jónssonar, um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegs dóms.